Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Mánudagur 19. desember 2011 - Að komast upp á lappirnar

Nú er stubbur kominn upp á endann. Já, hlutirnir gerast hratt hér í Uppsala þessa dagana. Hann verður fljótlega farinn að ganga þessi ágæti litli snillingur.


Þarna má sjá glitta í hinn stórkostlega tanngarð sonarins ...  

Að öðru leyti er Guddan sennilega, loksins að fá hlaupabóluna sem beðið hefur verið eftir ... þannig að hún er ekki ónæm eins og við vorum farin að halda. Morgundagurinn mun skera úr um þetta mál.

Í dag hef ég skrifað heilmikið og merkilegt ... sem ég bara held að ég ætli ekki að fara út í að svo stöddu.

Og Lauga hefur varið deginum að mestu leyti í strætó ... var ekkert sérstaklega hress með það þegar allt kom til alls. 


Sunnudagur 18. desember 2011 - Jólaundirbúningur og "gæðastundir"

Núna er jólaundirbúningurinn kominn á skrið hérna hjá okkur ... kannski ekki seinna vænna.

Í dag voru t.d. keyptar jólagjafir ... passlega seint þannig að þær munu sennilega ekki ná að komast undir jólatréin á Íslandi í tæka tíð. Svoleiðis er það nú bara en þær komast þó vonandi á leiðarenda ... þá í formi áramótapakka.

Í gærkvöldi var svo reynd jólamyndataka af blessuðum börnunum ... árangurinn var í fullu samræmi við þroska þeirra sem sátu fyrir.

Þetta er uppáhaldsmyndin mín ... segir meira en mörg orð hvernig þessi myndataka fór fram.

Í gær var líka jólaball Íslendingafélagsins. Óvenjumargt um manninn að þessu sinni. Síðuhaldari tróð upp með söng, sem tókst alveg bærilega. Hann brá sér svo frá akkúrat þegar jólasveinarnir mættu í hús og kom aftur mjög stuttu eftir að jólasveinarnir hurfu á braut.

Óheppinn karlinn ... GHPL sagðist hafa rætt ítarlega við annan jólasveininn og fengið hjá honum nammi. 

---

Þá má nefna að nafni er að fá sína fjórðu tönn ... efri framtönn hægra megin.  Hann er sumsé að verða gríðarlega vel tenntur.
Það sem er samt hreint ótrúlegt er að drengurinn hefur, með sínar þrjár tennur, verið afar iðinn við að gnísta tönnum ... þetta eru slík óhljóð að þau smjúga inn að merg, fyrir utan það náttúrulega hvað tilhugsunin um að verið sé að gnísta saman framtönnunum er eitthvað svo hrikalega "gæsahúðarvaldandi"...

Þristurinn er einnig orðinn mjög liðtækur við að skríða og það nýjasta nýtt er að krjúpa á hnjánum, sem gerir hann afar mannalegan.

 

Frussið byrjaði á afmælisdaginn minn, þegar herrann var á hlaðborði í fínni siglingu yfir Eystrasaltið ... fann svo sannarlega staðinn og stundina til að byrja á þessum "ósóma". 

--- 

Ég hef síðustu daga verið að lesa uppeldisbók Margrétar Pálu Hjallastefnustofnanda. Mjög merkileg bók finnst mér og skemmtileg aflestrar enda talar og skrifar konan mjög góða og kjarnyrta íslensku að mínu mati.
Þau eru nokkur atriðin sem hafa vakið mig til umhugsunar. Ekkert þó jafn rækilega og "gæðastundirnar". Margrét Pála segir "gæðastundir", þ.e. stundir þar sem foreldrar einblína á barnið og þarfir þess án þess að skeyta neitt um annað í umhverfinu á sama tíma, vera stórlega ofmetið fyrirbæri. 

Ég varð svo innilega glaður þegar ég las þetta ... einfaldlega vegna þess að mér hefur alltaf fundist "gæðastundir", fyrir utan hvað þetta orð er hrikalega "korný", vera alveg gjörsamlega út í hött. Þar höfum við Lauga alls ekki verið sammála enda hún iðin við að veita GHPL "gæðastundir".

Árangurinn hefur orðið sá að GHPL gengur sífellt meira og meira á lagið, þannig að hún stundum getur varla verið til nema móðirin sé með stanslausa skemmtidagskrá eða sitji heilu og hálfu klukkutímana í "kaffiboðum" í barnaherberginu.
Á meðan bíða önnur verkefni ... sum jafnvel brýnari en að "þamba kaffi". Og þá er ég ekkert endilega að tala um uppvask eða eitthvað slíkt, heldur einfaldlega verkefni sem Laugu langar til að sinna ... t.d. að lesa eitthvað, hvíla sig, spjalla við e-n í síma, skreppa í tölvuna eða jafnvel ræða við mig. 

"Gæðastundirnar" eru því tvíeggja sverð því um leið og verið er að skapa "æðisleg" samskipti, þá skapast afar kröfuharður, lítill stjórnandi sem erfitt getur verið að fá til að taka sönsum og líta á hlutina örlítið öðrum augum heldur bara frá eigin sjónarhorni.

Af hverju ekki bara að láta heimilislífið líða áfram í sátt og samlyndi, í stemmningu þar sem allir fá andrými, allir eru virtir að verðleikum og allir fá að vera með. Af hverju þarf að vera að draga ákveðna einstaklinga sérstaklega út og einblína sérstaklega á þá í tiltekinn tíma á hverjum einasta degi?
Mér finnst þetta ekki vera til þess fallið að skapa liðsheild en fjölskyldulíf á fyrst og síðast snúast um það að mínu mati.

Ég gæti haldið áfram með þetta ... ætla samt ekki að gera það ... 


Föstudagur 16. desember 2011 - Óvissuferðin

Tja ... hún var nú af dýrari gerðinni afmælisgjöfin frá spúsunni ... 

... rétt um miðjan dag var maður rifinn af stað frá tölvunni og lagt á vit ævintýranna. Það dugði ekkert minna en ferð með skemmtiskipinu MS Victoria I sem gert er út af skipafyrirtækinu Tallink Silja Line. Pláss fyrir um 2.500 manns í þessu ágæta skipi.  

Ferðinni var heitið til Tallinn í Eistlandi. En það hékk meira á spýtunni ... því við vorum varla stigin um borð þegar Lauga dró upp boðsmiða á jólahlaðborð í skipinu.
Afar ljúffengt!

 

Svo var bara stanslaus skemmtun um borð, kók og hnetur frameftir öllu ... reyndar verður að láta þess getið að GHPL tók upp á því að týnast um kvöldið. Smá kikk það ... seinna kom í ljós að hún hafði staðið svona 5 metra frá okkur allan tímann, reyndar bakvið súlu þar sem hún fylgdist með andakt með dönsurum kvöldsins.

Við stigum á land í Tallinn um kl. 10 í gærmorgun og dvöldum þar í um 8 klukkutíma. Skemmtileg borg. Mörg flott hús og flottar götumyndir ... ekki amarlegt fyrir þann sem stúderar umhverfissálfræði.

 

GHPL var nú ekki alveg eins hrifin af þessu borgarrölti og foreldrarnir og vildi helst af öllu bara komast í skipið aftur ... komast í fjörið og ekki síst að leika við krakkana í "Boltalandinu", já og horfa á fólkið dansa og syngja.

 

 

Sama fjörið var uppi á teningnum um kvöldið á heimsiglingunni. Það var heldur meiri alda í það skiptið þannig að það bætti á stemmninguna.  Allir kúfuppgefnir upp úr miðnættið, jafnvel PJPL sem gerði samt lítið annað en að sofa í borgarreisunni.

Til Stokkhólms var komið eftir að hafa snætt indælis morgunverð ... sem að sjálfsögðu var hluti af afmæligjöfinni ...

Sumsé í alla staði snilldarferð ...

---

Ég er algjör landkrabbi ... núna tæpum 12 klukkustundum eftir að komið var í land er ég með slíka sjóriðu að mér finnst allt vera á fleygiferð. 

--- 

GHPL fann það út í kvöld eftir að hafa borðað 1/3 úr pizzusneið og 1/3 af epli og drukkið 0,2 l af perusafa og ofurlitla mjólk á hálftíma að sér væri illt í maganum af því hún hefði borðað svo hratt!!!

Sá verkur hvarf strax þegar hún mátti horfa á video ... 


Miðvikudagur 14. desember 2011 - Afmælisbarn dagsins

Í athugasemdaboxinu verður tekið við afmæliskveðjum í allan dag og einnig næstu daga ... vertu ófeimin(n) að skilja eftir kveðju ...

... síðuhaldara finnst fátt skemmtilegra en að taka við afmæliskveðjum ...

 

Alltaf gaman að eiga afmæli ... 


Þriðjudagur 13. desember 2011 - Afmælisbarn dagsins

Afmælisbarn dagsins í dag ... er 25 ára ...

... man þegar ég hitti kauða nýkominn af fæðingardeildinni. Fyrsta kommentið mitt var eitthvað á þá leið að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að hafa útstæð eyru.

Í það skiptið reyndist ég sannspár ...

Tuttuguogfimm árum síðar er drengurinn að kokka norður á Akureyri og stendur sig svona líka fjári vel. Og já, hann er með bíladellu ...

Þetta er auðvitað stórfrændi minn Stefán Jepp junior ...

Hér er afmælisbarnið ásamt GHPL ... 

---

 

 

Uppfærsla vegna bloggfærslu í gær 12. desember

Afmælisbarnið á gullaldarárunum ... ungur og fallegur ... staddur í Þýskalandi að hringja í farfuglaheimili í Evrópureisu okkar í júlí 1999.

Ég fann bara ekki þessa mynd í gær ... 

 


Mánudagur 12. desember 2011 - Afmælisbarn dagsins

Mér finnst stórkostlegt til þess að vita að minn góði vinur, Dóri er fertugur í dag. Skrýtnast er til þess að hugsa að hann er bara pínu eldri en ég sjálfur.

Hér er mynd af afmælisbarninu ... þetta er algjörlega besta myndin sem ég átti í fórum mínum  ...

... klárlega er þessi tekin þegar afmælisbarnið mátti muna sinn fífil fegurri ...  

 

Kúturinn kominn á fimmtugsaldurinn ... 


Sunnudagur 11. desember 2011 - Jingle All The Way

Í dag var farið í könnunarleiðangur um nýja hverfið ... fundum bæði DVD-leigu og pizzastað ... meira að segja tvo.  Föstudagskvöldunum er þar með reddað, því við höfum svolítið verið í því að fá okkur pizzu og video á þeim kvöldum. 

Síðasta föstudagskvöld fór t.d. svolítið úr skorðum af því að við vorum ekki búin að afla okkur þessara "basic"-upplýsinga. Þess vegna enduðum við í Næturvaktinni, sem er eins og ég hef áður nefnt er tær snilld. Þar á undan höfðum við reynt að horfa á stórmynd með Arnold Schwarzenagger ... Jingle All The Way eða eitthvað álíka "konfekt".

Satt best að segja finnst mér hálfkjánalegt að vera setja það fram hér að ég hafi eytt hluta úr lífi mínu í að horfa þá þessa Schwarzenagger mynd. Fyrir utan að vera tómt rugl, var þetta svo hrikalega illa leikið að mann verkjaði. En jæja ... tveir tímar á föstudagskvöldum eru annars einu klukkustundir vikunnar sem ég nenni að horfa á sjónvarpskjá enda finnst mér harla tilgangslaust að sitja grjótfastur í sófanum og horfa á líf, ástir og örlög annars fólks. Ég hef tekið þann pól í hæðina að vera frekar í því að skapa og taka þátt í eigin tilveru. 

Af þessari ástæðu verður mér alltaf dálítið illt þegar rætt er um "afþreyingu" ... til hvers þarf maður afþreyingu? Afþreying er stórkostlega ofmetið fyrirbæri að mínu mati ... ekki síst í ljósi þess að maður fær nokkur ár í þessum heimi og algjörlega óvíst um framhaldið eftir það ...

Hefur maður virkilega ekkert betra við tímann að gera en að drepa hann? Vera helst í þannig stöðu að maður taki ekki eftir tímanum? Flýta sér að klára lífið?

Mörgum finnst ofboðslega leiðinlegt að bíða. En af hverju að láta sér leiðast þegar maður bíður? Ef maður bíður í 10 mínútur og lætur sér leiðast, þá hefur maður í raun sólundað 10 mínútum af lífi sínu í ekkert nema ónauðsynleg leiðindi. Af hverju ekki að finna blóðið renna um æðarnar þessar 10 mínútur eða kanna hvort öndunin sé grunn eða djúp? Eða slaka á í kjálkunum ... eða upphugsa brandara eða margfalda 2417 x 243 í huganum? Rifja upp höfuðborgirnar í Evrópu eða bara gera ekki neitt?

Margir hafa kvartað í mín eyru yfir því hvað er leiðinlegt að fljúga ... og þá er ég ekki að tala um fólk sem er flughrætt heldur bara þeir sem segja að það sé "ekkert að gera". Hvað með að taka með sér skrifblokk og skrifa niður 100 markmið sem gaman væri ná áður en yfir lýkur. Þriggja tíma flug til Evrópu er allt of stutt til þess arna.
Einu sinni sat ég í vélinni frá Stokkhólmi til Keflavíkur og horfði út um gluggann alla leiðina og hugsaði ekkert. Á sama tíma fylgdist með önduninni hjá mér og fann hvernig losnaði um hvern vöðvann á fætur öðrum. Var gjörsamlega í núinu í um þrjá klukkutíma og var mjög frískur þegar ég kom til Keflavíkur.

Hver þarf á því að halda að horfa á Jingle All The Way?!? 

... jæja ... gæti haldið áfram ... ætla samt ekki að gera það. Þarf að fara að sofa.


Laugardagur 10. desember 2011 - Söngæfing og kaffiboð

Þetta hefur verið nokkuð langur og strangur dagur í dag ... en klárlega mjög skemmtilegur.

Hjá mér hófst þetta allt með því að fara á skemmtilega söngæfingu í morgun heima hjá Jóhönnu og Bjarna. Það er nefnilega verið að útbúa prógrammið fyrir jólamessuna sem verður um næstu helgi. Stefnir í ágætis stuð þar. Það var ákveðið að poppa dálítið upp og sleppa því að syngja "Nóttin var sú ágæt ein" ... persónulega er ég mjög ánægður með það. Það er nú búið að syngja það síðustu tvær jólamessur.

Æfingin tók svolítinn tíma og þegar henni lauk, var ekki annað en að þjóta niður í bæ til að hitta Laugu og pottormana. Leiðin lá í kaffiboð hjá Jónínu og Jóa í Lövstalöt. Þar var nokkuð um manninn, bara fínasta stemmning og góðar veitingar. 

Við komum heim upp úr klukkan 8 og þá var málið að skreppa aðeins út í búð, elda eitthvað smotterí og kljást við litlu snillingana. Við vorum búin að borða klukkan 10. Að klára að borða á þeim tíma sólarhringsins er absúrd í Svíþjóð. Örugglega eitthvað í líkingu við ef kvöldmatur væri borðaður milli kl. 1 og 2 eftir miðnættið á Íslandi. Enda er það svo að maður horfir út um eldhúsgluggann meðan etið er og það er slökkt hjá öllum nágrönnunum ... allir farnir að sofa ... geri ég ráð fyrir.

Er þetta ekki orðið fínt? 


Föstudagur 9. desember 2011 - Afmælisbarn dagsins og ónæmi fyrir hlaupabólu

Í dag er afmælisdagur pápa míns og hann væri orðinn alveg snargamall ef hann væri enn á lífi ... eða 87 ára gamall. Ég hef oft spáð í hvaða átt líf hans hefði tekið á efri árum hef til þess hefði komið ... og satt best að segja hef ég alls ekki komist að neinni niðurstöðu.

En allavegana ... afmælisdagurinn hans er í dag og af því tilefni fengum við okkur pizzu og kók í kvöld. Og svo drógum við fram Næturvaktina. 

Ég efast nú um að pápi hefði haft húmor fyrir Næturvaktinni en ef ég tala bara fyrir minn munn þá eru þessi þættir hreinasta snilld. Jón Gnarr og Pétur Jóhann eru hreint stórkostlegir og svo má ekki gleyma þeim ágæta pilti sem leikur Flemming Geir.
Æ já, það er kannski heldur seint í rassinn gripið að vera að ræða Næturvaktina núna í lok árs 2011 ...

Samt var gaman í þessu samhengi að minnast á auglýsingar sem fylgja með þáttunum og eru inn þeim miðjum. Þar láta Landsbankinn, Kaupþing ("með þér alla leið" var slagorðið þeirra - sannarlega orð að sönnu) og Ingvar Helgason hressilega til sín taka. Að ógleymdum snillingunum í BT sem eiga um fimm auglýsingar í hverjum auglýsingatíma. Ekkert til sparað á þeim bænum ... fóru þeir ekki líka sannfærandi á hausinn skömmu eftir bankahrunið?

---

Annars er allt gott að frétta ... nafni er sennilega að ná yfirhöndinni í baráttunni við hlaupabóluna.  Svo höfum við verið að undra okkur á ónæmi GHPL gagnvart "bólunni" en það er alveg sama hvað reynt er að smita hana ... það gerist bara alls ekkert.

Lauga lét sé detta í hug að sennilega hefði GHPL verið bólusett gegn hlaupabólu í Ástralíu en þar eru bólusetningar mun viðameiri en bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Eftir að hafa skoðað bólusetningargögnin erum við alls ekki viss ... því það hefur nú ekki verið merkt sérstaklega við hlaupabóluna ... þetta er því allt hið dularfyllsta mál ... en vonandi skýrist á næstu dögum.

---

Jæja en svona er þetta núna ... sjálfur er ég búinn að vera að vinna við skrif í nánast allan dag, skrapp þó að hitta leiðbeinanda minn og skrapp líka að ná í annað hjólið okkar í viðgerð. Fínn hjólatúr þar sem ég hjólaði um 10 km leið á fullu gasi.

Læt þetta duga núna. 

 


Miðvikudagur 7. desember 2011 - Aftur til Svíþjóðar

Jæja, þá er maður kominn aftur til Uppsala. Í þetta sinnið í aðra íbúð en áður hefur tíðkast hér.

Samkvæmt fréttum gengu flutningarnir afar vel og eiga þeir sem aðstoðuðu við það verk miklar og góðar þakkir skildar. Án þeirra hefði einfaldlega ekki verið flutt þann 1. desember sl. 

---

Lauga hefur haft í mörg horn að líta þessa viku, því auk þess að díla við að koma hlutunum á sinn stað, hefur hún þurft að kljást við fyrrum leigusala sem er ekki alveg jafn vinsamlegur og hann hefur verið. Svo hefur reynst þrautin þyngri að fá póstinn til að skilja að við erum flutt en pakki var sendur á gamla heimilisfangið okkar. Sá bíður nú á pósthúsinu og er með öllu óvíst hvort við gengur að koma honum í hús ... slíkar eru reglurnar ... mér skilst að lágmarki 10 símtöl fram og aftur séu að baki í því skyni að greiða úr þessu máli, með tilheyrandi bið og þvaðri.

Á sama tíma og þetta hefur gengið á hefur nafni verið með hlaupabólu. Það er þó skammgóður vermir því hann er "ónæmisfræðilega" of ungur til að fá hlaupabólu, þannig að það getur verið að hann þurfi að fá hlaupabólu aftur þegar hann er orðinn svolítið eldri til að verða ónæmur fyrir henni. 

 

En það er óhætt að segja að Lauga hafi staðið sig feykilega vel í þessu öllu saman.

---

Sjálfur hafði ég í Íslandsferðinni í fjölmörg horn að líta. Skrapp m.a. á Snæfellsnes þar sem ég hélt stutta tölu á fundi þar sem hugmyndir að jarðvangi voru reifaðar. Vann að húsakönnun í Djúpavogshreppi, setti saman hugmyndir varðandi framtíðarskipulag í Reykjavíkurhöfn og ræddi um fyrirhugað Ríkarðssafn á Djúpavogi.

Svo hitti ég góða vini og fjölskyldumeðlimi og var í góðu yfirlæti hjá blessaðri móður minni. Það eina sem örlítið skyggir á ferðina er að mér tókst að týna veskinu mínu ... sannarlega þarft verk ... eða þannig.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband