Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Manudagur 28. juni 2010

Er staddur i radstefnuhaldi i Leipzig i Tyskalandi thessa dagana sem utskyrir bloggleysid ad undanfornu.  

Horfdi i gaer a Thjodverja rulla yfir Englendinga a HM.  Gestum kaffihussins sem eg var staddur a leiddist thad nu ekki mikid.  Serstaklega voru their hrifnir af markinu sem Lampard skoradi en var daemt af ... tha var nu hlegid ;) .

Eftir leikinn aetladi allt vitlaust ad verda, folk song og oskradi, blasid i ludra, thessa daemalausu vuvuzela-ludra og bilflautur theyttar.

Heldur rolegra var yfir mannskapnum thegar Maradona og felagar toku Mexiko i karphusid ... og ekki leiddist mer thad, enda mikill addandi Maradona til margra ara.

Laet thetta duga i bili, engin astaeda ad sitja inni og blogga thegar hitinn er um 30°C og heidskirt. 

 


Fimmtudagur 24. júní 2010

Jæja, þá er geysimikilli törn að ljúka hjá mér ... en það eru fyrirlestraskrif fyrir ráðstefnuna sem haldin verður í Leipzig í Þýskalandi í næstu viku.

Þó aðeins sé um 15 mínútna fyrirlestur að ræða er alveg glettilega tímafrekt að skrifa hann.  Jafnvel erfiðara en að skrifa lengri fyrirlestra.

---

Lauga er nú þegar þetta er skrifað á bak- og næturvakt þannig að í dag fékk hún frí í vinnunni.  Og við gripum tækifærið og grilluðum í hádeginu og borðuðum út á svölum.  Það var alveg ljómandi "næs", enda blíðan algjör.

 

---

Guddan fer mikinn þessa dagana.  Í leikskólanum í dag, hljóp hún, gerði jafnvægisæfingar, klifraði upp og niður tröppur, hló mikið og hlustaði á sögu.

Þegar hún kom heim var hún samt mest í því að frekjast og velta sér upp úr gólfinu ef hún fékk ekki nákvæmlega allt sem hún vildi með tilheyrandi óhljóðum.

--- 

Hún talar sífellt meira og skilur sífellt meira, sem má kannski teljast eðlilegt en um leið þakkarvert.  Því þó maður hafi tilhneigingu til að líta á þroska og heilbrigði sitt og annarra sem sjálfsagðan hlut, þá er það síður en svo sjálfsagt.  

T.d. greindist nú í vikunni, barnungur sonur vinafólks okkar hér í Uppsala með sykursýki I.  Það þýðir insúlínsprautur ævilangt, sem og vandleg vöktun á mataræði og hreyfingu.

En aftur að tali GHPL, en hún er nú farin að kalla sig, "Gí".  Þannig að ef hún er spurð nafns þá er svarið "Gí". Í síðustu viku var það "Gía" en nú er það bara "Gí".  Það greinilega hljómar meira töff og er náttúrulega meira í anda derhúfunnar sem hún ber á höfðinu á hverjum degi.

Derhúfuna verður nefnilega að setja á höfuðið með mjög nákvæmum hætti, svo nákvæmum að það getur enginn annar, nema hún sjálf sett hana rétt.  Skyggnið verður að vera aðeins út á hlið og töluvert fyrir andlitinu.

Við foreldrarnir erum ekki alveg að skilja þetta ... ?!?  Blessað barnið er nú ekki nema rétt 2ja ára ... ???

 


Miðvikudagur 23. júní 2010

Það er búið að vera alveg ótrúleg linka í þessu hjá mér á síðustu dögum ... svo mikil að kvartanir eru teknar að berast.

Eitthvað verður að hysja upp um sig brækurnar og að bæta úr enda margt sem drifið hefur á dagana.

Við t.d. héldum "veislu" þegar konunglega brúðkaupið var haldið um síðustu helgi, enda ekki á hverjum degi sem haldið er konunglegt brúðkaup í landinu sem maður býr.  

Lauga fór og keypti "brúðkaupstertuna", sem bragðaðist afbragðsvel, þó svo að Guddan hefði farið höndum um hana þar sem tertan stóð á stofuborðinu.

 

Einnig var boðið upp á gos, grænmeti, ávexti og flögur. 

Ekki spillti það fyrir að hafa forsetann á fremsta bekk í útsendingunni.  Augljóst að hann er innsti, eða að minnsta kosti næstinnsti koppur í búri hjá "rojalnum" hér í Svíþjóð. 

 
Stemmningin í stofunni.  Ef vel er að gáð má sjá forsetann á skjánum, við hlið verðandi tengdamóður krónprinsessunar. 

Svo eitt kvöldið skruppum við í góðan hjólatúr og þá urðu þessar kynjamyndir á vegi okkar.

 

Mér var litið út um eldhúsgluggann eitt kvöldið nýlega og þá blasti þetta við.

 

Það var engu líkara en skógareldar geysuðu í nágrenninu ... myndin er reyndar ekki nægjanlega góð en þetta var hreint magnað! 


Miðvikudagur 9. júní 2010 - Hitasveiflur

Þetta er búið að vera afskaplega fínn dagur hér í Uppsala.

Töluverðu komið í verk, veðrið gott og allir hressir.

Nýnæmi dagsins í dag var að athuga hvort hægt væri að láta sig renna á hjólinu frá útidyrunum á húsinu okkar og út í búð, án þess að þurfa að stíga hjólið.

Þess má geta að búðin er í 500 metra fjarlægð.

Við Lauga reyndum tvær mismunandi leiðir.  Niðurstaðan var sú að við gátum ekki látið okkur renna á hjólunum út í búð.  Fyrri leiðin var einfaldlega ekki nógu mikið niðri í móti, en síðari leiðinni lofaði góðu uns við urðum að snarhemla þar sem einhverjir apakettir gengu í veg fyrir okkur. 

Þetta var mjög athyglisverð tilraun.

---

Bara svona til að halda upplýsingunum til haga má nefna að við tveggja ára aldur hefur Guddan upplifað að vera úti í 37°C í Sydney þann 31. október 2008 og í -25°C frosti í Uppsala þann 6. janúar 2010 og 22. febrúar 2010.

Það gerir 62°C hitasveiflu.


Syd fær vatn að drekka á heitasta degi ársins 2008 í Sydney - 31. október 2008.

 
Það er vel við hæfi að fá sér ís, þegar gaddurinn úti er -25°C -
6. janúar 2010.

Því má bæta við að GHPL hefur náttúrulega upplifað enn meiri hita en var í Sydney þennan októberdag, því meðan á meðgöngu stóð, nánar tiltekið þann 16. mars 2008, vorum við Lauga stödd formúla eitt kappakstri í Melbourne í 38°C.

Veit samt ekki hvort það telst með. 


Lauga fær sér frískandi úða í Melbourne ... í 38°C hita. 

Þrátt fyrir að vera talsvert eldri, hafa foreldrar dótturinnar ekki upplifað mikið meiri hitasveiflu.  Hvorugt okkar hefur upplifað meira frost en var í janúar og febrúar sl. hér í Uppsala, þ.e. -25°C.  Það er viðbjóðslega kalt!

Hinsvegar upplifðum við mesta hita ævi okkar í Baker í Kaliforníu í lok júlí 2003.  Í Baker er að finna stærsta hitamæli í heimi og sýndi hann 108°F eða 42°C þennan ágæta dag fyrir tæpum sjö árum.

Okkur er minnisstætt þegar við keyptum okkur ís í Baker.  Aldrei á ævinni höfum við borðað ís jafn hratt, og hef ég aldrei séð ís bráðna jafn hratt. 


Mánudagur 7. júní 2010 - Guddan 2ja ára í dag!!

Jæja ... þá á barnið afmæli í annað sinn á ævinni ...

Það er voðalega gaman og mikil blessun að hafa haft tækifæri á að kynnast þessum frábæra einstaklingi, sem dóttirin hefur að geyma. 

Á þessum tímamótum er því ekki úr vegi að líta aðeins um öxl og fara yfir helstu atriði ársins.  Til að auðvelda þá yfirferð er hér heilmikið myndband ...

Svo er auðvitað við hæfi að fara yfir nokkrar staðreyndir um Gudduna.

1. Á öðrum afmælidegi sínum er Guddan altennt.  Lengi vel létu tennurnar á sér standa en ruddust svo niður hver af annarri á tiltölulega stuttum tíma á síðasta ársfjórðungi ársins 2009.

2. Guðrún er nokkuð víðförult barn og hefur dvalist í 9 löndum; Íslandi, Svíþjóð, Ástralíu, Hong Kong, Finnlandi, Álandseyjum, Póllandi, Nýja-Sjálandi og Englandi.  Hún hefur komið í 21 bæ eða borg.

3. Helst vill dóttirin ferðast um á hjóli, en stundum er kerran ágæt.

4. Hún er ekki farin að mynda margar setningar en getur þó sagt: "Ég sagði nei!" og "Hvað er þetta?"

5. Henni finnst skemmtilegast að hlaupa, æfa jafnvægið og lesa.

6. Á öðrum afmælisdegi sínum er Barbapapa í mestu uppáhaldi.  Sé horft á árið í heild sinni á Doddi þó vinninginn sem sá vinsælasti. 

7. Ávextir eru í uppáhaldi.  Epli eru það besta.

8. Við tveggja ára aldur vill Guðrún helst vera með móður sinni.  Föðurinn er hægt að nýta ef ekkert betra býðst.

9. Guddunni finnst miklu skemmtilegra að vera úti en inni.

10. Út í Svíþjóð er hún kölluð "Guddrun".

11. Það er bókstaflega ekkert sem slær út rúsínur og ís.  Athyglisvert er hversu vel rúsínur haldast á toppi vinsældarlistans, því þar hafa þær verið frá því sú stutta byrjaði að borða "fast fæði". 

12. Hestar eru í toppsæti dýravinsældarlistans, að því gefnu að þeir séu í hæfilegri fjarlægð.  Hundar eru í öðru sæti og kettir í þriðja sæti.

13. Guðrún hefur aðeins einu sinni verið þvegin með sápu.  Höfuðþvottur undanskilinn ... enda hefur hún það magnaða sið að nota hárið á sjálfri sér til að þurrka sér um hendurnar sérstaklega ef hún verður kámug við matarborðið. Einnig finnst henni gaman að mylja brauð og kökur í hárið á sér.

14. Á öðrum afmælisdegi sínum getur Guðrún bent á "stafinn sinn" þ.e. bókstafinn "G".  Einnig þekkir hún H og V.  Rámar í A á góðum degi.
Þessi mikla hæfni er þó langt frá því að vera algild, því hún þekkir aðeins þessa stafi þegar hún skoðar "Allting rund omkring" eftir Richard Scarry.  

15. Guddan hefur aðeins einu sinni grátið þegar hún hefur verið skilin eftir á leikskólananum.  Á tveggja ára afmælinu sínu vill hún ekki einu sinni láta leiða sig inn á skólalóðina. 

16.  Dóttirin þekkir næstum alla skólafélaga sína og alla kennara með nafni.  Með því að nefna nafn einhvers nemanda getur hún nánast óhikað bent á viðkomandi á "bekkjarmyndinni" sem hangir frammi á gangi.  Henni finnst samt skemmtilegast að benda á Susanne, sem er kennari við skólann og segja nafnið hennar "Súsann".

17. Guðrún þarf ekki að heyra nema nokkra takta af tónlist svo hún byrji að dansa.

18. Þeirri stuttu finnst gott að vera í lopapeysu en þó aðeins að peysan sem hún klæðist innan undir hindri að lopapeysan stingi. 

19. Guddan er mjög heitfengt barn.  Er gjarna löðursveitt þegar hún sefur.

20. Á árinu hefur blessað barnið ekki fengist til að sofa eina mínútu í rúminu sem keypt því til handa.  Ákvörðun hefur verið tekin um að setja rúmið í söluferli. 

21.  Á ferðum sínum um bæinn vekur dóttirin athygli vegna þess að hún er höfð í beisli.  Slíkt er afar sjaldséð en Guddunni líkar vel við beislið og vill gjarnan hanga í því við dræmar undirtektir foreldra sinna. 

22.  Þegar svæfa á blessað barnið eru tvær aðferðir mögulegar.  Önnur tímasparandi og hin tímafrek.  Sú fyrrnefnda er að setja með hana fyrir framan tölvuna og horfa á tónlistarmyndbönd á YouTube á meðan maður hossar henni með fætinum.  Síðarnefnda aðferðin er að fara inn í rúm með hana, lesa fyrir hana margar bækur, segja henni svo undirblíðlega að fara að sofa og strjúka bakið eða fæturna meðan hún sofnar.  Faðirinn notar fyrri aðferðina, móðirin síðari. 

23. Guddan mætir alltaf á leikskólann milli kl. 9 og 10.  Hún fer svo heim rétt eftir kl. 16.

24. Guðrún telur að það geti enginn annar hringt í Skype nema amma á Sauðárkróki.

25. Guddunni finnst ekki gaman að fara í bað og ekki finnst henni gaman að láta skipta um bleyju.

26. Aðspurð segist Guðrún að henni finnist mjög gaman að eiga afmæli ... svar hennar við spurningunni er nákvæmlega svona: "ahhhhhh" og það jafngildir "já-i".

27. Þrátt fyrir svarið má telja nokkuð víst að dóttirin hefur ekki hugmynd um að hún eigi afmæli í dag. 

 


Sunnudagur 6. júní 2010 - Þjóðhátíðardagur Svía og 1 dagur í afmæli

Við skruppum í bæinn í dag í fantagóðu veðri til að halda upp á sænskan "17. júní".  Ágætis stemmning í bænum.

Guddan fékk ís og fána eins og vera ber á 17. júní.

Svo má ekki gleyma því að á morgun verður elsku Guddan okkar tveggja ára ... 

Það verður  eitthvað um dýrðir í leikskólanum.  Svo verður afmæliskaka og sitthvað fleira þegar hún kemur heim.

Þetta verður gaman!! 

 


Föstudagur 4. júní 2010 - Að hugsa út fyrir boxið

Í dag er allt gott og blessað hér í Uppsala.

Þó auðvitað sé það ekkert fyndið að svifryksmengun mælist næstum 30-falt yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík og 60-falt yfir heilsuverndarmörk á Hellu, þá er nú ekki annað hægt að glotta út í annað.

Sólarhring áður voru heimsbyggðinni send þau skilaboð að á Íslandi væru eftirmálar eldgossins í Eyjafjallajökli engir.

Í kvöld berast svo fréttir að aftur sé farið að hrikta í jöklinum ... 

---

Jón Gnarr er orðinn borgarstjóri!  Fróðlegt að sjá hvernig honum mun reiða af.  Persónulega hef ég fulla trú á Jóni og Besta flokknum.  Tel að inn geti komið nýjar og frumlegar nálganir.

T.d. er vefurinn www.betrireykjavik.is frábært framtak.  Þar er hugmyndaflug borgarbúa virkjað og þar má sjá að oft geta litlar hugmyndir fengið byr undir báða vængi.
Vinsælasta hugmyndin núna er að opnuð sé vefsíða þar sem íbúar geta beðið um viðgerðir í hverfinu.  Góð hugmynd það og ætti að vera viðráðanleg, ef beiðnir fólk eru ekki þeim mun stórkallalegri.

---

Eins og ég segi tel ég að Besti flokkurinn og Jón Gnarr séu frumlegt afl ... og það er ekki á hvers manns færi að vera frumlegur.

Ég tek sjálfan mig sem dæmi.  Eins og áður hefur komið fram hef ég ákveðið að í einn mánuð, skuli ég gera eitthvað á hverjum degi sem ég hef aldrei áður.

Auðvitað má taka svona áskorun og poppa hana upp með líta svo á að allt sem maður gerir þann daginn sé eitthvað sem maður hafi aldrei gert áður.  Það er vissulega rétt.  T.d. hef ég aldrei skrifað áður blogg á föstudeginum 4. júní 2010.

Í mínum huga þessi nálgun marklaus ... því þegar öllu er á botninn hvolft hef ég skrifað nokkur hundruð blogg, svona svo dæmi sé tekið.

Áskorunin felst í því að láta sér detta eitthvað algjörlega nýtt í hug.  Gjörningurinn þarf ekki að vera nein flugeldasýning eða eitthvað rosalega fyndið.  Ekki þarf hann að kosta neitt ... hann þarf bara að vera eitthvað nýtt.

Staðreyndin er hinsvegar sú að eftir 12 daga er orðið alveg svakalega erfitt að finna eitthvað nýtt að gera.
Það eru grilljón hlutir sem ég hef aldrei gert ... en samt klóra ég mér í hausnum á hverjum degi yfir því hvað í ósköpunum ég eigi eiginlega að gera.

Og ég er hreint ekki ánægður með þennan ömurlega skort á hugmyndum.  Mér finnst hann alveg svakalega leiðinlegur og satt að segja kemur hann mér á óvart.

Ég hélt að ég væri hugmyndaríkur og frumlegur en er það klárlega ekki.  Sú staðreynd er því algjörlega ný vitneskja fyrir mig.  Þess vegna finnst mér gaman að fást við þessa áskorun.

Hún neyðir mig til að hugsa út fyrir boxið ... og það er þroskandi ...

---

Þessir gjörningar mínir á hverjum degi snúast því ekki um að reyna að vera eitthvað sniðugur.

Þeir snúast einfaldlega um það að reyna á heilann og upplifa eitthvað nýtt.

---

Svo má nefna það að í kvöld ákvað ég að drekka vatn úr kókdós.  Ég hef oft drukkið vatn úr kókflösku en kókdósin gegnir öðru máli.

Og hvernig er að drekka vatn úr kókdós?  Upplifun mín var sambærileg við það að fá soðinn fisk og hamsatólg þegar búið er að lofa lambi og bearnaise.

---

Eitt í viðbót þessu tengt ... við þrenningin skruppum á Subway í kvöld.  

Við Lauga áttuðum okkur á því að við pöntum okkur alltaf "Bræðing".  Alltaf það sama ... þvílíkt hugmyndaflug!!

Við ákváðum að breyta til.  Í báðum tilfellum var sá bátur, sem hvort okkar valdi, betri en "Bræðingurinn".

Hvað er maður að spá?!?  


Miðvikudagur 2. júní 2010

Ég komst að því í kvöld að ég hef aldrei tekið hýðið utan af banana með hnífapörum og sömuleiðis borðað banana með hníf og gafli.  Ég ákvað því að það yrði nýnæmi dagsins í dag.

Og hver var niðurstaðan?  Það er auðveldara að taka hýðið utan af banananum með berum höndum en að nota hnífapör til verksins. 

---

Og hvað er búið að gerast þennan dásamlega dag?  
Ég ætla að nefna sex atriði sem hafa risið hvað hæst í amstri dagsins.  Röð þeirra segir ekki til um mikilvægi þeirra.

1. Hitastig utandyra fór hæst í 23°C milli kl. 16 og 18.  Lægst var hitastigið 4°C um klukkan 4 í nótt. 

2. Æslagangur á leikvellinum í kaffitímanum ásamt Syd og Laugu.

3. Tillögur varðandi aðalskipulagið á Djúpavogi sem ég sendi til Andrésar oddvita.

4. Rökstuðningur, sem ég setti saman, fyrir ákveðinni aðferðafræði sem ég ætla að nota í rannsókninni minni.  Þarfnast þó meiri pælinga, en það sem komið er, er gott.

5. Kókið og súkkulaðið í kvöld.

6. Rifrildi framsóknarmanna í Reykjavík. 


Þriðjudagur 1. júní 2010

Við feðginin skruppum í hjólatúr út í sveit í kvöld.

 
Á akrinum.


Á hæðinni.


Í grasinu.

---

Lauga tók þátt í einhverju hlaupi í dag ásamt vinnunni.  Kom heim með medalíu.

Annars hefur verið í mörg horn að líta í dag ... og ég hef alveg gleymt nýnæmi dagsins ... bæti úr því á morgun. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband