Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Mánudagur 31. maí 2010 - Dóttirin skammast

Sydney tók boltann í höndina og gekk hröðum skrefum að svaladyrunum og út á svalirnar.  Augljóslega var næst á dagskrá að henda boltanum milli rimlanna og horfa á eftir honum falla til jarðar af fjórðu hæð.

Undirritaður brást snögglega við, eins og oft áður, og náði að góma knöttinn áður en hann flaug sína leið.  Því næst stökk ég lipurlega inn í stofuna aftur og hélt áfram vinnu minni.

Syd var sko allt annað en ánægð með þetta framtak mitt.  Hún messaði brúnaþung lengi og hátt yfir mér, þar sem hún stóð í svaladyragættinni.  Svo þagnaði hún og gekk hún inn í stofuna.  Hún gekk rakleiðis til mín og horfði reiðilega á mig.  Messan byrjaði aftur.  

Þvílíkur orðaflaumur! 

---

Það sem eftir lifði dags einkenndist af ítrekuðum köllum og skömmum af hálfu dótturinnar.  Ég var skammaður og móðirin var skömmuð.

"Maaaammmmmmmaaaa ... komdu hérna!!!" gólaði sú stutta í skipunartón innan úr stofunni meðan verið var að matreiða í eldhúsinu. 

---

Í kvöld fékk hún svo ís ...

---

Annars er bara allt gott að frétta ...

... nýnæmi dagsins var að hella úr stóru vatnsglasi fram af svölunum.  Ég ákvað að bíða með að gera það þangað til allt sæmilega vitiborið fólk væri farið að sofa (nB! 99% Svía fer að sofa kl. 9 á kvöldin).  

En það er mjög gaman að gera þetta.  Hella vatninu úr glasinu og bíða svo í smástund eftir að það lendi á jörðinni.  Horfa svo yfir nágrennið og athuga hvort nokkur maður hafi séð til.


Sunnudagur 30. maí 2010 - II. færsla - Kosningar

Ekki er nú hægt að sleppa þessum degi án þess að minnast, þó ekki væri nema í örfáum orðum á kosningar sem fóru fram í gær.

Til að byrja með er ég feykilega ánægður með að í Djúpavogshreppi ákvað oddviti síðustu 8 ára, Andrés Skúlason að bjóða sig fram til næstu fjögurra ára.  Listi Andrésar, Nýlistinn, var einn í framboði og var því sjálfkjörinn.
Þar með er búið að tryggja sveitarfélaginu góða forystu á kjörtímabilinu.

Svo ber að nefna Reykjavík.  Þar þurrkaðist Framsóknarflokkurinn út og er það vel.  Reyndar var mjög áhugavert að heyra sjónarmið Guðmundar Steingrímssonar um frammistöðu flokksins síðan "endurnýjunin" átti sér stað. Guðmundur gaf flokknum réttilega falleinkunn. 

Nú er spurning hvað Besti flokkurinn gerir.  Ég er viss um að liðsmenn hans munu standa sig vel.  Margt af því fólki sem þar er að finna er siglt fólk.  Nýjar aðferðir gætu sést, og vonandi tekst flokknum betur upp en Borgarahreyfingunni.

Og ef hægt væri að koma svolítið meiri gleði inn í umræðuna, þar sem stundum væri rætt það sem vel er gert.  Það væri ekki svo mikill áfangi. 

Frasi dagsins er innkoma Jóns Gnarr á kosningavöku Besta flokksins í nótt: "Áfram alls konar!!"

Ég er ekki viss um að það sé hægt að orða þetta betur ... 

---

Svo er komið að nýnæmi dagsins.  

Undanfarna daga hef ég sinnt þeim verkefnum.  T.d. hef ég tannburstað mig meðan ég hljóp niður stigaganginn og út til að ná í hjólið mitt og setti það inn í hjólageymslu.  

En í dag var málið að skríða undir stofuborðið.  Sú athöfn var tekin upp en því miður er tækin mikið að stríða mér núna þannig að ...

Að skríða undir borðið var merkileg upplifun ... og töluvert erfiðari en ég taldi í upphafi, enda stofuborðið ekkert sérlega stórt.  


Sunnudagur 30. maí 2010 - Eurovision

Mér finnst alltaf áhugavert að sjá viðbrögð fólks víða í Evrópu í kjölfar úrslita í Eurovision.

Árlega má sjá og heyra hversu ömurlega mikil spilling og pólitík sé þar á ferðinni.  Að flytjendur og lagahöfundar njóti sjaldan eða aldrei sannmælis.  Aldrei hefur það verið verra en einmitt nú þegar austantjaldslöndin eru orðin svona mörg.

Og núna eftir sigur Þýskalands, má velta fyrir sér hvaða "pólitík" og "spilling" hafa ráðið úrslitum.  
Þjóðverjar eiga sér nefnilega svo rosalega marga pólitíska "bandamenn" ... eða hvað?  Ekki var lagið gott!!!

Það má slíka spá í alla pólitísku spillingarpésana sem kusu Noreg og Ísland í fyrra.  

---

Í glæsilegu og skemmtilegu Eurovision-partýi sem Sverrir og Dana héldu í gærkvöldi voru, að því ég best veit, Íslandi greidd atkvæði bæði með hægri og vinstri.  Annað kom vart til greina að mati viðstaddra.

Pólitík og spilling??

Eða kannski bara sú tilhneiging fólks að vilja halda með "liðinu" sínu (landinu í þessu tilfelli).

---

Niðurstaða mín er eins og oftast áður sú að ólíkur smekkur fólks á lögum ráði töluvert miklu, menningarmunur ræður svolitu, en fer sífellt minnkandi vegna þess að tilveran er öll að "glóbariserast".

Í þriðja lagi er það búseta fólks.  Íslendingar búa í Danmörku, Rússar í Eistlandi, Tyrkir eru út um allt o.s.frv.  Vegna landfræðilegrar staðsetningar sinnar hafa margir tækifæri á að gefa landi sínu atkvæði sitt, af nákvæmlega sömu ástæðu og við í partýinu í gær kusum öll Ísland.

Af hverju í ósköpunum með pólitík í huga gáfu t.d. Eistar rússneska "ofurtenórnum" 10 stig? Serbar gáfu Bosníumönnum 12 stig og öfugt?  Er það vegna bræðralags og vinskapar á síðastliðnum árum?

Það eru væntanlega allir búnir að steingleyma Slobodan Milosevic.


Fimmtudagur 27. maí 2010

Jæja ... þá er seinni Eurovision-undankeppnin að baki.  Svíarnir sitja eftir með sárt ennið ...

Nú er bara að sjá hvort Hera stendur við stóru orðin á laugardaginn.

---

Ég hef bókstaflega ekkert annað gert í dag en að vinna að sýndarveruleikanum mínum.  Ótrúlegur tími sem fer í að útbúa þetta.

En betur má ef duga skal.

--- 

Nýnæmi dagsins kemur fram í myndbandinu hér fyrir neðan.

Eins og ég sagði einhvern tímann, þá er Lauga líka að spreyta sig á nýnæmi dagsins.  Í dag fékk hún sér pizzu með skinku og ananas, og bætti svo lakkrís ofan á?!?

Henni fannst þetta "bara gott"?!?!

---

Guddan átti sína spretti í dag ... hér eru sýnishorn.


Meira en sátt með nærbuxurnar á höfðinu ... 

 


Miðvikudagur 26. maí 2010

Um kaffileytið fór ég í foreldraviðtal á leikskólanum hjá Guðrúnu.

Í viðtalinu var farið yfir helstu viðfangsefni dótturinnar í skólanum og hvernig hin ýmsu þroskastig tækju á sig breytingar.
Fátt kom mér á óvart þar, en ég verð að segja að ég var mjög glaður að heyra kennarana segja að Guddan væri mjög glatt barn.

Einnig kom fram að hún væri vinsæl meðal samnemenda sinna og börnin sæktu mjög í að leika við hana og vera með henni. 

 
Dóttirin sýnir jafnvægislistir á sófabakinu

Frá því hún byrjaði hefur hún tekið miklum framförum hvað varðar hreyfiþroska.  Sú iðja sem hún stundar mest er, eins og áður hefur komið fram hér á blogginu, hlaup og klifur.  Þá er hún töluvert mikið í fótbolta og í því að gera jafnvægisæfingar.  T.d. að ganga eftir plönkum eða stíga upp á stóra trjábúta.

Þá er hún óðum að taka samnemendur sína í sátt og er farin að eiga við þá samskipti í meira mæli en áður hefur tíðkast.
Samskiptin byggjast þó helst á að skiptast á hlutum.

Sandkassinn er aðeins að tikka inn ... en allt fram að þessu hefur lítill áhugi verið hendi.

Svo má nefna að hún hefur gaman af því að skríða inn í skápa og fela sig.  Maður hefur orðið var við það upp á síðkastið.  Í gær t.d. skreið hún inn í hillu í ICA matvöruverslun og faldi sig þar innan um grillkolapoka o.þ.h. 

---

Nýnæmi dagsins í dag og það fimmta í röðinni er að vaska upp hnífaparasett með fótunum.

 


Þriðjudagur 25. maí 2010

Hera rétt slapp inn ... og við fögnuðum hér í Uppsala ... enda setti hún þetta lag gjörsamlega í vasann.  Ég hef ekki heyrt lagið síðan það vann keppnina heima á Íslandi, en mér fannst þær breytingar sem ég heyrði svona í fyrstu lotu, vera allar til batnaðar.  Sérstaklega var ég feginn að endatónninn var lækkaður um áttund.  Sá tónn var mjög tæpur mér í forkeppninni.


Blakandi fáni í Sandgerði þann 12. apríl 2006. 

Með árunum hef ég sífellt meira gaman af Eurovision.  Gaman að sjá og heyra hvað fólki dettur í hug og hvað það framkvæmir.

---

Það er líka með ólíkindum hvað það er alltaf gaman að sjá íslenska fánann ... hvort sem það er í sjónvarpinu eða annars staðar.

Það er eitthvað sem hefur svo sannarlega breyst á þessum þremur árum sem maður hefur búið erlendis. 

---

Nýnæmi dagsins er einfalt ... standa á höndum í stofusófanum í 15 sekúndur.

---

Fór og hitti Terry leiðbeinanda minn í dag.  Við áttum ágætis spjall og hann kom með fínar ábendingar.

Annars hef ég verið frekar svona þurr á manninn í dag.  Veit ekki alveg ástæðuna fyrir því ... kannski skiptir hún ekki svo miklu máli heldur.  

Ætla að vera betri á morgun. 


Mánudagur 24. maí 2010

Svalirnar heima hjá okkur hér í Uppsala eru u.þ.b. 4 x 1 m að stærð.  Í öðrum enda þeirra eru garðhúsgögn og gervihnattamóttakari, sem rýra plássið umtalsverð, þannig að athafnarými er í mesta lagi 3 x 1 m.

Ég ætla að fara í 10 kollhnísa á svölunum í dag, algjörlega óháð veðri.  Engin hjálpartæki leyfð.

Hér má sjá nýnæmi dagsins.

 

---

Það er gaman að segja frá því að Guðrún er þessa dagana mikið í því að kveðja allt og alla.  Þegar hún yfirgefur "samkvæmið" þá snýr hún sér að persónum eða hlutum, veifar ótt og títt og segir "dado" (þ.e. "hej do") í sífellu. 

Þegar ég bað hana um að koma í morgunmatinn í morgun, var hún að leika sér með tvær dúkkur í stofunni.  Dúkkurnar báðar voru kvaddar með miklum virktum meðan hún gekk út úr stofunni.
Þá sá hún grænbláa plasttösku á gólfinu.  Taskan er ekki stærri en hálfur lófi meðalstórs karlmanns ... en nógu stór til þess að sú stutta, kvaddi hana með slíkum endemum að fá dæmi eru um.

Seinnipartinn hitti Sydney kött og varð svona líka hrifin.  Kötturinn var kvaddur í bak og fyrir ... "dado, dado" og veifað og veifað.

Kötturinn sinnti ekki kveðjunum. 


Sunnudagur 23. maí 2010

Vorum í þessari líka góðu brúðkaupsveislu í gærkvöldi.  

Karvel og Arna að giftast.

 

Fullt hús af skemmtilegu fólki, sungið, hlegið og skemmt sér. 

Ekki spillti grillað íslenskt lambalæri fyrir ... ;)

--- 

Guðrún sullaði niður nokkrum dropum af mjólk á stofuborðið í kaffitímanum.

Hún var beðin um að sækja tusku til að þurrka.

Það var auðsótt mál ... skrapp fram á baðherbergi og í óhreinatauskörfuna.  Kom þaðan sigri hrósandi með hvítan sokk í höndinni, gekk að borðinu og þurrkaði samviskusamlega dropana.

Svo var sokknum skilað samviskusamlega í körfuna aftur.

--- 

Skrapp í dásamlegan fótbolta í dag ... í góðri rigningu, svölu veðri og dálítið hvössu.

Sydney-veður síðustu daga á undanhaldi og hreinræktað íslenskt veður tekið við. 

---

Gjörningur minn í dag fólst í því að horfa á Næturvaktina.

Það hljómar örugglega skringilega í eyrum margra að við Lauga höfðum fyrir kvöldið í kvöld ekki séð einn einasta þátt af Næturvaktinni.

Ég ákvað því að í dag myndi ég gera eitthvað nýtt, sem ég hefði aldrei gert áður ... og það var að horfa á Næturvaktina.  Ég var ekki svikinn ... stórkostlegir þættir ...

Lauga ákvað hinsvegar að baka skúffuköku algjörlega frá grunni.  Það hefur hún aldrei gert fyrr að eigin sögn. 

---

Hér er Sydney Houdini í veislunni í gær ... á Bobby Car, hvorki meira né minna!

 


Laugardagur 22. maí 2010 - Að framkvæma gjörning

"Hún prumpar alltaf bara", sagði Lauga og leit á mig.  Guddan sat á koppnum sínum.
"Það er sjónarmið", svaraði ég.
"Já." Lauga dró annað augað í pung og kinkaði kolli.  "Það er rétt ... " 

Það er gaman að spá í samræður fólks ...  

--- 

Ég las í Mogganum í dag um konu sem ákvað að gera eitthvað á hverjum degi í eitt ár, sem hún hafði aldrei gert áður.

Við Lauga ætlum að gera þetta líka. Ætlum að taka einn mánuð.

Í dag ætla ég að drekka mjólk út plastpoka.
Lauga ætlar að ganga afturábak upp tröppurnar í stigaganginum.

---

Núna 12 klst og einni giftingarveislu síðar held ég áfram með þessa færslu ...

Ég veit ekki hvort Lauga gekk afturábak upp tröppurnar í stigaganginum.

En ég veit að það er krefst smá útsjónarsemi að drekka mjólk úr plastpoka án þess að sulla niður á sig.
Gjörningi nr. 1 er sum sé lokið.

---

Skrifa eitthvað massíft á morgun ... 


Föstudagur 21. maí 2010

Hér í Uppsala eru hlutirnir að gerast ...

... á miðvikudaginn fórum við í útskriftarveislu hjá Örnu vinkonu okkar.  Hún var að lenda doktorsprófi í lífefnafræði.
Ekki lítill áfangi það.

Við flýttum okkur svo mikið í veisluna að við gleymdum myndavélinni ... þannig að það eru engar myndir af herlegheitunum.

En þess í stað set ég hér inn mynd af mér í nýju jakkafötunum ;) ... mynd sem var tekin skömmu áður en við lögðum af stað í veisluna ... ekki dónalegur þarna drengurinn ;) ...

Við fórum auðvitað í veisluna á hjólunum ... ég varð ógurlega glaður þegar ég keðjan fór af hjólinu hjá Laugu.
Ég varð sum sé allur útmakaður í smurningu íklæddur nýju sparifötunum ... :/

Þetta reddaðist samt allt saman ... og veislan var frábærlega vel heppnuð. 

---

Í kvöld skruppum við á Kebab-húsið niðri í bæ.  Ekkert úr hófi fréttnæmt nema fyrir þær sakir að á leiðinni út, brá Houdini undir sig betri fætinum en varð fyrir því óláni að detta og fá blóðnasir.

Blóðnasirnar voru í meira lagi og leit dóttirin út eins og skorinn hrútur. Hálft andlitið útatað í blóði, andlitið á Laugu einnig, sem og nýja lambhúshettan sem Helga frænka sendi og barst okkur í morgun.  Fólk signdi sig og jesússaði.  "Á sjúkrahúsið með ykkur" sagði fólk. 

En foreldrarnir tóku þessu með stóískri ró ... að minnsta kosti faðirinn ... alveg sallarólegur, enda alvanur "blóðnasarmaður".
Enda kom það í ljós að blóðnasirnar hættu mjög fljótlega og Guddan tók gleði sína á ný.

Þessi mynd var tekin af mæðgunum í kvöld þegar Doddi var kominn í gang í tölvunni ... ummerki um blóðnasir greinilegar enda andlitsþvottur ekki þeginn.

---

Svo ætla ég að skrifa eitthvað mjög gáfulegt á bloggið á morgun ... bíðið spennt! 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband