Sunnudagur 11. desember 2011 - Jingle All The Way

Í dag var farið í könnunarleiðangur um nýja hverfið ... fundum bæði DVD-leigu og pizzastað ... meira að segja tvo.  Föstudagskvöldunum er þar með reddað, því við höfum svolítið verið í því að fá okkur pizzu og video á þeim kvöldum. 

Síðasta föstudagskvöld fór t.d. svolítið úr skorðum af því að við vorum ekki búin að afla okkur þessara "basic"-upplýsinga. Þess vegna enduðum við í Næturvaktinni, sem er eins og ég hef áður nefnt er tær snilld. Þar á undan höfðum við reynt að horfa á stórmynd með Arnold Schwarzenagger ... Jingle All The Way eða eitthvað álíka "konfekt".

Satt best að segja finnst mér hálfkjánalegt að vera setja það fram hér að ég hafi eytt hluta úr lífi mínu í að horfa þá þessa Schwarzenagger mynd. Fyrir utan að vera tómt rugl, var þetta svo hrikalega illa leikið að mann verkjaði. En jæja ... tveir tímar á föstudagskvöldum eru annars einu klukkustundir vikunnar sem ég nenni að horfa á sjónvarpskjá enda finnst mér harla tilgangslaust að sitja grjótfastur í sófanum og horfa á líf, ástir og örlög annars fólks. Ég hef tekið þann pól í hæðina að vera frekar í því að skapa og taka þátt í eigin tilveru. 

Af þessari ástæðu verður mér alltaf dálítið illt þegar rætt er um "afþreyingu" ... til hvers þarf maður afþreyingu? Afþreying er stórkostlega ofmetið fyrirbæri að mínu mati ... ekki síst í ljósi þess að maður fær nokkur ár í þessum heimi og algjörlega óvíst um framhaldið eftir það ...

Hefur maður virkilega ekkert betra við tímann að gera en að drepa hann? Vera helst í þannig stöðu að maður taki ekki eftir tímanum? Flýta sér að klára lífið?

Mörgum finnst ofboðslega leiðinlegt að bíða. En af hverju að láta sér leiðast þegar maður bíður? Ef maður bíður í 10 mínútur og lætur sér leiðast, þá hefur maður í raun sólundað 10 mínútum af lífi sínu í ekkert nema ónauðsynleg leiðindi. Af hverju ekki að finna blóðið renna um æðarnar þessar 10 mínútur eða kanna hvort öndunin sé grunn eða djúp? Eða slaka á í kjálkunum ... eða upphugsa brandara eða margfalda 2417 x 243 í huganum? Rifja upp höfuðborgirnar í Evrópu eða bara gera ekki neitt?

Margir hafa kvartað í mín eyru yfir því hvað er leiðinlegt að fljúga ... og þá er ég ekki að tala um fólk sem er flughrætt heldur bara þeir sem segja að það sé "ekkert að gera". Hvað með að taka með sér skrifblokk og skrifa niður 100 markmið sem gaman væri ná áður en yfir lýkur. Þriggja tíma flug til Evrópu er allt of stutt til þess arna.
Einu sinni sat ég í vélinni frá Stokkhólmi til Keflavíkur og horfði út um gluggann alla leiðina og hugsaði ekkert. Á sama tíma fylgdist með önduninni hjá mér og fann hvernig losnaði um hvern vöðvann á fætur öðrum. Var gjörsamlega í núinu í um þrjá klukkutíma og var mjög frískur þegar ég kom til Keflavíkur.

Hver þarf á því að halda að horfa á Jingle All The Way?!? 

... jæja ... gæti haldið áfram ... ætla samt ekki að gera það. Þarf að fara að sofa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband