Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Mánudagur 29. nóvember 2010 - Fullkominn fótbolti og vangaveltur

Í kvöld ákvað ég að gera nokkuð sem ég jafnan geri mjög lítið af ... en það er horfa á fótbolta í sjónvarpinu.

Í kvöld var nefnilega "El Clasico", þ.e. viðureign Barcelona og Real Madrid í spænsku deildarkeppninni.

Og svei mér þá ef Barcelona spilaði ekki fullkominn fótbolta á köflum í þessum leik ... þannig að hrein unun var á að horfa.

---

Annars hefur dagurinn runnið fremur ljúflega í gegn ... ég hef verið að vinna við skrif skýrslu fyrir Djúpavogshrepp, sem ég stefni að því að skila eins fljótt og nokkur kostur er.  Skemmtilegt og krefjandi verkefni sem vonandi munu koma til góða í framtíðinni. 

---

Það er hreint alveg merkilegt hvað dóttirin er áköf í því að taka alltaf af sér vettlingana þegar hún er utandyra þessa dagana.

 

Maður er varla kominn út fyrir þröskuldinn, þegar tekið er upp á því að rífa vettlingana af lúkunum.  Innan skamms er svo farið að kvarta yfir handkulda en samt má ekki svo mikið sem minnast á að fara aftur í vettlingana.

Á flugeldasýningunni í gær var -12°C frost, eins og sagt var frá í gær, og það að klæðast vettlingum ekki innan sjóndeildarhringsins.  Sá þvergirðingsháttur leiddi svo til þess að annar vettlingurinn tapaðist.

Þegar ég kom að ná í dótturina á leikskólanum í dag var hún berhent á hægri hönd.  Á vinstri hönd var vettlingur allt annarrar gerðar en þeirrar sem hún fór með í leikskólann í morgun. Þá hafði hún hent sínum eigin eitthvert út í loftið og reynt hafði verið að redda málnum með þessum árangri.  Á þeim tímapunkti var lofthiti -11°C.

Í kvöld fór ég svo og keypti lúffur á blessað barnið.  Lúffur sem eru bæði með "lás" og band.  Það er von mín að þær dugi. 

---

Svo hef ég verið svolítið hugsi yfir þessu "Gunnars-í-Krossinum"-máli í dag. Mál af þessum toga eru hreint alveg hrikaleg ... sama hvernig á þau er litið ...

Það sem ég hef helst verið að pæla í er hversu hrikalegt það hlýtur að vera, að vera sakaður/sökuð um gjörðir sem þessar sé maður blásaklaus. Þegar einhver hefur sakaður/sökuð um svona verknað og svo reynist hann/hún saklaus, er það einhvern veginn þannig að maður slær engu að síður varnagla ... hugsar oft "já en ef hann/hún gerði þetta nú samt". Það er nefnilega auðvelt að neita svona gjörðum ... vitni til staðar í fæstum tilfellum og orð á móti orði.  

Á hinn bóginn getur það líka verið auðvelt að ljúga svona hlutum upp á fólk ... aftur - orð stendur á móti orði og sjaldast vitni.

Fólk vill trúa hinu meinta fórnarlambi á sama tíma og það vill ekki trúa "þessu" upp á hinn meinta sökudólg.  Í hvorn fótinn skal þá stigið ... því það er hræðilegt að neita trúa fórnarlambi og það er líka hræðilegt að sakfella saklausan mann? 

Í vísindum eru til alveg sérstök hugtök yfir þessar þrengingar sem stundum blasa við fólki, þ.e. hættan á "Type I error" og "Type II error":
Type I error: Þegar maður segir að eitthvað sé til staðar þegar það er ekki til staðar.
Type II error: Þegar maður segir að eitthvað sé ekki til staðar þegar það er til staðar.  

Jæja ... nóg um þetta ... en allavegana er rétt að geta þess að ég er hér ekki að leggja hið minnsta mat á það hvort Gunnar í Krossinum er sekur eða saklaus.


Sunnudagur 28. nóvember 2010 - Glefsur frá helginni

Í morgun ákvað heimasætan að byrja að segja "r" ... bara algjörlega eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Við morgunverðarborðið, las hún söguna um Barbapapa þegar "örninn" tók "körfuna" með hundinum og fór með hann hátt upp í fjall.  Verður það til þess að afkomendur Barbapapa fara að "bjarga" hundinum.

Eftir lesturinn upphófst slík endursögn af þessari miklu sögu að annað eins hefur varla heyrst fyrr né síðar.  Var söguþræðinum á köflum lýst með svo miklum geðshræringum að hann var nánast kallaður yfir borðið ... og nota bene, orðin hér að ofan sem eru innan gæsalappana voru öll sögð með "r-i" ... svolítið bjöguðu sem samt ... 

Þannig að það náðist einn áfangi í dag.

---

Annar áfangi náðist þegar farið var niður í bæ til að horfa á árlega flugeldasýningu UNT (Uppsala Nya Tidning) í -12°C frosti ...
Það er nú dálítil stemming fyrir þessari sýningu enda er hún bara hin glæsilegasta.  Ólíkt íslenskum flugeldasýningum, þá er þessi afar "civiliseruð", því flugeldunum er skotið upp "í takt" við tónlist.  Það er því meira horft í gæðin en magnið.

 

Það má halda því til haga að fröken Guðrún hafði engan áhuga á flugeldasýningu UNT.

--- 

Á föstudaginn buðum við Lauga, Sverri, Dönu og Jónda í mat ... og tókst boðið ákaflega vel í alla stað verð ég að segja.

Í gær var svo bætt um betur með því að við Guddan fórum í pössun til Sverris og Jónda.  Ástæða þess var að spúsur okkar ásamt fleiri íslenskum kerlingum skruppu í árlega jólaferð Íslendingafélagsins til Stokkhólms ...

... undirskrift ferðarinnar var sú sama og áður þ.e. að börnum og karlkyns mökum er óheimilt að fara með.

---

Svo er ágætt að "slútta" þessu með þessari fínu mynd af margumræddri einkadóttur síðuhaldara ...

 


Fimmtudagur 25. nóvember 2010 - Að lesa greinar

Það er allur dagurinn í dag búinn að fara í lesa tvær vísindagreinar sem eru svona undirstöðugreinar í þeim geira umhverfissálfræði sem ég er að fást við.

Þetta eru greinar um með hvaða hætti umhverfið getur haft áhrif á streitulosunarferli hjá fólki.

Báðar greinarnar hef ég lesið gaumgæfilega áður en það var alveg kominn tími á að rifja þær aðeins upp enda ekkert sérstakt léttmeti þar á ferð.

Ég veit nú ekki hvort þetta blogg sé rétti vettvangurinn til að ræða þessa hluti eitthvað nánar.

---

Þessu tengt þó ...

Það var gleðiefni að sjá að Skipulagsstofnun telur að umtalsverð óafturkræf umhverfisáhrif verði ef ráðist verður í álbræðslubrjálæðið á Húsavík.

Einhverjir líta svo á að þar með sé búið að slá þessar framkvæmdir út af borðinu.

Mér er það hulin ráðgáta að menn skuli ekki hafa meira hugmyndaflug þegar kemur að atvinnuuppbyggingu.  Af hverju svo oft er einblínt á eitthvað eitt stórt sem á að redda öllu.

Hvað varðar Húsavík og nágrenni þess þá finnst mér alveg stórfurðulegt, já stórfurðulegt að ekki hafi verið horft meira til Tjörneslaganna þegar kemur að því að skapa verkefni.  Tjörneslögin eru jarðminjar sem eru algjörlega einstakar í heiminum og mönnum dettur ekkert annað í hug en að reisa 346.000 tonna álbræðslu úti í garði og fórna öllum háhitasvæðum á norðausturhluta landsins til að þessi bilaða hugmynd verði að veruleika.

Það er allavegana alveg ljóst að umhverfissálfræðileg áhrif þessara framkvæmda eru mjög neikvæð. 

---

Svo held ég að veturinn sé bara skollinn á hér í Uppsala ... það er búið að snjóa nánast samfleytt í viku ...


Miðvikudagur 24. nóvember 2010 - Margt í mörgu

Dagurinn 24. nóvember er á margan hátt tímamótadagur ...

Í dag fór ég í minn fyrsta söngtíma síðan í febrúar 2007.

Í dag ákvað ég að fara að æfa fótbolta í fyrsta skipti síðan í janúar 1997.

Þessi dagur árið 2008 var sá síðasti í Sydney-dvöl okkar skötuhjúanna, enda útrásarvíkingar og visvitrir stjórnmálamenn búnir að binda þannig um hnútana að ómögulegt var fyrir okkur að dvelja lengur í Ástralíu vegna kostnaðar.

--- 

Á tragískari nótum ...

Tveir frábærir tónlistarmenn létust þennan dag árið 1991.

Annar þeirra var Freddie Mercury söngvari Queen.  Einn sá allra besti í sínu fagi.

Hinn var Eric Carr trommuleikari KISS á árunum 1980 - 1991.  Einn sá allra besti í sínu fagi. 

  

---

Guddan var heima í dag svona rétt til að jafna sig eftir kommurnar sem hún fékk í gær og var í þessu líka feiknastuði.

Annan daginn í röð gerði hún alls ekkert upp á milli foreldra sinna, var eitt sólskinsbros og gaf "fæf" í allar áttir.

Svo er afskaplega gaman að sjá hversu miklar framfarirnar eru nánast á hverjum degi.  Sífellt bætast við ný orð, nýjar grettur, ný trix og ný lög.

Hér fyrir neðan er video frá því hún söng svo undurfallega "gulur, rauður, grænn og blár".  Þetta átt sér stað þann 18. nóvember sl. og var í fyrsta skiptið sem þetta skemmtilega lag var sungið fyrir okkur foreldrana.

 


Þriðjudagur 23. nóvember 2010 - Á að fara að æfa?

Ég er að alvarlega farinn að íhuga að fara að æfa fótbolta aftur.

Það væri nú ekki seinna vænna að fara að rífa fram skóna enda er ég orðinn löggilt gamalmenni þegar kemur að fótbolta.

Ég stefni nú svo sem ekki á neitt stórlið, er meira að spá í liðum í 7. deildinni hér í Uppsala-landi.  Það er lið í nágrenninu sem heitir Vaksala FF.  Ég ætla allavegana að kontakta þá og sjá hvað þeir segja.

---

Annars hefur lítið orðið úr verki í dag því Guddan var heima með nokkrar kommur.

Þegar ég tók á enninum á henni í morgun hugsaði ég að nú væri heimasætan komin með 38,5 en létti mikið þegar ég sá að mér hafði skjátlast um tæpa heila gráðu.  Hitinn reyndist 37,6°C.

Gudda var ákaflega skemmtileg í dag og þá sérstaklega seinnipartinn eftir að hún hafði sofið í næstu þrjá klukkutíma ... sú var hress!!

Hressleikinn var svo mikill að hún gerði bara alls ekkert upp á milli okkar Laugu ... í fyrsta skiptið í svona 40 vikur eða svo ... t.d. ég mátti halda á henni þó svo móðir hennar væri nærri en að auki svaraði hún mér þegar ég talaði við hana og gaf "fæf" þegar ég bað hana um ...

... og það gerist nú ekki á hverjum degi!!!

---

Annars er með hreinum ólíkindum hvað blessað barnið hefur sofið frá því hún lagðist á koddann á föstudagskvöldið.

Mér telst til að það séu um 60 klst sem er meira en 60% þess tíma sem liðinn er uns þetta er skrifað.  Í tilveru Guðrúnar Helgu er þetta svefnhlutfall gígantískt!

---

Á morgun fer ég svo í söngtíma.  Er farinn að hlakka til.  Ætla að fá smá leiðsögn í því að syngja í míkrófón.

 

Hér er svo mynd sem tekin var fyrir nokkrum vikum af gleðigjafa dagsins að spá í tilveruna ...

 

 


Mánudagur 22. nóvember 2010 - Að vera á Akranesi

Uppáhaldsfréttin mín í dag er sú Akraneskaupstaður hafi borgað 96 milljónir fyrir tvö bindi af sögu bæjarins.  "Aðeins" hefur tekið um 23 ár að hrista ritverkið fram úr erminni ... kostnaður á mánuði er því rétt um 350.000 kr.

Það albesta er samt það að enn vantar að skrifa tvö bindi til viðbótar til að sögu staðarins verði gerð sómasamleg skil í rituðu máli. 

Það er nokkuð ljóst að saga Akraneskaupstaðar hlýtur að vera afar mögnuð og flókin ... 

---

Grein nr. 2 fór í yfirlestur í kvöld ... þannig að það mál er þá farið að rúlla fallega.

... og brátt fer langþráður árangur erfiðisins að koma í ljós ...

---

Við Lauga höfum mikið verið að ræða mikilvægi þess að hafa skýra stefnu í lífinu og að leyfa sér að dreyma.

Þessa dagana látum við okkur því dreyma og ræðum saman um drauma okkar í fullri alvöru ...

Og það er merkilegt hvað maður verður einhvern veginn spenntur og stressaður við að ræða draumana.
Þó svo ég hafi sett mér 100 markmið fyrir meira en einu ári og lesi þau yfir og hugsi um þau á hverjum degi, þá er einhvern veginn svo skrýtið að tala um þau.

Draumarnir (markmiðin) verða einhvern veginn svo ljóslifandi og miklu skýrari.  Það hefur verið losað um eitthvað haft ... þeir eru hættir að vera bara hugarfóstur ... þeir eru orðnir hluti að hinu ytra umhverfi, farnir að hreyfa við mólikúlum og hafa áhrif á heiminn.

Þetta eru skáldlegar pælingar :) .


Sunnudagur 21. nóvember 2010 - Að ganga úr rúmi

Í morgun reisti dóttirin sig upp nývöknuð og sagði: "Þarna er mamma, kúturinn í stofunni og pabbi á Íslandi" ... svo mörg voru þau orð ...


Sydney og umræddur kútur sem átti að vera í stofunni að sögn eiganda hans.

---

Ég heyrði af manni í gær ... jafnaldra mínum meira að segja ... sem reiddist svo hroðalega við konuna sína þegar hún ákvað að þau skyldu fá sér konu til að gera hreint heima fyrir.

Hann varð svo æfur af reiði að sama kvöld og hann heyrði þessa tillögu, hann gekk úr rúmi og svaf frammi í stofu.

Mér fannst þetta óneitanlega ansi harðneskjulegar undirtektir, en sjálfur hef ég tvisvar gengið úr rúmi.
Í fyrra skiptið var það vegna þess að Lauga hóstaði og hóstaði alla nóttina.  En síðla nætur missti ég gjörsamlega þolinmæðina og hreytti í hana "að það væri andskotans ekkert hægt að sofa fyrir þessum helvítis hósta".  Þetta voru nú svolítið kröftug viðbrögð enda getur verið mjög erfitt að hemja hóstaköst.  Um morguninn baðst ég afsökunar en atvikið lifir ennþá góðu lífi ...

Seinna skiptið var í Sydney, nánar tiltekið nóttina eftir að við Lauga fórum að hlusta á Dalai Lama (http://murenan.blog.is/blog/murenan/entry/239352/).  
Lauga varð sum sé veik eftir fyrirlestur Lama en tók það ekki í mál að ég færi út í apótek að kaupa hita- og verkjastillandi, sagði alltaf að þetta væri að "batna".

Því miður tók ég mark á henni því þetta versnaði bara ... og alla nóttina var hún á stanslausu iði, friðlaus af beinverkjum.  Enginn svefnfriður.
Síðla nætur stóð ég upp: "Þú hefðir betur slakað á attitjúdinu í gærkvöldi þegar ég vildi kaupa lyf".  Ég svaf frammi í stofu það sem eftir lifði nætur. 


Lauga komin undir sæng eftir að hafa hlustað á His Holiness The 14th Dalai Lama of Tibet

En aftur að hinum manninum sem gekk úr rúmi vegna hugmyndar um þvottakonu ...

Ég er nefnilega ennþá að reyna að skilja af hverju hann varð svona reiður.  Það var nefnilega ekki eins og hann bæri hitann og þungann af gólfþvotti og tiltekt ... 

Ónei ... 

Hann snertir nefnilega aldrei á slíku, heldur sér konan hans, já sú sem svaf ein í hjónarúminu þá nóttina, alfarið um þrif á heimilinu?!?

Í mótmælaskyni við þetta ótrúlega sjónarmið, tók ég mig taki í gær ... setti vatn í fötu og tusku í hönd og skúraði og skrúppaði gólfin í íbúðinni hjá okkur ... á fjórum fótum til að það yrði örugglega nægjanlega vel gert ... og það var ekki vanþörf á ...


Og þarna er síðuhaldari á fjórum að þrífa ...


Fimmtudagur 18. nóvember 2010 - Sögur af Dóru-"faninum"

Guddan gjörsamlega sturlaðist í kvöld.

Tilefnið var nú ekki annað en það að hún þurfti að fara í útifötin svo við gætum komist út í búð.

Fyrirlitningin var slík að um leið og ég lauk við að klæða hana, þá sló hún mig í öxlina, gekk nokkur skref, sneri við til þess eins að bæta um betur, áður en hún hljóp svo til móður sinnar.

"Hvaðan fær barnið þetta skap?" spurði móðirin í forundran ... 

Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör.

---

En svo komum við aftur heim og þá hefur heimasætan verið gjörsamlega eins og ljós.

Söng t.d. hástöfum "gulur, rauður, grænn og blár

 

(Hér átti að koma myndband af dótturinni að "performera" en því miður var YouTube.com með eitthvert vesen þannig að videoið verður að bíða ...

 

Ekki þótti henni nú verra þegar hún fékk að horfa á Dóru í kvöld ... slíkt vekur ávallt mikla lukku, enda er Guddan gríðarlegur harður aðdáandi Dóru.

 


Miðvikudagur 17. nóvember 2010 - Svik, dæs og egó

Fyrir utan að fá slæman höfuðverk finnst mér ekkert verra en brostnar vonir um að komast í fótbolta.  Að vera búinn að hlakka allan daginn til að komast í heilsubætandi sprikl og verða svo vitni að því að þrír, að mér meðtöldum, láta sjá sig er ömurlegt.

Það gerðist í kvöld ...

---

Annars hefur dagurinn liðið ljúflega.  Eftir að hafa sent eina vísindagrein í yfirlestur og "kommenteringu" í gærkvöldi, þá var fókusinn settur á þá næstu sem stefnt er á að ljúka í janúar á næsta ári.

Samhliða þessu er svo undirbúningur að þriðju rannsókninni að rúlla af stað.

Svo kallar rannsóknin á Landspítalanum líka á að láta sinna sér.

Auk þessa þarf að verja einhverjum tíma í að ganga frá könnuninni sem gerð var á Djúpavogi í sumar, þegar sálfræðileg áhrif umhverfisins þar á ferðamenn voru könnuð.  

Af þessu má sjá að það er eitt og annað sem liggur fyrir ...

... og þegar ég dæsti yfir þessu í kaffitímanum, spurði Lauga hvort "þetta væri ekki nákvæmlega eins og ég vildi hafa þetta?"  
Svarið við því er auðvitað "" ... annars væri þetta ekki svona.

Yfir hverju er maður þá eiginlega að dæsa?! 
Þetta rennur jú allt saman mjög ljúflega eins og áður hefur verið imprað á.

---

Já ... svo er það Landeyjahöfn ...

... Herjólfur fór nánast á hliðina í innsiglingunni í morgun?!  Búið er að eyrnamerkja tugi eða hundruði milljóna króna til að hægt verði að halda áfram stappi við þessa höfn.  Það verður athyglisvert að sjá hvað þarf til að menn sjái að þetta er bara ekki að ganga.

Fróðlegast af öllu við þetta ferli allt saman er hvað egóið er mikið að flækjast fyrir mönnum ... þessi "rödd" sem glymur inni í höfðinu á fólki dagana langa og segir helst ekkert af viti.

En samt tekur fólk alveg svakalega mikið mark á henni og reynir með öllum leiðum að verða að óskum hennar og samþykkja helst allt sem hún segir, oftast sjálfu sér og öðrum til ama. 


Þriðjudagur 16. nóvember 2010 - Ferðin til Lundar og Kaupmannahafnar

Í gær í flugvélinni frá Kaupmannahöfn var fröken Guðrún ekkert nema kjafturinn og dólgslætin.  

Það var sama hvað ég reyndi að ná til hennar ... ef hún var ekki að kútveltast um í sætinu, þá setti bara í brýrnar og hellti sér yfir mig.

Það var nú eiginlega ekkert annað hægt en að brosa út í annað þegar hún sá ekki til ...

... en svo fór þó að stubburinn sofnaði ...

Ég er búinn að segja henni það nokkrum sinnum að ferð hennar í draumaheiminn hafi verið versta "tæming" sögunnar ... því hún ákvað að sofna um það leyti sem glitti í flugbrautina í gegnum þokuna.  Hún svaf sum sé í svona 2 mínútur í vélinni ...

Eftir lendinguna svaf hún svo meðan henni var troðið í öll fötin ... ullarpeysu, samfesting, kuldaskó og lambhúshettu ... og um leið og því var lokið vaknaði hún. 

---

Annars var ferðin góð í alla staði ...

Fyrirlesturinn í Lundi gekk vel og hlaut verðskuldaða athygli og eins og ég hef áður sagt var ferðin í Landbúnaðarháskólann í Alnarp mjög áhugaverð.

Það sem vakti sérstaklega áhuga minn var heilsugarðurinn, þar sem fólk sem hefur brunnið yfir af streitu getur komið og fengið meðferð við hæfi.

 
Ein mynd úr heilsugarðinum í Alnarp

Svo fór ég til Kaupmannahafnar og hitti þar mæðgurnar ... sem og Maju, Flemming og Helenu.

Við Lauga og Gudda skruppum í bæjarferð á föstudeginum, borðuðum á Slotskælderen, skruppum á Thorvaldsen-safnið, í Illums Bolighus og reyndum að sjá hafmeyjuna frægu.


Á Strikinu

 
Í Illums Bolighus ... þar var mikið fjör, hoppað í sófum og hlaupið ...

 
Á Thorvaldsen-safninu ... fyrir framan Józef Poniatowski ... ferðin á Thorvaldsen-safnið endaði á því að stubbur lagðist í gólfið og var ófáanlegur til að standa upp fyrr en búið var að lofa því að safnið skyldi yfirgefið umsvifalaust.

Á laugardeginum skruppum við í skógarferð í Store Hareskoven með Maju og Helenu.


Þarna vildi Guddan alveg endilega stinga sér til sunds ... og mikill tími fór í að telja hana ofan af þeirri hugmynd ... 

Og á sunnudeginum var farin ferð í dýragarðinn.


Bavíanarnir voru langskemmtilegastir ... Guddan veltist um af hlátri þegar hún fylgdist með þeim ...

Við skruppum svo aftur í bæinn á mánudagsmorguninn áður en við flugum aftur til Stokkhólms.

 

 
Guddan á Norden Café ... þar sem hún hagaði sér alveg eins og heimsborgari ... sá heimsborgarabragur átti nú eftir að hverfa í flugvélinni á leiðinni heim, eins og getið er um hér að ofan ...

Ekki er hægt að hætta að skrifa fyrr en þess hefur verið getið að GHPL varð í ferðinni afar heilluð af kettinum hennar Maju ... henni Kötsju.

Fyrsta daginn lá bara við að Guddan fengi hjartaáfall af spenningi yfir kettinum.  Hélst vinskapur þeirra algjörlega skammlaust ef undan er skilið ofurlítið klór þegar kettinum fannst búið að kássast einum of mikið í sér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband