Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Ferðin til Kiama - fyrri hluti

Eins og ég greindi frá í fyrradag, þá skruppum við til Kiama á sunnudaginn.

Auðvitað var litla videogræjan tekin með og hef ég nú klippt saman fyrri hluta ferðarinnar.  Myndbandið er hér.

Hljóðið er í "sinki" núna ... guð einn má vita af hverju það er í lagi núna úr því það var það ekki síðast.  Allavegana klippti ég þetta myndband með sömu aðferðum og sama prógrammi ... en jæja!!

Annars heyrist nú lítið hljóð núna því það var hífandi rok þarna í Kiama, sérstaklega þegar við fórum að kíkja á Blow Hole ...

En sjón er sögu ríkari ...


Heimferðin

 Jæja, þá erum við Sydney-búar búnir að kaupa okkur far til Íslands.  Það skal tekið fram að farið var ekki keypt í dag, eftir fall krónunnar um 4% eða eitthvað álíka, heldur þegar krónan var talsvert sterkari en hún er nú ... ekki svo að skilja að hún hafi verið eitthvað sérstaklega sterk þá ... hún var bara sterkari!

En hvað um það ... ferðaplanið er eftirfarandi ...

Þann 25. nóvember næstkomandi verður lagt í 'ann og flogið til Auckland á Nýja Sjálandi.
Það er sameiginlegt álit okkar Laugu að við verðum að fara til Nýja Sjálands úr því við erum hér í Ástralíu. 
Dvölin í Auckland verður þó í styttra lagi aðeins einn dagur eða svo.

Þaðan verður flogið til Hong Kong.
Þar munum við dvelja í nokkra daga, skoða okkur um og njóta lífsins.  Kannski skreppa yfir landamærin til Kína í einn dag, bara svona upp á sportið.  Slík ferð er þó háð því að hægt sé að fá "express visa", en einhvers staðar sá ég að slíkt gæti verið mögulegt.

SYDHKG by you.

Þann 30. nóvember verður svo flogið til Istanbúl í Tyrklandi.  Þar munum við stoppa í einn dag, áður en við höldum áfram til Aþenu á Grikklandi.
Í Aþenu verður stoppað í nokkra daga.  Helstu kennileiti skoðuð og haft gaman.

HKGATH by you.

Þann 4. desember, verður svo farið frá Aþenu til London, dvalið þar eina nótt, og þann 6. desember verður lent á Keflavíkurflugvelli.

ATHREY by you.

Þá má búast við að um 17.000 km hafi verið lagðir baki.

Vonumst við eftir að sjá fullskipaða móttökunefnd á vellinum.  Gott væri ef fólk færi að tala sig saman, ... hverjir eiga að redda lúðrasveitinni.  Æskilegt væri að hafa eftirfarandi óskalög í huga: "Öxar við ána", "Adam átti syni sjö" og "I stole your love" með KISS.  Þá þarf að fara að pæla í hverjir koma með blöðrur, gos og sælgæti.  Einkennisfatnaður væri æskilegur og þyrftu helst fjórir burðarmenn að vera á staðnum til að annast farangurinn.  Nuddari væri vel þeginn, sem og vistvænt sjampó.

Fínt væri einnig ef Guðbjörn Guðbjörnsson óperusöngvari og formaður Tollvarðarfélagsins yrði viðstaddur og stæði heiðursvörð.  Og ef félagi Dóri gæti reddað því að Eiríkur vinur sinn væri í tollgæsluhliðinu þá væri það einnig mjög gott.

Læt þetta duga í bili ...


Í Kiama

Í dag skruppum við til Kiama, sem er lítill bær sunnan við Sydney.  Það tekur lestina rúmar tvær klukkustundir að komast þangað.

Aðalaðdráttarafl Kiama er hin magnaða "Blow Hole", sem er í raun ekki nein hola heldur er þetta gat í sjávarklettum, sem er um 10 metrar í þvermál.  Þegar sjórinn djöflast í kringum þessa kletta, sem hann gerir 24 klukkutíma alla daga vikunnar, þá á hann það til að þrýstast upp um þetta gat og myndast þá tilkomumikill vatnsstrókur, sem getur teygt sig eina 25 metra upp í loftið

En til þess að slíkt geti átt sér stað þarf að vera stórstreymt og vindur að standa af suðaustri.  Hvorugt var til staðar í gær, þannig að við sáum nú lítið af þessum miklu tilþrifum ... því miður! En við sáum þá allavegana Blow Hole ...

Kiama er fallegur staður, flott strönd, svo er þar glæsilegur viti, en tilkomumiklir vitar virðast vera eitt af höfuðdjásnum þessara bæja meðfram ströndinni.  Á þeim stöðum sem við Lauga höfum komið við, þ.e. bæði í Wollongong, Newcastle og nú Kiama, gegnir vitinn veigamiklu hlutverki á helstu ferðamannastöðunum ...

Við tókum þennan nokkuð týpíska ferðamannapakka á þetta.  Fórum á helstu staði, svo sem áðurnefnda Blow Hole, höfnina, skoðuðum fornbílasýningu, skruppum á kaffihús, fórum svolítið á ströndina og þar kynntist Guðrún hin knáa sandi og sjó í fyrsta skiptið. 

Frá Kiama röltuðum við yfir til Bombo, prófuðum að keyra barnavagninn í fjörunni þar ... mæli ekki með því ... skoðuðum Bombo Headland.  Ef þú hugsar þér sjávarklettana við Reykjanesvita og blandar þeim saman við Dimmuborgir í Mývatnssveit, þá ertu komin(n) með Bombo Headland.  Svolítið sérstök samsetning er ... svona er þetta nú bara!

IMG_8581 by you.
Nýkomin til Kiama

IMG_8582 by you.
Skipt á dótturinni undir tré ... en þess má geta að barnið var með eindæmum samvinnuþýtt í þessari ferð.

IMG_8598 by you.
Komist í tæri við fjörusand í fyrsta skipti ...

IMG_8600 by you.
... og hér er sjórinn "testaður" ...

IMG_8604 by you.
Frá fornbílasýningunni ... taktu eftir aftursætinu ... þeir kalla þetta tengdamömmusæti hér í Ástralíu!!

IMG_8610 by you.
Við Blow Hole ... frekar rólegt þar ...

IMG_8612 by you.
Vitinn í baksýn ...

IMG_8614 by you.
Lauga fjörug á einum útsýnisstaðnum í nágrenni við Blow Hole.

IMG_8627 by you.
Bombo-höfðinn og tré í blóma.

IMG_8631 by you.
Bombo-fjaran var býsna erfið yfirferðar fyrir torfæruvagninn ...

IMG_8634 by you.

IMG_8642 by you.
Mæðgurnar á leið til Bombo Headland ... Kiama og vitinn í baksýn ...

IMG_8653 by you.
Barnið fóðrað í umhverfi sem er blanda af Reykjanestánni og Dimmuborgum ...

 


25. september 2008

Þessa dagana rifjast það hratt fyrir mér af hverju ég á meira 1000 klst af efni sem ég tók upp á árabilinu 1988 - 1992 ... það er alveg hrikalega gaman að taka video ... og að klippa er jafnvel ennþá skemmtilegra.

Ég reyndi að klippa töluvert af efninu, sem ég tók upp á sínum tíma.  Það var gert með því að tengja videokameruna við videotæki og ýta svo á "play" og "pause" til skiptis.  Nokkuð stirðbusaleg aðferð, enda afraksturinn í samræmi við það ... en fyrir um 20 árum var bara fátt annað á boðstólnum, svona fyrir amatöra.

Reyndar man ég eftir að hægt var að kaupa lítið klippiborð í Faco á Laugaveginum fyrir nokkra tugi þúsunda.  Ég renndi oft hýru auga til þess, en fjárhagurinn leyfði ekki slíkt.

Nú er öldin hinsvegar önnur.  Tölvur og stafrænar tökuvélar leysa þetta allt af hólmi og því er hægt að klippa saman oggulítil myndbönd á "no time" ...

Ég skellti einu svoleiðis saman á innan við 10 mínútum, bara svona til að sjá hvað væri hægt að gera.

Myndbandið er hér ...   en ...

... "nobody is an unbeaten bishop" sagði Hjalti Úrsus kraftajötun, einu sinni í viðtali.  Það sannast núna ...

... ég er búinn að klippa sama myndbandið 6 sinnum, hlaða því 3 sinnum inn á www.flickr.com og einu sinni niður á www.youtube.com ... en allt kemur fyrir ekki ... hljóðið vill alls ekki verið í "sinki" við myndina.
En þetta er örugglega það allra besta sem gat komið fyrir ... því héðan í frá verður leiðin bara upp á við!!

... núna er ég að leita mér að einhverju almennilegu klippiforriti sem hægt er að nota.  Windows Movie Maker "meikar" þetta ekki því myndavélin tekur upp á .MOV formati.  Ég er því að nota eitthvað "djönk" sem fylgdi með vélinni.

Ef einhver lumar á góðu ókeypis klippiforriti, þá væru allar ábendingar vel þegnar ...


23. september 2008

Héðan frá Sydney er allt gott að frétta ...

Lauga býr sig þessa dagana að kappi undir próf sem verður haldið í fyrramálið.  Þetta er próf í líffæra- og lífeðlisfræði og hluti af nuddnáminu sem hún er taka.
Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að hún mun að sjálfsögðu rúlla prófinu upp ...

Sydney Houdini leikur við hvern sinn fingur.  "Setuæðið" sem ég greindi frá fyrir nokkru, lifir enn góðu lífi.  Það er eiginlega bara þannig að hún þverneitar að liggja útaf nema hún sé sofandi.
Ég hef verið að reyna að koma henni í skilning um það að hún geti ekki ætlast til þess að fullorðin manneskja, sem hefur nóg fyrir stafni, geri ekkert annað en að sitja við hlið hennar og passa að hún velti ekki út á hlið ...

... dóttirin hefur virt þessa ábendingu mína að vettugi ... fullkomlega!

Sjálfur er ég ennþá að basla við þennan blessaða sýndarveruleika, sem ég vona að fari nú að taka einhvern enda.  Mér finnst þetta vera að verða ágætt af tölvuvinnu og langar til að fara að snúa mér að því sem ég raunverulega hef áhuga á, en það er að finna út hvaða áhrif borgarumhverfi hefur á heilsufar fólks.

Annars verð ég að segja frá því að ég fór á fyrirlestur síðasta föstudag og fjallaði hann um "waste management".  Á íslensku myndi það sennilega útleggjast sem "fyrirkomulag og stjórnun sorphirðu og förgunar" ... eða eitthvað svoleiðis ...

jæja, en allavegana, þá birti ræðumaður afar áhugaverðar tölur um rusl og úrgang ...

Í Ástralíu, eins og víðast hvar annars staðar hjá iðnvæddum þjóðum, er allskyns nothæfu dóti hent á haugana.  Verðmæti þessa "dóts" nemur hvorki meira né minna en 10,6 milljörðum dollara á ári!!  Jafngildir sú upphæð, tæplega 800 milljörðum íslenskra króna!!

Þar af er ónýttum matvælum (taktu eftir kæri lesandi, hér er verið að tala um ónýtt matvæli en ekki ónýt matvæli) fyrir 5,3 milljarða hent á haugana á hverju ári.  Þannig er um 400 milljörðum íslenskra króna hent eins og morgundagurinn sé enginn!!  Svo er verið að tala um peningaleysi!!
Þetta eru ótrúlegar fjárhæðir og sagði spekingurinn að þær væru hærri en þær fjárhæðir sem háskólum í Ástralíu er úthlutað árlega og hærri en varið er í vegaframkvæmdir í allri Ástralíu á hverju ári.

Ótrúlegt!!!

Að lokum hendi ég inn nokkrum myndum ...
Æstir aðdáendur bloggsíðunnar sem ekki kunna íslensku hafa eindregið óskað eftir enskri útgáfu ... en svarið við slíkum beiðnum er einfaldlega "NEI" ... fólk getur bara lært íslensku!!
Hins vegar hef ég sagt að ég skuli setja enskan texta undir myndirnar ... svona til málamynda ...

P1000057 by you.
Úti á svölum í 33°C ...
Lauga and Sydney on the balcony last Saturday in 33°C ... not so bad!!

P1000053 by you.

P1000076 by you.
Um kvöldið var svo skroppið í bað ...
It was a time for a good bath, after being in 33°C for many hours ...

P1000111 by you.
Þessi var tekin í kvöld skömmu áður en dóttirin hvarf á vit ævintýranna í draumaheimi ...
Tonight, just before Sydney decided there was time to go to sleep after very, very busy day!!!


Enn verið að fikra sig áfram ...

Ennþá er verið að möndla hvernig "systemið" á nýjasta "fítusnum" á að vera.

Þess vegna skutum við Lauga þessa videoklippu ... sem ber heitið "Húsnæðið sýnt á 90 sekúndum".
Yfirferðin yfir húsnæðið er býsna hröð í þessu myndbandi, eiginlega svo hröð að ég sjálfur verð stressaður á því að horfa á það ... en sjón er sögu ríkari.

Eins og ég segi, þetta var meira svona tilraun því ég fór með myndbandið niður í skóla til að hlaða því niður.  Betri tenging þar en heima.  Tók svona 30 mín að hlaða niður í skólanum en heima tók það 5 klukkutima eða eitthvað álíka að hlaða niður síðasta myndbandi.  Ég mun því í framtíðinni hlaða myndböndum niður í skólanum.

En ég þarf að vinna þau aðeins betur í framtíðinni ... vonandi hef ég tíma til þess ...

Myndböndin eru öll á www.flickr.com, en sú síða leyfir ekki nema 90 sekúnda myndbönd eða 150 MB myndbönd.  Þess vegna þarf ekki að örvænta með að fá að sjá á bloggsíðunni Múrenan - í Sydney, einhver hrútleiðinleg myndbönd þar sem ekkert gerist. 
Það er í eðli mínu að vilja láta hlutina ganga og myndböndin verða í þeim dúr ...

Að gera video er alveg rosalega gaman ... ég gerði mikið af því hér á árum áður.  Það byrjaði allt saman fyrir 20 árum þegar ég keypti mér frábæra Sony HandCam, sem ég skipti síðan fyrir rosaflotta "kameru" ... JVC-eitthvað.  Á þessar vélar gerði ég ásamt vinum mínum, sérstaklega þeim Jóni Þór og Palla, mörg ódauðleg myndbönd.  Einnig eru til ótrúlega senur af Leifi frænda, að ógleymdri senu 20. aldarinnar sem tekin var árið 4. júlí 1989, þegar Nikki frændi, þá 9 ára skröltormur, hitti hundinn.  Þeir sem séð hafa þá senu, gleyma henni ekki svo glatt.

Þess má svo til gamans geta að ein sena sem við Jón Þór tókum upp í janúar 1991, sama dag og við þreyttum próf í áfanganum ÞÝS 102, er orðin víðfrægt "dokjument".
Að prófi loknu, lágum við inn á herbergi 211 eða 213 á heimavistinni, ásamt fleira góðu fólki og tókum myndir af vegfarendum sem var reyndu að komast leiðar sinnar í fljúgandi hálku.  Til að bæta gráu ofan á svart var hífandi rok, svo mikið að varla var stætt.  Í veðurannálum er veðrið meðal þeirra verstu sem skráð hafa verið.

En jæja, ... þegar þessar aðstæður, það er öskrandi rok og hálka, voru samankomnar, bauð það upp á stórkostleg tilþrif þeirra sem áttu leið um göngustígana milli heimavistarinnar og skólabygginganna.  Hápunktur myndbandsins er þó þegar Ragnheiður, okkar ástsæli dönskukennari, fetar sig eftir stígnum.  Gríðarleg stemmning myndaðist á herbergi 211 eða 213 þegar Ragga danska, eins og hún var oft kölluð, glímdi við þrautina ... en þess má geta að hún leysti viðfangsefnið af lýtalausu öryggi, eins og Steini vinur minn hefði mjög sennilega orðað það á fyrri hluta 10. áratugs síðustu aldar.

Jónas jarðfræði- og veðurfræðikennari í MA, "komst einhvern veginn yfir" myndbandið og sýndi það í tímum hjá sér í nokkur ár, svona sem sýnidæmi um hvernig veðrið gæti leikið menn. 
Hlutum við Jón Þór því óvart frægð fyrir meðal nokkurra árganga MA-inga fyrir þetta "listaverk" okkar!!

Nóg í bili ...


Algjörlega önnur tilraun ...

Já, þessa dagana er unnið hörðum höndum að því að betrumbæta bloggsíðuna Múrenan - í Sydney, því allir góðir hlutir eiga að dafna og þroskast.

Það er nú ekki verra þegar síðuhaldari stefnir óðum að því að verða tölvunörd.

Búast má við því að bloggsíðan verði orðin alveg frábærlega frábær áður en langt um líður!!

En hér er algjörlega önnur tilraun!!

Það er gaman að segja frá því að útsendingar hefjast á afmælisdegi ömmunnar á Sauðárkróki, en eins og flestum lesendum Múrenunnar - í Sydney er í fersku minni, þá einmitt fæddist sú stutta á afmælisdegi afans á Sauðárkróki.

Það er því óhætt að segja að reynt sé að gera vel við þau hjónakornin á Króknum ... enda eiga þau ekkert annað skilið ...

Þar að auki, ... og er það ekki síður ánægjulegt ... á félagi Frex, sjálfur silfurverðlaunahafinn úr Mongol Rally 2008, líka afmæli í dag!!

Ég á í fórum mínum eina mynd af afmælisbörnum dagsins, það er að segja þar eina mynd sem inniheldur bæði afmælisbörnin ... hún var tekin á KISS-kvöldi í febrúar 2007 ...

IMG_5180#3 by you.
Afmælisbörnin ásamt móður síðuhaldara (t.v.) á KISS-kvöldinu góða í febrúar 2007

 


Algjörlega fyrsta tilraun ...

er hér!!


Dagbók Guðrúnar

Dóttirin er frekar "irriteruð" þessa dagana, og messar duglega yfir gestum og gangandi.  Félagarnir fjórir sem hanga í óróanum eru til dæmis skammaðir dægrin löng og vinirnir þrír sem eru hluti af skrifstofustól dömunnar fá líka að kenna á því.

Það besta í þessu er að pirringurinn virtist byrja um svipað leyti og frökenin fór að "fatta" hendurnar á sér.  Þegar hún fór að skilja að augun, munnurinn og hendurnar voru allt hlutar af henni sjálfri.  Það sem helst fer í taugarnar á þeirri stuttu er að geta ekki samræmt vilja sinn og athafnir, þannig að hendur geri það sem hana langar til, það er að taka hluti, færa þá upp að munninum svo hægt sé að sleikja þá af mikilli áfergju.

Stundum heppnast það, iðulega þó í mjög stuttan tíma í senn og svekkelsið verður gríðarlegt þegar allt fer svo í vitleysu.  Þá er hluturinn sem var verið að sleikja er allt í einu staddur víðsfjarri munninum, fastur í litlum hægri eða vinstri lófa sem neitar að hlýða.

IMG_8468 by you.
Hérna er dæmi um þegar samræming vilja og athafna virðist vera að ganga upp ... einbeitingin gríðarleg!!

IMG_8465 by you.
Önnur mynd af góðri samræmingu ...

IMG_8466 by you.
Hér er samræmingin hinsvegar ekki alveg jafngóð, Úrið alltaf í óþægilegri fjarlægð frá munninum ... pirringur braust út stuttu eftir myndatöku!!

IMG_8480 by you.
Önnur mynd af slæmu samræmi ... kastið var tekið, stuttu eftir myndatöku ...

Svo er einnig gaman að sjá hvernig sú smáa er farin að "spenna" greipar í tíma og ótíma.  Hún situr oft í mjög svo fræðimannslegum stellingum þar sem hendurnar hvíla á bringunni.  Oftar en ekki hverfur þó fræðimannsbragurinn eins og dögg fyrir sólu þegar höndunum er troðið upp í ginið og þær sognar og sleiktar eins og morgundagurinn sé enginn.

IMG_8486 by you.
Í fræðimannsstellingum ...

Snuðið virðist hafa hrapað hratt niður vinsældarlistann.  Fyrir fáeinum dögum skein sólin vart ef snuðið var ekki innan seilingar, en nú er öldin önnur ... ungfrúin verður að því er virðist sármóðguð ef henni er boðið upp á snuð, ygglir sig og brettir.  Takist að koma snuðinu upp í hana, skyrpir hún því umsvifalaust út úr sér, helst niður á gólf.

Þá á enn eftir að nefna nýjasta æðið, sem virðist vera að kollkeyra allt sem áður hefur gerst í hinu rúmlega 3ja mánaða lífi dömunnar.  Það er fá að sitja upprétt.  Eftir að montmyndir voru birtar af henni af 3ja mánaða afmælisdaginn fyrir um rúmri viku, hefur hún krafist þess að fá að sitja upprétt í tíma og ótíma.  Málið er bara að hún getur það ekki ein og óstudd, en henni er alveg sama ... finnst ekkert nema sjálfsagt að hafa manninn með sér við þá iðju, einhvern sem getur haldið við hana og stutt svo hún rúlli ekki út til hliðar eða detti fram fyrir sig.

(Því miður hefur farist fyrir að taka myndir af þessu nýjasta uppátæki en slíkar myndir munu koma við fyrsta tækifæri.)

Svo mikið vill hún fá að sitja upprétt, að foreldrum hennar lýst nú ekki alltaf á blikuna, mögulega gæti öll þessi seta verið óholl fyrir aðeins 3ja mánaða gamla hryggjarsúlu ... nú einfaldlega brestur þekkinguna.
En er ekki sagt að börn beri sig alltaf rétt að, það er að segja eins og náttúran "vill" að mannskepnan beri sig að?  Þau anda rétt, þau beygja sig rétt og svo framvegis ... ef svo er þá hlýtur þessi seta að vera í lagi ... þetta er jú vilji dótturinnar, eins og glögglega ætti að hafa komið fram hér að ofan.

Að lokum ... tvær kvartanir hafa borist síðunni ...

1. "Stúlkan brosir aldrei á myndunum" ... hér að neðan er bætt úr því ...

IMG_8485 by you.

2. "Engar myndir af þeim mæðgum saman á mynd, en fullt af myndum af ykkur feðginum" ... ósanngjörn athugasemd að mati síðuhaldara, þar sem hann telur sig bara býsna gott myndefni og ætti það að duga þeim sem síðuna sækja.  En ok ... hér er einn af þeim mæðgum ...

IMG_8473 by you.


Um veður

Jæja, þá er vorið mætt hér í Sydney ... í dag hefur hitinn verið að skríða úr 14°C í morgun í 27,3°C núna rétt um hádegi þegar þetta er skrifað.  Nú þegar er því búið að slá hitametið sem sett var í Reykjavík þann 30. júlí sl.

En það vantar nú samt meira en 20°C upp á til að heimsmetið í hita, sem er í eigu Líbýu, verði slegið en samkvæmt öruggum heimildum er það 57,7°C.  Svo glæsilega vill til að hitametið var einmitt sett þennan dag, það er 13. september, árið 1922.

Það vantar líka talsvert upp á að ástralska hitametið verði slegið en það met er frá árinu 1960.  Þann 2. janúar það ár mældist hitinn í Ooddnatta í Suður-Ástralíu 50,7°C.

Hér í Sydney nær hitastig aldrei þessum hæðum sem betur fer, en getur þó orðið býsna hátt, allavegana fyrir fólk með íslenskt blóð í æðum.  45,3°C er það hæsta sem mælst hefur í borginni, og átti það sér stað þann 14. janúar 1939. 

En síðan við komum hér til Sydney hefur hitinn ekki farið hærra en 36°C, og verð ég að viðurkenna að það var nú alveg orðið vel passlegt.  Mér leið eins og inni í bakaraofni.
Þegar við fórum til Melbourne í mars var hinsvegar boðið upp á enn meiri hita eða í kringum 40°C.

Ég verð samt að segja að mér fannst 36°C í Sydney mun heitara en 40°C í Melbourne, en ólíkt rakastig getur ef til vill skýrt þessa upplifun.

Læt þetta duga af veðri og veðurmetum ... það má þó nefna það að veðurspáin gerir ráð fyrir allt að 30°C í dag, og mun þrumuveður fylgja í kjölfarið.
Sum sé fjör!!!

IMG_8451 by you.
Guðrún skreppur út á svalir á bleyjunni einni klæða í fyrsta skipti ...

IMG_8454 by you.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband