Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

31. júlí

Þessi dagur hefur verið heldur tíðindalítilll, en ákaflega nytsamur þó ...

Eftir fremur rólegan morgun með dótturina í fanginu, stökk ég til og ákvað, þó með semingi þó, að greiða skólagjöldin fyrir þessa önn ... samtals $11.040, sem jafngilda meira en 800.000 ÍSK.  Þess má geta að þessi sömu gjöld voru um 550.000 í mars síðastliðnum ... þannig að maður fer nú ekki varhluta af efnahagsástandinu á Íslandi, þrátt fyrir að vera óralangt í burtu. 

Svo er endanlega búið að skera úr um það að ég má ekki sækja um svokallaðan EIPRS skólastyrk, sem er stærsti skólastyrkur sem háskólinn veitir.  Ástæða þessa er að ég sótti um í fyrra og fékk ekki.  Þess má líka að geta að umsóknarfresturinn rann út í dag.

Það sem er athyglisvert í því sambandi var að stuttu eftir að ég lagði inn umsókn mína með skólastyrkinn fyrir um ári, þá fékk ég að vita það að ég ætti engan möguleika á að hljóta þennan styrk.  Tvær bachelor-gráður, umtalsverð rannsóknarreynsla, ritstýring bókar í sálfræði, birting rannsóknarniðurstaðna á ráðstefnum bæði á Íslandi og erlendis, og gerð rannsóknarskýrslna, virtist eiga litla möguleika gegn gráðu sem flestir framhaldsnemar hafa hér í Ástralíu, en það er svokölluð Honours-gráða.  Honours-gráða er sjálfstætt rannsóknarverkefni sem tekur 2 annir.

Fyrir að hafa slíka gráðu fá nemendur allt að 60 stig, en þess má geta að til að hljóta EIPRS skólastyrkinn er gott að fá svona um 90 stig.  Aftur á móti fást 0 stig fyrir tvær bachelor-gráður.  Fyrir einnar annar BA-verkefni fást 0 stig.  Fyrir einnar annar BS-verkefni fást 0 stig, þrátt fyrir að saman séu þessi verkefni ígildi Honours-gráðu.

7 stig fást fyrir að hafa birt einn abstrakt í ráðstefnuriti, og 10 stig fyrir grein í ráðstefnuriti en þó aðeins ef abstraktinn eða greinin er yngri en 5 ára.  Rannsóknarniðurstöður eldri en 5 ára skipta sumsé engu máli.
10 stig fást fyrir að skrifa kafla í ritstýrðri bók.  0 stig fást fyrir að ritstýra bók.  Fyrir 3-5 ára rannsóknarreynslu fást 5 stig.  Meðmæli leiðbeinanda 0 stig, en þrátt fyrir það eru þau algjört skilyrði fyrir að umsóknin sé tekin til meðferðar og leiðbeinendur er beðnir um að meta umsækjanda í bak og fyrir.

Þessar viðmiðunartölur fékk ég að sjá síðasta haust þegar niðurstöður úthlutunarnefndar fyrir skólaárið 2008 voru tilkynntar.  Mér var tjáð þá að minn möguleiki til að hljóta styrkinn á næsta ári, væri að vinna vel, reyna að birta efni á ráðstefnum og sækja svo aftur um.

Þetta gerði ég.  Á síðastliðnu ári hafa þrír abstraktar verið samþykktir á þremur ráðstefnum og mér hefur verið boðið að vera með fyrirlestur á þeim öllum og þar að auki hef ég skrifað, ásamt Sigrúnu Helgadóttur kafla í ritstýrðri bók, sem verður gefin út í haustmánuðum.

Ég talaði fyrir um viku við yfirmann rannsókna í deildinni minni og hann tjáði mér að hann ætlaði að legga til að ég yrði settur í flokk yfir nemendur sem hefðu sýnt afurðaárangur á síðastliðnu ári, en slíkir nemendur fá yfir 60 stig hvort sem þeir eru með Honours-gráðu eða ekki.  Ég tel því að ég hefði átt nokkuð góða möguleika á að ná 90 stigum og tryggja mér vænan skólastyrk ... en ...

... þá var mér tjáð að ég mætti ekki sækja um styrkinn aftur ... af því að ég sótti um hann í fyrra.

Ég er enn að skilja hvernig maður kemst í flokkinn sem yfirmaður rannsókna nefndi, því:
Hvernig á maður að komast í flokk yfir þá sem hafa sýnt afburðaárangur í eitt ár, þegar maður er búinn að nota eina tækifæri sem maður fær til að sækja um styrkinn.  Ég hefði væntanlega verið betur settur ef ég hefði misst af tækifærinu í fyrra fyrir klaufaskap, unnið vinnuna mína vel og sótt um núna.

... þannig hefur vinna mín við að koma efni á ráðstefnurnar verið dulítið út í bláinn, þrátt fyrir að auðvitað sé alltaf gott að birta efni.  Hinsvegar hefur sú vinna tafið virkilega fyrir þeirri vinnu sem ég ætti að vera að vinna, sem er að doktorsverkefnið mitt ... 

Já, svona virkar nú regluverkið hér í Háskólanum í Sydney ... og ég þarf kannski ekki að nefna það að ég er búinn að koma á framfæri kvörtun yfir þessu, því mér finnst nauðsynlegt að undantekningartilfelli séu tekin til sérstakrar skoðunar eða settar séu skýrari reglur varðandi hver má sækja um, því til hvers að vera að sækja um ef möguleikarnir eru fyrirfram engir en gætu legið í því að doka við, vinna ákveðna vinnu og sækja svo um?

Af öðrum fréttum dagsins ... æi, þetta er orðið svo langt og þvælt blogg að það nennir örugglega enginn að lesa meira, ef fólk yfirleitt les þessa setningu ... ;)


30. júlí 2008

Þegar ég kom heim eftir langan og strangan dag við að reyna að leysa vandamál heimsins, þá bráðnaði hjartað, meira en venjulega, þegar ég hitti dóttur mína og móður hennar ... þær mæðgur höfðu skroppið í skemmtiferð í dag ... fóru að hitta vinkonur, sem höfðu verið með okkur á foreldranámskeiðinu og tiltölulega nýborin börn þeirra ... og komu við í einni verslun og versluðu bol nokkurn (sjá mynd til frekari skýringar)

IMG_7505 by you.
Mér skyldist á Laugu að Guðrún hefði valið þennan bol sjálf ... !!!

Það er nú ekkert hægt að standast þetta ... jæja, að minnsta kosti get ég það ekki!!!

Annars er það helst í fréttum að nú er heljarmikið æfingaprógramm í gangi yfir litlu dömuna, og snýst allt um það að styrkja bak hennar.  Ástæða þessa er að í síðustu viku var farið í eftirlit og móðurinni tjáð að styrk í baki væri ábótavant.  Snúa þyrfti barninu á magann að minnsta kosti 3 - 4 sinnum dag hvern.  Eitt skipti, eins og þáverandi æfingaprógramm hljóðaði upp á, væri alltof lítið!!

Síðan þá hefur barninu verið snúið 3 - 5 sinnum á hverjum degi, við sérlega dræmar undirtektir þolanda, sem oftast og iðulega virðist verða sármóðgaður og gólar eins og stunginn grís.

IMG_7502 by you.
Jafnvel sjálfur Tígri nær ekki að hafa nein teljandi áhrif ...

Nema hvað, í kvöld var allt annað upp á teningnum ... því þegar Sydney var sett á magann var eins og hún hefði ekki gert annað allt sitt líf og reis tignarlega upp, eins og ljónynja í veiðihug ...

IMG_7509 by you.

Að öðrum fréttum er það helst að ég held áfram sem óður með verkefnið mitt.  Reyndar eru hlutirnir að taka breytingum þessa dagana.
Það sem ber kannski hæst í þeim efnum, er að nú stendur yfir leit að nýjum leiðbeinanda.  Ástæða þess er að núverandi leiðbeinandi er ekki nægjanlega snjall að mati þess sem þetta ritar og er hann því nauðbeygður að leita á önnur mið.

Eftir gott samtal við deildarforseta, framkvæmdastjóra deildarinnar og yfirmann rannsókna er málið komið á skrið.  Verið er að leita logandi ljósi að nýjum leiðbeinanda.

Þá var mér einnig boðið að taka þátt í rannsóknarhóp, sem hefur það í hyggju að kanna hvað er hægt að gera til að skapa aðstæður sem ýta undir samskipti fólks.  Áhugi og áhyggjur rannsakenda beinast að því að í auknum mæli er fólk að loka sig af heima fyrir, inni í íbúðum sínum og margir geta komist í gegnum daginn án þess að hitta nokkurn einasta mann.
Hér er ég að sjálfsögðu að tala um fólk sem hefði áhuga á að hitta einhvern en af einhverjum ástæðum hefur sig ekki í það og fyrir vikið getur þurft að við ýmiskonar andleg vandamál, svo sem einmanakennd, kvíða, depurð og jafnvel þunglyndi.

Sannarlega áhugavert verkefni, sem ég ætla aðeins að hugsa um hvort ég tek þátt í.

Lauga er í stuði þessa dagana, og með allar hendur fullar eins og vant er, því ef hún er ekki að hugsa um barnið og mig, þá er hún á kafi í nuddnáminu eða að vinna að því að veita hönnunarhugmyndum sínum brautargengi.

Á þessum bænum eru því dagarnir allt, alltof stuttir!!


Videoafmælisrólegheit

Jæja, þá er helgin liðin og mánudagur tekinn við, bjartur og fagur ... eða að minnsta kosti var hann það í morgun.  Núna er reyndar brostið á með ausandi rigningu og gulu gardínurnar sem blessaður nágranni okkar hefur verið að bisa við að þurrka síðustu daga, eru enn einu sinni orðnar haugrennandi blautar ...

En helgin byrjaði á videoi, pizzu og kók á föstudagskvöldið.  Klárlega fyrsta videokvöld dótturinnar, sem skeytti lítið um allar tilfæringarnar og meira og minna steinsvaf meðan leikar stóðu sem hæst.  Svona til þess að það komi fram var fyrsta mynd stúlkunnar, stórmyndin "Happy Gilmore" með Adam Sandler í aðalhlutverki.  Klárlega besta mynd Sandlers, að mínu mati ... oft á tíðum bara nokkuð fyndin.

IMG_7373 by you.
Frá videokvöldinu ...

Laugardagurinn var tekinn með trompi þegar farið var í 30 ára afmæli Dave, vinar okkar.  Hann hafði þann háttinn á að leigja bát, sem sigldi með teitið fram og aftur um Sydney-höfnina.
Laugardagurinn var því dagur bátsins, því við landkrabbinn PJL, Lauga og hin 7 vikna Sydney, voru 5 til 6 klukkustundir að veltast um í þremur ólíkum bátum.  Tveimur ferjum sem báru okkur frá Circular Quay til Manly, og til baka að ógleymdum skemmtibátnum, sem við dvöldumst í rúma 4 klukkutíma.

 IMG_7379 by you.
Mæðgurnar á ferjunni til Manly ásamt Fjólu og Söru

IMG_7384 by you.
Kóngur dagsins, Dave Ellis þrítugur, skýtur tappa úr flösku!!

IMG_7386 by you.
Á Sydney-höfninni, þar sem alltaf er mikið um að vera ...

IMG_7390 by you.
Og önnur af höfninni ...

Afmælið tókst með miklum ágætum, og vakti yngsti boðsgesturinn lukku meðal annarra boðsgesta, enda með eindæmum prúður ... alveg ótrúlega prúður!!

IMG_7399 by you.
Rich og Sydney náðu vel saman ...

IMG_7402 by you.
James og Sydney náðu líka afskaplega vel saman ...

IMG_7408 by you.
Afmælisbarninu var svo fleygt útbyrðis, meðan báturinn sigldi á fullu stími til hafnar ... sumir bátsmenn töldu guðs mildi að afmælisbarnið skyldi ekki lenda í skrúfunni ...

Þegar komið var í land, var svo skroppið á Manly 16ft Skiff Sailing Club, þar sem flestir boðsgestir héldu áfram að væta kverkarnar.

Þegar hér var komið sögu töldum við að Sydney væri búin að upplifa allt það helsta sem prýða má gott afmæli og héldu fljótlega heim á leið.

IMG_7433 by you.

 IMG_7461 by you.

Þegar heim var komið, þótti gráupplagt að taka mynd af dótturinni í glæsilegum kjól sem Helga, mamma Bjarna Jóhanns (sem einu sinni var kallaður Dóribjarni og er reyndar kallaður stundum ennþá af gömlum vana) og væntanleg tengdamóðir hennar prjónaði og sendi til Ástralíu.  Sannarlega glæsilegt handverk þar á ferðinni!!

IMG_7483 by you.

Eftir nokkrar myndir, var ljósmyndaranum sparkað út í orðsins fyllstu merkingu ... ekki fleiri myndir takk fyrir!!!!

IMG_7486 by you.

Sunnudagurinn var svo allur í rólegheitum ... of rólegur fyrir mína parta þannig að til að bjarga honum hljóp ég 12 km, enda er ég að undirbúa mig fyrir nokkur skemmtileg hlaup sem fara fram á næstu vikum!


Er varaforsetastóllinn innan seilingar??

Ég komst að því við lestur Morgunblaðsins í dag að ríkisstjórinn í Louisana í Bandaríkjunum, 37 ára gamall sonur innflytjenda frá Indlandi og hugsanlegt varaforsetaefni Repúblikana fyrir næstu forsetakosningar, er hér um bil nafni minn ...

Bobby Jindal er ekki víðsfjarri frá Bobbi Líndal ... eða hvað ...??

Ef það er einhver glóra í Barack Obama, þá hringir hann í mig og býður mér að taka slaginn með sér ... !!


Sitt lítið af hverju

Nú er allt fallið í ljúfa löð á nýjan leik ... dóttirin er algjörlega eins og ljós, bæði í gær og í dag ... allir þeir sem höfðu og hafa óþarfa áhyggjur af ástandinu, geta dregið andann léttar.

Vildi bara koma því að strax í upphafi ...


Mæðgurnar liggja fyrir ... þvílík kyrrð!!


Svo var bara slegið upp partýí í dag ... og mættu flestir félagarnir ...


Og ekki má gleyma þessari mynd af Fjólu og Neil ... en þau kíktu til okkar um daginn ...

Annars er allt gott að frétta.  Sjálfur var ég í skólanum í allan dag og langt fram á kvöld.  Nú er unnið hörðum höndum að gerð sýndarveruleikans, sem ég hef áður minnst á á þessari síðu.  Þekking mín og snilld á viðfangsefninu er sífellt að aukast, þannig að þetta lítur bara nokkuð vel út.

Svo er náttúrulega gott að hafa svolítið meiri tíma aflögu, en það fer ekki á milli mála að þetta fótboltastand var að taka alltof mikinn tíma.  Ekki nóg með það að maður verði um 12 klukkustundum í æfingar, leiki og í það að koma sér á staðinn og heim aftur, heldur fór mjög drjúgur tími í að röfla um þjálfarann og reyna að skilja hann.

Eftir að þjálfaraferlinum lauk, má eiginlega segja að lífsgæði mín hafi stórbatnað ... og ég er hættur að lesa bókina sem ég var á bólakafi í ... sú bók heitir "Working with Monsters"!!

Já, ég er sum sé að búa til þennan sýndarveruleika, og er einhvers staðar staddur mitt úti í mýrinni með hann ... set hér inn eina mynd af því sem ég er að gera ... bara svona sem sýnishorn ... allt er á vinnslustigi!

Lauga hefur verið alveg á fullu að útbúa eyrnalokka til að senda á sölusýningu sem verður á Hrafnagili við Eyjafjörð í byrjun ágúst.  Lokkarnir eru bara að verða déskoti flottir hjá henni ... og ef þú hefur áhuga að sjá betur um hvað ég er að tala, kíktu þá á www.123.is/lauga ...

Læt þetta duga í bili ...


Dagurinn í dag

Barnunginn er þessa dagana að ganga í gegnum svokallaðan vaxtarkipp ... sem gjarnan á sér stað í kringum 6. vikna aldur.
Afleiðingin þessa er mikill grátur, óværð og endalaust hungur ...

Móðir hnátunnar svaf í 3 klukkutíma síðustu nótt, slík var svengdin.

Frá því klukkan 6 í morgun og allt þar til klukkan sló 21.30 í kvöld, var engu líkara en 18 barna faðir í álfheimum hefði verið í heimsókn hér í Bourke Street.  Telpan krafðist áfyllingar á um 20 mínútna fresti, og í kjölfarið ýmist dottaði hún lítillega eða grét vegna ólgu í meltingarfærunum.

Lauga tók þessu ástandi af stóískri ró, þrátt fyrir að vera dauðþreytt og undir töluverðri pressu að ljúka gerð nokkurra tuga para af eyrnalokkum, sem hún ætlar að senda á sölusýningu til Íslands í vikunni. 
Og ég reyndi að halda mér á mottunni ... staðráðinn í að opinbera ekki þá óþolinmæði og pirring sem var innra með mér.  Reyna að bæta frammistöðu mína frá því í gær!! 

Ég fúslega viðurkenni það að þegar hún bað mig um að skreppa niður í bæ, í þeim erindagjörðum að kaupa hráefni í lokkana, varð ég feginn.  Alveg drullufeginn ... og í bænum fékk ég útrás fyrir pirringinn og óþolinmæðina, sem hafði safnast fyrir um daginn.  Ég skammaði strætóbílstjóra, flautaði á mig, ég amaðist við lítilli stelpu sem gerði ekki alveg eins og ég ætlaðist til að hún gerði, sem var að vera ekki fyrir mér og hjólinu mínu og ég fuðraði næstum því upp við bókasafnsvörð á Fisher-bókasafninu, vegna þess að hann skildi ekki upp né niður í því sem ég var að reyna að segja honum.

Um það leyti sem við Lauga átum kvöldmatinn, það er um kl. 21 í kvöld, lét dóttirin öllum illum látum.  En það var sameiginleg ákvörðun okkar að láta hana aðeins í friði, svona rétt að sjá hvort hún myndi ekki bara róast og sofna.  Það gerðist ekki ...

Líkt og áður, tók gólið allverulega á taugarnar og ég spurði Laugu: "Hvað langar þig mest til að gera við dótturina núna?"
Og hún svaraði einfaldlega: "Mig langar til að taka hana í fangið og svæfa hana."
Svo fór hún inn í herbergi og settist hjá vöggu þeirrar litlu, strauk henni um vangann og raulaði lítið lag fyrir hana.  Sjálfur sat ég frammi í eldhúsi og kláraði matinn minn, pirraður!!
Sú stutta sefaðist og brátt féll allt í dúnalogn ...

Síðan þetta gerðist fyrir um þremur klukkutímum hef ég verið hugsi yfir þessu svari móðurinnar.  Í raun var svar hennar gulls ígildi ... það var svo ótrúlega rétt og satt ... það endurspeglaði svo mikinn kærleika. 
"Mig langar til að taka hana í fangið og svæfa hana."

Sjálfur var ég meira að hugsa um að loka hurðinni inn í svefnherbergið eða setja vögguna inn í skáp!!!  Úfff ...

Ég get ekki annað sagt en mikið lifandis skelfing ósköp er barnið heppið að eiga svona móður ...

... ég sjálfur má hinsvegar halda áfram að taka til í mínum ranni, svo mikið er víst!!!


Gert í brækurnar enn á ný

Eftir rúmlega 6 vikur af þolinmæði ... brást mér bogalistin í dag! 

Eða kannski má orða það öðruvísi ... í dag reyndi í fyrsta skipti alvarlega þolinmæðina hjá mér og brást hún, því í dag skammaði ég dótturina í fyrsta skipti.  Tilefnið var stanslaust org í marga klukkutíma, þar sem engu tauti var við komið ...

Það breytir því samt ekki að maður á ekki að missa þolinmæðina ... rúmlega 1800 vikna gamall maður að rökræða við 6 vikna gamalt barn.  Hvaða vit er eiginlega í því??!?  Klárlega ekkert!! Og einhvers staðar, á þeim rúmlega 1790 vikum sem skilur okkur feðgin að í aldri, hefði ég átt að læra það.  

Greinilegt er að enn eimir af skapofsanum, sem hefur einkennt lundarfar mitt miklu lengur en góðu hófi gegnir ... ég sem var að vonast eftir að ég væri búinn að ná tökum á honum ... en nei, greinilega þarf að taka hann fastari tökum.

Maður verður að hafa það í huga að það eru allir að reyna að gera sitt besta ... líka 6 vikna gamalt kríli sem veit ekki hvað það heitir og orgar úr sér lungun af einhverri ástæðu sem það getur ekki gert grein fyrir með öðrum hætti ...

Ég gerði sum sé í brækurnar í dag ... en mun reyna af alefli að láta slíkan gjörning ekki endurtaka sig ... að minnsta kosti ekki í þessu samhengi!!


Gæðastundir

Gæðastundir skipta máli ... þær hafa verið nokkrar í vikunni, og verða í þessari færslu sýndar myndir af tveimur slíkum.

Sú fyrri er heimsókn Uncle Azman og Aunt Ayu til okkar á miðvikudaginn.  Þess má geta að Azman er doktornemi í University of Sydney og einn af þeim sem ég hitti á daglegum "basis".  Raunar hitti ég Ayu, nánast daglega líka, því hún dvelur löngum stundum á skrifstofu eiginmannsins.

En allavegana mættu þau og tókst með þeim og Sydney mikill vinskapur.  Maddaman var í kjöltu Aunt Ayu langtímum saman og kunni vel við sig, enda ekki á hverjum degi sem hún hittir malasíska kynsystur sína.

Uncle Azman dró svo upp eigin myndavél og náði þessari líka góðu mynd af fröken Guðrúnu ...

Seinni gæðastundin var ögn annars eðlis.  Aðdragandi hennar var sá að ég kom heim úr skólanum og heimtaði að fá barnið í mína umsjón.  Lauga hlýddi þeirri skipun ...

Saman sátum við feðginin svo í sófanum, eins og fínt fólk ... samanber meðfylgjandi mynd ...

Síðar tók okkur nokkuð að syfja ... dóttirin var vafinn eins og rúllupylsa inn í bleika teppið en sjálfur setti ég Brian Tracy í "headfóninn".
Svo sofnuðum við bara eins og herforingjar bæði tvö ... þess má geta að Lauga fylgdist náið með því að ég myndi ekki missa erfingjann í gólfið. 


Maður er nú ekki amalegur á þessari mynd!!


Sydney Houdini bregður á leik ... óvænt atriði!!

Jæja, þá er nú enn ein vikan að renna sitt skeið á enda ... komið föstudagskvöld hér í Sydney og allir bara í góðu stuði.

Reyndar hefur mér skilist að stuðið hafi verið mikið hér heima fyrir í dag ... jaðraði víst við skálmöld á tímabili, þegar þær mæðgur tókust á. 

Neyðarkall var sent niður í skóla upp úr kl. 18 og ég beðinn um að koma umsvifalaust heim, þó með viðkomu í búðinni til að kaupa mjólkurduft ... já slíkt var ástandið orðið ...

Svo þegar ég kem heim, rétt fyrir kl. 19, sefur sú litla eins og ljós, algjörlega uppgefin eftir baráttu dagsins.  Og svoleiðis er nú staðan þegar þetta er skrifað.

En það er greinilegt að Sydney Houdini kann að bregða á leik, því rétt áðan, og er hér um að ræða alveg sjóðheitar myndir úr myndavélinni, sýndi hún eftirfarandi sjónhverfingar í rúminu þar sem hún liggur steinstofandi þessa stundina.  Rétt er að geta þess að maddaman kom sér algjörlega sjálf í þessa stöðu, að því undanskildu að ég lagði hana inn á rúmið nokkrum mínútum áður.
En svona fór þetta fram ...


Upphafið ...


Síðan gerðist þetta ... óhætt að segja að vökult auga fylgist með hverri hreyfingu ...

Og hvað gerðist svo ... ?!?!

Þetta!!!!

... og svo var dansað ...

Já, þakka ykkur fyrir ...

Ekki slæmt þetta!!!

Sydney Houdini veifar til áhorfenda!!

 

 


A Pope as a Soap on a Rope

... er slagorð sem kynnt var áhorfendum SBS-sjónvarpsstöðvarinnar fyrir nokkrum dögum ...

... og ekki af ástæðulausu, enda var þá sjálfur páfinn væntanlegur til borgarinnar.

Og síðasta sunnudag mætti hann ásamt fríðu föruneyti.  Tilefnið ekki af verri endanum enda World Youth Day um það bil að rúlla af stað.  World Youth Day, sem ætti ef til vill frekar að kalla World Youth Week, hefur staðið yfir hér alla þessa viku og mun ljúka næsta sunnudag, væntanlega með miklum hátíðarhöldum.  Borgin er sneisafull af fólki, hvaðanæva úr veröldinni ... allir óskaplega lukkulegir með Benna páfa, kaþólsku kirkjuna og almættið!

Í dag, var mikill dagur, "Super Thursday", eins og dagurinn hefur verið kallaður í fjölmiðlum, því í dag var páfi opinberlega kynntur til leiks, eftir að hafa meira og minna hvílst síðan á sunnudag.  Kannski ekki skrýtið, þar sem karl er kominn á níræðisaldur.

Páfi var "presenteraður" með því að stíga um borð í stærsta og flottasta lúxusskip Sydney-borgar, sem ber heitið "Sydney 2000" og flutti fleyið hann frá Rose Bay yfir að Barangaroo, en svo kallast austurhluti Darling Harbour.  Þar steig páfi á land fyrir framan 150.000 pílagríma sem tóku vel á móti honum.
Því næst ávarpaði hann samkomuna og var vel tekið undir.

En hvað sem þessu nú öllu líður, þá er rétt að það komi fram að útsendari Fréttastofu Múrenunnar í Sydney brá undir sig betri fætinum og fór ásamt Félagi eldri borgara í siglingu, til að komast í návígi við hinn heilaga, þegar hann átti leið um Sydney-höfnina. 

Það er gaman að segja frá því að flestir eldri borgararnir héldu þó að útsendari væri pílagrímur, sem hefði flogið yfir hálfan hnöttinn til að berja páfa augum.  Þótti þeim hann vera svo sannarlega hliðhollur málsstaðinum og var hann fyrir vikið meðhöldaður eins og konungborinn, enda allir um borð með eindæmum trúræknir og guðhræddir ...
Útsendara kom ekki til hugar að svo mikið sem reyna að leiðrétta þennan misskilning ... og naut dagsins í faðmi kaþólskra Ástrala, Fujibúa og boxara frá Króatíu, sem hafði helst unnið sér það til frægðar að láta sjálfan Múhammeð Ali slá sig í rot í boxhringnum ... greinilegt var að hann hafði fengið fleiri högg á höfuðið í gegnum tíðina en hollt getur talist, enda með afbrigðum sljór.  

Hér á eftir eru glóðvolgar myndir frá þessum heimsviðburði ... það er siglingu Benna "sixteen" um höfnina ...


Páfinn og fylgdarlið á fullu spani á Sydney 2000 á Sydney Harbour


Ofurlítið stækkuð mynd af Benna

Skipa- og bátalest fylgir fast á hæla páfa

Páfi kemur inn til hafnar í Darling Harbour
... og svo bæti ég við einni í viðbót, bara af því að Laugu finnst hún (þ.e.a.s myndin) svo flott,  ...

Bátar stórir sem smáir fylgja páfa ...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband