Miðvikudagur 3. febrúar 2010 - Ótrúlegt klúður & "nei nei"

Við Lauga vorum að átta okkur rétt í þessu að þegar ég keypti flugmiðana heim til Íslands í sumar, keypti ég vitlausa leið, þ.e. frá Íslandi til Svíþjóðar og til baka ... sem er náttúrulega alveg sérstaklega frábært þegar maður býr í Svíþjóð ...

Stundum ríður aulagangurinn ekki við einteyming ... 

---

Annars er búið að snjóa hér í Uppsala í dag og meira að segja skafa svolítið, sem ég hef nú bara ekki séð gerast síðan ég kom hingað ... ágæt tilbreyting í því ...

---

Guddan er búin að taka upp á því síðustu misserin að segja "nei nei".  Var ég kannski búinn að skrifa um þetta áður?? 

Bíttar engu!!  Skrifa það þá bara aftur.

Já, sum sé ... hún er farin að segja "nei nei" í tíma og ótíma.  Ekki veit ég hvar hún hefur lært það, því við Lauga höfum lagt á það sérstaka áherslu að segja ekki oft "nei" við hana og hvað þá "nei nei".  Í stað þess að segja "nei" eða "nei nei" reynum við frekar að beina athygli hennar frá því sem hún á vinsamlegast ekki að gera, að einhverju sem henni er heimilt að gera.

Merking orðsins "nei" virðist nú samt vera á talsverðu reiki hjá ungfrúnni. 
"Viltu drekka?" "Nei nei" og svo tekur hún við glasinu og teygar í botn.
"Viltu vínber?" "Nei nei" og svo tekur hún við vínberinu, treður því upp í sig og kjamsar ákaft.
"Viltu kex?" "Nei nei" og svo tekur hún við kexinu og hámar það í sig af bestu lyst.

Stundum "meikar þetta þó sens".
"Viltu egg?" "Nei nei" og svo bandar hún út höndunum, máli sínu til frekari stuðnings og hristir höfuðið um leið.
"Viltu kjöt?" "Nei nei" og svo bandar hún út höndunum og hristir höfuðið.

Og svo af og til er ekki vitað hvort svarið "meikar sens".
"Viltu peru?" "Nei nei" og svo tekur hún við perunni, stingur henni upp í sig, en tekur hana út úr sér jafnharðan og fleygir henni í gólfið.
"Viltu pasta?" "Nei nei" og svo smakkar hún á því, tyggur smá og spýtir svo útúr sér með tilþrifum og ber svo gumsið gjarnan í hárið.

Í síðastnefnda tilvikinu getur verið möguleiki að segja skýrt og greinilega "jú!", eftir að hún hefur sagt "nei nei", og á hún það þá til að kyngja því sem upp í munninn er komið.

Hér er mynd eftir eitt "nei nei" ... brauðið endaði í hárinu ...

*************************************
28. dagur í líkamsrækt árið 2010

Hlaupnir 5.1 km

Fara á taekwondo-æfingu á morgun
*************************************

************************************
27. dagur í líkamsrækt árið 2010

Lyftingar í Friskis & Svettis ... komu í staðinn fyrir taekwondo-æfingu sem var felld niður vegna breytinga á stundaskránni
*************************************

*********
2. og 3. dagur í ekki-kók-drykkju

Nó problem ... Lauga ákvað að skvetta í sig úr einni dós, en ég stóð hjá og fussaði ...
*********


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband