Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Fimmtudagur 31. maí 2012 - GHPL og PJPL

"Nú þurfum við að borða morgunmat", sagði ég við dótturina í morgun.
"Já", svaraði hún.
"Hvað viltu fá að borða?"
"Fisk!"
"Fisk?!? Í morgunmat?"
"Já ... ég elska fisk!"

Svo mörg voru þau orð.

En fisk fékk hún þó ekki í morgunmat enda ekkert slíkt til í býtibúri heimilisins á umræddum tímapunkti. 

---

Í kaffitímanum í dag skrapp GHPL á klósettið ... "alveg sjálf" eins og flestir heitir þessa dagana.

Eftir dágóða stund kemur þetta sígilda "kall": "BÚIN!!!"

Ég stend upp og gríp í húninn á baðherbergishurðinni - sú stutta er þá búin að læsa að sér. Maður verður jú að hafa næði.

"Guðrún, verður að opna ..."

"Get það ekki ... ég var að pissa!!"

Snillingur þessi dóttir!!

--- 

Í kvöld sá hún svo grindahlaup í sjónvarpinu og uppveðraðist heldur betur ... "Mamma, mamma!!  Komdu og sjáðu!!  Fólkið að hlaupa og hoppa mjög mikið!!
Svo var tekið til óspilltra málanna. Bók, strump, púsluspili og púða var raðað upp með jöfnu millibili á gólfið og svo tók dóttirin tilhlaup og hoppaði yfir "hindranirnar" ("alveg sjálf!!") ... alveg þangað til hún í eitt sinn dreif ekki yfir púðann, sem rann undan henni og hún valt um koll!!  

Reiðikast ... "DET GÅR INTE!!!!" öskraði hún með samankreppta hnefana og á eftir fylgdi mikið reiðihljóð - púðinn flaug upp í loftið og lenti á eldhúsborðinu og hér um bil ofan í matnum ...

Þetta jafnaði sig samt fljótt ... en grindarhlaupsæfingar lögðust af. Þess í stað fór hún að æfa það sem sigurvegararnir á frjálsíþróttamótum gera oft ... en það er að hlaupa sigurhring með blómvönd í hendi ... hátt á lofti. GHPL greip því afganginn af agúrkunni sem lá á borðinu, lyfti honum hátt til lofts og tók að hlaupa í hringi. Hún fannlíka geit, svona litla plastgeit og hélt á henni í hinni hendinni. Hátt á lofti. Tilgangur geitarinnar er enn óljós ...

---

Stubbur hefur hins vegar tekið hlutina öðrum tökum. Hann er búinn að vera veikur núna í 2 daga og hafði af fjölskyldunni siglingu til Riga sem búið var að skipuleggja og kaupa með ærinni fyrirhöfn. Ég er búinn að skrifa það hjá mér og mun gera það upp við hann þegar hann hefur vit til að skilja hvar Davíð keypti ölið. 
GHPL bíður reyndar líka eftir að læra sína lexíu síðan hún hafði af okkur Tyrklands- og Grikklandsferð hér um árið, þegar hún tók sótt mikla í Hong Kong þegar við vorum að fljúga heim frá Ástralíu. Kyrrsetning í 6 fermetra hótelhergi í Hong Kong í viku ... geymt en ekki gleymt! ;)

Nú þarf að vinna í því að fá Riga-ferðina endurgreidda ... ætti nú samt ekki að verða mikið mál.

Nafni sveiflast á milli þess að vera slappasta barn í veröldinni og yfir í að vera hressasta barn í veröldinni.
Þegar hann er slappur þá heimtar hann að liggja á bringunni á manni, og maður má ekki hreyfa sig baun án þess að það kosti töluverð leiðindi og greinileg óþægindi fyrir hann ... að hans eigin mati að sjálfsögðu.
Svo fær hann nettan stíl upp í óæðri endann og að nokkurri stund liðinni, verður allt skínandi bjart og fagurt. Skælbrosandi og skríkjandi, veður hann um öll gólf og leikur við hvurn sinn fingur. Og æðir hiklaust út á svalir ef einhver hefur álpast til að opna þangað út, svona til að láta lofta aðeins um íbúðina. 
Loks fellur allt í fyrra horf ... stíllinn hættir að virka og allt verður á svipstundu ómögulegt ...

Svona gengur nú lífið fyrir sig á þessum bænum. 


Þriðjudagur 29. maí 2012 - Hæfnin að bregðast við

Þá er maður rétt að jafna sig eftir sigurinn í Eurovision ... búið að vera stanslaust geim síðan á laugardagskvöld.

Sunnudagurinn fór í að leggja lokahönd á grein sem send var til vísindatímarits í gær ... loksins!!  Það var ákaflega ánægjulegur áfangi svo ekki sé meira sagt.

Núna þarf bara að vinna að síðustu greininni fyrir doktorsverkefnið og var hafist handa við það í dag af töluverðum krafti. Reyndar var ég búinn að vinna töluvert í henni síðastliðið haust en núna er allt tekið mun fastari tökum. Hún verður að skrifast á mjög skömmum tíma ef markmið mitt um að skila inn doktorsverkefninu þann 31. ágúst á að nást.

--- 

Húsnæðisleitin ætlar engan endi að taka og er það vel enda fátt skemmtilegra en að leita á húsnæði á markaði þar sem lítið sem ekkert framboð er til staðar. Þetta setur alveg auka vídd í tilveruna.

Svo er spurningin um hvað taki við af doktorsnáminu farin að verða nokkuð áleitin og einhverjar hugmyndir teknar að fæðast ... það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

---

Ég hef lítið sett fram "gáfulegar" pælingar upp á síðkastið, þannig að hér kemur ein.

Ég var að lesa pistil sem fjallaði um mikilvægi þess að þróa með sér hæfni til að bregðast við. Þrælathyglisvert.
Höfundurinn tók sérstaklega fyrir þær aðstæður þar hlutirnir ganga ekki eins og helst er á kosið. Hann sagði alveg merkilegt hvað skortur á hæfni við að bregðast við slíkum aðstæðum væri almennt mikill hjá fólki. Sem er alveg rétt.
Hvað gerir maður yfirleitt þegar hlutirnir ganga ekki eins og maður vill að þeir gangi? Jú, maður verður pirraður, reiður og byrjar svo að kenna öllum og öllu öðru en sjálfum sér um.  Hvað segir maður ef maður skíttapar fótboltaleik ... "þetta var nú meira dómarafíflið!" eða "þessir drengir í þessu liði þeir geta bara ekkert" eða eitthvað annað ...

Mín hæfni á þessu sviði er ekki góð ... svo mikið er víst ... það þarf nú oft ekki mikið til að maður fuðri upp. Sjaldnast er það þó sjálfum mér að kenna ;) .

Það er í raun alveg rosalega skrýtið að maður velji þennan kost jafn oft og raun ber vitni ... í stað þess að æfa sig. Líta á "mótlætið" sem prýðisgott tækifæri til að auka hæfnina í því að bregðast við á sannfærandi og uppbyggilegan hátt.
Með því að hafna þessum tækifærum er maður í raun að kasta mjög nytsamlegum hlutum frá sér. Það að hafa hæfileika á einhverju sviði er í flestum tilfellum jákvætt ... skyldi maður ætla.

Ef maður hefur hæfni til að bregðast vel við mótlæti, hlýtur maður að vera betur í stakk búinn að mæta því. Eftir því sem maður er betur í stakk búinn að mæta því, því líklegra er að maður geti breytt hlutunum þannig að líklegra sé að þeir falli manni í geð.

Ef maður hinsvegar kennir alltaf öðrum um, þá er maður um leið að segja að aðrir verði að breyta hlutunum þannig að þeir falli manni sjálfum í geð. Með öðrum orðum, líðan mín eða vanlíðan er því orðin háð því að aðrir geri eins og ég vil. Ég er því orðinn bjargarlaus. Eins og korktappi úti á rúmsjó.

Þannig að ef ég verð alltaf pirraður á því þegar Guddan neitar að vera í buxum þegar hún þarf að vera í buxum, þá er pirringur minn og pirringsleysi algjörlega háð því hvað GHPL segir á hverjum tíma. Með öðrum orðum, líðan mín eða vanlíðan mín er orðin háð einhverjum dyntum í tæplega fjögurra ára gömlu barni. 
Ég leyfi fjögurra ára gömlu barni að "leika sér" með geðslag mitt en ég leyfi því ekki að leika með fjarstýringuna á sjónvarpinu ... :) 

Af hverju í fjáranum ætli maður kjósi sér þessa leið í lífinu?

Þetta var pæling dagsins ...  


Laugardagur 26. maí 2012 - Allt að verða vitlaust í Svíþjóð!!

Jæja ... það kom að því að maður væri staddur í landi sem ynni Eurovision-söngvakeppnina ... þvílík stemmning hérna :)  ... já eða ekki ... kynnarnir í sjónvarpinu að minnsta kosti mjög hressir ...

Þegar þetta er skrifað eru tæknivandamál hjá sænska ríkissjónvarpinu, þar sem verið að er reyna að sjónvarpa viðtali við sigurvegarann Loreen. 

Tæknivandamálið leyst ... Loreen er í sjöunda himni og þetta er allt ótrúlegt að hennar sögn. 


Fagnað í stofunni ... Loreen syngur sigurlagið ... GHPL sofnuð í Dóru-náttfötunum undir Dóru-sænginni með Dóru-koddann.

En hérna er tölfræðin hér á þessu heimili.

Á þriðjudaginn var meðaleinkunnin sem ég gaf lögunum 18 var 6,1 á skalanum 0-10 en hjá Laugu var meðaleinkunnin 5,9.
Við gáfum bæði Svartfjallalandi 0 í einkunn en hæst gaf ég Ungverjalandi og Rússlandi 8. Lauga gaf Grikklandi, Rúmeníu, Rússlandi, Írlandi og Kýpur 8 í einkunn.
Þegar kom að því að spá fyrir um hvaða lög færu áfram í aðalkeppnina, var Lauga með 9 lönd rétt en hún hafði rangt fyrir sér með að Albanía færi ekki áfram. Sjálfur var ég alveg úti á túni í þessum spádómi því ég spáði aðeins rétt fyrir um 5 lönd.

Á fimmtudeginum var meðaleinkunnin sem ég gaf 6 en Lauga gaf 5,8 (en að vísu eru ekki öll lögin inn í þeirri tölu heldur aðeins 12 af 18),
Ég gaf hollensku stelpunni um indjánafjaðrirnar á hausnum lægstu einkunnina eða 4.  Lægst á listanum hjá Laugu var Krótatía sem fékk 2.
Við vorum síðan sammála um besta lagið sem var sænska lagið og gáfum bæði 10 í einkunn.
Lauga spáði svo rétt fyrir 8 lönd sem fóru áfram í aðalkeppnina. Klikkaði á Tyrklandi og Bosníu. Sjálfur spáði ég rétt fyrir um 6 lönd.

Í kvöld var meðaleinkunnin hjá Laugu 7,2 en hjá mér var hún 7,0.
Hjá Laugu fékk Albanía 3 í einkunn og þar með lægstu einkunnina en ég gaf Tyrklandi lægstu einkunnina sem var einnig 3.
Lauga gaf sænska laginu 10 í einkunn og ég gaf Svíþjóð og Úkraínu 10 í einkunn.

Um röð efstu laga spáði Lauga Svíþjóð (1. sæti), Kýpur (2. sæti) og Rússland (3. sæti) en ég spáði Svíþjóð toppsætinu, svo Rússlandi og loks Úkraínu.

Lauga spáði íslenska laginu 18. sætinu og ég spáði því 20. Lenti það ekki einhvers staðar þar?
Hvorugt okkar hafði heyrt þetta íslenska lag áður og satt að segja fannst okkur það ekkert sérstakt.

Að lokum má geta þess að Lauga er nokkuð spámannlega vaxin þegar kemur að Eurovision enda sagði hún um leið og hún heyrði lagið Euphoria í Melodifestivalen hér í Svíþjóð (en það er undankeppnin) að þetta lag yrði framlag Svía þetta árið og það myndi vinna aðalkeppnina. Þessi spádómur var settur fram í febrúar ... geri aðrir betur ;) ...

Kemur á óvart að fagnaðarlætin á götum úti hér í Uppsala eru ekki ennþá byrjuð ... sjálfsagt allir bara löngu sofnaðir ... 

 


Miðvikudagur 23. maí 2012 - Met slegin

Þá er nú hitasóttin á heimilinu sennilega í rénun. Ég fullyrði að hitamet innan fjölskyldunnar var slegið kl. 2.30 í nótt þegar hitamælirinn sýndi 41.1°C. Persónulega hef ég aldrei séð aðra eins tölu á hitamæli sem mælir líkamshita.

En hitasóttin er sennilega í rénun eins og áður segir, enda hefur hitinn verið að rúlla í kringum 39°C í dag og fer stiglækkandi.

GHPL hefur tekið þessu ótrúlega vel og tilkynnt mjög samviskusamlega hvenær henni sé heitt og hvenær ekki. Hinir hitalækkandi stílar eru orðnir bestu vinir hennar og maður hefur þakkað hvað eftir annað fyrir þá. 

---

Stubbi hefur hinsvegar verið afar hress ... hann setti líka met á þessum sólarhring, þegar hann svaf til klukkan 10.15 í morgun. Sem er hreint með ólíkindum hjá manni sem vaknar alltaf um sjö-leytið. En án nokkurrar tilkynningar, þá tók hann þessa ákvörðun í morgun.

Og hefur, ja eins og áður segir, verið alveg firnahress í dag.

Hann er orðinn geysilegur klifurköttur, og fer upp á allt það sem hann mögulega kemst upp á ... eftir að ég hafði komið að honum einum og óstuddum standandi í efsta þrepi Trip-Trap-stólsins sem GHPL situr í, tók ég þá ákvörðun að fjarlægja neðsta þrepið úr stólum. Við afar takmarkaða hrifningu. 

Svo er hann farinn að tala töluvert og kalla hátt og snjallt "mamma" ... sérstaklega þegar hann hefur klifrað upp á eitthvað og kemst ekki niður aftur ... 

Hér er mynd af klifurhetjunni ... en hún er tekin af systur hans, sem er sannast sagna orðið býsna glúrin við að taka myndir ...

 

Hún tók t.d. líka þessa mynd um daginn ...  

 

Það má nú líka láta það fylgja að GHPL setti einnig svefnmet í morgun ... svaf til klukkan 11.30 ... og hraut eins og varðhundur á meðan. En þetta met er auðvitað ekki sett undir neinum eðlilegum kringumstæðum þannig að það skráist nú varla ... svona eins og met í langstökki skráist ekki ef meðvindur er of mikill.

---

Sumarið hefur svo sannarlega hafið innreið sína hér í Uppsala ... yfir 20°C hiti dag eftir dag, og bara sæla ... sérstaklega fyrir þá sem geta verið úti og notið blíðunnar. Slíkt hefur ekki verið tilfellið hér eins og vænta má, hafi frásögnin hér að ofan skilist.

En útsýnið úr vinnuherberginu mínu er alveg afbragð ... ætlaði reyndar að setja mynd hér en myndin er svo léleg að það er ekkert gaman að hafa hana inni.

Set bara þessa í staðinn ...

 

 


Mánudagur 21. maí 2012 - Danssýningin

Það er nú bara búið að vera í mörg horn að líta síðustu daga.

Á laugardagsmorguninn síðasta steig heimasætan, í annað skiptið á ævinni, á stokk í "Uppsala Konsert & Kongress"-húsinu og dansaði á stóra sviðinu þar. Tilefnið var sýningardagur dansskólans sem hún hefur sótt í allan vetur.


Beðið eftir að danssýningin hefjist (óhætt að segja að ekki megi slaka neitt á í líkamsræktinni - undirhakan helst til mikil ...)

Hérna má sjá dansinn sem var hreint út sagt stórkostlegur. Þetta var Pocahondas-dans, sem var svona indjánadans. Allir voru í indjánabúningum nema GHPL sem var meira í búning sem líktist kúrekabúning ... eða "spari-indjána-búningi" ... ;) . Gæðin á myndbandinu er því miður mjög lítil en síðar verður ráðin bót á því. 

 


Dansarinn að sýningu lokinni ... 


Beðið eftir að dansarinn láti sjá sig ... að sýningu lokinni ... 

Eftir sýninguna var haldið upp á áfangann með því að bjóða upp á ís og fleira, við góðar undirtektir dansarans. Af því tilefni var haldið á Café Katalin sem er við lestarstöðina hér í bæ.


Mikið fjör eftir danssýninguna ... GHPL fékkst ekki til að stoppa fyrir myndatöku ... 

Góð samvera í klukkutíma þar inni ... svo var haldið áleiðis heim á leið. Á heimleiðinni áttu sér stað tvö smávægileg óhöpp. Annars vegar stjakaði dansarinn heldur hraustlega við bróðurnum, þannig að hann datt á fjórar fætur, og í framhaldinu fór hægri hlið andlitsins í götuna. Tilheyrandi gól, blóð og svekkelsi hjá honum. Stuttu síðar, var dansarinn að sýna listir sínar og skrikaði fótur. Svo mikið að það kom einn rauður punktur, á stærð við títuprjónshaus, í lófann. Allt ætlaði um koll að keyra og í djúpu dramakasti voru bróðurnum, sem þá var sjálfur allur blár og marinn í andlitinu, sérstaklega sýnd meiðslin.
Af þessu að dæma er ljóst að dansarinn hefur ekki enn öðlast þann þroska að setja sig í spor annarra.

Þegar heim var komið tók dansarinn hitasótt mikla ... svo mikla að nú tveimur dögum síðar er hitinn enn að slá yfir 40°C. Það er ekki laust við að maður þakki fyrir hina hitastillandi stíla sem hægt er að kaupa í öllum betri apótekum hins vestræna heims. 

Stubbur er hinsvegar afar hress, þrátt fyrir að vera svolítið gulur og blár í andlitinu. Hann nýtur sín langbest þegar hvorki systir hans né móðir eru nálægar. Það er hreint alveg merkilegt hvað hann er sem tveir menn eftir því hvort móðirin er í sigtinu eða ekki. Sé hún í sigtinu grenjar karlpútan nánast stanslaust en sé hún víðs fjarri, þá leikur hann við hvurn sinn fingur. Og þá sérstaklega ef GHPL er einnig hvergi nærri. 
Það verður að segjast alveg eins og er að þó Guddan sé nú góð við bróður sinn, þá stríðir hún honum alveg svakalega. Eitt aðalfjörið er að setja á hann derhúfu og keyra hana niður fyrir augun. Þá bregst karl illa við. 

Læt þetta nú duga í bili ... klukkan er orðin alltof margt ...

 


Föstudagur 18. maí 2012 - Hlutirnir ekki alveg að gera sig í dag

Þessi dagur hefur nú alls ekki verið sá skemmtilegasti sem ég hef upplifað ... 

... svona þvarg fram og aftur um allt og ekkert.

Náði samt mjög góðri vinnutörn eftir að þvarginu lauk og gat skilað af mér grein sem fer nú alveg að komast á það stig að verða send inn til tímarits ... ég er ekki frá því að það sé kominn tími til.

---

Annars hef ég svolítið verið að kíkja í "módiveisjónal"-fræðin ... rifja upp nokkur atriði hjá Jack Canfield og fleiri mönnum.

Hlustaði t.d. á einn sem heitir Steve Harrison. Hann var að tala um muninn á þeim sem ná árangri og hinum sem ná ekki jafnmiklum árangri.

Hann segir að þrjú atriði greini aðallega á milli þessara flokka fólks. Það sem árangurshópurinn gerir er:
1. Að meðlimir hans taka alveg grjótharða ákvörðun um að tækla tiltekið viðfangsefni. Þeir kvika ekki frá markmiðum mínum hvað sem á gengur.
2. Að meðlimir hans afla þekkingar til að geta tæklað viðfangsefnið.
3. Að meðlimir hans veita sé leyfi til að ná settum markmiðum.

Það sem allra flestir flaska á eru atriði 1 og 3.

Fólk telur að það hafi tekið ákvörðun um eitthvað en svo um leið og á móti blæs þá kvikar það frá markmiðunum. Milljón manns í "líkamsræktarátökum" eru til vitnis um það. Harrison segir að það megi ekki kvika frá markmiðunum :) .

Fólk gefur sér ekki leyfi til að ná árangri. Flestir eru í fullri vinnu í að tala getu sína og hæfni niður. Margir eru að bíða eftir því að einhver góðviljaður stígi fram og ausi yfir þá lofi og hvatningu. Flestir þeirra bíða allt til æviloka án þess að nokkuð gerist í þeim efnum. 
Mér finnst þetta svolítið merkilegur vinkill það að maður gefi sér ekki heimild til að ná árangri. 


Þriðjudagur 15. maí 2012 - "Multi-taskað" á seminari í Gävle

Í dag skruppum við feðgarnir til Gävle. Erindið var að halda fyrirlestur á málstofu hjá IBF sem er sú stofnun sem ég formlega tilheyri hér í Svíþjóð en stofnunin er hluti af háskólanum í Uppsölum.

Eftir að hafa skilað Guddunni af okkur á leikskólann rétt fyrir hálftíu-leytið í morgun, tókum við lestina til Gävle. Ákvað stubbur að sofa af sér ferðina og vaknaði svo sprækur sem lækur um það leyti sem lestin rann í hlað.

Við tók svolítill göngutúr um miðbæinn sem endaði á heilmiklu vappi um ráðhústorg bæjarins.


Á ráðhústorginu ... 

Við hittum svo Terry leiðbeinanda minn í hádeginu, tókum stöðuna og fórum og fengum okkur steiktan "strömning", sem er fiskur sem þykir hnossgæti hér í Svíþjóð ... gef nú satt að segja ekki mikið fyrir það ... en jæja, hann var samt alveg ágætur. 

Svo hófst fyrirlesturinn og sat nafni á hnéinu á mér meðan ég ruddi herlegheitunum út úr mér. Hann var algjörlega eins og ljós allt þar til ég var komin að punkti nr. 3 af fimm í niðurstöðukaflanum. Þá tók hann að ókyrrast mjög og reyndist þrautin þyngri að ljúka síðustu 15 setningunum.

Það hafðist og þá tók andmælandinn við en þá var nafna nóg boðið. Gerðist hann afar ósamvinnuþýður og ég verð að segja að það að reyna að sitja fyrir svörum á þessum vettvangi með nafna í óhentugu skapi var meira en að segja það. 

Sænsku-skotin enska, erfiðar spurningar, hugsa og svara sjálfur á ensku og gólandi barn í fanginu. 

En það var engin miskunn og einhvern veginn blessaðist þetta nú allt fyrir rest en þess má geta að mér tókst að svæfa blessað barnið meðan ég sat fyrir svörum þannig að síðustu 10 mínúturnar voru mjög bærilegar.

Ég neita því samt ekki að ég var allþjakaður þegar yfir lauk. 

Nafni svaf svo í tvo tíma þannig að þá gátum við Terry rætt aðeins málin og lagt línurnar fyrir komandi átök.
Um það leyti sem við feðgarnir yfirgáfum IBF, vaknaði sá stutti og var þá alveg skínandi bjartur og hress. Lestarferðin heim gekk prýðilega og allir hressir og glaðir þegar við stigum inn fyrir þröskuld heimilisins upp úr klukkan 18.30 í kvöld.

Þannig að svona var nú fyrsta akademíska reynsla sonarins ...

En það má geta þess að verk mitt fékk góða dóma og var fyrirlestrinum sérstaklega hælt fyrir skýrleika. Já og svo fékk ég einróma lof fyrir að vera góður í þvi að "multi-taska" ... hver segir að karlmenn geti ekki "multi-taskað"?!? 


Sunnudagur 13. maí 2012 - Fótbolti, tiltekt, matur og pallur

Gott veður í Uppsala í dag ... 20°C og smá gola ... held bara að sumarið sé á næsta leyti.

Í svona veðri er fínt að skreppa og spila svolítinn fótbolta. Og það gerði ég ásamt 10 liðsfélögum mínum í Vaksala Vets. Við skruppum til Vallentuna til að spila við Markim/Orkesta (eða eitthvað svoleiðis).

Eftir síðasta leik, ákváðum við Sverrir að reyna að hafa áhrif á leikskipulag liðsins og liðsuppstillingu. Og við höfðum að einhverju leyti erindi sem erfiði. Til að gera langa sögu stutta, þá var bara töluverður strúktúr á liðinu og liðið spilaði margfalt betur í dag en síðasta sunnudag. Og það sem meira var ... það var gaman að spila. Boltinn fékk að rúlla og allt í einu rifjaðist upp fyrir mér af hverju ég er yfirleitt að taka þátt í þessu boltasprikli.

Jú, þetta er svo helvíti gaman þegar það er strúktúr og eitthvað í gangi.

Við töpuðum samt í dag. En með sæmd. Með áframhaldandi vinnu væri kannski hægt að gera eitthvað úr þessu. 

---

Svo er ég búinn að vera í tiltektarstuði bæði í gær og dag. Í hreinskilni sagt ... þá veitti nú ekkert af því ;) .

Lauga var í öðrum pælngum, lærdómspælingum og í því að viðra afkomendurna ... en báðir afkomendurnar eru óðir í að vera úti. Sérstaklega sá styttri. Það er bara það alskemmtilegasta. Sem er gott mál.

---

Í kvöld var Sverrir svo í mat hjá okkur. Píta í matinn og kók með. Já, menn verða svangir af því að spila fótbolta.

Í gærkvöldi vorum við í mat hjá Gunna og Ingu Sif. Það var mjög skemmtilegt eins og alltaf, þar sem rætt var um allt milli himins og jarðar.

---

Og svona í lokin langar mig til að nefna "smiðinn" á neðri hæðinni hjá okkur. Aumingja maðurinn. Hann hefur verið að klambra saman sólpalli framan við húsið síðustu daga. Ég neita því ekki að oft hefur mig langað til að hoppa út og gefa honum nokkur "tips". Þvílík smíði. Ljóst er að hann hefur ekki oft haldið um hamar á ævinni. Ég vona að hann sé betri í að keyra leigubílinn sinn.

Svo til að bæta svona ljósgráu ofan á svart, þá var hann "ávíttur" af húsnæðisfélaginu sem á hverfið. Sko, kerfið hérna er þannig að fólk kaupir sér búseturétt í húsunum en á þau ekki líkt og á Íslandi og víðar, þess í stað er húsnæðisfélag sem á allan pakkann og sér um að hafa hlutina í lagi innan- sem utandyra. 
Framan við húsið var pallur, sem snillingurinn reif til að geta byggt nýjan og stærri pall. En til þess að gera slíkt þarf leyfi og það láðist honum alveg að verða sér út um. Mér skildist nú samt að hann slyppi með þetta.

Á morgun ætla ég svo að segja frá framkvæmdunum fyrir aftan hús. Þar æpir reynsluleysi "smiðsins" á mann :) . 

 


Miðvikudagur 9. maí 2012 - Hjólatúr og áleitnar spurningar

Í dag fór sonur minn í sinn fyrsta hjólreiðartúr ... var afar tignarlegur og þótti víst bara nokkuð skemmtilegt eftir því sem fréttir herma.


Þarna er herramaðurinn á hjóinu tilbúinn til brottfarar.

---

Var að hlusta á viðtal við sálfræðing í 2012 Tapping World Summit en "Tapping" er sálfræðiaðferð sem hefur verið að ryðja sér til rúms og snýst í stórum dráttum um að segja ákveðnar skoðanir upphátt og tengja þær við tiltekin svæði líkamans og með þeim hætti á að vera hægt að hafa áhrif á starfsemi tauga, sem svo aftur skilar sér í betri andlegri og líkamlegri líðan.

Ég þekki þetta nú ekkert sérstaklega vel enda hef ég lítið kynnt mér þetta en mér skilst að eitthvað sé nú búið að prófa þetta vísindalega ... sel það ekki dýrara en keypti.

En það er ekki það sem ég ætlaði að skrifa um heldur miklu frekar það sem sálfræðingurinn sem heitir Carol Look sagði varðandi fólk sem er "overwhelmed" eða á góðri íslensku, fólk sem sér ekki út úr augum vegna alls kyns verkefna sem það tekur að sér, vegna þess að það getur ekki sagt nei og líður bölvanlega fyrir vikið.
Í slíku ástandi er hugur þess troðfullur af allskyns "böggi" og er allsstaðar en samt hvergi á sama tíma. Look lagði ofuráherslu á að í slíku ástandi væri svo mikilvægt að kyrra hugann, því meðan hugurinn væri allsstaðar en samt hvergi, væri ekki hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir. Ástæðan væri einfaldlega sú að fólk "heyrði" ekki í sjálfu sér og "heyrði" því ekki hvað það sjálft vildi gera.

Look veitti svo upplýsingar um hvernig mætti taka á þessu með Tapping. 

En svo sagði hún að fjölmargt fólk vildi bara ekkert taka á þessu. M.ö.o. það kysi að hreinlega láta sér líða illa (hljómar sérkennilega - eða hvað?).
Ástæðan: Einfaldlega sú að það þorir ekki annað. Athyglisverður punktur. Það þekkir ekki annað og vill því ekki rugga bátnum með því að láta sér líða betur.

Það sem nefnilega gerist þegar hægist á huganum og fólk fer að heyra í sjálfu sér, er að þá fara að koma alls kyns pælingar og meiningar sem geta verið óþæginlegar og áleitnar.  T.d. grundvallarspurningar um af hverju þú ert dagsdaglega að gera það sem þú ert að gera. Er líf þitt eins og þú myndir vilja hafa það? Hverju þarf að breyta?

Svörin geta falið í sér meiriháttar breytingar og þess vegna finnst mörgum bara best að heyra ekki spurningarnar ... og til að komast hjá því ákveður fólk að sökkva sér í vinnu eða skemmtanir eða áfengi eða sjónvarpsgláp eða tölvuleiki o.s.frv. 
Allt gert til að komast hjá því að vera ein(n) með eigin huga sem fer að spyrja mann spjörunum úr strax og tækifæri gefst.

Sálfræðin er skemmtilegt fag ... :)


Þriðjudagur 8. maí 2012 - Gott veður í Uppsala

Við Stubbur skruppum í góða strætóferð í morgun og þegar við komum aftur skruppum við í göngutúr enda sá yngri ekkert á leiðinni að fara að sofa eins og hann gerir yfirleitt eftir strætóferðina. 

Í blíðskaparveðri gengum við um hverfið, hlustuðum á fuglasöng, klukknahljóm og börn að leik ... ekki amaleg blanda það. 

Stubbi fór svo aftur í strætóferð og aftur út að leika sér seinnipartinn.  
"Hann er útióður" sagði móðir hans þegar komið var inn.

Guðrún var að sjálfsögðu með þeim úti. Var að sýna æfingar á einhverri rá á róluvellinum og lagði sig fram um að það kenna 7 og 8 ára stelpum sem voru þarna líka, einhverjar listir. Eftir því sem heimildir herma reyndu þær eldri eitthvað að gera en voru víst passlega áhugasamar. 

Hjá mér var deginum varið að mestu í greinarskrif ...

---

En þetta er nú ekki dónalegt hverfi sem maður býr í ...

 

Þó húsin séu kannski ekkert æðislega flott, þá er það aðdáunarvert hvernig allt hverfið hefur verið skipulagt og unnið. Með því á ég við að umhverfið milli húsanna hefur fengið mikið vægi og það er klárlega ekki látið mæta afgangi, eins og gjarnan vill brenna við.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband