Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Mánudagur 30. apríl 2012 - Stubburinn orðinn eins árs

Já í dag og nokkurn veginn í þessum skrifuðum orðum er stubburinn okkar orðinn eins árs ... 

... og þessi mynd var tekin í afmælisveislu sem haldin var rétt fyrir kl. 10 í kvöld.

 

Betur mun verða greint frá þessum tímamótum í myndbandi sem einmitt er núna í bullandi vinnslu ... 

 


Miðvikudagur 25. apríl 2012 - Markmið

Allt í lukkunnar velstandi hér. 

Hallur bróðir Laugu mætti hér í morgun og mun dvelja hjá okkur í nokkra daga. Þar með hafa þrír ættliðir Hólavegsættarinnar heiðrað okkur með nærveru sinni á síðastliðnum tveimur mánuðum.

Að öðru leyti hefur dagurinn farið í vinnu og aftur vinnu. Unnið hefur verið að tilboðsgerð og í doktorsverkefninu, já og svo var svolítið gert í markmiðasetningu.

Gott að hafa svona markmiðalista. Hann er þó styttri en venjulega því "aðeins" 30 atriði eru á honum núna en að vísu eru nokkur þeirra greind niður í smærri atriði. T.d. er liðurinn "ferðalög" með sjö "undiratriði".
Ég lærði svona massífa markmiðasetningu hjá Jack Canfield sem hvatti til að maður setti sér 100 markmið og skrifaði þau niður og læsu þau á hverjum degi.

Það sem er þó hættulegt við markmiðasetningu og mér finnst ekki vera hamrað nægjanlega vel á er tilgangur markmiðanna.
Af hverju langar þig til að gera það sem þig langar til að gera?  Mín persónulega reynsla er sú að mann langar oft til að gera eitthvað án þess að vita almennilega af hverju. Þannig verður markmiðið bara eitthvert egó-flipp, eitthvað til að maður getur montað sig af. 
Af hverju þarf maður að komast til 40 landa áður en maður verður 40 ára? Er það bara til að segja það eða er það af því maður er svo svakalega áhugasamur um menningu þjóða?

Þegar við Lauga flugum heim frá Ástralíu um árið, þá ákváðum við að koma við á Nýja-Sjálandi, Hong Kong, Tyrklandi, Grikklandi og Englandi á leiðinni heim. Af hverju? Jú, fyrst og fremst til að ég gæti bætt fleiri löndum á listann hjá mér.  Við ætluðum að vera í Istanbúl í Tyrklandi í einn dag áður en við ætluðum að fara til Grikklands í fjóra daga. Ef maður labbar um götur Istanbúl í nokkra klukkutíma hefur maður þá komið til Tyrklands? 

Það eru svona bullmarkmið sem taka oft yfirhöndina hjá manni og maður fer bara að ná þeim bara til að ná þeim.
Svolítið eins og líkamsrækt sem fer mjög oft út í öfgar, þar sem það markmið að finna til vellíðunar og bæta skapið er engan veginn nægjanlega metnaðarfullt. Það þarf fituprósentumarkmið, hlaupamarkmið, þyngdarmarkmið, bekkpressumarkmið, armbeygjumarkmið o.s.frv.

Í alvörunni ... hvaða máli skiptir það hvort maður getur tekið 9 eða 10 armbeygjur? 7 eða 10? eða 3 eða 8?

Allavegana er punkturinn sá að markmiðin eiga ekki bara vera, bara til að vera. Það þarf að búa einhver innri og æðri tilgangur með því. Að það að ná þeim skipti einhverju máli í raun.

Jæja ... nóg í bili ... 


Sunnudagur 22. apríl 2012 - Skroppið til Álandseyja

Skutumst í stuttan túr til Eckerö á Álandseyjum í dag. Ferðin tók allan daginn þó við næðum ekki að stíga á land nema í 15 mínútur. Sennilega er þetta stysta dvöl á erlendum áfangastað sem ég hef upplifað en skipið stoppar í hámark 30 mínútur.

Við skutumst af skipinum, niður landganginn, út á bílaplan, fórum yfir brú, inn á einhvern "náttúrustíg" og hlupum niður að staðnum sem sést á myndinni, tókum nokkrar myndir og svo aftur sömu leið. Hefðum ekki mátt vera mikið lengur.

Í þessari annarri sjóferð sinni fór stubbur algjörlega á kostum og hreif með sér töluverðan mannskap með sannarlega glaðlegu yfirbragði. Hann gekk um skríkjandi af gleði, ýtti öllum frá sem á vegi hans urðu og óð um allt skipið.

Guddan var lítill eftirbátur bróður síns, hljóp um og hafði gaman. Það sem merkilegast var hjá GHPL í dag var að hún borðaði sennilega stærsta matarskammt ævi sinnar þegar hún borðaði hvorki meira né minna en 10 kjötbollur með sósu og svolítið af kartöflumús. Því næst fékk hún sér marsipan-stykki og gerði því góð skil. 

---

Uppgötvun dagsins: Það er töluvert erfitt að pissa í rútu sem er á fleygiferð. Mun auðveldara bæði í lestum og flugvélum ... jómfrúarferðin á rútuklósett var tekin í dag. 

 


Laugardagur 21. apríl 2012 - Rólegur dagur

Fremur tíðindalaus laugardagur hér í Uppsala. 

Sjálfur var ég heimasíðuuppfærslu meðan allir hinir á heimilinu skruppu niður í bæ, jú og skrapp aðeins í ræktina líka.

Var með grein í Fréttablaðinu í gær sem fjallaði um hvort gera skuli Laugaveginn að göngugötu eða ekki. Ágætis grein held ég sem hægt er að líta á, ef áhugi er fyrir hendi, með því að smella hérna.

Á morgun liggur fyrir sigling með Eckerö til Álandseyja ... bara svona til að draga að sér ferskt loft og gera eitthvað annað en að horfa á eilíflega á tölvuskjáinn. 

 


Miðvikudagur 18. apríl 2012 - Strætóferðir - bílstjóri mánaðarins

Í dag hittum við Gudda vinsamlegasta strætóbílstjóra sem sögur fara af.

Kl. 8.20 yfirgáfum við heimilið og gegnum áleiðis niður á stoppistöðina við Gottsunda Simhall. Engum sögum fer svo sem af þeirri ferð nema að við gengum yfir "berget" eins og dóttirin kallar lítinn grashól á leiðinni. Meðan við gengum upp sungum við "upp, upp, upp á fjall" og svo var lagt blátt bann við því að syngja síðari hluta vísunnar þ.e. "niður, niður, niður, niður og alveg niður á tún" fyrr leiðin tók að liggja niður ávið.

Jú, reyndar verður heldur ekki hjá því komist að nefna að GHPL fann stein sem hún greip með sér og visnað laufblað sem hún sagði vera bleikt á litinn.

Svo mættum við strætónum og bílstjórinn tók að veifa Guddunni ákaft út um framrúðuna. Þetta var afar vinalegur náungi, sjálfsagt svona um þrítugt og átti greinilega ættir sínar að rekja til innstu Afríku. Við stigum inn og GHPL sýndi honum steininn og laufblaðið og tók bílstjórinn mjög vel undir sýninguna.

Vagninn lagði svo af stað og viti menn, og þetta hef ég aldrei upplifað fyrr ... í hvert sinn sem farþegi steig út úr vagninum kvaddi bílstjórinn hann í gegnum hátalakerfi strætósins - "takk fyrir og gangi þér vel í dag" og veifaði í baksýnisspegilinn.
Ég gat bara ekki annað en brosað ... auðvitað er þetta ákaflega lítið atriði í stóra samhenginu en engu að síður fannst mér þetta skipta mjög miklu máli. Ég brosti t.d. alla leiðina, því mér fannst svo frábært að hann skyldi hafa fyrir að gera þetta ... klárlega skemmtilegasta strætóferð sem ég hef farið í.

Það sem gerir þetta framtak bílstjórans jafnvel enn merkilegra var að enginn sem ég sá í það minnsta, hafði fyrir að taka undir kveðju hans eða veifa til baka ... ekki ein einasta hræða. Maður sá jafnvel hvernig sumir hreinlega stirðnuðu upp og drifu sig út. 

Varla þarf að nefna það að auðvitað veifuðum við Guddan bílstjóranum þegar við stigum af vagninum. 

Þessi hlýtur að vera valinn bílstjóri mánaðarins í hverjum mánuði.

---

Guddan er orðin mjög góður vinur strætóbílstjóranna. Þannig sýnir hún þeim alltaf eitthvað þegar hún stígur um borð, það getur verið steinn og laufblað eins og í morgun eða sár sem hún hefur á puttanum, nú eða bara eitthvað annað.

Þegar hún kom af leikskólanum var hún hinsvegar stórtækari en vanalega. Hún hafði teiknað mynd á mjög stórt rautt pappaspjald. Og þegar hún sá strætóinn vera að nálgast stillti hún sér mjög ákveðið upp á miðri gangstéttinni með pappaspjaldið í höndunum svo bílstjórinn gæti séð myndina um leið og vagninn myndi renna upp að stöðinni.
Nokkrir bílar óku framhjá áður en vagninn kom og að sögn heimildamanns vakti dóttirin mikla athygli meðal vegfarenda sem óku framhjá og jafnvel kátínu.

Strætóbílstjórinn var skælbrosandi þegar GHPL steig með myndina inn í vagninn og sagði hana vera afskaplega duglega að teikna. GHPL tók undir það og sagðist hafa teiknað þetta á leikskólanum og gerði sig svo líklega til að ræða málin áfram.
Móðirin kom hinsvegar í veg fyrir frekari umræðu enda vagninn í áætlunarakstri og ekki mikill tími gefinn til að skeggræða myndlist í miðju kafi.

---

Lauga hefur sagt að ég skrifi alltof lítið um Stubbinn í samanburði við GHPL. Það er alveg rétt. En það er einhvern veginn svo lítið af honum að frétta í samanburðinum.

Hann er bara hress, er með 8 tennur, fleiri á leiðinni, er óttalegur mömmustrákur, mikill klifrari, duglegur að ganga, lætur GHPL ekki vaða yfir sig, vaknar ennþá of oft á nóttunni, er í pössun hjá Steinunni frænku sinni bróðurpartinn úr deginum, fer í góðan göngutúr um miðjan daginn, borðar helst bara jógúrt og vill drekka vatn í morgunmat.

Maður verður auðvitað að fara að tína saman einhverjar frásagnir af drengnum ... annars fær maður það bara í bakið síðar þegar sagt verður: "Af hverju var alltaf svona lítið skrifað um mig?" ;)  


Mánudagur 16. apríl 2012 - Allt á skriði

Allt á fullu skriði hér ... það ætlar að vera erfitt að fá þessa fyrstu rannsóknargrein mína birta hjá Journal of Environmental Psychology. Í dag kom umferð tvö af athugasemdum. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert ofboðslega hrifinn ... né heldur leiðbeinandinn minn ... 

... en svona er þetta bara ... við náum þessu í gegn í þriðju umferðinni. Mig meira að segja dreymdi fyrir því þannig að ...

Svo erum við alveg að fara að senda inn rannsóknargrein nr. 2. Hún tafðist svolítið mikið vegna anna hjá okkur báðum. Ég á Íslandi og karlinn skrapp svo til Noregs. En núna erum við komnir á beinu brautina með þetta vonandi.

Ritun doktorsritgerðarinnar sjálfrar þokast líka áfram og önnur verkefni sem ég er að fást við eru einnig að potast í rétta átt.

---

Svo erum við að fá þær fréttir af leikskólanum að GHPL sé að taka stórstígum framförum, í hátterni, lundarfari og máltöku.

Þetta er eitthvað sem bæði ég og Lauga erum búin að taka eftir og ræða okkar á milli og gaman að heyra að þetta er ekki bara ímyndun hjá okkur.

Hverjar ástæðurnar eru væri vissulega gaman að vita. Við ræddum það aðeins yfir kvöldmatnum.
Mögulega gæti GHPL hafa gengið gegnum eitthvert mikilvægt þroskastig.
Mögulega gæti verið að vera ömmu hennar og Steinunnar frænku hennar hafi góð áhrif á hana.
Mögulega gæti verið að breytingar á leikskólanum væru að skila þessum árangri en nú er GHPL með stærstu börnunum á sinni deild í stað þess að vera ein af þeim minnstu.
Mögulega gæti það verið að nýjar áherslur hjá leikskólakennurunum til að "díla" við Gudduna séu að skila góðum árangri.

Sjálfsagt er þetta bara blanda af þessu öllu ... en allavegana er Syd gjörbreytt manneskja.

---

Nafni er líka í stuði. Ógurlega glaður flestar stundir. Í það minnsta mjög stutt í brosið ...

Hann sífellt að bæta sig sem klifurköttur. Hann á eftir að verða mjög skæður enn daginn.

Það verður líka gaman að sjá skapferlið hjá honum þegar hann eldist. Ég hugsa að systir hans sé búin að herða hann töluvert upp. Í það minnsta gefur hann henni lítið í leik og starfi. T.d. hefur hann tilhneigingu til að bregðast mjög harkalega við ef hún ætlar að taka af honum dót.  Sá tími þegar GHPL gat leyft sér að hrifsa athugasemdalaust af honum hlutina er svo sannarlega liðinn. Nú er það meira í þá áttina að hann orgi á hana og hún bara leki niður. 

Nú er bara að bíða og sjá hverju fram vindur. 


Fimmtudagur 12. apríl 2012 - Klifur og "tígó"

Nú er alveg ljóst að líkamleg geta Stubbsins er komin langt fram úr vitrænni getu hans. Í kvöld fann hann upp á því að nota stólinn hennar Guðrúnar sem stiga til að komast upp á matarborðið. 

Eftir að hafa tekið ærlegt reiðikast vegna eigin getuleysis við að klifra upp stól systur sinnar, tók PJPL á sig rögg og þeytist upp á matarborðið ... eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Það var ekki annað hægt en festa þetta á filmu ...

 

Eins og sjá má í myndbandinu leynast hætturnar víða og því er nauðsynlegt að hafa augun vel á þeim stutta á næstu misserum. 

---

Hér innan veggja heimilisins voru önnur tímamót en í fyrsta skipti á ævinni samþykkti dóttirin að hafa "tígó" í hárinu ... eða öllu heldur, í fyrsta skipti á ævinni fór hún fram á að fá "tígó" í hárið. Síðuhaldari setti "tígóið" í, í morgun ... var pínubarningur enda er ég með óvanur með öllu að setja "tígó" í hárið.

Það tókst samt bara vel og GHPL var himinsæl með að vera "eins og" Lína langsokkur.

Þetta sést auðvitað allt saman á myndbandinu líka ... þannig að  ... 

---

Sannkallað vorveður í dag ... við Lauga skruppum aðeins út og þegar við komum til baka var heldur betur tekið vel á móti okkur ...

 


Miðvikudagur 11. apríl 2012 - Á þessum degi fyrir ári síðan ...

Það var einmitt á þessu kvöldi fyrir nákvæmlega ári síðan sem Leifur frændi minn og vinur kvaddi þennan heim. Skrýtið til þess að hugsa að árið sé liðið ... það minnir mann hressilega á það hversu hratt tíminn líður. Það minnir líka á mikilvægi þess að fara vel með tímann.

Ég var einmitt á Íslandi þennan dag í fyrra, þar sem ég kynnti niðurstöður rannsóknar á biðstofu krabbameinsdeildar á opnum fundi á LSH, auk þess að skreppa í tvö útvarpsviðtöl og sinna fleiri erindum. Upp úr klukkan hálfsjö ákvað ég að fara upp á Landakot að kíkja á Leibba frænda. Hann var sofandi og það hrygldi í honum. Ég staldraði við í svona hálftíma. Við brottför gekk ég að honum, hvíslaði að honum þakkarorðum og smellti rembingskossi á ennið.  Það var deginum ljósara að þetta var síðasta skiptið sem við myndum hittast hérna megin móðunnar miklu.  Ég hringdi í mömmu og sagði henni að drífa sig upp á spítala.

Því næst fór ég að hitta Dóra vin minn. Við fengum okkur pizzu á Eldsmiðjunni ásamt Gamla. Mjög fínt kvöld, mikið hlegið og spellað.

Þegar ég kom heim síðar um kvöldið, sagði mamma að hún hefði farið á Landakot. "Mikið er ég fegin að hafa gert það" sagði hún "hann dó klukkan hálfníu".

Þar með var tæplega 77 ára lífshlaupi frænda míns lokið. 

Mér til undrunar varð ég ekki sorgmæddur ... ég var sáttur ... ég var svo hrikalega sáttur við það að hafa haft tækifæri á því að hitta hann og geta kvatt. Og nú ári síðar er ég enn sáttari að hafa fengið þetta tækifæri. 

19 dögum eftir brottför Leibba, nánast upp á mínútu, fæddist svo Stubburinn minn hér í Uppsala. Um klukkutíma eftir að hann kom í heiminn sat ég í hægindastól í horni fæðingarstofunnar og horfði á hann og móðurina.
Allt í einu fann ég svona líka sterka pípulykt, nákvæmlega þá sömu og alltaf fylgdi Leibba. Eftir að hafa setið og þefað út í loftið í dágóða stund spurði ég Laugu hvort hún fyndi einhverja lykt.
"Já, ég finn pípulykt" svaraði hún.
"Já er það ekki? ... Karlinn er hérna ..."

Það var ekki laust við að mér vöknaði um augun. 

 


Þriðjudagur 10. apríl 2012 - Nokkrir punktar

Þá eru nú páskarnir liðnir ... 

Á þessum bæ var m.a. skroppið í Skansen í Stokkhólmi í líka þessum bruna and$%&"#s gaddi. Samt mjög fín ferð.

Myndirnar verða að bíða því GHPL tók að sér það vanþakkláta verkefni að týna myndavélinni þegar hún var að leika sér með hana hérna innanhúss í gær. Sennilega liggur hún nú á góðum stað milli þils og veggjar.

Annars er óhætt að segja að blessuð börnin eigi stórleiki hér á hverjum degi ... ég þarf satt best að segja að fara að skrá þetta niður hjá mér jafn óðum. GHPL á margar gullvægar og kolbrenglaðar setningar á hverjum degi, t.d. "Af hverju varstu að tala með mér?" sem útleggst á sæmilegri íslensku "Af hverju vildirðu tala við mig?"

Þessa dagana er algjört teikniæði ... það hefur reyndar staðið í töluverðan tíma en það hefur aldrei held ég náð þeim hæðum sem nú.  Það er bókstaflega teiknað á allt sem hægt er að teikna á. Blaðabunkinn í prentarann sem taldi svona 450 blöð fyrir 1,5 mánuði telur svona 30 blöð núna (reyndar er nú meiningin að eitthvað af þessum 420 blöðum verði nýtt betur). 

En Guddan er eins og Stefán frá Möðrudal að því leytinu til að hún er mjög trú viðfangsefninu og teiknar næstum alltaf það sama, þ.e. prinsa og prinsessur (en Stefán málaði næstum ekkert annað en Herðubreið).

PJPL er í feiknastuði líka ... setti í dag persónulegt met þegar hann svaf í morgunlúrnum í 2,5 klukkutíma. Hann var að vonum ánægður með árangurinn. 

Það er gaman að sjá hversu mikla aðdáun hann hefur á systur sinni. Lýsir hún sér ekki síst í því að hann reynir að elta hana á röndum um alla íbúðina. Oftast nær virkar það bara ágætlega enda GHPL oft mjög góð við hann ... og tekur raunar mjög virkan þátt í uppeldinu á honum. Sussar á hann og siðar til af miklum móð. Stubbur tekur því bara ágætlega.


Föstudagur 6. apríl 2012 - Föstudagurinn langi

"Ég elska að horfa á video" sagði GHPL mjög einlæglega við mig í kvöld. Slíkt kom mér ekki á óvart ... ég held að ekkert í heimi GHPL geti komið í stað þess að horfa á video. Alveg merkilegt!

Reyndar tók aðeins að syrta í álinn þegar Nabbi refur, ein söguhetjan í Dóru landkönnuði, birtist en Guddan hefur tekið upp á því að vera alveg logandi hrædd við hann. Sem er líka mjög merkilegt því Nabbi refur er einhver saklausasti refur í heiminum. Hann er svolítið stríðinn ... það er allt og sumt ... en hvað gerist í kolli þessarar litlu dömu er ekki gott að geta sér til um. 

Í dag skruppum við niður í bæ, sýndum okkur og sáum aðra. Mjög góð ferð ... nokkuð kalt þó ... og já, veðurguðirnir tóku upp á því að láta snjóa í nótt og allt var hvítt í morgun ... 

Við fengum okkur gott að borða í Forno Romano, Guddan lék við hvern sinn fingur og PJPL gerði það líka. Hann var ógurlega hress og meðan etið var vildi hann endilega rölta út af veitingastaðnum og inní matvöruverslun sem var beint á móti. Það var víst það mest spennandi í veröldinni þann daginn.


Systkinin að leik ... Syd valdi sjálf "dressið" sem hún er í ...

 

Meðan Steinunn frænka Laugu sem dvelur hjá okkur þessi misserin skrapp í eina búð ... ákvað GHPL að pósa í skóverslunni Bianco.

 

 

Þetta með að hún sé að pósa er sagt í fullri alvöru því svona stillti hún sér upp og óskaði eftir að tekin væri mynd. Steinunn sagði í dag að hún hefði aldrei kynnst nokkru barni sem pósaði jafn mikið og GHPL ... hvaðan þau ósköp eru komin skal ég alls ekkert segja um ...

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband