Fimmtudagur 29. nóvember 2012 - Margs konar ævintýri

Stjarna dagsins var GHPL sem dansaði á foreldradanssýningu í dansskólanum í dag. Gekk alveg ljómandi vel og Guddan skemmti sér greinilega mjög vel sem er sérlega ánægjulegt sérstaklega í ljósi þess að hún hefur lítið viljað taka þátt í danstímunum í vetur.

 

Í dag sá nafni minn líka snjó í fyrsta sinn, svona eftir að hann fékk eitthvað vit í kollinn sem mark takandi er á.

Viðbrögðin voru langt frá því að vera eitthvað rosaleg. Hann lét sér frekar lítið um finnast. Það var ólíkt því sem var þegar GHPL upplifði fyrst snjó eftir að vit var komið að einhverju marki í kollinn á henni. Það var 15. desember árið 2009. 

 

Fyrsti snjórinn setti strætósamgöngur svolítið úr skorðum, kannski bara eins og lög gera ráð fyrir.


Í sjöunni á Hugo Alfvéns väg. 

Og á leiðinni heim fékk maður aðeins að finna fyrir því og ballið hófst þegar bara tvær biðstöðvar voru eftir.

Þá ákvað ég að taka blað sem Palli var að lesa af honum til að pakka því niður í tösku. Hann situr í fangi móður sinnar þannig að ég þarf að standa upp til að ná blaðinu. Í miðri athöfn snarhemlar bílstjórinn og ég dett aftur fyrir mig og hyggst lenda aftur í sætinu. En því miður fyrir mig hafði ég setið í sæti þar sem setan fer sjálfkrafa upp þegar staðið er upp. Ég lenti því á gólfinu. 

Þessi snarhemlun var tilkomin af því að umferðaröngþveiti hafi orðið á nýja hringtorginu við Gottsunda Centrum. Strætó hafði runnið til í torginu og sat fastur. Upp úr því varð einhver sirkus þar sem allir flautuðu á alla.


Strætó í ógöngum.

Í miðri hringiðunni ákveður nafni minn að kasta upp og gerir það snyrtilega. Magainnvolsið fer að miklu leyti yfir GHPL sem situr fyrir framan hann, svolítið fer á hann sjálfan og talsvert yfir úlpuna hennar Laugu. GHPL bregst við með ástandinu með því að endurtaka í sífellu: "Úff, ælulyktin, úff, ælulyktin". Annars var engu líkara en henni fyndist bara nokkur upphefð í því að láta kasta upp yfir sig.

Einhver málamyndaþrifnaður hefst hjá okkur Laugu og um það leyti stoppar vagninn til að hleypa okkur út. Ég tilkynni bílstjóranum að strætóinn sé útataður í ælu, stekk svo til og gríp kerruna sem í sat GHPL og snara mér út. Dyrnar lokast og þá sé ég mér til skelfingar að bakpokinn minn er enn inni í vagninum. Næ að redda málnum.


Allir útbíaðir eftir strætóferðina. 

Þessi saga endar með því að Palli ælir í teppið í forstofunni. Hann er sennilega kominn með einhverja pest ... vonandi samt ekki :) .

Er einhvern veginn að vona að þetta séu bara eftirköst af 18 mánaða skoðuninni sem hann fór í í morgun. Þar var hann m.a. sprautaður í lærið við lítinn fögnuð. Annars kom hann bara mjög vel út úr öllu. Mældist 83 cm og 10,1 kg. Ásættanlegt. 

 
Í skoðun - staðan eftir að hafa fengið sprautu í lærið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband