Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Þriðjudagur 2. október 2012 - Power posing & rútína

Við Lauga horfðum á ansi merkilegan fyrirlestur í gær á TED.com. Hann fjallaði um líkamstjáningu og hvernig maður hægt er að auka útgeislun sína og sjálfsöryggi með því að gera svokallaða "power posing" ("kraftstöðu") í tvær mínútur áður en maður tekst á við einhverja áskorun. 

Samkvæmt rannsóknum á þetta að virka :) .

Hvað er "power posing"? Jú, það er líkamsstaða sem sýnir sjálfan þig sem sigurvegara og þann sem valdið hefur. Þetta er galopin líkamsstaða þar sem maður stendur svolítið gleiður, er beinn í baki og setur hendur á mjaðmir.

Þetta var mjög áhugavert ...

---

Annars hefur dagurinn farið í skriftir eins og stundum áður ... áfram skal haldið með þriðju rannsóknargreinina, já og fyrirlesturinn sem ég á að halda hjá Landvernd um miðjan mánuðinn.

Börnin koma kúguppgefin heim af leikskólanum upp úr kl. 18 á hverjum degi - óhætt að segja að þetta séu nokkuð langir dagar. Svolítið fyndið hvernig sama rútínan fer eilíflega í gang þegar heim er komið. Sérstaklega hjá Stubbanum.

- Er mjög hress í byrjun, hleypur um og hamast.
- Svo fer að renna af honum mesti móðurinn þegar matartíminn nálgast.
- Í matartímanum situr hann í svona 5 mínútur í stólnum sínum og heimtar hann að fá að stíga upp úr stólnum.
- Strax og upp úr stólnum er komið þá byrjar mesta brölt í heimi, þar sem ferðast er kringum matarborðið án þess að nokkur pása sé tekin.
- Um leið og matartímanum lýkur, þá er hann orðinn alveg passlegur í háttinn og steinrotast á augabragði.

Læt þetta duga í bili ... það tekur svolítinn tíma að skrúfa sig upp í blogg-gírinn á nýjan leik. 


Mánudagur 1. október 2012 - Á fullum gangi

Síðustu vikur hafa nú verið heldur betur tileinkaðar skrifum á doktorsverkefninu mínu.  Þetta mjatlast áfram hægt og bítandi ... átti reyndar að vera komið í höfn í gær miðað við planið mitt en svo verður nú ekki. Það er ljóst úr þessu.

Þá er ekkert annað en að setja sér nýtt plan og það hefur nú þegar verið gert.

Því ber náttúrulega sérstaklega að fagna að í síðustu viku var fyrsta rannsóknargreinin mín samþykkt til birtingar í Journal of Environmental Psychology. Loksins, loksins ... 

Önnur greinin mín er komin aftur í hús frá tímaritinu Urban Forestry & Urban Greening og bíður þess að hægt verið að sinna þeim athugasemdum sem við hana hafa verið gerðar.

Þriðja greinin er í smíðum ásamt doktorsritgerðinni sjálfri ...

... það er því í nokkur horn að líta.

En nóg um þetta.

---

Hér á heimilinu er allt að gerast, GHPL er búin að taka stóran og góðan kipp ... svona skilningskipp, þannig að núna er hægt að tala við hana af töluverðu viti.

Hún er t.d. viljug til að fara í buxur á morgnana, ekkert mál að busta tennurnar og greiða hárið. Mikil framför þar.

Sonurinn er líka búinn að taka töluverðan kipp ... en berst um á hæl og hnakka til að losna við tannburstun, finnst afar gott að láta greiða sér og er að verða býsna matvandur.

Þannig að hér er allt eins og það á að vera.

---

Á komandi dögum og vikum verður tekin góð lota á þessu bloggi ... þannig að ... ;)  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband