Þriðjudagur 16. nóvember 2010 - Ferðin til Lundar og Kaupmannahafnar

Í gær í flugvélinni frá Kaupmannahöfn var fröken Guðrún ekkert nema kjafturinn og dólgslætin.  

Það var sama hvað ég reyndi að ná til hennar ... ef hún var ekki að kútveltast um í sætinu, þá setti bara í brýrnar og hellti sér yfir mig.

Það var nú eiginlega ekkert annað hægt en að brosa út í annað þegar hún sá ekki til ...

... en svo fór þó að stubburinn sofnaði ...

Ég er búinn að segja henni það nokkrum sinnum að ferð hennar í draumaheiminn hafi verið versta "tæming" sögunnar ... því hún ákvað að sofna um það leyti sem glitti í flugbrautina í gegnum þokuna.  Hún svaf sum sé í svona 2 mínútur í vélinni ...

Eftir lendinguna svaf hún svo meðan henni var troðið í öll fötin ... ullarpeysu, samfesting, kuldaskó og lambhúshettu ... og um leið og því var lokið vaknaði hún. 

---

Annars var ferðin góð í alla staði ...

Fyrirlesturinn í Lundi gekk vel og hlaut verðskuldaða athygli og eins og ég hef áður sagt var ferðin í Landbúnaðarháskólann í Alnarp mjög áhugaverð.

Það sem vakti sérstaklega áhuga minn var heilsugarðurinn, þar sem fólk sem hefur brunnið yfir af streitu getur komið og fengið meðferð við hæfi.

 
Ein mynd úr heilsugarðinum í Alnarp

Svo fór ég til Kaupmannahafnar og hitti þar mæðgurnar ... sem og Maju, Flemming og Helenu.

Við Lauga og Gudda skruppum í bæjarferð á föstudeginum, borðuðum á Slotskælderen, skruppum á Thorvaldsen-safnið, í Illums Bolighus og reyndum að sjá hafmeyjuna frægu.


Á Strikinu

 
Í Illums Bolighus ... þar var mikið fjör, hoppað í sófum og hlaupið ...

 
Á Thorvaldsen-safninu ... fyrir framan Józef Poniatowski ... ferðin á Thorvaldsen-safnið endaði á því að stubbur lagðist í gólfið og var ófáanlegur til að standa upp fyrr en búið var að lofa því að safnið skyldi yfirgefið umsvifalaust.

Á laugardeginum skruppum við í skógarferð í Store Hareskoven með Maju og Helenu.


Þarna vildi Guddan alveg endilega stinga sér til sunds ... og mikill tími fór í að telja hana ofan af þeirri hugmynd ... 

Og á sunnudeginum var farin ferð í dýragarðinn.


Bavíanarnir voru langskemmtilegastir ... Guddan veltist um af hlátri þegar hún fylgdist með þeim ...

Við skruppum svo aftur í bæinn á mánudagsmorguninn áður en við flugum aftur til Stokkhólms.

 

 
Guddan á Norden Café ... þar sem hún hagaði sér alveg eins og heimsborgari ... sá heimsborgarabragur átti nú eftir að hverfa í flugvélinni á leiðinni heim, eins og getið er um hér að ofan ...

Ekki er hægt að hætta að skrifa fyrr en þess hefur verið getið að GHPL varð í ferðinni afar heilluð af kettinum hennar Maju ... henni Kötsju.

Fyrsta daginn lá bara við að Guddan fengi hjartaáfall af spenningi yfir kettinum.  Hélst vinskapur þeirra algjörlega skammlaust ef undan er skilið ofurlítið klór þegar kettinum fannst búið að kássast einum of mikið í sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband