Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Sunnudagur 31. janúar 2010 - Janúaruppgjör

Jæja, þá er þjóðin búin að fá brons ... góður árangur það ...

---

Í dag hef ég hef beint sjónum mínum að sýndarveruleikanum, sem ég er að vinna að ... gengur svona alveg ágætlega að koma því verkefni áfram en óhætt er að segja að betur megi ef duga skal.  En allt mjakast þetta þó í rétta átt.

---

***********************************
25. dagur í líkamsrækt árið 2010

Hlaupnir 4.3 km í morgun og 90 mín fótbolti í kvöld

Iljar og hásinar eru ekki að gera sig þessa dagana.  Sennilega afleiðing af of mikilli kókdrykkju.

Skreppa í ræktina á morgun - fara í einhvern aerobic-tíma
********************************** 

Annars ætla ég að taka saman líkamsræktina mína þennan mánuðinn.

Törnin hófst þann 7. janúar, þannig að um er að ræða 25 daga og niðurstaðan er þessi:

- Hlaupnir 30 km í 9 hollum.
- Farið í ræktina 5 sinnum.
- Fótbolti 4 sinnum eða í 5 klst og 40 mínútur.
- Taekwondo 3 sinnum eða í 5 klst og 30 mínútur.
- Hjólreiðar í 3 klst.
- Frídagar 5 dagar.

Nú er þessi líkamsrækt komin á gott skrið.  Næsta mál að taka fyrir en þessi blessaða kókneysla sem er alveg að drepa mig, eða í það minnsta stendur hún mér alvarlega fyrir þrifum varðandi hreyfinguna.  Til dæmis í dag voru verkir í iljum og hásinum gjörsamlega að gera útaf við mig bæði á hlaupunum og í fótboltanum, og eins og ég hef áður sagt á þessari bloggsíðu eru tengsl milli þessara verkja og kókneyslu ... svo undarlegt sem það kann nú að hljóma.

Aðeins verður drukkið kók einu sinni í viku. 
Í einhverju brillaríi í gær, ákvað ég að kaupa sex dósir af kók ... fjórar af þeim standa óhreyfðar í ísskápnum ... og verða ekki drukknar fyrr en í fyrsta lagi á föstudaginn næstkomandi.


Laugardagur 30. janúar 2010

Afar rólegur dagur í dag ...

... hafði mig þó í að horfa á leikinn, eins og meirihluti íslensku þjóðarinnar hefur eflaust gert.

Í kvöld fórum við svo í Gränby Centrum, skruppum á kaffihús, keyptum nýja hlaupaskó á mig og keyptum slatta í matinn ...

---

Síðustu vikur hef ég verið að vinna með sjálfan mig varðandi streitu. 

Eftir lestur nokkurra góðra bóka hef ég áttað mig á því að ég er nokkuð streittur náungi.  Þessi uppgötvun kom mér dálítið á óvart ... tja, í það minnsta hef ég sjálfur ekki áttað mig á því fyrr en nú ...

Það ástand sem ég hef mestan hluta lífs míns talið eðlilegt ástand er streituástand ... og birtist meðal annars í því að geta ekki slakað á.  Eða öllu heldur geta ekki slakað á með góðri samvisku ...

Þess vegna getur svona dagur eins og í dag, eins þversagnakennt og það kann nú að hljóma, verið alveg sérstaklega erfiður fyrir mig ... svona andlega erfiður.  Eða með öðrum orðum ... það að gera ekki neitt, finnst mér alveg hrikalega erfitt ...

Tilfinningin um að ég sé að svíkjast undan heltekur mig algjörlega ...
... og það sem ég er sífellt að átta mig betur á er, að sú tilfinning hefur ekkert með dugnað að gera.

Það að vilja alltaf vera að vinna, hefur ekkert með dugnað að gera ... það er niðurstaða mín. 

Það er nefnilega athyglisvert að síðustu vikur hef ég verið að skrá nákvæmlega niður hvað ég er að gera á daginn ... alveg upp á mínútu nánast ...

... og með því móti geri ég mér betur grein fyrir hversu mikill tími fer í raunverulega vinnu og hversu oft maður leyfir sér að svindla t.d. með því að tékka aðeins á mbl.is eða dv.is eða youtube.com eða kissonline.com o.s.frv.

Og niðurstaðan er sú að þetta internet-ráp sækir alveg rosalega hart að manni ... og "nettékk" er mun algengara en af er látið.  Með þessari skráningu víkur sannfæringin um mikið vinnuframlag fyrir sannleikanum um að þetta sama vinnuframlag sé oft stórlega ofmetið ... og mikill tími fari til spillis.

Hvert er ég að fara með þessum skrifum mínum?  Jú, punkturinn er sá að þessi þörf fyrir að vera sífellt að vinna, en vera svo ekkert að vinna, er flótti frá raunveruleikanum eða sannleikanum.
Með því að vinna eða þykjast vinna næ ég að flýja undan sjálfum mér, undan mínum eigin hugsunum ... hugsunum t.d. um hvort ég sé að lifa því lífi sem ég vil og hvort ég sé að gera það sem ég vil ... og af hverju er ég að gera það sem ég er að gera ... hugsunum sem krefjast heiðarlegra svara ...

... t.d. fékk ég þetta í pósti um daginn og hef pælt mikið í því: "Ef líf þitt í dag væri kvikmynd, myndi þér finnast spennandi að horfa á hana?  Ef ekki sestu þá niður og skrifaðu nýtt handrit."

Auðvitað vil ég lifa spennandi lífi ... hver vill það ekki?
En satt best að segja hef ég ekki getað svarað þessu ennþá ... hvað finnst mér spennandi líf?  Spennandi í hvaða skilningi?

Svör við þessum spurningum eru til ... ég hef bara ekki náð í þau, einfaldlega vegna þess að ég hef ekki náð að komast inn að innsta kjarnanum í sjálfum mér, þar sem þau leynast.  Og vinnufíknin hjálpar ekki til í þeirri vinnu, því maður sem er á flótta undan því sem hann er að leita að mun líklega aldrei finna það sem hann leitar það ... það er lógískt ...

Þess vegna er mikilvægt að hætta að flýja ... "konfronta" bara sannleikann og vinna svo út frá þeirri niðurstöðu ... því fyrr því betra ...

Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef verið að pæla mikið í eigin streitu og hvernig ég á að takast á við hana. 

Dagurinn í dag var liður í þeirri vinnu ...

*****************************
24. dagur í líkamsrækt árið 2010

Sveikst undan

Í fyrramálið verður skokk (4 km) og fótbolti um kvöldið ... ætla að skrópa í taekwondo vegna þess að æfingin fer fram á sama tíma og Ísland er að keppa um bronsið ...
*****************************


Föstudagur 29. janúar 2010

Við skötuhjúin vorum að enda við að horfa á skemmtilega sænska mynd, sem við tókum á DVD ... "Sommaren med Göran".  Það reddaði algjörlega að hafa enskan texta ;) ...

Guddan fékk líka sitt bíó ... Dodda ;) ...

---

Mikil vinna í dag ... lauk við Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps, þannig að hægt er að senda það til kynningar.  Sem er gott mál ...

Fór svo að hitta leiðbeinandann minn niður á kaffihúsinu Konditori Fågelsången.  Leiðbeinandinn er alltaf svo rausnarlegur að hann býður upp á köku og drykk í hvert skipti sem við hittumst.  Ég reyni svona af og til að bjóða honum, en oftast nær tekur hann það ekki í mál ... segir að mér veiti ekkert af peningnum mínum ...

Í dag var hann búinn að lesa  yfir uppkastið sem ég sendi honum á miðvikudaginn og var hann bara hress með það.  Hann telur að við getum lokið greinarskrifum í febrúar og sent til tímarits.  Það tímarit sem er í sigtinu er Environment and Planning B: Design and Planning.

---

Dauðþreytt Sydney í lok dagsins ... með rauðar eplakinnar eftir frostið, svolítið af tómatsósu og slatti af vaselini í andlitinu ...

************************
23. dagur í líkamsrækt árið 2010

Frí

Fara að lyfta eða í einhvern sprikltíma í fyrramálið
************************

**************************
22. dagur í líkamsrækt árið 2010

Frí
**************************

**************************
21. dagur í líkamsrækt árið 2010

Lyftingar og teygjur í Friskis & Svettis
*************************


Fimmtudagur 28. janúar 2010

Búið að vera hörkuvinna í dag ... hef verið að vinna að verkefnum fyrir Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps.  Meiningin er að skila af sér uppkasti á morgun, þannig að nauðsynlegt er að vinna vel.

---

Ákvað að horfa samt á leikinn ... og verð að segja að þetta íslenska landslið er alveg gríðarlega sterkt.  Leikurinn í dag var ekki einu sinni spennandi fannst mér.

Þessir "slæmu kaflar" sem oft hafa einkennt landsliðið sjást varla lengur ... þó svo að þeir hafi fyrir einskæran klaufaskap glutrað niður forskotinu bæði á móti Serbum og Austurríkismönnum.  Það flokkast ekki undir "slæman kafla" eins og þeir voru í eina tíð ... þegar leikurinn hrundi gjörsamlega og á nokkrum mínútum náði andstæðingurinn að skora 5 - 7 mörk, án þess að fengist rönd við reist.

---

Annars hefur hugur minn mest verið hjá Jóni Þór vini mínum í dag, því útför Jóhannesar Bekk, fósturföðurs hans fór fram í Grafarvogskirkju.  Samkvæmt Jóni voru líklega um 1000 manns viðstaddir ...

... í sjálfu sér kemur mér það ekki á óvart ...

Jón Þór og hans fólk hefur alveg ótrúlega hæfileika, já ótrúlega hæfileika, í því að laða að sér fólk.  Þetta er einhver snilligáfa ...

---

Sjálfur hripaði ég niður nokkur orð um Jóa Bekk ... og voru þau birt í Mogganum í morgun.  Ég ætla að ljúka þessari færslu með þeim orðum.

"Væntumþykja er voldugt tvíeggjað sverð, því um leið og hún getur fært ómetanlega gleði og ánægju, getur hún falið í sér sársauka sem engu er líkur.  Þrátt fyrir það, dylst það engum að hver sá sem opnar hjarta sig og getur látið sér þykja vænt um aðra, er ríkur. 

Að finna fyrir skilyrðislausri væntumþykju annarra er ein besta og mikilvægasta tilfinning sem nokkur manneskja getur fundið.

Jóhannes Bekk kom, sem fósturfaðir, snemma inn í líf Jóns Þórs, eins allra besta vinar míns.  Eins og ótal dæmi eru um, er síður en svo sjálfsagt, að slík sambönd þróist á heillavænlegan hátt.  Þetta samband bar gæfu til þess.  Þeim þótti vænt hvorum um annan.  Þeir deildu gleði og sorg, þeir studdu hvor annan í leik og starfi.  Þeir mynduðu lið.  Sambandið skipti þá báða miklu máli og veitti þeim ómælda gleði.

En nú er komið að leiðarlokum.  Annar liðsfélaginn er fallinn eftir hetjulega baráttu.  Hans skarð verður ekki fyllt.  Sársaukinn er engu líkur.

Mig langar til að þakka Jóhannesi Bekk innilega fyrir fyrir þann kjark og manndóm, að láta sér þykja vænt um Jón Þór, minn góða og kæra vin, og vera honum styrk stoð í ölduróti lífsins."


Þriðjudagur 26. janúar 2010

"Hvort taka Íslendingar eða Svíar betri myndir af leiknum?", spurði Lauga í dag eftir að ég hafði sagt henni að það væri hægt að horfa á Rússaleikinn bæði á ruv.is og nehetskanalen.se.  Svona rétt eins og myndatökumenn RÚV væru í íþróttahöllinni í Vín að mynda leikinn og Svíarnir stæðu við hliðina á þeim með sínar vélar.

"Ha?!?!", sagði ég. 

Skyndilega glaðnaði til í kollinum á spúsunni.  "Já, ókei ... þetta er búið ... við þurfum ekki að ræða þetta meira!  Hvað er staðan annars?"

---

Skrif og aftur skrif ... og þetta smá mjakast ...

---

Af einhverjum ástæðum var engin taekwondo-æfing.  Allt slökkt og harðlæst þegar ég mætti á svæðið ... frekar súrt, verð ég að segja.

---

Fengum þær fréttir frá leikskólanum að Guddan væri búin að klifra þar í allan heila dag ... þetta er nú meira klifuræðið í barninu. 

Þegar hún kom heim, beið hún ekki boðanna og byrjaði að ... klifra!!  En þetta ku vera styrkjandi ...

Annars sofnaði hún fyrir kl. 8 í kvöld.  "Þetta er í annað skiptið, síðan ég veit ekki hvenær sem hún sofnar fyrir kl. 8", sagði móðirin þegar blessað barnið sofnaði í kvöldmatnum og notaði heimatilbúinn hamborgara fyrir kodda. 

Hún braut líka blað þegar við komum á leikskólann því í fyrsta skipti gólaði hún eins og stunginn grís þegar ég ætlaði að fara ... það var ekki fyrr en Tina leikskólakennari mætti á svæðið að dóttirin tók einhverjum sönsum.

Þannig að ... merkur dagur í dag ...

****************************
20. dagur í líkamsrækt árið 2010

Taekwondo-æfingin gufaði upp - klukkutíma hjólreiðartúr í staðinn

Fara í ræktina á morgun - lyfta eða í einhvern tíma (það gæti verið spennandi ;) )
*****************************


Mánudagsmetall X - Mánudagur 25. janúar 2010

Vegna landsleiks Íslendinga og Króata í dag, fékk Sydney Houdini að horfa á Dodda strax eftir að hún kom heim af leikskólanum ... og ekki leiddist henni það ... fékk meira að segja rúsínur og vínber í skál, sem hún gat tínt upp í sig með Doddi lék listir sínar.

Spennan var greinilega yfirþyrmandi eins og meðfylgjandi myndir bera með sér ... ef dóttirin hefði tekið myndir af mér meðan á leiknum stóð hefði hún sjálfsagt náð svipuðum myndum ...

Horft á Dodda_4Horft á Dodda

Horft á Dodda_2Horft á Dodda_3

---

Dagurinn leið við greinarskrif, eins og oft áður ... ætla að skila uppkasti á fimmtudaginn, þannig að það er ekki mikill tími til stefnu.
Annars sagði leiðbeinandinn mér að við gætum vel átt eftir að henda uppkastinu dálítið á milli okkar.  T.d. nefndi hann eina grein sem hann var höfundur að, ásamt fleirum.  Hann sendi greinina 17 sinnum, ásamt athugasemdum, til þess aðila sem bar hitann og þungann af því skrifa greinina.

---

Lauga var svo að brillera í vinnunni í dag ... gekk víst alveg rosalega vel og tókst henni að greina "akút irit", sem útleggst á íslensku sem "bráðalithimnubólga".  Get lítið sagt meira um þetta um þetta afrek, nema bara að Lauga er snillingur ...

****************************
19. dagur í líkamsrækt árið 2010

Útihlaup 4.3 km - magaæfingar og bakæfingar.  Í hlaupinu var ég allur í verkjum.  Ekki voru það harðsperrur eða neitt því um líkt.   Það sem ég tel þetta vera er afleiðing of mikillar kókneyslu síðustu daga.  Ég ætla að fylgjast aðeins með þessu.

Á morgun er taekwondo-æfing
*******************************


Sunnudagur 24. janúar 2010

Ég er satt að segja alveg steinhissa hvað ég er fljótur að komast í form ... eftir aðeins nokkra daga í líkamsrækt, finn ég þvílíkan mun á mér.
Það eru sérstaklega taekwondo-æfingarnar sem eru að gera það gott ... enda fær maður að taka vel á því þar.

Reyndar steingleymdi ég taekwondo-æfingunni í dag ... helber aulagangur ... Lauga minnti mig á æfinguna fimm mínútum áður en hún átti að hefjast.  Það er aðeins og stuttur fyrirvari ... því ég þarf að hjóla í 20 - 25 mínútur til að komast á æfinguna.

En með þessu áframhaldi verð ég kominn í hörkuform fljótlega ... sem er náttúrulega bara frábært!!  Og það besta við þetta er að mér finnst líkamsræktin núna skemmtileg ... það hefur nú ekki alltaf verið þannig.

---

Var að koma heim úr fótbolta ... fínn tími og "touchið" er aðeins að komast aftur í lappirnar á mér.  En betur má ef duga skal ...

---

Er búinn að verja deginum í skrif ... hef verið að skrifa um áhrif umhverfis sjúkrastofnana á líðan sjúklinga.  Það er mjög fróðlegt viðfangsefni ... sem spítalayfirvöld á Íslandi hefðu nú gott af því að kynna sér, nú þegar nýja sjúkrahúsið við Hringbraut er í hönnunarferli.

---

Guddan er enn við sama heygarðshornið hvað varðar að setja mat í hárið á sér.  Fæst ekki með nokkru móti til að hætta því.  Tómatsósa og vínarpylsa fóru í hárið í hádeginu.  Skrúbbun fór fram síðdegis ... ofurlítil jógúrt sett í hárið í kvöld.

Annars er það af fröken Houdini að frétta að hún hóf síðastliðinn mánudag að vera í leikskólanum frá kl. 9 til 16.  Við héldum að það yrði kannski dálítið erfitt svona til að byrja með, en viti menn ... fröken Houdini hefur sjaldan verið betri.  Líkar svona líka vel á leikskólanum ... og er sjaldgæflega skapgóð þegar heim er komið.

**********************
18. dagur í líkamsrækt árið 2010

Fótbolti í 90 mínútur ... góð keyrsla.  Taekwondo-æfing gleymdist.  Mínus í kladdann ...

Á morgun verður útihlaup 4 km.
*************************

 


Laugardagur 23. janúar 2010

Ekki var nú leiðinlegt að horfa á Íslendinga taka Danahelvítin í nefið ...

... það er alltaf gaman að fylgjast með danska þjálfaranum, honum Wilbek eða hvað hann heitir ... hann er svo rólegur og yfirvegaður ...

---

Hef verið að vinna í dag.  Er að undirbúa rannsókn sem ég ásamt fleirum stefnum að keyra á Landspítalanum við fyrsta tækifæri ... þ.e. ef leyfi fæst til þess.

Það er bara skemmtilegt ...

---

Svo fékk ég hálfpartinn grænt ljós á gagnagreiningu rannsóknarinnar minnar hjá leiðbeinandanum mínum í gær, eftir um 3 klst fund, þar sem við fórum yfir stöðu mála ...
Það er mjög gott mál, því þá er hægt að setja allt á fullt að klára rannsóknargreinina, sem ég hef verið að vinna að síðustu daga.

---

Þá er ég að undirbúa námskeiðin sem ég held heima í mars. 

---

Það hefur fengist staðfest hjá leikskólanum að Guddan er algjört klifurdýr ... fóstrurnar segja hana erfiða viðureignar vegna þess að hún prílar hratt og hljóðlaust ...
Varla má líta af henni ...

---

Mæðgurnar fóru út í dag að gera ýmislegt skemmtilegt.  Fóru m.a. að hitta Örnu vinkonu á kaffihúsi ...

************************
17. dagur í líkamsrækt árið 2010

Fór að lyfta og teygja í morgun

Fótbolti og taekwondo-æfing á morgun
*************************

*************************
16. dagur í líkamsrækt árið 2010

Hljóp 3.7 km
*************************

*************************
15. dagur í líkamrækt árið 2010

Taekwondo-æfing
*************************


Fimmtudagur 21. janúar 2009

Jæja, þá er akkúrat eitt ár síðan maður fékk að prófa að anda að sér táragasi á Austurvelli ... eða voru þau tímamót kannski í gær?!?

En allavegana var það lífsreynsla að anda að sér slíku ... myndi samt ekki vilja gera það á hverjum degi, svo mikið er víst.

--- 

Fór heldur snautlega ferð á taekwondo-æfingu í kvöld.  Var tilkynnt við komuna að fimmtudagstímarnir væru ekki ætlaðir byrjendum.  Eitthvað hefur þessi tilkynning farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér.  Allra náðasamlegast var mér þó leyft að vera með.

Það sem ég fékk út úr því voru meðal annars tvö högg í andlitið, því sá sem átti að æfa gegn mér, datt bara í einhvern ham og tók færni sína bara út á byrjandanum ... stórmannlegt það!!

Þjálfarinn greip þó inn í og bað hann um að hafa sig hægan ... þá voru skapsmunir mínir, sem stundum geta orðið ansi miklir, farnir að láta á sér kræla, og munaði minnstu að upp úr syði hjá mér.  Náði þó að stilla mig ... punktur í kladdann fyrir það ...

---

Var síðan í mjög skemmtilegum pælingum í dag og naut aðstoðar stærðfræðisénísins Nikka frænda.  Sendi honum óskiljanlega formúlu og bað hann um að botna hana.  Það tók hann svona tvær mínútur að redda því og senda til baka ... eftir það var brautin bein fyrir mig ...

Hafi hann góðar þakkir fyrir þetta ...

---

Seinnipartinn í dag, fékk ég þau hörmulegu tíðindi í dag að Jóhannes Bekk, fósturfaðir Jóns Þórs, eins míns allra besta vinar, hefði kvatt þennan heim síðastliðna nótt.  Ég hef varla á mér heilum tekið síðan mér bárust Jón hringdi og tilkynnti mér lát hans.

Blessuð sé minning Jóhannesar Bekk.


Miðvikudagur 20. janúar 2010

Í dag ákvað internettengingin á tölvunni minni að hætta að virka ... bara rétt sisona ...

... og ég fagnaði því, vegna þess að það er alltaf gaman að takast á við áskoranir ... í þetta sinnið var áskorunin sú að láta ekki pirringinn ná algjörum undirtökum.
En þetta er alveg rosalega óþæginlegt þegar tækjabúnaðurinn sem maður treystir á úti í eitt, hættir bara að virka.

Sem betur fer er ég með varatölvu sem hefur virka internettengingu, þó sú tölva sé nú ekki upp á marga fiska að öðru leyti.

---

Það hefur verið rífandi gangur í hlutunum núna í dag ... rannsóknargreinin mín er að taka á sig ofurlitla mynd, þannig að það er gaman að því.

Svo er ekki verra að segja frá því að frekara fyrirlestrahald er í uppsiglingu.  Opinberar stofnanir að biðja mig um að koma og segja þeim svolítið frá umhverfissálfræði.  Mjög skemmtilegt.
Ég er með frábæran umboðsmann, hana Auði Ottesen, en hún sér um að bóka mig og auglýsa ... þannig að ef einhvern vantar skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur þá er um að gera að tala við Auði og hún reddar því ;) .

---

Af öðru heimilisfólki er allt gott að frétta ... það er búið að gera svolítið af gloríum í dag, og allt eins og það á að vera.

*************************
14. dagur í líkamsrækt árið 2010

Fór út að hlaupa ... tölvuvesenið setti allt á annan endann í dag ... að niðurstaðan varð 2 km hlaup.  Ekki var það nú mikið, en betra en ekkert, enda er ég ansi lemstraður eftir taekwondoið í gær.

Á morgun er taekwondo-æfing
*************************

Svo einn snillingur afmæli í dag ... set mynd af honum í tilefni þess ... 

Kiss 1978 Paul Stanley


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband