Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Sunnudagur 28. febrúar 2010

Þetta hefur verið rólegur dagur ...

... mestur hluti hans hefur farið í spjall og vinnu, en nú sem stendur er undirbúningur fyrir Íslandsferðina í hámarki ... allt að skríða saman í þeim efnum ...

---

Þessi dagur hefur meira að segja liðið án þess að ég hafi verið að pæla neitt sérstakt ... enda sagði Lauga við mig undir kvöldið að ég hefði verið alveg sérstaklega rólegur í dag ...

... nei, annars þegar ég hugsa um það hef ég verið að pæla í einhverju í dag ...

... ekki er það nú neitt sem er sérstaklega gagnlegt ... og þó ...

... en svona til að gefa innsýn inn í hugarheim minn hef ég mikið verið að spá í hvort besti rokksöngvari sögunnar eigi við einhver alvarleg raddvandamál að stríða þessi dægrin ... ég er auðvitað að tala um Paul Stanley, söngvara KISS ...

KISS var að spila í þýska sjónvarpinu í gærkvöldi, í þætti sem heitir "Wetten, Dass" ... fínt "sjóv", eins og alltaf en það var ósköp að heyra í karlinum ...

Annað hugðarefni var Djúpivogur ...
... sem er alveg sérstakt áhugasvið hjá mér, eftir að ég var að vinna að gerð aðalskipulags þar ...

Frábærir hlutir hafa verið gerðir þar að mínu mati og hugsunarháttur þeirra sem þar halda um stjórnartaumana heldur betur mér að skapi.  Þar er að sjálfsögðu fremstur í flokki, oddvitinn Andrés Skúlason.

Tækifærin í sveitarfélaginu er svo mörg og mikil að suma daga vildi ég óska að ég gæti skipt mér í tvennt ... eða kannski væri betra að fjölfalda sig ...
... já, suma daga vildi ég getað fjölfaldað mig, skroppið til Íslands og gert eitthvað gagn þarna fyrir austan ...
... svoleiðis dagur var hjá mér í dag ...

---

Svo er ég kominn í alveg rosalega skemmtilegar pælingar varðandi umhverfissálfræðina og tengjast þær sjálfbærni-hugtakinu ... það hefur lengi verið stefna hjá mér að tengja það sem ég hef verið að gera í mínu doktorsverkefni við sjálfbærni.  
Og fyrir nokkrum vikum opnast allt í einu glufa sem ég stakk mér í ... og þessar pælingar eru eins þægilegar og að vera í góðum heitapotti.

---

Dóttirin hefur líka verið alveg frábær í dag ... og ég hef verið að pæla í henni og því sem hún er að gera mikið í dag ...
Við Lauga vorum að ræða um hvað skipti börn máli í uppeldinu ... og mín skoðun er sú að mestu skipti litlar skammir, fáar en skýrar reglur, viðurkenning á réttum tímapunkti, svigrúm og nöldur í algjöru lágmarki. 

Nöldur er alveg ótrúlega leiðinlegt, en ofmetið fyrirbæri ... að vera sífellt að kvabba og röfla í börnum "ekki gera þetta", "já, passaðu þig", "usssussuss, þetta má ekki", "láttu þetta vera" ... í alvörunni ... hver nennir að láta röfla svona í sér allan daginn, dag eftir dag?!?
Blessuð börnin láta þetta yfir sig ganga fram eftir aldri, vegna þess að þau hafa ekki vit á öðru og þegar þau hafa öðlast nægt vit er búið að drepa niður mikinn hluta af meðfæddu frumkvæði og áhuga ...

... kvabbið, nöldrið og röflið er að mínu mati einhver mesti skaðvaldur í uppeldi barna ... samt er voðalega sjaldan talað um það.
Meira talað um að hrósa og hrósa ... ekki skal ég gera lítið úr því, en mér finnst hrós harla lítilfjörlegt þegar búið er að nöldra, kvabba og kveina allan heila daginn.
"Þú ert algjörlega frábær, en viltu samt gjöra svo vel að hætta þessu, láta þetta í friði, haga þér almennilega, passa þig á að fara þér ekki á voða og vera nákvæmlega eins og ég vil að þú sért!"
... þversagnakennt?!?


Tilraun dagsins ... sest í skál ...

---

Niðurstaðan er því sú að ég er búinn að pæla fullt í dag ... eins og stundum áður ...

*********************
8. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Fótbolti í 70 mínútur - gaman!

Út að hlaupa á morgun
********************

**********************
7. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Hjólaði 23 km í frekar þungu færi og kútveltist á snjóþotu
**********************
********
7. dagur í ekki-kók-drykkju (2. tilraun)

Skolaði niður einu glasi með kvöldmatnum
*******

********
6. dagur í ekki-kók-drykkju (2. tilraun)

Skolaði niður einu glasi
********

 


Laugardagur 27. febrúar 2010

 

Í morgun ákváðum við að drífa okkur í Sunnerstabacken ... sem er skíðasvæði Uppsalabúa.  En þar sem Uppsalaland er nánast marflatt er skíðasvæðið nú ekkert ógurlega tilkomumikið, en samt mál vel renna sér niður brekkurnar þar.

Meiningin var fyrst og fremst að koma Laugu á skíði, en mjög langt er síðan hún steig síðast á svoleiðis útbúnað.
Og það sem er jafnvel enn merkilegra ... Lauga heldur að skíði og skíðaútbúnaður hafi ekkert breyst síðustu 100 árin.  Þannig trúir hún því eins og nýju neti að það sé jafnerfitt að standa á löppunum í nýtískuskíðaútbúnaði og á 70 ára gömlum skíðum sem hún notaði þegar hún var barn.

Þau skíði, sem sjálfsagt hafa verið meira hugsuð sem gönguskíði en svigskíði, voru með lykkju sem smeygt var aftur fyrir hælinn.
... og ég þekki það af eigin reynslu að það er gjörsamlega vonlaust að standa á svoleiðis skíðum ...  

---

Við ákváðum því að hjóla í Sunnerstabacken, sem tók smá tíma, enda færðin ekki endilega alveg sú besta ... en viti menn ... allir skíðaskór í hennar stærð voru upppantaðir í dag ... þannig að hún komst ekki á skíðin ... því verr og miður.

Við skelltum okkur því öll á snjóþotu og höfðum gaman af ... sjón er sögu ríkari ...


Föstudagur 26. febrúar 2010

Jæja ... þá fór hitastigið hér í Uppsala yfir 0°C ... það hlaut að koma að því!!

Það er nánast eins og hitabylgja sé hér ... enda erum við að tala um hátt í 25°C hækkun á hitastigi frá því í fyrri part vikunnar og það er ekki svo lítið.

Við Lauga vorum búin að ákveða að fara loksins á skíði á morgun ... en það gæti verið í uppnámi, verðum að sjá aðeins til.  En það er nú ekki eins og maður hafi ekki haft tækifærið ...

---

Pakki barst í dag og í honum voru stórglæsilegar prjónaðar flíkur.  Önnur á húsfreyjuna og hin á dótturina.  Var það amman á Sauðárkróki sem sendi.

Svo klæddu þær sig í nýju fötin ... en því miður hálfsturlaðist sú stutta, en nokkrar myndir náðust þó ...

---

Sjálfur hef ég varið deginum í fyrirlestrarskrif, sem er gaman ...

---

*******************************
6. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Tók mér frí í dag

Fer út að hlaupa á morgun ef ég fer ekki á skíði
********************************
******************************
5. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Hljóp 4.1 km
******************************
********
5. dagur í ekki-kók-drykkju

Vikulegur skammtur í kvöld ... ahhhhh ...
*******

******
4. dagur í ekki-kók-drykkju

Alltof létt
******


Miðvikudagur 24. febrúar 2010 - Málamyndafærsla

Þetta hefur verið dagur mikillar sköpunar ...

Svíar eru í vandræðum með lestarkerfið sitt vegna mikilla snjóa ... allir fréttatímar fullir af veseninu ...

*****************************
4. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Hlaupnir voru 4.1 km

Fer aftur út að hlaupa á morgun - það er ekki svo galið að hlaupa
*******************************

******
3. dagur í ekki-kók-drykkju

Langaði djöfull mikið í kók í kvöld ... harkaði af mér
******

Skelli hér inn einni mynd af Darling Harbour í Sydney ... sem er uppáhaldsstaður okkar Laugu þar í borg.
Ég sakna Sydney þessa dagana ...


Þriðjudagur 23. febrúar 2010

Hef þetta stutt í dag ... er að horfa á eitthvað á vetrarólympíuleikunum sem ég hef aldrei séð áður ... 

... skíðakeppni milli fjögurra, á braut sem er alsett kröppum beygjum, hólum, hæðum og stökkpöllum.  Ég held að það tæki mig ekki langan tíma að hálsbrjóta mig á þessum æfingum ... enda fremur lítill skíðamaður ...

Er búinn að horfa á fjórar umferðir og í þeim hafa þrír dottið út keppni, og þar af einn sem þurfti að flytja með þyrlu af keppnisstað ... þannig að þetta er nú sjálfsagt svolítið krefjandi.

 Rétt í þessu duttu tveir í sömu lotunni ... þá eru þeir orðnir fimm sem hafa dottið á nokkrum mínútum ... 

---

Dagurinn annars liðið við fyrirlestrarskrif ... gaman af því ...

---

Allir í feiknastuði ...

************************
3. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Fór út að hlaupa í þessu líka frosti ... engin met sett nema hugsanlega persónulegt met í því að hlaupa í sem mestum kulda ... heildarvegalengd 2.7 km

Fer aftur út á morgun ... spáð hlýnandi
************************

*******
2. dagur í ekki-kók-drykkju

Upprúllun!!
******* 


Mánudagsmetall XIII - Byrjað að mála ...

Ég hef sjaldan komið sjálfum mér jafnmikið á óvart og þegar ég ákvað fyrir nokkrum árum, þ.e. vorið 2006, að prófa að teikna. Þá vorum við Lauga í ferð sem við gáfum heitið "Skandinavian rejsetur" og samanstóð af heimsóknum til vina og ættingja í Noregi, Svíþjóð og Danmörk.  Alveg hreint frábær ferð ...

... en já ... ég sum sé ákvað að taka með mér skrifblokk og penna og byrjaði svo að teikna í Ósló. 

Og viti menn, myndin varð bara þrælgóð ... miðað við það að teiknarinn hafði nánast aldrei teiknað áður.

Reyndar ætlaði ég að skanna inn fyrstu myndina sem ég teiknaði, en ég finn hana ekki í augnablikinu, þannig að ég set hana bara inn á morgun.

Svo teiknaði ég aðra í Svíþjóð og hún var bara ágæt líka ...

Því næst lagði ég pennanum og hef ekki snert hann síðan.

---

Þegar ég var staddur í Austurríki haustið 2006, ákvað ég svo að prófa að mála og gekk það alveg sæmilega ... miðað við að hafa ekki snert á pensli síðan í myndmennt hjá Ernu Guðmundsdóttur í Austurbæjarskóla fyrir 100 árum eða svo.

---

En síðan þessir tveir gjörningar mínir áttu sér stað hefur hún elskulega spúsa mín ekki látið mig í friði með þetta.
"Af hverju ferð þú ekki að mála?"
"Af hverju teiknar þú ekki meira?"
"Viltu ekki mála eða teikna?  Nennirðu því ekki?"

---

Þá kemur maður aftur að þessu andskotans bulli með að þykjast aldrei hafa tíma, verða að vinna, drífa sig áfram ... og allt það ...
Þannig að svar mitt er: "Jú, jú, ég hef mikinn áhuga á því að mála og teikna.  Ég hef bara ekki tíma."

Lauga sagði við mig í síðustu viku: "Ok, nú fer ég og kaupi handa þér akrýlliti, pensla og blokk og þú byrjar að mála!!  Ef röddin inni í höfðinu á þér segir að þú verðir að vinna, þá segir þú bara "nei" við hana og neyðir þig til að standa upp frá tölvunni og ferð að mála."

Málning, penslar og blokk komu í hús á föstudaginn. 
Í kvöld tjakkaði ég mig frá tölvunni með herkjum.  Ég settist niður í eldhúsinu og byrjaði að mála.  Lauga settist hjá mér og las á meðan.

Þetta varð niðurstaðan:

 

"Þetta er nú ekkert ósvipað myndunum eftir Paul Stanley", sagði Lauga í lok kvöldsins.  Það gæti verið eitthvað til í því ... en það er þá algjör tilviljun ...

**********************************
2. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

Frí

Á morgun fer ég út að hlaupa eða í ræktina ... ræðst af hitastigi
*********************************
*******
1. dagur í ekki-kók-drykkju (2. tilraun)

Léttara en allt!
*******


Sunnudagur 21. febrúar 2010

Fínn sunnudagur hér í Uppsala ... nema hvað hitastigið hér er alveg með ólíkindum ... kringum -20°C.  Það er nú svona á mörkunum að maður nenni að vera úti í þessu bölvaða gaddi ...

Skruppum samt út og á kaffihús síðdegis ... til að gera okkur ofurlítinn dagamun ... það var hreint alveg ljómandi gott.

---

Annars er ég núna að útbúa fyrirlestrahrinu sem verður haldin á Íslandi um miðjan næsta mánuð ... fínt mál það.  Var því að lesa og skrifa mestan hluta dagsins ...

---

Ekki er nú hægt að segja að dóttirin hafi verið í miklu stuði í dag ... reyndar fannst henni ógurlega gaman að geta hlaupið um í Gränby Centrum, þar sem við fórum á kaffihúsið ... en bæði fyrir og eftir þá ferð var hún hrein alveg ómöguleg og allt hreint ómögulegt ...

*********************************
1. dagur í líkamsrækt árið 2010 (2. tilraun)

90 mínútna fótbolti ... bara gaman!!
*********************************


Laugardagur 20. febrúar 2010

Rétt í þessu voru Svíar að eignast gull- og bronshafa í 30 km skíðagöngu ... þulirnir í sænska sjónvarpinu voru alveg rólegir meðan þeir lýstu æsispennandi lokakafla göngunnar ...

---

Annars er búið að hríða hér í Uppsala í allan dag ... versta veðrið síðan við komum hingað fyrir tæpu ári.  Myndi nú samt ekki segja að það væri mjög slæmt, þó að því undanskildu að það er 14°C frost sem fylgir þessum ósköpum.  Þetta á að halda áfram á morgun ...

... en þess má geta að það er búið að vera stanslaust frost hérna og snjór á jörðu síðan 15. desember sl.  Maður getur því ekki talað um miklar umhleypingar, nema hvað frostið áhrærir.  Það sveiflast upp og niður á bilinu -3°C til -25°C.  Vanir menn segja að þessi vetur sé ekki dæmigerður ...

---

Við skruppum út í dag og létum dótturina renna sér nokkrar ferðir á snjóþotu.  Sjálfsagt hefur hún verið eina barnið í Svíþjóð sem var úti í þessum "veðurham".


Snjóþotuferð undirbúin

Eftir útiveruna var sú stutta orðin mjög þreytt og sofnaði í fyrsta skipti á eldhúsgólfinu, eftir að hafa rétt nýlokið við að sporðrenna kanelsnúð.


Sofnuð á eldhúsgólfinu

Og svo í kvöld vildi ungfrúin endilega komast út á svalir.  Hún klæddi sig í útiskóna sína, náði í skó móður sinnar fram í fatahengi og færði henni þá inn í stofu.  Svo gekk hún að svaladyrunum og gaf bendingar um að fá að komast út.
Þá var hún sumsé klædd í eina bleyju, bleika samfellu og í klossunum sínum.

Í stuttu máli má segja frá því að um leið og dyrnar út á svalirnar voru opnaðar, snéru Guddan sér við á punktinum og tók strikið aftur inn í stofu ... snarhætt við að fara út á svalir!


Náð í skó fram í fatahengi

---

Sjálfur er ég búinn að vera að glíma við bölvaða hálsbólgu í dag og hef viljað vera sem minnst úti.

Sökum þessarar miklu hvíldar í líkamsræktarátakinu ætla ég að segja að fyrsta líkamsræktarátaki ársins 2010 sé lokið.
Það entist í 40 daga.

Ekki-drekka-kók hefur líka verið í tómu tjóni þessa viku.  Ég ætla að segja að fyrsta átakinu í því sé lokið.  Það entist í 14 daga.

Það sem gerist næst í þessu að ég mun blása á nýtt átak bæði í líkamsrækt og ekki-kók-drykkju strax og þessi bansetta hálsbólga tekur að minnka :) .


Fimmtudagur 18. febrúar 2010

Jæja ... þá er þessi dagurinn að enda kominn ...

Merkilegur dagur fyrir margra hluta sakir.  Áfram heldur sjálfskoðunin ... áhugaverð vinna sem samt er alveg að gera út af við mig :D ...

Ég ætla samt að halda áfram og er núna kominn með nokkuð gott plan hvernig ég ætla að tækla þetta.  Uppskriftin af því plani var fengin eftir samtal við Laugu.

---

Annars átti ég ágætan fund með leiðbeinandanum mínum í dag ... við erum farnir að hugsa um næstu rannsókn, sem ég stefni að keyra á vormánuðum.  Og síðan verður þriðja rannsóknin keyrð í haust ... og doktorsverkefninu skilað inn til yfirlestrar í lok ársins!!

Fékk í vikunni samþykki fyrir að halda erindi á ráðstefnu IAPS-samtakanna, sem haldin verður í Leipzig í Þýskalandi um mánaðarmótin júní/júlí.  IAPS eru alþjóðasamtök þeirra sem vinna að rannsóknum á sviði umhverfissálfræði ...
Þar mun ég því væntanlega hitta einhverja snillinga ...

Rannsóknargreinin sem hefur verið í smíðum síðustu vikur er nú langt á veg komin og bíður nú yfirlestrar leiðbeinandans míns.  Stefnt verður á að skila henni inn á eitthvað sniðugt tímarit eins fljótt og auðið er.

En ég læt þetta duga núna ...

**********************************
42. og 43. dagur í líkamsrækt árið 2010

Hef verið að glíma við bara nokkuð massífa hálsbólgu og hósta í gær og í dag ... hef því haft hægt um mig.  Hjólaði samt í 45 mínútur til að hitta leiðbeinandann í hinum enda bæjarins.

Sjá hvernig hálsbólgan verður á morgun ... vona að engiferteið slái á þennan fjára ...
**********************************

********
17. og 18. dagur í ekki-kók-drykkju

Ekkert mál í gær ... tók eina dós í dag til að gera mér dagamun ... hmmm ... ;)
*******

Eins og sjá má hefur hetjan aðeins misst flugið núna :) ... en mun hækka sig aftur von bráðar ...
Hetjan er eins og íslenska landsliðið í handbolta "bognar en brotnar ekki" (Adolf Ingi Erlingsson, EM 2010).
Hver man t.d. ekki eftir þessari mynd?!?
Hún var tekin 5 mínútum eftir að hetjan skreið heim að loknu maraþonhlaupi í Sydney árið 2007 ... frábært dæmi um "að bogna en brotna ekki"!! :)


Þriðjudagur 16. febrúar 2010

Því miður hefur þessi dagur verið einn af þeim dögum þar sem maður nær aldrei neinu flugi ... maður er bara úti á túni og pælir ekki í neinu nema einhverju leiðinda rugli ...

... sem betur fer gerist þetta afar sjaldan hjá mér.  Meira segja er svo langt síðan síðast að ég man ekki hvenær það var ...

Ég ætti nú að geta glaðst yfir því :) ...

Annars held ég að þessi sveifla sé afleiðing af uppgötvun gærdagsins ... hún var dálítið stór sú uppgötvun.  Og ég held líka að þessi stóra uppgötvun sé afleiðing af vinnu minni við upplifa núið, þ.e. að hægja á hugsanaflæðinu og hugsa bara um það sem ég þarf að hugsa, þegar ég þarf að hugsa það.

Og þegar ég fer að hugsa um það sem ég þarf að hugsa dúkka upp allskyns mál sem kannski eru ekkert sérstaklega uppörvandi ... t.d. það að maður sé vinnufíkill og geri sér aldrei dagamun ...

Þetta eru svona hugsanir sem maður heldur niðri í "undirdjúpunum" eins lengi maður getur, en um leið og maður lítur af þeim, vilja þær skjótast upp á yfirborðið.  Ég hef stundum séð þetta fyrir mér, sem flotholt ...

Jæja, nóg um þetta í bili ...

---

Guddan var meira segja eins og snúið roð upp í hund í dag ... og sofnaði fyrir kl. 20 í kvöld, eftir að hafa nánast sturlast af völdum endalauss rugls.

Ég er viss um að hún verður alveg svakalega hress á morgun ...

Annars er það af henni að frétta að hún er farin að tala svolítið meira en áður, sem er gott ... og nú bæði íslensku og sænsku ...
Hún segir "skúa" þegar hún á við skó, og samkvæmt Laugu er það orðfæri svolítið sænskuskotið.  Svo segir hún "púlka" þegar hún á við snjóþotu, en "pulka" er einmitt sænska orðið fyrir snjóþotu.

Á íslensku er "þessa" helsta orðið, og mikið notað þegar bent er á bók, sem hún vill fá í hendurnar.  "Húfa" er annað orð sem er að detta inn, en vettlingana kallar hún "vantar", en "vantar" er einmitt sænska orðið yfir vettlinga.

Önnur orð eru "umm" (=já), "kex", "mamma", "voffi", "hoppa", "amma", "drekka", "lesa" og "kisa", svo dæmi séu tekin.  Að ógleymdum orðunum "vínber" og "nei", en um þau orð hefur verið rætt áður hér á síðunni.

---

Svo er gaman að segja frá því að henni finnst alveg sérstaklega gaman að fara í eltingaleik með feluleiksívafi, sem fer þannig fram að sá sem er eltur, reynir að fela sig fyrir þeim sem eltir, gefist þess nokkur kostur.
Í eltingaeiknum hefur það verið brýnt fyrir þeirri stuttu að hafa hljótt þegar hún felur sig og er það þá gjarnan gert með því að segja "ussss" við hana.

Og viti menn ... hún er núna loksins búin að ná þessu ... eða þannig ... 

Núna þegar hún felur sig, má gjarnan heyra frá felustaðnum lítið "usssss" ... sérstaklega ef hún er að vanda sig mikið að fela sig.

***************************************
41. dagur í líkamsrækt árið 2010

Dagurinn í dag gaf ekki tilefni til að hreyfa sig ...

Það verður tekið á því á morgun
**************************************

********
16. dagur í ekki-kók-drykkju

Upprúllun
*******

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband