Á fundi með Dahai Lama

Í dag sáu Múrenan og spúsan "His Holiness The 14th Dalai Lama of Tibet" með eigin augum ... afskaplega fróðlegt.  Ástæða þess var sú að Heilagleikinn frá Tíbet er á túr um landið "The Dalai Lama 2007 Australia Tour" og kom hann að sjálfsögðu við í Sydney, nánar í The Domain Park.  Og það besta var,  það var boðið til ókeypis fundar við hann ... já, Dalai Lama vildi tala við fólkið undir berum himni, frítt.  Af þeim sökum dreif fjölda fólks að The Domain Park upp úr klukkan 14 til að berja karlangann augum og hlusta á boðskapinn. 

Glæsileg umgjörð var á staðnum, stórt svið þar sem "His Holiness" sat ásamt fylgdarmönnum í appelsínugulu skikkjunni sinni.  Á sviðinu voru líka aðrar kempur sem Múrenan kann nú ekki deili á en örugglega voru það óskaplega góðir karakterar ... þeir bara hljóta að vera það.  Sitthvoru megin við sviðið voru svo risastórir skjáir þannig að fólk á "aftasta bekk" gæti notið nærveru þessa mikla gúrús.  Jæja, en það var fleira, því lögreglan var vel mönnuð, jafnt á tveimur jafnfljótum og á baki þarfasta þjónsins.  Klárlega við öllu búin.  Svo voru neyðarskýli, sölutjöld, kamrar í löngum röðum, umferðarstjórar, og fleira og fleira ... 

Ef einhverjir voru ekki sáttir við komu herra Dalai, þá voru það veðurguðirnir, svo mikið er víst ... og telur Múrenan það víst að visst "veðurleysi" hljóti að hafa gert vart við sig víða um heim meðan karluglan talaði, því veðurguðirnir hafa sjálfsagt haft kappnóg að gera við að sturta rigningu niður á samkomuna.  Það var ekki hundi út sigandi ... samt hímdi Múrenan, spúsan og fjöldi fólks þarna í um tvo klukkutíma. 

Jú, vel á minnst, það voru aðrir sem ekki voru heldur alveg ánægðir með ferðalag karlsins og það er ástralska stjórnin.  Nú af hverju???  Málið er einfalt ... Ástralía er að reyna að gera hosur sínar grænar fyrir Kínverjum, efla samskipti og viðskipti milli landanna og svo framvegis ...  Málið er hins vegar þannig vaxið að Kínverjar hafa horn í síðu Tíbet og eru brjálaðir yfir því að Ástralir skuli hleypa "Heilagleikanum" inn í landið.  Þannig er hinn friðelskandi Dalai Lama að valda miklum titringi í tilhugalífi risans í austri og Ástralíu.  Hvort tengsl eru á milli stjórnvalda og veðurguðanna þorir Múrenan þó ekki að fullyrða ...

Jæja, en hvað sagði svo "His Holiness of Tibet" í rigningunni í dag??  Tjaaaa ... "samræður eru mikilvægar, sem og að það er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina og setja sig í spor annarra".  Það var nú megininntakið ... Að mati Múrenunnar voru þetta allt svo ótrúlega sjálfsagðir hlutir að hún ætlar í kjölfarið að athuga hvort hún getur ekki komið á sig "His Holiness"-stimpli og lagt af stað í svona túra um heiminn.  "His Holiness The 1st Múrenan of Iceland - World Stadium Tour 2008". 

Hugmyndin yrði þá einhvern veginn á þessa leið ... (Múrenan til vinstri og Sævar aðstoðarmaður til hægri)

Aftur að herra Tíbet ... en eftir þessa magnþrungnu ræðu var komið að því að Lama sæti fyrir svörum og leitað var eftir spurningum frá áhorfendum/áheyrendum.  Þær voru afar misjafnar að gæðum og ein fjallaði um hvað Dalai Lama héldi að Ástralir þyrftu að gera til að leysa vatnsvandamál sín ... fyrir þá sem ekki vita þá er viðvarandi vatnsskortur í Ástralíu (þó svo það hafi nú ekki verið vandamál í dag).  "Nota minna vatn" svaraði hans hátign.  Jepp ... þar höfðu þeir það.  Einhver áhorfandi/áheyrandi sagðist glíma við rifrildi heima fyrir - "hvað á ég að gera?"  "Bara rífast, við erum öll mannverur, það er eðlilegt.  Ekki samt meiða eða drepa" svaraði djásnið í appelsínugula teppinu.

Upp úr klukkan 16 lauk herlegheitunum ... Múrenan var orðin algjörlega uppnumin af þessum mikla fróðleik.  Spúsan var það hins vegar ekki, að minnsta kosti að mati Múrenunnar, því á leiðinni heim fór hún að kvarta undan beinverkjum og við heimkomuna lagðist hún undir sæng og neitar nú með öllu að hreyfa sig meira.  Síðasta sem hún sagði var að hún væri kominn með "hita í tennurnar".  Hvað það þýðir veit Múrenan ekki alveg fyllilega en vonar að það sé ekkert alvarlegt. 

En svona í virðingarskyni fyrir góðan vilja, meiningu og fríar ráðleggingar, ætlar Múrenan að láta eina mynd fylgja af "His Holiness The 14th Dalai Lama of Tibet".  Myndin er tekin af löngu færi þannig að skoða verður hana nákvæmlega ef takast á að sjá tvo oggulitla hausa ... sá til hægri tilheyrir herra Hólí.

Dalai Lama í Sydney 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki að spyrja að því..."nota minna vatn" og málið er leyst  Fólkið hlýtur að hafa tekið andköf af hrifningu og hugsað: Af hverju datt okkur sjálfum þetta ekki í hug??? Mér líst vel á hugmyndina um Herra Hólí Múrí World Tour því það virðist ekki veita af smá samkeppni í þessum geira. Það er amk ekki eðlilegt að fá hita í tennurnar við að hlusta í 2 klst á spekina! Vonandi er Layla á batavegi...

Annars finnst mér myndin af Dalai Lama og félaga hans alveg frábær. Þetta er svona týpísk reuter fréttamynd, regnhlífar í forgrunni og litadýrð... 

Með friðarkveðju,

Dóri

Dóri (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 02:38

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Fréttastofa Múrenunnar þakkar Halldóri kærlega fyrir fögur orð varðandi myndina af Dalai Lama ... hún er tekin af ljósmyndara stofunnar, Páli Líndal.

Páll Jakob Líndal, 17.6.2007 kl. 05:02

3 Smámynd: Páll Jakob Líndal

... eða öllu heldur var myndin tekin af ljósmyndara stofunnar, Páli Líndal.

Páll Jakob Líndal, 17.6.2007 kl. 05:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband