Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Ástralskir umhverfissóðar

Ástralir eru umhverfissóðar ... já ég segi það þeir eru umhverfissóðar.  Til dæmis sá ég einn strák í gær henda bjórdós á götuna, bara sisona, eins og það væri ekki bara sjálfsagt, heldur miklu meira en sjálfsagt!!  Svo rúllaði dósin skröltandi niður eftir götunni þar til hún staðnæmdist við gangstéttarkant!!  Og það er ekki í fyrsta skipti sem ég hef orðið vitni að slíku hérna á suðurhvelinu.  Að auki hika menn ekki við að tæma ruslið úr vösum sínum bara beint upp í vindinn og framan í næsta mann, ef einhver er svo óheppinn að eiga leið um.  Og hvað með allt ruslið niðri horninu á Devonshire og Elizabeth Street??

Mér var hérumbil búinn að þrífa í bjórdósakastarann, sem ég nefndi hér að ofan og spyrja hann hvern %$##"% þessi iðja hans ætti eiginlega að fyrirstilla ... en hætti við það.  Það hefði örugglega skapað meiri vandamál, en leyst ... að minnsta kosti fyrir mig ... hann hefði sennilegast snúið mig niður og slegið úr mér tennur.  Eitthvað sem ég hef lítinn áhuga á.  Ég lét mér því nægja að taka dósina upp og setja hana í ruslatunnu.  "Thanks, mate" sagði dósakastarinn.  "No worries", sagði ég kumpánlega og hljóp svo í burtu.  Maður veit aldrei hvað mönnum, sem stunda dósakast, getur dottið í hug.  En næst skal ég sko láta hann heyra það!!!    

Svo er veðrið hérna alltaf gott ... en nei ... allir eru á bílum.  Sjóðbullandi umferð hvert sem litið er, ærandi $%$&"! hávaði og flautukonsertar á hverjum gatnamótum, ef einhver er ekki alveg fullkomlega reddí.  Eins ef ökumanni dettur að taka beygju, þá er alltaf einhver ökumaður mættur til að flauta á hann.  "Hva' ert a' gera, hálfviti?!?!" gæti verið það sem rennur í gegnum huga flautarans.  Þá langar mig til að ganga að þessu flautuglaða ökumanni, rífa upp dyrnar hjá honum og segja honum að steinhætta þessum "$%*" hávaða.  Það er bullandi mengun af þessu!!!  Ég hef samt aldrei skammað neinn ... ekki ennþá að minnsta kosti en það kemur að því að einhver fái að heyra það!!!  Sjáum aðeins til ...

Já, aftur að því að allir eru á bílum ... alltaf gott veður og allir á bílum.  Hvers vegna í ósköpunum geta þessir blessaðir letingjar ekki gengið?!?!  Íslendingar hafa þó afsökun.  "Ömurlegt veður"  Þó í mínum huga sé það léleg afsökun, en Ástralir ... þeir hafa bara alls enga afsökun!!!  Í flestum bílum er svo einn maður ... eitt kvikindi í hverju bíl.  Augljós pólitík hér, í sama anda og að neita að skrifa undir Kyoto af því að Bush vill það ekki.  Klárlega væri hægt að fækka bílum um 50% bara með því að tveir myndu sameinast um hvern bíl.  Af hverju ekki??  Nú eða fjórir í bíl, enn færri bílar, minni mengun!!  Þetta er náttúrulega alveg brilliant, skyldi engum hafa dottið þetta í hug fyrr??!  Annars finnst mér bara besta lausnin að fólk gangi, hlaupi, hjóli, taki lest eða strætó.  Þá væri meira pláss fyrir mig á bílnum!!!


Nokkur atriði fyrir Sydney-fara

Eftir greinarskrif fyrir fyrir Sumarhúsið og garðinn, stífa skólasókn þessa vikuna og ritgerðarsmíð um erfðabreytt matvæli er Múrenan aftur sest að í Moggablogginu.  Nú eru rúmlega þrjár vikur liðnar frá komunni hingað, og því óhætt að segja að maður sé orðinn allverulega sjóaður og því svo sannarlega í stakk búinn að geta leiðbeint þeim sem hafa í hyggju að yfirgefa Ísland, í þeim tilgangi að fljúga í 24 klukkutíma, til Sydney.  Fyrir íslenska ferðalanga framtíðarinnar er pistill dagsins. Fyrir þá sem lítið hafa hreyft sig frá heimahögunum í gegnum tíðina þá fer ég yfir nokkur grundvallaratriði sem gæti verið mikilvægt að hafa í huga en einnig verður farið yfir sértækt efni sem hugsanlegt er að myndi koma mörgum í opna skjöldu ef þeir væru illa undirbúnir.

Hefst þá pistillinn. 

  1. Eitt af því alfyrsta sem gæti komið heimóttarlegum hvíthúðuðum Íslendingum verulega á óvart við komuna hér, er fjöldi sólarstunda í borginni, og er hann nánast sá sami og fjöldi þeirra klukkustunda sem sól er yfirleitt á lofti hér, sjálfsagt að reikna með 10 - 12 klst á dag alla daga vikunnar.
  2. Varasöm umferð.  Ástralir keyra eins og fífl ... alltaf öfugu megin og bílarnir eru í samræmi við það.  Fyrir þá Íslendinga sem aldrei nokkurn tímann hafa heyrst minnst á London og umferðarmenninguna þar, gæti umferðin hér orðið þeirra banabiti.  Einu sinni litið til hægri, af gömlum vana, og strætóinn er búinn að keyra yfir viðkomandi.  Þetta getur gerst mjög snöggt.  Hér er því meginregla sem hægt er að nota til að undirbúa sig fyrir þverun götu í Sydney ... Byrja á því að líta til vinstri og svo hægri ... Ég endurtek: Vinstri og svo hægri.  Þetta á ekki endilega við um einstefnugötur, um þær gilda sérreglur sem tengjast aksturstefnu þeirrar götu.
  3. Tveggja hæða lestir.  Breska arfleifðin er sterk þegar kemur að tveggja hæða almenningsfarartækjum.  Lítt veraldarvanir Íslendingar ættu í flestum tilfellum að geta klórað sig fram úr óskráðum notkunarreglum þessara lesta ... í stuttu máli eru þær, að maður stígur inn í lestina, fær sér sæti og stígur svo útúr henni aftur nokkru síðar.
  4. Að vera í gönguformi er eitt að því allra mikilvægasta ... maður hoppar nú ekkert upp í bíl og út í sjoppu, bara sisona, sérstaklega þegar umferðin er mikil.  Gæti þó verið spurning um hvort maður hefur aðgang á bíl ... látum þetta liggja á milli hluta ... Jæja, en ef maður ætlar að keyra bíl, þó ekki sé nema út í sjoppu, er vert að hafa lið 2. í huga.
  5. Góður maður sagði mér um daginn að um 180 tungumál væru töluð í Sydney.  Mitt ráð, til að spara óhemju vinnu við tungumálanám, er mjög praktískt.  Læra og kunna eitthvert hragl í ensku, því það er málið sem sameinar alla hér, háa sem lága, frá öllum heimsins hornum.  Varasamt getur verið að ætla sér finna íslenskumælandi einstakling í borginni, vegna fágætis þeirra, nema sérlegar ráðstafanir hafi verið gerðar um slíkt. Meginreglan er því: Enska - ekki íslenska.

Fyrir þá sem eru veraldarvanari, eru eftirfarandi liðir sértækari en þeir á undan.  Íslenskir heimalningar og kothúsabændur ættu að halda áfram lestrinum til að geta undirbúið sig enn betur ... fátt er nefnilega verra en taugabilun í mjög fjarlægum heimshlutum.

  1. Þegar beðið er eftir strætó fara menn í röð ... að minnsta kosti gildir það fyrir háskólanema sem taka strætó á háskólasvæðinu.  Allir standa í fallega mótaðri röð og bíða prúðir og stilltir þar til vagninn kemur.  Það er því miklvægt að ryðjast ekki framfyrir með ofstopa ... gera má ráð fyrir að slíkt verði ekki leyst með neinum vettlingatökum.
  2. Margir Íslendingar eru eflaust vanir bílum með blá, gul og jafnvel rauð blikkandi ljós.  Hér mega menn hins vegar eiga vona á því að sjá fjólublá blikkandi ljós ... sem er til merkis um útkall eða vinnu hjá skógarverði.  Ég veit, að ólíkt bláum og rauðum ljósum ekki er hægt að nota gul ljós í forgangsakstri, en ég veit ekki almennilega hvaða reglur gilda um þau fjólubláu.
  3. Umferðartalningar.  Á Íslandi notar Vegagerðin sjálfvirka teljara.  Í Sydney sitja 3-5 endurskinsmerktir karakterar á hverjum gatnamótum og telja bíla með teljurum, sem eru svipaðir þeim sem dyraverðir á Íslandi nota til að telja inn á skemmtistaði.  Talningamennirnir eru að vísu með 4 eða 5 teljara, blað og blýant, og skera sig þannig nokkuð frá íslensku innteljurunum.  Þetta gæti verið gott að vita fyrir ferðalang frá Íslandi, því vítavert er að trufla fólk sem er í miðjum klíðum að telja bíla.
  4. Ef svartur svanur verður á vegi þínum hér, er fullkomlega óþarft að þú æpir upp yfir þig og haldir að þú sért búin(n) að "finn ‘ann", með öðrum orðum að þetta sé eini svarti svanurinn í veröldinni og þú hefir fyrst(ur) manna tekið eftir honum.  Það getur vel verið að H.C. Andersen hafi haldið að svartir svanir væru ekki til, þegar hann var að skirfa sögurnar sínar en það er rangt.  Nái geðshræringin tökum á þér, skaltu hafa það hugfast, og vera búin(n) að undirbúa þig undir, að líta strax í kringum þig.  Ef þú gerir það er mjög líklegt að þú sjáir annan svartan svan og þar með er hugmyndin um "þennan eina" fallin og rénun geðshræringarinnar ætti að fylgja í kjölfarið.
  5. Ólíkur húmor.  Þrátt fyrir að Sydneybúar eigi það sameiginlegt með Íslendingum að stela stundum innkaupakerrum úr stórmörkuðum er misjafnt hvað mönnum finnst fyndið að gera við þær eftir að brotið hefur verið framið.  Gjarnan keyra Íslendingar kerrunum út í næsta snjóskafl og springa úr hlátri meðan Sydneybúum finnst óborganlegt að hvolfa kerrunum yfir umferðarskilti.  Þetta er svona lítið dæmi um misjafna menningu, og sýnir mikilvægi þess að vera búin(n) að kynna sér sögu lands og þjóðar áður en lagt er upp í langferð.

Múrenan tékkar sig út með þessum orðum ...


Veður og pólitík

Það svíkur engan Íslending, veðrið í Sydney ... það er alltaf sól hérna.  "Við verðum bara að drífa okkur út, meðan veðrið er svona gott" sagði Lauga á sunnudaginn síðasta og ég var henni alveg sammála.  Þetta náði náttúrulega ekki nokkurri átt að sitja bara inni og læra þegar í svona veðri.  Já, það er greinilegt að íslenska veðráttan hefur mótað mann ...

Þó hefur lofthitinn heldur látið undan síga síðustu daga, úr 20 - 24°C, í svona 16-18°C þessa vikuna.  Mér finnst það fúlt en Áströlunum hlýtur að vera létt, því hitastigið í maí, það sem af er, hefur verið talsvert fyrir ofan meðaltal.  Fólk ætti því að geta slakað ögn á í umræðunni um "global warming".  En það er svo sem vel skiljanlegt að fólk hafi hér áhyggjur af slíku, því þurrkar eru miklir í landinu.  Á töflu í skólanum sá ég nákvæmar leiðbeiningar um hvað má og má ekki varðandi vatnsnotkun ... kemur óneitanlega nokkuð spánskt fyrir sjónir, þegar maður kemur frá landi þar sem allt er fljótandi í vatni.

Þrátt fyrir þetta allt saman, getur rignt hérna.  Það sannaðist um daginn, þegar rigndi allt framundir hádegi.  Mér þótti það nú svo sem engin stórtíðindi og ekki Laugu heldur ... eina sem ég spáði í varðandi rigninguna var hvort buxurnar mínar myndu blotna á leiðinni í skólann.  Mér leiðist afskaplega mikið að vera í blautum buxum, sérstaklega í skólanum ... Lauga gekk ef til vill lengra í pælingum sínum því hún ákvað hérumbil að fara í hlífðarbuxur til að blotna í bæjarferð sinni.  Hvorugt okkar þurfti að hafa áhyggjur, að minnsta kosti í þetta skiptið, því áströlsk rigning lítur út fyrir að lóðrétt en ekki lárétt og virðist koma í gusum ... maður skreppur bara í skjól á meðan demban stendur yfir og heldur svo áfram ferð sinni ... skraufaþurr!!

Það þarf nú varla að taka það fram að þessi úrkoma var rosafrétt hér.  John Howard gekk meira að segja svo langt að skamma "undirmenn" sína fyrir að standa ekki betur að söfnun regnvatnsins.  "Hugsið ykkur allt þetta vatn sem rann niður um ræsin ... engum til gagns" sagði hann nánast kverkmæltur af æsingi ... sem náttúrulega er undarlegt, því hann hefur ekki verið til að skrifa undir Kyoto-bókunina og hefur allt til þessa ekki hlustað á, né tekið mark á aðvörunum vísindamanna um "global warming" 

Læt þetta duga í bili af veðri og pólitík í Ástralíu ... en læt eina mynd frá sunnudeginum fylgja ...Lauga í Moore Park


Gosbrunnur í stofunni?

Héðan til Ástralíu berast heldur en ekki fréttir að heiman ... leigjandinn okkar Laugu er búinn að setja gosbrunn í stofuna í íbúðinni okkar!!!  Og það strax í fyrstu vikunni ... og hvað getur maður gert, þegar 20.000 km skilja að íbúðina og okkur?  Þessa dagana sitjum við og hugsum upp ráð!!

Annað af því sem okkur hefur dottið í hug er að senda karlinn sem býr á hæðinni fyrir neðan okkur til Íslands.  Þessi gaur, sem er svona um sextugt er mesti snillingur sem hægt er að hafa í sínu liði, það sama á ekki við um ef hann er andstæðingur manns.  Karlinn býr nefnilega yfir þeim einstaka hæfileika að vera yfirleitt vakandi á nóttunni, sem út af fyrir sig er allt í lagi ... það sem er hins vegar öllu verra, er að alla nóttina hrópar hann upp með reglulegu eða óreglulegu millibili "ya, come on!!!" og þessu hrópi fylgir gjarnan þungur óskilgreindur dynkur.  Ekki ólíkt því að stórt akkeri falli úr loftinu og í gólfið.  Að öðru leyti vinnur hann annars vegar hjá Kellogg's sem mér finnst frábært ... ég meina þetta er gaurinn sem er að búa til Corn Flakes-ið sem étið er út um allan heim ... hins vegar vinnur hann hjá sígarettuframleiðanda, sem er ekki alveg eins frábært að mínu mati.  En hvað þekkir maður marga sem vinna hjá slíkum framleiðanda???  Merkilegt út af fyrir sig ...

En þar sem hvorki Kellogg's né sígarettuframleiðslu er að finna á Íslandi, er líklegt að þessi gaur yrði atvinnulaus á Íslandi og í ljósi þess að við ætlum að bjóða honum að búa á hæðinni fyrir neðan leigjandurna okkar og er líklegt að með því við getum kvittað ærlega fyrir gosbrunninn.  Lógíkin að baki því er eftirfarandi: Atvinnulaus Kellogg's sígarettu-maður er alltaf heima og þar af leiðandi munu "ya, come on" hrópin verða glymja allan daginn og alla nóttina ásamt tilheyrandi dynkum á eftir.  Að auki er hann fyllibytta!!

Hitt sem okkur hefur dottið í hug er einfaldlega að senda mennina sem vinna á upplýsingaborðinu í áströlsku innflytjendadeildinni til Íslands, láta þá hafa lykil að íbúðinni okkar og biðja þá um að setjast að í stofunni.  Ég er viss um að leigjendurnir yrðu fljótir að flytja vegna þess að návist við þá breytir manni í stein ... þetta eru þurrpumpulegustu menn sem til eru í heiminum og tala alltaf við mann eins og maður sé það lítilfjörlegasta sem hefur nokkurn tímann fæðist í rotþró mannkyns.

Þó áður en þessu öðruhvoru verður hrint í framkvæmd verður leigjandanum gefið tækifæri á því að fjarlægja gosbrunninn ... "ya, come on!!!"


Kate er kennarinn!!

Jæja, Múrenan er þá aftur mætt við skjáinn til að rita sögur frá Ástralíu ... með meiri sögur af Kate.

Ef til vill hefur einhver skarpur lesandi látið sér detta í hug, eftir lestur pistilsins í gær, að Kate væri kennarinn minn, þá upplýsist það hér með að hún er það.  Kate er kennarinn minn, en ég hef líka annan kennara sem heitir Leslie.  Ójá ... Og ef einhver veit það ekki nú þegar, þá eru þær kennarar í Centre of English Teaching in University of Sydney.  Sökum slælegrar frammistöðu Múrenunnar í "speaking part" á TOEFL-prófinu neyðist hún til að taka kúrs í ensku áður en hún fær formlega inngöngu OG ef einkunnin í kúrsinum klikkar þá er bara ... flugvöllur ... heim ... Ísland ... sorry mate!!  Þannig að þetta má ekki klikka!!!

En ok ... aftur að Kate. 

Kate er miðaldra kona ... ég myndi skjóta á 54 ára, stór, perulaga og sennilega talsvert þung, að minnsta kosti sagði hún það þegar hún steig óvart ofan á tána á einum Kínverjanum í dag.  "Oooohh sorry, mate ... I hope I haven't hurt ya, because I'm quite heavy."  Það hreyfði enginn við mótmælum á þeirri staðreynd.  En Kate er ekki bara stór og talsvert þung ... hún er líka með svart sítt hár, sem mér skilst á henni, að geti verið nokkuð hitaeinangrandi, því bogar svitinn gjarnan af henni í kennslustundum, þegar hún þeysist milli töflunnar og myndvarpans.  Hún sagði um daginn, að ef hún myndi einhvern tímann lenda í snjóstormi, sem reyndar er frekar ólíklegt hér í Sydney, þá væri ráðið fyrir hana að leysa hárið úr viðjum "kennslukonuhnútsins" og láta það flaksa niður.

Kate er með óstjórnandi málæði ... hún talar og talar og talar algjörlega út í eitt.  Hún, meira að segja, fagnar þegar hún getur leyst krossaspurningarnar í hlustunaræfingunum, sem getur kostað að maður tapar þræðinum í því sem verið er að segja í kassettutækinu.  Þar fyrir utan er nú flest af því sem hún segir eitthvað sem er afskaplega gott að vita ... þannig að það er erfitt að amast við masinu.  Þessa dagana er hún til dæmis að segja okkur öll trikkin sem eru að baki prófunum sem við tökum í lok kúrsins.  Svo nákvæmlega fór hún í það í gær að hún eyddi 2 klukkutímum í það hvernig við leyst hlustunarkafla prófsins upp á 10, án þess að heyra svo mikið sem stunu úr kassettutækinu ... ég hef því sjaldan verið með kennara sem jafnviljugur að veita upplýsingar!!!

En Kate er ekki bara áhugasamur kennari, heldur er hún heiftúðugur andstæðingur Bush-stjórnarinnar í Washington og sömuleiðis stjórnar John Howard, sem stjórnar víst öllu hér í þessu landi.  Hún lætur stundum fjúka fúkyrði um þessa tvo "snillinga" og hefur meðal annars sagt okkur að Ameríkanar telji sig eiga tunglið.  Af hverju?  Jú, því þeir séu farnir að selja lóðir á tunglinu og The Coca Cola Company er víst stærsti kaupandinn!!!  "En þeir vilja ekkert gera til að sporna við "global warming!!!"" sagði hún með svo mikilli fyrirlitningu að maður fauk næstum út um gluggann.  "Bush ætlar bara að flytja fólkið til tunglsins og Mars, þegar allt er komið í vitleysu hér ... hann bara gleymir því að það eru ekki til nein tæki til svo stórtækra farþegaflutninga!!" 

Svo mikið er víst að þó ég væri einarður stuðningsmaður Bush og Howard myndi ég ekki þora að mótmæla henni ... mótmæli og maður fær bara einn í andlitið, "shut up mate!!"

Læt þetta duga í bili ...

 


Mikilvægi þess að hafa farið til London!!

"Hefur einhver ykkar komið á London Heathrow?" spurði Kate í dag.  "Ekki ég að minnsta kosti", bætti hún svo við strax á eftir.  Allir í bekknum hristu höfuðið nema einn ... og það var ég.  "Sá eini sem hefur komið til London Heathrow ... skrýtið!!!" hugsaði ég. 

"Kate, ég hef komið á Heathrow ... mörgum sinnum meira að segja."  "Nú já, Paul hefur verið þar" sagði hún greinilega nokkuð uppnumin. "Segðu mér, er þetta stór flugvöllur?"  "Jaháá" svaraði ég "hann er gríðarlega stór en ég læt það fljóta með hér, að það er tveir aðrir alþjóðaflugvellir einnig í London ... London Stansted og London Gatwick." 

Núna færðist ég allur í aukanna.  "Heathrow Express fer á 15 mínútna fresti frá Paddington lestarstöðinni og er 15 mínútur á leiðinni út á völl en Underground er um 50 mínútur frá Central London út á völl ... þannig myndi ég mæla með því ef tíminn er naumur að taka hraðlestina".  Ég hallaði mér aftur í stólnum.  "Farið kostar um 15 pund á manninn með lestinni ... látum okkur sjá, um það bil 35 ástralska dali en ég myndi skjóta á að far með Underground kostaði 2-3 dollara."

Kate greip andann á lofti ... "Paul veit greinilega sitthvað um London".  Mér leið vel ... ég átti svæðið.  Þarna sat ég bara í stuttbuxum og bol og ruddi upp úr mér nákvæmum upplýsingum um eitthvað system í fjarlægri heimsálfu.  15 Kínverjar horfðu opinmynntir á mig en Kóreubúanum virtist alveg sama, líklega hefur hann bara ekki skilið um hvað málið snerist ... kannski bara aldrei heyrt minnst á London, hvað þá London Heathrow!!!

Þetta er nefnilega gaman við að vera í Ástralíu ... það finnst öllum allt svo merkilegt sem maður hefur gert, bara vegna þess að maður hefur gert það hinumegin á hnettinum.  Ég var náttúrulega ekkert að segja þeim að það að fara frá Íslandi til London sé svona álíka merkilegt eins og að búa í Ástralíu og hafa séð kengúru í dýragarði. 


Brotið mikla

Þegar til Sydney er komið, er fólk heima á Íslandi afskaplega forvitið að vita hvernig landið liggur hérna hinumegin á jarðarkringlunni.  "Jæja, og hvernig er svo að vera andfætlingur?" eða "hvernig er að snúa svona öfugt, rennur ekki allt blóðið bara upp í höfuð?" eða "ég hef verið að spá í hvað þið haldið eiginlega ... þið hljótið að þurfa að passa að detta ekki út í geiminn?" eru spurningar sem maður hefur nauðugur viljugur þurft að svara.  Bara ef einhver efi er í huga þér ... maður finnur ekki fyrir neinum mun þó maður snúi "öfugt"!!  En lélegir brandarar fólks sem hefur aldrei komið suður fyrir miðbaug, áttu ekki að vera umtalsefni nú, miklu heldur sú staðreynd að það getur verið þreytandi að brjóta spöngina á gleraugunum sínum þegar maður er nýkominn til Ástralíu. 

Ég hef notið þeirrar "gæfu" að vera allt að því sjónlaus í bráðum 20 ár en slíkt "sjónleysi", eins og flestir vita, kallar á nokkuð massífa gleraugna- eða linsunotkun.  Í þessi tæp 20 ár má telja á fingrum annarrar handar þau skipti sem eitthvað vesen hefur komið upp hjá mér, varðandi sjóntækin, en þau fáu sem ég man eftir tengjast alfarið linsunum.  Ólíkt mörgum öðrum hefur mér haldist ákaflega vel á gleraugum, sem er til dæmis mjög ólíkt þeirri reynslu sem Jón Þór vinur minn býr yfir.  Mig minnir að á fjórum árum í Menntaskólanum á Akureyri hafi hann brotið fern gleraugu ... jæja en nóg um það. 

Nánast það fyrsta sem ég sé þegar ég vakna fyrsta morguninn í Sydney er að mér hefur tekist með einhverjum undarlegum hætti að beygja gleraugnaspöngina þar sem hún skrúfast við gleraugun.  Hvernig það hefur getað gerst er mér enn hulin ráðgáta ... Þegar ég ætlaði svo að rétta spöngina við brotnaði hún af ... húrra!!!! 

Þetta var nákvæmlega það sem ég hafði óskað eftir ... fara til Ástralíu og byrja á því að kaupa mér ný gleraugu.  Ef það var eitthvað sem átti að endast þá voru það blessuðu gleraugun!!  En sem betur fer hafði ég ráð við þessu, því í farangrinum var nefnilega eitt par af linsum ... á þessu pari hef ég fleytt mér yfir dagana sem liðnir eru frá brotinu mikla!!! 

Þó mun sennilega líða að því fljótlega að fyrrum hjúkrunarfræðingur á augngöngudeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, sem er einmitt með mér í för, reki mig í gleraugnaverslun í þeim tilgangi að fá mér "nýtt sett á nefið", eins og áðurnefndur Jón Þór kallaði það í hvert sinn sem hann birtist með ný gleraugu, hér á árum áður.  En þangað til verða linsurnar bara að duga!!


Upprisa Múrenunnar!!

Jæja ... nú er komið að því ... Múrenan er upprisin á nýjan leik!!!  Hún er búin að flytja sig yfir hálfan hnöttinn sem ef til vill skýrir blogglausar vikur undanfarið.  Nú hefur internet-sambandið verið endurnýjað og í þetta skiptið er farsími notaður sem módem ... nokkuð sem Múrenan hafði enga hugmynd um að væri einu sinni mögulegt en ... það er sumsé hægt!!!Sydney í Ástralíu ... það eru hin nýju heimkynni og enn sem komið er, sjá Múrenan og spúsa hennar ekki eftir neinu, nema ef til vill 126.000 krónunum sem punga þurfti út að morgni 2. maí sl. til að eiga einhverja möguleika á því að ná fluginu frá London til Sydney.  Þessi grátlegu peningaútlát komu til vegna 8 klukkutíma seinkunar á flugi IcelandExpress til London og þeirrar einu undankomuleiðar að kaupa miða með Icelandair. 

"Já, það getur stundum verið erfitt að stóla á lággjaldaflugfélögin en látum okkur sjá ... hmmmm " sagði afgreiðsludaman við mig þegar ég sat sveittur í lófunum handan afgreiðsluborðs Icelandair í Leifsstöð.  Ég er viss um að hún vorkenndi mér ekki ... miklu frekar var þetta tímabær lexía.  "Mundu svo að velja Icelandair næst, fíflið þitt" las ég úr augum hennar, þegar hún, brosandi, rétti mér hina rándýru miða.  Svona er þetta þegar maður er að spara ... maður kaupir tvo flugmiða fyrir 30.000 kall og er svaka drjúgur með sig.  "Það er ég sem stjórna aðstæðunum en þær ekki mér" hugsar maður uppbelgdur af sjálfsyfirlæti "þessir dónar í Icelandair ættu nú bara að fara að pakka saman ... það kaupir enginn heilvita maður þessi fokdýru flugfargjöld þeirra ... þetta er bara svínarí!!!". 

Nokkrum dögum síðar skríður maður svo sjálfviljugur inn í svínaríið,  og reiðir fram vel á annaðhundraðþúsundkrónur, með glöðu geði, svo hægt sé að bjarga manni ... "það er eins gott að það er almennilegt flugfélag til í þessu landi" sagði ég lafmóður og stóreygður við spúsu mína þegar ég hafði tryggt okkur flugmiðana og við hlupum eins fætur toguðu í gegnum Leifstöð í átt að landgangi Freydísar, Valdísar eða hvað þessi blessaða flugvél hét.  Á þeim tíma höfðum við borgað 156.000 krónur fyrir flug frá Keflavík til London, nánast sama gjald og frá London til Sydney ... með viðkomu í Tokyo!!

Jæja en svona er þetta bara ... Icelandair kom okkur til London og uppfrá því hélt keðjan áfram uns við lentum heilu og höldnu í Sydney rétt fyrir klukkan 10 þann 4. maí.  Fyrir sitt framlag á Icelandair heiður skilinn ... en "$%## var þetta dýrt!!!! 

Þó IcelandExpress hefði gert allverulega í brækurnar í þetta skiptið verður ekki tekið af þeim að 30.000 kallinn var endurgreiddur umsvifalaust.  Spurningin er nú bara sú hvernig Icelandair mun standa sig á Heathrow flugvelli, upp úr klukkan 21 þann 16. desember nk.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband