Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Miðvikudagur 31. ágúst 2011 - Veltingur, dans og gjafir

Í dag sneri nafni sér yfir á magann í fyrsta skiptið ... sem er ekki lítill áfangi við 4 mánaða aldur ... allir lukkulegir með það.

Að öðru leyti hafa hlutirnir verið í nokkuð föstum skorðum í dag ... já nema að ég skrapp í fyrsta söngtímann minn í kvöld ... þ.e.a.s. fyrsta söngtímann síðan í maí.  Það var mjög skemmtilegt.

GHPL hefur auðvitað átt sína spretti eins og alltaf en ég bara man ekki neinn þeirra í augnablikinu.

 

Það má reyndar geta þess að Guddan er með algjöra dansdellu núna ... gengur um í kjól (eins og hún er búin að gera í marga mánuði reyndar) og dansskóm.

Ég var varla stiginn fram úr rúminu í morgun þegar hún kom til mín og bað mig um að kveikja á KISS svo hún gæti dansað ...

... það var gert stuttu síðar og dansinn dunaði um alla íbúðina áður en haldið var í leikskólann.

Já og þetta var óskalagið ...

Jú svo er gaman að segja frá því að þegar GHPL kemur heim úr leikskólanum færir hún mér alltaf gjöf.
Gjöfin samanstendur af hlutum sem hún finnur á leiðinni heim úr skólanum ...

Þetta gaf hún t.d. á mánudaginn ...
... reyniber (sem hún reyndar kallaði appelsínur), tvö blóm og flautu (sem reyndar var sogrör sem hafði munað sinn fífil fegurri)

 

Í gær færði hún mér fleiri reyniber (sem reyndar þá hétu vínber) og lítið brot sem ég hélt að væri glerbrot en var víst úr plasti ...

 


Þriðjudagur 30. ágúst 2011 - Allt að gerast

Þetta hefur verið hinn ágætasti dagur ... það sem stendur upp úr er auðvitað fjögurra mánaða afmæli míns ástkæra sonar.

Við héldum upp á það í kvöld ... 

 

Svo fékk ég afar jákvæða umsögn frá hljómsveitinni sem ég hitti á sunnudaginn.  Umsögnin var eitthvað á þá leið að ég hefði verið frábær ... sérstaklega þegar við æfðum saman Rock and roll all nite með KISS.
Það er mikil synd að þetta skyldi ekki ganga upp vegna vegalengdar milli staða ... en auðvitað er ekki hægt að eyða næstum 2 klukkutímum í að koma sér á milli staða ... eða hátt í fjórum tímum í það heila, einu sinni eða tvisvar í viku.

Þá gerðist það í kvöld að loksins fékk ég svar frá vísindatímaritinu sem ég sendi grein til 20. janúar sl. Eins og mér skilst að raunin sé í langsamlega flestum tilfellum, þá fékkst greinin ekki samþykkt í fyrstu lotu en ritstjóri þess vill að ég lagi hana m.t.t. þeirra athugasemda sem gerðar voru en þrír yfirlesarar fóru yfir hana.  

Þeir voru eiginlega eins ósammála um gæði hennar og hægt er.  Einn segir hana mjög vel gerða og segist hlakka til að sjá hana á prenti, næsti segir hana góða og vel gerða en kemur með nokkrar athugasemdir en sá þriðji hefur þetta meira og minna allt á hornum sér.

Nú þarf að leggjast yfir þetta og koma þessu svo aftur til blaðsins.  

 

Síðast en ekki síst er vert að geta þess að við Guðrún skelltum okkur í sirkus í dag ... og GHPL fannst það stórkostlegt ...

"Meiri sirkus" sagði hún um leið og sýningunni lauk ... en þess má geta að við stefnum á að fara í Cirkus Maximum, líkt og við gerðum í fyrra, um helgina.

 


Mánudagur 29. ágúst 2011 - Annasamir dagar!

Jæja ... síðustu dagar hafa verið mér að skapi ... með öðrum orðum, það hefur allt verið á útopnu.

Á laugardaginn fórum við fjórmenningarnir í giftingarveislu til Stokkhólms, en þar voru Rolf frændi minn og Sandra að gifta sig.

Ég verð bara að segja það, með allri virðingu fyrir öllum giftingum sem ég hef farið í um ævina, að þessi fer klárlega á "topp þrjú".  Hún var hrein snilld bara ...

Það var gott garðpartý sem byrjaði klukkan 14 í glæsilegu veðri, svo var létt en afar vel útilátið hlaðborð kl. 15. Vígslan var svona um 5-leytið, svo kaka og ball og leikir. Svo hætti hljómsveitin um tíu-leytið og þá var komið grillhlaðborð ... 

Allt og allir bara í léttum gír ... formlegheitin afskaplega hæfileg og bara almenn gleði ... 

Samt held ég að enginn hafi eignast fleiri nýja vini í þessu partýi en GHPL ... hún gekk á milli borða og spjallaði við fólkið, brá á leik við suma, dansaði, lék á trommur og hristur, ... og já, gerði bara það sem henni datt í hug, alveg þangað til hún lognaðist útaf kl. 22.

Á heimleiðinni var henni svo skellt í barnavagninn, en í honum hefur hún ekki sofið síðan hún var 6 mánaða.  Til frekari skýringar má geta þess að hægt er að setja tvær mismunandi körfur á vagninn.  Sú sem er í notkun núna er fyrir börn 0 - 6 mánaða, hin er frá 6 mánaða til 4 ára aldurs.  
Það fór ekki á milli mála að blessuð dóttirin hefur stækkað mjög mikið ... 

Nafni var hinsvegar settur í "Baby-Björn" enda auðveldara að bera hann sofandi framan á sér, heldur en hina "stóru" systur.

---

Sunnudagurinn var líka ævintýralegur, þó ævintýrin hafi verið dálítið annars eðlis.

Ég byrjaði á því að ég fór alla leið suður í Gottsunda á hljómsveitaræfingu ... með gaurunum sem ætla að spila Jimi Hendrix á Menningarnótt eftir 2 vikur.
Ég var nú fljótur að átta mig á því að Jimi Hendrix er sennilega ekki sá listamaður sem ég ætti mikið að fókusera á sem söngvari ... í það minnsta fann ég mig engan veginn ...

Þar fyrir utan leist mér alveg temmilega vel á þessa ágætu menn.  Standardinn var frekar lágur og enginn fílingur ... í það minnsta hjá mér ...

Eftir 1,5 tíma var bara pakkað saman og meðleikarar mínir virtust bara himinlifandi yfir "session-inni" ...

Sjálfur var ég mjög efins ... svo efins að í morgun, dró ég mig út úr þessu dæmi ...  

---

Ég fór heim og næst á dagskrá var bara að fara að undirbúa fótboltaleik kl. 18 ... en þá kom góður tölvupóstur.

Hljómsveit í Stokkhólmi vildi fá mig í prufu ...

Þá þurfti bara að "cancella" leiknum og fara að undirbúa prufuna ...

Óhætt er að segja að "session-in" í Stokkhólmi hafi verið skemmtileg ... hún var alveg ógeðslega skemmtileg ... og það var rokkað alveg út í eitt ... flottir gaurar með góðan metnað og góðir á hljóðfærin og með sama tónlistarsmekk og ég ... þetta var fullkomið!!

Þessir ágætu menn vildu ólmir að ég kæmi inn í bandið og ég var mjög ánægður með það ...

... en svo kom babb í bátinn ...

Þegar ég sagði þeim að ég byggi í Uppsala kom efatónn ... og í morgun sögðu þeir að þeim fyndist ómögulegt að hafa söngvara sem byggi svona langt frá ... 

... og ég man ekki hvað er langt síðan ég varð jafn spældur!!!  Og ég er búinn að vera hrikalega spældur í allan helvítis dag ...

En koma tímar koma ráð!! 

Hér er sýnishorn af því sem tekið var í gær ...

 


Föstudagur 26. ágúst 2011 - Dagurinn í dag

Fór og hitti leiðbeinandann minn í dag ... það er víst meiningin að taka hlutina föstum tökum í haust með það að markmiði að sigla þessari doktorsgráðu í höfn á næsta ári.

Ég ætti að vera kominn algjörlega með þetta á beinu brautina ... ja eða næstum því ... ofurlítið praktískt mál sem þarf að leysa og áður en á beinu brautina er komið.

---

Annars hefur þessi dagur liðið eins og margir aðrir fyrir framan tölvuna, þar sem unnið er að því að leysa vandamál heimsins.

---

Allir við hestaheilsu hérna ... og bara reddí fyrir giftingu sem við erum að fara í á morgun í Stokkhólmi.

Meira um það síðar.

Núna fer maður bara og leggur sig.

 


Fimmtudagur 25. ágúst 2011 - Tíska, Jimi og ungir Íslendingar sem ná árangri

Mér er sagt að það hafi verið magnað í morgun kl. 6 þegar Guddan reisti sig upp í rúminu sínu og sagði glaðlega: "Hæ mamma, ég er vöknuð!!"

En svo lagði hún sig bara aftur og svaf í 2,5 tíma í viðbót.

---

Það er búið að græja dansskóna ... og Guddan hefur ekki fengist til að fara úr þeim síðan ... gengur um íbúðina í kjól, með hálsmen og armbönd, já og í dansskónum ...

Ég segi það aftur ... ég skil ekki hvernig þriggja ára gamall barn getur haft svona mikinn áhuga á þessu ... það er allavegana ljóst að ég ber ekki ábyrgð á þessu verandi 99% í gallabuxum, T-bol og rauðri flíspeysu, sem allir eru að fá ógeð af nema ég sjálfur ... 

Svo byrjaði blessað barnið á þessu í dag ... sjá myndband ...

---

Nafni hefur verið á ferð og flugi með móður sinni í allan dag ... mér skilst hann hafi verið dálítið vælinn, jafnvel gæti hann verið að taka tennur ... það er þó ekki vitað ...

---

Svo allt í einu í kvöld bar leit mín að hljómsveit árangur ... þrjú tilboð bárust á klukkutíma ...

Niðurstaðan er allavegana sú að ég er búinn að boða mig á hljómsveitaræfingu á sunnudaginn næsta.  Það er bara meiningin að byrja létt eða þannig ... planið er að vera með Jimi Hendrix prógramm á Menningarnótt 2011 hér í Uppsala þann 10. september nk.

Málið er að ég hef aldrei sungið Jimi Hendrix ... mér hefur bara aldrei dottið í hug að syngja Jimi Hendrix og þessi lög sem þessir gaurar eru með í huga ... ég hef aldrei einu sinni heyrt þau ...

... en ég ætla að sjá hvað ég get gert í málinu ... smá "challenge" ... ég er alveg kominn í þörf fyrir slíkt. 

---

Svo sá ég afar hallærislega frétt á DV.is í dag sem fjallaði um að Kastljósstýran fyrrverandi, Ragnhildur Steinunn væri að gera heimildarmyndir um unga Íslendinga sem hefðu náð árangri.

Að sjálfsögðu var tíndur til tónlistarmaður, fatahönnuður og íþróttamaður, auk tveggja leikara.

Auðvitað ætla ég ekki að gera lítið úr árangri þessa fólks, hann er allrar athygli verður og sjálfsagt hafa þessir aðilar þurft að hafa verulega fyrir hlutunum.  Það hallærislega í þessu er að það er alltaf eins og enginn geti náð árangri í neinu nema vera listamaður, hönnuður eða íþróttamaður.

Það er fullt af fólki t.d. á sviði raun- og félagsvísinda sem er að gera frábæra hluti og hefur náð árangri sem er alveg á pari við það hönnuðina, lista- og íþróttafólkið. 
Það er fólk í heilbrigðisgeiranum sem er að gera mjög merkilega hluti.  Hvað með iðnmenntað fólk? Fólk sem starfar innan landbúnaðargeirans eða á sviði ferðamála?

Manni finnst stundum að það megi alveg líta aðeins upp og í kringum sig ... 


Miðvikudagur 24. ágúst 2011 - Sokkabuxur, æsingur og rólegheit

Þegar Guddan er að fara að sofa kemur iðulega upp ofurlítið vesen.  Það felst í því að hún vill alls ekki fara úr sokkabuxunum sínum ... sem reyndar skýtur skökku við í ljósi færslu gærdagsins.

Í kvöld þurfti töluverðar samningaviðræður til að fá hana til að yfirgefa sokkabuxurnar ... hafðist þó að lokum með orðunum: "Aaaahhhhh ... gott að vera ber!"  Svo skreið hún undir sængina og sofnaði stuttu síðar.

---

Guddan mætti í skínandi skapi úr leikskólanum í dag.  Og henni til enn frekari gleði voru henni færðir dansskór, svartir með skrauti, enda stendur fyrir dyrum að dóttirin hefji dansnám eftir hálfan mánuð.

"Þeir eru fallegir" sagði blessað barnið hugfangið þegar það tók skóna upp úr pokanum. Svo dreif hún sig í þá.

En Adam var ekki lengi í Paradís, því dóttirin var varla stiginn í skóna þegar allt fór á hvolf. Hún reif þá af sér með miklu látum og hélt svo langan reiðilestur yfir öllum viðstöddum, tók skóna og henti þeim út í horn, lagðist í gólfið, ýtti bókum framaf stofuborðinu og lét bara öllum illum látum.

Hvað hafði þá gerst?  Jú, skórnir voru aðeins of litlir!

Það þarf sumsé að fara aftur í búðina og fá númerinu stærri skó. 

Já, það þarf oft ekki mikið.

  

---

Bróðirin er öllu rólegri.  Er eiginlega búinn að vera svo rólegur í dag að annað eins rólegheitabarn er sennilega vandfundið.

Ég geri ráð fyrir að það muni eldast af honum.  Man ekki betur en GHPL hafi verið með eindæmum róleg á sama aldri ... ólíkt því sem nú er :) .

 

---

Sjálfur er ég búinn að vera að vinna í rannsóknargrein sem ég stefni á að skila inn sem fyrst. Ég er ekki frá því að það sé farið að hilla undir lok þessa doktorsnáms ... svei mér þá bara ...

 


Þriðjudagur 23. ágúst 2011 - Fatasmekkur og sýrustig

Á hverjum morgni þessi dægrin upphefst mikil umræða um það hvort dóttirin eigi að fara í sokkabuxur eða ekki.  Hún er alveg gallhörð á því að hún eigi ekki að fara í sokkabuxur.

Engu að síður endar umræðan alltaf á sama veg ... hún fer í sokkabuxur.

Þá upphefst gífurlegt kvart og kvein yfir því hvað sokkabuxurnar séu sérdeilis viðbjóðslega óþæginlegar.

Hvaða kjól skal svo farið í?  Um það er þrasað í töluverðan tíma.  Og svo er það regngallinn frá 66°N.  Það eru hörkuslagsmál að koma blessuðu barninu í slíka múnderingu. 

Aldrei hefði mig órað fyrir því að óreyndu hvað skoðanir á fatavali gætu verið miklar hjá þriggja ára gamalli stúlku. 

---

Nafni var vigtaður í gær ... hann reyndist vera 6,6 kg og þegar ég fletti upp í gagnasafninu mínu þá sé ég að GHPL var orðin hér um bil 6 mánaða þegar hún var 6,6 kg ... nafni er nú bara rétt tæplega fjögurra.

Það verður líka að segjast að samskipti systkinanna eru algjörlega frábær ... GHPL er svo hrikalega góð við PJPL að það er ótrúlegt.  Stundum er góðvildin kannski svona í það mesta, mikið kram og kjass ... kosturinn við það er að PJPL verður örugglega þolinmóðasti maður í veröldinni þegar fram líða stundir. 

---

Síðustu misseri hef ég mikið verið að pæla í sýrustigi líkamans.  Þetta er eitthvað sem ég held að flestir ættu að pæla í en rétt sýrustig skilar sér í margfalt betri líðan bæði andlegri og líkamlegri.

Núna hef ég gætt mjög vel að sýrustiginu hjá mér og það hefur skilað því að ég hef t.d. ekki fengið neinn einasta vott af harðsperrum s.s. eftir leikinn á sunnudaginn né heldur eftir lyftingarnar í gær, þrátt fyrir að hafa verið í góðri pásu í 2 mánuði.  Fór svo á fótboltaæfingu í kvöld og fann ekki fyrir neinu ... engin eftirköst ... bara ekkert ...

Það sem ég hef verið að gera til að viðhalda réttu sýrustigi er fyrst og fremst að gæta að vatnsneyslu minni.  Sérstaklega hef ég fókuserað á að drekka alltaf um hálfan lítra af vatni með sítrónusafa á morgnana.  Stundum drekk ég sítrónuvatn líka á kvöldin.  Þar fyrir utan drekk ég ekki gosdrykki enda er það vísasta leiðin til að setja sýrustigið algjörlega á haus að drekka slíkt.

Eins og ég segi ... hvet alla til að kíkja á þetta ...

 


Mánudagur 22. ágúst 2011 - Færsla dagsins

Þá er nú allt að komast á fullan gír aftur ... botnlaust að gera ... meira en maður ræður við.

Kannski bara best þannig.

Skrapp í ræktina í dag í fyrsta skipti síðan 21. maí en síðan þá hefur líkamsræktarstöðin mín verið lokuð. Hún opnaði svo aftur í dag eftir gagngerar breytingar.  Öll tæki eru glæný og hægt er að spegla sig í gólfinu.

---

Annars ætlaði ég að segja einhverjar æðislegar sögur í kvöld en klukkan er orðin svo fjári margt hér í Svíþjóð.

Allir við ágæta heilsu bara ...

 

æ ... djöfull er þetta eitthvað glatað ...

... bara mynd í lokin ...

 


Sunnudagur 21. ágúst 2011 - Vinna, átrúnaðargoð og fótbolti

Þessi dagur hefur að mestu verið tileinkaður vinnu en ég er nú að fást við mjög áhugavert verkefni sem snýst um að koma með tillögu að úrbótum á 100 fermetra stigapalli á 5. hæð Landakotsspítala

Breyta á gímaldi í hlýlegar vistarverur fyrir sjúklinga og gesti.

--- 

Í kvöld spilaði ég minn fyrsta fótboltaleik í tvo mánuði þegar Vaksala sem er mitt lið lék á móti GUSK. Eftir að hafa náð forystu á fyrstu mínútum síðari hálfleiks, töpuðum við leiknum 2-1.  Svona er þetta stundum.

---

Annað heimilisfólk fór í heimsókn til Sverris, Dönu og Jónda í dag.  Var mikil hamingja þar, sérstaklega hjá ungfrúnni sem hitti átrúnaðargoðið sitt í fyrsta skipti í margar vikur. 

Það er nú best að hafa þetta ekki lengra enda á ég eftir að vinna töluvert enn ...

En börnin hafast ólíkt að ... 


Nafni horfir á endur ...

... en Guddan spilar á gítar af mikilli innlifun ...  

 


Laugardagur 20. ágúst 2011 - Sumarið gert upp í mjög stuttu máli

Jæja ... þá ætlar síðuhaldari að rísa upp úr öskustónni, tveimur mánuðum eftir að síðasta færsla var sett inn á síðuna.

Á þessum tveimur mánuðum hefur auðvitað ótal margt gerst ... margt skemmtilegt og annað ekki jafn skemmtilegt ... bara svona eins og gengur og gerist.

Einn af góðu punktunum í sumar var skírn blessaðs drengsins sem fór fram þann 6. ágúst í blíðskaparveðri í Borgarfirðinum.

 

Nafnið var í frumlegri kantinum en drengurinn er alnafni föður síns, en þó skírður í höfuðið á afa sínum sem einnig er alnafni föðursins. 

--- 

Ég og mamma skruppum til Djúpavogs í sumar eins og við höfum gert síðustu sumur. Að venju var það skemmtileg heimsókn og árangursrík.


Þarna er mamma í eldhúsinu í gamla húsinu að Hamri í Hamarsfirði ásamt Braga í Berufirði og Ingvari Sveinssyni.

---

Svo voru farnar ferðir norður í land ... t.d. á Sauðárkrók en Lauga og co. dvöldu þar í nokkrar vikur í sumar í góðu yfirlæti.


Guddan talar við hund á Sauðárkróki.

---

Einnig var dvalið í Borgarfirðinum um töluvert skeið.


Drumbur tekinn léttilega í fangið ... alltof létt ...

Læt þetta duga sem fyrstu færslu eftir sumarfrí ...  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband