Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Prúðuleikararnir

Ég verð bara að setja þessa myndbönd hér inn ... mér finnst þau alveg ótrúlega fyndin!

Já, í því fyrsta fer hann Dr. Bunsen Honeydew á kostum þegar hann kynnir til sögunnar "gorilla detector" ...

Hér er önnur klippa frá "The Muppet Lab, where the future is being made today" ... Dr. Bunsen Honeydew og hinn algjörlega óviðjafnanlegi Beaker ...

Ég er alltaf að sjá betur og betur, hvað maður var innilega ekki að skilja Prúðuleikarana, þegar þeir voru á föstudögum í sjónvarpinu, svona í kringum árið 1980 ...

... þá fannst mér þeir ekkert sérstakir ... alltof mikið af söngatriðum!!

En þvílík snilld ...

... og svona eitt í lokin ... Beaker syngur lagið "Mimi" ...


Sögur af Gunnu

Dóttirin náttúrulega heldur áfram að vaxa og dafna, eins og kannski búast mætti við ... og þó ... ég veit svo sem ekkert hvort manni leyfist eitthvað að líta á það sem sjálfsagðan hlut ...

... maður ætti miklu frekar að falla á hné af auðmýkt fyrir almættinu, fyrir að vera svona miskunnsamur ... og ég er ekki að grínast!

Þetta er alveg sama "prinsippið" og með bandamennina, sem ég skrifaði um, um daginn, ... í stað þess að líta á þetta allt saman sem sjálfsagðan hlut og krossbregða svo ef hlutirnir breytast eða fara á annan veg ein ætlað er, væri nær að þakka fyrir að allt er eins og það á að vera.

Eitt dæmi: Þú hlýtur að kannast við hversu gott það er að losna við hausverk ... þetta móment þegar hausverkurinn hættir og lífið tekur á sig nýjan blæ og allt verður æðislegt!  Hefurðu einhvern tímann hugsað um hvernig lífið væri ef þú værir alltaf með hausverk???  Er ekki alveg ástæða til þess að skjóta upp flugeldum á hverjum degi bara til að fagna því að maður er ekki krónískur höfuðverkjasjúklingur??!

En jæja, ... aftur að dótturinni, sem til allrar guðsblessunar dafnar vel.
Í gær steig hún markvert skref þegar hún í fyrsta skipti "lék" sér við þá Fredda frosk, Fífí og Snúlla snigil (nafngiftirnar eru Laugu), en fyrir þá sem það ekki vita, eru þessir leikfélagar fastir við hægindastólinn sem keyptur var í síðustu viku, fyrir peningana frá "ömmu" Fötmu.  Og fyrir þá sem ekki vita hver Fatma er, þá er það leigusalinn okkar ... Já, leigusalinn gaf "barnabarninu" $100 í "fæðingarstyrk"!

"Leikurinn" við þrenninguna, var æsispennandi og byggðist á því að Houdini, rak höndina í eitthvert þeirra, þá heyrðist hljóð og hún horfði stórum augum á viðkomandi, svo danglaði hún höndinni í annan leikfélaga og þá heyrðist öðruvísi hljóð og hún leit þangað. 
Hér eru myndir frá þessum mikla viðburði ...


Leikar að hefjast ...


Dóttirin komin á gott skrið og notar nú báðar hendur jafnt!!!


Svei mér þá, ef ekki örlar á brosi þarna ... enda fjörið mikið!!

Stúlkan er orðin árvökul og fylgist vel með því sem er að gerast í kringum sig, fylgir hreyfingum með augunum ... já, og svona ...

Það er þó athyglisvert að ekkert fangar athygli hennar í líkingu við svarta jakkann sem ég fékk frá Gladesville Ryde Magic rauða eldvarnarteppið sem er við hlið jakkans, að ógleymdum græna flugnaspaðanum, sem nýtur er nauðsynlegur hluti félagsskaparins. 
Á þessa heilugu þrenningu, horfir hún Gunna okkar, nánast þannig að augun eru að detta úr tóftunum. 
Og það er sama hvernig henni er hagrætt, til dæmis hvort hún er flutt frá hægri handleggnum yfir á þann vinstri eða öfugt, hún missir ekki augnkontaktinn við mál málanna eitt augnablik.


Hin heilaga þrenning

Síðasta sunnudag sýndi stúlkan svo á sér sparihliðarnar þegar Nick og Rosa komu í heimsókn.  Eftir annasaman göngutúr á laugardeginum, fríkaði hún út á sunnudeginum og lét öllum illum látum.  Sennilega má rekja það að mestu leyti til þeirrar staðreyndar að meltingartruflanir voru þónokkrar, með tilheyrandi uppsölum, freti og "sprengjum".  Bleyjurnar streymdu úr pakkningunum og klútarnir streymdu úr skúffunni til að bjarga málunum og var það vel ...


Verið að hlaða fyrir "sprengingu"

Annars verður nú að segja snótinni það til varnar að öllu jafna er hún afskaplega meðfærileg og róleg ... þessi sunnudagur var bara undantekningin sem sannaði regluna.


Í dag svaf hún svona eins og lítill pakki, í meira en 6 klukkutíma

Svo er einnig gaman að segja frá því að grátur dömunnar, sem var nú ekki upp á marga fiska í upphafi, er tekinn að styrkjast allverulega ... þannig að á nóttunni, biður maður bara fyrir sér, þegar hún vaknar og rekur upp nokkrar rokur.  Það er náttúrulega mjög bagalegt ef allir íbúar hússins, sem við búum í, hrökkva upp með andfælum í hvert sinn sem sú litla heimtar hressingu eða "umskiptingu".  Enginn hefur svo sem kvartað ... enda held ég svo sem að það þýði ekkert fyrir þá að kvarta við "ömmu" Sydneyjar, hana Fötmu ... altso ...

Snuðið er ofarlega á baugi þessa dagana ... það er á hreinu að Guðrún vill snuð ... stundum ... og stundum alls ekki!
Það er alveg kostulegt að sjá hversu mikið mál, þetta blessaða snuð er ... það er stundum sogið af svo mikilli áfergju, að maður hefur það á tilfinningunni að helst vilji hún gleypa það.  Svo tapast allt í einu sogkontakturinn ... loft hefur greinilega komst á milli(!), ... án þess þó að snuðið velti út.  Við slíkar aðstæður, leyfa vitsmunir þeirrar stuttu það ekki að byrja bara að sjúga aftur, heldur frekar grípur hún þá til þess ráðs að kvarta með því afleiðingum að snuðið húrrast út úr munninum og fer bara sína leið.  Og þá eru góð ráð dýr! 
Strax og snuðið hefur farið sína leið, hverfur þolinmæði þeirrar stuttu á ljóshraða, en hlutirnir eru líka mjög fljótir að lagast þegar túttan er komin á sinn stað aftur!!

Það er því alveg deginum ljósara að einföldustu hlutir eru harla flóknir, þegar maður er 5 vikna gamall ...

Svo er eitt sem er alveg dásamlegt en það er þegar Guddu krossbregður við hljóðin úr sjálfri sér.  Upp úr þurru gefur hún frá sér eitthvert undarlegt hljóð og í kjölfarið fær hún hér um bil hjartaslag, allir útlimir stífna og andlitið verður stjarft ... ég verð að segja það að ég fæ aldrei nóg af því að sjá þegar þessi atburðarrás á sér stað.   
Annars minnir mig að hann Jón Spæjó, sem Laddi kynnti til sögunnar fyrir nokkrum árum, hafi þurft að glíma við svipað vandamál, þegar hann varð nánast lamaður af hræðslu, eitt sinn við skyldustörf, þegar hann heyrði þungt, taktfast hljóð ... sem við nánari athugun komst hann að því að þetta var hans eigin hjartsláttur!

... í framhjáhlaupi má geta þess barnið er nú orðið 53,5 cm ... óx um einn sentimetra í síðustu viku!

Læt þetta duga í bili ...


Myndir og ferðalag

Jæja, áður en dramatíkin hér í Sydney heldur áfram, tel ég rétt að hér komi ögn líflegri færsla ... svona til staðfestingar á því að skemmtilegir hlutir eiga sér líka stað.

Blessað barnið hefur það gott ... takk fyrir!!  

Hér koma nokkrar myndir af því, máli mínu til staðfestingar ...


Enn ein baðmyndin ... það er nú meira hvað mér finnst gaman að taka myndir af barninu í baði, já og setja þær myndir svo á vefinn


Hún er ekki lítið gáfuleg dóttirin á þessari mynd ... Hún er hugsuður!!


Hér eru sumir komnir í ansi slæm mál, og vita ekki alveg hvernig þeir eiga að koma sér út úr þeim!

Við skruppum í góða ferð í gær ... óvissuferð.  Við fórum niður á Circular Quay, sem er helsta ferjumiðstöð borgarinnar og stukkum svo upp í næsta bát.

Ákváðum að fara svo út á Kissing Point, sem er nokkuð vestarlega í norðurhluta borgarinnar ... 

... gengum svo frá Kissing Point að Cabarita, sem er um 8 km leið.

Meiningin var að fara í svona huggulega siglingu, svo í fallegan göngutúr á ókunnugum slóðum, sjá eitthvað nýtt, ræða um lífið og tilveruna, viðra barnið, koma svo við á kaffihúsi og fá eitthvað gott í mallakútinn, sigla svo aftur heim í rólegheitum.

Þetta tókst ekki alveg.  Á bátnum á leiðinni til Kissing Point, var hvasst og kalt og þurftum við að hlusta á eitthvað fólk rífast hálfa leiðina um það hvort X hefði átt að færa sig um einn rass fyrir Y eða ekki.  Göngutúrinn var einhvers staðar í "middle of nowhere" og ekkert sérstaklega skemmtilegt að sjá, barnunginn ælandi og gerandi í brækurnar, ekki eitt einasta kaffihús varð á vegi okkar, enda stödd í miðju íbúðarhverfi, mallakúturinn því tómur allan daginn, myrkur skall á miðri leið og götulýsing fremur lítil og við þurftum að flýta okkur eins og við gátum til Cabaria til að missa ekki af síðustu ferð í bæinn ...

... þetta var sum sé nokkuð góður göngutúr, bara töluvert öðruvísi en skipulag hafði gert ráð fyrir!

Í það heila var göngutúrinn rúmir 16 km, þannig að þetta var nú bara nokkuð gott dagsverk, þegar öllu er á botninn hvolft! 

Við tókum nokkrar myndir á leiðinni ... og eru þær hér ... 

Ferðin nýhafin ...

 

 
 
 
Barnunganum gefið í Kissing Point Park
 

 Stoppað á Waterview, til að láta Snúllu ropa, í þeirri von að hún myndi hætta að æla, gekk svona og svona ...
 
 Einhvers staðar á myndinni má sjá litla flugvél ...
 

Þetta er klárlega minnsta slökkvistöð sem ég hef nokkru sinni séð!!
 

Fjölskyldumynd í Kokoda Track Memorial Walkway
 

Ætli þessi könguló sé ekki svona 10 cm að stærð, frá "framtá" að "afturtá".  En þessi mynd heitir "Könguló og tungl"
 
 
 

Á leiðinni til baka
 
 
Þetta er nú hið svokallaða CBD "Central Business District" í Sydney ... háhýsi og aftur háhýsi
 
 
 Á leiðinni inn Darling Harbour, mættum við þessu fleyi ... litskrúðugt ekki satt??!

Endalok þjálfaraferilsins

Á þriðjudagskvöldið síðasta tókst mér að vinna einstakt afrek!!  Já, ég vil kalla það einstakt afrek ...

... því mér tókst að vera rekinn úr sjálfboðavinnu!!

Og ekki nóg með það ... mér tókst að vera rekinn úr sjálfboðavinnu, þrátt fyrir að standa mig með afbrigðum vel í vinnunni!!

Ég var rekinn úr sjálfboðavinnu, vegna þess að ég sagðist ekki geta unnið með manni, sem vinnur vinnuna sína svo illa að eftir því er tekið og yfir því er kvartað af fjölda fólks!!
Ég var líka rekinn úr sjálfboðavinnu fyrir það að vilja ekki vera aðstoðarþjálfari, þjálfara sem er í þjálfun hjá öðrum þjálfara!!

Já, ég er að tala um endalok mín sem þjálfari U-14 liðs Gladesville Ryde Magic!!  Stjórn félagsins ákvað að láta mig fara þrátt fyrir almenna óánægju með aðalþjálfara liðsins.  Í minn stað kemur yfirþjálfari félagsins og mun hann fylgjast með því að þjálfarinn þjálfi eins og yfirþjálfarinn vill að hann þjálfi!!

Aðalþjálfari U-14 liðsins er sum sé í þjálfun hjá yfirþjálfara félagsins, á sama tíma og hann er að þjálfa liðið!!

Já, ég veit það ... þetta er óskiljanlegt!!!  Með öllu!!!
Ég sagðist ekki vilja taka þátt í þessu og bað um að tekið yrði á málunum af einhverju viti ... því var svarað með því að henda mér útbyrðis!

Já, þjálfaraferill minn endaði því jafn snögglega og hann byrjaði.  Af hverju er mér alveg lífsins ómögulegt að fara hefðbundar leiðir?!?

Viðbrögð strákanna og foreldrana hafa ekki látið standa á sér ... mér vöknar um augun að lesa þau ... lítum á brot úr nokkrum skeytum sem mér hafa borist ...

...  I have really enjoyed and apppreciated the time which you have spent with our team, and hope we will see you again ...
... this is a very sad time, not only for you but also the team as you have been immensely popular with the players ...
... you have taught me a lot about football.  Why do you have to leave?  Thank you for everything you have done ...
... thank you for your work this year and in particular your fun and positive approach with the boys ...
... You have provided Nick with great advise and helped him tremendousily with his overall skill and performance. You have been great at inspiring him and lifting his spirit when it was low. It is very sad news and you will be greatly missed ...
...  I'm sure all the boys and especially ME will be hurt from your loss. Your the best COACH I HAVE EVER HAD!  THANKS PALL FOR ALL YOU HAVE DONE FOR ME. I WILL MISS YOU WITH ALL MY HEART. YOUR THE BEST.  BEFORE EVERY GAME I AM GOING TO SAY our CALL (IN ICELANDIC) IT WILL BE FOR YOU PALL.  I hope you do come back to coach us ...

Ef þessi brot og einkum og sér í lagi, það síðasta, sem kom frá fyrirliða liðsins kremur ekki á mér hjartað ... þá veit ég ekki hvað!!  Drengurinn ætlar að læra að segja "hverjir eru bestir?" á íslensku og öskra það þegar í búningsklefanum fyrir leiki ... og það verður tileinkað mér!!!

Núna er ég farinn að brynna músum ... góða nótt!!!

 


Bandamaðurinn Sigga

Ég neita því ekki að upphaflega var skrýtið að koma hingað til Sydney, þar sem ég þekkti nánast engann.  Mér fannst það skrýtið að upplifa það að gegnumsneitt væri fólki alveg nákvæmlega sama um örlög mín.  Til dæmis, ef ég yrði keyrður í klessu úti á götu, þá væri öllum sama um það.  Auðvitað fyndist nærstöddu fólki kannski óþæginlegt að horfa upp á atburðinn per se, en hann myndi sennilega ekki kollvarpa lífi þess. 

Satt að segja fannst mér það meira en skrýtið að uppgötva þessa staðreynd, það var eiginlega bara óþægilegt ... og ég hugsaði um það hversu miskunnarlaust fólk væri. 

En svo rann upp fyrir mér ljós ... og ég sneri þessari hugsun á hvolf ...

... og hugsaði hversu ótrúlegt það er í raun að einhverjum skuli þykja vænt um mann.  Að það sé til fólk sem raunverulega þykir vænt um mann. 
Ég hugsaði til fjölskyldu og vina heima á Íslandi ... fólksins sem þykir vænt um mig ... algjörlega óumbeðið ber það hag minn fyrir brjósti sér! 

Þetta eru bandamenn mínir, þetta er baklandið!!

Er það ekki í raun alveg stórmerkilegt?!? Mér finnst það!!  Bandamannahópurinn skyldi aldrei vanmetinn, sannast sagna ætti maður að þakka fyrir hann á svona klukkutíma fresti.

Hversu mikils virði eru elskandi foreldrar?  Systkin?  Frænkur og frændur?  Góðir vinir?
Hversu mikinn fé myndi maður vilja fá í skiptum fyrir bandamenn sína?

Allt heimsins gull og gersemar myndu ekki duga ... slíkt er verðmæti þeirra!! 

Þess vegna er það mjög sárt þegar höggvið er skarð í bandamannahópinn ... þegar þeim fækkar sem eru manni velviljaðir, þeim sem þykir vænt um mann ...

... en slíkt gerðist í dag, þegar einn helsti bandamaður minn, og einn helsti bandamaður fjölskyldu minnar síðastliðin 50 ár, Sigríður Guðmannsdóttir lést á Landakotsspítala í morgun.

Fráfall Siggu kom ekki á óvart ... hún barðist hetjulega við lífshættulegan sjúkdóm í mörg ár en á síðustu vikum, hefur verið ljóst hvert stefndi.
Samt vonaði ég og vonaði að þetta myndi lagast ... hún myndi ná yfirhöndinni á nýjan leik ...

... vonin er sterkt afl, en stundum ekki nógu sterkt afl því vonin um að Sigga sigri þennan vágest er úti nú.

Mig langar til að þakka Siggu kærlega fyrir samfylgdina, þakka henni fyrir allt það sem hún hefur gert fyrir mig og fjölskyldu mína.  Mig langar til að þakka henni fyrir vera til staðar þegar á reyndi ... þakka henni fyrir að vera bandamaður!!  Hennar á eftir að verða sárt saknað.

Að síðustu langar mig til að þakka henni fyrir að hafa birst mér í draumi fyrir fáeinum dögum, þar sem hún kom inn í herbergi, þar sem ég sat.  Hún gekk til mín.
"Ég er komin til að kveðja þig", sagði hún.
"Nú? Strax?" svaraði ég.
Hún beygði sig og kyssti mig á kinnina. 
"Vertu sæll, Bobbi minn, við sjáumst síðar", sagði hún að lokum.  Því næst gekk hún út úr herberginu og lokaði á eftir sér ...

Blessuð sé minning, Siggu.


Heimasíða

Í dag vann ég þrekvirki!!

Í dag opnaði ég heimasíðu www.palllindal.com

Má bjóða þér að kíkja á hana?  Hún er mun meira aðlaðandi en sú sem birtist fyrir nokkrum dögum ... það vantar þó enn pínulítið "touch", svo hún verði æðisleg!

Fyrir mig var þessi niðurstaða stórsigur ... ég er nefnilega enginn tölvusnillingur, né áhugamaður um tölvur!  En ég er kominn á beinu brautina, þökk sé Fjólu, vinkonu minni sem veitti mér mjög svo verðmætar upplýsingar!!

Uppbygging veldisins er hafin ...


Að "díla" við mesta fávita í heimi ...

... er ekkert grín!!

Og þessa dagana er ég að því ...

Nú um stundir er ofurdrama í gangi hér í Sydney ... ef til vill reka lesendur þessarar síðu, minni til þess þegar ég sagðist vera orðinn, harla óvænt, fótboltaþjálfari hér á suðurhveli jarðar.  Eitthvað sem ég hafði aldrei haft í hyggju að gera ... en lífið er stundum óútreiknanlegt ...

Fullur bjartsýni og áhuga, leit ég á verkefnið sem glæsilega áskorun fyrir mig ... í fyrsta lagi að vera fótboltaþjálfari og í öðru lagi að vinna með hóp 14 ára drengja.

En hlutirnir hafa heldur farið á annan veg en ég ætlaði ... því ér er að vinna með mesta fávita í heimi!!!
Og mesti fáviti í heimi er einmitt aðalþjálfari liðsins, sem hefur svo gjörsamlega skitið í brækurnar með þetta allt saman.

Í febrúar síðastliðnum iðuðu drengirnir að komast á æfingar, hreinlega iðuðu ... voru mættir 30 - 45 mínútum of snemma og biðu óþreyjufullir eftir að æfing hæfist!

Nú nokkrum mánuðum seinna, kvarta þeir sáran undan því hversu leiðinlegar æfingarnar eru, eru áhugalausir, stynja yfir því hversu skipulag og aðferðafræði þjálfarans er flókin, leikir tapast og tapast, foreldrar eru orðnir æfir, ég er orðinn æfur, liðstjórinn er orðinn æfur og stjórn klúbbsins hefur sett þjálfarafíflið í gjörgæslu!

Skilaboð stjórnarinnar til þjálfarans eru eftirfarandi: "Nú gerir þú eins og þér er sagt að gera eða þú verður rekinn!" 

Og hvað gerir þjálfi ... hann hringir í mig kl. 9 í morgun til að segja mér það að ég sé vandamálið!!  Þegar ég spurði hann hvað hann ætti við, byrjaði hann að þvæla eitthvað algjörlega óskiljanlegt, vísaði í nafnlausa heimildamenn, og másaði svo og dæsti, þegar ég sagði honum að ég skildi ekki alveg hvert hann væri að fara ...

Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að ég varð "furious"!!  Það að maður, sem er ekki starfi sínu vaxinn, sé að hringja í mann og breiða yfir öll vandamál honum sjálfum tengdum með því að kenna öðrum um er eitthvað sem erfitt er að sætta sig við!

Í dag íhugaði ég í fyrsta skipti, alvarlega að hætta þessu þjálfarastarfi ... það er einfaldlega ekki hægt að vinna með þessum fávita!
Þetta er samt lífsreynsla sem ég hefði ekki viljað missa af ... að vinna með fávitum getur oft verið góð æfing fyrir þolrifin ...

William Clement Stone hefði sjálfsagt sagt að þessi lífsreynsla væri það besta sem hefði getað gerst!  Á undanförnum mánuðum hef ég þrifist á þessari heimspeki ... og segi tíu sinnum á dag: "Takk meistari, takk!"

Ég veit ekki hvort þessi færsla "meikar sens" en allavegana er þetta þá komið í loftið!


Afmælisdagurinn!!

Í dag var afmæli ... já, hún Guðrún Helga varð mánaðargömul í dag!!

Það er hreint með ólíkindum hvað tíminn líður hratt ... en alltént hefur þetta verið einhver sá ánægjulegasti mánuður sem ég hef upplifað.  Og hvað ég hef lært mikið ... ja hérna!  Og hvað ég hef komið mér mikið á óvart ... allamalla, það er alveg rosalegt!

Lauga segir að ég hafi staðið mig miklu betur sem faðir dóttur minnar, heldur hún átti fyrirfram von á ... það eru náttúrulega ánægjuleg tíðindi fyrir mig.
En það er alveg staðreynd að þetta hlutverk hefur farið betur í mig en ég þorði að vona í upphafi.  Það var kannski bara sú ákvörðun sem ég tók, um það leyti sem litla snótin rak höfuðið út úr móðurkviði, um að taka þessu föðurhlutverkinu ekki of hátíðlega, með öðrum orðum, bara slappa af ...

... en um leið axla ábyrgð ... kannski var það mikilvægasta ákvörðunin ...

... kannski ekki gott að segja en allavegana, hefur þetta farið miklu betur með mig, en mig óraði fyrirfram.

Barnunginn hélt upp á afmælið með því að láta svolítið ófriðlega frameftir degi ... en seinnipartinn hefur hann bara steinsofið út í eitt.  
Í kvöld mættu góðir gestir í heimsókn eins og sést á eftirfarandi myndum ... afmælisbarnið ákvað hins vegar að gera ekki stórmál úr því!

Það var mjög glatt á hjalla í partýinu og skemmtu gestir sér konunglega!! 

Og svona smá tölfræði í lokin ...

Sydney hefur lengst um 7 cm á þessum fyrsta mánuði ævi sinnar ... óformleg mæling fór fram í dag.  Og er hún nú 52,5 cm.
Eitthvað hefur hún væntanlega þyngst en tölur um þyngdaraukningu liggja ekki fyrir, þar sem ekki er til vigt á heimilinu!  3.000 gramma markið hlýtur þó að vera löngu sigrað! 
Ummál höfuðs hefur aukist um rúmlega 2 cm og mælist nú 34 cm.


4 vikur!

Í tilefni þess að anginn okkar er nú orðinn fjögurra vikna ... sem er náttúrulega heilmikill áfangi fyrir alla aðila, er hér myndasyrpa frá liðinni viku.

Já, þetta eru búnar að vera alveg magnaðar fjórar vikur!!!  Það er óhætt að segja það!!


Pakki og pizza

Fyrir þá sem það ekki vita eru jól hér í Ástralíu um þessar mundir ... kannski ekki hinn eiginlegu jól, þar sem fæðingu frelsarans er fagnað, heldur eitthvað sem kalla mætti "vetrarjól".  Á vetrarjólum, þreifa Ástralir á því hvernig er að halda jól að vetrarlagi, fá svona smjörþefinn af því ... því innst inni má auðvitað gera ráð fyrir að Ástrali þrái að hafa jól á veturna, eða með sama hætti og allar heiðvirtar kristnar þjóðir.

En vegna hnattrænnar stöðu sinnar og hreyfinga himintunglanna geta þeir það ekki.

Þeir verða bara að sætta sig við þetta ... og í samræmi við misræmiskenningu Festingers frá 1958, bregðast þeir þá við með því að þykjast vera voða, voða ánægðir með að halda upp á jólin í 35°C í desember ... draga þá fram plastsnjókarlana sína og kappklædda Sánkta Kláusa og stilla öllu havaríinu upp úti í garði.  Allt er svoleiðis í himnalagi ... (eða þannig ...!)

En hví að vera að tala um þetta?? 

Svarið er einfalt ... Guðrúnu Helgu dóttur minni brast pakki í gær ... og nú kemur mergurinn málsins ... en hann er að hún þarf ekki að hafa áhyggjur af því að lenda í "vetrarjólakettinum" hér í Ástralíu, þetta árið, svo mikið er víst!!
Já, vinkonur okkar þær Nanna og Rósa, heiðvirtir Skagfirðingar báðar tvær, sendu góðar gjafir og veglegar!! Og meðal efnis var fyrsta bók stúlkunnar sem er um húsdýrin okkar ... svo sannarlega kærkomið lesefni, sem minnir stúlkuna á rætur sínar ... Ísland ... maður skal aldrei gleyma rótum sínum!!  Fyrir hönd sennilega minnsta Íslendingsins í Ástralíu, sem kann nú ekki að tala né skrifa enn sem komið er, þakka ég kærlega fyrir!!  Þetta er bara alveg meiriháttar!! 

Annars er gott af okkur að frétta.  Í gær skrapp ég til Campbelltown, sem úthverfi Sydney-borgar.  Það tekur aðeins í rúmlega klukkutíma að komast þangað með lest og ætti það segja eitthvað fyrir um hversu dreifð Sydney.  Íbúar Sydney eru ekki svo átakanlega margir, eitthvað í kringum 4 milljónir, en þéttleiki hennar er svo lágur að hún þekur landsvæði, sem samsvarar öllu Reykjanesinu og gott betur!! 

Og hvert var nú erindi mitt til Campbelltown?  Tja ... ég var að hitta þar tölvugúrúið Jonathan, en hann er að hjálpa mér með að útbúa sýndarveruleikann fyrir rannsóknina mína.  Hann er gríðarlegt gúrú og hefur búið til glæsileg módel af borgum og byggingum.  Til dæmis er hann þessa dagana að búa til módel af Reichstag, þinghúsi Þjóðverja í Berlín (sjá mynd).

The Reichstag building. The dedication

Dagurinn fór að mestu leyti í þetta ferðalag mitt og það var svo hverrar mínútu virði, því Jonathan lét mig hafa býsnin öll af alls konar skrám og upplýsingum, sem ég get notað fyrir verkefnið mitt.

Þegar ég kom heim, hringdi ég nokkur símtöl út af leiknum á morgun og skellti ég mér út á Wood and Stone og náði í pizzu handa okkur Laugu.  Og video!!  Myndin ekki af verri endanum ... Police Academy ...
Ég held satt að segja að ég hafi bara aldrei séð þessa mynd fyrr ... en hún var fín!

Pizza og video ... klikkar aldrei!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband