Mánudagsmetall XIII - mandarína með laufi og uppgötvun

Í dag sá ég í fyrsta skipti ... já, maður er ekki lífsreyndari en þetta ... mandarínu með laufi.  Það að mandarínur vaxi á trjám er út af fyrir sig ekkert sérstök vitneskja, en samt hef ég aldrei séð mandarínu með stilk og lauf ...

Ég ákvað að kaupa hana því mér fannst hún svo falleg ...

Í dag átti sér stað áhugaverð uppgötvun hjá mér.  Kannski var það framhald af pælingunum sem ég setti fram hér á blogginu í gærkvöldi.

En ég fór að pæla meira í því að "gera sér dagamun".  Að krydda tilveruna af og til ... ekki endilega af því að það er einhver dagur sem rennur upp og maður "á" að gera sér dagamun ... heldur bara þetta "að gera sér dagamun".

Ég fór að tína saman þau skipti sem ég geri mér dagamun ... og var fljótur að því ...

Minn helsti dagamunur er að fá mér kók og popp einu sinni í viku, já og stundum kebab ... þar með er það upptalið ...

Ég fór að spá í hvaða helvítis rugl þetta væri eiginlega ...
Maður situr fyrir framan tölvuna alla daga að vinna og þykist aldrei hafa tíma til að gera neitt.  Og það er rétt með naumindum að maður hefur tíma til að fara og hreyfa á sér spikið ...

... og að versta er að vinnuafköstin eru í engu samræmi við fórnina sem felst í því að gera sér aldrei dagamun ...

Tökum daginn í dag, þar sem ég mátti varla vera að því að fá mér að borða í hádeginu af því ég var svo mikið að vinna og mátti engan tíma missa.  Samt var það svo að milli klukkan 10 - 14 gat ég varla unnið vegna þess að ég var svo mikið að reka á eftir sjálfum mér ... ég mátti varla vera að því að lesa heimildir, því ég varð að skrifa svo mikið, en gat lítið sem ekkert skrifað vegna þess að mig vantaði vitneskju úr heimildunum.  Þá fór ég aftur í heimildirnar, en fékk engan frið að lesa og fór þá að skrifa um ekkert ... o.s.frv.

Svona kaos og rugl byrjar svo að fara í taugarnar á manni og allt verður miklu verra en það þarf að vera ...

En svo mundi ég að það er bolludagur í dag.  Tilefni til að gera sér dagamun.
Og í kjölfarið þvingaði ég mig upp af stólnum og skrapp út í búð.  Keypti bollur eða semlur, eins og þær heita í þessu landi og keypti sérstakt Valentíusardagssúkkulaði í leiðinni. 

Þegar þessu var lokið, settist ég aftur niður ... og allt í einu varð allt miklu auðveldara ...

Uppgötvunin kom svo í kjölfarið ... og hún er sú að ég er hundleiðinlegur af því að ég er vinnufíkill og á erfitt með að vera ekki að vinna, þó svo afköstin séu ekkert sérstök.

Ég skamma Laugu fyrir að hafa ekkert frumkvæði að því að gera eitthvað skemmtilegt, þó ég komai sjálfur aldrei með neinar hugmyndir, og á sama tíma ég skamma hana ef hún kemur með uppástungur, fyrir að taka ekki tillit til þess að ég þurfi að vinna ...

En ég ætla að breyta til núna og það verður mín næsta áskorun ... og það er að vinna þegar ég er að vinna og vera í fríi þegar ég er í fríi.  Og í fríinu ætla ég að gera mér dagamun.

************************
40. dagur í líkamsrækt

Frí í dag ... mátti ekki vera að því að fara út ...

Á morgun verður skokk og stúdering
************************

***********
15. dagur í ekki-drekka-kók

Gerði mér dagamun og skolaði niður einni dós af eðaldrykknum
**********


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott færsla hjá þér Bobbi.

Líst vel á þessar pælingar hjá þér.

Hef sjálf komist að því maður getur svolítið "hægt" á tímanum með því að njóta stundarinnar hverju sinni - lifa í núinu.... sama hvað maður er að gera .....

Linda (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 00:17

2 identicon

Eins og hin merka kona Auður sagði - prestur með meiru - nýtið hvern dag sem hann sé sumarfrísdagurinn þinn......

Finnst þetta vera þau gáfulegustu fyrirmæli sem ég hef séð lengi. Maður á sko örugglega ekki eftir að líta til baka á dómsdagsdegi og hugsa með stolti til allra þeirra daga, vikna, mánaða, sem maður eyddi í vinnu... sennilega á maður eftir að eyða honum í eftirsjá - eftir því að hafa ekki eytt meiri tíma með ástvinum...

Sigga Dóra (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 11:01

3 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Hjartanlega sammála ykkur!

Ég er óðum að átta mig á þeirri einföldu staðreynd að lífið er meira en vinna :) ...

Páll Jakob Líndal, 16.2.2010 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband