Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Mánudagsmetall XIII - mandarína með laufi og uppgötvun

Í dag sá ég í fyrsta skipti ... já, maður er ekki lífsreyndari en þetta ... mandarínu með laufi.  Það að mandarínur vaxi á trjám er út af fyrir sig ekkert sérstök vitneskja, en samt hef ég aldrei séð mandarínu með stilk og lauf ...

Ég ákvað að kaupa hana því mér fannst hún svo falleg ...

Í dag átti sér stað áhugaverð uppgötvun hjá mér.  Kannski var það framhald af pælingunum sem ég setti fram hér á blogginu í gærkvöldi.

En ég fór að pæla meira í því að "gera sér dagamun".  Að krydda tilveruna af og til ... ekki endilega af því að það er einhver dagur sem rennur upp og maður "á" að gera sér dagamun ... heldur bara þetta "að gera sér dagamun".

Ég fór að tína saman þau skipti sem ég geri mér dagamun ... og var fljótur að því ...

Minn helsti dagamunur er að fá mér kók og popp einu sinni í viku, já og stundum kebab ... þar með er það upptalið ...

Ég fór að spá í hvaða helvítis rugl þetta væri eiginlega ...
Maður situr fyrir framan tölvuna alla daga að vinna og þykist aldrei hafa tíma til að gera neitt.  Og það er rétt með naumindum að maður hefur tíma til að fara og hreyfa á sér spikið ...

... og að versta er að vinnuafköstin eru í engu samræmi við fórnina sem felst í því að gera sér aldrei dagamun ...

Tökum daginn í dag, þar sem ég mátti varla vera að því að fá mér að borða í hádeginu af því ég var svo mikið að vinna og mátti engan tíma missa.  Samt var það svo að milli klukkan 10 - 14 gat ég varla unnið vegna þess að ég var svo mikið að reka á eftir sjálfum mér ... ég mátti varla vera að því að lesa heimildir, því ég varð að skrifa svo mikið, en gat lítið sem ekkert skrifað vegna þess að mig vantaði vitneskju úr heimildunum.  Þá fór ég aftur í heimildirnar, en fékk engan frið að lesa og fór þá að skrifa um ekkert ... o.s.frv.

Svona kaos og rugl byrjar svo að fara í taugarnar á manni og allt verður miklu verra en það þarf að vera ...

En svo mundi ég að það er bolludagur í dag.  Tilefni til að gera sér dagamun.
Og í kjölfarið þvingaði ég mig upp af stólnum og skrapp út í búð.  Keypti bollur eða semlur, eins og þær heita í þessu landi og keypti sérstakt Valentíusardagssúkkulaði í leiðinni. 

Þegar þessu var lokið, settist ég aftur niður ... og allt í einu varð allt miklu auðveldara ...

Uppgötvunin kom svo í kjölfarið ... og hún er sú að ég er hundleiðinlegur af því að ég er vinnufíkill og á erfitt með að vera ekki að vinna, þó svo afköstin séu ekkert sérstök.

Ég skamma Laugu fyrir að hafa ekkert frumkvæði að því að gera eitthvað skemmtilegt, þó ég komai sjálfur aldrei með neinar hugmyndir, og á sama tíma ég skamma hana ef hún kemur með uppástungur, fyrir að taka ekki tillit til þess að ég þurfi að vinna ...

En ég ætla að breyta til núna og það verður mín næsta áskorun ... og það er að vinna þegar ég er að vinna og vera í fríi þegar ég er í fríi.  Og í fríinu ætla ég að gera mér dagamun.

************************
40. dagur í líkamsrækt

Frí í dag ... mátti ekki vera að því að fara út ...

Á morgun verður skokk og stúdering
************************

***********
15. dagur í ekki-drekka-kók

Gerði mér dagamun og skolaði niður einni dós af eðaldrykknum
**********


Sunnudagur 14. febrúar 2010

Ég bara steingleymdi að blogga í gær ... veit ekki hvað henti eiginlega.  Var þess í stað að horfa á 5000 m skautahlaup karla á Ólympíuleikunum í Vancouver ... ekki það mest spennandi í heiminum.

En að gleyma að blogga var synd því dagurinn í gær var fullur af alls kyns uppákomum, sem ég því miður nenni ekki að skrifa um núna ...

---

Skítt með það!

Dagurinn í dag var hinsvegar með hefðbundnara sniði ... þar ég var að vinna bróðurpartinn úr deginum, en þegar ég var ekki að vinna var ég að tala við Laugu ...

Hvorttveggja ágætt ... svo vorum við ekkert að spá í hvort það væri einhver Valentíusardagur í dag ... ég veit satt að segja ekki hvort er hallærislegra að muna eftir deginum eða gleyma honum ... þannig að það er úr dálítið vöndu að ráða.

Samt hallast ég að því að hið seinna sé hallærislegra.  Mér finnst gaman að gera mér dagamun og mér finnst ágætt að hafa svona daga.  Ekki svo að skilja að maður eigi að muna eftir elskunni sinni einn dag og gleyma henni svo hina 364 daga ársins ... maður á að muna eftir, þakka fyrir og virða elskuna sína alla daga og allar nætur ... og getur maður gert eitthvað sérstakt einu sinni á ári.

Þetta svipað og með jólin ... mér finnst að maður eigi að hugsa um náungann og kærleikann alla daga ársins, en svo um jólin þá á maður frátekna stund í almanakinu, þar sem hægt er að vera "extra" eitthvað.

Þetta eru "vísindi" sem ég er nýlega búinn að átta mig á.  Það er miklu skemmtilegra að gera sér dagamun, heldur en að vera með þetta "ætla-sko-ekkert-að-láta-einhverja-Ameríkana-segja-mér-fyrir-verkum"-attitjúd.
Það er svo grautfúlt ... maður er einhvern veginn svo rosalega púkó, þegar maður er með þetta "attitjúd".

Jæja, þá held ég að ég sé um það bil búinn að fara heilan hring í skoðunum mínum á Valentíusardegi og frændum hans ... og best að slá bara botninn í þetta, áður en ruglið verður meira ...

---

Dóttirin var klippt í baði í kvöld ... og líkaði svona sæmilega ... var samt voða sæt á eftir ...

Klippt í baði by you.

********************************
39. dagur í líkamsrækt árið 2010

Fótbolti í 80 mínútur

Fer sennilega að skokka á morgun ...
*********************************

********************************
38. dagur í líkamsrækt árið 2010

5 km hlaup
*******************************

*******
14. dagur í ekki-kók-drykkju

Léttasta áskorun í heimi.
*******

*******
13. dagur í ekki-kók-drykkju

Eins og að drekka vatn.
******

 


Föstudagsflétta - 12. febrúar 2010

Jæja, þá er nú þessi vika að renna sitt skeið á enda ... búin að vera hreint prýðileg ...

Dóttirin búin að vera í sjaldgæflega góðu stuði í dag, var það reyndar líka í gær ... og í kvöld fékk hún að líta augum á Dodda á DVD.  Það er díll milli okkar Laugu og hennar að hún fái að horfa á Dodda einu sinni viku.

Og Doddi slær í gegn eins og alltaf ... reyndar kostulegt að fylgjast með henni því til að byrja með situr hún alveg límd og horfir, en svo smám saman fer að setan að taka á sig alls kyns form.  Þegar æfingunum lýkur taka við stuttir göngu- og hlaupatúrar um stofuna og fram í eldhús, eða klifur í sófanum.  Öðru hverju gjóar hún svo augunum á tölvuskjáinn.

Persónulega kann ég ákaflega vel við þessa aðferðarfræði, enda algjör óþarfi að vera eins og niðurnegldur tímunum saman.

Meiningin var að henda inn nokkrum myndum ... en vegna tæknilegra ástæðna er það bara ekki hægt :/ .

******************************
37. dagur í líkamsrækt árið 2010

Hljóp 5 km í kvöld og ætla að fara aftur út að hlaupa á morgun.  Það eru svo spennandi hlutir að gerast að það er ekki hægt annað en að vinna áfram með þá.
******************************

*****************************
36. dagur í líkamrækt árið 2010

Tók mér frí í gær
******************************

********
12. dagur í ekki-kók-drykkju

Vikulegur skammtur í kvöld ... tvær litlar dósið ... afar hressandi :)
********

*******
11. dagur í ekki-kók-drykkju

Ekkert mál
*******

Já, svo má nefna það að Lauga segist vera farin að blogga aftur ... kíkið endilega á www.123.is/lauga


Miðvikudagur 10. febrúar 2010 - Að vera í "núinu"

Ég hef verið síðustu daga og vikur verið að stúdera það að vera í "nú-inu".
Verðugt viðfangsefni ...

... og ótrúlegir hlutir sem eiga sér stað ...

Meginhugmyndin er einföld ... og hún er svona ...

Lyfta sér upp úr hringiðu eigin hugsanaflæðis og horfa þess í stað á hugsanirnar sem þjóta um kollinn á manni endalaust.  Bara svona eins og þegar maður er í bíó.
Og aðalatriðið í þessari vinnu er að horfa á "bíóið" án þess að taka eina einustu afstöðu til þess sem fyrir augun ber og hafa engar væntingar um hvað muni gerast. 

Þegar þetta heppnast, þá kyrrist hugurinn og ró færist yfir mann. Í kjölfarið taka alls konar hlutir að gerast ... hlutir sem geta ekki átt sér stað á öðrum tímum einmitt vegna hinnar eilífu hringiðu hugsana, sem trufla daginn út og inn og rýra lífsgæðin.

Í gærkvöldi þegar ég var að hlaupa, var ég að vinna með þessa pælingu og tókst nokkrum sinnum að komast nærri "núinu" með því að fylgjast gaumgæfilega með önduninni hjá mér ... en að fylgjast með önduninni hefur lengi verið talin góð aðferð til að kyrra hugann ...

... ég, sumsé fylgdist bara með önduninni en hafði enga skoðun á henni og engar væntingar voru í gangi.  Þegar þessi hugsunarháttur náði í gegn, fann ég hvernig fjölmargir vöðvar í hálsinum á mér slökknuðu, ég er hér að tala um vöðva sem ég hafði ekki fundið fyrir að væru neitt stífir.  Sem afleiðing af vöðvaslökuninni, víkkaði öndunarvegurinn töluvert, sem gerði hlaupið miklu, miklu auðveldara.

Það athyglisverða var að þegar ég svo reyndi að slaka á þessum sömu vöðvum með hugsunina að vopni, þ.e. ég hugsaði "slaka á hálsinum, slaka á hálsinum, slaka á hálsinum", var það ekki möguleiki.  Ég náði að slaka niður að ákveðnu marki en svo ekki söguna meir.

Mér fannst þetta stórmerkilegt ... og hugsanlega gæti þetta verið skýring á fjölmörgum hlutum, sem hafa átt sér stað á minni ævi ...

Best að vera ekki að ræða meira um þetta í bili ...

*********************************
35. dagur í líkamsrækt árið 2010

Fór og hljóp 4 km ... og stúderaði öndunina og "núið"

Á morgun hugsa ég að ég haldi áfram að hlaupa og stúdera. 
*********************************

*********
10. dagur í ekki-kók-drykkju

Fann aðeins fyrir löngun í kók í dag ... þannig að líklega er best að halda áskoruninni áfram
*********


Þriðjudagur - 9. febrúar 2010

Dóttirin fékk blóðnasir á leikskólanum í dag.  Rann úr báðum nösum, hvorki meira né minna ...
Lenti víst í árekstri við einhvern snillinginn ...

Ég ætla nú rétt að vona að hún fari ekki hóp með mér og pápa varðandi blóðnasirnar. 

Allt frá blautu barnsbeini hef ég þurft að glíma við þennan fjanda í tíma og ótíma.  Ég held að ég sé Íslandsmeistari í blóðnösum.

Mér er enn minnisstætt, þegar ég var við vinnumennsku í Steinnesi, sennilega fyrir um 25 árum, að Magnús bóndi og snillingur, vakti mig einn morguninn með eftirfarandi orðum: "Hvað er að sjá þig drengur, þú ert eins og skorinn hrútur!" 
Þá hafði ég fengið blóðnasir í svefni og var laglega frýnilegur í morgunsárið.  Og koddinn ...

Þetta er nú bara eitt af milljón dæmum ...

Pápi lét brenna fyrir "æðina" í nefinu á sér ... allavegana var mér einhvern tímann sagt það.  Ekki heppnaðist það nú betur en svo að hann fékk einhverjar rosalegustu blóðnasir sem um getur.  Ég er ekki frá því að hann hafði þurft að liggja fyrir meira og minna þann daginn sem flóðgáttirnar gáfu eftir.

Af þessu má sjá að það er að töluverðu að keppa fyrir dótturina að lenda ekki í þessum hópi.

---

Greinarskrif - frekari pælingar varðandi bootstrap ... gengur ágætlega ...

******************************
34. dagur í líkamsrækt árið 2010

Hljóp 5.9 km í kvöld ... ekki slæmt.  Gerði nokkrar athyglisverðar uppgötvanir á leiðinni ...

Er ekki búinn að ákveða hvað ég geri á morgun, nema það að ég mun gera eitthvað.
***************************** 

**********
9. dagur í ekki-kók-drykkju

Ég held að ég fari að hætta þessari áskorun ... því þetta er engin áskorun ...
**********

 


Mánudagsmetall XII - Dílað við bootstrapping, afmæli og Doddi

Mestur hluti dagsins í dag hefur farið í að fást við bootstrapping og skrifa um það fyrirbæri af einhverju viti í rannsóknargreinina mína.

Það hefur gengið feiknavel og alveg ljóst að ég veit miklu meira en um bootstrapping í kvöld en ég gerði í morgun ... og er það nákvæmlega eins og hlutirnir eiga að vera ...


Órakaður, en gáfulegur að lesa um bootstrapping

---

Svo á Toppa systir afmæli í dag ... þannig að ég sló á þráðinn til hennar ...

Í tilefni afmælisins set ég þessa mynd af okkur systkinunum frá því síðasta sumar ... rosalega held ég að Toppa verði ánægð með þetta framtak mitt ... hmmmm :)

---

Já, og ekki má reyndar gleyma að nefna það að dóttirin fékk fínan pakka frá ömmu sinni og afa á Sauðárkróki.  Og ekki var innihaldið af verri endanum ... þrjár bækur um Dodda ...

Dóttirin varð himinlifandi ... og móðirin líka, því nú getur hún lesið eitthvað annað fyrir ungfrúna en um "Dodda og nýja leigubílinn", en þá bók er búið að lesa oft á hverju kvöldi alveg síðan í júlí.


Með eina af nýju Doddabókunum ... og takið eftir ... alveg hrein um munninn ;)

******************************************
33. dagur í líkamsrækt árið 2010

Tók mér frí ... jafna mig eftir boltann í gær ...

Friskis&Svettis á morgun og engar refjar ...
*****************************************

**********
8. dagur í ekki-kók-drykkju

Fáránlega auðvelt ...
Lauga gerir reyndar grín af því að ég skuli tala svona fjálglega um ekki-kók-drykkju-átakið mitt.  "Ég veit ekki betur en þú hafir þambað 2.5 dós í fyrradag", sagði hún.  Þetta er auðvitað ekki rétt ... ég þambaði bara 0.5 dós í fyrradag ... en kannski 2 á föstudaginn ... man það ekki ...
**********


Sunnudagssamba 7. febrúar 2010 - GHPL 20 mánaða

Sydney Houdini er 20 mánaða í dag ... já, tíminn líður svolítið ... maður man eiginlega ekki hvernig tilveran var áður en hún fæddist, því hún er nú svo stór og mikilvægur hluti í heildarmyndinni ...

Gjörsamlega steingleymdi að taka mynd af henni í dag ... set inn eina frá því í gærkvöldi, þegar afmælisbarn dagsins sofnaði yfir Söngvakeppni Sjónvarpsins ...

Einhverjar kvartanir hafa borist til eyrna síðuhaldara varðandi það hversu oft dóttirin sé skítug í kringum munninn á þeim myndum sem birtast hér á síðunni ... eru jafnvel hugmyndir um að barninu sé aldrei þvegið um andlitið og við foreldranefnurnar látum barnið um stjórna því hvort og hvenær strokið er framan úr því. 
Af því tilefni vil ég þakka öllum þeim sem áhyggjur hafa af málinu, því slíkt ber vott um væntumþykju og væntumþykja er falleg. 
Ég vil jafnframt fullvissa hina sömu um að áhyggjurnar eru óþarfar.  Barninu er þvegið oft á dag í framan og sjálft hefur það afskaplega lítið um það að segja hvort og hvenær því er þvegið.
Hinsvegar finnst mér afskaplega gaman að taka myndir af dótturinni kámugri í kringum munninn og enn skemmtilegra finnst mér að birta þær myndir á þessari bloggsíðu ... ég vona að þetta skýri málið fullkomlega ...

---

Annars var ég rétt í þessu að skríða heim úr sunnudagsboltanum ... fínt að taka svolítið á því þar, þó maður megi nú muna sinn fífil fegurri á vellinum.
Snerpan og úthaldið er svona 20% miðað við það sem það var þegar best lét fyrir 15 - 20 árum.  En það skiptir nú litlu máli ... atvinnumannaferlinn verður líklega enginn úr því sem komið er ...

---

Mér var boðið í flugferð í morgun.  Karvel félagi minn hringdi upp úr kl. 10 í morgun.  Við héldum áleiðis til Eskilstuna ... um 100 km sunnan við Uppsala.
Eftir stórgóðan bíltúr í glæsilegu veðri, kom í ljós að nokkuð lágskýjað var yfir flugvellinum ... og vafi á að hægt væri að fara í túrinn góða. 
Fyrir því voru tvær ástæður:
1. Enginn afísingarbúnaður er í flugvélinni.
2. Flugturninn á vellinum var lokaður, þannig að ef skyggnið yrði lélegt, gætum við þurft að lenda á öðrum flugvelli.  Slíkar ráðagerðir myndu kalla á vesen í framhaldinu því bíllinn stæði þá enn á bílastæðinu við flugvöllinn sem lögðum upp frá.

Og þar að auki virtist sem tölvukeyrður lás inn á flugvallarsvæðið væri frosinn ... og því ekki nokkur leið að komast inn á vallarsvæðið.

Allt er þegar þrennt er ...

---

Við gerðum ekki mikið mál úr þessu heldur héldum bara heim á leið aftur ... keyptum kókosbollur af karli einum sem hefur í 30 ár selt slíkan varning á vegamótum rétt sunnan við Uppsala.  Dágóð ending það!

Laugu fannst bollurnar sjúklega góðar og vildi helst klára þær allar strax ... u.þ.b. 15 stykki eða svo.
Dóttirin fékk líka að smakka og líkaði ágætlega.

---

Svo ræddum við Lauga málin ... ég vann svolítið, bæði í greininni sem ég skrifaði í gær fyrir Sumarhúsið og garðinn, en einnig í grein sem  ég er að skrifa ásamt Sigrúnu Helgadóttur og á að birtast í næsta eintaki Náttúrufræðingsins, sem gefin verður út fljótlega.

****************************************
32. dagur í líkamsræt árið 2010

Fótboltinn stóð fyrir sínu (80 mínútur) ... útihlaupið sem átti að fara í morgun, bíður betri tíma.

Á morgun verður farið Friskis&Svettis - sennilega í einhvern tíma þar
***********************************
*******
7. dagur í ekki-kók-drykkju

Þvílíkt auðvelt ... ég er eiginlega ekki að skilja hvert vandamálið er með þetta kók.  Það er svo innilega ekkert mál að hætta að drekka það ...
********


Laugardagur 6. febrúar 2010

Skruppum snemma í morgun í 4H Gränby ... húsdýragarðinn sem ég og Guddan skruppum oft að skoða í sl. sumar ...

Dóttirin stóð sig sæmilega í garðinum ... segi nú ekki meira ...

---

Í dag skrifaði ég svo stutta grein fyrir Sumarhúsið og garðinn, sem fjallar um sálfræðileg áhrif háhýsa ... sem eru margvísleg ...

... um að gera að kaupa blaðið og lesa greinarstúfinn ...

---

Svo tók dóttirin upp á því síðdegis að fá næstum 40°C hita ... algjörlega upp úr þurru og alveg án þess að það sæist mikið á henni.
Í kvöld var hún hinsvegar orðið nánast hitalaus ...

... já, hún Guðrún Helga er sérstök ... verður ekki meira sagt.
Lauga heldur reyndar að þetta hitakast hafi komið sökum of stórs skammts af hóstasaft ... sel það ekki dýrara en ég keypti.  Hún er hjúkrunarfræðingur, ekki ég ...

---

Við horfðum svo á úrslitin í Júróvisjón í kvöld ... gaman að sjá Himma og Elísabetu í Ástralíu, þó ekkert hefði heyrst í þeim ...

Var nú bara sæmilega sáttur með úrslitin ... en þau voru nokkuð fyrirséð fannst mér, að minnsta kosti hvað varðar þessi tvö sem kölluð voru upp á sviðið í lokin ... bjóst samt við að Færeyingurinn og kóngurinn myndu vinna.

Persónulega fannst mér Mattarnir langbestir og fyrsta lagið var líka mjög gott ...

Laugu fannst hins Gleði og glens með Hvanndalsbræðrum vera besta lagið ...

***********************************
31. dagur í líkamsrækt árið 2010

Tók mér frí ...

Út að hlaupa í fyrramálið og fótbolti um kvöldið
************************************

********************************
30. dagur í líkamsrækt árið 2010

Hljóp 4.3 km ... og það var alveg þrælfínt
************************************

********
6. dagur í ekki-kók-drykkju

Svindlaði aðeins ... 1/2 dós af kóki með Júróvisjón
********

*******
5. dagur í ekki-kók-drykkju

Vikulegur skammtur - 2 dósir af kóki ... varð illt af því
*******


Fimmtudagsflétta - Snilld Guðrúnar

 
Sjaldséð sjón ... Houdini með snuð ...  

---

Guddan fór á kostum í dag ... eins og oft áður ...

Atriði dagsins var þegar hún ákvað að draga fram úr einum eldhússkápnum stórt pastasigti úr stáli.  Eins og sigti gjarnan eru, er þetta sigti kúft að neðan.
Sú stutta lét það nú ekki vefjast fyrir sér og ákvað að máta sig ofan í sigtinu.  Allt gekk vel í tvær sekúndur uns sigtið valt út á hlið, með tilheyrandi bramli. 

Hún hefur ekki sest aftur í sigtið ...

---


Það var skroppið sem snöggvast úr á svalir rétt meðan nauðsynlegt var að lofta út ... eftir framreiðslu kvöldverðarins ... hmmm ...


Beiðni um að fá að horfa á Dodda var hafnað með öllum greiddum atkvæðum og hrifningin ekki mikil ...


En þess í stað var boðið upp á hestbak ...

---

GHPL ákvað seinnipartinn að finna sér eitthvað að lesa.  Af því tilefni klifraði hún upp á stól sem stendur við sjónvarpið og náði þannig að teygja sig í bók sem einmitt var upp á áðurnefndu tæki. 
Bókin var ekki af verri endanum "Getting Rich Your Own Way" eftir Brian Tracy. 
"Háleitar hugmyndir", hugsaði ég, þegar ég fylgdist með henni.
Hún skreið upp niður af stólnum og upp í sófann.  Kom sér vel fyrir með bókina.  Opnaði hana og leit í hana í fimm sekúndur ...
Þá taldi hún nóg væri komið og ákvað að setja bókina aftur upp á sjónvarpið, þar sem hún hafði tekið hana ...

Það er ég viss um að karl faðir minn hefði verið ánægður ef hann hefði séð þessi vinnubrögð, enda lagði hann mikla áherslu á að maður gengi frá eftir sig ...

... það er greinilega ágætis uppeldi þarna á leikskólanum ... því ekki hefur hún lært þetta heima hjá sér ...

---

Skömmu eftir að hafa gluggað í Brian Tracy, gekk Guddan til mín þar sem ég sat við tölvuna og var að vinna.  Hún staðnæmdist, leit bænaraugum á mig og sagði svo undurblíðlega "lesa detta".  Í sömu mund, rétti hún mér Sænsk-íslensku vasaorðabókina sem móðir hennar á. 

Ég gat ekki varist brosi ...

***************************************
29. dagur í líkamsrækt árið 2010

Fór í Medel Jympa í Friskis&Svettis í kvöld ... sem var bara mjög fínt.  Taekwondo-ið er komið í salt, nenni því bara ekki ;)  ...

Á morgun ætla ég út að hlaupa ... sennilega 4 km.
***************************************

********
4. dagur í ekki-kók-drykkju

Hlægilega auðvelt ...

Á morgun ... hugsanlega verður vikuskammturinn (þ.e. 1 - 2 dós 33 cl hvor) tekinn þá ... samt ekki víst.
*******


Miðvikudagur 3. febrúar 2010 - Ótrúlegt klúður & "nei nei"

Við Lauga vorum að átta okkur rétt í þessu að þegar ég keypti flugmiðana heim til Íslands í sumar, keypti ég vitlausa leið, þ.e. frá Íslandi til Svíþjóðar og til baka ... sem er náttúrulega alveg sérstaklega frábært þegar maður býr í Svíþjóð ...

Stundum ríður aulagangurinn ekki við einteyming ... 

---

Annars er búið að snjóa hér í Uppsala í dag og meira að segja skafa svolítið, sem ég hef nú bara ekki séð gerast síðan ég kom hingað ... ágæt tilbreyting í því ...

---

Guddan er búin að taka upp á því síðustu misserin að segja "nei nei".  Var ég kannski búinn að skrifa um þetta áður?? 

Bíttar engu!!  Skrifa það þá bara aftur.

Já, sum sé ... hún er farin að segja "nei nei" í tíma og ótíma.  Ekki veit ég hvar hún hefur lært það, því við Lauga höfum lagt á það sérstaka áherslu að segja ekki oft "nei" við hana og hvað þá "nei nei".  Í stað þess að segja "nei" eða "nei nei" reynum við frekar að beina athygli hennar frá því sem hún á vinsamlegast ekki að gera, að einhverju sem henni er heimilt að gera.

Merking orðsins "nei" virðist nú samt vera á talsverðu reiki hjá ungfrúnni. 
"Viltu drekka?" "Nei nei" og svo tekur hún við glasinu og teygar í botn.
"Viltu vínber?" "Nei nei" og svo tekur hún við vínberinu, treður því upp í sig og kjamsar ákaft.
"Viltu kex?" "Nei nei" og svo tekur hún við kexinu og hámar það í sig af bestu lyst.

Stundum "meikar þetta þó sens".
"Viltu egg?" "Nei nei" og svo bandar hún út höndunum, máli sínu til frekari stuðnings og hristir höfuðið um leið.
"Viltu kjöt?" "Nei nei" og svo bandar hún út höndunum og hristir höfuðið.

Og svo af og til er ekki vitað hvort svarið "meikar sens".
"Viltu peru?" "Nei nei" og svo tekur hún við perunni, stingur henni upp í sig, en tekur hana út úr sér jafnharðan og fleygir henni í gólfið.
"Viltu pasta?" "Nei nei" og svo smakkar hún á því, tyggur smá og spýtir svo útúr sér með tilþrifum og ber svo gumsið gjarnan í hárið.

Í síðastnefnda tilvikinu getur verið möguleiki að segja skýrt og greinilega "jú!", eftir að hún hefur sagt "nei nei", og á hún það þá til að kyngja því sem upp í munninn er komið.

Hér er mynd eftir eitt "nei nei" ... brauðið endaði í hárinu ...

*************************************
28. dagur í líkamsrækt árið 2010

Hlaupnir 5.1 km

Fara á taekwondo-æfingu á morgun
*************************************

************************************
27. dagur í líkamsrækt árið 2010

Lyftingar í Friskis & Svettis ... komu í staðinn fyrir taekwondo-æfingu sem var felld niður vegna breytinga á stundaskránni
*************************************

*********
2. og 3. dagur í ekki-kók-drykkju

Nó problem ... Lauga ákvað að skvetta í sig úr einni dós, en ég stóð hjá og fussaði ...
*********


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband