Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Lynyrd Skynyrd

Fyrir nokkrum vikum fann Múrenan þessa video-klippu á www.youtube.com og góðir lesendur ... þetta er ekki klippa með KISS ... ótrúlegt!!!

Klippan er af hinni stórgóðu hljómsveit Lynyrd Skynyrd, þar sem hún á tónleikum flytur hið geysivinsæla lag "Sweet home Alabama" ...

Hvaða tónleikar þetta eru, hefur Múrenan ekki hugmynd um en þeir eru einhvers staðar í Bandaríkjunum, einhvern tímann á tímabilinu 1974 - 1977.  Ef einhver veit betur ... það um að gera að setja upplýsingarnar í athugasemdaboxið.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta lag ... það er frábært í upprunalegri útgáfu, eins og það kemur fyrir á plötunni Second Helping en Múrenan fullyrðir að þessi hljómleikaútgáfa er enn betri en "originallinn"!!

Taktu 6:14 mínútur frá og komdu þér í góðan fíling!!


Ferðaplan í febrúar

Fyrir utan að vinna eins og fálki, við skriftir og lestur, ... já og fótboltaþjálfun, er Múrenan að velta fyrir sér hvort rétt sé að koma við í Sameinuðu arabísku furstadæmnum, þegar haldið verður aftur til Sydney í febrúar ... spúsan segist vera til í allt ...

... það er náttúrulega ekkert vitlaust að klippa þetta langa flug niður í búta ...

Keflavík - London - Dubai - Singapore? - Sydney

Hljómar þetta eitthvað spennandi?

 


KISS og Eric

Múrenan ætlar að gera það opinbert að hún er á leiðinni á KISS-tónleika í Melbourne þann 16. mars næstkomandi ... já, lesandi góður ekki verða öfundsjúkur ... það geta bara ekki allir verið í sporum Múrenunnar.  Því miður!

Þessi tilkynning birtist á síðunni kissonline.com, sem er eins og nærri má geta "official" síða hljómsveitarinnar.

KISS

Ef lesendur hafa nennt að veita þessari auglýsingu athygli, þá hafa þeir séð að tónleikarnir eru hnýttir við hina geysivinsælu "formúlu", eins og flestir Íslendingar hafa kosið að nefna þennan óskiljanlega bílaleik. 

Það sem gerðist í fyrra, var að "formúlu"-keppnin í Melbourne með Schumacher og Ferrari, og hvað þetta heitir nú allt saman í fararbroddi, dró ekki að sér nógu marga áhorfendur og þess vegna hefur verið brugðið á það ráð að fá "the hottest band in the world" til að kynda aðeins undir ...

... og ráðabruggið greinilega virkar ...

Múrenan og spúsan verða á áhorfendapöllunum í "formúlunni", sunnudaginn 16. mars nk., þrátt fyrir að hafa allt fram til þessa, sýnt akstursíþróttinni fullkomið skeytingarleysi.  Auk þess hefur fjöldi liðsmanna úr hinum fræga KISSArmy, boðað komu sína ef eitthvað er að marka vefinn kissarmyaustralia.com.au.  Eftir kappaksturinn verður svo blásið til veislu ... !!

Það er alveg ljóst að sunnudagurinn 16. mars nk. verður dagur, sem vert er að gefa athygli ...

Kiss Pyro

Þess má að lokum geta að í dag, 24. nóvember, eru 16 ár liðin frá því að trommuleikari KISS, Eric "The Fox" Carr lést ... en svona fyrir þá sem það ekki vita, tók Eric við af hinum upprunalega trommuleikara sveitarinnar, Peter Criss, á því herrans ári 1980.  Eric "debuteraði" með KISS þann 25. júlí 1980 í Palladium í New York og endaði ferilinn með KISS einnig í New York, 10 árum og 9 KISS-plötum síðar eða þann 9. nóvember 1990 í Madison Square Garden.

Til minningar um Eric Carr er hér fyrir neðan hægt að smella á link, sem flytur þig lesandi góður yfir á síðuna youtube.com, og ekki bara það, heldur opnar fyrir þig dyrnar að hinu geysivinsæla lagi KISS "I love it loud", sem er að finna á plötunni Creatures of the Night, sem kom út árið 1982.
Þess má geta að það sem sérstaklega þykir einkenna þá plötu, er hinn ótrúlega öflugi trommuleikur sem þar er að finna ... búinn til af Eric Carr ...

... og "I love it loud" er gott dæmi um höggþunga og snilli Erics Carr ... smelltu hér til að hlusta.

Þess má geta að á 9. áratug síðustu aldar, var Arnari vini Múrenunnar og KISS-aðdáanda tíðrætt um hversu líkur "faðirinn" í myndbandinu væri föður Múrenunnar.  Myndbandið er því tilvalinn staður til að átta sig á hvernig faðir Múrenunnar leit út. 

Þetta verður bara að duga núna!!


Hann Manúel

Þetta er alveg ótrúlegt með hann Manúel!! 

Þetta hlýtur að vera alveg hrikalega pirrandi!!

Til að útskýra málið ... Manúel er leigusali Múrenunnar, lágvaxinn Spánverji um sextugt, með yfirvararskegg og hjarta úr gulli ... það hefur hann margsýnt bæði Múrenunni og spúsunni.  Lífshlaupið hefur einkennst af mikilli vinnu allt frá því hann kom til Ástralíu fyrir meira en 40 árum.  Þrjár vinnur og lítill svefn var hans hversdagsleiki í mörg ár ... en hann hefur líka uppskorið samkvæmt því ... til dæmis hann á tvö hús í Sydney á besta stað í bænum og búgarð í sveitinni, þar sem hann dvelur lungann úr árinum.  En þrátt fyrir miklar eignir og sand af seðlum, hagar hann sér afskaplega skynsamlega í peningamálum, því hann er bæði sparsamur, hagsýnn og afskaplega nýtinn ... og fyrir vikið á hann fullan bílskúr af alls kyns dóti og drasli, sem hann hefur sankað að sér í gegnum tíðina ...  sem er eitthvað sem Múrenan og spúsan hafa notið góðs af ...

"Í guðanna bænum talið þið við mig áður en þið kaupið eitthvað til að hafa hér innanstokks", hefur hann sagt svo oft að Múrenan hefur ekki tölu yfir það lengur, "ég er með fullan bílskúr af öllu mögulegu, sem ég get látið ykkur hafa ef vantar ... bara að nefna það!!"  Svo koma yfirleitt langar upptalningar á öllum mögulegum hlutum sem finna má í bílskúrnum.  Sem dæmi, spurði Múrenan Manúel hvort hann ætti nokkuð viftu til að lána sér, til að kæla aðeins í íbúðinni ... "Hvort viltu litla, miðlungs eða stóra, á fæti eða ekki?" var svarið.  "Ég á fullt af viftum og ég skal bara koma með nokkrar og svo getið þið bara valið!" 
Fyrir utan þetta er líka hægt að óska eftir að fá að skoða dótið í bílskúrnum og velja það sem maður vill ...

Fyrir utan þessi miklu liðlegheit, þá segist hann líka vera alveg hættur að nenna að græða á leigjendum sínum.  "Við höfum þetta bara ódýrt, bara nóg til að standa undir kostnaði og einni máltíð á veitingastað", segir Manúel og klappar Múrenunni á bakið.  Og hann stendur líka alveg við orð sín ... leigan sem Múrenan og spúsan borga er hlægileg ...
"Svo þegar þið farið til Íslands, þá bara lækkum við leiguna, af því að þið notið þá náttúrulega ekki gasið, rafmagnið og vatnið ... eruð þið ánægð með 40% lækkun á leigunni eða viljið þið meiri lækkun?"  Múrenan og spúsan hafa ekki alveg vitað hvernig á að svara þessu ... auðvitað vilja þau meiri lækkun en ... þetta er dálítið óvenjuleg staða ...

Og til að undirstrika enn frekar hvaða mann Manúel hefur að geyma, þá má nefna það að hann keyrði í 5 klukkustundir, frá búgarðinum sínum til Sydney, bara til að hjálpa einum leigjandanum sínum að flytja út úr íbúðinni!!  Já, hann kom gagngert til Sydney, svona til að aðstoða svolítið, því hann vissi að leigjandi var í vandræðum ... 

En þrátt fyrir hjartagæsku sína og ótrúleg liðlegheit, virðist Manúel ekki hljóta náð fyrir augum veðurguðanna, því í hvert einasta skipti sem maðurinn nálgast austurströnd Ástralíu, fer að rigna yfir hausamótunum á honum og öðrum sem eru nærri honum ...

Já, það rignir eldi og brennisteini í Sydney í hvert skipti sem Manúel er í bænum ... undantekningalaust ...

Sjálfur segist hann ekkert skilja í þessu ...

Og þetta gildir ekki bara fyrir Sydney ... því um daginn skrapp Manúel í vikufrí til Brisbane, ásamt konu sinni Fötmu, bara svona til að teygja aðeins úr sér eftir mikla vinnutörn á búgarðinum, sóla sig og sprikla á ströndinni ... og nota bene, Brisbane er þekkt fyrir góðar sólarstrendur, hita og frábært veður ...

En annað kom á daginn því þessa vikuna rigndi andskotann ráðalausan alla dagana og sundskýlan hans fór aldrei uppúr ferðatöskunni.  "Við sátum bara inni á herbergi allan tímann, fyrir utan þegar við skruppum á veitingahús á kvöldin ... það var ekkert hægt að vera á ströndinni", sagði Manúel við spúsuna mæðulega og nuddaði á sér ennið.

Og núna í vikunni, eftir alveg fantablíðu í marga daga, gerði allt í einu þrumuveður á miðvikudagskvöldið ... og viti menn ... á fimmtudagsmorguninn bankaði Manúel á dyrnar hjá Múrenunni og spúsunni.  "Já, ég kom í bæinn í gær!" 

Skýringin á þrumuveðrinu var því augljós ... !!!

Það er því ekkert skrýtið að í hvert skipti sem dropi dettur úr lofti að Múrenan og spúsan leiði hugann að því hvort "Manúel sé í bænum"!!


Skiltið

Loksins, loksins ... Múrenan er að verða "important" ...

Af hverju?

Hún hefur fengið nafnið sitt á hurðina á skrifstofu 556, sem er að finna á fimmtu hæð Wilkinson-byggingarinnar, sem hýsir arkitekta-, hönnunar- og skipulagsdeild Háskólans í Sydney ...

Að fá skiltið, sem nafnið er letrað á, hefur ekki verið átakalaust ... alltént hefur það tekið um fjóra mánuði að útbúa það ...

Það var ekki fyrr en Ann Christian, umsjónarkona hér í byggingunni gekk í málið að hlutirnir tóku kipp.


Fingur Múrenunnar bendir á hið eiginlega nafn hennar sem er víst Páll Jakob Líndal, en því miður gat Ann Christian ekki útvegað breiða sérhljóða á viðeigandi stöðum, þrátt fyrir einlægar óskir Múrenunnar, þannig að Pall Jakob Lindal verður að duga.

Að sjálfsögðu miðast uppröðun nafnaskiltanna á hurðina við mikilvægi þeirra sem bera viðkomandi nafn ... með öðrum Múrenan er mikilvægust og best!!!

Athugasemdaboxið hér á síðunni er tilvalinn staður fyrir hamingjuóskir vegna frábærs árangurs ... og hamingjuóskir eru vel þegnar!!


Múrenan hæstánægð með skiltið ... enda mikilvægur áfangi hér á ferðinni!!


Múrenan er sendiboði Jesú

Múrenan var í hlutverki knattspyrnuþjálfara í gærmorgun ... alveg æðislegs þjálfara, sem á svoleiðis eftir að koma liðinu Gladesville Ryde Magic rakleiðis á toppinn í fyrstu deildinni (sem reyndar er 3. deild) í flokki U-14.  Það er næsta víst ...

En það er ekki umfjöllunarefni dagsins ...

... því eftir heilmikla æfingu í gær, þar sem endanlegt lið var valið, ákváðu Múrenan og spúsan, sem var með í för í þeim fylgjast með þjálfaratilþrifum Múrenunnar, að þiggja ekki far hjá Gary aðalþjálfara, heldur njóta dagsins í norðurhluta Sydney, skoða sig um og njóta veðursins ...

Þau röltu af stað, áleiðis eftir Epping Road.  Stefnan var sett á heilmikla verslunarmiðstöð, sem ber heitið "Macquires verslunarmiðstöðin", en þar átti að fá sér eitthvað gott að borða.  

Múrenan vissi að nauðsynlegt væri að hefja leikinn með góðu áti ... reynslan hefur kennt henni hversu "skemmtilegt" það er að rölta um og njóta veðursins með spúsuna á barmi næringarskorts ... en nærtækasta samlíkingin er líklega sú að dröslast með öskrandi skógarbjörn í bandi um borgina!

En viti menn ... eftir að hafa gengið ofurlítinn spöl eftir Epping Road, gengu Múrenan og spúsan beint í flasið á hjónum frá Queensland, nánar tiltekið frá Gold Coast. 

"Fyrirgefið þið, vitið þið nokkuð hvar Cullborn Road er?" spurði konan hæversklega ...

"Cullborn Road??"  Hvorki Múrenuna né spúsuna rámaði í þetta götunafn ...

"Við vorum að koma með flugi frá Queensland og svo tókum við lestina og svo tvo strætóa og strætóbílstjórinn sagði okkur að við ættum að fara úr við Macquires verslunarmiðstöðina og ganga í 5 mínútur til að komast á Cullborn Road ... en við höfum nú þegar gengið í klukkutíma!!"

Múrenan horfði á hjónin ... þau voru komin af léttasta skeiði, það var nokkuð ljóst ... karlinn með staf og virtist eiga nokkuð erfitt með gang, þannig að klukkutíma ganga, þýddi nú kannski ekki það þau væru búin að ganga mikla vegalengd ...

"Eigum við ekki bara að aðstoða ykkur að finna þetta?" spurði Múrenan allt í einu.

Fólkið gapti.  "Mikið afskaplega eruð þið indæl!!  Við viljum nú ekki vera að trufla ykkur, en ... "

"Issss ... þetta er ekkert mál!"

Hafi fólkið verið undrandi á tilboði Múrenunnar, þá var spúsan mjög undrandi, því allt fram á þennan dag hefur Múrenan ekki beinlínis verið þekkt fyrir sérstök liðlegheit þegar ókunnugt fólk er annars vegar ... 

"Rosalega var þetta gott hjá þér!"  Spúsan brosti sínu breiðasta ... "þér er að fara fram!!"

Múrenan sjálf var nánast miður sín ... hún hafði misst þetta út úr sér ... þetta var svo algjörlega út úr karakter.  Andskotinn sjálfur!!

"Já, já ... mér finnst þetta nú bara alveg sjálfsagt!!  Karlinn getur varla gengið, taskan er þung og matarpokarnir líka!"  Múrenan reyndi að hljóma kæruleysislega ... "Taktu pokana af kerlingunni og ég skal taka töskuna!"

Svo byrjaði röltið ... Múrenan fór fremst í flokki, gekk rösklega og reyndi að setja pressu á liðið að koma sér úr sporunum, en það gerðist nú ekki ... karlinn mallaði bara eins og gömul gufuvél ...

"Voðalegt hangs er þetta eiginlega!!"  Múrenan dokaði við og þegar hún sá móta fyrir spúsunni, karlinum og kerlingunni í fjarska, hélt hún áfram ... Svona gekk þetta drjúga stund ...

"Strætisvagnabílstjórinn sagði að þetta væri 5 mínútna gangur".  Orð konunnar bergmáluðu í haus Múrenunnar.  "Hann er nú meira fíflið þessi strætóbílstjóri", hugsaði Múrenan.

Loksins fannst Cullborn Road.  "Hús númer 162", sagði konan þegar þau höfðu náð í skottið á Múrenunni á horni Cullborn Road og Epping Road.  Múrenan tætti af stað ... spúsan, karl og kerling á eftir.

Fyrsta húsið var nr. 94, svo var gengið lengi, lengi ... Múrenan nam staðar við hús nr. 122.  Hún nam staðar. 

"Er þetta þarna??", heyrði Múrenan spúsuna kalla úr fjarska ... "Nei, þetta er númer 122!" kallaði hún til baka.  "Ha?!"  "Þetta er númer 122!!!"

Þrátt fyrir að fjarlægðin væri mikil milli Múrenunnar og hinna mátti glögglega sjá vonbrigði hjónanna.  Múrenan hélt áfram. 

Hún gekk óralengi.  142, 148, 152, ... 162!!!  Hérna var það ... en nú tók við bið ... 

Jæja, loks komu þau ... karlinn var orðinn svo þreyttur á því að ganga að hann var hættur að nota stafinn, þess í stað vingsaði hann stafnum bara fram og aftur ... býsna undarleg sjón ...

"Hann hefur ekki gengið svona langt í mörg ár!", tilkynnti konan ... "ekki einu sinni á flugvöllum ... því þegar við er á slíkum stöðum, keyri ég hann alltaf um í hjólastól!"

"Það var ekki skrýtið að hann kæmist ekki úr sporunum", hugsaði Múrenan ... 

En mikið var fólkið fengið að vera loks komið á áfangastað.

"Þakka ykkur alveg kærlega fyrir, þetta var algjörlega ómetanlegt ... ef þið komið einhvern tímann til Gold Coast, þá skuluð þið hafa samband við okkur ... þið getið gist hjá okkur ... "  Konan rétti spúsunni miða með nafni og heimilisfangi.  "Leyfið þið mér að kyssa ykkur fyrir!!"  

Karlinn var líka himinlifandi vegna aðstoðarinnar og reyndi að bera sig mannalega, þó hann væri nánast að niðurlotum kominn ... "Hérna takið þið strætómiðana okkar, þeir gilda í allan dag ... við hreyfum okkur ekki meira í dag!!"

Múrenan og spúsan þökkuðu fyrir miðana og margítrekuðu að þetta væri nú ekki málið ... bara gaman að geta hjálpað ... Múrenan ranghvolfdi í sér augunum.  "Þvílík lygi!!"

Hjónin stóðu út á tröppum og veifuðu, þegar Múrenan og spúsan yfirgáfu svæðið ...

"Jesús hlýtur að hafa sent ykkur til að hjálpa okkur!!" var það síðasta sem þau heyrðu ...

Hjartað í Múrenunni tók kipp og hrollur fór um hana alla, sviti spratt fram á enni hennar. 

"Heyrðir þú þetta??!  Þau sögðu að við værum sendiboðar Jesú! ... vá ... rosalega hefur þetta skipt þau miklu máli ... "  Múrenan horfði á spúsuna.  Hún brosti sínu breiðasta.

"Já, það er svo gaman að hjálpa öðrum ... ég er alltaf að segja þér það!" 

"Já, þetta er skemmtilegt ... við skulum gera þetta aftur!!!" 

Múrenan flautaði lítinn lagstúf, sólin skein í heiði og fuglarnir sungu ...

Þar hafið þið það, lesendur góðir ... hjálpið náunganum!!!


Tónlistartíminn

Múrenan var á röltinu, ásamt spúsu sinni, um miðbæ Sydney-borgar, nánar tiltekið í Pitt-stræti, þegar á vegi þeirra varð maður nokkur, sem sennilegast átti ættir sínar að rekja til Japans.  Þessi ágæti maður var með gráan skeggtopp líkt og geithafur, plástruð gleraugu og hvítan hatt á höfðinu, íklæddur ljósbleikum jakka og gráum buxum.

Hann sat á stólgarmi og fyrir framan hann voru útbreidd blöð, sem á voru letruð tákn, sem Múrenan hafði ekki þekkingu til að ráða í ...

Fyrir utan þetta allt saman lék maðurinn af miklu listfengi á hljóðfæri, sem Múrenan hefur hvorki fyrr né síðar séð ... þetta var einhvers konar strengjahljóðfæri ...

Myndin hér að neðan ætti kannski að upplýsa lesendur betur ...


Þetta er japanski hljóðfæraleikarinn á Pitt-stræti

Múrenan staldraði aðeins við og horfði á manninn, og hlustaði á tónana sem hann kreisti útúr hljóðfærinu ... þetta var bara nokkuð snjallt hjá honum og þess vegna stakk Múrenan höndinni í vasann og seildist eftir 50 centum til að setja í hvíta kassann sem sést fremst á myndinni.  Karlinn var greinilega að gera það gott þennan daginn, því það klingdi í þegar peningurinn lenti í kassanum.  Múrenan gekk svo í burtu ...

... en sá japanski var nú ekki aldeilis á því ... "Hei, halló ... komm ... komm"!!  kallaði hann á eftir Múrenunni. 

"Hvað??  Er karlinn að heimta meiri pening?!!?  Hvaða andskotans frekja er þetta eiginlega??!!"  Múrenan sneri sér við ...

"Jú vanna plei ... komm ... jú plei"  Múrenan leit á spúsuna ...

"Drífðu þig, farðu og spilaðu ... hann er að bjóða þér það!!"  Múrenan hafði engan sérstakan áhuga á því ...

"Svona drífðu þig!!"  Múrenan lét tilleiðast, gekk að hljóðfæraleikaranum og ætlaði að taka kumpánlega í höndina á honum, en hann hafði nú ekki hugsað sér það ...

"Sitt dán!" sagði hann bara og þrýsti Múrenunni niður á stólinn.  Múrenan hlunkaðist niður og var áður en hún gat rönd við reist, komin með þetta undratól í hendurnar.  Karlinn stóð aftan við stólinn, umvafði Múrenuna örmum sínum og gaf skipanir um hvernig bera ætti sig að við hljóðfæraleikinn ...  Vinstri höndin átti að fara á hálsinn á hljóðfærinu og sú hægri átti að halda um bogann, sem notaður var til að strjúka strengina ...


Múrenan lærir réttu tökin

Eftir stystu kennslu í heimi, taldi kennarinn að Múrenan væri orðin fullnuma og vék hann því frá henni.  Tími Múrenunnar var með öðrum orðum, runninn upp!!

"ÓOOOO ... bí kerfúl, dónt breik it!!!"  hrópaði Japaninn allt í einu, þar sem hann stóð álengdar og fylgdist með því þegar Múrenan lék á "instrumentið".  Múrenan snarstoppaði ...

"Kíp góing ... jess ... kíp going!!"  Hann bandaði út öllum öngum.  Múrenan byrjaði aftur að leika ...

Ekki tókst Múrenunni nú að fá fram mjög fallega tóna, alltént hljómaði leikur hennar býsna ólíkt því tónaflóði sem karlinn hafði framkallað, þegar hann lék við hvern sinn fingur ... "sándið" var meira eins og "sarg-hljóð", sem hvorki Múrenan né vegfarendur höfðu gaman af að hlusta á ...

Múrenan brosti samt á víxl framan í eiganda hljóðfærisins og í myndavél spúsunnar, eins og hún væri að upplifa hápunkt ævi sinnar þennan eftirmiðdaginn á Pitt-stræti ...


Múrenan þykist hafa gaman af því að spila á hljóðfærið

Eftir ekki svo langa stund, fannst karlinum greinilega nóg komið ... "Ókei ... þeink jú ... " sagði hann og rétti fram höndina í því skyni að fá hljóðfærið aftur í hendurnar.  Múrenan rétti honum hljóðfærið ...

"ÓOOO ... bí kerfúl!!"

Múrenan var orðin sveitt á bakinu, af þessu öllu saman ... og var frelsinu fegin, þegar að hún hafði komið skrapatólinu í lúkurnar á karlinum aftur, óbrotnu ...

Hún hneigði sig brosandi, þakkaði fyrir sig og gekk til spúsunnar ...

"Af hverju spilaðir þú ekkert lag ... þetta voru alltaf sömu tónarnir aftur og aftur!!" 
"Nú af því ég kann ekkert á þetta!"
"Jú, jú, þú áttir auðvitað að ýta á strengina, bara eins og á gítar ... !!!  Spila Gamla Nóa eða eitthvað!!"

Múrenan hristi bara hausinn ...


Að gera í buxurnar

Múrenan hefur yndi af orðatiltækinu "að gera í buxurnar".  Á sú aðdáun rætur að rekja til þess að í orðatiltækinu felst ákaflega smekkleg útlisting á heldur óæskilegri athöfn, en eins og margir vita er mjög auðvelt að falla í þá gryfju að nota ruddalegt og allt að því viðbjóðslegt orðfæri til að lýsa umræddum gjörningi.

Föður Múrenunnar var tamt að nota þennan frasa, hér á árum áður ... 

"Passaðu þig nú að gera ekki í buxurnar", sagði hann, þegar Múrenan fór mikinn við að sýna líkamlegan styrk sinn ... til dæmis við að lyfta stórum steinum eða berja niður girðingarstaura.  Og Múrenan hló og hafði gaman af ... kannski fyrst og fremst vegna þess að hún "gerði ekki í buxurnar", þótt kannski hefði litlu mátt muna stundum. 

En af hverju að vera að ræða um þetta?

Jú, ástæðan er einföld ...

Þótt Múrenan hafi gaman af orðatiltækinu, þá hefur hún ekki gaman af því að framkvæma umrædda athöfn og skipar sér þar með á bekk með flestum sem eru eldri en 2ja ára.  Það hins vegar kom ekki í veg fyrir það að Múrenan "gerði í buxurnar", lýtalaust og af umtalsverðu öryggi, þegar hún fór mikinn í lýsingu á "massífri" lögregluaðgerð í Redfern, á blogginu í gær ...

Í bloggfærslu gærdagsins sagði eftirfarandi:

"Ibuar Redfern, en thad er nafn ibudarhverfisins, sem logregluadgerdinni er beint ad ... vita ekki hvadan a sig stendur vedrid ... en Murenan thykist vita thad ...

... malid er einfalt ... "

Og í kjölfarið kom útlisting á því vandræðaástandi sem ríkir í málefnum fólks af frumbyggjaættum í Ástralíu og ástandinu í Redfern ... svo sagði í færslunni:

"Adgerd dagsins midast ad thvi, samkvaemt heimildum Frettastofu Murenunnar i Sydney (FMS) ad uppraeta eitthvert bull, sem er og hefur verid i gangi i Redfern, radast inn a heimili, gera hluti upptaeka, handtaka og fangelsa ogaefufolkid ... "

Þessar heimildir voru hins vegar bara rugl og þvæla frá upphafi til enda ...

Það sem raunverulega gerðist var að það kviknaði í húsi í Redfern klukkan 8 í gærmorgun og lögreglan lokaði götum til að forðast óþarfa umferð á vettvangi.  Samkvæmt öruggum heimildum FMS, voru fjórir fluttir á sjúkrahús, einn með alvarleg brunasár ...

Múrenan er sannleikselskandi og vill því leiðrétta stórfrétt gærdagsins ... og viðurkennir það enn og aftur að hún "gerði í buxurnar"!! 


Að skrifa íslensku á enskt lyklaborð

Það lítur út fyrir að Múrenan sé fædd í gær ...

Múrenan er með enskt lyklaborð á skrifstofunni hjá sér, sem er kannski ekki undarlegt þar sem University of Sydney útvegaði lyklaborðið og gert er ráð fyrir að fólk riti ensku á lyklaborðið.  Múrenan hefur því um þónokkurt skeið bögglast við að skrifa íslensku á lyklaborðið, eins og það er nú skemmtilegt eða hitt þó heldur ...

Jæja, en í dag, benti samnemandi Múrenunnar, Chumporn Moorapun, henni á þá einföldu staðreynd að það er hægt að skrifa lýtalausa íslensku á enskt lyklaborð, einfaldlega með því að breyta nokkrum stillingum í tölvunni ... svo gerði hann það og viti menn ... lesendur ættu að sjá afraksturinn, ef þeir eru á annað borð læsir!!!

Múrenan spyr nú sjálfa sig "hvaða andskotans fífl hún sé eiginlega??" ...

Afleiðingin af þessari vitleysu allri saman er sú að núna getur Múrenan varla skrifað íslensku á íslenskt lyklaborð ... til dæmis í þessari færslu hefur hún þráfaldlega skrifað "d" í stað "ð" og "th" í stað "þ", að ógleymdum vandræðunum við að muna að setja kommu ofan við "ú" og "í", svo dæmi séu tekin ... 

Svona ganga nú hlutirnir fyrir sig í Sydney þennan daginn!!!


Logregluadgerd

A leidinni i skolann i morgun, lenti Murenan mitt i hringidunni ... Thad var meirihattar logregluadgerd i gangi i Redfern, gotur lokadar og logreglumenn grair fyrir jarnum hvert sem litid var ...

 Kikjum nanar a malid ...

Murenan yfirgefur heimili sitt, frekar seint thennan morguninn, gengur hratt en samt afslappad nidur Cleveland Street.  Thad er fremur heitt i vedri, halfskyjad og ekkert bendir til annars en fallegur dagur se i vaendum.  A vegi Murenunnar verda fjolmargir karakterar, til daemis, gamall AC/DC addandi med staf og sitt har, litil og fremur digur kona, sem hleypur i theirri von ad na straetisvagni numer 352, stelpa med stor solgleraugu, roni sem situr a kirkjutroppum og vonar ad Murenan gefi ser pening og stelpa i bleikri skyrtu og med bardastoran hatt.  Thetta er bara svona til ad nefna einhverja ...

Vid posthusid a Cleveland Street, sem nota bene, hlytur ad eitthver glaesilegasta postbygging i veroldinni, gengur Murenan inn i flugnager ... sem er ekkert ovenjulegt, thvi alltaf i namunda vid posthusid er flugnager ... fjoldinn allur af fullkomlega otholandi flugum, sem vilja helst bara setjast a andlit Murenunnar!!  Eftir ad hafa bandad theim fra ser og oska theim ollum godrar ferdar til helvitis, losnar Murenan vid flugurnar ... en viti menn ...

A naesta gotuhorni, thar sem Pitt Street maetir Cleveland Street, hefur logreglan lokad fyrir umferd.  Abudarmikill logreglumadur gefur bendingar.  Hann er svo valdmannslegur ad Murenan brytur odd af oflaeti sinu og hleypur ekki yfir gotuna a raudu ljosi ... thess i stad bidur hun eftir graena karlinn ... Thad er lika eins gott, thvi eins og thruma ur heidskiru lofti, kemur "leynilogreglubill" a fleygiferd og hefdi liklega keyrt yfir Murenuna, ef hun hefdi verid ad flaekjast fyrir!!

A tharnaesta gotuhorni, thar sem Regent Street sker Cleveland Street (eda ofugt) hefur einkennimerktum og oeinkennismerktum logreglubilum verid lagt thvers og kruss.  Gatnamotin eru nanast ofaer!  Langar bilaradir hafa myndast, otholinmodir bilstjorar flauta og bolsotast.  Logregla laetur thad litlu mali skipta ... hennar hlutverk er ad gaeta oryggis borgaranna, eins og einn godur logreglumadur ordadi thad vid Murenuna, ekki fyrir margt longu ... Murenunni thotti gott ad vita thad ... oryggid er fyrir ollu!!

Thyrla sveimar yfir herlegheitunum, tilbuin til atlogu ... ef a tharf ad halda ...

Ibuar Redfern, en thad er nafn ibudarhverfisins, sem logregluadgerdinni er beint ad ... vita ekki hvadan a sig stendur vedrid ... en Murenan thykist vita thad ...

... malid er einfalt ...

Redfern er eitt af dokku hverfum borgarinnar.  Thar byr folk sem hefur ekki notid mikillar gaefu i lifinu, folk sem einhvern veginn hefur setid og situr enn a olnboga samfelagsins, ... flestir eru af aettum astralskra frumbyggja, en eins og althekkt er, hafa their ekki notid sannmaelis her, allt fra thvi Bretar ruddust inn i Astraliu undir lok 18. aldar.  Afleidingin er hrikaleg ... og Redfern er eitt daemid um thad ... alkoholismi, eiturlyfjanotkun, atvinnuleysi og ofbeldi er i havegum haft thar ...

Adgerd dagsins midast ad thvi, samkvaemt heimildum Frettastofu Murenunnar i Sydney (FMS) ad uppraeta eitthvert bull, sem er og hefur verid i gangi i Redfern, radast inn a heimili, gera hluti upptaeka, handtaka og fangelsa ogaefufolkid ...

Eins og adur segir, mitt inn i thessa hringidu er Murenan stodd ... vopnud myndavel eins og hun er gjarnan, til ad festa a "filmu" thad sem frettnaemt gerist her i borginni ...  Hun smellir nokkrum af, og afraksturinn ma sja her fyrir nedan ...


Gatnamot Cleveland Street og Regent Street 


Thyrlan sveimar yfir Redfern

Logreglumadur avarpar Murenuna ... "Please, pass the road!" (Vinsamlegast fardu yfir gotuna!) segir hun.  Murenan hlydir, thorir ekki odru ... Thyrlan tekur "swingid" nuna, einn lettur hringur fyrir ahorfendur ... Murenan akvedur ad "pilla ser".  Ofgnott frettafodurs er nu thegar komin i hus.  Murenan maetir kafrjod og bullandi sveitt, 10 minutum of seint,  i vidtalstima hja professor Gary Moore.

Ja, thad verdur ekki sagt annad en Murenan se a tanum herna i Sydney - aetlar einhver ad motmaela thvi??!!!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband