Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Þetta lítur bara bærilega út ...

Ekki er ótrúlegt Bandaríkjamenn, það er að segja sá hluti þeirra sem yfirleitt fær eða getur kosið, eigi eftir að finna fyrir nokkrum valkvíða þegar þeir kjósa sér forseta næst.  Frambjóðendurnir, Barack Obama, Hillary Clinton og Rudy Giuliani, eru allir afar frambærilegir og mér finnst sem þeir hljóti að vera í órafjarlægð, hugmyndafræðilega séð, frá þeim rakalausa "snillingi" sem nú stýrir málum í Hvíta húsinu.

Giuliani þarf náttúrulega ekki að kynna eftir 11. september 2001, stóð sig frábærlega og myndi örugglega vera snjall sem forseti.

Clinton virkar afar vel og oft hefur maður nú heyrt að hún hafi verið drjúg að tjaldabaki þegar Bill karlinn hélt um taumana.  Reyndar verð ég að segja að ég var ánægður með Bill sem forseta.  Auðvitað gerði hann gloríur á sínum ferli en í heildina fannst mér hann standa sig býsna vel ... kannski litar frammistaða Bush örlítið matið.  Veit ekki.  Klárlega myndi kerlingin standa sig með bravúr í embættinu.

Barack.  Það litla sem ég hef lesið, séð og heyrt af honum virkar vel á mig ... verðugur kostur!

Ég verð bara að viðurkenna að ég veit ekkert um John McCain ...


mbl.is Barack Obama saxar á forskot Hillary Clintons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gestur Svavarsson í Blaðinu í dag!

Hólí mólí ... ég var að lesa grein í Blaðinu í dag eftir femínistann og kvenfrelsisvininn Gest Svavarsson, þar sem hann fjallar um kynjabundið misrétti og aðferðir til að rétta það af, s.s. með reglum um kynjahlutföll við ráðningu forstöðumanna, ríkisstofnanna, ráðuneyta og ríkishlutafélaga, reglum um kynjahlutföll á framboðslistum til Alþingis og sveitarstjórna og svo framvegis og svo framvegis ...

Eftir þessar útlistingar herra Gests fer svo í gang einhver útópía (ég skora á þig að lesa þetta - leturbreytingarnar eru mínar):

"Mörgum finnst tillögur af þessu tagi of róttækar, að of hart sé fram gengið.  Helst eru nefnd þau rök að það sé rangt að ganga fram hjá hæfum karli og velja konu bara vegna þess að kyns hennar.  Þeir sem taka undir slík rök eru um leið að halda því fram að konum henti síður stjórnunarstörf, að konur eigi síður skilið launahækkun o.s.frv.  Því með þessum rökum má segja að karlar uppskeri í samræmi við hæfi og hljóti einfaldlega að vera hið æðra kyn fyrst þeir eru í meirihluta stjórnunarstaða í einkageira og í stjórnmálum.  Engin kona hafi hingað til verið þess verðug að gegna starfi forsætisráðherra og seðlabankastjóra.  Varla er nokkur til í að skrifa upp á slíka fásinnu."

Þessi maður er í framboði til Alþingis!! 

Ég spyr nú bara eins og Sigrún Guðmundsdóttir kennarinn minn í Austurbæjarskóla spurði gjarnan þegar eitthvert bekkjarsystkina minna lét illa (sjálfur var ég afar þægur nemandi): "Hefurðu verki með þessu, Gestur minn?" 

Hvernig er hægt að segja það að hugsunarháttur fólks sem vill að hlutirnir hafi sinn meðgöngutíma, að breytingar komi fram stig af stigi, sé með þeim hætti sem Gestur lýsir?

Ég er á móti reglum um kynjakvóta en ekki vegna þess að ég líti niður á konur - skárra væri það nú!!! Enda er ég að mestu leyti alinn upp af konum, meira að segja frumkvöðlum á sínum sviðum, konum sem þurftu að berjast fyrir sínu, samt einhverjum mestu and-femínistum sem ég þekki!!! 

Ég er á móti kynjakvótum vegna þess að það er ólýðræðislegt og felur í sér ójafnrétti, bæði fyrir konur og karla.  Kynjakvótar eru "forseringar", ekki eðlilegt flæði.


61% - 39%

Fréttablaðið í birtir í dag könnun á því hvort fólki hafi fundist rétt af eigendum Hótels Sögu að vísa gestum klámráðstefnu frá hótelinu, líkt og gerðist í síðustu viku.  Svarhlutfall var mjög hátt eða tæplega 89%, kynjahlutfall jafnt og af þeim sem tóku afstöðu fannst 61% þátttakenda ákvörðun eigenda HS röng á móti 39% sem fannst hún rétt!!  Meira að segja fannst meirihluta kvenna í könnuninni ákvörðunin röng eða 52%.

Mér finnst þetta einfaldlega sýna að málflutningur þeirra aðila sem töluðu fyrir því að hótelið brygðist við með þeim hætti sem raunin varð, er of öfgakenndur.  Þessir aðilar tala greinilega ekki máli meirihlutans og kæra sig kollótta um tilverurétt annarra sjónarmiða.  Boðskap þeirra er einfaldlega troðið ofan í kokið á fólki.

Ég leyfi mér að fullyrða að flestir Íslendingar, af báðum kynjum, eru alveg sammála því klám sé afar óæskilegt efni sem geti haft í för með sér alvarlega hluti eins og vændi, mannsal, morð o.s.frv.  En það eru bara svo afskaplega margir hlutir aðrir sem geta leitt af sér óæskilegar gjörðir misyndismanna.  Þessar aðgerðir í síðustu viku, hljóta því að kalla á að öll félagasamtök og stjórnmálamenn, háir sem lágir, sem koma til landsins í því skyni að kynna sig og sín mál, nú eða tala sín á milli, fái einhvers konar gegnumlýsingarmeðferð. 

Hér hefðu kröftug mótmæli af margvíslegu tagi, verið mun sterkara vopn í baráttunni.  Fordæmisgildið fyrir börn og unglinga hefði verið öflugt með þeirri aðferðafræði og ég er sannfærður um að fjöldi fólks hefði tekið þátt. 

---

Ég er þess einnig fullviss að flestir Íslendingar eru alveg á því að jafna þurfi kjör karla og kvenna, með öðrum orðum trúi ég því að Íslendingar séu upp til hópa jafnréttissinnaðir hvort sem um ræðir kynjamál, menntunarmál, heilbrigðismál o.s.frv.  Þannig mætti ætla að málflutningur kvenréttinda- og kvenfrelsisfólks (hvað er málið með þetta orð kvenfrelsi??! - skil það ekki alveg) félli í fremur frjósaman jarðveg, svona almennt séð. 

Enda kemur í ljós ef skoðuð er saga kvennabaráttunnar síðastliðin 100 ár, að gríðarlegt vatn hefur runnið til sjávar.  Og er það vel.  Hugsunarhátturinn hefur breyst jafnt og þétt og margt af því sem þykir sjálfsagt í dag, var það ekki fyrir nokkrum árum ... hvað þá áratugum!  Auðvitað einarðri baráttu að þakka. 

En þótt baráttuandinn sé mikill verður líka að gefa fólki tíma til að innbyrða boðskapinn, taka afstöðu, í stað þess ... eins og ritað er hér að ofan ... troða honum ofan í kokið á því.  Ýmist með góðu eða illu.


Mikilvægi morgunmatarins

Eftir pistil minn í gær ákvað ég að í dag væri bæði staður og stund til að slá á ögn léttari strengi og ætla ég því að segja litla sögu af frænku minni sem var hjá mér í pössun um helgina.  Eins og gera mátti ráð fyrir að hún hin hressasta lengi vel, tók við skipunum og gaf skipanir til skiptis.  Allt gekk eins og í hinu besta ævintýri en skyndilega síðdegis á sunnudeginum tilkynnti hún mér að sér væri mjög illt í maganum.  

„Nú?!?“ spurði ég „hvernig í ósköpunum stendur á því?“ 

Sú stutta var með svör á reiðum höndum.  „Kannski bara af því að ég er vön að borða morgunmat!“  Það mátti greina hneysklun í málrómnum.

Ég verð samt að viðurkenna að ég skyldi ekki alveg þessa röksemdarfærslu svo síðla dags og svaraði því eftir dálitla umhugsun: „Já en ... í dag ert þú bæði búin að borða morgunmat og hádegismat og svo var kaffitími núna rétt áðan.“

Frænkan ranghvolfdi í sér augunum og hristi hausinn.  „Ohhh ... þú skilur ekkert!!!“  Svo setti hún hendur á mjaðmir og sagði ábúðarmikil: „Sko ... ég er vön að borða morgunmat og mér er illt í maganum vegna þess að ég borðaði engan morgunmat í gær!!!“  Hún horfði stíft beint í augun á mér og líklega hefur hún séð alveg aftur í hnakka í það skiptið.  Ég sá að það þýddi greinilega ekki að deila við dómarann.

 


Sorgleg femínisk áhersla hjá VG

Í fréttatíma RÚV kl. 19 var farið yfir helstu átta helstu baráttumál Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs.  Eitt þeirra var eftirfarandi:

"Kvenfrelsi þar sem launamunur kynjanna verður afnuminn og Jafnréttisstofa fær auknar heimildir til eftirlits og jafnt hlutfall kynjanna á Alþingi verður bundið í stjórnarskrá."

Ég er svo hjartanlega sammála varðandi launamuninn, þennan mun á nú bara að afmá með einu pennastriki strax í kvöld.  Spúsa mín, Sigurlaug fær ekki sömu laun sem hjúkrunarfræðingur á LSH, og karlkyns hjúkrunarfræðingur sem vinnur sambærilegt starf ... náttúrulega bara fáránlegt

Ég myndi vilja frekari útlistun á hvaða eftirlit Jafnréttisstofu skal auka, áður en ég mynda mér skoðun á því. 

En hvaða rugl er þriðji liðurinn?  Binda jafnt kynjahlutfall þingmanna í stjórnarskrá?!?!?  Er ekki allt í lagi með fólkið??  Hvar er jafnréttið hér??!!  Jafnt kynjahlutfall í þingsal hlýtur að kalla á jafnt kynjahlutfall á framboðslistum ... og þá spyr maður sig hvort engu skipti hversu margir karlar og hversu margar konur bjóða sig fram í upphafi??  Verður það hlutfall þá líka bundið í stjórnarskrá?  Verða frambjóðendur sem bjóða sig fram í prófkjör að hafa annan frambjóðanda af gagnstæðu kyni sér til fulltingis til að rugla ekki kynjahlutföllunum? Sá sem stendur stakur fær ekki að taka þátt - jafnrétti???  Prófkjör verða kannski afnumin í framtíðinni og jafnkynja uppstillingarnefndir stjórnmálaflokkanna munu stilla listum upp í fléttulistaformi.

Þetta femíniska viðhorf er komið algjörlega út á tún!!

Tökum sem dæmi prófkjör.  10 sæti í boði.  23 konur bjóða sig fram en 5 karlar.  Allir karlarnir hljóta að eiga víst sæti en aðeins 22% kvennanna.  Sanngjarnt??!!  Hvað ef 8 konur eru mjög frambærilegar og 2 karlar sömuleiðis ... skal þremur konum ýtt út til að koma að þremur körlum sem eru síðri, bara vegna þess að þeir eru karlar?  Þá væri hæfasta fólkið valið að teknu tilliti til kynferðis en bíddu við ... er ekki nákvæmlega verið að berjast gegn því!!!

Það er alveg sorglegt að sjá hvað VG, sem stendur fyrir mörg góð gildi og hefur, að mínu mati, verið langsamlega vænlegasti kosturinn í íslenskum stjórnmálum síðustu misserin, skuli láta hafa sig út í aðra eins vitleysu og rakin er hér að ofan!!


24. febrúar 2007 var KISS-dagur!!!

Í gær birtist hér á síðunni fyrirsögnin "24. febrúar er KISS-dagurinn" og þar fyrir neðan var mynd af fjórum þekktum andlitum rokksögunnar - andlitum hljómsveitarinnar KISS.

Svo rann þessi merkilegi dagur upp, bjartur og fagur ...

Boðað hafði verið til samkomu hjá hinum íslenska aðdáendaklúbbi bandarísku iðnaðar- og glysrokksveitarinnar KISS.  Allir félagar í aðdáendaklúbbnum eru grjótharðir fylgismenn fjórmenninganna fagurskreyttu og hafa stutt sveitina í gegnum súrt og sætt, eitthvað á 3. áratug.  Aðdáunarferill flestra í klúbbnum átti sitt upphaf um það leyti, þegar lagið "Lick it up" kom fram á sjónarsviðið og Fálkinn auglýsti samnefnda plötu grimmt í sjónvarpinu, ásamt nýju plötunni með London Philharmonia Orchestra.  

Sá sem hér ritar á sér þó ívið lengri sögu sem aðdáandi hljómsveitarinnar því upphaf hennar má rekja aftur um 25 ár eða frá hann heyrði lagið "I love it loud" leikið í þættinum Lög unga fólksins árið 1982.  Þá var eldri bróðir ritara svo indæll að taka lagið upp á kassettu, og gat ritari því hlustað á lagið hvenær sem honum hentaði, það er að segja ef bróðirinn var ekki heima. 

Það varð ekki aftur snúið.

Ritari varð í hvert skipti gagntekinn - lagið hófst á þungum trommutakti trommuleikarans Erics Carrs og skömmu síðar tóku hinn tungulipri bassaleikari Gene Simmons og gítarleikarinn Paul Stanley til við að syngja hið vel þekkta "Ohhh Ohhh Ohhh Ohhh Ohhh Ohhhh Ohhhh o.s.frv." 

Velmeinandi texti lagsins hófst svo á þessa leið:

"Stand up, you dont have to be afraid, get down - love is like a hurricane
Street boy, no I never could be tamed, better believe it ... "

Það flottasta í laginu var samt þegar Gene Simmons sagði dramatískri röddu "gat mí nö" í hvert sinn sem viðlagið hófst.  (Seinna kom reyndar í ljós að það sem GS raunverulega sagði á þessum tímapunktum í laginu var "cos, I love it ..." en það er reyndar annað mál!) 

Ef þú ert eldri en 8 ára þá þekkir þú þetta lag ... það er pottþétt, tékkaðu bara á því hér!!  KISS í fullum skrúða ...

Sum sé allt frá þessum dögum, hafa fjórmenningarnir í KISS leikið stóra rullu.  Þeir hafa alltaf staðið sína plikt ... algjörlega óháðir því sem gengið hefur á í mínu lífi, að minnsta kosti. Til dæmis syngur Ace Frehley gítarleikari alltaf fyrir mig lagið "Shock me" þegar ég set plötuna "Love gun" á fóninn og vel lag nr. 4.  Það er ekki lítils virði þegar öllu er á botninn hvolft.

Æiii ... nú er þetta að verða slattamikil steypa hjá mér ... en það sem ég vildi sagt hafa er að ...

24. febrúar 2007 var dagur tileinkaður þessari merku hljómsveit og slíkir dagar eru alltaf hátíðisdagar - þeir eru KISS-dagar.


Destroyer

 

 


Að síðustu ... um klámráðstefnuna

Það má ef til vill taka undir orð femínista og hinnar þverpólitísku samstöðu stjórnmálaflokkanna um að ráðstefna fólks í klámiðnaði sé ef til vill ekki það besta sem getur komið fyrir land og þjóð ... en samt finnst mér sú aðgerð Radison SAS að úthýsa fólkinu, á þeim forsendum að Íslendingar kæri sig ekki um ráðstefnur af þessu tagi, eitthvað sem setja má spurningamerki við. 

Mér fannst orð Guðmundar Steingrímssonar á baksíðu Fréttablaðsins í dag vera orð í tíma töluð.  Þau sögðu eiginlega nákvæmlega það sem mér finnst um það mál, en satt að segja hef ég lent í töluverðri krísu með að mynda mér skoðun á málinu.

 


24. febrúar 2007 er KISS-dagurinn!

KISS 1999

Sydney = 65 dagar

Um daginn ritaði ég um væntanlega för til Sydney, og fannst tíminn sem mér var gefinn af hálfu háskólans þar í borg heldur knappur eða 19 dagar.  Eftir þónokkrar bréfasendingar og rafræn samtöl við gott fólk, var aðgöngumiðinn minn leiðréttur og mér veittur 190 daga fyrirvari í stað 19 daga.  Núna hefur þó endanleg dagsetning verið gefin út af hálfu yfirvalda háskólans í Sydney og er hún 7. maí nk. eða eftir um 65 daga, svo ég haldi mig nú við sömu einingu innan tímaeiningakerfisins.

Þetta er óneitanlega spennandi tímar sem nú fara í hönd - eina sem skyggir á er að við Lauga æltuðum okkur að koma við á Kínamúrnum á leiðinni suðureftir, en líklega mun það ekki lukkast ...

Væntanlega mun þó múrinn standa einhver ár í viðbót, þannig að tækifæri ættu að bjóðast síðar að stíga fæti á þetta svo um sagða magnaða mannvirki.

Það skal tekið fram, af gefnu tilefni, að Lauga hefur verið með í öllum ráðum og er vægi hennar, að meðaltali um 50%.

 


Ertu að byggja ... við Laugaveg?

Jæja, þá dúkka málefni Laugavegarins upp á yfirborðið í Mogganum í dag.  Ekki af ástæðulausu, frekar en fyrri daginn.  

Fyrir þá sem ekki eru alveg með á nótunum hér - þá stendur uppbygging fyrir dyrum á Laugaveginum.  Svona til þess að fá fleira fólk til að koma þangað og versla eitthvað, já eitthvað því ekki hefur verið lögð nein sérstök áhersla á það hvers konar verslunargata Laugavegurinn á að vera.  Í von sinni um að laða að fjársterka aðila álpaðist Borgarstjórn Reykjavíkur út í það fen fyrir nokkrum misserum að gefa skotleyfi á húsa- og menningarsögu borgarinnar með því að heimila niðurrif gamalla húsa á völdum stöðum við götuna, jafnframt því að leyfa aukið byggingarmagn á þessum sömu lóðum.  Með auknu byggingarmagni er ekki átt við neitt annað en stærri hús ... svona til skýringar.

Hugmyndir forráðamanna Reykjavíkurborgar á þessum tíma voru eitthvað á það leið að við uppbygginguna myndu lóðareigendur taka gaumgæfilegt tillit til nánasta umhverfis, jafnvel yrði útliti á framhliðum húsanna haldið óbreyttu eða gerðar á þeim varfærnislegar endurbætur ... með öðrum orðum átti Laugavegurinn ekki að bíða skaða af þessum aðgerðum ... heldur frekar eins og stórpólitíkusinn Daggi Egg, þáverandi formaður skipulags- og byggingarnefndar borgarinnar, gæti hafa orðað það: "Í deiglunni er metnaðarfull framtíðarsýn, tekin á faglegum og velígrunduðum grunni, sem skapar aðstæður og forsendur fyrir spennandi, krafmiklar og framsæknar aðgerðir á ýmsum sviðum borgarlífsins" ... eitthvað svona ... 

Ó boj ... raunveruleikinn reynist annar ... kræst!!

Núna hafa nokkrir lóðaeigendur skilað inn tillögum ... þeir gleymdu óvart öllum hugmyndum Dagga og félaga um að taka tillit til nærumhverfis.  Þeir eru bara með hugmyndir um risastóra kassa ... meira að segja svo stóra að byggingarmagn á sumum lóðum eykst um allt að 50% ... annars fara þeir bara á hausinn með prójektið sitt ... úppsss!!  Þetta snýst náttúrulega ekki um neitt annað en peninga og hefur aldrei snúist um neitt annað ... þess vegna var það svo hlægilega sorglegt þegar forráðamenn borgarinnar héldu einhverju öðru fram á sínum tíma.  Í Mogganum í dag segir Pétur Ármannsson arkitekt sumar tillögurnar vera skelfilegar og raunveruleikinn sé "í engu samræmi við þær væntingar sem menn höfðu þegar þeir léðu máls á uppbyggingu við Laugaveg". 

Skyldi þetta verið í samræmi við væntingar Bolla Kristinssonar, "sérlegs ráðgjafa R-listans í málefnum Laugavegarins"? 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband