Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Gamlársdagur - 31. desember 2011 - Gleðilegt ár!!

Þá er árið á enda komið ...

... lærdómsríkt ár í meira lagi ... það er óhætt að segja.

Á árinu hafa verið færðar inn á þetta blogg um 190 færslur, sem þýðir færslu annan hvern dag að meðaltali. 

Lesendafjöldinn hefur aukist svolítið frá því á síðasta ári en að meðaltali hefur rúmlega 21 einstaklingur rekið nefið inn á síðuna á degi hverjum. Þessi tala stóð í rúmlega 18 fyrir ári síðan. 

Þetta er nú kannski ekki mest lesna bloggið í heiminum en ég verð samt að segja það fyrir mig að það að 21 einstaklingur skuli á hverjum degi finna hjá sér þörf til að lesa þetta sjálfmiðaða blogg mitt, er ótrúlegt. 

Takk fyrir lesturinn!!  

Við óskum þér gleðilegs nýs árs og vonum að nýja árið verði farsælt og skemmtilegt. 

 


Föstudagur 30. desember 2011 - Að kunna að segja nei og kunna að velja

Húsfreyjan á heimilinu var að taka til morgunmatinn í morgun, þegar hún opnaði ísskápshurðina þannig að hún rakst af nokkru "afli" í ristina. "Áááiii" heyrðist í henni stundarhátt.  GHPL stökk umsvifalaust af stólnum sínum, skreið undir borðið og þaðan í áttina að ísskápnum þar sem móðirin stóð.

Þegar hún kom að fætinum, leit hún upp og spurði: "Allt í lagi mamma?"
"Já, já ... þetta er nú allt í lagi, Guðrún mín."

Dóttirin taldi samt fulla þörf á að kyssa á bágtið og það gerði hún samviskusamlega. Svo skreið hún aftur undir borðið og klifraði upp á stólinn sinn. 

Stuttu síðar rak faðirinn sig í (kannski meira svona til að kanna stöðu sína innan veggja heimilisins) ... og gaf frá sér kannski heldur meiri óhljóð en tilefni var til.  
"Ég meiddi mig ... viltu kyssa á bágtið?", spurði hann sárþjáður.
GHPL leit við. "Neihei!!"

Þar með var það mál afgreitt.

---

"Má ég fá mjólk?", sagði dóttirin þegar hún sat niðurnegld fyrir framan Mikka mús í kvöld. Já, loksins var stundin runnin upp. Hennar hafði verið beðið allt frá því fyrir kl. 10 í morgun.
"Já, já ... viltu þá aðeins passa litla bróður þinn meðan ég fer fram og næ í mjólkina?" sagði móðirin.
"Neihei!!"

Ég skil ekki alveg hvar blessað barnið hefur lært þetta "neihei" ... ?!?

---

Talandi um að fá hlutina í "feisið" ... ég hef svo sem áður rætt um það á þessu bloggi ... en ég var með þá hugmynd fyrir nokkru síðan, þ.e. þegar Guddan var töluvert yngri en hún er núna, að börn lærðu þvergirðingshátt og neitun einfaldlega vegna þess að uppaldendur væru ávallt og eilíflega að segja "nei" og "nei" og "nei" við þau.

Einfalt prinsipp þar að baki ... börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Við Lauga ákváðum því að nota orðið "nei" mjög sparlega í öllum okkar samskiptum við Gudduna. Reyna frekar að beina athygli hennar í aðrar áttir eða finna lausn á málinu ...

En hvað???

Niðurstaðan er eitt mesta nei-barn í heimi ... hún segir nei við öllu.

"Heitirðu Guðrún?"
"Nei"

"Hvað ertu gömul?"
"Tveggja daga."
"Nú? Ertu ekki þriggja ára?"
"Nei!"

"Eigum við að koma í strætó?"
"Nei!" 
"Eigum við að fara á leikskólann?"
"Nei!" 
"Eigum við að lesa?"
"Nei!" 
"Viltu púsla?"
"Nei!"

"Viltu horfa á Mikka mús?"
"Já!"

Þetta síðasta er undantekningin sem sannar regluna ;) .

Þrátt fyrir þetta er alveg ljóst að GHPL er besta dóttir í heimi ... að mínu mati ;) . 

---

Í dag hef ég verið að vinna í markmiðum ... svolítið verið að móta næstu misseri ... áramótin eru svo sannarlega tími til þess.

Er kominn með 30 markmið sem ég hef verið að dýpka og útfæra.

Sumarið 2009 skrifaði ég 100 markmið eftir að hafa lesið það í bók eftir Jack Canfield að slík gæti verið gagnlegt.
Þessi markmið hef ég svo lesið reglulega yfir síðastliðin ár en núna er ég að taka þau til gagngerrar endurskoðunar. Það er er athyglisvert í þessu samhengi er hvað fókusinn hjá mér hefur breyst mikið því mörg þeirra markmiða sem ég setti á blað þarna um árið, skipta mig engu máli núna.

T.d. markmið um að komast á topp Kilimanjaro, hæsta fjalls Afríku. Ég hef komist að því að mig langar bara ekki baun til þess eins og staðan er í dag.
Ég hef þráfaldlega spurt sjálfan mig af hverju ég ætti að fara upp á þetta fjall? Eftir töluverðar vangaveltur komst ég að því að ég vildi helst fara upp á þetta fjall til að geta sagt öðrum að ég hefði farið upp á þetta fjall?!?

En af hverju?
Jú, til að fólk myndi dást að mér í 5 sekúndur ... jafnvel 10 eða 20 ...

Og hvað svo?

Ég veit það ekki ... 

Ekki skilja þetta sem svo að mér finnist það að komast á topp Kilimanjaro vera eitthvað bull. Alls ekki. Ég er bara að tala fyrir minn munn.
Aðrir geta auðvitað fengið mikið út úr því að ganga á toppinn og það er bara frábært.

Ég á bara við ... að ef eina ástæðan til að komast á topp Kilimanjaro er til þess að geta sagst hafa gert það til að fá mjög skammvinna aðdáun, þá ætti maður að staldra við. Kannski finnur maður einhverja göfuga ástæðu innra með sér og þá fer maður að sjálfsögðu. En kannski finnur maður hana ekki og þá ætti maður kannski bara að sleppa því ... eða hvað?

Ég ætla að minnsta kosti að gera það og þess vegna hef ég rifið miðann sem á stóð "Komast á topp Kilimanjaro". Þess í stað set ég meiri kraft í "Sjálfboðaliðastarf í Afríku" og "Hálendisferð á hestbaki" sem dæmi séu tekin. 

Verkefnin verða í mínum huga að hafa dýpri merkingu heldur en einhverja aðdáun annarra. Þau verða að hafa einhverja þýðingu ... gera mig að betri manni ... ef svo hátíðlega má komast að orði. 


Fimmtudagur 29. desember 2011 - Annar pabbi og málningarhristarinn

Í kvöld fékk ég kaldar kveðjur frá dóttur minni ... já, þegar hún var beðin um að fara og kyssa mig góða nótt harðneitaði hún og sagðist vilja fá annan pabba?!!?

Ég sem sat í næsta herbergi, kváði enda hafði ég ekkert til saka unnið umfram aðra hér á heimilinu. Jú, jú, GHPL ítrekaði bara þessa ósk sína. Ég lét mig hverfa en snéri skjótt aftur, stökk fram í eldhúsið með tilþrifum og sagði "tarammmmmm" en dóttirin rétt skaut á mig augunum og hélt svo áfram að sinna afar brýnu verkefni. Að hnýta band af jólapakka utan um einhvern strump.

Annars eru nú hlutirnir heldur að færast í rétt horf núna ... pípuorgelið hefur lítið pípt í dag og Houdini fór á leikskólann í fyrsta skipti í marga daga.
Ég minntist í gær á að Pípus væri sennilega að pípast mikið vegna tanntöku. Nú er komin önnur skýring en sú er að hann sofi ekki nægjanlega á daginn þegar hann hangir hér heima og við það virkjast pípið. 

Þetta er ekki eins fráleit skýring og ætla mætti í fyrstu, því PP sefur æfinlega best í vagninum, helst þegar hann er á fleygiferð. Meiri hristingur, betri svefn.
Einnig er "málningarhristarinn" vel þekkt fyrirbæri innan veggja heimilisins, en PJPL finnst fátt betra en að sofna um leið og haldið er á honum í fanginu og hann svo hristur eins og 10L málningarfata. Allt venjulegt fólk myndi ekki undir nokkrum einustu kringumstæðum getað sofið í slíkum ógnarhristingi en nafni lygnir aftur augunum og gefur hvað eftir annað frá sér mjög langt og afar sannfærandi "aaaaaaaaaaahhhhhhhhhhhaaaaaahhhhh" sem auðvitað hljómar í fullum takti við hristinginn. Svoleiðis gengur það uns Óli Lokbrá tekur völdin ... sem gerist oftast frekar fljótlega sem betur fer því það tekur á að keyra "málningarhristarann" á fullu gasi, já og hlusta á sönginn ;) .

Ætli maður verði ekki að láta þetta duga núna ... klukkan er alltaf orðin svo drullumargt þegar maður loksins kemur sér í rúmið. 

Ég ætla að hverju kvöldi að fara að leggja mig á skikkanlegum tíma. Það gengur aldrei eftir.

Við Lauga vorum aðeins að ræða þetta um daginn.  Niðurstaðan var eiginlega sú að tíminn eftir klukkan 22 á kvöldin sé bara slíkur "quality time" að það sé eiginlega ekki hægt að nýta hann bara í svefn.
Maður ætti samt að koma sér fyrr í bælið ... 


Miðvikudagur 28. desember 2011 - Vinna og Mikki mús

Jæja, þá er fyrsti alvöru vinnudagurinn að baki milli jóla og nýjárs ... í lok dags hafði ég skilað af mér svörum við athugasemdum sem gerðar voru við vísindagrein nr. 1. Nú strax eftir áramótin fara þessi svör til Journal of Environmental Psychology og vonandi duga til þess að ákvörðun verður tekin um að birta blessaða greinina ...

... satt að segja er ég orðinn nett leiður á að eiga við þessa grein, hún er búin að vera í vinnslu allt, alltof lengi. Þannig að bara "koma svo!!"

Svo svaraði ég nokkrum jóla-emailum ... einkum til vina og kunningja erlendis ... það er alltaf gaman að "katsja upp" við liðið endrum og sinnum.

Og loks vann ég örlítið í heimasíðunni minni ... ofurlitlar uppfærslur sem eru algjörlega nauðsynlegar ... bætti t.d. svona inn á heimasíðuna ... 

Skil reyndar ekki alveg afhverju ég fæ alltaf tvo hnetti hérna ... en ég nenni samt eiginlega ekki að vera neitt að pæla í því ... þetta er töff!!

---

Nafni minn sem stundum er kenndur við pípu hefur aldeilis borið nafn með rentu í dag ... í vakandi ástandi hefur hann pípt nánast stanslaust eins og gufuketill í allan dag.
Eina ráðið til að fá hann til að þagna er einfaldlega að svæfa'ann ... sem gengur auðvitað ekki alltaf, því maðurinn er náttúrulega ekki alltaf þreyttur. Samt gengur það bara furðu oft.

Hann ætlar augljóslega að taka þessi fyrstu jól sín með stæl ... 40°C hita fylgt eftir með stanslausu pípi. Meira að segja móðirin er orðin mjög þreytt á pípinu ... og þá er mjög mikið sagt
Líklegt er þó reyndar að hann sé að taka fleiri tennur og það geti skýrt málið.

Hlaupabólan er í mikilli rénun hjá GHPL, en líkaminn ber þó enn merki um "hamfarirnar" ... hreint ekkert of glæsilegt á að líta.
En Guddan er í feikna stuði þessa dagana ...

Hún er í svo miklu stuði að mjög gaman er að taka smá "debatt" við hana ... en "debattarnir" eru iðulega um hvort hún megi horfa á Mikka mús eða ekki (hvað annað?!?!). Þá segir maður gjarnan eftir að vera búinn að svara spurningunni svona 10 sinnum: "Ég er búinn að segja þér að þú mátt horfa á Mikka mús eftir tvo daga". Sú stutta svarar þá fullum hálsi: "Já en ég var búin að segja að ég mætti horfa á Mikka mús núna!!" Stundum bætir hún snúðug við að maður eigi svo að "hætta þessu væli" og strunsar í burtu.

En stundum bregður hún á annað ráð ... og það er að hagræða sannleikanum svolítið með því að spyrja þá hitt foreldrið hvort hún megi horfa á Mikka mús og ef svarið er "nei" að segja þá hiklaust að hitt foreldrið hafi sagt "".

Svo fann hún það út í dag þegar móðir hennar bauð henni að koma út að leika, að best væri að ég færi út meðan hún og mamma hennar, já og litli bróðir, væru inni ... og hún auðvitað að horfa á Mikka mús!

Jæja ... læt þetta duga í bili ...


Þriðjudagur 27. desember 2011 - Árið 2011: nokkrir punktar

Jæja ... þetta hefur sennilega verið besti jóladagurinn hingað til, sem sennilega ræðst af því að nú er búið að vindast vel ofan af þessu jóladæmi.

PJPL var nær eðlilegum líkamshita frekar en ekki.

GHPL var viðræðuhæf mestan hluta dagsins og til marks um það þá var frasi dagsins í dag "þetta er frábært!!" í stað "þetta er rugl!!" sem hefur verið allsráðandi undanfarna daga.

---

Í kvöld tók ég saman árið 2011, þó svo það sé ekki alveg búið, þá er ég nokkuð viss um að það munu engin rosaleg afrek verða unnin það sem eftir lifir árs.
Ég fór í gegnum dagbókina mína og fletti upp á völdum stöðum í hausnum á mér í leiðinni og niðurstaðan voru 28 atriði sem stóðu upp úr á árinu.

Uppgötvun ársins átti sér stað þann 4. október í tíma hjá Einari Gylfa sálfræðingi. Þá skildi ég loksins að óumbeðnar ráðleggingar er eitthvað sem fæstir hafa áhuga á að hlusta á. Himnarnir skyndilega opnuðust hjá mér og héldu áfram að opnast í margar vikur á eftir. 

Það sem ég áleit vera góð og gagnleg ráð, gefin af gegnheilli umhyggju, eru ásakanir og aðfinnslur í eyrum þeirra sem orðin beinast að séu ráðin gefin óumbeðið og fyrirvaralaust. Það þekkja það allir ef þeir nenna að spá í það ... "heyrðu mig nú, ég held að þú ættir að hætta að drekka kók, þetta skemmir tennurnar og svo er svo mikill sykur í þessu. Veistu ekki að þetta lækkar sýrustigið í líkamanum hjá þér og veldur óþægindum og blablablabla ...

Það hefur enginn áhuga á svona ráðleggingum sem koma eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Mesta afrek ársins var þegar ég braut blað í rannsóknum á endurheimt umhverfis. Með því að búa til, reyndar með mjög mikilli hjálp danskra kollega, tvö gagnvirk tölvulíkön af borgarhverfum en uppbygging þeirra var byggð á niðurstöðum rannsókna minna, var stigið skref sem aldrei hefur áður verið stigið innan þessa geira.
Tæplega 60 nemendur við Uppsala-háskóla voru svo "testaðir" í þessum tveimur sýndarveruleikum. Niðurstöðurnar á margan hátt áhugaverðar og vísindagrein byggð á niðurstöðum þessar rannsóknar er nokkuð á veg komin.

Læt þetta duga í bili. 


Annar í jólum - 26. desember 2011 - Lesið rangt í aðstæður?

Hjá okkur hafa jólin verið alveg ljómandi góð. Töluvert annasöm þó ... alltént í samanburði við fyrri jól.

Mikill spenningur var hér á aðfangadag þar sem GHPL mátti bíða og bíða og bíða eftir því að komast í pakkana. Mikið suð og dálítið "attitjúd" í gangi. Að lokum var gefið leyfi á að horfa á Mikka mús og þá lagaðist allt. 

En svo nálguðust jólin óðfluga og dóttirin vinsamlegast beðin um að fara úr náttkjólnum og í almennilegan jólakjól. Þá byrjaði darraðardans mikill, þar sem kjóllinn var í sífellu tekinn og honum hent í gólfið undir því yfirskyni að allt væri þetta bara "rugl". 
Loks tókst að koma henni í kjólinn og þegar verknaðurinn var yfirstaðinn, sat Guddan eftir í hjónarúminu, allsúr og tautaði: "Týpískt, týpískt.

 

Eftir að hafa tekið syrpu við kvöldmatarborðið, þar sem m.a. Guddan hellti appelsínusafa þráðbeint ofan í hálsmálið hjá sér, sem leiddi til að skipta varð um dress, var tekið hressilega til hendinni við pakka-upptökuna. Þar tók GHPL upp pakkana fyrir sjálfa sig og bróður sinn, en sá var með hugann við allt annað en pakka allt kvöldið. Þess í stað veltist hann um ýmist á gólfinu eða í sófanum. 
GHPL var svo sofnuð svona tveimur mínútum eftir að síðasti pakkinn hafði verið tekinn upp.

 

 

Þá gafst okkur Laugu smá tími til að ræða málin og fá okkur svolítið góðgæti, áður en farið var að sofa. 

Á jóladeginum vaknaði PJPL með 39°C hita, foreldrum sínum til mikillar gleði ... eða þannig. Og þannig rúllaði hann fram og aftur úr 38°C - 39,5°C í takti við virkni hitalækkandi lyfja sem honum voru gefin. Fjörugur fyrsti jóladagurinn hjá honum ... já eða þannig.

En systirin hans tók af honum ómakið, því hún sýndi gjörsamlega fráleita hegðun strax eftir að hafa risið upp af koddanum. Hegðun sem aldrei hefur hreinlega sést áður hjá þessu stelpuskotti. Tvisvar þurfti að grípa heldur hressilega inn í ... sem er ömurlega leiðinlegt.
Rétt eftir hádegið fór hún svo bara að leggja sig ... sennilega er hlaupabóla, jólapakkar, sælgæti, skógjafir, spenna og of mikil athygli móður á litla bróður slæmur hegðunarkokteill.

 

Reyndar verð ég að viðurkenna að sennilega hefur maður gjörsamlega vanmetið spennuna hjá Guddunni fyrir pökkunum og jólunum. Þetta er fyrstu jólin þar sem hún er að meðtaka pakkana og það að "fá í skóinn" ... og bara ekkert ráðið við þetta og við foreldrarnir alls ekki verið með á nótunum.
Þannig að það verður bara að skrifa þessa bombu á okkur.

Bróðirin hélt bara áfram að láta sér vera heitt síðdegis og Guddan var ögn rólegri eftir að hún vaknaði. Þá byrjaði bara suð um Mikka mús ...

 

 

Kaffi og spjall, já og púsluspil var það sem gekk á allt til kl. 18, þegar opnað var fyrir sjónvarpsdagskrána hjá GHPL. Eftir það var allt í himnalagi.  Þetta er alveg ótrúlegt dálæti sem þetta sjónvarp hefur. 

Kvöldið leið svo við púsluspil og sjónvarpsgláp, þar sem við horfðum á Liar, liar með Jim Carrey á Stöð 3.

 

Svo hélt púslið áfram hjá mér ... fram eftir nóttu.

Í morgun var svo stemmningin heldur tekin að róast. GHPL tók smá syrpu og ég smá syrpu og eftir það vorum við bara fín bæði tvö. Stubbur hélt áfram veru sinni í innbyggða kyndiklefanum.

Ég og Guddan fórum svo í jólaboð til Sverris, Jónda og Dönu eftir hádegið. Síðdegis bauð Sverrir svo upp á ferð á körfuboltaleik en ég hef ekki farið á slíkt síðan í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar. Það var ágætis skemmtun.

Aftur var farið í boðið og voru þar fjörugar umræður um klám, feminisma og fleira. Sitt sýndist hverjum í þeim efnum.

Nenni ekki að skrifa meira núna ... en ég ítreka að jólin voru góð hjá okkur. Það kann að vera að ég dragi upp nokkuð dökka mynd af ástandinu hér en það er kannski meira fyrir sjálfan mig til að muna hvernig hlutirnir æxluðust og hvernig má læra af þeim. 

En hér er jólaveðrið í Uppsala 2011 ... það er um 30°C munur í hitastigi frá því í fyrra ... hvorki meira né minna ...

 

 


Aðfangadagur jóla - 24. desember 2011 - Gleðileg jól!!

 


Fimmtudagur 22. desember 2011 - Hlaupabóla og íslensk tónlist

Það var aldrei að Guddan fengi ekki hlaupabóluna ... já takk, þetta er rosalegt!  Síðasta nótt var heldur óskemmtileg þar sem GHPL grét af kláða drjúgan hluta nætur og hafnaði algjörlega allri aðstoð sem henni stóð til boða.

Ég hef svo sem ekki mörg tilfelli til viðmiðunar, en þetta tilfelli á heimilinu hlýtur að vera töluvert krassandi. Meira segja svo að ég kann hreinlega ekki við að sýna myndir af blessuðu barninu í þessu ástandi hér á blogginu, en búkurinn er alsettur myndarlegum, vökvafylltum útbrotum bæði að framan og aftan.  

--- 

Dagurinn hefur farið í jólaundirbúning, þar sem ég bjó til eins og eitt jólakort til að senda rafrænt, fór í bæinn ásamt nafna og keypti nokkrar jólagjafnir. Restin verður svo tekin á morgun ... enda svo sem ekkert annað í stöðunni ef yfirleitt á að kaupa gjafirnar fyrir jól.

Já og svo keypti ég "antihistamín" fyrir GHPL ... sem er kláðastillandi ... vonandi að það virki vel í nótt :) . 

---

Svo datt mér í hug að hlusta svolítið á íslenska tónlist í dag meðan ég var í kortadæminu. Yfirleitt hlusta ég frekar lítið á íslenska tónlist þannig að þetta var kærkomin tilbreyting (talandi um tilbreytingu sbr. blogg gærdagsins) ... en jæja ég hlustaði á hitt og þetta.

Að einhverju leyti hlýt ég að vera tónlistarlegur bastarður því það er alveg sama hvað ég hlusta á Mugison ... ólík lög eða sömu lögin aftur og aftur ... ég er bara ekki að ná honum.  Meðan allir eru að pissa í sig af hrifningu er ég bara ekki með'etta.  Ég ætla samt að halda áfram og sjá hvort ég "vitkist" ekki eitthvað.

En þessi "fáviska" er jafn borðleggjandi þegar kemur að bæði Sigurrós og Björk. Ég fór á Bjarkartónleika um daginn þegar ég var á Íslandi ... hafði áður lesið einhverja gagnrýni í Mogganum frá þessum tónleikum, þar sem gagnrýnandinn var nærri farinn yfir móðuna miklu af hrifningu.
Þrátt fyrir að hafa verið eins opinn og móttækilegur og mér var frekast unnt, þá hefði ég ekki gefið þessum tónleikum meira en 5 af 10 mögulegum.

Þetta er voða leiðinlegt að vera svona ...  

Mér til bjargar get ég þó sagt að ég hlustaði svolítið á Valdimar sem mér hefur verið sagt að sé góð hljómsveit ... og já, ég er alveg inn á þeirri línu. Þeir eru nokkuð þéttir ... og söngvarinn hefur flotta rödd finnst mér, þó kannski söngtæknilega sé hann ekkert sérstaklega góður. En það skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Mér fannst líka Of Monsters and Men fín ... þarf samt að hlusta meira á hana til að dæma almennilega.

Annars held ég að menn ættu bara að leggja meira upp úr þessu og minna upp úr hinu ;)

 


Miðvikudagur 21. desember 2011 - Hlaupabóla og jólastemmning

Þessi dagur hefur nú farið fyrir heldur lítið ... óhætt að segja að lítið sem ekkert af viti hafi verið gert. Stundum eru dagarnir þannig og við það verður að una, þó svo litli púkinn á öxlinni sé iðinn að láta mann vita af aðgerðarleysinu.

Það er því best að slá bara botninn í þennan dag ... fara að leggja sig og vakna hress og glaður í fyrramálið. Á morgun verða víst vetrarsólstöður eftir því sem ég best veit.

Guddan glímir nú við hlaupabóluna af fullum þunga ... útbrot um allan strokkinn, kláði og fleira fínt.  Hefur fengið að borða þrjá græna frostpinna vegna ástandsins ásamt því að horfa á video. Það fylgja því kostir og gallar að vera veikur ...

 

Jólaandinn fer nú vonandi að koma yfir mann ... þetta jólastand síðustu ár hefur svolítið misst marks þar sem jólastemmningin hefur að mestu látið á sér standa. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig hægt sé að vekja upp þessa stemmningu og af hverju maður finnur svona lítið fyrir henni.

Í bókinni hennar Margrétar Pálu, þeirri sömu og ég vísaði til um daginn, hef ég fundið bestu skýringuna hingað til. Þar segir að jólin feli ekki í sér neina tilbreytingu lengur. Almennt feli þau bara í sér að meira sé af öllu þessu "hversdagslega".

T.d. borðar maður nánast á hverjum degi góðan mat, það er alltaf verið að narta í eitthvað sælgæti, drekka svolítið gos, kaupa sér eitthvað smávegis, gefa eitthvað smávegis, tala við fólkið heima á Íslandi, það er verið að leiga sér video o.s.frv. o.s.frv.
Og á jólunum er bara gert meira af þessu öllu ... sem er náttúrulega engin tilbreyting heldur bara óhóf.

Eftir að ég fattaði þetta, fór ég að hugsa meira út í tilbreytinguna. Þá rifjaðist upp fyrir mér mjög óformlegt jólaboð sem var heima hjá Huldu systur og Mugga fyrir nokkrum árum. Ég og mamma höfðum verið í jólaboði á jóladag og þegar við komum heim þá hringdi ég í Huldu sem spurði hvort við vildum ekki bara kíkja í heimsókn. Hún sagðist geta boðið upp á smá hangikjöt og með'í ... ekkert massíft dæmi neitt.

Þetta kvöld sem leið við skemmtilegt spjall og rólegheit og áhorf á einhverja íslenska mynd er sennilega besta jólamóment lífs míns ... þetta var eitthvað svo mikil tilbreyting frá hversdeginum, þó ég átti mig ekki alveg á því, enn sem komið er, í hverju tilbreytingin fólst. 

En þarna finnst mér ég vera kominn með einhvern grundvöll til að vinna út frá í því skyni að gera jólin að þeim tíma sem þeim ber ... því sannarlega eru þessar hátíðir mikilvægur tími í margvíslegum skilningi og engin ástæða til annars en að hafa þær ánægjulegar ... 


Þriðjudagur 20. desember 2011 - Jólahlaðborð, hlaupabóla og Kódak-móment

Í dag skrapp ég til Gävle. Sú heimsókn var ekki af verri endanum því mér hafði verið boðið þangað í jólahlaðborð Institutet för bostads- och urbanforskning (IBF) sem er batteríið hér í Svíþjóð sem ég formlega tilheyri. 

Réttir dagsins á hlaðborðinu voru afar ljúffengir og rammsænskir held ég, t.d. síld, jólaskinka, kjötbollur og Jansen's kartöflur (held ég að það heiti), já og þá var julmust drukkið með. Svo voru fjörugar samræður við borðið og bara allt í þessu fínasta.

Eftir matinn vann ég fram til kl. 18.30 með leiðbeinanda mínum en nú erum við að leggja lokahönd á svör okkar við athugasemdum sem gerðar voru við greinina sem við sendum til birtingar hjá tímaritinu Journal of Environmental Psychology þann 20. janúar sl. Nú er bara að vona að ritstjóri tímaritsins verði svo vænn að samþykkja greinina til birtingar.  Við erum býsna bjartsýnir á það enda er þetta "rock solid" grein og góð rannsókn sem þarna var gerð.

---

Guddunni brást ekki bogalistin og var heima í dag með hlaupabólu. Enn sem komið er eru útbrotin fremur væg og hún sjálf bara hress þrátt fyrir að vera með 38°C.

Þristurinn tekur stórstígum framförum á hverjum degi. Átti stórleik þegar hann stóð upp undir matarborðinu. Er klárlega sá eini í fjölskyldunni sem getur gert slíkt án þess að rekast upp undir. Því miður var myndavélin ekki í seilingarfjarlægð ... sannarlega Kodak-móment þar.

Í það heila er sumsé allt í himnalagi ... 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband