Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Fimmtudagur 30. desember 2010 - Að taka á móti gestum

Jæja ... þá er þetta ár alveg að líða undir lok ... bara um einn sólarhringur eftir.

Óhætt er að segja að þetta ár hafi liðið alveg svakalega hratt og margt skemmtilegt átt sér stað.

Það er líka gaman að sjá hvað margir hafa áhuga á því að fylgjast með þessari bloggsíðu minni en frá 30. desember í fyrra og þar til nú þegar þetta er skrifað, hafa meira en 6.230 gestir heimsótt síðuna.  Auðvitað er það oft sama fólkið sem lítur við aftur og aftur en hver einstaklingur er þó aðeins talinn einu sinni hvern dag.

Það eru sum sé um 17 manns sem kíkja á síðuna á hverjum degi að meðaltali sem mér finnst bara alveg frábært. Það sem er svo frábært við allar þessar heimsóknir er það að fólk skuli bara yfir höfuð hafa áhuga á því sem við - þrenningin í Uppsala - erum að gera og hvað ég hef að segja.

Þegar ég fór til Sydney fyrir rúmum þremur árum, rann það nefnilega upp fyrir mér að það er síður en svo sjálfsagður hlutur að einhver sýni manni áhuga eða vilji eitthvað með mann hafa.  Þegar öllu er á botninn hvolft er langsamlega flestu fólki algjörlega skítsama hvað snýr upp eða niður á manni ... :) 

Ég þurfti sumsé að fara alla leiðina til Ástralíu til að átta mig á þessari einföldu staðreynd en fram að því  hafði mér fundist fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt að einhver slatti af fólki hefði áhuga á öllu sem ég segði og gerði. 

---

Í dag var enn mikið spjallað en jafnframt mikið unnið ... þannig að þetta er búinn að vera langur dagur.


Miðvikudagur 29. desember 2010 - Að losna við raddir

Rosalega fínn dagur að baki hér í Uppsala ... það er alveg merkilegt hvað dagarnir eru rosalega fínir þessa dagana.

Það er líka alveg merkilegt hvað við mamma getum talað mikið saman.  Mér er það stórlega til efs að það séu mörg mæðgin sem geti talað svona klukkutímunum saman ... en þetta er skemmtilegt.

Fyrir vikið verður minna úr vinnu en efni standa til ... en ég held að það sé nú bara í lagi.

---

Svo hef ég líka verið að gera upp árið ... eitthvað smá verið að rúlla yfir bloggið til að sjá hvað hefur eiginlega á daga mína drifið.

Satt að segja held ég að mitt mesta afrek á þessu ári sé að ná tökum á hugsanaflæðinu hjá mér ... þessu endalausa, böggandi hugsanaflæði sem ég hef glímt við alltof lengi.  Þessi rödd í hausnum sem var sífellt malandi, sífellt að setja út á allt sem ég gerði og sagði, sífellt að segja að ég gæti ekki þetta og hitt, sífellt að reka á eftir mér og valda samviskubiti.

Ég held að allir sem lesa þetta þekki þessa rödd hjá sjálfum sér ... en ég get sagt það ... það er þvílíkur munur að vera laus við þennan fjára. 

Ég hvet því alla sem vettlingi geta valdið, að setja það efst á stefnuskránna hjá sér á nýju ári að þagga niður í þessari "f***ing" rödd. 

---

Nú er það nýjasta hjá heimasætunni að vilja "búa sig upp" ... rosalegt stuð!  Alveg merkilegt að hún skuli vera farin að hafa áhuga á þessu, ekki eldri en hún er ... þetta er greinilega eitthvað sem hún lærir á leikskólanum ... eða hvað?!?  Ekki er nú verið að hafa þetta fyrir henni hér heima fyrir.

 
Þetta var lúkk kvöldsins ... útfært af henni sjálfri

 


Þriðjudagur 28. desember 2010 - Það gerðist ekkert í dag

Þetta hefur verið alveg sérlega tíðindalaus dagur ...

Vinna, spjall og smávægilegir snúningar.

Það er mjög ljúft að upplifa svona daga við og við.


Nöfnurnar spjalla í kaffitímanum ... 


Mánudagur 27. desember 2010 - Að fá gest í heimsókn

Í dag kom hingað til Uppsala góður gestur ... hvorki meira né minna en föðuramma Guddunnar.

Ætlar að dvelja hér í góðu yfirlæti framyfir áramótin.

- það hefur nú alveg gleymst að taka mynd af þeim stöllum í dag - 

Guddan var svo glöð að hitta ömmu sína að hún hefur eiginlega ekki getað séð af henni í allan dag.  Og meira að segja í kvöld átti amman að svæfa ... það gekk nú samt ekki betur en svo að Guddan steig fram í stofu um 20 mínútum síðar, hressari en nokkru sinni fyrr.

Þá var hún búin að þvæla svo mikið í ömmunni að sú fór bara beint að sofa en stubbur fór fram í eldhús og krafðist þess að fá eitthvað að borða.

Klukkan var þá 23.30 að staðartíma ... 

---

Annars hefur þetta verið sannkallaður kjaftadagur ... ég og mamma töluðum saman svo klukkutímum skipti í dag ...

Lauga var að vinna ...

... og við rönkuðum ekki við okkur fyrr en klukkan rétt fyrir níu.

Kvöldmatur klukkan tíu ...

Þetta er allt í bulli hérna :) ... bara eins og það á að vera ...


Þessi var tekin á góðri stund í sumar ... 


Annar í jólum 2010 - Geysilega góð jól

Við erum búin að hafa það alveg geysilega gott hérna í Uppsala þessa fyrstu daga jólanna.

Allt með hinu rólegasta móti ... en góð og hamingjurík samvera er það sem stendur upp úr öllu saman ...

 

Skruppum t.d. á snjóþotu í gær ... 

Til að byrja með vildi Guddan helst að foreldrarnir væru bara á snjóþotunni og sjálf vildi hún horfa á.  Svo rættist úr og loks var varla nokkur leið að fá hana til að hætta renneríinu.  Þessu lauk þó með því að hún yfirgaf bara svæðið ...

Í dag var svo málningardagur ... síðuhaldari og Guddan máluðu baki brotnu meðan Lauga las í bók.

 

 

Í kvöld fórum við svo í alveg súperfínt jólaboð til Sverris og Dönu ... hrein snilld!!

 

 


Aðfangadagur 2010 - Gleðileg jól!

 

Við þrenningin í Uppsala óskum öllum lesendum gleðilegra jóla!!

Og hafið það virkilega gott! 


Fimmtudagur 23. desember 2010 - Þorláksmessa

Jæja ... þá hefur Þorláksmessan runnið sitt skeið á enda hér í Uppsölum.

Árangursríkur dagur og skemmtilegur.

Við Guddan tókum okkur frí frá hefðbundnum störfum og héldum áfram að undirbúa hátíðarnar ...

Undirbúningurinn var eiginlega í tveimur hlutum, allt eftir því hvort Guddan var sofandi eða ekki.

- Þegar hún var sofandi, lagaði ég til, skúraði gólf, skrúbbaði kamarinn og lagaði stíflu í vaskinum.

- Þegar hún var vakandi, sungum við, spiluðum á gítar, dönsuðum og höfðum gaman.

---

Um kaffileytið fórum við svo niður í bæ að hitta Laugu og upplifa smá jólastemmningu.

Það er óhætt að segja að stemmningin hér í bæ sé önnur en á heimaslóðunum, því eftir að hafa skroppið á kaffihús ákváðum við að bregða okkur niður í miðbæ ...

Svona var stemmningin þar ...

 ---

Svo að lokum ... svona af því að Þorláksmessa er sennilega mesti neysludagur ársins ...

Meðfylgjandi mynd er af því sem mér finnst vera táknmynd neyslunnar ...

Þetta er hjól af gerðinni Yosemite og það er hægt að verða sér út um svona hjól með því að reiða fram um 2.500 sænskar krónur eða rúmlega 40.000 íslenskar krónur. Þetta er alveg þrusugott hjól fullyrði ég því við Lauga eigum nefnilega samskonar grip.

En allavegana ...

... ég tók fyrst eftir þessu hjóli í sumar þar sem það stóð, ásamt öðrum hjólum í hjólagrindinni, sem sést á myndinni, glænýtt og glansandi.  

Og síðan þá hef ég fylgst með þessu hjóli.

Af hverju?

Jú, af því þetta hjól er aldrei hreyft ... ég fullyrði það að þetta hjól hefur aldrei verið hreyft síðan því var stillt upp í rekkann sama dag og það var keypt.

Þetta er eitthvert það einmanalegasta hjól sem ég hef nokkru sinni séð ... hjól sem fyrir nokkrum mánuðum sá fyrir sér að þeysa fram og aftur um götu Uppsalaborgar en stendur nú þarna og hefur staðið mánuðum saman eitt og yfirgefið. Þetta er eina hjólið sem ekki hefur verið sett inn í hjólageymsluna ...

... og maður spyr sig: Í hvaða tilgangi var þetta hjól keypt? 

---

Ég er ekki með þessu að álasa eiganda þessa hjóls neitt sérstaklega ... það eru nefnilega allir í þessum "bissness", þ.e. að kaupa hluti sem þeir hafa enga þörf fyrir ...

Hvað hef ég keypt mörg kort í líkamsrækt, sem ég hef svo aldrei notað?

Hvað hef ég keypt mikið af fötum sem ég hef eiginlega aldrei farið í?

Hvað hef ég keypt mikið af bókum sem ég nenni svo ekki að lesa? 

Hvað hef ég keypt mikið af mat sem ég enda svo á að henda í ruslatunnuna? 

Og svo framvegis ... 

---

Ég horfi á þetta hjól í hvert einasta skipti sem ég stíg út fyrir þröskuldinn á byggingunni sem ég bý í ... bara til að minna mig á alla þá hluti sem ég tel mig þurfa að kaupa en hef í raun engin not fyrir ...


Miðvikudagur 22. desember 2010 - Að undirbúa jól

Það var glæsilegt veður í morgun þegar við Gudda vorum að undirbúa okkur fyrir daginn ... heiðskírt, morgunroði og ískalt (-21°C).

 

Nú þegar nær dregur jólahátíðinni fer að verða nauðsynlegt að rífa fram jóladótið og fara að reyna að gera eitthvað ...

Og það var gert í dag.

Fyrir það fyrsta kom Lauga við í Åhlens á leiðinni heim og keypti slatta af jóladóti, t.d. seríu og ljósakrans til að setja í glugga, sem og jólasófaábreiður (!?!)

Í kvöld var þessu öllu komið fyrir, auk þess sem hið glæsilega jólatré var dregið fram við mikinn fögnuð stubbs, sem kyssti tréið í bak og fyrir.

Og svo var sett í samband og ballið byrjaði ...

 

 


Mánudagur 20. desember 2010 - Okkar á milli

Í dag hef ég verið iðinn við kolann og búinn að vinna eins og berserkur ...

... eins og alltaf raunar ...

---

En núna er þó meira við hæfi að birta úrklippu úr 2. tölublaði Æskunnar sem kom út árið 1987.  Það er dálkurinn Okkar á milli ...

Þetta er nú ekki amalegt!!

Það er nú alveg merkilegt hvað margt af þessu hefur breyst lítið ... og þó ...

Nafni minn í KISS stendur enn fyrir sínu og er í sérlegu uppáhaldi hjá mér eins og áður. Reikningur myndi halda sínum hlut, held ég ... læt það liggja á milli hluta. Svo finnst mér laugardagar ennþá góðir en mér finnast miðvikudagar líka góðir ... eins og raunar allir dagar vikunnar
(Every day above the ground, is a good day - Florence Klein, móðir Gene Simmons bassaleikara KISS).

Það hefur þó eitthvað kvarnast úr "besta vinahópnum" og aðrir komið í staðinn ... en það er bara eins og gengur og gerist.  Annars hef ég alla tíð verið afskaplega lítið fyrir að flokka vini mína í besta, næstbesta o.s.frv.  Annaðhvort eru menn vinir mínir eða ekki ... og áhugi á fótbolta er ekki endilega helsti kostur ... frekar að þeir séu svona sæmilega viðræðugóðir, myndi ég segja.

Kláus Augenteiter (sem heitir reyndar Augenthaler) er dottinn af toppnum og Maradona er kominn í staðinn, einfaldlega vegna þess að Maradona er sá besti.

Uppáhaldsleikarinn núna er í fleirtölu núna.  John Candy og Chris Farley.  Báðir frábærir.  Sigurður Sigurjónsson er samt alveg fínn. 

Það land sem mig langar helst til heimsækja núna er líka í fleirtölu og heitir Miðausturlönd ... búinn að koma svo oft til Danmerkur ;) . En þegar þetta viðtal var tekið hafði drengurinn aldrei farið út fyrir landsteinana.

Svo er ég búinn að gefa drauminn um atvinnumennsku í fótbolta upp á bátinn ... hann verður sennilega ekki að veruleika úr því sem komið er ... enda áhuginn fremur lítill ;) . 

Ég held að ég hljóti að hafa logið að Eðvarði Ingólfssyni (þeim sem tók niður punktana) með háttatímann.  Hulda systir heldur því fram að ég hafi alltaf farið að sofa kl. 9 á kvöldin og mér hafi fyrst tekist að halda mér vakandi til kl. 12 á gamlárskvöld þegar ég var 20 ára.

Svona er nú það.


Sunnudagur 19. desember 2010 - Að trúa á guð

Í gær var haldin í hér Uppsala jólahelgistund og jólaball í Turnabergskyrkan.

Undirritaður söng þar og var söngprógrammið í föstum skorðum ... Bjart er fyrir Betlehem, Nóttin var sú ágæt ein, Heims um ból og eitthvað eitt annað sem ég man ekki hvað var.

Svo flutti presturinn örstutta hugvekju ... hugvekju sem eiginlega hefði varla getað verið styttri.

En það sem hann sagði fjallaði á sjálfsögðu um kærleikann ... ágætt inntak það út af fyrir sig.

Það sem mér hinsvegar leiðist alveg hroðalega er þegar fólk er að gera mér upp skoðanir ... og mér finnst prestar oft mjög gjarnir á það svona almennt séð.  Í gær fullyrti t.d. presturinn alveg blákalt að allir viðstaddir elskuðu Jesú ...

... í alvöru talað ... ég hef aldrei pælt í því hvort ég elski Jesú ...

Ég lít einhvern veginn ekki þeim augum á málið.  Mér finnst margt af því sem Biblían segir að Jesú hafi sagt og gert vera hrein snilld.  Mér finnst t.d. dæmisagan þar sem hann segir að sá sem syndlaus sé, skuli kasta fyrsta steininum vera einhver mesta speki sem til er ... hún segir svo hrikalega margt og það væri svo margt öðruvísi ef allir færu eftir þessu. 

Annars finnst mér betra að setja saman-sem-merki milli guðs og Jesús og hins góða í heiminum frekar en að líta á þessa tvo "aðila" sem "menn".  Þeir eru bara afl í mínum huga.

Og þrátt fyrir að margir kjósi að líta svo á að tilvist guðs og Jesús sé bara blekking og rugl hef ég kosið að vera þeim aðilum ósammála.

Ég vil að það sé til guð og Jesú og ég vil að það sé líf eftir dauðann (ég hef aldrei skilið af hverju það er svona mörgum metnaðarmál að halda því fram að dauðinn sé endastöð ... mér finnst það alltaf vera hundfúlt "gáfumanna"-sjónarmið ;) ).
Ég vil signa Gudduna og Laugu á hverju kvöld til að vernda þær.
Ég vil að það sé til fólk sem fær skilaboð að handan og segi mér þau þó ekkert vit sé í þeim.
Ég vil að það sé einhver dulúð í heiminum, eitthvað sem maðurinn mun aldrei geta skilið, sama hvað hann reynir. 
Ég vil að geta talað við afa, ömmu og pabba og raunar geri ég það ansi oft ... sérstaklega þegar ég þarf á einhverri aðstoð að halda ... og mér finnst þær samræður bera ansi oft árangur. 

 

En allavegana ... ég vil því bara hafa mína trú og hafa þann háttinn á sem ég helst kýs ... þess vegna loka ég eyrunum þegar einhverjir trúboðar (s.s. prestar) ryðjast fram á sviðið og segja manni hvernig hlutirnir eru ... án þess að hafa neina hugmynd um það. 

Það væri nær að þeir leggju fyrir mann áleitnar spurningar um lífið og tilveruna ... útveguðu eitthvert andlegt fóður til að pæla í ...  

---

Annars allt í góðu ... allir við hestaheilsu ... búinn að vera mikill vinnudagur í dag hjá báðum foreldrum Guddunnar.

Guddan heldur samt sínu striki, rífur kjaft og er hress.

Hún hefur síðastliðna daga síendurtekið boðskap sem mér finnst mun merkilegri en sá sem ég heyrði í gær.  Það veit enginn hvar blessað barnið lærði þennan frasa en hann hljómar svona:

"Allir eiga það besta skilið!"  

 
Spekingur dagsins borðar peru


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband