Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Þriðjudagur 30. mars 2010 - Í Dalarna

Skruppum til Dalarna í gær ... nánar tiltekið til Leksand ...

 

Það sem er merkilegt við Dalarna er t.d. sú staðreynd að þar eru heimkynni Dalahestanna.

Sáum t.d. þennan á leiðinni.  Hann er í Avesta og er sá stærsti í heimi ...

 

---

Í Dalarna eru mjög mörg rauð hús ... eins og þessi í Mora ...

Keyrðum kringum vatnið Siljan, með viðkomu í Tällberg, Rättvik og Mora, auk Leksand.

Kíktum einnig á Nusnäs en það voru Dalahestar þaðan sem voru sýndir á Heimssýningunni i New York árið 1939, þar sem þeir slógu í gegn og urðu í kjölfarið einkennistákn Svíþjóðar.

Í Nusnäs er hægt að sjá vinnuferilinn allt frá því að hestarnir eru bara strik á spýtukubb og þar til þeir standa fagurlega málaðir í hillu verslunnar.  Flott vinnubrögð það ...

---

Eftir daginn erum við ferðalangarnir sammála um að þessi túr hafi bara verið svona til að átta sig örlítið á stöðunni ... ljóst er að í Dalarna verður að fara aftur ...


Sunnudagur 28. mars 2010

Jæja ... þá er ég að mestu leyti hættur í fýlunni sem hefur herjað á mig síðan á fimmtudaginn ... svo sem ágætt að losna við hana.

Tókum því rólega í dag ... ræddum málin, skruppum í Dómkirkjuna og á kaffihús ...


Á tröppum Dómkirkjunnar ...


Í miðbæ Uppsala

Skrapp í fótbolta í kvöld ... fyrsta hreyfingin í 2 vikur ... og ég fann fyrir því ...

---

Er að lesa þrælmerkilega bók þessa dagana.  Sú heitir "Leitin að tilgangi lífsins" og er eftir geðlækninn Viktor Frankl ...
Ég er enn að lesa fyrri hluta bókarinnar, en hann fjallar um dvöl Frankl í útrýmingarbúðum nasista í síðari heimstyrjöldinni.

Það merkilegasta sem ég hef lesið í bókinni til þessa er eftirfarandi (bls. 66):

"Við sem vorum í einangrunarfangabúðunum munum eftir mönnum sem gengu um skálana og hugguðu aðra, gáfu þeim síðasta brauðbitann sinn.  Þó þeir kunnu að hafa verið fáir nægðu þeir til að sanna að það er unnt að taka allt frá manninum nema eitt: endanlegt frelsi hans - til að velja hvernig hann bregst við því sem að höndum ber, til að fara sínar eigin leiðir." 

Mér finnst þessi klausa vera íhugunarefni fyrir alla, sérstaklega fyrir sjálfan mig þegar ég er búinn að vera í fýlu út af einhverju bulli í marga daga.


Fimmtudagur 25. mars 2010

Hressilegur dagur hér í Uppsala í dag ... svo hressilegur að ég nenni ekki einu sinni að skrifa um hann ...

... heilsan er þó betri hjá öllum og stefnir í "full-swing" á morgun ...


Sumir að horfa á Dodda vegna þess að þeir eru veikir ...


Miðvikudagur 24. mars 2010

Þar sem ég ákvað að verða veikur í dag hefur skemmtanagildi dagsins verið í samræmi við það ...

---

Átti að byrja á málningarnámskeiði í kvöld ... námskeiði sem var frestað í febrúar ... ég er náttúrulega alveg himinlifandi með þetta ... ;)

---

Guðrún er líka veik ... þannig að þetta er bara allt eins og það á að vera ...

---

Lauga er upprisin ...

 


Þriðjudagur 23. mars 2010 - Eitt ár komið ...

Í dag er nákvæmlega eitt ár síðan við Lauga og Guðrún komum til Uppsala ... en það var einmitt 23. mars 2009.


Mæðgurnar nýstignar út úr strætónum sem ók okkur frá Arlanda-flugvellinum til Uppsala

Síðan þá hafa margir góðir hlutir gerst ... óhætt að segja það ...
Maður getur verið þakklátur fyrir það.  Raunar held ég að Uppsala sé besti staðurinn í heiminum sem við gætum verið á nákvæmlega núna ...

... toppíbúð, toppfólk sem við þekkjum, ég með toppleiðbeinanda, toppvinna hjá Laugu, toppleikskóli hjá Syd o.s.frv.

Þar með er samt ekki sagt að ég vilji búa hér til eilífðar ...

---

Guddan veik í dag, ennþá að jafna sig eftir mislingasprautuna ... fékk að horfa svolítið á Dodda af því tilefni ...
... sennilega verður hún líka heima á morgun ...

---

Ég fór að hitta leiðbeinandann minn í dag ... gaman að því ...
Nú eru allir fyrirlestrarnir að baki og hægt að einbeita algjörlega að doktorsverkefninu ... sem svo sannarlega veitir ekki af ...

---

Viðtal við mig í Fréttablaðinu í dag ... því miður var ég í myndatexta kallaður "umhverfissálfræðingur".  En það starfheiti er ekki til ... en auk þess hef ég ekki heimild til að kalla mig sálfræðing, því ég hef aðeins BA-próf í sálfræði, sem veitir ekki réttindi sem sálfræðingur ...

En þessi misskilningur vill stundum brenna við ...

 

---

Hreyfingarmál og kókdrykkja í tómu bulli eftir Íslandsferðina ... á því verður tekið á morgun ...

Ekki virðist sem hreyfingarátakið árið 2010 og ekki-kók-drykkjan hafi skilað miklu, því ég fékk þær athugasemdir meðan á Íslandsdvöl minni stóð að ég væri feitari en vanalega ... ekki veit ég hvað "vanalega" þýðir, en allavegana hef ég lítið grennst þrátt fyrir aukna hreyfingu og minni kókneyslu ...

... þarf greinilega að leggja höfuðið í bleyti ...  


Mánudagur 22. mars 2010 - Mættur aftur

Þá vaknar þessi bloggsíða aftur til lífsins ... nú þegar síðuhaldari er kominn aftur til Svíaríkis ... eftir mjög annasama ferð til Íslands ...

... og hvað var gert á Íslandi ... ??

Í stuttu máli ... rætt um umhverfissálfræði ...

Fjórir fyrirlestrar á þremur dögum ... allt frá um 30 mín erindi upp í 3 klst námskeið ...
Skrif og æfingar ...
Alveg hrikalega gaman ...

Tvö útvarpsviðtöl (hér er hægt að hlusta á annað þeirra), blaðaviðtal (sem birtist á morgun 23. mars) og slatti af fundum með ýmsu góðu fólki.
Allt saman unnið í góðri samvinnu við vinkonu mína Auði Ottesen hjá Sumarhúsinu og garðinum ...

Skellti mér á Faust í Borgarleikhúsinu og svo átti mamma afmæli.

Ofurlítill tími gafst til að hitta fjölskyldu og vini (gat samt hitt alltof, alltof fáa ... verð að bæta úr því síðar) ...

Þessi Íslandsferð var alveg sérstaklega árangursrík og skemmtileg ...  

---

Var síðan svo heppinn að verða einn af gosferðlöngunum ... frábær stemmning út í Leifsstöð upp úr kl. 11.  Beið í 70 mínútur í miðasöluröðinni.
Sérstaklega gaman þegar afgreiðsludaman í miðasölunni, sagði við mig að ég hefði engan tíma til að merkja töskuna meðan hún afgreiddi mig, það tæki alltof langan tíma ...

... enda eru örugglega allir til í að henda farangrinum sínum ómerktum í millilandaflug ... eða ... ?!?

Þessi afgreiðsludama lét sig engu að síður ekki muna um að rífast við einn kúnna í 10 mínútur meðan hún var að afgreiða mig.  Þessi kúnni ætlaði að kæra þetta "skítadrulluflugfélag", eins og hann orðaði það ...

... hugsa að ég hefði getað merkt töskuna mína svona 100 sinnum á meðan ... 

---

Fór svo við komuna til Svíþjóðar beint til Stokkhólms í mat til Nönnu frænku.  Hitti Laugu og Syd á Centralstation.

---

Lauga og Guddan er hinsvegar búnar að vera veikar í dag ... Guddan veik vegna mislingasprautu sem hún fékk í síðustu viku og Lauga með eitthvað annað ...

 

 


Föstudagur 12. mars 2010

Þegar við förum á Subway, sem gerist eiginlega aldrei, þá er alltaf sami gaukurinn að afgreiða þar ... af útliti hans að dæma er hann sennilega ekki af sænsku bergi brotinn ... senni frá Tyrklandi ...

... en þessi gaur er alveg einstaklega hrifinn af Sydney Houdini.  Hún fær alltaf smáköku, sem reyndar er ekkert sérstaklega lítil, gefins þegar við látum sjá okkur þarna ...
SH fær smábita af kökunni, og svo borða ég restina, ef Lauga passar ekki þeim mun betur upp á hana.

Við fórum á Subway í kvöld ... Houdini lék á alls oddi ...

---

Komum við á bakaleiðinni í Liljunni og tókum DVD ... Big Mama´s House 2 ... Martin Lawrence er alltaf góður ...

---

Það er allt að verða klárt fyrir Íslandsferðina ... fyrirlestrar að verða klárir og búið að vista þá á flakkaranum, búið að prenta eitthvað af stöffi út o.s.frv.
Þetta verður gaman!


Fimmtudagur 11. mars 2010

Gestirnir á augndeild sjúkrahússins í Uppsala segja sumir hverjir að þeir sakni Laugu, ef svo ber við að hún annist þá ekki þegar þeir koma í skoðun á deildina.

Ágætis meðmæli það ...

---

Ennþá er verið að undirbúa fyrirlestra og nú í kvöld bættist einn við ... það verður því nóg að gera í næstu viku á Íslandinu góða.
Hörkutörn ...

---

Allir í stuði hér ....

---

Frétt dagsins er að Bandaríkjamenn dreifðu LSD yfir franskt þorp skömmu eftir síðari heimstyrjöldina.  Þorpsbúar urðu brjálaðir ... þar á meðal 11 ára drengur sem reyndi að kyrkja ömmu sína?!?!
Það er nú næstum jafnklikkað og að giftast koddanum sínum ... !!

---

Einnig eru góðar fréttir af bönkunum ... fer ekki að verða tilefni til að hrófla eitthvað örlítið við snillingunum sem stýrðu bönkunum fyrir hrun?
Það verður kannski tími til þess þegar búið verður að koma mótmælendum, sem mótmæltu of kröftuglega sukkinu og svínaríinu, bak við lás og slá. 

---

Guddan er í stuði þessa dagana ... það er alveg hreint merkilegt að hún þurfi alltaf að sofa þversum í rúminu á nóttunni?!?!
Þegar þrír deila rúmi er þá einhver sanngirni í því að að sá minnsti og aumasti heimti að fá að liggja þversum og leggi nánast allt rúmið, sem er um 3.2 fermetrar að flatarmáli, undir sig?!?!

Hvaða aulagangur er það eiginlega af hinum tveimur að láta þetta yfir sig ganga ... ?!?!

---

Var í gærkvöldi að bera saman myndir sem teknar voru af spikinu á mér þann 16. janúar sl. og í gærkvöldi.
Niðurstaðan var sú eftir gaumgæfilega skoðun að enginn munur væri á myndunum ... ég neyðist til að viðurkenna það, þó ég hafi reynt að vera mjög hlutdrægur.

... ég er samt í miklu betra hlaupaformi núna en 16. janúar sl. ... þannig að þetta er ekki alveg til einskis ...
... kannski ætti ég að prófa hestaastmalyfið sem rætt var um í Kastljósinu í gær ... dúndrandi árangur, 10 kg á tveimur vikum og einu aukaverkanirnar eru svo mikill skjálfti að maður verður ófær um að skrifa nafnið sitt ... og reyndar er einnig möguleiki á hjartastoppi, enda hvíldarpúlsinn rúmlega 100 slög/mín ...

**********************************
19. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

4.3 km hlaup - var þungur í dag ... er að pæla í því hvort það geti tengst því að ég drekk ekki nóg mikið vatn?

Út að hlaupa á morgun
********************************

*******
18. dagur í ekki-kók-drykkju

Rugllétt
******


Miðvikudagur 10. mars 2010

Dagurinn hefur farið í að slípa heilmikla fyrirlestra sem eru nú orðnir að veruleika ... slípunin þarf að halda áfram á morgun ... en allt þokast þetta í rétta átt.

---

Það er engu líkara en vorið sé aðeins og láta sjá sig hérna, mikil sólbráð í dag ... og gaman að sjá hvað snjóinn tekur upp með penum hætti.  Ekki þessi djöfulgangur sem oft fylgir hlákunni heima á Íslandi ... það er svona heimsborgarabragur á þessu öllu saman.

---

Hún var vakin upp kl. 8.30 í morgun ... og hún var ekki búin að vera vakandi nema í nokkrar sekúndur þegar hún sagði "bíbí" og benti á gluggann, enda mátti heyra glaðværan söng frá fugli sem hafði komið sé fyrir á þakskegginu.

Það er alveg merkilegt hvað dóttirin er fljót að vakna.  Hún bara opnar augun og nánast umsvifalaust, setst hún upp, byrjar að spjalla og svo er hún oft staðin upp í rúminu innan 30 sekúndna frá því að hún opnar augun.  Ekkert verið að hangsa ... alveg hreint magnað ...

---

Lauga vann mikinn persónulegan sigur í dag þegar hún tók að sér símaráðgjöf í vinnunni.  Það ku vera býsna strembið viðfangsefni, sem flestir vilja gjarnan vera lausir við, jafnvel þó þeir hafi sænsku að móðurmáli.  
Lauga sum sé rúllaði upp verkefninu og var yfirmaður svo ánægður að hann jós hana lofsyrðum ... sem sumum þótti nú ekkert leiðinlegt ... skárri væri það nú!! :)

Þetta kemur mér náttúrulega ekkert á óvart, því ég held því fram við hvern sem er að betri starfskraft sé ekki hægt að hugsa sér. 
Hún er áhugasöm, klár, dugleg, framtakssöm, hefur frumkvæði, skemmtileg, hefur frábæra samskiptahæfileika, samvinnufús, metnaðargjörn, vandvirk og síðast en ekki síst er hún stálheiðarleg.


Kona dagsins á íslagðri Reykjavíkurtjörn í febrúar 2007.

---

Smá af þjóðmálnum.  Það er nefnilega glæsilegt að sjá hvernig álfyrirtækin hafa náð fram ótrúlega hagstæðum samningum á Íslandi síðustu misserin ...

Þetta hafa nú verið meiri snillingarnir sem sömdu fyrir Íslands hönd í þá daga ... það hefði nú verið nær að hafa svo sem eins og einn Sigmund Davíð í þeirri samningagerð.
Grjótharðan nagla sem er 200% viss um að hann hafi algjörlega rétt fyrir sér ...

Það er eiginlega ekki hægt að segja eitt einasta orð um þessa raforkusamninga ... slík er snilldin ...
... og ekki eru eftirköstin af virkjanabrjálæðinu og því rugli öllu saman síðri snilld ...

Og það besta er að meira en 40% fólks á Íslandi vill fá þau stjórnvöld sem bera ábyrgð á öllu þessu rugli aftur til að taka við stjórnartaumunum ... það er sennilega mesta snilldin af öllu ...

---

En langsamlega mesta snilldin af öllum snilldum þessa dags er maðurinn sem giftist koddanum sínum ... eftir að hafa lesið þessa frétt og horft á myndbandið, getur maður ekki annað en hugsað hvað þetta líf er stórkostlegt :D .

Giftast koddanum sínum ... !! :D

********************************
18. dagur í líkamrækt árið 2010 (2. tilraun)

Hljóp 4.3 km

Fer aftur út að hlaupa á morgun
**********************************

************
17. dagur í ekki-kók-drykkju

Of létt
*********

 

******************************


Þriðjudagur 9. mars 2010

Þetta hefur verið mjög effektífur dagur hjá mér ... námskeiðið sem ég á að halda á mánudagskvöldið næstkomandi í Gerðubergi er að verða tilbúið.

Nú er ekkert annað en að skrá sig ... það er hægt að gera hérna ... og svo mæta.

Námskeiðið heitir ... Maðurinn, umhverfið og umhverfissálfræðin ...

Það er hægt að lofa fróðlegu og skemmtilegu námskeiði ...

---

Annars eru bara allir í stuði ... það er aðeins tekið að vora hérna í Uppsala.  Að minnsta kosti er mér farið að líða eins og kjúklingalegg á grilli, þegar ég sit við tölvuna á daginn og sólin skín inn um gluggann.

************************
Nennti ekkert að gera í líkamsrækt í dag og drakk kók ...

Bæti úr þessu á morgun ;)
************************


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband