Pakki og pizza

Fyrir þá sem það ekki vita eru jól hér í Ástralíu um þessar mundir ... kannski ekki hinn eiginlegu jól, þar sem fæðingu frelsarans er fagnað, heldur eitthvað sem kalla mætti "vetrarjól".  Á vetrarjólum, þreifa Ástralir á því hvernig er að halda jól að vetrarlagi, fá svona smjörþefinn af því ... því innst inni má auðvitað gera ráð fyrir að Ástrali þrái að hafa jól á veturna, eða með sama hætti og allar heiðvirtar kristnar þjóðir.

En vegna hnattrænnar stöðu sinnar og hreyfinga himintunglanna geta þeir það ekki.

Þeir verða bara að sætta sig við þetta ... og í samræmi við misræmiskenningu Festingers frá 1958, bregðast þeir þá við með því að þykjast vera voða, voða ánægðir með að halda upp á jólin í 35°C í desember ... draga þá fram plastsnjókarlana sína og kappklædda Sánkta Kláusa og stilla öllu havaríinu upp úti í garði.  Allt er svoleiðis í himnalagi ... (eða þannig ...!)

En hví að vera að tala um þetta?? 

Svarið er einfalt ... Guðrúnu Helgu dóttur minni brast pakki í gær ... og nú kemur mergurinn málsins ... en hann er að hún þarf ekki að hafa áhyggjur af því að lenda í "vetrarjólakettinum" hér í Ástralíu, þetta árið, svo mikið er víst!!
Já, vinkonur okkar þær Nanna og Rósa, heiðvirtir Skagfirðingar báðar tvær, sendu góðar gjafir og veglegar!! Og meðal efnis var fyrsta bók stúlkunnar sem er um húsdýrin okkar ... svo sannarlega kærkomið lesefni, sem minnir stúlkuna á rætur sínar ... Ísland ... maður skal aldrei gleyma rótum sínum!!  Fyrir hönd sennilega minnsta Íslendingsins í Ástralíu, sem kann nú ekki að tala né skrifa enn sem komið er, þakka ég kærlega fyrir!!  Þetta er bara alveg meiriháttar!! 

Annars er gott af okkur að frétta.  Í gær skrapp ég til Campbelltown, sem úthverfi Sydney-borgar.  Það tekur aðeins í rúmlega klukkutíma að komast þangað með lest og ætti það segja eitthvað fyrir um hversu dreifð Sydney.  Íbúar Sydney eru ekki svo átakanlega margir, eitthvað í kringum 4 milljónir, en þéttleiki hennar er svo lágur að hún þekur landsvæði, sem samsvarar öllu Reykjanesinu og gott betur!! 

Og hvert var nú erindi mitt til Campbelltown?  Tja ... ég var að hitta þar tölvugúrúið Jonathan, en hann er að hjálpa mér með að útbúa sýndarveruleikann fyrir rannsóknina mína.  Hann er gríðarlegt gúrú og hefur búið til glæsileg módel af borgum og byggingum.  Til dæmis er hann þessa dagana að búa til módel af Reichstag, þinghúsi Þjóðverja í Berlín (sjá mynd).

The Reichstag building. The dedication

Dagurinn fór að mestu leyti í þetta ferðalag mitt og það var svo hverrar mínútu virði, því Jonathan lét mig hafa býsnin öll af alls konar skrám og upplýsingum, sem ég get notað fyrir verkefnið mitt.

Þegar ég kom heim, hringdi ég nokkur símtöl út af leiknum á morgun og skellti ég mér út á Wood and Stone og náði í pizzu handa okkur Laugu.  Og video!!  Myndin ekki af verri endanum ... Police Academy ...
Ég held satt að segja að ég hafi bara aldrei séð þessa mynd fyrr ... en hún var fín!

Pizza og video ... klikkar aldrei!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband