Föstudagur 9. desember 2011 - Afmælisbarn dagsins og ónæmi fyrir hlaupabólu

Í dag er afmælisdagur pápa míns og hann væri orðinn alveg snargamall ef hann væri enn á lífi ... eða 87 ára gamall. Ég hef oft spáð í hvaða átt líf hans hefði tekið á efri árum hef til þess hefði komið ... og satt best að segja hef ég alls ekki komist að neinni niðurstöðu.

En allavegana ... afmælisdagurinn hans er í dag og af því tilefni fengum við okkur pizzu og kók í kvöld. Og svo drógum við fram Næturvaktina. 

Ég efast nú um að pápi hefði haft húmor fyrir Næturvaktinni en ef ég tala bara fyrir minn munn þá eru þessi þættir hreinasta snilld. Jón Gnarr og Pétur Jóhann eru hreint stórkostlegir og svo má ekki gleyma þeim ágæta pilti sem leikur Flemming Geir.
Æ já, það er kannski heldur seint í rassinn gripið að vera að ræða Næturvaktina núna í lok árs 2011 ...

Samt var gaman í þessu samhengi að minnast á auglýsingar sem fylgja með þáttunum og eru inn þeim miðjum. Þar láta Landsbankinn, Kaupþing ("með þér alla leið" var slagorðið þeirra - sannarlega orð að sönnu) og Ingvar Helgason hressilega til sín taka. Að ógleymdum snillingunum í BT sem eiga um fimm auglýsingar í hverjum auglýsingatíma. Ekkert til sparað á þeim bænum ... fóru þeir ekki líka sannfærandi á hausinn skömmu eftir bankahrunið?

---

Annars er allt gott að frétta ... nafni er sennilega að ná yfirhöndinni í baráttunni við hlaupabóluna.  Svo höfum við verið að undra okkur á ónæmi GHPL gagnvart "bólunni" en það er alveg sama hvað reynt er að smita hana ... það gerist bara alls ekkert.

Lauga lét sé detta í hug að sennilega hefði GHPL verið bólusett gegn hlaupabólu í Ástralíu en þar eru bólusetningar mun viðameiri en bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Eftir að hafa skoðað bólusetningargögnin erum við alls ekki viss ... því það hefur nú ekki verið merkt sérstaklega við hlaupabóluna ... þetta er því allt hið dularfyllsta mál ... en vonandi skýrist á næstu dögum.

---

Jæja en svona er þetta núna ... sjálfur er ég búinn að vera að vinna við skrif í nánast allan dag, skrapp þó að hitta leiðbeinanda minn og skrapp líka að ná í annað hjólið okkar í viðgerð. Fínn hjólatúr þar sem ég hjólaði um 10 km leið á fullu gasi.

Læt þetta duga núna. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband