Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Tengsl mín við suðupunkt heimspressunnar

Það verður að segjast eins og er ... það hefur ekkert gerst í dag ... bókstaflega ekkert, fyrir utan það ég er búinn að sitja með sveittan skallann og skrifa fyrirlesturinn sem Dr. Marni Barnes mun flytja í Mexíkó eftir nákvæmlega einn mánuð.

En eitt uppgötvaði ég þó í dag þegar ég las fréttirnar, en það var sú staðreynd að Herra Fritzl, sá sami og læsti dóttur sína niðri í kjallara í 24 ár, eins og frægt er orðið, er "nágranni" Antons Steingrubers.  Fyrir þá sem ekkert skilja núna, þá skal þess getið að Anton Steingruber er austurrískur söngvari og söngkennari, sem bauð mér og Laugu að dvelja hjá sér í 4 vikur haustið 2006.

Já ... og svona til að halda áfram með þetta ... þá eru Anton og Herra Fritzl "nágrannar" ... Anton býr í Kröllendorf og Herra Frizl í Amstetten, og það eru aðeins 10 km á milli þessara tveggja bæja.

Punkturinn hjá mér er því sá, að fyrir 1,5 ári síðan, var ég sjálfur á þeim stað, sem kastljós heimspressunnar beinist núna að ... og ég verð að viðurkenna að seint hefði mér dottið í hug að eitthvað þessu líkt væri að eiga sér stað þarna. 
Í mínum huga er Kröllendorf, Amstetten, Waidhofen og allt umhverfið þarna í kringum ána Ybbs, eitthvert það dásamlegasta í veröldinni ... algjör Paradís ...

Læt fylgja með tvær myndir frá dvöl okkar í Austurríki ... 

En svona til að nefna eitthvað fleira, þá hittum við Lauga, Fjólu og félaga í gær ... tilefnið var reyndar að kveðja systur hans James (um er að ræða sama James og á Bjölluna góðu), en í dag hélt hún heim á leið til Englands, eftir nokkurra vikna dvöl hér í Ástralíu.
Við hittum hópinn niður á Circular Quay, sem er í næsta nágrenni við hið fræga óperuhús.  Úr því svo bar undir, ákvað ég að taka eina góða mynd af Laugu óléttu, með þetta mikla mannvirki í baksýn.

Og til upplýsingar ... hitastigið hér hefur verið að hækka ... er 17°C núna.  Lesendur geta því farið að anda léttar fyrir mína hönd ...


11°C og matarboð

Nú þykir mér týra á skarinu ... hitinn í Sydney í þessum orðum skrifuðum er aðeins 11°C ... segi og skrifa það ellefu gráður á Celsíus ...

... hann hefur ekki verið svona lágur síðan við komum hingað fyrir um réttu ári ...

... lesendur síðunnar, fyllast nú kannski ekki mikilli samúð yfir þessum fréttum, en í sannleika sagt jafngilda 11°C hér -10°C á Íslandi. Svoleiðis er það nú bara.

Læt það fljóta með að enn ein ráðstefnan samþykkti skrif mín og óskar eftir kröftum mínum og visku. Sú sem um ræðir nú er félagsvísindaráðstefna sem haldin verður í Prato, sem er bær í Toskana-héraðinu á Ítalíu.  Ekki fjarri Flórens.

Við fórum í matarboð til Fjólu og Neils í gær ... fengum alveg frábært roastbeef og alls kyns meðlæti.  Rich og Jon voru líka.

Rich og Jon skutluðu okkur svo heim eftir matarboðið í einum frábærasta bíl sem ég hef nokkurn tímann setið í ... blæjubíl af gerðinni Volkswagen bjalla, árgerð 1971.  Eigandi hans er James, meðleigjandi Rich og Jon, sem er þessa dagana norður í Cairns.
En hér er mynd af Bjöllunni og eigandanum, sem tekin var í nóvember síðastliðnum ... 

Læt þetta duga héðan frá Sydney í bili ...


Leikur gegn Hurstville

Loksins birti upp hér í Sydney ... já, sólin skein sínu skærasta í dag ... og þvílíkur munur.

Ég vaknaði kl. 7 í morgun, hitaði hafragraut handa mér og Laugu og gerði mig kláran fyrir leik dagsins, sem var gegn Hurstville City Minotaurs SC á Rockdale Ilinden Sports Centre.
Upp úr klukkan 8 snaraðist ég á fákinn og hélt til Rockdale, sem er í suðurhluta Sydney, mjög nærri Kingsford flugvellinum, sem er alþjóðaflugvöllurinn hér í borg.

Strákarnir í Gladesville Ryde Magic voru að tínast í hús, þegar mig bar að garði.  Og eftir að stutta stund í búningsklefanum, var haldið út á völl til að hita upp.
Kanadíski þjálfarinn hefur sett saman mjög massífa "rútínu" varðandi hvernig hann vill að sé hitað upp ... og er mitt hlutverk að hita upp markmanninn.  Nauðsynlegt verk, en ekki óskahlutverk mitt ... svo mikið er víst.

"Það verður að gera fleira en gott þykir", sagði Maggi í Steinnesi við mig fyrir um tveimur áratugum.  Og þessi fleygu orð rifja ég upp oft þegar ég geri eitthvað sem mér finnst ekki alveg nógu skemmtilegt, en upphaflega féllu þau eftir að ég tilkynnti Magga að það væri ógeðslega leiðinlegt að vera úti í mígandi rigningu, rennandi blautur að týna saman tóma áburðarpoka.

"Það verður að gera fleira en gott þykir", hugsaði ég því þegar ég þrumaði tuðrunni í áttina að markmanninum.

Leikurinn var alveg þokkalegur.  Nokkurt jafnræði var með liðunum í upphafi en á 12. mínútu, komust við yfir, þegar Danny nokkur Beauchamp skoraði með glæsilegu skoti, eftir að hafa leikið á einn varnarmanna Hurstville.
Leikmönnum Hurstville færðist kapp í kinn eftir markið og sóttu þeir nokkuð stíft það sem eftir lifði hálfleiksins, en án árangurs, enda vörnin okkar með þá Tommy og Kai í broddi fylkingar, firnasterk.

Staðan í hálfleik var því 1 - 0 okkur í vil.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri endaði.  Baráttu og aftur baráttu, og Hurstville í við hættulegri.  Við áttum samt nokkur góð tækifæri, sem öll fóru í súginn, ... allt þar til á 49. mínútu þegar vörn Hurstville lét undan í annað sinn.  Í það sinnið, slapp rakettan Michael Calvert inn fyrir og renndi boltanum í netið.
Hurstville lét síður en svo árar í bát, og sótti liðið án afláts þær 10 mínútur sem eftir lifðu leiks (já, rétt er að geta þess að í Ástralíu leikur þessi aldursflokkur aðeins 2 x 30 mínútur).  Vörnin varðist vel en á síðustu sekúndum leiksins skoraði Hurstville.  Miðja var tekin og leikurinn flautaður af.

En góður 2 - 1 sigur staðreynd!

U-14 lið Gladesville Ryde Magic getur vel unað, því eftir fjóra leiki er liðið með fullt hús stiga eða 12 stig, aðeins einu stigi á eftir liði Blacktown Spartans, sem leikið hefur fimm leiki.  Samkvæmt stigatöflunni eru þessi tvö lið í nokkrum sérflokki, því Springwood sem er í þriðja sæti, hefur aðeins 6 stig eftir fjóra leiki.  Áhugasamir geta kynnt sér töfluna hér (muna bara að velja U/14 Division 1 Youth League í glugganum fyrir ofan töfluna).

Eftir leik hjólaði ég svo heim og fékk mér að borða með Laugu.  Við spjölluðum saman dágóða stund og svo tók við ritun leikskýrslu og ...

... það er langt frá létt verk og löðurmannlegt fyrir mig ...

... hvernig í fjáranum skrifar maður um fótboltaleik á ensku, þannig að eitthvert vit sé í því?  Maður hefur ekkert vald á enskri tungu til að gefa skrautlegar og/eða hnitmiðaðar lýsingar ...

Hvernig snarar maður til dæmis eftirfarandi frasa ættuðum frá Samúel Erni, yfir á ensku: "Þeir Hurstville-menn bitu í skjaldarrendur og harðneituðu að gefast upp ... augljóst var að þeim hafði hlaupið kapp í kinn"?  

Það tekur mann marga klukkutíma að snúa þessu yfir á ensku svo sómi sé að ...  

Áhugasamir geta þó séð árangurinn dagsins hjá mér hérna.

Seinni partinn skruppum við Lauga svo í góðan göngutúr, gengum yfir í Moore Park, þaðan niður á Oxford Street og þaðan upp að Centennial Park.  Svo lá leiðin í gegnum Fox Studios, aftur niður í Moore Park og við enduðum á Koko´s Delicious Pizza, sem stendur á horni Fitzroy og Bourke Street.  Þar pöntuðum við okkur pizzu og tókum hana með okkur heim.

Eftir pizzuátið datt mér það snjallræði að hringja í Huldu systur og við spjölluðum saman eitthvað vel á annan klukkutíma ... þökk sé Skype.
Að spjallinu loknum, útnefndi Lauga mig "mestu skrafskjóðu í heimi"!! 

"Það er alveg merkilegt hvað þú getur talað mikið" voru hennar síðustu orð áður en hún hvarf á vit ævintýranna í draumaheiminum.

Og það er satt ... að er alveg ótrúlegt hvað ég get malað mikið stundum!!!


Sumardagurinn fyrsti

Múrenan óskar lesendum sínum til sjávar og sveita gleðilegs sumars og vonar að Guð og lukkan fylgi þeim í hvívetna.


Tækni og vísindi

Í morgun þegar ég skaust á reiðskjótanum mínum í skólann og komst þurr í hús nokkrum mínútum síðar, taldi ég mig alveg stálheppinn. 
Ástæðan er einföld ... hér í Sydney hefur rignt nánast sleitulaust í hálfan mánuð ... og það er met!

Það fyrsta í morgun var fundur með Terry ... sem hafði líkt og áður beðið spenntur síðan við hittumst síðast, að heyra um framgang rannsóknarinnar.  „Því miður hefur lítið áunnist í rannsókninni siðustu daga því ég hef verið á kafi í að skrifa fyrirlesturinn fyrir EDRA-ráðstefnuna og bókarkaflann", sagði ég áður en ég náði að setjast.
En það skipti Terry engu máli.  Hann vék bara að næsta máli sem var að ræða við mig um Post Occupation Evaluation (POE), sem mætti kalla „eftirámat" á íslensku, en ég hafði spurt hann um slíkt í síðustu viku.  Þá sagðist hann ætla að hugsa aðeins ... og nú kom afraksturinn, sem var mjög gagnlegur.
Ég er nefnilega að spá í verkefni á Íslandi, sem felur það í sér að eftirámeta dvalarheimili fyrir aldraða.  Þetta gæti orðið mjög spennandi verkefni, en er bara á byrjunarstigi, þannig að lítið er hægt að segja um það að svo stöddu.

Að fundi loknum, tók ég til við að lesa greinar.  Að þessu sinni beindist athyglin að sýndarveruleika og svokölluðu „game engine", en það er uppistaðan í vinsælum tölvuleikjum, eins og CounterStrike, HalfLife, Unreal, Quake Arena og fleiri leikjum.  Ég verð að viðurkenna að ég kann nú ekki alveg að útskýra hvað „game engine", en það sem ég veit, er að það hefur verið notað í rannsóknum, til að skapa sýndarveruleika.
Hugmynd mín er nefnilega að skapa þrívítt tölvuteiknað borgarumhverfi, þar sem ég get látið þátttakendur rannsóknarinnar minnar ferðast um.  Kosturinn við að nota tölvur til að skapa umhverfið, frekar en að fara bara með fólk niður í bæ, er að ég get stjórnað öllum breytum sem skipta máli.  Þannig get ég stjórnað hæð húsa, fjölbreytileika þeirra, hávaða, umferð, veðri o.s.frv.  Og fyrir rannsókn, líka þeirri sem ég stefni á að gera, er slíkt mjög mikilvægt, því það eykur innra réttmæti.  Sé innra réttmæti hátt er auðveldara að segja fyrir um orsakasamband, með öðrum orðum, hvað veldur hverju. 

Eftir hádegið skrapp ég á fyrirlestur hjá Crightoni, félaga mínum.  Hans doktorsverkefni er mjög áhugavert og fjallar um hvernig vestræn tækni getur hjálpað frumbyggjum Ástralíu.

Eins og margir vita, hafa frumbyggjar Ástralíu verið olnbogabörn í eigin landi, síðan Evrópubúar réðust hér inn í lok 18. aldar og samfélagleg vandamál hafa hrannast upp.
Crighton hefur í hyggju að leggja lóð á vogarskálarnar til að breyta þessu. 
Og það fallega í verkefninu hans er að hann ætlar ekki að segja frumbyggjunum hvað þeir eiga að gera og hvernig.  Þess í stað ætlar hann að spyrja fólkið hvað það vilji og hvernig.

Hann tók sem dæmi að ástralska stjórnin hefur ákveðið að verja $10.000.000.000 (tíu milljörðum dollara eða um 700 milljörðum ÍSK) i að byggja upp internet-kerfi í dreifbýli.  Og á það að vera liður í því að auka velmegun meðal frumbyggja.  Málið er hins vegar að íbúðarhúsnæði þessa fólks er í mörgum tilfellum í afar bágbornu ásigkomulagi og samkvæmt einhverri úttekt sem gerð hefur verið þarf um $1,6 milljarð til að bæta úr því.

„Væri ekki nær að eyða $1,6 milljörðum í að gera við húsin og eyða svo restinni i internet-kerfi?", spurði Crighton viðstadda. 

Svarið er auðljóst!!

En af einhverri ástæðu er svarið ekki jafnaugljóst ráðamönnum ...

... og þetta er ekki eina dæmið í veröldinni!!! Verkefnið mitt snýst að mörgu leyti um sömu grundvallarsjónarmið ... en þau eru, að spyrja fólkið hvað það vilji og hvernig í stað þess að segja því hvað það þarf og hvernig!

Eftir þennan áhugaverða fyrirlestur hélt lestur vísindagreina áfram og stóð yfir allt til klukkan 7.  Þá hélt ég heim á leið.

Meiningin var svo að hitta James, Fjólu, Neil og félaga í kvöld, en líkt og áður höfðum við Lauga um svo margt að tala að við steingleymdum tímanum.  Klukkan 9 rumskuðum við ... en það var dálítið seint í rassinn gripið.

Kvöldið leið því við lestur bókar ... en þessa dagana er ég að lesa bók um stofnanda flugfélagsins Ryanair, en sá heitir Tony Ryan ... og kallar ekki allt ömmu sína ... svo mikið er víst!


Rannsókn hefst ...

Þessi dagur leið svo hratt að mér fannst ég varla vera risinn upp af koddanum, þegar ég þurfti að leggjast á hann aftur ... þetta er alveg merkilegt, hvað tíminn líður hratt ...

En þessi hraði á svo sem ekki bara við daginn í dag, heldur alla daga ...

Fyrir nokkrum vikum hafði ég til dæmis, skrifað í dagbókina mína eftirfarandi texta: "Rannsókn hefst". Í dag áttaði ég mig á því að þessi texti stóð undir dagsetningunni 22. apríl 2008 ... þannig að rannsóknin mín hefði átt að hefjast í dag ... 

... en hún gerði það ekki ...

Þess í stað hófst ég handa við að skrifa fyrirlesturinn sem Dr. Marni Barnes ætlar að flytja fyrir mig í Veracruz í Mexíkó þann 30. maí nk.  Einnig hélt ég áfram með bókarkaflann sem er í vinnslu.

Ég vona samt að ég geti hafist handa með rannsóknina fljótlega ... maður er orðinn spenntur að fara að gera eitthvað.

Svo birtist mér dásamlegur hlutur í morgun, þegar ég ætlaði að grípa Shogun Trail Breaker reiðhjólið mitt.  Aftur sprungið dekk.  Í þetta sinnið framdekkið.
Sem fyrr,  kom andhverfu-ofsóknarbrjálæðið sterkt inn ... ég yppti bara öxlum, skilaði hjálminum mínum inn og rölti niður í skóla.  Það var góður göngutúr!!
Þegar þetta er skrifað stendur viðgerð yfir ... og ætti fákurinn að komast á göturnar á nýjan leik á morgun.

Í kvöld settum við Lauga svo myndir í ramma.  Já, við vorum að útbúa veggskraut hjá okkur ... ummm ... þetta voru myndir úr ljósmyndasafni okkar, sem ég prentaði í forláta laserlitaprentara og verður geysilegt augnayndi að horfa á þær á veggnum, geri ég ráð fyrir. 
Gæðin eru nokkuð góð á myndum hvað útprentun áhrærir, en frábær ef horft er til listræns innsæis við töku þeirra. 

Annars verður að segjast eins og er, að þó þessi dagur hafi liðið hratt, var fremur tíðindalaus ... en góður var hann ... ójá!!!


Meiri teppi og fermingarafmæli

Teppamál voru ofarlega á baugi hjá okkur Laugu í dag.  Eftir að hafa hreinsað teppið á íbúðinni vel og vandlega í gær, var kominn tími til frekari aðgerða í dag.

Við skruppum til Rhodes, nánar tiltekið í IKEA, og keyptum okkur þar ódýrt teppi.  Gripum einnig með nýjar gardínur fyrir stofugluggann.
Ég verð að viðurkenna  að gardínurnar sem leigusalar okkar útveguðu okkur í fyrra, voru farnar að leggjast dálítið á sálina á mér, sökum ljótleika.  Um er ræða röndóttar gardínur, sem minna helst á skinn af tígrísdýri, og svona til að lífga upp á allt saman datt hönnuðinum í hug að setja nokkra  bleika tígla. 
Ofan á það voru komin göt á gardínurnar, sem skýrast sennilega af því að sólin er búin að skína á þær meira og minna í 30 ár ... held ég.

Núna er stofan sumsé orðin hvít.  Hvítt teppi og hvítar gardínur.  Að ganga inn í stofuna er kannski ekki svo ólíkt því, sem maður ímyndar sér, að ganga inn í himnaríki.  En ég get þó ekki fullyrt um það, því ég man ekki hvernig himnaríki leit út síðast þegar ég fór þar um, það er að segja ef ég hef farið þar um.

Á morgun verður málið klárað, farið aftur í IKEA og tvö teppi keypt til viðbótar.

Í dag á ég 21 árs fermingarafmæli ... já, já ... dagurinn mikli var þann 20. apríl 1987.  En þann dag blótaði ég upp við altarið í Hallgrímskirkju, þegar að oblátan sogaðist föst upp í góminn.  Eftir að hafa viðhaft slíkan munnsöfnuð við fótskör almættisins, taldi ég öruggt að leið mín lægi þráðbeint til helvítis að þessu jarðlífi loknu.  Eins og sönnu fermingarbarni sæmir, brást ég við með áköfu bænahaldi og afsökunum á gjörðum mínum ... og ég vona að það hafi verið tekið gilt!!

Þess má svo einnig geta, að Stebbi bróðir á, í dag, 27 ára fermingarafmæli.  Persónulega man ég lítið eftir því, nema athöfnin fór fram í Háteigskirkju og prestur var séra Tómas Sveinsson. 
Hins vegar man ég það að núverandi blómasala á Akureyri leiddist fermingarundirbúningurinn afskaplega mikið.  Bókin "Líf með Jesú" fékk ekki mikla lesningu, enda sagðist fermingarbarnið vera að gera þetta meira fyrir ömmu, en amma var ákafur hvatamaður þess að ungir drengir gengju á guðs vegum.

Svona var það nú ... 


Doktor, teppi, afmæli

Þessa dags 19. apríl 2008 verður sérstaklega minnst fyrir þrennt ...

Þetta er dagurinn sem ég gat óskað Halldóri vini mínum til hamingju með útskriftina.  Hann lauk í gær doktorsprófi frá Háskóla Íslands, en tók ekki við símatali frá Ástralíu þann daginn, heldur beið með það þar til í dag.  
En hvað sem því líður, þá getur hann með réttu kallast Dr. Dóri og það er ekki lítill áfangi.

Ég sendi honum hér með opinberlegar hamingjuóskir með árangurinn: Til hamingju, Dr. Dóri!!

Í dag voru ermarnar líka brettar upp heima fyrir, því við Lauga röltuðum út í Coles og leigðum þar teppahreinsivél, alveg eldhressa.
Við vörðum stórum hluta dagsins í að hreinsa teppin í íbúðinni, og það verður að segjast eins og er að ekki var nú vanþörf á því.  Sjaldan hefur maður séð jafn grútskítugt vatn og það sem safnast fyrir í affallstanki vélarinnar.
Og það sem betra var ... árangurinn var eins og í auglýsingunum, sem auglýsa hreinsiefni og þvottalög.  Maður renndi bara eina ferð yfir og dökkbrúni liturinn varð ljósbrúnn ... hreint ótrúlegt!

Við höldum að loftið í íbúðinni sé líka allt annað en áður, en getum ekki verið alveg viss, því við erum bæði með stíflaðar nasir, ... svona létta útgáfu af kvefi ... sennilega það besta sem hefði mögulega getað hent okkur, geri ég ráð fyrir.  Í það minnsta minnir það mann á hversu ánægður maður getur verið að vera ekki alltaf með stíflaðar nasir!

Í þriðja lagi fórum við í afmælisveislu til James, vinar okkar í kvöld.  Það var þrítugsafmæli hjá honum og sæmilega margt um manninn ... í það minnsta var góðmennt hjá honum.
Við vorum alltént mjög ánægð með veisluna.

Mig langar til að velta einni spurningu upp í lokin ... og hún er svona:
Ef maður er kona og heitir Leilei og er gift manni sem heitir Lei, er það þá hrein snilld að skíra barnið sitt Leih eða ber það vott um óendanlega gelt ímyndunarafl?


Knattspyrnuakademían

Í dag var fyrri starfsdagur Knattspyrnuakademíu P&G.

Allt hófst þetta samt á fundi niðri í skóla með Terry Purcell aðstoðarleiðbeinanda mínum kl. 9 í morgun.  Terry var hress að vanda og ótrúlega áhugasamur um verkefnið mitt.  Sagðist hafa beðið spenntur í viku að vita hvað hefði gerst því.  Því miður hafði ég lítið að segja honum, enda hefur tíminn farið að mestu leyti í að gera eitthvað allt annað en að fókusera á doktorsverkefnið mitt.  Á næstu dögum verður þó bætt úr því.

En strax og fundi okkar lauk, yfirgaf ég Wilkinson-bygginguna og hélt áleiðis til Stanmore að ná í hjólið mitt, sem var í viðgerð þar, eða öllu heldur í stillingu þar.  Og þvílíkur munur að hjóla á því núna ... gírarnir hættir að "skralla" og hættir að hoppa á milli, sem allir hjólreiðamenn hljóta að vera sammála um að er gjörsamlega óþolandi!

Á hjólinu fór ég heim til Garys, en það er nafn þjálfarans, og þaðan héldum við til Lofberg Oval í West Pymble, sem er í norðurhluta Sydney. Upp úr klukkan 12 birtust 16 strákar tilbúnir í slaginn, þar af 8 stykki úr U-14 liði Gladesville Ryde Magic.  Þar að auki kannaðist ég við tvo, sem reyndu fyrir sér á svokölluðum úrtökudögum í síðastliðnum nóvember, en voru ekki valdir í liðið.

Gary hafði sett upp meginhluta prógramsins en ég hafði úthugsað nokkrar tækniæfingar sem gott var að hafa í handraðanum.
Dagskráin byrjaði á langhlaupi, en í kjölfarið komu stökkæfingar og sprettir.  Ég verð að viðurkenna að mér fannst það dálítið einkennileg byrjun á fjögurra klukkutíma æfingu, en ok ...

Eftir það hófust tækniæfingar ... ég fékk þann hóp sem var betur á sig kominn tæknilega ... með öðrum orðum boltameðferð þeirra var betri en hinna.
Það verður nú samt að segjast að hún var ekkert sérstaklega góð ... flestir illilega einfættir, og vildu helst ekki nota hinn fótinn til annars en að standa í hann.  En slíkt er ekki álitið sterkt fyrir fótboltamenn.
Undirtektirnar voru nú ekkert framúrskarandi, þegar ég hóf að sýna þeim listir mínar og biðja þá um að endurtaka þær.  Stinga boltann og taka við honum innanfótar eða utanfótar með hinum fætinum ... þessar einföldu æfingr, sem nota bene eru æfingar nr. 1 og 2 í bók Wiel Coervers "Knattspyrnuskóli KSÍ", féllu ekki í kramið, enda fullyrði ég að varla nokkur þeirra gat gert þær með sannfærandi hætti.  Samt eru þetta grundvallar "moves" í fótbolta.

"Af hverju þurfum við að vera að þessu?  Þetta er "boring"", voru kommentin sem ég fékk í hausinn.  Ég verð að viðurkenna að ég var steinhissa, því þegar ég var 14 ára, fannst mér rosaskemmtilegt að vera úti í garði að æfa þessi "move".
Ég hef sjálfsagt verið svo gáfað barn, en í huga mér lék aldrei vafi á hvers vegna gera þyrfti þessar æfingar ... að sjálfsögðu til að verða besti fótboltamaður í heimi!!

Svo voru æfðar sendingar og loks endað á leik.  Nokkuð "straight forward" prógram í dag.

Ég verð samt að segja að ég er undrandi á "energy levelinu" hjá drengjunum ... en í mörgum tilfellum var það mjög lágt! Það var nærri því eins og þeir væru sofandi eða að sofna ... ég bara skil þetta ekki!!  Til hvers að vera í fótbolta og veltast um eins og draugur!!

Heim kom ég um sex-leytið og gaf ég Laugu þá langa og ítarlega skýrslu af því sem gerst hafði ...

Við enduðum svo að rölta út á Erciyes Kebab House og fengum léttan kvöldverð ...

Jáhá, svona leið nú þessi dagurinn!


Textagerð

Í morgun áttum við Lauga skemmtilegt samtal einu sinni sem oftar ... og í þetta sinnið barst talið að textagerð og lagasmíðum.  Tókum við til að rifja upp hvaða afrek við hefðum unnið á því sviðinu allt fram á þennan dag.  Lauga gat nú bara nefnt, held ég, einn texta sem hún samdi og er hann að mínum dómi ákaflega einfaldur og innihaldslaus ...

Hann er svona:

Ég sagði nei, nei, nei, nei, nei nei ... (og nei-ið endurtekið 100 sinnum eða svo)

Mín afrek eru miklu betri.  Eftirfarandi er texti við lag sem hljómsveitin Mini-KISS flutti á fyrri hluta 9. áratugar síðustu aldar.  Lagið var hljóðritað í herberginu mínu á Bergstaðastrætinu.  Kristján vinur minn söng og ég lék á trommur.  Því miður hefur hljóðritunin glatast en textinn mun lifa um ókomna framtíð!!

Leikurinn
(Kristján Magnússon / Páll Jakob Líndal) 

Ég vildi að ég væri orðinn Karate Kid,
þá mun ég segja, segja hid.
Þessi leikur er frá Liverpool,
Liverpool og Manchester United keppa frúm.
Liverpool er með boltann hér,
gefur á Ken Dalgish sem skorar á mínútunni,
hann má ekki gefa frá sér.
Hann segir: "Eitt, núll"
og skorar vúll!!
Það var "skeytin inn" ég trúði því varla svo skjótt.
Ég horfði á leikinn og spilaði mig svo fljótt
Ég ætlaði að skjóta "skeytina inn".
En þá kom litli, ljóti, myglaði sonurinn minn.
"Svaraðu já, segðu nú nei,
ég fel ekki grasið og segðu svo hey"!!
Ég vissi ekki fyrr en ég var að vinna keppnina með mér ... hey!!

Úúúvvaaaaa ... ef ég væri Pamela í Dallas!!!

Síðasta línan var ekki hluti af upphaflegum texta, og viðurkenndi Kristján eftir að hljóðritun hafði átt sér stað, að hann hefði bara ekki vitað hvað hann átti að segja meira og því hefði hann bætt þessu við, meira svona vegna óöryggis en listræns innsæis. 
Ég verð samt að segja að raddlega séð, var síðasta línan besta frammistaða Kristjáns í laginu.  Hún var gjörsamlega frábær!!

Í Steinnesi, á svipuðu tímabili og við Kristján héldum úti hljómsveitinni Mini-KISS, rak annan snjallan texta- og lagahöfund á fjörur mínar.  Hét sá og heitir enn Arnar Freyr Vilmundarson. 

Við sömdum saman tvær ódauðlegar perlur.  Önnur þeirra hefur beina vísun í vinnu sem við Arnar stunduðum á þeim tíma, sem var að horfa löngum stundum á heyblásara, matara og færiband vinna vinnuna sína við að koma heyi úr heyvagni og inn í hlöðu. 
Ef verið var að taka saman vothey, var maurasýra (myresyre) blönduð saman við heyið, en slíkt er nauðsynlegur liður í votheysverkun.  En vegna þess hversu hættuleg maurasýra en ákvað Magnús bóndi eitt sinn, að breyta til að nota þess í stað hvítt duft, sem bar heitið "Kofasalt".  Þess má geta að "Kofasaltið" átti eftir að verða bylting í starfi okkar Arnars. 
Eftirfarandi texti fjallar um þetta allt saman.

Myresyre
(Arnar Freyr Vilmundarson / Páll Jakob Líndal)

Myresyre, myresyre, kofasalt, kofasalt
myresyre, myresyre, kofasalt, kofasalt
  

Annar texti kom líka til okkar, og var sá byggður á sívinsælli sögu um Rómverska riddarann og er eftirfarandi:

Rómverskur riddari
(Arnar Freyr Vilmundarson / Páll Jakob Líndal)

Rómverskur riddari réðst inn í Rómaborg
rændi þar og ruplaði rúbínum og risagimsteinum.
Rigning var og rosa rok.
Reiður rýtinginn hann reif af risavöxnum róna
sem ræktað hafði rófur, rabbabara og rúsínur!!
Hvað eru mörg R í því?

Bæði lögin voru mjög rokkuð og undirleikur var á smurolíutunnur og hlöðudyr (reyndar var hætt að nota hlöðudyrnar til undirleiks, eftir að við vorum eitt sinn spurðir, hvað hefði eiginlega komið fyrir dyrnar ... en það sást "aðeins" á þeim eftir flutning laganna).  Upptökur fóru því miður aldrei fram á þessum góðu lögum.

Nokkrum mánuðum síðar, á Seltjarnarnesinu, nánar tiltekið heima hjá Arnari, fæddist þetta textabrot ... því miður man ég ekki meira af því.  Upptaka fór fram á þessum texta, en hefur hún nú glatast, geri ég ráð fyrir.

Algjör
(Arnar Freyr Vilmundarson / Páll Jakob Líndal) 

(texta vantar) ...
Algjör byrja, algjör byrja,
algjör, algjör kaktus ...
Pabbi minn er algjör feitur flóðhestur!!

Einn góður texti var líka samin í samvinnu við Palla frænda minn.  Sá texti var tileinkaður playmói, leikföngum sem við elskuðum.

Playmóbíl
(Páll Eiríksson / Páll Jakob Líndal) 

Ég leik með playmóbíl,
ég elska playmóbíl.
O je!!

Síðast en ekki síst ber að nefna mjög vandaðan texta sem við bræður, ég og Stebbi, sömdum saman uppi í rúminu hennar ömmu, um svipað leyti og frægðarsól Bjartmars Guðlaugssonar skein sem skærast og hver smellurinn rak annan.  Texti okkar bræðra var við hið sívinsæla lag "Súrmjólk í hádeginu, Cheerios á kvöldin".  Hafði textinn beina skírskotun í heimilislífið á Bergstaðastrætinu og var hann eftirfarandi:

Viský og ákavíti
(Stefán Jón Jeppesen / Páll Jakob Líndal)

Viský í hádeginu, ákavíti á kvöldin,
Palli drekkur þetta allt saman af stút.
Viský í hádeginu, ákavíti á kvöldin,
Mamma er orðin hundleið á þessum drykkjurút!!

Þegar við fluttum svo lag og texta fyrir ömmu, varð hún í stuttu máli, ekki hrifin, bað okkur að láta ekki nokkurn mann heyra þetta og bað Guð almáttugan að varðveita okkur.  Þrátt fyrir að vilja allt fyrir ömmu okkar gera, skelltum við skollaeyrum við þessari bón hennar og enn í dag, lifir textinn góðu lífi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband