Sunnudagur 18. desember 2011 - Jólaundirbúningur og "gæðastundir"

Núna er jólaundirbúningurinn kominn á skrið hérna hjá okkur ... kannski ekki seinna vænna.

Í dag voru t.d. keyptar jólagjafir ... passlega seint þannig að þær munu sennilega ekki ná að komast undir jólatréin á Íslandi í tæka tíð. Svoleiðis er það nú bara en þær komast þó vonandi á leiðarenda ... þá í formi áramótapakka.

Í gærkvöldi var svo reynd jólamyndataka af blessuðum börnunum ... árangurinn var í fullu samræmi við þroska þeirra sem sátu fyrir.

Þetta er uppáhaldsmyndin mín ... segir meira en mörg orð hvernig þessi myndataka fór fram.

Í gær var líka jólaball Íslendingafélagsins. Óvenjumargt um manninn að þessu sinni. Síðuhaldari tróð upp með söng, sem tókst alveg bærilega. Hann brá sér svo frá akkúrat þegar jólasveinarnir mættu í hús og kom aftur mjög stuttu eftir að jólasveinarnir hurfu á braut.

Óheppinn karlinn ... GHPL sagðist hafa rætt ítarlega við annan jólasveininn og fengið hjá honum nammi. 

---

Þá má nefna að nafni er að fá sína fjórðu tönn ... efri framtönn hægra megin.  Hann er sumsé að verða gríðarlega vel tenntur.
Það sem er samt hreint ótrúlegt er að drengurinn hefur, með sínar þrjár tennur, verið afar iðinn við að gnísta tönnum ... þetta eru slík óhljóð að þau smjúga inn að merg, fyrir utan það náttúrulega hvað tilhugsunin um að verið sé að gnísta saman framtönnunum er eitthvað svo hrikalega "gæsahúðarvaldandi"...

Þristurinn er einnig orðinn mjög liðtækur við að skríða og það nýjasta nýtt er að krjúpa á hnjánum, sem gerir hann afar mannalegan.

 

Frussið byrjaði á afmælisdaginn minn, þegar herrann var á hlaðborði í fínni siglingu yfir Eystrasaltið ... fann svo sannarlega staðinn og stundina til að byrja á þessum "ósóma". 

--- 

Ég hef síðustu daga verið að lesa uppeldisbók Margrétar Pálu Hjallastefnustofnanda. Mjög merkileg bók finnst mér og skemmtileg aflestrar enda talar og skrifar konan mjög góða og kjarnyrta íslensku að mínu mati.
Þau eru nokkur atriðin sem hafa vakið mig til umhugsunar. Ekkert þó jafn rækilega og "gæðastundirnar". Margrét Pála segir "gæðastundir", þ.e. stundir þar sem foreldrar einblína á barnið og þarfir þess án þess að skeyta neitt um annað í umhverfinu á sama tíma, vera stórlega ofmetið fyrirbæri. 

Ég varð svo innilega glaður þegar ég las þetta ... einfaldlega vegna þess að mér hefur alltaf fundist "gæðastundir", fyrir utan hvað þetta orð er hrikalega "korný", vera alveg gjörsamlega út í hött. Þar höfum við Lauga alls ekki verið sammála enda hún iðin við að veita GHPL "gæðastundir".

Árangurinn hefur orðið sá að GHPL gengur sífellt meira og meira á lagið, þannig að hún stundum getur varla verið til nema móðirin sé með stanslausa skemmtidagskrá eða sitji heilu og hálfu klukkutímana í "kaffiboðum" í barnaherberginu.
Á meðan bíða önnur verkefni ... sum jafnvel brýnari en að "þamba kaffi". Og þá er ég ekkert endilega að tala um uppvask eða eitthvað slíkt, heldur einfaldlega verkefni sem Laugu langar til að sinna ... t.d. að lesa eitthvað, hvíla sig, spjalla við e-n í síma, skreppa í tölvuna eða jafnvel ræða við mig. 

"Gæðastundirnar" eru því tvíeggja sverð því um leið og verið er að skapa "æðisleg" samskipti, þá skapast afar kröfuharður, lítill stjórnandi sem erfitt getur verið að fá til að taka sönsum og líta á hlutina örlítið öðrum augum heldur bara frá eigin sjónarhorni.

Af hverju ekki bara að láta heimilislífið líða áfram í sátt og samlyndi, í stemmningu þar sem allir fá andrými, allir eru virtir að verðleikum og allir fá að vera með. Af hverju þarf að vera að draga ákveðna einstaklinga sérstaklega út og einblína sérstaklega á þá í tiltekinn tíma á hverjum einasta degi?
Mér finnst þetta ekki vera til þess fallið að skapa liðsheild en fjölskyldulíf á fyrst og síðast snúast um það að mínu mati.

Ég gæti haldið áfram með þetta ... ætla samt ekki að gera það ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband