Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Þriðjudagur 26. október 2010 - Snilldin í Landeyjum

Ætla mér ekki að skrifa mikið að þessu sinni en get þó ekki setið á mér að nefna aðeins Landeyjahöfn á nafn ... bara vegna þess hversu bráðskemmtilegt er að fylgjast með dýpkuninni þar.

Hvað ætli miklum peningum verði varið í þessa miklu framkvæmd áður en menn játa sig sigraða?

Í dag hefur ekki verið siglt þangað í fjórar vikur ... eða ekki síðan Herjólf tók þar niður á háflóði ... endurtekið: ... á -flóði ...  


Sunnudagur 24. október 2010 - Íslandstörnin er hafin

Jæja ... mætti til landsins í gær ...

Eftir að hafa fengið þessa fínu pörusteik heima hjá mömmu, þá var farið í leikhús.

Finnski hesturinn.

Góð skemmtun ... tragísk kómedía ... eymdin ógurleg, neikvæðin hræðileg, fáránleikinn algjör.

""Þannig fór það" sagði karlinn þegar kerlingin féll niður í gegnum ísinn" - þessa setningu sagði "gamla kerlingin" sem Ólafía Hrönn lék ... mér fannst hún fyndin.

---

Morgunverðarboð í morgun ... allir helstu póstarnir mættu ... að vísu 1,5 klst of seint.  Héldu að boðið ætti að byrja kl. 11 þegar það byrjaði kl. 10.

"... hélt að boðið byrjaði kl. 11 og þá myndi enginn mæta fyrr en hálftólf ... " sagði Steina ... mér fannst það líka fyndið :D

---

Rétt eftir hádegið eða um leið og síðasti gesturinn mætti, þurfti ég að fara ...

Fór ásamt mömmu austur fyrir fjall að hitta þar konu vegna verkefnis ... skemmtilegar hugmyndir þar á ferðinni.

Góð ferð ... sem endaði í lambalæri heima hjá Toppu í kvöld ...

---


Föstudagur 22. október 2010 - Góð laun

Ég var að lesa það rétt í þessu að fótboltasnillingurinn Wayne Rooney setur fram launakröfu upp á 150.000 pund á viku eftir skatta.

Eða rúmar 26 milljónir íslenskra króna ... :D

... sem gera 1350 milljónir á ári ... 

Mér finnst alltaf jafnótrúlegt hvað forráðamenn félaganna eru tilbúnir til að borga þessum fótboltamönnum ... en það hlýtur að vera þess virði úr því það er gert. 

---

Maður hefði sjálfsagt átt að æfa sig meira með boltann úti í garði hér í eina tíð ... þó ekki hefði verið nema til þess að fá svona eins og 5% af þessum launum ...

... eitt ár hefði dugað til að koma manni á græna grein ... 


Fimmtudagur 21. október - Að vinna

 
"Mamma ... vinna" sagði dóttirin um leið og hún hafði sveipað sænginni um höfuð móður sinnar ...

---

Gæti það verið að blessað barnið sé orðið þreytt á þessari löngu og ströngu vinnutörn foreldranna?!?

Guddan er enn veik ... þ.e. að augnsýkingin herjar enn á hana.  Samkvæmt sérfræðingi heimilisins tekur um viku að afgreiða svona sýkingu, þannig að þetta ætti að hafast á næstu dögum.

Núna þráir hún það mest að komast út ... skil það vel ... ;)

---

Það bættist einn fyrirlestur við í dag ... þannig að nú eru fimm fyrirlestrar sem bíða flutnings í 10 daga Íslandsdvöl.  Þetta er svona eins og gott tónleikaferðalag.

En þetta verður gaman ... alltaf gaman að halda fyrirlestra ... sérstaklega ef þeir verða til þess að opna augu einhverra fyrir mikilvægi umhverfissálfræðinnar, ekki veitir nú af ...

--- 

Var í kvöld að skrifa fyrirlestur um umhverfi sjúkrastofnana og tók Borgarspítalann og Landspítalann sem dæmi.
Það hefur verið rekinn spítali á besta stað í Reykjavík, þ.e. í Fossvogi, í meira en 40 ár.  Eins og staðan er nú er umhverfis stofnunina rúmlega 4 ha stórt grænt svæði, sem aldrei hefur verið nýtt af neinu viti ... þrátt fyrir að ærin ástæða hefði verið til.

Í einni frægustu rannsókn umhverfissálfræðinnar sem var birt í Science árið 1984 kom í ljós að sjúklingar, sem voru að jafna sig eftir þvagfæraskurðaðgerð, voru degi skemur á spítalanum, kvörtuðu marktækt minna við starfsfólk og notuðu marktækt minna af verkjalyfjum, ef þeir horfðu á trjálund um gluggann á sjúkrastofunni í samanburði við það ef þeir góndu á múrsteinsvegg.  Seinnitíma rannsóknir hafa stutt þessa niðurstöðu.

Þegar alltaf er verið að tala um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, af hverju í ósköpunum er ekki spáð í hluti eins og þessa?!!?  Af hverju er 4 ha grænt svæði við Borgarspítalann ekki nýtt í þágu sjúklinga og starfsfólks?  Það er margbúið að sýna fram á jákvæð sálfræðileg áhrif velhannaðra grænna svæða á fólk.

---

Við þessa vinnu mína rýndi ég aðeins í vinningstillöguna í samkeppninni um nýja "hátæknisjúkrahúsið" ... þar er settur "voðafínn" garður ... það gleymist hinsvegar alveg að huga að því að garðurinn þarf helst að vera aðgengilegur með sæmilegu móti. 


Miðvikudagur 20. október 2010 - Botnset

Þetta er nú búinn að vera meiri $%&$/ dagurinn ... alveg endalaust leiðinlegur ...

Byrjaði með því að Guddan hnerraði eldsnemma í morgun og fékk blóðnasir í kjölfarið ... ætlaði aldrei að fást til að slaka aðeins á, heldur fríkaði út í staðinn ... þessi serimónía gaf upptaktinn ...

Dagurinn endaði svo í deadboring fótbolta í kvöld.

---

Þeir eru alveg merkilegir svona dagar, þar sem sést aldrei til sólar í kollinum á manni ... það er nú bara eins og almættið sé búið að taka ákvörðun um að þetta eigi bara að vera leiðinlegur dagur.

Og úr því maður er nú að nefna þetta blessaða almætti ... hvað er eiginlega málið með þessa gífurlegu andstöðu við kristna trú??!?

Ég er nú bara ekki að fatta hana ... að það megi ekki kenna hana í skólum?!!  Er það nú það alversta sem börn fá að heyra og sjá nú til dags ... sögurnar af "Miskunnsama Samverjanum" og konunni sem drýgði hór og farísearnir vildu að grýta í refsingarskyni?

"Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fystur steini í hana" ... er þetta bara eitthvað sem allir hafa gott af því að hafa í huga ... trúaðir og trúlausir.

--- 

Þegar ég las Bíblíusögurnar hjá Valborgu Helgadóttur í Austurbæjarskólanum fyrir aldarfjórðungi leit ég nú bara á þetta sem einhverjar sögur, sem voru ekkert betri eða verri en "Karlinn sem átti stóru hjólbörurnar" eða eitthvað álíka sem maður las í lestímum í íslensku.

Dag einn komu svo gamlir karlar með hvítt hár og gleraugu frá Gídeonfélaginu og gáfu Nýja testamentið.  Þeir sögðu eitthvað fallegt við okkur og báðu "guð að blessa okkur".  Amma mín bað líka "guð að blessa mig" á hverju kvöldi og mér fannst það alltaf notalegt.  Mamma biður iðulega "guð að vera með mér" og mér finnst það ennþá notalegt.

--- 

Kristin trú hefur fylgt íslensku samfélagi í meira en 1000 ár og er hluti af menningu þjóðarinnar.  Þó ekki væri nema af þeirri ástæðu finnst mér eðlilegt að íslensk börn læri eitthvað um kristna trú ... bara svona eins og börn læra réttlega Íslandssögu.  
Af hverju höldum við jólin hátíðleg ... af hverju er páskafrí í skólum?  Hvítasunnuhelgin og uppstigningardagur?

Taka ekki flest börn þessum frídögum fagnandi?  Af hverju má ekki halda tilurð þeirra til haga, bara eins og tilurð 1. maí? 

---

Ég segi það allavegana fyrir mína parta að ég myndi vilja sá marga aðra hluti lagfærða bæði í skólakerfinu sem og í samfélaginu í heild sinni áður en kemur að því að ræða hvort kristinfræðikennsla á rétt á sér eða ekki.  

---

Dóttirin hefur "alla" sína hunds- og kattartíð verið afar bókhneigð.  Hún á nú ekki lagt að sækja bókaáhugann ... afi hennar var nú ekki svo lítið gefinn fyrir bókina ...

Í kvöld tók hún ekki annað í mál en að fá að glugga í bókina um Dr. Valtý Guðmundsson eftir Jón Þ. Þór.  Sat drjúga stund og fletti spekingslega fram og aftur í bókinni, milli þess sem hún beygði sig fram, rýndi gaumgæfilega í textann og þuldi eitthvað óskiljanlegt um leið.

Hér er hún að kljást við ögn meira léttmeti, enda töluvert yngri  ...

 


Þriðjudagur 19. október 2010 - Að fara í bað

Það gerist nú lítið þessa dagana annað en vinna ... endalaus vinna ... sem er svo sem ágætt.

---

Og meðan ekkert markverðara gerist, þá er sjálfsagt að beina kastljósinu að dótturinni.  Hjá henni er alltaf eitthvað að gerast.

Nýjasta æðið er að fara í bað ... og þá kemur bleiki sloppurinn í góðar þarfir, svo enn sé nú minnst á þá ágætu flík.

Síðan vikan hófst, þ.e. frá 12 á miðnætti aðfararnótt sunnudags er blessað barnið búið að fara sex sinnum í bað.  Hvorki meira né minna.  Kvölds og morgna.  Ef hún fengi sjálf að ráða væri hún sennilega búin að fara svona fimmtán sinnum ...

... t.d. varð hún afarsorgmædd í kvöld, þegar ekki fékkst leyfi fyrir þriðju baðferðinni í dag ... það var harðneskjan holdi klædd sem hún mætti í það skiptið.

--- 

Þessar tíðu baðferðir koma samt ekkert sérlega á óvart enda er föðurfólk Guddunnar mikið baðfólk ... eða að minnsta kosti sumir ...

Alhörðustu ættingjarnir fara gjarnan í bað tvisvar á dag ... og þegar átt er við að fara í bað, er ekki verið að meina eitthvert sturtusull, heldur almennilegt heitt og gott bað ... og helst að einhverjum hollustuvökva sé bætt út í baðvatnið.

Sjálfur hef ég aldrei komist almennilega upp á lag með að "fara í sturtur" eins og Leifur frændi minn kallar það gjarnan.  Það er einhvern veginn ekki nægjanlegur fílingur í sturtuferðum ... það er einhvern veginn ekki almennileg athöfn.  Bara eitthvert gutl ...

Hugsanlega skýrist þessi afstaða mín af þeirri beinhörðu staðreynd að heima var engin sturta þegar ég ólst  upp ... þar var bara baðkar ... 

---

Hjá Guddunni er eitt brýnasta viðfangsefnið sem sinna þarf í baðinu, að drekka baðvatnið.  Skeytir hún engu um hvort sápa sé í baðinu og lætur öll viðvörunarorð sér í léttu rúmi liggja.

Yfirleitt eftir að baðvatninu hefur verið sporðrennt, lítur hún undurljúft í augu umráðamanns síns og gefur frá sér seiðandi "aaaahhhhhh" ... sennilega til merkis um það að þessi sopi hafi verið afar hressandi.

... þetta er eðlilegt?!? 


Mánudagur 18. október 2010 - Af baðsloppum og augum

Baðsloppsmyndirnar í síðustu færslu vöktu verðskuldaða athygli og umræðu ... óhætt að segja það ...

En hvaðan skyldi baðsloppurinn hafa komið?  Þetta myndband sýnir það svart á hvítu ...

Já, rétt er það ... baðsloppurinn var jólagjöf frá Toppu, Þóri og Snæfríði árið 2008.  Þetta var fyrsta jólagjöfin sem dóttirin "tók" upp á ævinni ... hvorki meira né minna.

---

Í dag er merkur dagur í sögu dótturinnar, því í dag er nákvæmlega eitt ár síðan hún hóf formlega skólagöngu og mætti galvösk í leikskólann.

 
Hér er mynd frá fyrsta skóladeginum ... 

Hún hélt upp á áfangann með því að vera veik heima en síðustu dagar hafa einkennst af augnsýkingu.  
Eftir dálítið slæman dag í gær, horfir allt til betri vegar nú ... enda er hjúkrunarliðið á bænum sérþjálfað í augnvandamálum ... hvorki meira né minna.


Sérfræðingurinn og sjúklingurinn þarna saman á mynd. 

---

"Jag kan inte" hljómar mikið þessa dagana, þegar hlutirnir vefjast fyrir þeirri stuttu ... blessað barnið er farið að bulla á sænsku ... og gerir engan greinarmun á íslensku og sænsku.

"Einn, tveir, tre, fyra, fem, sex, sjö, átta, níu, átta, tíu" er talnaröðin þegar best lætur.

Það er mun algengara að hún sé samt svona: "Einn, tvo, sex, sjö, átta, níu, átta". 

---

Undirbúningur fyrir Íslandsferðina hefur verið í fullum gangi ... búið er að skrifa fjóra fyrirlestra, þannig nú ætti ég að geta talað óhikað um umhverfissálfræði í eitthvað á fimmta klukkutíma.

---

Annars er andrúmsloftið hér á heimilinu rafmagnað.  Lauga er að vinna að einhverju verkefni fyrir skólann og er verkefnisskrattinn svo flókinn að það hálfa væri nóg.

Hún er því afar brúnaþung og þögul ... og í þau fáu skipti sem hún opnar munninn þá fer hún að blaðra eitthvað um ... mmmmmm ... cataract, bólgur, nethimnuaflösning, refraction, kúpta augasteina, hornfallareikning, sjónskekkju, púpillur, tárakirtla, hornhimnur o.s.frv.

... og ég segi bara "já" ... enda kannski lítið annað að segja ...  

 
Þetta er svona um það bil stemmningin ... takið eftir að margumræddur baðsloppur er á stólbakinu ... 

 


Laugardagsfærsla - 16. október 2010

Sirkusævintýrið heldur áfram hér í Uppsala ... þ.e. draumar um að fara í sirkus dúkka upp á hverjum morgni.

Hinsvegar stranda þeir alltaf á þeirri ísköldu staðreynd að það er enginn sirkus í Uppsala um þessar mundir. 

Þá er næstefst á óskalistanum nú á laugardagsmorgni að fara í bað ... og mun auðveldara að uppfylla það.

Reyndar tók baðferðin óvænta stefnu, þegar kom í ljós að faðirinn ætlaði að skreppa niður í þvottahús.  Rauk þá dóttirin upp úr baðinu, í bleika baðsloppinn sinn og í stígvél og heimtaði að fá að fara með.

Ekki var unnt að verða við þeirri ósk, þannig að hún fór bara í baðið aftur eftir nokkrar samningaviðræður.

--- 

Já, úr því minnst er á samningaviðræður.  Einn leikskólakennarinn sagði við mig um daginn að besta lausnin til að leysa helstu deilur heimsins væri sjálfsagt sú að senda nokkra leikskólakennara á staðinn ... einfaldlega vegna þess að þeir væru allan daginn að leysa deilur fólks á sama þroskastigi. 

Mikið til í því ... :)  

---

Rétt í þessu lauk baðferðinni.  "Gott í bað ... ókei" sagði sú stutta þegar hún kom upp úr.  

---

 
Hér eru sæljónin í sirkusnum sem er mikið rætt um ... sérstaklega það að þau hafi kysst húsbónda sinn ... það þykir sérlega merkilegt og skemmtilegt.


Í frábæru freyðibaði ...


Í bleika sloppnum ...

 
Í sama slopp í júlí 2009 ...


Þriðjudagur 12. október 2010 - Að gefa og fá falleinkunn

Dagurinn hófst með því að dóttirin sagðist ætla að fara í sirkus.  Ég spurði hana hvar hún ætlaði að finna sirkus svona í morgunsárið ... 

... það skipti engu máli ... það átti bara að fara í sirkus.

Þrátt fyrir beittan vilja og mikla sannfæringu, endaði dóttirin þó bara á leikskólalóðinni eins og venjulega á virkum dögum.

---

Í kvöld tók hún svo þátt í því að elda matinn ... 

... sem fólst í því að því að hræra egg ...

 

... og "skera niður" papriku.

 

Eftir að hafa "sneitt niður" paprikuna, bauð hún mér að fá bita af öllum sneiðunum, sem ég þáði.  Svo ætlaði hún að smakka sjálf á afraksri "eldamennsku" sinnar, þ.e. á niðursneiddu paprikunni.  Vildi þá ekki betur til en að henni fannst bragðið svo hræðilegt að hún frussaði paprikunni út úr sér og kúgaðist ...

Í kjölfarið þurrkaði hún leifarnar af paprikunni af tungunni með peysuerminni.  

Þar með var ljóst að "kokkurinn" hafði gefið sjálfum sér lægstu mögulegu einkunn fyrir "eldamennskuna".

---

Í kvöld mátti sjá Hollendinga kjöldraga Svía í leik í riðlakeppni EM 2012 ... 4 - 1.  Hörmulegur varnarleikur Svía var klárlega orsök tapsins ...

... þeir fengu þó ekki mark á sig á 3. mínútu eins og Íslendingar (fengu mark á sig reyndar á 4. mínutu ;) ).  Ég átti nú ekki von á öðru en landinn yrði kjöldreginn eftir þá byrjun en annað kom á daginn.

Annars held ég nú að allir fótboltaáhugamenn á Íslandi bíði bara eftir að strákarnir í U-21 taki við keflinu ... svona fyrir alvöru ... 

... það er vonandi að sem flestir þessara stráka festi sig í sessi hjá liðum í sterkustu deildum Evrópu því ef einhver von á að vera um árangur á þessum EM-um og HM-um þá þýðir náttúrulega ekki að vera með lið sem samanstendur meira og minna af leikmönnum sem leika í deildunum í Skandinavíu ... því það eru B eða C klassa deildir.

Að sjálfsögðu er þetta sagt með allri virðingu fyrir þeim mönnum sem spila í Skandinavíu og skipuðu landslið Íslands í kvöld.


Mánudagur 11. október 2010 - Að massa hlutina

Ekki varð 10. 10 2010 sá vendipunktur í ævi dóttur minnar sem ég var að gæla við í gær.

Guddan snerist upp í andhverfu gærdagsins í dag ... grenjaði og gólaði og lét öllum illum látum ... það er kannski bara eins gott ...

... "sígandi lukka er best" segir einhvers staðar ... 

Annars er það alveg merkilegt hvað hún lætur önnur börn vaða yfir sig.  Ótrúlegt að geta ekki lamið frá sér!  Þessi bjálfagangur hlýtur bara að vera úr móðurinni ... :)

Í dag þegar ég sótti hana í leikskólann var hún að djöflast í sippubandi sem var bundið við einhvern kofa.  Þá kemur aðvífandi einhver gutti, höfðinu lægri, örugglega árinu yngri og aumur eftir því og tekur bara af henni bandið.

Það var ekkert verið að þrífa af drengstautanum bandið, segja honum "að drullast til að láta bandið friði og hypja sig burtu" ... og hrinda honum svo frá.

Nei, nei ... það var bara farið að grenja ... 

---

Á heimleiðinni var farið rækilega yfir það hvernig beri að tækla svona aðstæður ...

--- 

Búinn að vera að vinna að greininni sem átti að vera löngu komin út en hefur tafist óheyrilega af ýmsum völdum.

Þetta er sum sé vísindagreinin sem er upp úr gögnunum sem ég safnaði í fyrra.  Hún fer úr húsi á næstu vikum.

Þá tekur við að skrifa næstu grein sem á að fara út úr húsi fyrir lok ársins.

---

Leiðbeinandi minn hér í Svíþjóð sem er nú hvorki meira né minna en helsta nafnið í umhverfissálfræðibransanum í heiminum var að skrifa skýrslu til Háskólans í Sydney um frammistöðu mína í náminu og er hluti hennar eitthvað á þessa leið í lauslegri þýðingu:

"Það er aðdáunarvert hversu sjálfbjarga Páll er.  Hann hefur sýnt geysilegt frumkvæði með því að koma fram með fræðilegar nálganir, greinandi aðferðir og tæknilegar útfærslur og tengja þær rannsóknarverkefni sínu.  Það hefur verið sérlega ánægjulegt að vinna með honum."

Þetta er það sem ég er alltaf að segja ... :)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband