Mánudagur 29. nóvember 2010 - Fullkominn fótbolti og vangaveltur

Í kvöld ákvað ég að gera nokkuð sem ég jafnan geri mjög lítið af ... en það er horfa á fótbolta í sjónvarpinu.

Í kvöld var nefnilega "El Clasico", þ.e. viðureign Barcelona og Real Madrid í spænsku deildarkeppninni.

Og svei mér þá ef Barcelona spilaði ekki fullkominn fótbolta á köflum í þessum leik ... þannig að hrein unun var á að horfa.

---

Annars hefur dagurinn runnið fremur ljúflega í gegn ... ég hef verið að vinna við skrif skýrslu fyrir Djúpavogshrepp, sem ég stefni að því að skila eins fljótt og nokkur kostur er.  Skemmtilegt og krefjandi verkefni sem vonandi munu koma til góða í framtíðinni. 

---

Það er hreint alveg merkilegt hvað dóttirin er áköf í því að taka alltaf af sér vettlingana þegar hún er utandyra þessa dagana.

 

Maður er varla kominn út fyrir þröskuldinn, þegar tekið er upp á því að rífa vettlingana af lúkunum.  Innan skamms er svo farið að kvarta yfir handkulda en samt má ekki svo mikið sem minnast á að fara aftur í vettlingana.

Á flugeldasýningunni í gær var -12°C frost, eins og sagt var frá í gær, og það að klæðast vettlingum ekki innan sjóndeildarhringsins.  Sá þvergirðingsháttur leiddi svo til þess að annar vettlingurinn tapaðist.

Þegar ég kom að ná í dótturina á leikskólanum í dag var hún berhent á hægri hönd.  Á vinstri hönd var vettlingur allt annarrar gerðar en þeirrar sem hún fór með í leikskólann í morgun. Þá hafði hún hent sínum eigin eitthvert út í loftið og reynt hafði verið að redda málnum með þessum árangri.  Á þeim tímapunkti var lofthiti -11°C.

Í kvöld fór ég svo og keypti lúffur á blessað barnið.  Lúffur sem eru bæði með "lás" og band.  Það er von mín að þær dugi. 

---

Svo hef ég verið svolítið hugsi yfir þessu "Gunnars-í-Krossinum"-máli í dag. Mál af þessum toga eru hreint alveg hrikaleg ... sama hvernig á þau er litið ...

Það sem ég hef helst verið að pæla í er hversu hrikalegt það hlýtur að vera, að vera sakaður/sökuð um gjörðir sem þessar sé maður blásaklaus. Þegar einhver hefur sakaður/sökuð um svona verknað og svo reynist hann/hún saklaus, er það einhvern veginn þannig að maður slær engu að síður varnagla ... hugsar oft "já en ef hann/hún gerði þetta nú samt". Það er nefnilega auðvelt að neita svona gjörðum ... vitni til staðar í fæstum tilfellum og orð á móti orði.  

Á hinn bóginn getur það líka verið auðvelt að ljúga svona hlutum upp á fólk ... aftur - orð stendur á móti orði og sjaldast vitni.

Fólk vill trúa hinu meinta fórnarlambi á sama tíma og það vill ekki trúa "þessu" upp á hinn meinta sökudólg.  Í hvorn fótinn skal þá stigið ... því það er hræðilegt að neita trúa fórnarlambi og það er líka hræðilegt að sakfella saklausan mann? 

Í vísindum eru til alveg sérstök hugtök yfir þessar þrengingar sem stundum blasa við fólki, þ.e. hættan á "Type I error" og "Type II error":
Type I error: Þegar maður segir að eitthvað sé til staðar þegar það er ekki til staðar.
Type II error: Þegar maður segir að eitthvað sé ekki til staðar þegar það er til staðar.  

Jæja ... nóg um þetta ... en allavegana er rétt að geta þess að ég er hér ekki að leggja hið minnsta mat á það hvort Gunnar í Krossinum er sekur eða saklaus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband