Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Ísland yfirgefið eftir 33 daga!!

Flestum er líklega alveg nákvæmlega sama ... en svona fyrir þá sem hafa áhuga á að vita, þá voru í dag keyptir miðar til Sydney þann 2. maí nk.  Framhaldsnámið í umhverfissálarfræði í háskólanum í Sydney er á næsta leyti ... mjög spennandi ...

Raunar tókum við skötuhjúin þá ákvörðun að koma aðeins við í Tokyo á leiðinni til Sydney ... okkur fannst það bara svo rosalega viðeigandi.  Alltaf gaman að koma þangað, geri ég ráð fyrir ...

Nú má því fara að spýta í lófana og herða tökin, svo allt það sem þarf að gera, verði gert ...


KISS setur heimsmet!!!

Jááháá ... mínir menn láta ekki að sér hæða!!!

Hinir óútreiknanlegu liðsmenn KISS, þeir Gene Simmons og Paul Stanley, hafa loksins komið KISS á skrá hjá Guinness World Records™.  Um er að ræða stærsta teiknimyndablað sem gefin hefur verið út í heiminum - áhugasamir geta kíkt hér!!

paulgenescottandguinnesscertifwwla0316072


Öryggi nær og fjær ...

Í tíufréttum RÚV í kvöld, var sagt frá því að „Björn Bjarnason [dómsmálaráðherra, hver annar??] hefur kynnt nýtt frumvarp til laga um almannavarnir og að stofnað verði varalið lögreglunnar enda telur hann öryggis- og varnarmál nú í ríkari mæli íslensk innanríkismál, fremur en utanríkismál.“

Í viðtali við Helga H. Jónsson segir Björn: „Við eru ekki lengur að tala um landvarnir í hefðbundnum skilningi kaldastríðsáranna, heldur erum við núna að fjalla um næröryggi borgaranna sjálfra og þá reynir á aðrar stofnanir heldur en áður.“ Breyttar forsendur í öryggis- og varnarmálum eru ráðherranum hugleiknar svo hann bætti við: „Við þurfum að huga að nærhættu borgaranna á annan veg heldur en áður. [...] Með því liði [þ.e. 240 manna varaliði], auk 700 lögreglumanna í landinu, þá gætum við kallað út 1000 manna lið til að takast hér á við hættur.“

 

Björn gerir ráð fyrir 240 milljónum í stofnkostnað og 220 milljónum á ári í rekstrarfé til handa varaliðinu sem mun geta verndað okkur borgara þessa góða lands fyrir „nærhættu“ og veitt okkur „næröryggi“.  Gaman væri að fá að fréttir af því hvað Björn er með í pípunum varðandi „fjærhættu“, því auðvitað verður hann að veita okkur öllum „fjæröryggi“ ... skárra væri það nú!!


Hvernig er með flugvöllinn??

Til hvers er verið að halda hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar þegar enn eru áhöld um hvort flugvöllurinn verður yfirhöfuð færður?  Er ekki samgönguráðherra að tala fyrir veglegri samgöngumiðstöð í Vatnsmýri ... varla ætla ráðamenn að tjalda aðeins til einnar nætur með þá framkvæmd?  Einhver stakk upp á því að setja hjól undir miðstöðina, svo hægt væri að transporta með hana hvert á land sem er - ekki slæm hugmynd.

Í mínum huga er hyggilegast að taka strax ákvörðun um þennan blessaða flugvöll - vera eða vera ekki? Ef hann verður ekki, þá væri mjög skynsamlegt að skipuleggja Vatnsmýrina sem heild og leggja nýju, "fínu" Hringbrautina hans Dagga Egg. og Hljómskálagarðinn allt að Skothúsvegi, einnig undir í hugmyndavinnunni ... hugsanlega mætti fara alveg inn að Iðnó.  Hugsa um hvernig tengja má blessan miðbæinn við Vatnsmýrarsvæðið ... mjög mikilvægt að mínu mati.

Þarna eru rosalega fín tækifæri til að gera allan *"#*$??#$?% og engin ástæða til að klúðra þeim, að minnsta kosti vísvitandi!!! 

Jaaaa ... maður ætti kannski bara að henda einni tillögu inn á borð til Villa ... Ég varpa einu fram: Minnkum umfang Tjarnarinnar með því að gera austurbakka hennar vistlegri og notalegri ... það er alltof oft alveg bálhvasst þarna, þegar norðanstrengurinn æðir eftir Lækjargötunni og út á Tjörnina ... enda engu skjóli til að dreifa!!


mbl.is Hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrar hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott framtíðarsýn?

Valgerður Sverrisdóttir á fundi á Húsavík nýverið: "Við eigum að nýta orkuna og aðrir kostir en álframleiðsla eru ekki raunhæfir í dag og ekki líkur á því að það breytist á næstu árum" (Morgunblaðið í dag bls. 12).

Fyrir um áratug sá ég gsm-síma í fyrsta skipti, það var hlunkur með grænum skjá og ekki ætlaður til annars en að hringja úr, taka við símtölum frá öðrum og senda sms-skeyti ... í dag er öldin önnur og hægt er að horfa á sjónvarpsfréttir í símanum.

Það er verið að vinna að djúpborunarrannsóknum á háhitasvæðum og slíkt getur gefið gríðarlega orku ef vel tekst ... niðurstöður gætu verið handan við hornið.

Nei ... drífum okkur af stað ... virkjum með gömlu aðferðinni því Valgerður Sverrisdóttir sér ekki annað í stöðunni!!!


"Láttu 'etta vera, ég á 'etta!"

"Láttu 'etta vera, ég á 'etta" sögðu líka frændsystkini mín hér á árum áður, þegar ég hélt á púsluspilinu þeirra eða sat á lopapeysunni, sem lá eins og hráviði í sófanum í stofunni.  Í þeirra augum var eignarrétturinn skýlaus.  Ef Jón á púsluspil þá á hann púsluspil, amma gaf honum það í afmælisgjöf. Punktur basta.

Margir kalla svona háttarlag barna "frekju".  Gunnar ýtir Stínu litlu til hliðar, rífur af henni playmo-karlinn og Stína fellur í gólfið og fer að gráta.  "Sussssusssusss ... Gunni minn, ekki láta svona, þú átt að leyfa Stínu að leika með dótið þitt" nú eða "Gunnar Sveinn Pétursson ... af hverju læturðu svona?? Stína er frænka þín og má leika með dótið þitt!!!"  Já, almennt séð held ég að fullorðið fólk vilji að börn deili eigum sínum með öðrum, frekar en að þau verði heltekin af því hvort þau eigi tiltekna hluti eða ekki.  En stundum ... gleymir fullorðna fólkið sér og fer sjálft að nota "láttu 'etta vera, ég á 'etta" og verður í kjölfarið gagntekið af því að eiga hlutina.  Allt annað víkur.  

Þannig á að láta Þingeyjarsýslurnar í friði ef Þingeyingar vilja álbræðslu og virkjun innan sýslumarkanna. Þeir mega það líka, því þeir eiga þennan landshluta!!  Hafnfirðingar ákveða einir hvort rosaviðbót sé reist við núverandi álbræðslu í bænum, þeir mega það ... þetta er þeirra bær og þeir ráða yfir honum!!!  Ef íbúar Reykjanesbæjar vilja álver, þá ráða þeir því ...  þeir eiga 'etta!!  Austfirðingar vildu Kárahnjúkavirkjun og álver og þeir máttu líka alveg ráða því einir, þetta er þeirra land!

Ég man ekki betur en margir á landsbyggðinni hafi orðið alveg svaka móðgaðir þegar þeir voru ekki spurðir hvort Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni.  "Hey ... þið getið ekki gert svona, flugvöllurinn er fyrir alla Íslendinga ... aðgangur að stjórnsýslunni, ... Alþingi blablabla." 

Ég er alveg sammála ... framtíð Reykjavíkurflugvallar á að ákvarðast af landsmönnum öllum.  Einfaldlega vegna þess að eitt leiðir af sér annað, sem leiðir af sér enn annað.  Skipulagsmál í Reykjavík verða að auknum fjárútlátum fyrir Margeir á Ólafsfirði ... kallast víst keðjuverkun í daglegu tali.

En ef Reykjavíkurflugvöllur er mál allra Íslendinga, af hverju eru þá fyrirhuguð álver ekki mál allra Íslendinga? 


Arngrímur hjá Ísafold

Það er gaman að því, og í raun rannsóknarefni, að spá í hvaða orð rata í orðabækur.  Vinnu minnar vegna var ég rétt áðan að leita að góðu og gildu ensku orði eða orðasambandi fyrir orðin "kynningarfundur" eða "íbúaþing".  Ég tók að blaða í Arngrími Sigurðssyni, sem eitt sinn setti saman Íslensk-enska orðabók fyrir Ísafold.  Fremst í bókinni stendur ritað af mér sjálfum: "Fermingargjöf 20. apríl 1987. Páll J. Líndal".  Aukaatriði en engu að síður sjálfsagt til upplýsingar fyrir þig, lesandi góður.

Í bókinni fann ég afbragðsgóðar þýðingar á orðunum "kynningarbréf", "kynnir (þulur)", "kynnisferð", "kynóbeit", "kynsmár", "ídrægur" og "íðtákn" og orðasamböndunum "að vera illa / vel kynntur" og "að kynoka sér við eitthvað".  Raunar þurfti ég að lesa ensku þýðinguna til að skilja hvað er átt við með hinu síðastnefnda, en alltént er hér um að ræða afskaplega fallegt orðasamband.

Svo gaut ég augunum niður eftir blaðsíðunni, sem er númer 452 í bókinni, neðst er að finna orðið "kynlífsæfing" sem útleggst á ensku sem "sexercise".  Þess má geta að hvorki "íbúaþing" né "kynningarfundur" eru meðal efnis í bókinni.  Ég velti fyrir mér hvaða aðferðum Arngrímur beitti þegar hann valdi orðin í orðabókina ...


Hvað ertu eiginlega að gera?!?!

Ég var í fyrradag, að finna að því að Kaninn ætlar að kalla heim herlið sitt frá Írak þann 1. september 2008.  Hvað eru þeir eiginlega að pæla?  Skilja allt eftir í logandi rúst!!  Í sömu orðum nánast, fagna ég því að Kaninn hætti þessu hernaðarbrölti í landinu, sem hann hefði betur sleppt yfirhöfuð, einfaldlega vegna þess að í mínum huga er ofbeldi og mannsdráp aldrei réttlætanlegt. 

En þegar öllu er á botninn hvolft, hef ég leyfi eða þekkingu, til þess að setja mig í dómarasæti varðandi málefni Íraks ... er ég í raun svo mikill friðarsinni sjálfur að ég geti sagt öðrum hvernig þeir eiga að haga sér?  Er ég sjálfur með alla hluti svo á hreinu í mínu nærumhverfi að ég geti sagt hvernig fólk í fjarlægum heimshlutum á að haga sér?

Hversu oft hef ég stokkið upp á nef mér þegar einhver gerir á hluta minn ... til dæmis þegar flautað er á mig á ljósum.  "Jæja, karlinn ... hvað þykist þú nú eiginlega vera?!?" tuldra ég í barm mér um leið og ég silast af stað ... nógu hægt til að ergja flautarann örugglega.  Það þarf að kvitta fyrir flautið!!!

Þetta er hinn friðelskandi maður ... skilur ekkert í að fólk í fjarlægum löndum geti látið eins og það lætur, af hverju ekki að vera bara frekar vinir??  Í sömu mund, segir hann samferðamönnum sínum í Reykjavík að fara í *?#?"&$% ... bara fyrir það eitt að láta í ljós eftirfarandi: "Halló, þú þarna ökumaður fyrir framan mig, hæhæhæ ... það er komið grænt ... gúgú ... vakna!!"


Sæbrautin

Ég var í matarboði í Breiðholti í kvöld ... lamb og með'ðí - afar gott!!

Í bílnum á leiðinni heim var ég að brölta við að taka myndir.  Aðstæður afleitar en þó tókst mér að ná einni þokkalegri, sem er sko þokkaleg ef hún er ekki stækkuð mikið.  Ég læt hana flakka hér á vefinn ... hún er tekin á Sæbrautinni.

 Sæbrautin 


Álversmengun

Í vikunni álpaðist ég til að reikna út á vefsíðu Orkuseturs, hversu miklum CO2-útblæstri Skodinn sem ég ek um á, veldur.  Glöggir lesendur muna ef til vill niðurstöðuna sem var 1,9 tonn  á ári.  Mér þótti meira en nóg um, ritaði um niðurstöðuna og sagði hana hverjum sem vildi heyra.  Einn góður maður benti mér þá á Vísindavef HÍ, ekki þó svo að skilja að ég hefði aldrei heyrt á hann minnst, heldur að þar væri að finna fróðlega útreikninga varðandi fyrirhugaða mengun álversins í Reyðarfirði.  Það getur vel verið að umræddir útreikningar séu búnir að vera á hvers manns vörum um langa hríð ... en ég hef samt ekki heyrt á þá minnst fyrr og því læt ég þetta flakka ...

Á Vísindavef HÍ spyr Ingibjartur M. Barðason eftirfarandi spurningar: Hvað mengar eitt álver mikið í samanburði við bíl? Til dæmis þegar eitt álver bætist við, hvað jafnast það á við mikla fjölgun í bílaflotanum?

Auður H. Ingólfsdóttir sérfræðingur á landsskrifstofu Staðardagskrár 21 og Ragnhildur Helga Jónsdóttir sérfræðingur á landsskrifstofu Staðardagskrár 21 eru til svara og í ítarlegu svari þeirra kemur meðal annars fram:  "Ef miðað er við meðalstóran fólksbíl sem eyðir 9,5 l/100 km af bensíni og meðalkeyrsla á ári er 15.000 km, þá er losun hans 3.277,5 kg af CO2 á ári.  Því þarf um 172.000 slíka bíla til að losa sama magn af CO2 á hverju ári og Fjarðaál mun gera. Þetta eru álíka margir bílar og allir fólksbílar á Íslandi."

172.000 bílar!!! 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband