Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Tveir mánuðir og hrísgrjón

Í dag eru akkúrat nákvæmlega 2 mánuðir síðan Múrenan og spúsan komu til Sydney.  Klukkan 10 í morgun (þ.e. klukkan 12 að miðnætti að íslenskum tima - ójá, það er 10 tíma munur, heillin) var múrinn rofinn og nú blasir ekkert annað við en þriðji mánuðurinn, fullur af spennandi ævintýrum. 

Múrenan og spúsan héldu upp á tímamótin með "viðeigandi" hætti, þannig að klukkan tíu ... þegar klukkan sló ... voru þau að þrasa um hver hlustaði á hvern, hvenær, hvað, hvursu, hvurnig o.s.frv.  "Nei, nei, það er ég sem hlusta ... þú getur bara ekki komið hlutnum skýrt frá þér!!" "Heyrðu mig nú, ég er búin(n) að segja þér þetta 100 sinnum og þú virðist bara ekki nenna að hlusta"  "Hvaða rugl er þetta eiginlega??!?"  Þú skilur ... niðurstaðan engin, ekki frekar en vanalega, þegar svona hlutir eru ræddir með þessum hætti ...

Jæja, en það var nú ekki þetta sem Múrenan ætlaði að tala um, þó hún sé mjög hlynnt því að tímamót og hátíðahöld fái verðskuldaða athygli ... þetta eru náttúrulega þær stundir sem fólk man.  Til dæmis er Múrenunni 17. júní 1998 enn í fersku minni, þegar hún fór að grenja vegna þess að spúsan harðneitaði að fara Þingvöll, en þess í stað hékk eins og hundur á roði á því að fara niður í bæ.  Og hafði vinninginn!!  Hún má samt eiga það að hún huggaði Múrenuna eftir að hafa landað sigrinum.  Punkturinn með þessari sögu er að það er dagsetningin sem skiptir máli, ekki það að Múrenan hafi farið að brynna músum ... hún gerir það reglulega ... oft af minna tilefni en að vera neitað um að fara á Þingvöll á 17. júní. 

En eins og áður segir, ætlaði Múrenan ekki að ræða þessa hluti nú heldur það ... að ... hversu skynjun og mat á hlutum breytist við það að dvelja svona fjarri heimahögunum.  Því til staðfestingar, er ekki úr vegi að segja eina litla fallega sögu. 

Þannig var mál með vexti að Múrenan og spúsan ákváðu kvöld eitt að fá sér svínakjöt með súrsætri sósu og hrísgrjónum.  Af því tilefni, skruppu þau út, áttu viðskipti við matvöruveldið Coles með nauðsynlegt hráefni, fóru heim aftur og tóku til við að elda.  Ekki í sjálfu sér í frásögu færandi nema hvað ... Þegar Múrenan tók að handleika Tilda-hrísgrjónapakkann, komu merkilegir hlutir í ljós.  Leiðbeiningarnar á pakkanum voru á íslensku ... já Múrenan segir og skrifar það: Leiðbeiningarnar á pakkanum voru á íslensku. 

Íþróttaástundun í æsku og þokkalegt líkamlegt ástand; sterkir æðaveggir og fleira, var það sem kom í veg fyrir að ævi Múrenunnar hefði endað við þessa hrísgrjónapakkauppgötvun, slík var undrunin.  Í þessu landi, 20.000 km í burtu frá litla Íslandi, var innfluttur pakki af Tilda-hrísgrjónum, upprunninn frá Kína með íslenskum leiðbeiningum!!!  Spúsuna rak líka í rogastans.

Múrenan kynnti þessa uppgötvun í skólanum daginn eftir ... og kennarinn Lesley Walhorn varð undrandi.  Aftur var farið í gegnum mannfjöldatölur á Íslandi og hnattrænna stöðu Íslands miðað við Ástralíu, ... samt fannst Kínverjunum upphlaup Múrenunnar vera meira en tilefni var til.  "Vatt is só spisial abát þis???" spurði Jason sessunautur minn ... vááá, þessir Kínverjar ... þeir eru náttúrulega vanir því að leiðbeiningar á hrísgrjónapökkum og öðrum nauðsynjum hér séu á móðurmálinu!!  En fyrir Múrenuna og spúsuna var þetta meiriháttar mál, þrátt fyrir að hafa oft séð Tilda-hrísgrjónapakka með íslenskum leiðbeiningum ... sko á Íslandi ...

Eftir að mesta undrunin var yfirstaðin, greip um sig ósvikin og ógleymanleg gleði hjá Íslendingunum tveimur í íbúð 4 í húsi nr. 636 við Bourke stræti í Sydney ... þeir stigu dans, sungu lagið um "Járnkarlinn Árna" og hlógu frameftir nóttu. 

Og hugsaðu þér ... tilefnið var lítið sem ekkert ... aðeins einn blár Tilda-Basmati- hrísgrjónapakki - 500 grömm!!!


Myndir, myndir, myndir

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að sjá myndir frá Sydney, gæti verið gagnlegt að gefa linknum "Myndir, myndir, myndir", sem er hér vinstra megin á síðunni, gaum.

Þessa dagana er verið að hlaða myndum inn á www.flickr.com, gengur hægt, því internet tengingin er ekki sú öflugasta í veröldinni.  En það besta er ... það gengur ... passar vel við góðan frasa frá Bjarna Fel þegar hann var að lýsa leik hér um árið og sagði: "David O'Leary [fyrrum miðvörður hjá Arsenal] er traustur þó hægt fari".  Það sama á um flutning myndanna frá tölvunni okkar yfir á www.flickr.com.  Hægur en traustur.

Skemmtilegast er að fara í möppuna (verða brátt í fleirtölu - möppurnar), til að fá rétta tímaröð og svona.  Svo er æðislegur fítus, á www.flickr.com en það er "map"-fítusinn.  Hann er svo sannarlega eitthvað fyrir mig ... ég að dútla mér við að staðsetja myndir inn á kort.  Ef einhver hefur áhuga á slíku, það er að sjá eða fá yfirlit yfir staðinn þar sem tiltekin mynd var tekin, þá er það mögulegt - sökum þess að á sumum sviðum er maður nörd!


Besti dagurinn í Sydney til þessa!!

Það má segja að í dag 28. júní hafi Sydney-dvölin náð hæstu hæðum ... og það er svo sannarlega ástæða fyrir því.  Þannig var málum háttað, að eftir að hafa dvalið í skólanum fram eftir degi, hélt Múrenan heim á leið upp úr klukkan 17.30.  Gekk ákveðnum skrefum út af skólalóðinni og svo sem leið lá austur Cleveland Street ... það er alveg ótrúlega margbreytilegt að fara um Cleveland Street, því sums staðar er gatan nokkuð skemmtileg, tré, græn svæði og fallegar byggingar, en svo á öðrum stöðum er hún hreint ógeð, hávaði og mengun. 

Upphálds-Cleveland-Street-partur Múrenunnar er við búðina "MAO & MORE", nánar hús nr. 267-271.  MAO & MORE er kínversk antíkbúð ... og selur þarf að leiðandi kínverska antík, eins og styttur af Maó, stóla, borð, lampa, skápa og fleira.  Þar fyrir utan er hægt að fá skeinipappír með áprentuðu andliti núverandi Bandaríkjaforseta og fleira í þá veru. 

Þrátt fyrir það er það áhugaverðasta sem Múrenan hefur rekist á í útstillingarglugga verslunarinnar, stytta nokkur af Maó þar sem hann stendur uppréttur í bíl og veifar, eins og hann hefur sennilega gert nokkrum sinnum á valdatíma sínum, hér á árum áður.  Biksvartur bíll með engu þaki, bólstraður að innan í eldrauðu ... þrír öðlingar, þar af einn ökumaður, sitja í sætum sínum, sallarólegir.  Maó lítur líka út fyrir að vera alveg afslappaður við þetta tækifæri.

Þetta er alveg stórkostleg stytta ... en til allrar óhamingju var hún fjarlægð úr glugganum fyrir nokkrum dögum og hefur Múrenan áhyggjur af því að hún hafi verið seld einhverjum bastarði.  Það væri skrambans ólukka, því Múrenan var að safna fyrir Maó og bílnum.  Hugsanlega hefði þarna verið komin góð gjöf handa Leifi frænda ... styttan gæti þó verið bakatil í versluninni þannig að ekki er öll von úti enn.  Hins vegar veit Múrenan ekkert um það, því hún hefur aldrei stigið fæti sínum inn fyrir þröskuldinn á MAO & MORE.  Búðarskrattinn er alltaf lokaður.  Það er að segja ... hann er alltaf lokaður klukkan 17.30 þegar Múrenan á leið um Cleveland Street.  Einhver gæti þó hugsað sér að viðkoma í búðinni gæti verið álitlegur kostur áður en farið er í skólann ... en nei, Múrenan vill ekki heyra á það minnst enda alltaf á hraðahlaupum á leið sinni í skólann, of sein - alltaf!!

En já, þetta var góður dagur, því þegar komið var heim í Bourke Street eftir skóladvölina og Cleveland Street gönguna, tók við næsti dagskrárliður ... út að hlaupa ... Múrenan er að undirbúa maraþon, það var tilkynnt hátíðlega á þessari bloggsíðu fyriri nokkrum vikum, og ekkert hefur verið gefið eftir.  Múrenan fór í stuttbuxurnar og reimaði á sig skóna upp úr klukkan 18.45 og lagði af stað og viti menn ... ekki voru margir metrar að baki þegar Múrenan mætti konu nokkurri sem stóðst greinilega ekki mátið.  "Úúúúúúhhhh, sexy legs!!!" hrópaði hún yfir nærliggjandi umhverfi, í sömu mund Múrenan þaut framhjá.  Múrenan hélt ró sinni ... en þvílíkt egóbúst ... ekki einu sinni spúsa Múrenunnar hefur viðhaft slíkt orðalag!!  

Múrenan leit við og veifaði konunni.  "Thanks, mate."  Í fyrsta skipti á ævinni sagði einhver berum orðum við Múrenuna, að snjóhvítir, hárugir leggir hennar væru "sexy".  Múrenunni finnst engu máli skipta þótt konan hafi verið grútskítugur róni, sem var greinilega á vakt, með öðrum orðum var blindfull.  Í huga Múrenunnar er þessi kona, góð kona ... velinnrætt, hjartahlý og falleg, og hikar ekki við að slá ókunnugum gullhamra við hvert tækifæri.  Hún gerði daginn ógleymanlegan!!

Ef fleiri væru svona, væri heimurinn klárlega betri!!


17. júní 2007

Hún var ekki mikil 17. júní stemmningin hér í Sydney í gær ... allt gekk sinn vanagang, líkt og á öðrum sunnudögum.  Apótekarinn á horninu opnaði klukkan 8.30, matvörurisinn Coles hafði sína búð opna frá því árla morguns, eigandi pizzu- og kebabstaðarins úti á horni stóð sína vakt, sem og búðareigandinn í þarnæsta húsi og svona má áfram telja.

Sjálfur sat ég megnið úr deginum og barði saman ritgerð um Kyoto-bókunina, hvort hún væri að gera eitthvert gagn eða ekki ... því verki er enn ólokið, þegar þetta er ritað.  En svo mikið er víst, að 17. júní var víðs fjarri meðan á þeirri vinnu stóð.  Og til að auka enn á óhátíðleikann, tók íbúinn á neðri hæðinni sig til og bauð stúlku í heimsókn til sín í gær ... ekki í frásögu færandi, nema fyrir það að lungann úr deginum mátti ég sem og aðrir íbúar hússins, búa við sóðalegt orðbragð, gól og stunur sem nokkuð víst má telja að hafi komið úr munni gestsins.  Persónulega fannst mér að þau hefðu vel getað nýtt einhvern annan dag til þess arna ... en augljóslega ekki mitt að taka ákvörðun um það.

Og til að setja punktinn yfir i-ið var Laugu afskaplega illt í hægra auganu á þjóðhátíðardaginn ...

Já, það er klárt að nýju landi fylgja nýir siðir og 17. júní 2007 verður, í mínum huga, minnst fyrir allt annað en hátíðleikann ...


Á fundi með Dahai Lama

Í dag sáu Múrenan og spúsan "His Holiness The 14th Dalai Lama of Tibet" með eigin augum ... afskaplega fróðlegt.  Ástæða þess var sú að Heilagleikinn frá Tíbet er á túr um landið "The Dalai Lama 2007 Australia Tour" og kom hann að sjálfsögðu við í Sydney, nánar í The Domain Park.  Og það besta var,  það var boðið til ókeypis fundar við hann ... já, Dalai Lama vildi tala við fólkið undir berum himni, frítt.  Af þeim sökum dreif fjölda fólks að The Domain Park upp úr klukkan 14 til að berja karlangann augum og hlusta á boðskapinn. 

Glæsileg umgjörð var á staðnum, stórt svið þar sem "His Holiness" sat ásamt fylgdarmönnum í appelsínugulu skikkjunni sinni.  Á sviðinu voru líka aðrar kempur sem Múrenan kann nú ekki deili á en örugglega voru það óskaplega góðir karakterar ... þeir bara hljóta að vera það.  Sitthvoru megin við sviðið voru svo risastórir skjáir þannig að fólk á "aftasta bekk" gæti notið nærveru þessa mikla gúrús.  Jæja, en það var fleira, því lögreglan var vel mönnuð, jafnt á tveimur jafnfljótum og á baki þarfasta þjónsins.  Klárlega við öllu búin.  Svo voru neyðarskýli, sölutjöld, kamrar í löngum röðum, umferðarstjórar, og fleira og fleira ... 

Ef einhverjir voru ekki sáttir við komu herra Dalai, þá voru það veðurguðirnir, svo mikið er víst ... og telur Múrenan það víst að visst "veðurleysi" hljóti að hafa gert vart við sig víða um heim meðan karluglan talaði, því veðurguðirnir hafa sjálfsagt haft kappnóg að gera við að sturta rigningu niður á samkomuna.  Það var ekki hundi út sigandi ... samt hímdi Múrenan, spúsan og fjöldi fólks þarna í um tvo klukkutíma. 

Jú, vel á minnst, það voru aðrir sem ekki voru heldur alveg ánægðir með ferðalag karlsins og það er ástralska stjórnin.  Nú af hverju???  Málið er einfalt ... Ástralía er að reyna að gera hosur sínar grænar fyrir Kínverjum, efla samskipti og viðskipti milli landanna og svo framvegis ...  Málið er hins vegar þannig vaxið að Kínverjar hafa horn í síðu Tíbet og eru brjálaðir yfir því að Ástralir skuli hleypa "Heilagleikanum" inn í landið.  Þannig er hinn friðelskandi Dalai Lama að valda miklum titringi í tilhugalífi risans í austri og Ástralíu.  Hvort tengsl eru á milli stjórnvalda og veðurguðanna þorir Múrenan þó ekki að fullyrða ...

Jæja, en hvað sagði svo "His Holiness of Tibet" í rigningunni í dag??  Tjaaaa ... "samræður eru mikilvægar, sem og að það er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina og setja sig í spor annarra".  Það var nú megininntakið ... Að mati Múrenunnar voru þetta allt svo ótrúlega sjálfsagðir hlutir að hún ætlar í kjölfarið að athuga hvort hún getur ekki komið á sig "His Holiness"-stimpli og lagt af stað í svona túra um heiminn.  "His Holiness The 1st Múrenan of Iceland - World Stadium Tour 2008". 

Hugmyndin yrði þá einhvern veginn á þessa leið ... (Múrenan til vinstri og Sævar aðstoðarmaður til hægri)

Aftur að herra Tíbet ... en eftir þessa magnþrungnu ræðu var komið að því að Lama sæti fyrir svörum og leitað var eftir spurningum frá áhorfendum/áheyrendum.  Þær voru afar misjafnar að gæðum og ein fjallaði um hvað Dalai Lama héldi að Ástralir þyrftu að gera til að leysa vatnsvandamál sín ... fyrir þá sem ekki vita þá er viðvarandi vatnsskortur í Ástralíu (þó svo það hafi nú ekki verið vandamál í dag).  "Nota minna vatn" svaraði hans hátign.  Jepp ... þar höfðu þeir það.  Einhver áhorfandi/áheyrandi sagðist glíma við rifrildi heima fyrir - "hvað á ég að gera?"  "Bara rífast, við erum öll mannverur, það er eðlilegt.  Ekki samt meiða eða drepa" svaraði djásnið í appelsínugula teppinu.

Upp úr klukkan 16 lauk herlegheitunum ... Múrenan var orðin algjörlega uppnumin af þessum mikla fróðleik.  Spúsan var það hins vegar ekki, að minnsta kosti að mati Múrenunnar, því á leiðinni heim fór hún að kvarta undan beinverkjum og við heimkomuna lagðist hún undir sæng og neitar nú með öllu að hreyfa sig meira.  Síðasta sem hún sagði var að hún væri kominn með "hita í tennurnar".  Hvað það þýðir veit Múrenan ekki alveg fyllilega en vonar að það sé ekkert alvarlegt. 

En svona í virðingarskyni fyrir góðan vilja, meiningu og fríar ráðleggingar, ætlar Múrenan að láta eina mynd fylgja af "His Holiness The 14th Dalai Lama of Tibet".  Myndin er tekin af löngu færi þannig að skoða verður hana nákvæmlega ef takast á að sjá tvo oggulitla hausa ... sá til hægri tilheyrir herra Hólí.

Dalai Lama í Sydney 

 


Ísland og Íslendingar

Í ástralska ríkissjónvarpinu SBS er þessar vikurnar verið að sýna dönsku spennuþáttaröðina "Örninn" eða "The Eagle" eins og þeir kjósa að kalla þættina hér.  Það var fyrir tilviljun að við Lauga kveiktum á imbakassanum í kvöld og áttuðum okkur á þeirri staðreynd að hér hinum megin á hnettinum getum við heyrt íslensku í "kassanum" og ég er nokkuð viss um að í kvöld gerðist það í fyrsta skipti að ég varð vitni að því að í erlendum ríkisfjölmiðli var töluð íslenska ... "Hann er ekki svoleiðis" ... María Ellingsen.  Kúl!!!

Það svo loksins í dag að bekkjarfélagar mínir í enskunáminu áttuðu sig á því hversu fjölmenn íslenska þjóðin er ... satt að segja hef ég allt fram til þessa verið dálítið undrandi á því hversu fálega þeir hafa tekið í það, þegar ég hef gefið þeim upp mannfjölda á Íslandi.  
En sumsé, í dag spurði kennarinn mig hversu margir Íslendingar væru.  "300.000" svaraði ég.  Þögn.  "Íslendingar eru um 300.000."  Allt í einu sprakk bekkurinn úr hlátri, allir Kínverjarnir og Kóreubúinn líka.  "Trí höndert tásund" spurði Jason sessunautur minn, þegar hlátrasköllunum tók að linna.  "Já" sagði ég "ég hef oft sagt ykkur það ... Íslendingar eru 300.000." 

"Æ togt þat þey ver trí höndert miljon", sagði Jason þá ... "trí höndert tásund ... it's só smal."  Kínverjar eru klikk!!!  Greinilegt er að þeir geta ekki hugsað mannfjöldatölur minni en 1.000.000 ... það er algjört minimal gildi hjá þeim greinilega en ...

... fyrir vikið varð ég enn meira "unique" en nokkru sinni fyrr ... einn af þrjúhundruðþúsund er náttúrulega miklu merkilegra en einn af þrjúhundruðmilljónum.

Svo læt ég einn fróðleiksmola fylgja.  Þegar Kínverjar fara í skóla til Ástralíu verða þeir að taka upp ensk gælunöfn .... einfaldlega vegna þess að Ástralir eiga afar erfitt með að bera fram þau kínversku.  Bara nokkrum dögum eða vikum áður en þegnar kínverska heimsveldisins mæta til Ástralíu, verða þeir að finna sér nafn sem í mörgum tilfellum er gjörólíkt þeirra eigin og gangast svo undir því næstu árin.  Þannig valdi She Yue sér nafnið Mona, Sun Jie heitir Cynthia og Sur Peng kallar sig Dex. 

Kóreubúinn þurfti ekki nýtt nafn enda heitir hann Hu-Won Lee, sem er borið fram eins og "Who won Lee?".  Frekar einfalt fyrir Ástralina. 


Frábært hjá Þórunni

Mikið er ánægjulegt að lesa um það að umhverfisráðherra vill gera eitthvert skipulag fyrir miðhálendi Íslands áður en lengra er haldið.  Það er nákvæmlega það sem svo margir hafa verið að biðja um, búa til heildaráætlun, þar sem tekið er tillit til margvíslegra sjónarmiða, og framkvæma svo samkvæmt henni, með öðrum orðum að vita fótum sínum forráð ...

 

 


mbl.is Kjalvegur verði ekki malbikaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mogginn vaknar loksins!!!

Já, blaðamenn Moggans hafa loksins vaknað ... Fréttastöð Múrenunnar í Sydney setti meiriháttar frétt á vefinn í gær um strand Pasha Bulker og síðast þegar fréttist var skipið enn á "sínum stað" í Nobby fjörunni ...

... ótrúleg mynd af strandinu birtist á ABCNews Online.


mbl.is Átta látnir í fárviðri í Ástralíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strand Pasha Bulker er stórmál!!!

Í bloggi gærdagsins minntist Múrenan ögn á að risaolíuskip strandaði rétt utan við bæinn Newcastle, skammt norðan við Sydney ... það er alveg merkilegur andskoti ... að vera á hálfsárs fresti í næsta nágrenni við slíkt.  Wilson Muuga strandar rétt utan Sandgerðis og nú hinum megin á hnettinum, nánast nákvæmlega hálfu ári síðar rekur Pasha Bulker nánast upp í fjöru.  Yfirvöld hérna megin eru alveg á nálum að dallurinn fari í sundur, eitthvað sem menn höfðu einnig áhyggjur af á Íslandi fyrir nokkrum mánuðum ... að minnsta kostir einhverjir ... allavegana Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur.  Fari Pasha í sundur fara nærri 800 tonn af olíu í sjóinn og mun hún skolast upp á Nobbs ströndina, en það er eitthvað sem strandunnendur í Newcastle kæra sig lítið um, samkvæmt heimildum Múrenunnar.
Af einskærri samviskusemi við lesendur sína setur Múrenan mynd með þessari frétt, enda er þetta stórfrétt ...

Pasha Bulker

Hins vegar hafa vangaveltur Múrenunnar, síðasta sólarhringinn, um möguleg tengsl milli dvalar hennar á ákveðnum stað og að risaolíuskip strandi "með stæl" í næsta nágrenni, "böggað" hana töluvert.  Það er náttúrulega ekkert grín ef tengslin eru staðreynd ... það væri verulega þungur kross að bera.  Því mun Múrenan vera mjög á varðbergi eftir um hálft ár ...

Svo gæti það náttúrulega verið að spúsa Múrenunnar væri örlagavaldur í þessu öllu saman ... kannski ætti að splitta einingunni upp eftir um hálft ár, spúsan fer til Íslands og Múrenan verður eftir í Eyjaálfu eða öfugt og sjá hvað gerist.  Þriðji möguleikinn er náttúrulega sá að einhver annar sé ábyrgur fyrir þessu ... hmmm ... jú, kannski að Fjóla sé ábyrg.  Sko ... Fjóla vinkona okkar yfirgaf Ástralíu í gærmorgun og fór til Íslands.  Og það var eins og við manninn mælt, Pasha strandar ... Fjóla var í Ástralíu þegar Wilson strandaði um síðustu jól.  Tengslin eru augljós ... Múrenan þarf ekki að hafa áhyggjur!!!  Nei ... þetta er ekki rétt ... Fjóla fór til Kanada um síðustu jól ...

Áhyggjurnar hafa aftur látið á sér kræla hjá Múrenunni, meiri og kröftugri en nokkru sinni fyrr!!!

En hvar eru fréttamenn Morgunblaðsins núna???  Hví í ósköpunum er ekki búið að slá þessu upp á forsíðu!!!  Strand sem þetta er náttúrulega eitthvað sem Íslendingar, ja, alltént Suðurnesjamenn ættu að kannast við ... og strand Vikartinds árið 1996, eru allir fréttasnápar búnir að gleyma því!!

 


Fréttir frá Sydney

Múrenan heldur nú ... fjandinn hafi það ... að himnarnir séu að hrynja yfir Sydneyborg.  "Það hefur gjörsamlega rignt andskotann ráðalausan í dag", svo notað sé orðalag hins mikla frænda Múrenunnar, Leifs Vilhelmssonar.  Fram til þessa hefur því verið haldið fram á þessari blessuðu bloggsíðu að rigning væri nánast ekki til í þessum heimshluta ... en eftir þennan dag ... skal Múrenan éta það allt ofan í sig aftur, með hráum lauk!!!  

Kennari dagsins herra Robert McCarthy sagði í skólanum í dag að hann myndi bara ekki eftir öðru eins veðri ... það verður nú samt að segjast, að Múrenunni fannst herra McCarthy yfirdramatísera hlutina aðeins.  Það er greinilegt að hann hefur aldrei lent í íslenskri norðanstórhríð þar sem menn sjá varla á sér augnlokin ... jafnvel dögum saman ... En herra McCarthy er einhver sá alsnjallasti persónuleiki sem Múrenan hefur hitt.  Þrátt fyrir að vera ef til vill ekki sá snoppufríðasti sem um getur, þá hefur hann svo mikinn metnað sem kennari að það er sjaldséð og fáheyrt ... hann skilur Kate, kennarann sem áður hefur verið minnst á hér á síðunni, gjörsamlega eftir í duftinu að þessu leytinu.  Já ... og það er víst best að leiðrétta það hér með að Kate heitir ekki Kate, heldur Kaye ... Múrenan fattaði það eftir 20 daga í skólanum ...

Já ... svo er annað ... nú er lokið fyrri hlutanum í þessu mikla enskunámskeiði, sem Múrenan er þátttakandi í.  Því lauk í dag og óvíst er Múrenan, Kóreubúinn og Kínverjarnir 15 fá notið meiri leiðsagnar frá Kaye og herra McCarthy.  Aðrir kennarar gætu tekið við bekknum í seinni hlutanum og ekki er laust við að örli á sorgarviðbrögðum hjá Múrenunni ... því er ekki úr vegi að birta mynd, hér á síðunni af Kaye og bekknum (það vantar að vísu 3 Kínverja á myndina), því miður er engin mynd til af herra McCarthy.

Kaye, Kóreubúinn og Kínverjarnir 15 (-3)

Jæja ... en áfram með veðrið, því í kvöldfréttunum var tilkynnt að þetta væri versta veður sem gengið hefur yfir New South Wales í meira en 30 ár ... þannig að herra McCarthy hafði þá kannski rétt fyrir sér.  Það er náttúrulega verið að tala um alveg heila 15 m/s með þessari úrhellisrigningu.

Einnig var það í fréttunum að risaolíuskip er strandað rétt fyrir utan höfnina í Newcastle, sem er bær skammt norðan við Sydney og ekkert hægt að gera vegna veðurs ... ástandið minnir óneitanlega á jólaævintýrið kringum Wilson nokkurn Muuga.  Af þessu má sjá að skipin stranda jafnt sunnan sem norðan miðbaugs, það er næsta víst ...  En veðrið hefur þó einn mjög góðan kost í för með sér ... yfirborð vatnsbóls Sydneyborgar hefur hækkað mjög mikið í dag ... þeirri staðreynd hljóta mjög margir að fagna. 

En aftur að skólanum ... það er óhætt að segja að kínverska heimsveldið hafi heldur betur gert í buxurnar í dag, allavegana hvað bekk EAP AdvA (5) varðar.  Aðeins 3 fulltrúar mættu í skólann í dag, meðan fulltrúi íslenska ofurveldisins stóð sína plikt, sem og fulltrúi Suður-Kóreu, sem getur ekki sagt "f" heldur segir alltaf "p" í staðinn ... "f"-hljóðið er víst ekki til í kóresku, ekki frekar en fleirtala.  Fleirtala er heldur ekki til í kínversku ... Múrenunni finnst það stórmerkilegt ...

Til að enda þennan pistil á sömu nótum og hann hófst ... er alveg dagljóst að Íslendingar eru hetjur, og þar með er Múrenan hetja.  Í þessum veðurham sem var í dag, rölti Múrenan regnhlífarlaus og knarreist til og frá skóla.  Allir sem urðu á vegi hennar, skýldu sér á bak við hallærislegar regnhlífar ...

Þá má leiða hugann að Bangladesh-búanum sem Múrenan hitti fyrsta daginn í skólanum.  Sá öðlingur var algjörlega að drepast úr kulda í útsýnisferðinni sem farin var í þennan dag, enda hitinn aðeins 24°C.  Þessi maður hlýtur að vera nær dauða en lífi úr kulda í dag ... í 15°C, rigningu og 15 m/s!!

En svona leit Múrenan út þegar hún kom heim úr skóla í dag ... stærri og sterkari en nokkru sinni fyrr!!!

Múrenan stálsleginn!

Svo til að loka þessu ... spáin er blaut.  Múrenan vonar þó innilega að afmælisdagur drottningar á mánudaginn verði þokkalegur ... hún Elísabet á ekki annað skilið!!!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband