Sögur af Gunnu

Dóttirin náttúrulega heldur áfram að vaxa og dafna, eins og kannski búast mætti við ... og þó ... ég veit svo sem ekkert hvort manni leyfist eitthvað að líta á það sem sjálfsagðan hlut ...

... maður ætti miklu frekar að falla á hné af auðmýkt fyrir almættinu, fyrir að vera svona miskunnsamur ... og ég er ekki að grínast!

Þetta er alveg sama "prinsippið" og með bandamennina, sem ég skrifaði um, um daginn, ... í stað þess að líta á þetta allt saman sem sjálfsagðan hlut og krossbregða svo ef hlutirnir breytast eða fara á annan veg ein ætlað er, væri nær að þakka fyrir að allt er eins og það á að vera.

Eitt dæmi: Þú hlýtur að kannast við hversu gott það er að losna við hausverk ... þetta móment þegar hausverkurinn hættir og lífið tekur á sig nýjan blæ og allt verður æðislegt!  Hefurðu einhvern tímann hugsað um hvernig lífið væri ef þú værir alltaf með hausverk???  Er ekki alveg ástæða til þess að skjóta upp flugeldum á hverjum degi bara til að fagna því að maður er ekki krónískur höfuðverkjasjúklingur??!

En jæja, ... aftur að dótturinni, sem til allrar guðsblessunar dafnar vel.
Í gær steig hún markvert skref þegar hún í fyrsta skipti "lék" sér við þá Fredda frosk, Fífí og Snúlla snigil (nafngiftirnar eru Laugu), en fyrir þá sem það ekki vita, eru þessir leikfélagar fastir við hægindastólinn sem keyptur var í síðustu viku, fyrir peningana frá "ömmu" Fötmu.  Og fyrir þá sem ekki vita hver Fatma er, þá er það leigusalinn okkar ... Já, leigusalinn gaf "barnabarninu" $100 í "fæðingarstyrk"!

"Leikurinn" við þrenninguna, var æsispennandi og byggðist á því að Houdini, rak höndina í eitthvert þeirra, þá heyrðist hljóð og hún horfði stórum augum á viðkomandi, svo danglaði hún höndinni í annan leikfélaga og þá heyrðist öðruvísi hljóð og hún leit þangað. 
Hér eru myndir frá þessum mikla viðburði ...


Leikar að hefjast ...


Dóttirin komin á gott skrið og notar nú báðar hendur jafnt!!!


Svei mér þá, ef ekki örlar á brosi þarna ... enda fjörið mikið!!

Stúlkan er orðin árvökul og fylgist vel með því sem er að gerast í kringum sig, fylgir hreyfingum með augunum ... já, og svona ...

Það er þó athyglisvert að ekkert fangar athygli hennar í líkingu við svarta jakkann sem ég fékk frá Gladesville Ryde Magic rauða eldvarnarteppið sem er við hlið jakkans, að ógleymdum græna flugnaspaðanum, sem nýtur er nauðsynlegur hluti félagsskaparins. 
Á þessa heilugu þrenningu, horfir hún Gunna okkar, nánast þannig að augun eru að detta úr tóftunum. 
Og það er sama hvernig henni er hagrætt, til dæmis hvort hún er flutt frá hægri handleggnum yfir á þann vinstri eða öfugt, hún missir ekki augnkontaktinn við mál málanna eitt augnablik.


Hin heilaga þrenning

Síðasta sunnudag sýndi stúlkan svo á sér sparihliðarnar þegar Nick og Rosa komu í heimsókn.  Eftir annasaman göngutúr á laugardeginum, fríkaði hún út á sunnudeginum og lét öllum illum látum.  Sennilega má rekja það að mestu leyti til þeirrar staðreyndar að meltingartruflanir voru þónokkrar, með tilheyrandi uppsölum, freti og "sprengjum".  Bleyjurnar streymdu úr pakkningunum og klútarnir streymdu úr skúffunni til að bjarga málunum og var það vel ...


Verið að hlaða fyrir "sprengingu"

Annars verður nú að segja snótinni það til varnar að öllu jafna er hún afskaplega meðfærileg og róleg ... þessi sunnudagur var bara undantekningin sem sannaði regluna.


Í dag svaf hún svona eins og lítill pakki, í meira en 6 klukkutíma

Svo er einnig gaman að segja frá því að grátur dömunnar, sem var nú ekki upp á marga fiska í upphafi, er tekinn að styrkjast allverulega ... þannig að á nóttunni, biður maður bara fyrir sér, þegar hún vaknar og rekur upp nokkrar rokur.  Það er náttúrulega mjög bagalegt ef allir íbúar hússins, sem við búum í, hrökkva upp með andfælum í hvert sinn sem sú litla heimtar hressingu eða "umskiptingu".  Enginn hefur svo sem kvartað ... enda held ég svo sem að það þýði ekkert fyrir þá að kvarta við "ömmu" Sydneyjar, hana Fötmu ... altso ...

Snuðið er ofarlega á baugi þessa dagana ... það er á hreinu að Guðrún vill snuð ... stundum ... og stundum alls ekki!
Það er alveg kostulegt að sjá hversu mikið mál, þetta blessaða snuð er ... það er stundum sogið af svo mikilli áfergju, að maður hefur það á tilfinningunni að helst vilji hún gleypa það.  Svo tapast allt í einu sogkontakturinn ... loft hefur greinilega komst á milli(!), ... án þess þó að snuðið velti út.  Við slíkar aðstæður, leyfa vitsmunir þeirrar stuttu það ekki að byrja bara að sjúga aftur, heldur frekar grípur hún þá til þess ráðs að kvarta með því afleiðingum að snuðið húrrast út úr munninum og fer bara sína leið.  Og þá eru góð ráð dýr! 
Strax og snuðið hefur farið sína leið, hverfur þolinmæði þeirrar stuttu á ljóshraða, en hlutirnir eru líka mjög fljótir að lagast þegar túttan er komin á sinn stað aftur!!

Það er því alveg deginum ljósara að einföldustu hlutir eru harla flóknir, þegar maður er 5 vikna gamall ...

Svo er eitt sem er alveg dásamlegt en það er þegar Guddu krossbregður við hljóðin úr sjálfri sér.  Upp úr þurru gefur hún frá sér eitthvert undarlegt hljóð og í kjölfarið fær hún hér um bil hjartaslag, allir útlimir stífna og andlitið verður stjarft ... ég verð að segja það að ég fæ aldrei nóg af því að sjá þegar þessi atburðarrás á sér stað.   
Annars minnir mig að hann Jón Spæjó, sem Laddi kynnti til sögunnar fyrir nokkrum árum, hafi þurft að glíma við svipað vandamál, þegar hann varð nánast lamaður af hræðslu, eitt sinn við skyldustörf, þegar hann heyrði þungt, taktfast hljóð ... sem við nánari athugun komst hann að því að þetta var hans eigin hjartsláttur!

... í framhjáhlaupi má geta þess barnið er nú orðið 53,5 cm ... óx um einn sentimetra í síðustu viku!

Læt þetta duga í bili ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hún er algjör dásemd þessi stelpa! Get ekki beðið eftir að koma höndum yfir hana þegar þið komið heim um jólin! Kúkasvipurinn er óborganlegur, ég sé að þarna er kominn hjónasvipurinn með þeim Bjarna Jóhanni
Og já Bobbi, það er sko satt að maður þakkar almættinu daglega fyrir að barnið manns skuli geta gert alla þessa litlu einföldu hluti sem í stóra samhenginu eru annað hvort nauða ómerkilegir eða lítlil kraftaverk - eftir því hvernig litið er á málið (og við höllumst greinilega bæði að því síðarnefnda).
Knús frá klakagenginu HGB, HPH og BJH

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband