Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Föstudagur 29. júní 2012 - Vikan gerð upp í snarhasti

Þá er síðasti dagurinn hér í þessari íbúð á enda runninn. Ég verð að segja að ég hefði alveg verið til í það að búa áfram á þessum stað ... en svona er þetta bara. Maður á eftir að finna eitthvað enn betra.

Óhætt er að segja að töluvert hafi á dagana drifið síðan síðast var skrifað á þessa síðu ... þannig að hér verður ofurlítið uppgjör.

Síðustu helgi ákváðum við að flytja svolítið af dótinu okkar yfir í nýju íbúðina áður en við lögðum land undir fót. Ferðin lá til Eskilstuna, nánar tiltekið í skemmtigarð þar sem kallast Parken Zoo. 


Börnin leika listir sínar á leið til Parken Zoo


GHPL sýndi góða hæfileika þegar hún stökk á milli steina, líkt og sjá má hér.


Nafni tók upp á því að sitja í fyrsta skipti á ævinni í kerru í Parken Zoo


Með flamingóa í bakgrunni 

Eftir að hafa skoðað þar alla króka og kima, fórum við og fengum okkur pizzu, héldu svo til Strängnäs þar sem við tókum nokkrar góðar syrpur. Strängnes kom skemmtilega á óvart ... virkilega skemmtilegur bær, að minnsta kosti í kvöldblíðunni í júní.

 
PJPL niður við höfn


Guddan brá sér aftur í hlutverk flamingóa 

Ferðin var mjög vel heppnuð í alla staði. Sérstök verðlaun fyrir frábæra frammistöðu í ferðinni fékk GHPL. Nafni lenti í öðru sæti sem skýrist fyrst og fremst af litlum kærleik milli hans og bílstólsins sem hann hafi afnot af. 

Á sunnudeginum var svo lagt á ráðin og heimsmálin krufin, allt þar til síðuhaldari spilaði sinn síðasta fótboltaleik með Vaksala Vets fyrir sumarfrí. Óhætt er að segja að liðið sé komið á beinu brautina en þá um kvöldið var þriðja sigrinum í röð landað í blíðskaparveðri á Årsta IP vellinum.

Vikan hefur svo farið í taumlausa vinnu hjá öllum og margir skemmtilegir hlutir gerst.

Þetta er nefnilega vikan þar sem GHPL eignaðist vini hér í götunni, vini sem hún fer með út að leika og vini sem koma til heimsókn til hennar. Í dag var t.d. fullt hús af krökkum hér í dágóða stund sem er algjör nýbreytni ... en skemmtileg nýbreytni.
Það er alveg augljóst ef áfram heldur sem horfir að ég verð að pússa mína sænsku allrækilega.


Með vinunum úti á svölum 

Að lokum er gaman að segja frá því að fyrsta skipti sá ég mann sem skemmti sér konunglega í eltingarleik ... orða þetta kannski aðeins nánar ... ég er sko að tala um mann sem skemmti sér konunglega einn í eltingarleik. 

Auðvitað var það minn ástkæri sonur sem hafði svona sannfærandi ofan af fyrir sér. Hljóp hvern hringinn á fætur öðrum í íbúðinni og heyra mátti í honum skríkjandi af spenningi. Afar skemmtileg og ekki síður athyglisverð sjón.

En svona er þetta ... það verður ekkert blogg á morgun því það er ekkert net í nýju íbúðinni. Á sunnudaginn verður svo haldið til Íslands. Þá verður Ísland komið með nýjan forseta til næstu fjögurra ára. 


Föstudagur 22. júní 2012 - Midsommarafton

Í dag er Midsommarafton sem er hátíðardagur hér í Svíþjóð ... allt er lokað og fólk í sólskinsskapi, geri ég ráð fyrir.

Hátíðarhöld eru hingað og þangað ... en við Lauga tókum smá "tvist" á 'etta og vörðum stórum hluta dagsins í að flytja draslið okkar á milli íbúða. Já, nú fer að nálgast sú stund að við yfirgefum núverandi íbúð og flytjum okkur um set. 

Af þeim sökum ákváðum við að leigja okkur bíl og hefur hann verið nýttur í dag til flutninga. Við erum alveg hjartanlega sammála um það að það er afar þægilegt að hafa bíl ;) .

Hluti dagsins fór líka í annað ... t.d. að heimsækja Sverri, Jónda og Dönu tvisvar í dag. Í fyrra skiptið ákváðum við að skreppa til þeirra með afmælisgjöf handa Jónda sem einmitt á afmæli í dag. Í þeirri heimsókn duttum við í rúgbrauð og síld, sem einmitt er það sem Svíar eta á þessum mikla degi. Skömmu fyrir brottför okkar var okkur svo boðið í kvöldmat, sem við að sjálfsögðu þáðum með þökkum. Mættum "rúmlega" kl. 19, gæddum okkur á himnesku bolognese-i, fengum afmælistertur og loks var boðið upp á leik Grikklands og Þýskalands á EM. Góður pakki þetta!

Eitt er klárt eftir þennan dag ... nafna mínum finnst ekki gaman í bíl!
Það mátti vart milli sjá hvor okkar var pirraðri í bílferðinni, hann yfir því að vera ólaður niður í barnastól eða ég yfir því að hafa orgin í eyrunum á mér allan tímann sem drengurinn sat í stólnum. Hér er því komið mjög verðugt verkefni fyrir mig ... sem er að halda sönsum meðan sonur minn gólar í bílstól. 

--- 

Guddan hefur átt marga góða spretti síðustu daga. Því miður gleymir maður þeim alltof auðveldlega en hér eru tvö "móment".

"Nei mamma, sjáðu bílinn!!" sagði hún í versluninni Biltema og benti á garðsláttuvél en í Biltema má finna allt frá naglaklippum yfir í hestakerrur.

Dana: "Sjáðu Guðrún, þetta er sprauta eins læknirinn er með!" 
GHPL: "Má ég sjá?" Sprautan skoðuð.
Dana: "Hefur þú verið sprautuð?"
GHPL: "Já"
Dana: "Ég var einu sinni sprautuð hérna." Bendir á öxlina á sér. "Viltu sjá?"
GHPL: "Ég er ekki læknir!!" Labbar í burtu.

Svo eru hér tvær samræður sem oft eiga sér stað og eru einhvern veginn með þessum hætti.  

Snemma morguns á virkum degi. PJPL og GHPL eru nývöknuð.
PJPL: "Mamma."
GHPL: "Nei, litli bróðir, mamma er að vinna."
PJPL: "Mamma." 
GHPL: "Nei, litli bróðir, þú mátt ekki segja mamma, mamma ekki heima, mamma er að vinna!"
PJPL: "Mamma."
GHPL (lítur á mig): "Litli bróðir skilur ekkert. Ég segja honum mamma er að vinna!"
PJPL: "Mamma."
GHPL: "Ooooohhhh litli bróðir. Ég er búin að segja að mamma er að vinna!!!"

Við kvöldmatarborðið.
GHPL: "Nú moste ég aðeins að fara og horfa á sjónvarpið. Svo kem ég aftur og svo fer ég aftur að horfa á sjónvarpið ... ókei?" Býr sig undir að víkja frá borðinu.
Ég: "Hvað segirðu?"
GHPL: "Ég moste fara nu og horfa á sjónvarpið, svo kem ég aftur?"
Ég: "Viltu ekki bara borða núna og horfa svo á sjónvarpið á eftir?"
GHPL: "Nei, nei, ég moste fara nu, svo kommer jag að borða meira ... ókei?" 
Ég: "Nei, nei, nú borðar þú bara."
GHPL: "Nei, pabbi ... ég moste fara nu ... snella pabbi snella ..."
Ég: "Jæja ... ok, en bara smástund og svo verðurðu að koma aftur og klára matinn:"
GHPL: "Ok!!" Hleypur inn í stofu.


Þriðjudagur 19. júní 2012 - Tónskáld og útileikir

Jæja ... í fyrsta skipti í kvöld var ég viðriðinn það að semja lag.

Ok ... kannski ekki alveg í fyrsta skiptið því við Lauga höfum verið að semja lag í nokkurn tíma ... ekki að það gangi nokkurn skapaðan hlut hjá okkur.

En í kvöld var ég að semja lag svona fyrir alvöru með Janne gítarleikaranum í hljómsveitinni. Hann mætti með hugmynd að lagi, svo fór það að taka á sig einhverja mynd, ég bætti söngmelódíu ofan á, þannig að í lokin voru við komnir með uppkast af lagi. 

Janne vill endilega að ég semji texta, þannig að hann hefur greinilega fulla trú á mér í þessu ;) ... en já, þetta var mjög skemmtiegt.

Í gær var svo hljómsveitaræfing, svaka stuð í næstum 3 klukkutíma. Ég hef verið betur stemmdur raddlega, var alltof stífur og aldrei þessu vant var ég smá sár í hálsinum eftir sessionina en hvað gerir maður ekki fyrir rokk og ról.

---

Af öðrum er gott að frétta. Allir í stuði.

Guddan er nú kominn á þann stall að nú eru krakkar farnir að spyrja eftir henni. Og GHPL tekur vel í það. Raunar er það svo að í fyrsta skipti hringdu krakkar bjöllunni og spurðu hvort GHPL mætti koma út að leika.
Ég neita því ekki að það hreyfði aðeins við mér ;) . Það er alveg merkilegt hvað allt viðkomandi þessum krökkum ristir djúpt ... hvenær hefði ég getað ímyndað mér að ég myndi kippa mér upp við það að einhver spyrði hvort einhver annar mætti koma út að leika. 


Laugardagur 16. júní 2012 - Á leikvellinum með GHPL og PJPL

Rólegt í dag ... 

Spjallað, borðað, leikið, fiktað í tölvunni ... og já farið út ...


Föstudagur 15. júní 2012 - Svíar fara heim

Þá eru Svíar á leiðinni heim úr EM 2012 eftir tap gegn Englendingum 3-2. 


Mellberg skorar annað mark Svía og breytir stöðunni í 1-2. 

Gamla kempan Henrik Larsson, einn sá sprækasti sem Svíar hafa alið, var ekki mjög hress í ráðgjafahlutverkinu á TV4 eftir leik. Sama má segja um hinn ráðgjafann, Bojan Djordjik.
"En fótbolti er fótbolti", sagði Larsson.

Og núna er búið að draga forsætisráðherrann Fredrik Reinfeldt inn í stúdíó að ræða málin ásamt fleirum og allir frekar spældir. Kannski skiljanlega ;) .

 

---

Lauga hefur verið iðin við að horfa á leikina á EM 2012. Það hefur satt að segja komið mér mjög á óvart. Hún hefur hingað til ekki verið mjög áhugasöm um fótbolta.
En hún situr í sófanum og dæmir aukaspyrnur og stundum víti (jafnvel úti á miðjum velli), spyr hvernig rangstaðan virkar, hampar því sem vel er gert, bölvar mönnum fyrir grófan leik og lélegar sendingar og flissar hneyskluð þegar skotin geiga.

---

Sonurinn veit ekkert betra en poppkorn og vínber. Jú, kannski að komast í súkkulaði. Í kvöld var margt af þessu í boði meðan horft var á leikinn. Drengurinn þvældist hringinn í kringum stofuborðið í leit sinni að einhverju bitastæðu.  

Samfara því skrapp hann nokkrum sinnum að sjónvarpsskjánum, var algjörlega fyrir meðan hann klappaði glaðlega á skjáinn. Eftir að vera fyrir í dágóða stund, beindist fókusinn yfirleitt að ljósinu sem gefur til kynna að tækið sé í gangi og takkanum við hliðina á ljósinu sem er til að slökkva á tækinu. Honum hefur ekki enn tekist á slökkva en það er tímaspursmál.

Hinsvegar er hann búinn að uppgötva appelsínugula takkann á fjöltenginu sem tengir tölvuna mína við rafmagnið.
Það er afar "þakklátur" gjörningur þegar hann ýtir á þann takka meðan vinna á tölvuna stendur sem hæst.  
GHPL ákvað í dag að prófa að ýta á takkann. Ég skyldi ekki hvur fjárinn var að gerast þegar tölvan allt í einu gaf upp öndina. Ég leit á GHPL sem horfði til baka með var-ég-að-gera-eitthvað-sem-ég-má-ekki-gera?-svipnum. Svo vissi hún upp á sig skömmina og fór að gráta án þess að ég hefði nokkurt tækifæri til að setja ofan í við hana.

Meðan á fyrri hálfleik stóð í kvöld horfði heimasætan á Strumpana - með ungversku tali held ég. En henni er slétt sama um það. Í síðari hálfleik fóru hins vegar leikar að æsast, bæði hjá henni og á sjónvarpsskjánum.
Leikmenn tóku að raða inn mörkum og dóttirin tók að raða inn beiðnum um hvers kyns þjónustu. Hún var alveg að pissa í buxurnar og því átti ég að ná í kopp fyrir hana, ég átti að hella poppi í skál fyrir hana og tína upp mylsnurnar af gólfinu. Á meðan var skorað. Svo átti ég að ná í náttkjól fyrir hana og mjólk að drekka. Aftur var skorað. Ég átti að hjálpa henni að klæða sig úr og í og strjúka henni eftir að hún lagðist fyrir í sófanum. Meðan ég var að vasast í því var skorað. Þá vantaði sæng en þá sagði ég stopp ... Lauga náði í sængina. Ekkert gerðist í leiknum á meðan.

"En fótbolti er fótbolti", sagði Henke Larsson ... og það er rétt, það er ekki spurt að því hvort maður sé fyrir framan skjáinn eða frammi í eldhúsi að sækja mjólk í "bleika pjéla" eins og GHPL kýs að kalla stútkönnuna sem hún hefur tekið ástfóstri við. 

Í lokin ... maðurinn sem landslið Svía í fótbolta snýst um ... Zlatan Ibrahimovic í viðtali eftir leik ... 

 


Þriðjudagur 12. júní 2012 - Uppeldi

Í kvöldmatnum þráaðist Guddan við að borða. 

"Guðrún mín, borðaðu nú matinn þinn."
"Nei!"
"Svona láttu nú ekki svona ... borðaðu matinn."
"Ég er búin að segja nei!"
"Svona ... !"
"Ég er búin að segja NEI!!"

Einhvern veginn tókst mér nú samt að fá hana til að taka til matar síns og lauk hún af disknum án teljandi fyrirhafnar. Þá stóð hún upp af stólnum og hugðist ganga inn í stofuna, en sneri svo við, leit á mig og sagði:

"Ég verð reið þegar þú lætur svona! Heyrir þú það?!? Ég verð reið þegar þú lætur svona!"

Svo gekk hún til stofu.

Annars hefur dagurinn bara verið hinn besti ... 


Mánudagur 11. júní 2012 - Sænskt tap en sigur hjá Vaksala Vets

Þessi dagur hefur nú farið í allt annað en að vinna ... 

... eftir að hafa gætt barna og buru í fram yfir hádegið, lagði ég ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum land undir fót og skrapp til Örsundsbro að skoða íbúð. Ágætis díll virðist vera þar á ferðinni en satt að segja er ég ekkert of bjartsýnn með að við löndum þessari ...

... sem skiptir kannski ekki máli. Það verður þá bara eitthvað betra sem bíður okkar ... ekki vafi.

Eftir að hafa dvalið dágóða stund í Örsundsbro, var farið heim, unnið svolítið, fengið sér að borða og loks var komið að fyrsta leik Svía á EM 2012. Ekki gat maður látið það framhjá sér fara.

Sæmilegur leikur og Svíar hefðu vel mátt setj'ann í lokin en það tókst hinsvegar ekki þannig að þeir töpuðu 1-2 fyrir Úkraínu.

---

Í gær var hinsvegar leikur hjá okkur í Vaksala Vets, sem er nokkrum styrkleikaflokkum fyrir neðan sænska landsliðið hvað getu snertir.

Við gerðum góða ferð til Almunge og unnum "geysisterkt" lið  Funbo með tveimur mörkum gegn einu. Leikurinn fór fram á grasi og mikið andsk ... voru það mikil viðbrigði frá gervigrasinu sem vanalega er spilað á. Mér fannst ég vera svona 20 kg þyngri en ég er í raun og er það þá orðin talsverð þyngd sem hér um ræðir.

Hef klárlega spilað betri leik á ævinni en örugglega líka verri leik en því miður fór ég ekki almennilega að skemmta mér fyrir en í seinni hálfleik.

En nú eru komnir tveir sigurleikir í röð hjá Vaksala Vets og einn leikur eftir fyrir sumarfrí. Ég man ekki hvað liðið heitir sem við eigum að spila á móti næsta sunnudag en ég man samt að við töpuðum 9-2 fyrir þeim í fyrra. Það tap er það mesta og besta sem ég hef upplifað á mínum fótboltaferli. Sjálfur skoraði ég annað mark okkar og breytti þá stöðunni í 2-2 en eftir það opnuðust allar flóðgáttir ...

Eftir leikinn kom svo í ljós að íþróttahúsinu hafði verið læst og þar með tapaði ég skónum mínum sem stóðu, fallega uppraðaðir í skóhillunni, handan við læstu glerhurðina. Af einhverri rælni hafði ég álpast til að taka fötin með mér út á völl ... man ekki ástæðuna ... en skilið skóna eftir.  

Sjónstöðvarnar í mér hafa ekki greint þá skó aftur og mun sennilega ekki gera héðan af.


Laugardagur 9. júní 2012 - Afmælisveislan

Í dag var afmælisveisla ... fyrsta alvöru afmælisveislan hjá dótturinni.

Þess vegna er ótrúlega spælandi að video-ið sem tekið var af henni að blása á kertin þurfti að sjálfsögðu að eyðileggjast. Ástæða þeirrar eyðileggingar er eitthvað sem myndavélin ein getur gert grein fyrir.

En hér mættu góðir gestir í kökur og með'í.

Lauga bakaði einhverja merkustu köku sem um getur ... en það var fjögurra hæða prinsessuterta. Guddan var alveg sátt við það.

 

Um klukkustund fyrir afmælið leit það ekki björgulega út með prinsessutertuna. Jafnvel var rætt um að koma henni bara einhvers staðar fyrir á góðum stað meðan afmælið færi fram. En svo var reynt til þrautar og útkoman harla glæsileg.

Það er ljóst að það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur að þessu sinni ... ;) . 

 

Svo var þessi bökuð líka og afmælisbarnið sjá um skreytingarnar.

Þegar skreytingin átti sér stað, stóðst afmælisbarnið ekki málið og sleikti nokkra mola áður en hún hugðist setja þá á kökuna, en var búið að koma henni í skilning um að hún ætti ekki að raða molunum í sig.

Það komst upp um strákinn Tuma og sagði móðirin að hún mætti alls ekki sleikja molana áður. "Ef þú sleikir molana þá verður þú að borða þá", sagði hún.
Ég kímdi enda ekki alveg sannfærður um að þessi regla myndi skila tilætluðum árangri. 

Afmælisboðið gekk ljómandi vel og ekki að sjá annað en að afmælisbarninu, foreldrum og gestum líkaði það hið besta.
Margar góðar gjafir bárust og kunnum við öllum miklar þakkir fyrir þær.

 


Fimmtudagur 7. júní 2012 - Guddan 4 ára

Nú er heimasætan orðin fjögurra ára ... hreint með ólíkindum hvað tíminn líður.

Man þegar hún fæddist hvað mér fannst langt þangað til hún næði þessum merka aldri.


Myndin tekin í Stadsträdgården í dag

Það hefur nú ýmislegt á dagana drifið á árinu og verður það tekið saman í afmælismyndbandi sem nú er í vinnslu.

Maður er kominn með þetta allt saman á hælana sökum anna við hin ýmsu störf.

Til hamingju með afmælið, elsku Guddan okkar!! 

 


Miðvikudagur 6. júní 2012 - Þjóðhátíðardagur Svía

Eftir gott morgunkaffi var ákveðið að fara í bæinn.

Allir fóru í svona sæmileg föt enda leit veður út fyrir að vera hið besta, hálfskýjað og bara góður lofthiti.

Í strætónum benti ég GHPL á bensínstöð eina og sagði henni að þarna fengju bílarnir sér að drekka. "Já, já" sagði sú stutta eins og það væri henni fyrir löngu kunnugt. 
"Veistu hvað bílarnir drekka?" spurði ég þá.
"Tómatsósu!!" var svarið og þar með lauk umræðunni af minni hálfu, enda allt sagt sem segja þurfti.

Þegar niður í bæ var komið tók að rigna. Úrhelli.

 

Og ekkert annað að gera en að drífa sig inn í eitthvert mollið niðri í bæ. Að skoða í búðir voru sum sé "skemmtiatriði" dagsins í dag meðan húðrigndi.

Við skruppum svo á kaffihús.

Upp úr klukkan 5 var hægt að voga sér út aftur og tókum við stóran útúrdúr á heimleiðinni - út í Ekeby og Eriksberg enda var þá sólin farin að skína á nýja leik.

 

"Óþjóðhátíðarlegasti dagur sem ég hef upplifað" var einkunnin sem Lauga gaf. Jú, það er töluvert til í því. Mæta of seint í hátíðarhöldin og svo rignir eldi og brennisteini loksins þegar maður lætur sjá sig. 

Engu að síður var þessi dagur hinn besti ... þannig að ekki misskilja það :) . 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband