Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Svipmyndir frá Sydney

Fyrir nokkrum vikum, við erum að tala um tímann þar sem Björgólfarnir þóttu ennþá vera töff, lallaði Lauga sér út í búð og keypti litla myndavél, sem út af fyrir sig er ekki í frásögur færandi ... nema fyrir eitt ...

... og sjálfsagt hafa lesendur þessarar síðu orðið varir við þetta "eina" ...

Í litlu myndavélinni er videotökuvél!!  Ójá!!

... og síðan hafa ófáar myndaklippur verið teknar ...

Fyrir skömmu datt okkur svo í hug að búa til lítið myndband um Sydney, það er að segja borgina ... ekki dótturina ... og má sjá það ef "klikkað" er á myndina, hér fyrir neðan.

Það sem er þó nokkuð gremjulegt, er hversu döpur upplausnin er.  Úr myndavélinni koma þessar fínu myndir, en um leið og búið er að skeyta þeim saman og vista samanklipptu bútana, þá snarversnar upplausnin ...

En jæja, ... myndefnið er með afbrigðum gott og skemmtilegt og ætti það að vega allhressilega upp laka upplausn ...

 

 Læt þetta duga að sinni ...


Pökkun hafin

Í dag hófst pökkun ... já, nú skal Ástralía yfirgefin eftir nokkra daga.  Og það er rosalega skrýtið!

Ég man það eins og það hefði gerst í gær, þegar við Lauga vorum að undirbúa Ástralíuveruna í upphafi síðasta árs.  Mér fannst eins og við myndum varla koma aftur til Íslands ...

... en upphaflega planið hljóðaði upp á þriggja ára útlegð!

En nú hafa forsendur breyst ... og satt að segja finnst mér ágætt á margan hátt að kveðja Sydney nú.  Þar ræður mestu að þessi blessaði skóli stendur engan veginn undir nafni, sem einn af 50 eða 30 eða "hvað það nú er" bestu skólum  heims.  Allavegana ekki arkitektadeild skólans ...

Það nýjasta í þeim málum er að nýi leiðbeinandinn minn forðast það í lengstu lög að ræða nokkurn skapan hlut við mig.  Af hverju það gerðist, hef ég enga hugmynd um, því okkar síðasti fundur var á mjög léttum og skemmtilegum nótum, en þá sýndi ég honum sýndarveruleikann sem ég var búinn að búa til og hann varð alveg heillaður.

Hann sagði að ég væri að gera frábæra hluti, sagðist endilega vilja nota sér þessa vinnu mína og var hinn lukkulegasti.  "Svo hittumst við aftur á morgun og ræðum málin", sagði hann þegar við kvöddumst ...

Síðan þá eru liðnar næstum 4 vikur og hefur hann ekki svarað einum einasta tölvupósti sem ég hef sent honum.  Og ég er alveg hættur að nenna að spá í hvað snýr upp eða niður á honum ...

Það má því kannski segja að ég hafi farið úr öskunni í eldinn, þegar ég sagði skilið við prófessor Gary Moore í ágúst og skipti yfir í þennan.
Og þó ... það sem er allavegana gott við nýja leiðbeinandann er að hann er þá bara ekkert að skipta sér að því sem ég er að gera, ólíkt prófessor Moore, sem gerði lítið annað en að tefja framgang minn og beina mér endalaust í aðrar áttir en ég hafði áhuga á að fara ...

Ég bind þó talsverðar vonir við Terry Hartig, sem verður leiðbeinandi minn í Svíþjóð.  Þetta er heimsþekktur gaur innan umhverfissálfræðinnar og hafa mín viðskipti við hann verið góð, allt til þessa.

Alltént, það sem ég segja vildi í þessu bloggi ... pökkun er hafin, ef litið á aðstæður út frá "skólamálum" er ég meira en sáttur við að fara frá Sydney, en sé horft frá sjónarhorni annarra mála, svo sem hvað snertir vini og bara það að vera hér í Ástralíu, er alveg ljóst að maður á eftir að sakna margs! 


Tæknivandamál

Ekki fór þetta nú vel ...

... ég var langt kominn að rita hugleiðingar mínar um ofurjákvæðni, þegar blessuð tölvan tók upp á því að þurfa að stöðva Internet Explorer fyrirvaralaust.  Það var víst einhver Flash Player sem var að vefjast fyrir henni.

Færslan, og þar með svona 40 mínútna vinna, hér í morgunsárið í Sydney, er því farin út um gluggann ...

Kannski hafa bara máttarvöldin tekið málin í sínar hendur ... færslan hefur einfaldlega ekki verið nægjanlega góð ...

En þegar aðstæður sem þessar koma upp, er mikilvægt að hafa ofurjákvæðni í handraðanum ... ég leyfi mér að segja að hún bjargaði tölvunni frá því að lenda í veggnum.
Í sannleika sagt, þá yppti ég bara öxlum og strauk létt yfir augun með hægri höndinni, meðan ég dásamaði tæknina í huganum ...


Hittingur í Balmain

Fyrsti "foreldrabarnapara"-hittingurinn, sem ég fer á ævi minni, var staðreynd í dag á Dick´s Hotel í Balmain.  Já, í dag hittum við fólk sem var með okkur á foreldranámskeiði á Royal Prince Alfred Hospital í vor. 

Tilurð þessa hittings er sú að síðan námskeiðinu lauk hafa mæðurnar hafa haldið hópinn og hittst reglulega, víðsvegar um Sydney, til að deila reynslusögum.  Og nú var komið að því að draga feðurna á flot og "láta þá hittast", eins og það er mjög gjarnan orðað ...

Að mínu mati var hittingurinn hins vegar svona passlega skemmtilegur ... þrátt fyrir að hópurinn lofi verið skemmtilegur.  Það sem gerðist þarna á Dick´s Hotel var einfaldlega það að ég brá mér því hlutverk þess þögula og sagði lítið sem ekkert allan tímann, sem við vorum þarna ... sem er auðvitað ávísun á að samverustundin verður ekki eins skemmtileg eins og hún gæti hafa orðið.

P1000872 by you.

Á meðan ég sat og hlustaði á fólk tala, taldi ég mér trú um að það tæki því ekki að vera að kynnast þessu fólki, því við erum að fara að yfirgefa "pleisið" og sennilega mun ég ekki hitta þetta fólk aftur ... sennilega.
Ég nennti því ekki að leggja neitt á mig ...

... eða það taldi ég mér allavegana trú um. 
Þegar ég hugsa um þetta eftir á ... það er ég ekki jafn sannfærður ...

... ég tel að þetta hafi frekar verið feimni. 
Ég verð bara að segja það að ég er alltaf að komast betur og betur að því að ég er bara alveg drullufeiminn og á erfitt með að kveða upp rausn mína í fjölmenni ... ég tala nú ekki um þegar umræðan er á ensku. 
Í slíkum aðstæðum er nefnilega alveg ómögulegt fyrir mann eins og mig, sem þorir ekki að taka sjénsinn á að segja einhverja vitleysu, að skjóta inn athugasemdum og þannig vera virkur þátttakandi í umræðunum ...

Komist ég hinsvegar af stað í umræðum í fjölmenni, þá er eftirleikurinn auðveldur, hindrunin felst í því að komast af stað ... og allt of oft leyfi ég mér að sitja hjá í umræðunni ...

---

En nóg af þessum vangaveltum ...

Við Lauga ákváðum að ganga til Balmain og var sú för heldur lengri en við áttum von á eða rúmir 13,5 km.  Það tók dágóða stund að komast á staðinn og heim aftur ... en það var allt í lagi, því við gátum rætt saman um óhemju skemmtilega og/eða gagnlega hluti á leiðinni, þá sérstaklega á bakaleiðinni.

Í gær skruppum við í mjög góðan göngutúr um nágrennið ... fórum meðal annars í Centennial Park og þar tókum við þessa glæsilegu mynd!

P1000812 by you.

Það ætti því að vera ljóst að við höfum gengið talsvert um þessa helgi ...

 

 


5 mánaða afmælið

Í gær var haldin afmælisveisla hér í Bourke Street ... jebbsss ...

Lesendur þurfa nú ekki að vera neitt sérstaklega hugmyndaríkir til að átta sig á hver átti afmæli en svona til að upplýsa þá sem það ekki vita, þá á síðuhaldari afmæli 14. desember ár hvert og Lauga á afmæli 6. mars sömuleiðis ár hvert ...

... hver er þá eftir?

... Skúli Óskarsson ... já það er rétt GHPL, sem stundum er kölluð Skúli Óskarsson, átti afmæli og varð hvorki meira né minna en 5 mánaða ...

Gestum var boðið til veislunnar og var mikið húllumhæ, eins og meðfylgjandi myndband sýnir.

Sydney´s 5 months birthday party ... a lot of guests and a lot of fun!!!

Það var líka ljósmyndari á staðnum og tók hann þessar myndir ...

5 mánaða afmælið by you.

5 mánaða afmælið by you.

5 mánaða afmælið by you.


Fyrsta færslan í nóvember 2008

Þessir dagar eru spennandi ...

... það er bókstaflega allt að gerast ...

Í skólanum er fyrsta rannsóknin mín skriðin af stað og rannsókn númer tvö mun bráðlega leggja af stað.
Þetta er alveg ægilega spennandi, finnst mér ...

Já, og svo er rétt að nefna það, að í vikunni kom endanlegt samþykki frá snillingunum í Svíþjóð og það mál er "on".  Við Lauga og Sydney erum því að fara að kveðja Ástralíu í bili að minnsta kosti. 
Það út af fyrir sig er mjög sorgleg staðreynd, því við eigum svo marga góða vini, sem við eigum eftir að sakna mikið ...

... en á hinn bóginn, er mjög líklegt að flutningurinn verði heilladrjúgt skref fyrir námið. 
Lauga hefur verið á fullu að afla "kontakta" í Svíþjóð, því þar má hún nefnilega vinna sem hjúkrunarfræðingur, ólíkt þeim raunveruleika sem blasir við hér í Ástralíu.

Ég ætla ekki að skrifa mikið meira að sinni ... en læt fylgja myndband af dótturinni, fyrir þá sem það vilja skoða.  Fleiri myndbönd af öðrum hlutum þó eru í vinnslu ...

 


 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband