Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Föstudagur 27. ágúst 2010 - Jake and the Fatman

Í kvöld datt ég 20 ár aftur í tímann ...

... ég og Lauga vorum að horfa á Jake and the Fatman ... fengum fyrsta "seasonið" lánað hjá Sverri.

Eins og margir vita sem þekkja mig er ég ákaflega lítið gefinn fyrir að horfa á sjónvarp.  Enda finnst mér það einhver mesta tímasóun sem hægt er að hugsa sér og yfirleitt hreinlega leiðinlegt.

Af þeim sökum hef ég aldrei átt neina uppáhaldssjónvarpsþætti ... eitthvað sem ég má ekki missa af ...

Það er þó ein undantekning ... "Jake and the Fatman", sem sýndir voru á RÚV undir nafninu "Samherjar" í kringum 1990.

En nú er ég farinn að endurtaka mig ... því ég skrifaði um "Jake and the Fatman" þann 25. október sl.

Þetta eru bara svo miklir snilldarþættir.

---

Þessa dagana er dóttirin á kafi í því að lita.  Er sífellt að biðja um að fá að lita ... sem útaf fyrir sig er ekkert gott um að segja.

Það sem vekur þó athygli er að "litastundin" endar alltaf með ósköpum.  Hún heimtar að Óli prik sé teiknaður og svo þegar búið er að verða við þeirri ósk ... þá fer bara allt í köku.  Maður reynir þá að teikna annan í þeirri von að bjarga málunum ... en það er eins og að hella olíu á eld ...

... og allt í einu er ljúf stund við matarborðið orðin að ólgandi eldhafi þar sem hver púðurtunnan af annarri springur upp í loft ...

Enginn veit almennilega af hverju?!?!

Móðirin er því eiginlega búin að taka fyrir "litastundirnar".

---

Að klæða sig á morgnana er heldur ekkert auðvelt mál, því sú stutta er komin með miklar og sterkar skoðanir á því í hvaða föt skuli farið.

Ég ætlaði að klæða hana í krúttulegan bláan bol, merktum Sydney, Australia auk þess sem á honum var kóalabjörn, kiwifugl, kengúra, emu og eitthvað fleira ...

Nei, nei, nei ... búmm!!  Þetta var orðrétt svarið.  Svo var barist um á hæl og hnakka þegar reynt var frekar að koma henni í bolinn.

---

Í kvöld var Dórukvöld ...


Miðvikudagur 25. ágúst 2010 - Að safna gögnum

Eins og undanfarna daga hefur þessi dagur verið afar annasamur, enda mörg járn í eldinum eins og stundum áður.

Mikið púður hefur farið í að safna fólki til að taka þátt í forkönnun á streitulistanum sem ég hef hugsað mér að nota í rannsókn á krabbameinsdeild LSH.
Þetta hefur verið mjög fróðlegt ferli fyrir mig að vinna að þýðingu á streitulistanum, úr ensku yfir á íslensku. 

Þó það ef til vill hljómi ekkert sérstaklega erfitt að snara 18 enskum orðum yfir á íslensku, þá reyndist það þrautin þyngri og gengur póstarnir fram og aftur milli mín og Kristínar Þorleifsdóttur, samstarfskonu minnar.

Að þýðingu lokinni, þurfti ég svo að fá helst nokkur hundruð manns til að rúlla í gegnum þennan lista.  Þegar þetta er skrifað, stendur sá fjöldi í um 150 manns.

Þegar gagnasöfnuninni verður lokið taka við tölfræðilegir útreikningar og úrvinnsla.  Þegar því öllu saman er lokið má fara að huga að því að fá leyfi hjá siðanefnd LSH en án þess verður engin rannsókn gerð.

Og þegar og ef siðanefndin gefur leyfi, þá loksins er hægt að fara að keyra sjálfa rannsóknina ... þannig að allt tekur þetta nú sinn tíma og krefst fyrirhafnar.

---

Mæðgurnar voru hressar í dag.  Annars hef ég satt að segja lítið talað við þær vegna anna.

Lauga er, þessa dagana, á fullu að undirbúa sig fyrir námið sem hefst í næstu viku.  Það þarf að líta í mörg horn áður en það hefst allt saman.

Guddan lék á alls oddi í dag.  Fékk hláturskast í kaffitímanum ... hvað var svona fyndið er enn á huldu.  Í kvöldmatnum tók hún ærlega til matar síns, sem gerist nú sjaldan og lauk máltíðinni með því að maka tómatsósu, smjöri, hvítlauksbrauði, pylsu, ís og mjólk í hárið á sér ...

 

Þess má geta að hún fór umsvifalaust úr stólnum ofan í baðkarið ... þar sem henni var þvegið hátt og lágt ...

Já, og hér er ein mynd af þeim mæðgum í "Dóru-baði".


Þriðjudagur 24. ágúst 2010

Mæðgurnar skruppu til Stokkhólms í dag ... það var víst mikið stuð ... myndavélin gleymdist.

Sjálfur er ég búinn að vinna hörðum höndum að fjölbreyttum verkefnum í allan dag ... allt frá kl. 9 í morgun til kl. rúmlega 1 yfir miðnættið.

Það er ekki nokkurt vit í því að segja nokkuð af viti á þessum tíma sólarhrings ... 


Mánudagur 23. ágúst 2010 - Að spá í uppeldismál og Fúfú afmælisbarn

Guddan hefur verið heldur skapstygg í dag.  Hún bæði sló mig utan undir og skallaði mig í kinnina. 

Í bæði skiptin tók ég þessu með stóískri ró.  Gaf henni þó til kynna með svipbrigðum að ég væri nú ekkert yfir mig ánægður með þessi framlög hennar, en sparaði reiðilestur og skammir, enda efast ég stórlega um að þessi fantabrögð hafi verið af yfirlögðu ráði.

Flestir sem þekkja mig vita að ég tek hlutunum sjaldanast með stóískri ró.  Ég hef það orð á mér að vera óþolinmóður, frekur og oft óþarflega harður í horn að taka.  Þess vegna kemur þessi stóíska ró í garð dóttur minnar mér, já og fleirum, mjög svo í opna skjöldu. 

Allt þar til Guddan kom í þennan heim var ég hlynntur því að börn væru almennilega öguð, kæmust ekki upp með neitt múður og gerðu bara eins og þeim væri sagt hratt og vel.

En nú er öldin önnur.  Ég hef gjörsamlega umpólast.  Ég kann mjög illa við að verið sé að skamma börn, aga þau til og láta þau hlýða ... að börn séu látin lúta ofríki foreldra sinna, sitja og standa eftir því hvað foreldrunum þóknast, finnst mér slæm "pólisía".  Eftir alla þá dobíu af bókum sem ég hef lesið bæði í sálfræði og ekki síður í hvatningarsálfræði, hef ég komist af þeirri niðurstöðu að börn eigi ekkert endilega að hlýða öllu því sem þeim er sagt. 

Að mínu mati er eitt mikilvægasta hlutverk foreldra að viðhalda viljanum og áhuganum sem einkennir ung börn.  Og það verður ekki gert með því láta þau lúta ströngum aga og vanhugsuðu regluverki.

Frekar en að vera sífellt í hlutverki einhvers uppalanda sem sífellt er að kveða upp úr um hvað megi og hvað ekki, hvernig eigi að haga sér og hvernig ekki, þá tel ég að ég eigi að vera fyrirmynd dóttur minnar.

Og hver er megináherslan í því verkefni?

Jú ... að ég spái í það hvað ég sjálfur er að gera.  Að ég leggi áherslu á að sýna Guddunni hvað hún getur gert ... skapa möguleika og ýta undir "kreatifití" ... í stað þess að vera sífellt að segja henni hvað hún á ekki að gera.  Ef ég er glaður og hress, þá sér Guddan það og vonandi tekur það upp eftir mér.  Ef ég leik við hana, fíflast, dansa, fer í fótbolta í stofunni, kubba, púsla, fer í kollhnís, fer í eltingaleik, raða upp dýrunum o.s.frv., þá eru góðar líkur á því að hún taki upp þá siði.

Kjósi ég hins vegar að vera sífellt að jagast í henni, berja hnefanum í borðið, pirrast af því að hún hellir niður mjólk eða klínir smjöri í hárið á sér, þá er mjög líklegt að hún taki upp þá hegðun og verði pirruð og fúl og lemji hnefanum í borðið.

Komi svo upp sú staða að hagsmunir eða langanir mínar og Guddunar fara svo ekki saman, legg ég mikið upp úr því að díla við hana ... semja um niðurstöðu ... bjóða upp á möguleika, bjóða upp á eitthvað annað sem gæti verið henni þóknanlegt ... og báðir vinna.

Með þessu tel ég að Guddan læri með tímanum að heimurinn er ekki svart/hvítur ... hann er ekki bara svona eða hinsegin.  Og af þeim sökum þarf maður að vera sveigjanlegur og tilbúinn að díla.  Því fyrr sem maður lærir að díla um hlutina því betra.

Máltækið segir nefnilega að börnin læri það sem fyrir þeim er haft ... ;)

---

Fúfú frændi á afmæli í dag ... er fjögurra ára ...

Hér er mynd af honum ásamt heimasætunni hér á bæ, sem tekin var í júlí sl.

 

 


Forprófun streitulista

Þessa dagana er ég að forprófa streitulista sem ég, ásamt öðrum, hef verið að þýða yfir á íslensku.

Mig vantar að minnsta kosti 100 manns að prófa listann, það tekur um tvær mínútur að fara í gegnum hann.  Engum persónulegum gögnum s.s. kennitölum eða IP-tölum er safnað. 

Slóðin á streitulistann er http://www.surveymonkey.com/s/GTBZC3M

Það væri frábært ef þú gætir líka bent öðrum á þessa slóð og fengið þá til að taka þátt. 


Laugardagur 21. ágúst 2010 - Ákaflega ljúfur dagur

Vorum að koma úr stórskemmtilegu matarboði hjá Sverri og Dönu.  Það var dýrindis íslenskt lambalæri snætt og svo var tekið í spil á eftir.

Því miður gleymist myndavélin ... eins og stundum ...

Annars hefur dagurinn liðið við hin ýmsu störf.  Til dæmis var ég að viða að mér efni í bók, sem ég er með í smíðum og stefni á að verði gefin út fyrir árið 2014.

Lauga var svona í hinu og þessu og Guddan líka ...

---

Samkvæmt rannsókn sem ég sá um daginn, þá eru allt að 95% af hugsunum fólks neikvæðar.  Hugsanir sem í besta falli eru bara hreinlega leiðinlegar en í versta falli vinna gegn hagsmunum þess sem hugsar og valda honum jafnvel skaða.

Ég hef því mikið verið að velta því fyrir fyrir mér síðustu daga af hverju ég sjálfur er svona oft að hugsa eitthvað djöf*/?!# rugl í stað þess að hugsa eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt.

Þetta er náttúrulega heilmikil pæling ...


Föstudagur 20. ágúst 2010 - Tveir snillingar

Jæja, loksins rættist spádómur minn um að Lauga myndi komast í augnhjúkrunarskólann sem hún sótti um í vor.  Fátt virtist benda til að spádómurinn myndi rætast, þegar fyrstu tölur voru birtar.  Spúsan í 22. sæti á biðlista og aðeins 20 teknir inn í skólann á hverju ári.

En svo týndu snillingarnir tölunni og yfirsnillingurinn komst inn ... enda hefði annað verið hreinn og beinn skandall.  Við erum að tala um hjúkrunarfræðing í algjör 1. ágætis flokki.  Alveg grínlaust!!

---

Annar snillingur var í algjöru sólskinsskapi í dag.  Ljómaði eins og sól í heiðríkju bæði í morgun þegar farið var á leikskólann og eins þegar komið var af leikskólanum.  Góða skapið var svo mikið að sérstök lykkja var lögð á leiðina úr forstofunni inn í eldhúsið og föðurnum heilsað með pompi og prakt inni í stofu.

Þessi litli snillingur varð svo fyrir því óláni á Subway í kvöld að vespuhelvíti kom inn á staðinn og stakk það hinn háæruverðuga snilling í vísifingurinn.  Snillingurinn gólaði eins og stunginn grís, og átti svo bágt að afgreiðslumaðurinn á Subway gaf flögupoka í sárabætur í viðbót við smákökuna sem hann hafði gefið nokkrum andartökum fyrir slysið.

Það er gaman að segja frá því að stubburinn er nú byrjaður að syngja af miklum móð.  "Hani, kummi, hundu, ín ... músin ... yngur" er tekið mjög oft.  Önnur lög á dagskránni eru "Kalle, lille spindel ... ", og "Bí, bí og blaka".


Miðvikudagur 18. ágúst 2010 - Að fara að sofa II

Það er orðið allt of framorðið hér í Uppsala til að skrifa nokkuð af viti.

"Fara að sofa", sagði Lauga rétt áðan.

"Já, en verð ég ekki að setja eitthvað inn á þetta blogg?"

"Geturðu ekki bara gert það í fyrramálið?"

---

Það mætti halda að spúsan haldi að ég hafi ekkert að gera á daginn ...


Þriðjudagur 17. ágúst 2010 - Að fara að sofa

Ég þykist vera að fara að skrifa blogg ... en hvað ...

Lauga kemur til mín og segir: "Er þá ekkert kakó?"

"Jú, jú" segi ég.

"Ég verð þá að fá kakóið núna ... ég verð að fara að sofa ..."

"Bíddu!"

"Nei, ég get ekkert beðið ... ég er að fara að sofa.  Ég verð að vakna snemma í fyrramálið."

"Ok ... ég kem ..."

---

Af þessum sökum verður blogg dagsins ekki lengra ...


Mánudagur 16. ágúst 2010 - Dela fylgir eftir draumum sínum

Í dag fékk ég skemmtilegt email frá fyrrum lærisveini mínum í Ástralíu, Dela Hoyde.  Strákur sem ég þjálfaði í fótbolta í nokkra mánuði árið 2008 ... áður en ég var rekinn.  Brottvikning mín frá Gladesville Ryde Magic er saga sem sennilega flestir lesendur Múrenunnar þekkja.

Í tölvupóstinum var Dela, sem nú er 16 ára gamall, að segja mér að hann væri kominn til Spánar. 

Já, takk ... þessi gutti, sem ég var að díla við fyrir 2 árum, ætlar að leggja allt í sölurnar á næstu árum til að landa atvinnumannasamning í fótbolta og það í einu helsta vígi fótboltans ... ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Þegar ég var rekinn frá GRM, sendi Dela og margir fleiri mér póst og sögðust harma brotthvarf mitt. 

Ég man ennþá þegar ég settist niður á laugardegi um miðjan júlí árið 2008 og skrifaði Dela tveggja blaðsíðna email, þar sem ég fór í gegnum styrkleika hans og veikleika og hvað hann gæti gert til að ná þeim árangri sem hann dreymdi um.  Ég hvatti hann til dáða og sagði honum að gefa drauma sína aldrei upp á bátinn, heldur fylgja hjartanum alla leið.

Drengurinn tók mig á orðinu ... hann lagði allt undir.  Hann sendi mér reglulega upplýsingar um hvernig hlutir þróuðust hjá sér og ég sendi honum á móti nokkur "tips" til að pæla í.

Fyrir nokkrum vikum þegar ljóst var að hann væri á leiðinni til Spánar sendi hann mér þessar línur: " ... the very first email that you sent me really gave me that bit more self belief in myself that I did not have.  I still carry that email, it meant a lot to me.  You always manage to say the right things that inspire me to do better and to achieve more than I would have hoped ... "

Og þetta smýgur alveg inn að hjartarótum ...

---

Dela er búinn að sýna og sanna úr hverju hann er gerður.  Drengurinn, sem aðalþjálfari og yfirstjórn klúbbsins var búinn að dæma úr leik vegna þess að hann væri "einfættur, eigingjarn og skapstyggur" ... hann er mættur til Spánar.

Samskipti mín við Dela hafa sýnt mér hvað hvatning skiptir miklu máli.  Þau hafa líka sýnt mér hvað uppbyggileg gagnrýni, sem ég vil frekar kalla ábendingar, getur gert.  Og þau hafa sýnt mér að það þarf oft ekki að gera mikið til að hafa mikil áhrif.

Auk þessa er árangur Dela er mér mikil hvatning.  Hann er til marks um hverju er hægt að áorka ef vilji og dugnaður er fyrir hendi.  Dela er orðinn að fyrirmynd minni og ég er sannfærður um að "einfætti, eigingjarni og skapstyggi" guttinn með stóru draumana, mun einn daginn spila meðal þeirra bestu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband