Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Lausnin hans Gero ...

Jæja ... þá er komið að því að upplýsa fólk hvernig prófessor John Gero leysti þrautina með X sem er samtímis lægra en 5 og hærra en 10 ... 

Hérna færðu að sjá Gero ... alltaf betra að sjá fólk til að átta sig á hlutunum ...

En Múrenunni bárust þrjár tillögur og ein beiðni um lausn (sjá athugasemdir við færslu Múrenunnar þann 25. júlí síðastliðinn http://www.murenan.blog.is/blog/murenan/entry/270363/)

Ok, þetta voru allt mjög frambærilegar tillögur, vill Múrenan segja, sem báru greinilega vott um að fólk hefði hugsað út fyrir boxið ... þannig að frex, Helga Guðrún og Benný, þið stóðuð ykkur vel!!!

Múrenan þakkar Þóru einnig fyrir einlægan áhuga ...

En lausn Gero er hérna ... hvort hún er betri eða verri en þær sem lesendur bloggsíðu Múrenunnar lögðu til, skal Múrenan ekki um segja ... og þó hún er verri!!!

IMG_8410

That's all folks!!!


Leitin að Gordonfossum - 9. hluti

Jæja, allt tekur enda ... líka ferðasagan "Leitin að Gordonfossum" ... hér er 9. og jafnframt síðasti hluti hennar. 

En áður en öllu lýkur er best að fara yfir hvernig sagan endar ... því í lok 8. hluta var útlitið ekki beisið ... Múrenan búin að missa lífsviljann eða hvað??  Þráðurinn er tekinn upp hér ...

... komu þau að brú og svo tröppumannvirki miklu ... heldur óskiljanlegu, sem lá í allar áttir, eins og köngullóarvefur (sjá mynd í 8. hluta) ... Skyndilega var eins og Múrenan hreinlega vaknaði ... öll gleði, kæti, galsi og glettni var á bak og burt ...

Spúsan kjagaði niður tröppurnar ... Hún leit upp skælbrosandi ...

"Eftir hverju ertu að bíða??" spurði hún svo ...  Múrenan stóð eins og stytta og hreyfði hvorki legg né lið ... hún var að hugsa.  Og um hvað hugsaði hún??  Hún hugsaði um það hvort spúsan myndi nokkurn tímann komast aftur upp tröppurnar ... það er svo miklu auðveldara að fara niður tröppur  en upp þær ef harðsperrur eru að angra mann ...

Gæti verið að Múrenan þyrfti hreinlega að skilja spúsuna bara eftir?? ... Múrenan starði bara út í loftið ... Svo rankaði hún við sér ... það var víst best að brjóta upp stemmninguna núna með því að taka bara mynd ...

"Heyrðu, viltu ekki taka mynd af mér þegar ég labba hérna niður tröppurnar??"  spurði Múrenan ... "Jú, en nennir þú þá ekki að koma niður með vélina til mín?  Það er nefnilega svo vont að fara upp ..."  Sko ... þarna sérðu lesandi góður ... þekking Múrenunnar á harðsperrum virtist stemma nákvæmlega en hún minntist ekkert á þetta.  "Jú, jú ... ég get svo sem alveg gert það" og svo stokkaði Múrenan léttilega niður tröppurnar, afhenti vélina og tölti svo mjög lipurlega upp aftur ... sneri við og labbaði niður þær aftur ...

IMG_8254

Þar með voru þau bæði staðsett í miðju köngullóarvefs-stigans ógurlega ... "Hvert skal halda?" spurði Múrenan svo ... "Hingað!"  Spúsa gaf merki um stefnu.  Upp fjórar tröppur ...  Múrenan tætti upp tröppurnar ... hún var svo ofsalega létt á sér og kraftmikil að hún varla réð við það ... dálítið svona eins og 500 hestafla, upptjúnnaður Ford Mustang með flækjum og á breiðu dekkjum að aftan ... hvað svo sem það þýðir!!??!  Allavegana í gríðarlega góðu formi!!!   

Spúsan ætlaði varla að hafa sig upp tröppurnar ... "Guð minn góður", hugsaði Múrenan ... "þetta lítur illa út ... hún fór upp fjórar tröppur núna en á bakaleiðinni eru 361 trappa í það minnsta!!"

En þegar upp tröppurnar fjórar var komið blasti við fögur sjón ... foss  ... jafn lítill og ræfilslegur og allir hinir fossarnir sem Múrenan og spúsan höfðu séð á leiðinni, rifjum þá upp ... Katoombafossar og Leurafossar ...

Nú tók Múrenan upp kortið sigri hrósandi ... þau höfðu fundið Gordonfossa ... loksins!!!  Múrenan hló. Loksins!!! ... En spúsan var eitthvað efins ...

"Leyfðu mér aðeins að sjá kortið!" skipaði hún höstugum rómi ... Múrenan rétti henni kortið.  Hún horfði lengi á það.

"Þetta geta ekki verið Gordonfossar ... " sagði hún svo.  "Jú, jú, þetta eru Gordonfossar!!"  Múrenan var handviss ...  "Nei, sjáðu hérna ... sko ... hérna eru Leurafossar, svo fórum við hérna, þar sem frostnu greinarnar voru ... við löbbuðum framhjá Olympic Rock og svo yfir brúna og tröppurnar og svo hingað og ... við erum hérna núna!!"  Hún benti með vísifingri á kortið. 

IMG_8407 

"Nei, það getur ekki verið ... hér eru Gordonfossar merktir inn og við höfum ekki farið framhjá neinum fossum ... þannig að með einfaldri rökhendu þá má finna það út að þetta eru Gordonfossar!!!"  Múrenan var eins viss og hægt er að vera ... sum sé 100% viss!!

Það er alveg hiklaust hægt að sleppa stórum kafla úr sögunni núna ... því þarna stóðu þau við einhverja sprænu sem lak niður klettavegg og deildu um hvort þetta væri Gordon eða ekki ...

En kortið virtist engan veginn fært um að veita þær upplýsingar, sem óskað var eftir ... það var óumdeildanlegt ...

Eftir kítið vildi spúsan setjast í sandinn, sem þarna var ... já, við hylinn hafði safnast mulinn sandsteinn ... tjaaaa, líklega er auðveldast og skýrast að tala bara um sand í þessu tilfelli ... ókei ... spúsan vildi setjast í sandinn en ...

... það var hægara sagt en gert því harðsperrurnar voru samar við sig!!!

Það voru því kostuleg tilfæringar sem Múrenan hafði fyrir augunum þegar spúsan, eftir töluverða umhugsun, lét sig bara falla hátíðlega á óæðri endann ... minnti helst á gamlan fullan karl ... nei, þetta minnti á kú sem var leggjast.  Fyrir þá sem ekki vita hvernig kýr leggjast þá skal það útskýrt hér ... þær fara fyrst niður á framfótarhnéin og eftir ofurlítinn andlegan undirbúning láta þær sig falla á aðra hvora hliðina með töluverðum tilþrifum.  Þessum aðgerðum fylgja oft miklar stunur og þegar allt er komið í rétt horf, láta þær sig ekki muna um að andvarpa svo innilega að fá dæmi eru um annað eins ...

... það var því með þessum hætti sem spúsan fékk sér sæti í sandinum fyrir framan fossinn ... 

IMG_8257

En tilveran virtist að öðru leyti vera í mjög alvarlegum hnút ... voru þetta Gordonfossar eða ekki???  Mikið lifandis skelfingar ósköp óskaði Múrenan nú að velinnrætta og prýðilega málfarna stúlkan í upplýsingunum nærri lestarstöðinni myndi birtast og höggva á þennan hnút ... en því miður, það gerðist ekki.  En hvað átti hún eiginlega með það að láta Múrenuna fá svona ömurlega lélegt kort??  Múrenan ætlaði að klaga ... einhvern tímann ...

"Voru Gordonfossar ekki bara þar sem við fórum fyrir brúna??" spurði spúsan svo eftir drykklanga stund, þar sem hún sat í sandinum.  "Nei, það getur ekki verið ... það voru nú bara tré undir þessari brú, það rann ekki deigur dropi undir hana ... "  "Hafa þeir þá ekki bara þornað upp??  Það er nú ekki eins og þetta séu einhver stórfljót sem renna fram af þessum klettasillum!!"  "Já, en kommon ... á kortinu virðist þetta vera hið virðulegasta vatnsfall ... en hvaða foss er þetta þá?"  "Ég veit það ekki!!  Þetta bara stemmir ekki ... "

Tíminn leið ... og loks kom að því að spúsan reyndi að standa upp ... ekki voru tilþrifin minni nú en þegar hún settist ...

... hún velti sér yfir á hnéin, reisti afturendann tignarlega upp til himins og hafði sig þannig upp ... með óhljóðum.  Múrenan aðstoðaði spúsuna og fékk sting í hjartað að hlusta á formælingar hennar meðan á upprisunni stóð ...

"Jæja, hvort þetta eru Gordonfossar eða ekki ... það veit ég ekkert um ... en ég legg til að við köllum ferðasöguna bara "Leitin að Gordonfossum"!!!"

Þau fetuðu sig upp á Gordonfossa-tjaldsvæðið, upp að minnsta kosti 361 tröppu ... spúsan æmti og skræmti í hverju skrefi ...

... sólin var farin að síga á himinum, það var að koma kvöld ...

ENDIR

 


Tungl veður í skýjum ...

Það er svolítið gaman að því að þegar maður hringir heim ... þá er iðulega spurt að því hvað klukkan sé hérna í Sydney ... og maður svarar og viðkomandi fer nær alltaf að hlægja.  Já, þetta þykir skrýtið ... og það er það líka.  Hnattræn staða gerir það að verkum að maður er staddur einhvers staðar í íslenskri framtíð ...

Hjá mér fer sunnudagurinn 29. júlí mjög fljótlega að renna sitt skeið á enda því klukkan hér er 10 tímum á undan þeirri íslensku og svona til skemmtunar þá læt ég eina mynd fljóta hér með því til staðfestingar ... hún var tekin af svölunum okkar í Bourke Street, fyrir rúmlega tveimur klukkustundum þegar klukkan var 10:30 að morgni að íslenskum tíma ... á sama tíma og margir Íslendingar voru að rísa úr rekkju og hugsuðu sér gott til glóðarinnar með sunnudagsmorgunmatinn ... Þá vorum við Lauga að huga að kvöldmatnum!!

Á myndinni veður vetrarmáninn í skýjum, hér í Sydney ...  

Tungl veður í skýjum

 


KISStory 28. júlí 2007

Múrenan er mikill aðdáandi hljómsveitarinnar KISS ... og hefur verið það allt frá því 1983 eða frá liðsmenn hljómsveitarinnar felldu grímurnar í fyrsta sinn og hin magnaða plata Lick it up kom út ...

Þrátt fyrir að ýmislegt hafi gengið á í sögu þessarar merku sveitar, bæði fyrir og eftir að Múrenan hafði vit á því að verða aðdáandi, þá mun 28. júlí 2007 óneitanlegan verða talinn með stærstu dögum hennar.  Því þá, í fyrsta skipti í 34 ár, lék hljómsveitin á tónleikum sem tríó og það sem meira er, hún lék án þátttöku gítarleikarans og söngvarans Paul Stanley (þess sama og Múrenan vitnaði í fyrir nokkrum dögum).

Ástæða þessa var hjartsláttaróregla sem gerði vart við sig hjá kappanum í svokölluðu "sánd-tékki", þegar tónleikar gærdagsins voru í undirbúningi í Soboba kasínóinu í San Jacinto í Kaliforníu.  Þetta voru lokatónleikarnar í ofurlítilli tónleikaferð sem bar heitið "Hit & Run 2007".  Áhugasamir geta lesið frekar um þetta á www.kissonline.com.

Frétt sem þessi snertir viðkvæmar taugar í Múrenunni, því þótt tengsl Pauls og Múrenunnar séu ekki á persónulegum nótum, þá hafa fleiri myndir hangið uppi af Paul Stanley í híbýlum hennar en af nokkrum öðrum manni lifandi eða dauðum, þó hugsanlega að Gene Simmons félaga Pauls í KISS, undanskildum.

Paul gengir því stóru hlutverki í lífi Múrenunnar, án þess að hann hafi hugmynd um það ...

... í þessu ljósi skilur Múrenan vel það sorgarferli dyggustu aðdáendur Harry Potter þurfa að ganga í gegnum þessa dagana ...

... því það er alltaf sorglegt þegar einhver sem skiptir máli er veikur eða hverfur af sjónarsviðinu!!    Svo einfalt er það nú bara!!


Leitin að Gordonfossum - 8. hluti

Hér hefst 8. hluti ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum" ... já, 8. hluti ... Sjö hlutar eru að baki, meirihluti sögunnar sumsé ... Múrenan sagði það í 7. hluta að hún myndi ekki ráðleggja neinum að gera neitt og vitnaði í orð mjög góðs manns í því sambandi ...

Þannig að við þig lesandi góður, segir hún bara: "Gjörðu svo vel, hérna er 8. hluti." 

Mjög skringilegir atburðir voru að gerast, þar sem Múrenan í upphafi ferðarinnar inn að Gordonfossum söng digrum rómi strófur úr Ástardrykknum eftir Donizetti ... engin hræðsla, engar áhyggjur, ekki neitt ... harla ólíkt Múrenunni eða hvað??? ... Ekki svo að skilja að Múrenan sé neinn aumingi ... þvert á móti ... hún er raunsæ, ábyrg, þokkafull og síðast en ekki síst ... áreiðanleg!!!  En hefjum nú leikinn þar skynsamlegast er að hefja hann ... það er þar sem 7. hluti endaði ...

... ef spúsan hefði ekki alltaf verið að grípa fram í söngnum, þá hefði þetta bara verið skrambi gott hjá Múrenunni, eins og hljóðupptakan upplýsir þig, elsku besti lesandi ...

En það var ekki bara góður svefn um nóttina sem létti Múrenunni lífið ... það voru aðrir hlutir einnig ...

"Laaaalalalalaaalalalalalalalala ... " söng Múrenan, með öllum þeim hraða- og styrklegabreytingum sem Donizetti hafði gert ráð fyrir þegar hann samdi þessa miklu óperu.  Eftir að söngnum lauk hrópaði hún svo "bravó, bravó, bravó!!!" til að fagna eigin frammistöðu og því fylgdu svo húrrahróp, fjórföld eða fimmföld ... Óneitanlega mjög undarlegt!!!  Svo upphófst söngurinn aftur ... sömu línurnar, bravóin og húrraköllin og aftur og aftur ... Ef Múrenan hefði verið spúsan, þá hefði hún hringt strax á sjúkrabíl og látið skulta Múrenunni á eitthvert hæli ... en Múrenan var ekki spúsan þannig að það var ekki gert.  Spúsan hafði líka um allt aðra hluti að hugsa ... 

"Æi, værir þú ekki til að syngja eitthvað annað ... þetta er eins og að hlusta á bilaða plötu ... " sagði hún svo allt í einu, algjörlega fyrirvaralaust!!  Eins og stundum áður átti Múrenan ekki til orð ... þarna hafði spúsan sannarlega tækifæri á að hlusta á söng Múrenunnar ... gleymum því ekki ... Múrenan er enginn viðvaningur í söng, búin að læra helling í klassískum söng ... í mörg ár!!  Hún sagði samt ekkert en hugsaði "isss ... þessi spúsa er nú bara menningarsnauður Grindvíkingur ... " 

Þessar dylgjur og óþarfa leiðindaskot spilltu þó ekki gleði Múrenunnar, þó svo þau hefðu auðveldlega getað gert það því hefðu flestir orðið ákaflega sárir að fá svona tusku, rennandi blauta, framan í spegilfagurt fésið.  Mjög sennilega hefðu þeir hætt við leitina að Gordonfossum og bara farið heim ... í fýlu.  Múrenan er undantekningin ... sem sannar regluna!!!

"Jæja, nú skulum við leggja af stað ... þetta eru 45 mínútur ... Gordonfossar og málið er dautt!!" 

Múrenan valhoppaði af stað, hún var velmett eftir morgunmatinn, sem hafði verið yndislegur, pylsurnar svo ljúffengar!!! ... og til að toppa allt þá hafði fúla kerlingin, sem var deginum áður, verið á frívakt og í hennar stað ákaflega gjörvilegur kvenkostur sem brosti, hló og fór með gamanmál, meðan hann þeyttist um morgunverðarsal TCM ... þvílík lífsgleði, þvílík orka ... útgleislunin var ómótstæðileg ... en það var ekki bara þetta sem kætti Múrenuna ...

Allt í einu var Múrenan komin á útsýnisstað, Tarpelan Rock ... langt á undan spúsunni ... "Hó, hó ... ertu ekki að koma?!?!" kallaði Múrenan ... svo hoppaði hún og skoppaði um útsýnisstaði, skríkjandi af gleði ... "jæja, þarna ertu þá??" "Taktu mynd af mér!!!  Núna!! Strax!!!"  Spúsan hreyfði ekki við mótmælum tók upp myndavélina og skaut á Múrenuna þar sem hún stóð á hæsta "tindi", ekki ósvipað Jesús þar sem hann trónir yfir Rio de Janiero í Braslíu ... Múrenan átti heiminn ...

IMG_8211

"Ert' ekki hress??!!" spurði Múrenan spúsuna í sömu mund og hún stökk léttilega ofan af "tindinum".  "Nei!! Ég er það ekki!"

Hvað var að gerast???  Af hverju var spúsan ekki hress ... hví þessar skyndilegu breytingar??

Já ... kæri lesandi ... taktu nú eftir ... Múrenan valhoppar, hoppar léttilega, skríkir og syngur ... þú er með ...
... hins vegar og taktu nú enn betur eftir ... Vandi og "óhressleiki" spúsunnar lá í því að hún gat varla hreyft sig ... fyrir HARÐSPERRUM!!!

Já, herrar mínir og frúr ... spúsan var með bullandi harðsperrur eftir litla stigaræflinn sem þau höfðu farið upp daginn áður ... fullkomlega andstætt Múrenunni sem bara fann ekki fyrir neinu ... ekki það að hún hefði nokkurn tímann búist við því!!! 
"Hahahahahahahahhahhaa!!!"  Múrenan teygði sig, sveigði og beygði ... "ég er nú bara í mjög góðu formi í dag ... en þú?? ... ó fyrirgefðu ... "  Þessi augljósu yfirburðir Múrenunnar ... hvað líkamlegt atgervi snertir, voru henni svo mikið gleðiefni ... að helst minnti á kálf að vori.

Þau héldu áfram ... Múrenan alltaf langt á undan, syngjandi, blístrandi og kveðandi rímur ... Fram að þessu hafði trjáþykknið verið skaplegt en nú var að verða breyting á því, tréin risu upp hærra og hærra, skógurinn þykknaði og þykknaði, allt varð einhvern veginn svo yfirþyrmandi ...

IMG_8223

En allt í einu sá Múrenan svolítið merkilegt ... alveg stórmerkileg ...

Múrenan nam staðar og leit upp ... "jaaa ... þetta er undurfallegt ... " 

Múrenan var hérumbil sofnuð þegar spúsan kom loks ... en reisti sig upp og sagði: "Sérðu þetta??"  Og hvað heldur þú að spúsan hafi sagt núna??  Hún sagði: "Þetta er merkilegt!!" en bætti svo við: "Skemmtilegt að sjá hvernig klakinn formast ... "  "Myndavélina!!!" skipaði Múrenan höstuglega og fékk myndavélina í hendur umsvifalaust ... alveg eins og lög gera ráð fyrir. 

Hér fyrir neðan má sjá hvað fyrir augu þeirra bar ... klaki á greinum!!

IMG_8234 

Svo héldu þau áfram leið sinni ... en af því að skógurinn var svona mikið að þykkna, ákvað Múrenan að leyfa spúsunni að vera á undan ... einungis vegna þess að spúsan gæti annars týnst og orðið villidýrum að bráð, hefði Múrenan ekki vökult auga með henni.  Að minnsta kosti taldi Múrenan sér trú um það ...

Þau gengu og gengu ... hægt að vísu ... því spúsan komst náttúrulega ekkert úr sporunum ... alltaf emjandi og vælandi yfir stífleika í kálfum.  "Já, já ... ókei, ég veit að kálfarnir eru stífir en getum við ekki haldið aðeins áfram!!!"  Múrenan var samt ekkert pirruð ... vildi bara halda spúsunni við efnið!!!

En nú tók málið að vandast og það allverulega ... því samkvæmt kortinu margumtalaða áttu Múrenan og spúsan brátt að nálgast Gordonfossa ... en ekkert virtist benda til þess að þeir væru nærri ... þau gengu áfram ...

... eins og nánast upp úr þurru, komu þau að brú og svo tröppumannvirki miklu ... heldur óskiljanlegu, sem lá í allar áttir, eins og köngullóarvefur ... Skyndilega var eins og Múrenan hreinlega vaknaði ... öll gleði, kæti, galsi og glettni var á bak og burt ...

 Spúsan kjagaði niður tröppurnar ... Hún leit upp skælbrosandi ...

IMG_8251

"Eftir hverju ertu að bíða??" spurði hún svo ... 

Jáhá ... eftir hverju var Múrenan að bíða??  Sá hún ef til vill eitthvað sem spúsan sá ekki??? 
Í 9. og síðasta hluta ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum" verður farið í saumana á því sem hér er að eiga sér stað ... Taktu eftir þar sem sagt er  "öll gleði, kæti, galsi og glettni var á bak og burt ... " - hvað er eiginlega að gerast???  Lokauppgjör er í vændum ... finna þau Gordonfossa???

Misstu ekki af 9. og síðasta hluta ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum"!!!! 


Þrautin hans Gero

Svona til að segja einhverjar fréttir utan sögunnar um leitina að Gordonfossum langar Múrenuna til að upplýsa alla nær og fjær að hún hefur hafið meistaranám sitt í umhverfissálfræði hérna í Sydney ... ekki dónalegt það ... fyrsti dagurinn var á mánudaginn ... merkja það í minnisbókina ... "Múrenan hefur meistaranám í umhverfissálfræði við háskólann í Sydney" - fínt!!

En þetta var ekki það sem Múrenan ætlaði að segja ... heldur miklu frekar það að hún fór á fyrirlestur í dag hjá snillingi nokkrum sem kallar sig John Gero, eða öllu heldur svo ekki sé farið rangt með staðreyndir ... foreldrar hans skírðu hann John Gero ... að minnsta kosti gerir Múrenan ráð fyrir því ... en ...

... herra Gero var að tala um fyrirbæri sem kallast "design thinking" og ræddi í því sambandi um mikilvægi þess að hugsa út fyrir "boxið" og kom með dæmi, sem er eftirfarandi ...

... í hvaða tilfellum getur X verið samtímis hærra en 10 og lægra en 5?

Getur þú lesandi góður ráðið þessa gátu með því að hugsa út fyrir "boxið"? 

Ef einhver lesandi biður um svarið við spurningunni með því að skrifa beiðni í Athugasemdir ... þá mun Múrenan birta svar Johns Gero á bloggsíðunni ... en biðji enginn lesandi um svarið, þá reiknar Múrenan með því að enginn hafi áhuga á að vita það og mun þá ekki birta það ...

Þannig að valdið í yðar höndum minn kæri / mín kæra ...


Leitin að Gordonfossum - 7. hluti

 

Þú ert að hefja lestur 7. hluta ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum" ... þetta er hörkuspennandi saga byggð á raunverulegri baráttu tveggja Íslendinga í óbyggðum Ástralíu, The Blue Mountains ... Hver urðu örlög þessa fólks í leitinni að Gordonfossum, einhverju mesta vatnsfalli hins illfæra Jamison dals?

Ef þú ert ekki alveg með á nótunum núna ... gæti það stafað að því að þú hefur ekki lesið þá sex hluta sögunnar sem eru undanfarar ... nauðsynlegir undanfarar, meira að segja.  Á þessari bloggsíðu tíðkast það ekki að segja fólki fyrir verkum ... að ráðleggja fólki ... gleymum ekki orðum gítarleikara og söngvara hljómsveitarinnar KISS, Paul Stanley sem sagði eitt sinn: "Besta ráðið sem ég get gefið er að hlusta ekki á ráð annarra".  Þetta er fleyg orð ... sem verða í heiðri höfð á bloggsíðu Múrenunnar ...

En ...

... Múrenan og spúsan voru komin í hann krappan við lok 6. hluta ... leiðin að Gordonfossum virðist torsóttari en ætlað var í fyrstu ... ástandið var slæmt ... Við hefjum hér 7. hluta ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum" á upprifjun á síðustu línum þess 6. ...

... svo slæmt hafði það nú aldrei verið í Jamison dalnum ... aldrei!!!  Vafalítið var hér um hættuspil að ræða ... Meira að segja, glíman við risastigann virtist ærið léttvæg í þessum samanburði ... Þau þræddu aurugan slóðann, sveigðu sig og beygðu í því skyni að komast í gegnum skógarþykknið, en þrátt fyrir það slógust trjágreinar í höfuð þeirra, rispuðu ásjónur og rifu föt.

Skyndilega mátti greina þungan vatnsnið, ... Hjarta Múrenunnar tók kipp.  "Heyrir þú þetta?" spurði hún spúsuna mjög skýrum rómi.  Já, spúsan heyrði þetta.  "Þetta er foss" sagði  Múrenan.  "Já, ég veit það" svaraði spúsan.  Voru Gordonfossar loksins fundnir?!??!?  Múrenan tók upp kortið, já ... vel á minnst, kortið sem velinnrætta og lipurlega málifarna stúlkan í upplýsingunum nærri lestarstöðinni (sjá hluta 1) hafi látið þau fá.  Múrenan rýndi í kortið ... ef þessu korti var treystandi ... þá voru þetta ekki Gordonfossar!!!  Þetta voru Leurafossar ... Múrenan stundi ... "Djöfulsins helvíti!!"  Þá reif spúsan kortið af Múrenunni ... Múrenan átti ekki til orð ... þetta var nú meiri andskotans frekjan!!!  "Heyrðu mig ... hvað er eiginlega að þér??" spurði Múrenan spúsuna ... spúsan virtist ekki heyra hvað Múrenan var að segja, klóraði sér bara í hausnum og góndi á kortið ... Það var ekki sjón að sjá hana!!!

Þau gengu á hljóðið og loksins kom fossinn í ljós. 

 

Skilti við hann sagði að þetta væru "Leurafossar" ... jú, kortið var rétt, því miður ... og hver þurfti að greiða fyrir það ... Múrenan!!!  Því hefði kortið verið rangt og þetta hefðu verið Gordonfossar, hefði lokatakmarkinu verið náð og allir hefðu getað farið heim ... en nú þurfti áfram að halda.  En þar sem Múrenan og spúsan stóðu þarna, birtist allt í einu par, durtslegur piltur en nokkuð snotur stúlka, að mati Múrenunnar ... "Er hægt að komast hringinn hérna??" spurði durtslegi strákbjálfinn, hrokafullri röddu.  "Hringinn?!?"  Múrenan átti ekki til orð ... vissi drengurinn ekki að hann var staddur í sögu, sem var hræðilega spennandi og ofsalega hættuleg ... nei, greinilega vissi hann það ekki!!!  Spúsan varð til fyrri til svara: "Ég veit það ekki ... " "Veistu það ekki???  Hvaðan komu þið eiginlega??"  Múrenan steig nú fram ... "Heyrðu góði minn, vilt þú ekki bara hypja þig í burtu ella þú hlýtur verra af ... !!!"  Hún sagði þetta samt ekki, en rosalega langaði hana til að segja þetta ... Múrenan steig því bara aftur og svo fram og aftur, eins og hún væri aðeins að liðka bakið ... "Við komum úr þessari átt!!" sagði spúsan og benti.  "Jæja, ok."  Þau hurfu á braut.

Enn á ný lögðu Múrenan og spúsan af stað ... og viti menn brátt komu þau að enn einu skiltinu ... ein píla var til vinstri og ein til hægri.  Ofan við pílu til hægri stóð "Hringleið" en yfir þeirri vinstri stóð ... Gordonfossar!!! ...

"Æi, ég er þreytt, förum heim núna, við getum skoðað þessa Gordonfossa á morgun" sagði spúsan ... Enn einu sinni í þessari ferð varð Múrenan orðlaus!!!  Fara heim!!! Núna!!!  "Ókei" sagði hún.  Þau gengu upp hættulegar tröppur ... ein tíu þrep eða svo og áfram upp með "Leura-ánni" ... spúsan ruddi leiðina og gaf merki, en Múrenan kom nokkuð á eftir og gætti þess að ekkert óvænt kæmi í bakið á þeim ...

... brátt voru þau komin upp á bíla- og tjaldsvæði. 

Þau gengu eftir Cliff Drive, það var tekið að rökkva ... aðeins ofurlitla skímu lagði frá þeim fáu ljósastaurum sem stóðu við götuna ... þau beygðu og fylgdu Merriwa Street, svo Lurline Street, Waratah Street og loks Katoomba Street, allt þar til áfangastaðnum ... Town Centre Model ... var náð.  Múrenan var uppgefin ...

... og þess vegna fór spúsan bara ein út í búð og keypti þennan líka dýrindis kvöldmat, banana, jógúrt, poppkorn (sem reyndar var mjög vont!!), kartöfluflögur, eitthvað að drekka og síðast en ekki síst sykurhúðað brauð ... og það sem besta var ... þetta var frekar ódýrt ... mátti nú líka alveg vera það!!!

Múrenan lá fyrir á meðan, þrotin andlegum og líkamlegum kröftum, ævintýri dagsins runnu í gegnum huga hennar ...

"Mikið var!!" hreytti Múrenan út úr sér þegar spúsan kom aftur.  Þetta gerði Múrenan til að tryggja að spúsan myndi gera skyldu sína, það er að færa Múrenunni mat og drykk ... í rúmið ... 

Þau átu matinn og horfðu á sjónvarpið um kvöldið ... rosalega næs!!

En ....

... strax næsta morgun héldu ævintýrin áfram ... að lokum yndislegum morgunmat, þar sem Múrenan úðaði í sig þangað til hún stóð á blístri (gleymum því ekki að morgunmaturinn var innifalinn í rándýrri gistingu á TCM ... þannig að Múrenan var bara að reyna að fá sem mest fyrir peningana), gengu þau aftur sömu leið og kvöldið áður.  Að bíla- og tjaldsvæðinu og niður að skiltinu ... Núna skyldi takmarkið nást!!! 

Það sem þurfti að gera var að fylgja stígnum í um það bil 45 mínútur ... og þá myndu Gordonfossar blasa við ... einfaldara gat það nú ekki verið ... Múrenan hló!!  "Issss ... ekki málið."  Það var greinilegt að hún hafði sofið vel TCM þessa nóttina ... "Laaaalalalalaaalalalalalalalala ... " söng Múrenan, en fyrir þá sem það ekki vita þá eru þetta brot úr Ástardrykknum eftir Donizetti.  Ef spúsan hefði ekki alltaf verið að grípa fram í söngnum, þá hefði þetta bara verið skrambi gott hjá Múrenunni, eins og hljóðupptakan upplýsir þig, elsku besti lesandi ...

 En það var ekki bara góður svefn um nóttina sem létti Múrenunni lífið ... það voru aðrir hlutir einnig ...

... en hér lýkur 7. hluta!! 

Nú er spurningin ... hvað var það sem Múrenan var svo ánægð með að hún söng Ástardrykkinn hástöfum á leið sinni að Gordonfossum??  Hafði eitthvað verið í matnum??  Gat verið að fúla konan í "mötuneyti" TCM hefði sett einhvern fjandann í matinn til að koma Múrenunni fyrir kattarnef?? Hafði álagið síðustu misseri gert Múrenuna snælduvitlausa??? ... Og enn er spurt: Finna þau Gordonfossa???!

Öllu þessu og miklu meira verður svarað í 8. hluta ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum" - bíðið spennt og upplifið fyrst!!!


Leitin að Gordonfossum - 6. hluti

Ef þér dettur í hug að hefja lestur ferðasögunnar "Leitin af Gordonfossum" hér, það er í 6. hluta ... þá er dómgreind þín að bregðast þér illilega.  Það er farið að síga á seinni hluta sögunnar!!!  Múrenan leggur til að þú byrjir á byrjuninni, það er iðulega reynst heillavænlegast!!!  Taka hlutina í réttri röð ...  1. hluti er hérna einhvers staðar neðar á síðunni ... koma svo ... ekkert múður!!!

En ...

... 5. hluta lauk með sögulegri máltíð á veitingastaðnum Blue Mountains Cafe þar sem undarlegur þjónn réði ríkjum.  Leikurinn í 6. hluta hefst, nákvæmlega þar þeim fimmta lauk ...

"Jæja, hvað gerum við nú??" spurði spúsan Múrenuna.  Þau litu á kortið ... "Förum hingað ... skoðum Gordonfossa!!"  "Hví ekki það??" hugsaði Múrenan og þau lögðu af stað ...

... og örkuðu upp Echo Point Road og tóku hægri beygju inn Raymond Road ... ferðin var torsótt í meira lagi, því ekki var nóg með leiðin lægi um snarbrattar brekkur Katoomba ... ískaldur vindur ofan af hásléttum Ástralíu stóð í fangið á þeim við hvert fótmál.  Það var eins gott að Múrenan hafði tekið fingravettlingana sína með sér frá Íslandi ... já, og aukavettlinga handa spúsunni ... 

Þau voru bara nokkuð álitleg húsin sem stóðu við Raymond Road og þrátt fyrir veðurhaminn, skörtuðu garðarnir sínu fegursta í síðdegissólinni ... allt í einu kom spúsan auga á tvö undarleg fyrirbæri ... verur sem Múrenan hafði aldrei fyrr séð með eigin augum, en hugsanlega þó í einhverri myndabók ... Tjaaa, líklega ekki ... Jú, hana rámaði í það ... en þetta var ótrúlega merkileg sýn!!!  Þarna stóðu verunar, tvær að tölu, í einum garðinum við Raymond Road ... af öllum stöðum í heiminum ... og tróðu í sig.  Ekki ósvipað og spúsan hafði gert á Blue Mountains Cafe ...

Múrenan tók upp myndavélina ... þetta var einstakt tækifæri.  Varlega fetaði hún sig nær ... og nær ... hún skipti um linsu, það varð að nota stóru súmmlinsuna til að grípa augnablikið, annað var ekki í stöðunni.  Múrenan fór ennþá nær og mundaði vélina ... klikk, klikk, klikk, klikk ... Múrenan skaut fjórum myndum í röð ... það hafði engin áhrif á verurnar ... klikk, klikk, klikk, klikk ... aðrar fjórar.  Múrenan vék af vettvangi ... hér fyrir neðan má sjá eina af myndunum sem tekin var ... seinna fékk Múrenan að vita að þetta voru Galah Cockatoo eða bleikir kakadúar, fjarskyldir ættingar Kíkí, sem sagt var frá í 3. hluta ...

Staða sólar var farin að lækka ískyggilega, þegar Múrenan og spúsan beygðu af Raymond Road yfir á Cliff Drive en þau létu það ekki á sig fá ... Gangan Cliff Drive var til að æra óstöðugan ... gatan svo hlykkjótt að rangalar egypsku píramídanna í Giza voru hjómið eitt í samanburði og það sem verra var gatan ætlaði engan endi að taka ... Múrenan var algjörlega sannfærð um það að hvaða "göngufífl" sem er, hefði verið tapað vitinu í þessum aðstæðum.  En Múrenan lét engan bilbug á sér finna ... þau skyldu finna Gordonfossa!!!

Loks komu þau að skilti, sem á var letrað "Leurafossar, Bridal Veil View Lookout, Gordonfossar".  "Olræt" sagði Múrenan og hljóp af stað niður stíginn sem skiltið vísaði til ... "Hei, halló, bíddu aðeins maður ... !!!"  Spúsan átti ekki roð í Múrenuna sem þaut eins og eldibrandur yfir stokka og steina ... það stoppaði hana ekkert.  "Hei, hvar ertu maður??!"  Múrenan var svo einbeitt að hún heyrði vart þessi köll í fjarska ... en svo nam hún staðar ...

... slóðin kvíslaðist ... og skiltið sem hafði einu sinni vísað veginn var löngu horfið, aðeins uppistöður þess stóðu eftir og í þeim fjórir rygðaðir naglar ... Nú voru góð ráð dýr.  "Jæja, þarna ertu þá!!"  Jú, það var rétt, þarna stóð Múrenan ... "hægri, vinstri, beint?" "Vinstri" sagði spúsan annars hugar, hugfangin af útsýninu, því, já ... það er rétt að það komi fram ... þau voru stödd á stað þar sem útsýnið var ekki dónalegt!!

Stígurinn lá greinilega inn í gil ... og gróðurinn ... Jamison dalurinn var eins og eyðimörk í samanburði við þessi ósköp ...  Múrenan ákvað að fara hér að öllu með gát, hætti hlaupunum og bað spúsuna að fara á undan.  Það ber þó ekki að skilja það svo að Múrenan hafi verið eitthvað hrædd ... miklu frekar fannst henni það bara betra að spúsuna á undan.  "Nú, á ég að fara á undan ... jæja" sagði spúsan kæruleysislega þegar Múrenan gaf henni merki með handahreyfingum ... svo lagði hún bara af stað í gegnum skógarþykknið.

Og það var sama hversu lengi þau gengu ... aldrei sagði spúsan aftur "þetta er merkilegt" ... Múrenunni þótti það hinsvegar "merkilegt", og spurði því: "Af hverju ertu alveg hætt að segja "þetta er merkilegt""?  Spúsunni vafðist ekki tunga um tönn í það skiptið: "Nú af því að mér finnst þetta bara ekkert svo merkilegt hérna, allt það sem við sjáum núna ... sáum við í dag ... þannig að þetta er bara endurtekning á sama efni!!"  Múrenan átti ekki til orð ... endurtekning á sama efni ... gróðurinn var um það bil að kæfa þau ... svo slæmt hafði það nú aldrei verið í Jamison dalnum ... aldrei!!!  Vafalítið var hér um hættuspil að ræða ... Meira að segja, glíman við risastiginn virtist ærið léttvæg í þessum samanburði ...

Hér endar 6. hluti ... og brátt dregur til tíðinda!!!  Finna þau Gordonfossa??  Eru skekkjur í kortinu sem velinnrætta og lipurlega málifarna stúlkan í upplýsingunum nærri lestarstöðinni (sjá 1. hluta) lét þau fá??  Ef svo er ... hver mun greiða fyrir það??  Og með hverju??  Mun gróðurinn í gilinu verða yfirþyrmandi?

Vertu fyrst(ur) til að upplifa!!  Láttu ekki aðra eyðileggja stemmninguna!!!  Misstu ekki af hörkuspennandi sögu ... ferðasögunni "Leitin að Gordonfossum" 7. hluta!!!

 

 


Leitin að Gordonfossum - 5. hluti

Ekkert þýðir fyrir nýja lesendur að hefja leikinn hér ... því þetta er 5. hluti hinnar margrómuðu ferðasögu "Leitin að Gordonfossum" - ekki sá fyrsti.  Fyrsti hlutinn var birtur hér á síðunni fyrir mörgum dögum og síðan þá hafa hlutar 2 og 3, já og 4 litið dagsins ljós.  Því væri skynsamlegast að vippa sér yfir í 1. hluta og hefja lesturinn ... 

En ...

... margar hindranir voru að baki en fjölmargar biðu þó enn.  Ferðalagi Múrenunnar og spúsunnar í Blue Mountains var hvergi á nærri lokið.  Mesta áskorun ferðarinnar, ja hingað til, sjálfur Risastiginn heyrði þó sögunni til en var Múrenan þrotin kröftum?  Var spúsan að missa vitið?  Átti hugrekki hennar sér einhver takmörk?  Öllu þessu verður nú svarað í 5. hluta ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum".  Og líkt og áður hefst kaflinn á niðurlagi 4. hluta.

... sviðinn framan á lærunum og í kálfunum var nánast óbærilegur.  Skyldi þetta verða endapunkturinn í lífi Múrenunnar??  Námið í Sydney að fara út um gluggann?? 
"Úfff ... mér er heitt" sagði spúsan. "Er vatnið búið??"

Þau stóðu á útsýnispalli og við hann var tengd brú sem lá yfir í eina af Systurunum þremur.  Þetta var nú ekki stórkostlegt mannvirki, kannski svona 10 metrar að lengd, enda stutt frá klettabrúninni yfir í Meehni, stærstu systurina, sem teygir sig upp í 922 metra miðað við sjávarmál.  

Spúsan opnaði töskuna og náði í vatnsflöskuna ... einhverjir dropar voru nú eftir.  Hún drakk þá alla með tölu.  "Eigum við ekki að labba yfir brúna?" spurði Múrenan, þegar líkamlegum einkennum tengdum stigagöngunni miklu, tók að linna.  "Gaman að geta sagt í skólanum að maður hafi gengið út í Systurnar þrjár ... það er að segja ef einhver veit hvað það er!!"  "Jú, alveg endilega ... komdu" svaraði spúsan.  

"Ég skil nú ekkert af hverju fólk er að henda svona miklu drasli hérna fram af brúnni", tilkynnti kona ein manni sínum í sömu mund og Múrenan gekk framhjá.  Og það var satt, alveg óheyrilegt magn af rusli mátti sjá þarna niðri.  Múrenan var sammála konunni, þetta náði náttúrulega ekki nokkurri átt ... hvað er fólk eiginlega að pæla???

Í Meehni stillti spúsan sér upp, enn einu sinni, og Múrenan tók mynd ...

 

"Váááá ... rosalega er hátt hérna niður" sagði spúsan þegar hún leit yfir handriðið sem hún hafði stillt sér upp við "... maður verður eiginlega hálf lofthræddur hér!!" 
Þarna kom það!!  Greinileg vísbending um þverrandi hugrekki hennar!!!  Ekki fann Múrenan fyrir lofthræðslu, sama hvað hún horfði stíft, þvert á móti.  Hún hreinlega elskaði að horfa þarna fram af og gat ekki stillt sig um að tilkynna spúsunni það.  Múrenan hallaði sér að handriðinu og lyngdi aftur augunum: "Ég hef nú oft horft fram af miklu hærri stöðum en þessum ... ég man til dæmis einu sinni þegar ég var í Þórðarhöfða, ... þú hefðir átt að vera þar ... þá hérna ... "  Hún opnaði augun aftur.  Hún leit í kringum sig ... Engin spúsa???  Hvar var spúsan eiginlega?? 

Greinilega hafði spúsan ekki nennt að hlusta á þessa reynslusögu og var farin frá Meehni og komin yfir brúna yfir á "fast land". 

Þau yfirgáfu útsýnispallinn ... klettabrík Jamison dalsins og fetuðu hægum skrefum stíginn sem lá aftur að Echo Point, tveggja hæða útsýnisstaðnum sem Beta drottning hafi heimsótt árið 1954, eins og áður hefur verið greint frá.  Þau voru komin í örugga höfn og eitt athyglisvert hafði gerst þegar hér var komið sögu ... spúsan var hætt að segja "þetta er merkilegt"!!!

Út á Echo Point var múgur og margmenni ... allt fljótjandi í ferðamönnum ýmist veifandi myndavélum eða uppstilltum fyrir myndatöku.  Múrenan lét nokkrar vaða ... til dæmis þessa, sem sýnir, ef grannt er skoðað, brúna um rætt hefur verið um hér að ofan ...

"Eigum við ekki að fara að fá okkur eitthvað að borða??" spurði spúsan þegar myndatökunum lauk.  Það var greinilegur pirringur í röddinni ... af fenginni reynslu vissi Múrenan að það tengdist næringarskorti hennar ... en til að sýna mátt sinn og megin brást Múrenan illa við þessari athugasemd og mælti höstuglega: "Guð minn almáttugur ... þú ert alltaf að borða!!  Ég veit ekki betur en stórum upphæðum hefði verið eytt í mat í gær ... og þessi dýrinds morgunverður í morgun ... af hverju borðaðir þú ekki meira þá!??!"  Þessi, kannski öfgafullu, viðbrögð Múrenunnar áttu sér þó skýringu ... spúsan hafði gert grín að Múrenunni þegar hún var í skóginum ... ja, kannski pínu hrædd og þurfti ekki annað en að einhver sagði við hana að allt væri í lagi!!!  En nei ... spúsan hafði gert það að leik sínum að niðurlægja Múrenuna og notið sín afar vel í hlutverki þess sterka ... hefndin var því sæt í þetta skiptið, því Múrenan var með bæði sitt veski og veski spúsunnar í vasa sínum!!!

En viti menn ... Múrenan var nánast snúin niður á staðnum ... svona með óbeinum hætti ... "Hvað er þetta eiginlega maður!??  Ég veit ekki betur en það séu að minnsta kosti 6 klukkutímar síðan við borðuðum síðast!!!  Ef þú tímir ekki að fá þér að borða þá er það þitt mál ... ég ætla allavegana að fá mér eitthvað!!"  Já, það var sum sé "hárþurrkumeðferðin" sem hin öfluga Múrena fékk á Echo Point þennan mánudaginn.  "Jæja, þá ... en þetta má ekki vera dýr matur!!"  "Hver er eiginlega að tala um það???  Ég þarf bara að fá eitthvað að borða!!!"  Múrenan fylgdi spúsunni, næstum eins og hundur í bandi ... en það skal vera á hreinu ... Múrenan hélt sinni reisn þrátt fyrir allt!!!  Bara þessi andskotans eyðsla alltaf ... Múrenan ákvað samt að segja ekki neitt!!!

"Immm ... þetta er allt annað" lýsti spúsan hátíðlega yfir, þegar hún hafði rennt niður síðasta bitanum af "lasagnianu" og frönskunum, sem hún hafði pantað sér á Blue Mountains Cafe.  Já og ekki má gleyma gosinu sem rann ljúflega niður kverkar hennar!!  "Rosalega var ég orðin svöng."  Já, það fór ekki á milli mála að spúsan hafði verið svöng ... en hvert fór eiginlega allur þessi matur??  Hún bara tróð og tróð í sig!!  Múrenunni fannst þetta ósanngjarnt!!  Henni fannst það bara skrambi skítt að þurfa að glíma við fituvandamál, á sama tíma og spúsan, sem borðaði miklu meira og hreyfði sig miklu minna, þurfti ekki að pæla neitt í því!!!  Þess hafði Múrenan bara pantað sér ofurlítinn pastadisk og vatn að drekka!

"Rosalega voru litlu kínversku strákarnir sætir þegar þeir voru að eltast við fuglana þarna úti á svölunum" sagði spúsan við Múrenuna, þegar þau komu út af veitingastaðnum, en bætti svo við " ... en maður bjóst nú alveg við því að þjóninn myndi fríka út ... hann var eitthvað ferlega skrýtinn ... fannst þér það ekki??"  Múrenan var sammála ... hún hafði veitt þessum undarlega þjóni, gaumgæfilega athygli allan tímann, við öllu viðbúin ef til átaka kæmi ... kýla undir bringuspalirnar og pota með vísifingri í holuna á hálsinum rétt ofan við bringubeinið ... milli viðbeinanna!! 

"Jæja, hvað gerum við nú??" spurði spúsan Múrenuna.  Þau litu á kortið ... "Förum hingað ... skoðum Gordonfossa!!"

Hér endar 5. hluti ferðasögunnar "Leitin að Gordonfossum".  Þetta var lognið á undan storminum!!!  Finna þau Gordonfossa???  Hvernig díla þau við stórmerkileg fyrirbæri sem verða á vegi þeirra?? Af hverju hætti spúsan allt í einu að segja "þetta er merkilegt"? Þessu verður svarað í 6. hluta ... fylgist áfram með!!
 


Leitin að Gordonfossum - 4. hluti

Ef þú ætlar að fara að lesa ferðasöguna "Leitin að Gordonfossum" núna og hefur ekki lesið fyrstu þrjá hlutana þá þýðir ekkert að byrja hérna!!!  Sumt lútir reglum ... og þessi ferðasaga fyllir í þann flokk ... þetta er 4. hlutinn - "fattaru"??

En ...

... við lok 3. hluta var dramatíkin orðin ... tjaaaa ... allavegana einhver.  Hér kemur framhaldið:

"Assgoti hafa þeir verið heppnir þessir að komast heilir á höldnu í gegnum þetta ævintýri" hugsaði Múrenan.  Nagandi óvissan hélt áfram ... en skyndilega blasti við tilkomumikil sjón ... þetta voru ... Systurnar þrjár?!?  "Miðlungsstórt" gat í laufþakinu var orsökin ... Múrenan þreif kortið upp úr vasanum og leit á það ... tók stöðuna.  Jú, þetta voru Systurnar þrjár!!!  Múrenan og spúsan urðu frá sér numin ... þarna stóðu þau í botni Jamison dalsins og horfðu upp á systurnar baðaðar í sólskini.  Þrátt fyrir að finna greinilega fyrir smæð sinni innan um tröllvaxin tré og þverhnípta klettaveggi sem risu upp snarbrattir í meira en 300 metra hæð, þótti Múrenunni þessi sýn ómótstæðileg ... já hún var bara svo dæmalaust falleg.  Spúsan stillti sér upp og Múrenan smellti af ...

Eftir þessa gleðistund var ekki annað að gera en að halda áfram ... Múrenan var rólegri nú en áður ... nálægðin við systurnar veitti henni öryggi.  Af hverju vissi Múrenan þó ekki.  "Finnur þú fyrir meira öryggi núna en áður?" spurði Múrenan spúsuna.  "Öryggi?!?  Hvað meinarðu?  Hefurðu verið eitthvað óöruggur hérna??!" svaraði hún háðslega.  "Ha ... ég ... nei, alls ekki, ég bara spurði ... "  Spúsan hló.  "Ég trúi því ekki að þú sért hræddur hérna!!!" "Nei, nei ... ég er það heldur ekkert ..."  Múrenan reyndi að vera sannfærandi en ... þetta var vandræðalegt ... "Höldum áfram!!"  Múrenan tók á rás ... og spúsan á eftir.

Nýtt skilti ... "Nú þarftu að velja hvort þú heldur áfram eftir Federal Pass eða ferð upp The Giant Stairway.  Giant Stairway eru 900 þrep og getur verið mjög "intensive" á köflum.  Einungis fyrir velþjálfaða göngumenn."  Það var ekkert annað.  Spúsan tók ákvörðun "Giant Stairway"!!!  Múrenunni varð nánast óglatt við tilhugsunina ... en eftir "öryggis"-samræðurnar fyrr um daginn ... lét hún á engu bera.  "Ekki málið!!" 

Nú tóku við torfærur ... því ganga þurfti töluverðan spotta áður en sjálft "helvíti" blasti við.  Sumstaðar höfðu tré fallið yfir slóðann og hann var ekki lengur breiður og steinsteyptur ... nú var hann mjór, hlykkjóttur og stórgrýttur.  Gróðurþykknið var meira en nokkru sinni fyrr!!  Spúsan tók forystuna ... en þó nemandi staðar, segjandi "þetta er merkilegt" í tíma og ótíma. 

 

Skyndilega heyrðust hljóð ... Múrenan hrökk við, þetta voru engin venjuleg hljóð ... ekki hérna í Ástralíu að minnsta kosti!!  Aldrei nokkurn tímann hafði Múrenan heyrt neitt viðlíka í þessu landi.  "Ertu ekki að koma??" Spúsan var að kalla á Múrenuna.  "Heyrirðu þetta??"  "Já ... er þetta ekki danska?"  "Ooooohhhhhh ... " Múrenan súrnaði ... auðvitað, þetta var bara dönsk fjölskylda í skógarferð!!  Það var bara ekki hægt að sjá hana fyrir öllum trjánum!!  Hvernig í veröldinni var hægt að gera ráð fyrir að hitta Dani hérna!!  En í kjölfar þeirra kom holskefla af öðrum ferðalöngum ... Kínverjar, Spánverjar og eitthvað fleira ...

Loks náðum þau rótum stigans mikla og viti menn ... kemur ekki niður stigann, í loftköstum, hlaupari nokkur í grængulum bol og með derhúfu, já og náttúrulega í stuttbuxum og skóm.  Þegar hann lauk niðurhlaupinu hefði mátt búast við að hann hefði þotið eins og eldibrandur eftir stígnum og inn í skóginn ... en það var nú öðru nær.  Þegar hann kom niður, hoppaði hann þrisvar sinnum og þaut svo aftur upp stigann!!  Indverji sem mætti honum í stiganum átti ekki til orð og hristi bara hausinn.  Múrenan gat ekki varist brosi ... "Það er ekkert annað" sagði spúsan.

Svo lögðu þau af stað upp stigann ... 1, 2, 3, 4, ... 56, 57, 58, ... 245, 246, 247, ... 798, 799, 800 og svo framvegis.  Óheyrilegt svitaútstreymi plagaði Múrenuna í uppgöngunni, strax eftir aðeins 81 þrep ... sveitt bak og enni ... óþolandi.  Spúsan fór úr vindstakknum, lopapeysunni og rauðu ullarpeysunni ... "Mér er heitt!"  Múrenunni kom það nú lítið á óvart ...

"Stairway-ið" tók gríðarlega mikið á ... og aftur kom "hlaupahelvítið" niður eins og með fjandann á hælunum ... "Djöfullinn" hugsaði Múrenan.  Þetta særði egó hennar.  Múrenan að æfa fyrir maraþon-hlaup og rétt hefur sig upp þessa stiga alla saman með einhvern "gorm" hlaupandi upp og niður, eins og ekkert sé ... það var nokkuð ljóst að þetta fyrirbæri myndi rústa kapphlaupi við Múrenuna.  
Svo gerðust undarlegir hlutir, þegar hressilegur maður sem varð á vegi hennar (líklega í þrepi 578 talið neðan frá), spurði hvort það væri langt eftir "þarna niður" ... Hvað átti maðurinn eiginlega við??  Spyrja Múrenuna sem var að streða við að komast upp ... nær dauða en lífi ... hvort hann ætti langt eftir ... niður!!!  Átti Múrenan að falla á kné af lotningu fyrir afreki hans að tipla niður þessa stiga??  Nei!!  Þess í stað öskraði hún "Go to hell" framan í manninn.  "Thanks mate."  Hann hélt áfram ... 

Eftir að hafa fetað þrepin 900, blasti ný áskorun við Múrenunni og spúsunni ... Múrenan reyndi að bíta á jaxlinn ... sviðinn framan á lærunum og í kálfunum var nánast óbærilegur.  Skyldi þetta verða endapunkturinn í lífi Múrenunnar??  Námið í Sydney að fara út um gluggann?? 
"Úfff ... mér er heitt" sagði spúsan. "Er vatnið búið??"

Þau stóðu á útsýnispalli og við hann var tengd brú sem lá ...

Já, hvert lá brúin??? Hvert voru þau eiginlega komin?? Lá brúin að Gordonfossum?  Brást loks hugrekki spúsunnar?  Var hún að missa vitið?  Var Múrenan þrotin kröftum eftir stigagönguna??  Nú fer svo sannarlega að draga til tíðinda ... misstu því ekki af 5. hlutanum!!!

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband