Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Fimmtudagur 30. september 2010 - Að gróðursetja jólatré

Þann 10. ágúst sl. skrifaði ég gagnmerkt blogg um sænskt vinnulag ... og nú ætla ég að gera það aftur.

Hér í Uppsala búum við Lauga og Guddan í fjölbýlishúsi sem er á vegum Uppsalahem, en það er fyrirtæki sem á og rekur gífurlega margar fasteignir hér í Uppsala.

Þeir sjá um allt sem viðkemur viðhaldi bæði utan- sem innandyra og standa sig með miklum sóma.  

Um daginn kom barst okkur bréf, þar sem Uppsalahem tilkynnti að úti í garðinum við fjölbýlishúsið okkar yrði í haust komið fyrir einu grenitré.  Þetta tré ætti að koma í stað "afsagaðs jólatrés" hefur verið komið yfir á lóðinni um jólaleytið á hverju ári ... ekki ósvipað Oslóartréinu á Austurvelli.

Þá á sum sé ekki lengur að notast við einnota jólatré heldur gróðursetja varanlegt ... og allt gott um það að segja. 

Í dag var látið verða að því að hola þessu verðandi jólatré niður.

Svona til að vera alveg nákvæmur, þá var verkinu formlega ýtt úr vör í seinnipartinn í gær, þegar geysistór Volvo hjólagrafa mætti á svæðið. 

Og í gærkvöldi mátti sjá að menn höfðu ekki setið auðum höndum því búið var að taka heilar tvær skóflur með gröfunni góðu og keyra uppgröftinn í burtu ... sæmilegt dagsverk það ...

Þegar ég leit út í morgun var allt komið á "fúll-sving" við gróðursetninguna.  Hvorki fleiri né færri en fjórir fullorðnir menn voru mættir í verkið.  Reyndar voru þeir ekki allir að vinna því einn var að tala við íbúa fjölbýlishússins, annar var í símanum og sá þriðji horfði á þann fjórða moka svolítið.  
Stóra Volvo-grafan var ennþá og í hópinn hafði bæst þriggja öxla vörubíll fulllestaður af hágæðamold.

Ég hugsaði með mér að það væri ekkert smáræðistré sem ætti að fara að setja niður ...

... og mig rámaði í jólatréið sem hafði verið þarna úti í vetur ... ekki lægra en 6 metrar ...

Ég hlakkaði til að sjá þetta stóra og stæðilega tré ...

--- 

En þá var mér litið á kandidatinn þar sem hann stóð út undir vegg og beið gróðursetningar ...

... og alveg heilir 2,5 metrar á hæð ... ?!?!

Þetta var sumsé útgerðin til að koma einu 2,5 metra grenitré ofan í jörðina?!?  14 tonna hjólagrafa, fulllestaður vörubíll og fjórir fullorðnir menn ... já, og ekki má gleyma fimmta manninum sem kom æðandi á alveg sérstöku moksturstæki með skúffu.  Í skúffunni var einn áburðarpoki.

 

 Ég velti mikið fyrir mér til hvers þyrfti heilan vörubílsfarm af mold í þetta verk ...

 Svarið við því fékk ég nokkrum klukkutímum síðar ...

... það var auðvitað til að geta borið ofan í hjólförin eftir gröfuna?!?!

Ef þetta er ekki atvinnuskapandi ... keyra alltof stóra og þunga gröfu inn í grasblett til að taka tvær skóflur og þurfa svo að verja mörgum sinnum lengri tíma í að laga spjöllin eftir hana ... 

 

Að verkinu loknu leit þetta svona út ... veglegur ofaníburður og VEGLEGT jólatré!! :D

Stuttu seinna kom Lauga heim ...

"Sástu jólatréið?" spurði ég.

"Já ... en það er skakkt!"

... jæja ... :D 


Miðvikudagur 29. september 2010 - Skógarferðin

Jæja, ég var að skríða heim úr fótbolta ... fínum bolta ...

Skemmdi samt hjólið mitt á leiðinni í boltann, er ekki ennþá búinn að skila hvernig það gerðist ... það mun sjálfsagt aldrei skýrast ...

---

Við gær skruppum við Guddan í skógarferð ... meðfylgjandi myndband er úr þeirri ferð.

Ferðin var mjög spennandi og óvæntir atburðir áttu sér stað.

Dagurinn hefur verið mjög fínn ... hlaðinn vinnu eins og stundum áður.  

Lauga var í tímum í Stokkhólmi og var ýmist í hlutverki kennara eða nemanda ... fór svolítið eftir því hvernig stóð á hjá hinum "raunverulega" kennara.

Ég hef aldrei vitað til þess að nemandi í kúrsi í háskóla sé gerður að kennara fyrirvaralaust ... einhvern tímann er allt fyrst ... það er óhætt að segja það :) .

Við erum komin með æði fyrir tælenskum mat og fórum aftur og keyptum okkur svoleiðis ... síðast þegar það gerðist sturlaðist dóttirin og faðirinn í kjölfarið ...

Núna var allt annað upp á teningnum ... 

 


Þriðjudagur 28. september 2010 - Um hugrænt misræmi

Jæja ... þá er Geir Haarde kominn í góð mál ...

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það sé að horfa á eftir ævistarfinu svona lóðrétt ofan í klósettið ... vera búinn að djöflast í því að komast í framvarðasveit stjórnmálanna árum saman, trúa á einhverja hugmyndafræði, verða svo karlinn í brúnni ... 

... og svo bara búmm ... skipið sokkið og allt horfið, allir brjálaðir ... og leiðin liggur í dómsal fyrir hafa sýnt refsiverða vanrækslu ...

Þetta hlýtur að vera hræðilegt ...

---

Það hlýtur bara að vera alveg rosalegt þegar maður trúir á eitthvað, sko virkilega trúir að tiltekin hugmyndafræði sé hin rétta ... og svo bara tæmist blaðran á augabragði ... heimsmyndin hrynur til grunna ...

... og það stendur ekki steinn yfir steini.

--- 

Það er til mjög athyglisverð sálfræðikenning sem fjallar um hvað gerist hjá fólki í svona aðstæðum.  Hugmyndasmiður hennar er Leon Festinger og kallast hún "kenningin um hugrænt misræmi" (cognitive dissonance) og kom hún fyrst fram árið 1956.

Kenningin er kynnt sálfræðinemum í HÍ strax á 1. önn enda ein sú alsnjallasta sem komið hefur fram á þessu sviði. 

--- 

"Hugrænt misræmi" er óþæginleg tilfinning sem skapast þegar viðhorf eða skoðanir einstaklings á tilteknum tímapunkti stangast á eða þegar hegðun einstaklings á tilteknum tímapunkti stangast á við viðhorf og skoðanir hans.  

Kenningin um "hugrænt misræmi" gengur út frá því að fólk finni hjá sér sterka hvöt til að draga úr "misræminu", með því að breyta viðhorfum sínum, skoðunum og atferli.  En úr "misræminu" má einnig draga með því að réttlæta, gagnrýna, kenna öðrum um og neita sök.

Dæmisaga Esóps um refinn og súru berin er t.d. klassískt dæmi.  

Refinn langar í ber, en þau hanga svo hátt uppi að hann nær ekki til þeirra.  
(Hér eru komnar tvær mótsagnakenndar hugmyndir sem leiða af sér neikvæðar tilfinningar)

Refurinn telur sér trú um að berin séu súr og þau skipti hann engu máli.
(Breytt viðhorf til að breyta neikvæðum tilfinningum í jákvæðar)  

---

Eins og segir hér að ofan þá hefur fólk sterka þörf fyrir að draga úr "misræminu" og við öll dettum í það far við og við að réttlæta, kenna öðrum um og neita sök.

Í þessu ljósi er athyglisvert að horfa á viðbrögð allra helstu aðalleikara íslensks samfélags í aðdraganda hrunsins.  Hvernig þeir gjörsamlega óaðvitandi renna enn styrkari stoðum undir kenningu Festinger með því að réttlæta með kjafti og klóm eigin gjörðir, neita sök, gagnrýna aðra og kenna öllu öðru um.

Ég er viss um að Festinger hefði orðið glaður, svona faglega séð, ef hann hefði heyrt Geir Haarde segja í Kastljósinu í kvöld, skýrt og skilmerkilega: Hrunið var bönkunum að kenna! 

Einn plús í kladdann í viðbót ...  

Það er sjálfu sér stórkostlegt hvað mannskepnan er að mörgu leyti einföld ... þó hún haldi oftast hinu gagnstæða fram ...

--- 

Stundum spái ég í því hvort einn daginn verði hægt að binda hegðun og hugsanir fólks niður í lögmál ... ekki óáþekk þeim sem gilda t.d. í eðlis- og efnafræði.


Sunnudagur 26. september 2010 - Ný stígvél

Jæja ... þá er nú búið að græja ný stígvél fyrir blessað barnið.

Þau voru keypt við hátíðlega athöfn í Gränby Centrum í dag.  Þau eru nákvæmlega eins og hin fyrri sem töpuðust svo slysalega í gær.

Svo er búið að vinna töluvert.  Ég í fyrirlestrarskrifum og Lauga að læra fyrir skólann ... nóg að gera ... 


Laugardagur 25. september 2010 - Að fara í dýrt sund

Í morgun datt okkur Laugu í hug að skreppa í sund.  Já, það er nú ekki á hverjum degi sem við förum í sund hér í Uppsala og GHPL hefur ekki komið á slíkan stað síðan hún fór í Breiðholtslaug snemma árs 2009.

Það er óhætt að segja að dóttirin lifði hápunkt ævi sinnar í lauginni ... slíkt var skemmtunin.  Eftir að hafa farið varfærnislega ofan í laugina, mótmælt svolítið kútunum sem hún var með á handleggjunum,  tók svo slíkt æði og slíkt fjör að leitun er að öðru eins.

Það verður því vandalaust að fara með hana í sund svo mikið er víst ...

... þó er eitt sem getur sett strik í reikninginn ... og það er verðið í sundið.

Það kostaði 170 sænskar krónur ofan í laugina.  Það eru  tæplega 3000 kr.

Ég hef alltaf kunnað vel að meta íslensku laugarnar ... en þetta var til að hækka álit mitt á þeim verulega.

---

Þetta var samt algjörlega þess virði úr því blessað barnið skemmti sér svona vel ...

... þó var eitt sem setti strik í reikninginn ... og það var það að bæði stígvélin duttu af Guddunni þegar við hjóluðum heim.  Það uppgötvaðist við heimkomuna.

Þessi stígvél kostuðu um 350 sænskar krónur.  Það er eitthvað á sjötta þúsund krónur.

Í kvöld var etinn grjónagrautur með kanil ... til að spara fyrir nýjum stígvélunum ...

---

En viti menn ... í kvöld heyrðu amman og afinn á Sauðárkróki af óförum barnabarnsins og ætla að gefa ný stígvél ...

--- 

Það er gott að eiga góða að!!!

---

Hér er Syd með dýraflóruna sína ... áhuginn á dýrahaldinu er gífurlegur ...

Dýrin eru vandlega geymd í skókassa.  Skókassinn á svo sinn stað í íbúðinni og hann er fram á gangi fyrir framan skáp sem þar er ... eiginlega algjörlega í gangveginum.  Er ævinlega vandlega gengið frá dýraskókassanum á þennan stað að leik loknum. 


Fimmtudagur 23. september 2010 - Að missa sig

Í kvöld missti ég mig ... 

... eftir að dóttirin hafði tekið fríkað kast í verslunarmiðstöðinni Gränby Centrum.  

Lauga fór í matvöruverslun að kaupa pylsur.  Ég og Syd biðum frammi á meðan.  Dóttirin ekkert nema "attitjúd".

Velta sér í gólfinu, klifra í stiganum, frussa, grenja, öskra, lemja og sparka var það helsta á verkefnalistanum hjá henni. 

Ég var pollrólegur ... og leyfði henni að gera allt nema að djöflast í stiganum ... nennti því ekki.

Svoleiðis gekk það töluverða stund ... en svo ákvað ég að reyna eitthvað að tjónka við hana ... tók hana upp.

Og hún trompaðist ...

Enn var ég pollrólegur. 

Svo birtist Lauga og sumir gjörsamlega tjúlluðust ...

Ég ákvað að fara með hana út og setja hana á hjólið meðan Lauga náði í afbragðsgóðan tailenskan mat sem við ætluðum að fá okkur.

Syd brjáluð ...

Lauga kom út með veigarnar ... pylsurnar og tailenska matinn ...

Við leggjum hjólandi af stað heim ... dóttirin gólar eins og stunginn grís ... 

...

Á þeim tímapunkti missi ég mig ... 

---

Í gegnum tíðina hef ég átt það til að missa mig og á það ennþá til ...

Litla "dýrið" á heimilinu hefur þó tekið mig í margar kennslustundir á sl. 2 árum í því að hafa hemil á skapsmununum ... og ég er orðinn 10x betri en ég var ...

Svona eftir á er samt alltaf leiðinlegt þegar maður missir sig ... maður segir og gerir einhverja fáránlega hluti, sem maður meinar ekki baun með.

Það er eitthvað svo hrikalega "ókúl" við missa sig ...

... sérstaklega þegar maður er að fást við tveggja ára.


Litað af hjartans list ...


 


Miðvikudagur 22. september 2010

Ég er hættur að væla ... en mikið djöfull er leiðinlegt að spila fótbolta þegar helmingurinn af leikmönnum er bara í einhverjum fíflagangi ...

... svoleiðis fótbolta var ég í kvöld ...

Mótherjar okkar ... sem voru eitthvert afsprengi af liði pizzubakaranna ... var í þeim ham í kvöld, eftir að þeir sáu að þeir áttu ekki möguleika ...

---

Annars er þetta búið að vera hreinn snilldardagur.  Mikið búið að lesa og pæla í dag ... lá yfir sálfræðilegum útlistunum, þar sem verið var að tengja tilfinninga- og sjálfstjórn saman við endurheimtandi umhverfi.

Þetta skilur náttúrulega enginn ... og fyrir vikið lít ég mjög vel út :) .

---

Mæðgurnar voru í sitthvoru stuðinu ... Syd Houdini var í banastuði en Lauga ekki.  Lærdómur og þrældómur setti mark sitt á daginn hjá henni og hún sagðist bara vera hundþreytt.

---

Annars held ég að ég fari að skrifa þessar færslur á morgnana, enda er ég þá fullur af hugmyndum en það sama verður ekki sagt þegar klukkan er næstum miðnætti, eins og nú. 


Þriðjudagur 21. september 2010 - Að bulla, jarða, kyssa og syngja

Jæja, þá er ég búinn að hlusta á tvo Kastljósþætti í kvöld ... annars vegar þvæluna sem var í kvöld um hvort þingmannanefndin hafi staðið sig í stykkinu og allt það og hins vegar viðtalið við Andra Snæ og Tryggva Herbertsson.

Um þáttinn sem var í kvöld er ekkert um að segja nema það að allir þeir sem eru eldri en 3ja ára sjá flokkadrættina í málinu og það var hláleg að hlusta á Ólöfu Nordal segja að nú þyrfti fólk að henda af sér flokksskykkjunni og ígrunda hjarta sitt. 

Enn hlálegra er að hlusta Bjarna Benediktsson halda uppi vörnum fyrir Ingibjörgu Sólrúnu ...

Um þátt gærkvöldsins er einfaldlega hægt að segja það að Tryggvi Herbertsson var jarðaður í beinni.  Hann átti engin svör og gerði lítið annað en að endurtaka gamla tuggu um að Andri Snær og aðrir sem eru ekki hlynntir stórkarlabrjálæðinu, séu á móti framförum. 

Það er alveg með ólíkindum af hverju það má ekki fara rólegar í þessar virkjanaframkvæmdir ... maður skilur þetta bara ekki ...

---

Að öðru ...

Guddan er í góðu stuði þessa dagana.  Eiginlega er hún er svokölluðu kyssu-stuði, sem felst í því að kyssa allt og alla ... þó sérstaklega ef allt og allir eru ferfætlingar.

Ástandið gæti auðveldlega verið verra en það ... :)

Um daginn birtist í Uppsala-sjónvarpinu "slideshow" með myndum af dýrum ... íkornum, elgum o.s.frv.  Syd kyssti sjónvarpsskjáinn mörgum sinnum þann daginn.

Dýrabókin er líka kysst mikið ... myndir af krókódílum, púmum, rostungum, froskum, fiðrildum og górillum eru kysstar í bak og fyrir. 

Og þess á milli syngur snillingurinn litli "hani, kummi, hundur, hín" í mun "advanseraðri" útgáfu miðað en gert var fyrir hálfum mánuði ... alltaf að læra ...

Reyndar er lítið lag að bætast á listann og er það "Lille gris", sem í flutningi dótturinnar er "Lilla gís".  Þetta ku vera einkennislag Ídu systur Emils í Kattholti.

Meðfylgjandi mynd var tekin fyrir nákvæmlega einu ári ...  

 


Föstudagur 17. september 2010 - Að "væla"

Núna síðustu daga hef ég verið að velta fyrir mér "væli".

Þessu "væli" sem maður upplifir daginn út og inn, bæði hjá sjálfum sér og öðrum.

Af hverju er allt þetta "væl"?

Er þetta ekki bara alveg svakalega leiðinlegur ávani?

---

Ég tók þá ákvörðun í dag að hætta öllu "væli".  Skrúfa bara fyrir! 

 


Fimmtudagur 16. september 2010 - Að svara tölvupósti

Ég var búinn að ákveða að blogga einhverja svakalega snilld í kvöld ... 

... en nú er ég algjörlega búinn að gleyma því efni ...

--- 

Eins og vant er hringlar ekkert nema umhverfissálfræði og hvatningarsálfræði í hausnum á mér.

Það er reyndar eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér síðustu misserin, ekki síst vegna þess að ég er með mörg járn í eldinum út um allar trissur og er að senda tölvupósta hingað og þangað.

Vangavelturnar snúa að því hvernig fólk meðhöndlar tölvupósta sem því berast.

Það gerist æ ofan í æ að maður sendir einhverjum tölvupóst ... og maður fær 0% viðbrögð í marga, marga daga.  Maður hefur ekki hugmynd um hvort viðkomandi sá póstinn eða las póstinn eða hvort pósturinn lenti hreinlega í einhverju "junk boxi" og barst aldrei viðkomandi.

Ég er nú ekki að ætlast til þess að fólk svari öllu sem frá mér kemur umsvifalaust, en mér finnst satt að segja afskaplega viðeigandi, ef ekki er hægt að svara innan sólarhrings, að senda eina stutta línu t.d. "ég er búin(n) að sjá póstinn frá þér og mun svara honum eins fljótt og ég get".  Og standa svo við það ;) .

Núna er ég t.d. að bíða eftir mikilvægum svörum frá tveimur aðilum.  Ég hef ekki hugmynd hvort þessir aðilar hafa yfirleitt séð póstinn sem ég sendi þeim eða hvort þeir eru búnir að setja þau mál sem póstarnir fjalla um í einhvern farveg og eru sjálfir að bíða svara.  Þannig geta málin verið í algjöru stoppi en líka á blússandi siglingu ... það er bara ómögulegt að vita, því viðbrögðin eru þau sömu ... þ.e. engin.

Mér finnst þetta samskiptamynstur mjög merkilegt í raun og hef verið að velta fyrir mér af hverju þessi svörunartregða stafar.

Er þetta streita, tímaleysi, leti, léleg tímastjórn, áhugaleysi, gleymska eða ... ?!?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband