Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Miðvikudagur 15. september 2010 - Að tala íslensku

"Maríuplebpleb" sagði dóttirin í morgun þegar hún benti á mynd af maríubjöllu.

Orðið "maríuplebpleb" myndi líkast til seint teljast íslenskt orð ... 

Á barnaheimilinu er sagt að Sydney Houdini tali alveg svakalega mikla íslensku.  "Hún bara talar og talar á íslensku", segja kennararnir hver í kapp við annan. 
Þetta finnst okkur Laugu afar skrýtinn málflutningur, því við heyrum nú ekki þennan mikla íslenska ræðuflutning.  Það má kannski segja að eitt og eitt íslenskt orð hrjóti af vörum hennar þegar masið nær hæstu hæðum ... annars er þetta nú bara 99% tómt dómadags rugl.

En það lítur sum sé út fyrir að "maríuplebpleb" og annað álíka hljómi sem íslensk orð í eyrum sænskra leikskólakennara ...

---

Hér hefur bókstaflega allur dagurinn farið í að undirbúa umsókn til siðanefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss.  Það er með hreinum ólíkindum hvað svona stúss tekur langan tíma ... og maður gerir ekki annað á meðan ... 


Mánudagur 13. september 2010 - Fjórir ráðherrar innvortis?

Óhætt er að segja að þessi fyrirsögn á www.dv.is hafi fengið mig til að sjá hlutina í nýju ljósi ...

 

Sverrir félagi minn benti mér á að þetta gæti verið ástæða þess að mér hefur verið illt í rifjakassanum vinstra megin í um 10 daga ... ég hélt að verkurinn stafaði af olnbogaskoti sem ég fékk í fyrri leiknum við pizzubakarana ...

---

Susanne, uppáhaldsleikskólakennari dóttur minnar segir að dóttirin hafi mjög mikið skap.  Hún eigi það til að taka "kastið" við það eitt að hún sé spurð ofursaklausra spurninga, á borð við "viltu epli?" eða "viltu sjá blómið?"

Einnig upphefjast stutt en kröftug mótmæli þegar hádegislúrinn er næstur á dagskránni á leikskólanum.

Já, það er óhætt að segja að dóttirin sé verðugt viðfangsefni ...

 

 


Sunnudagur 12. september 2010 - Að loknu Klakamóti

Jæja, þá er Klakamótið í fótbolta afstaðið ...

Sannarlega skemmtilegt og geysilega vel heppnað mót.   Fagmannleg að því staðið í alla staði hjá þeim Lundverjum.

Ekki fór það svo að Knattspyrnufélagið 20 mínútur næði að vinna mótið en árangurinn var talinn viðunandi ... "nú er bara á byggja ofan á þessa reynslu" eins og mjög oft er sagt ... 

Árangurinn var eftirfarandi:

2 sigrar og 3 töp eða 6 stig.  Fjórða sætið af sex í riðlinum.

Það var jafn og góður stígandi í liðinu frá fyrsta leik ... þó að frátöldum dálítið brothættum fyrri hálfleik í 4. leik.

Liðsmenn voru nokkuð sáttir við árangurinn, en töldu þó að með smá heppni hefði verið hægt að innbyrða 3 stig til viðbótar og jafnvel 6 stig.

Þjálfarinn fékk að fjúka eftir mótið ...  sem að sjálfsögðu lýsir hversu mikill metnaður hefur nú skapast innan klúbbsins.

 

 


Fimmtudagurinn 9. september 2010 - Að gramsa í gömlum blöðum

Á morgun verður farið á Klakamótið í Lundi. 

Í kvöld var glæsileg æfing hjá 20 mínútum og þjálfi lagði línurnar hvernig hin ýmsu atriði skyldu tæknilega framkvæmd ...

... allt gekk þetta eins og í algjörri sögu ...

Liðstjórinn var búinn að útvega búningana og mætti með þá til sýningar ... glæsilegir Liverpool-rauðir búningar.

---

Fann þetta á netinu í kvöld ... eftir að hafa komist að því að til er vefur sem heitir www.timarit.is.  Þar er hægt að fletta í gömlum tímaritum og dagblöðum ...

 

Þetta er sumsé viðtal úr Þjóðviljanum sáluga sem tekið var við síðuhaldara og þrjú bekkjarsystkini hans úr Austurbæjarskóla og birtist 12. apríl 1987.

Umræðuefnið er fermingin ... 

Ég man enn eftir þessu viðtali, og er minnistætt hversu lítið ég hafði til málanna að leggja ... enda má líka sjá það þegar viðtalið er lesið.  Bæði var ég svakalega feiminn og svo vissi ég bara ekkert hvað ég átti að segja ... ég hafði ekkert verið að pæla í neinni fermingu.

Ég fermdi mig bara af því að amma vildi að ég fermdist ...

Það hefði verið miklu skemmtilegra að tala um fótbolta ... nú eða KISS ...

---

Og talandi um KISS ... ég rakst á það fyrir hreint helbera tilviljun að skólastjóri tónlistarskólans á Djúpavogi heitir KISS ...

Þetta er nú með því svalara sem ég hef séð ...

Ef hann er ekki KISS-aðdáandi fram í fingurgóma, þá verð ég illa svikinn ...

Sá þetta á www.timarit.is.  Þetta er úr Dagblaðinu þann 31. ágúst 1979.  Vinsældarlistinn í Hollandi og Hong Kong.

I was made for loving you af plötunni Dynasty á toppnum í Hollandi þriðju vikuna í röð og í 9. sæti í Hong Kong.  Þess má geta að platan Dynasty kom út síðari hluta maímánaðar árið 1979 og varð fyrsta plata KISS til að slá í gegn út um allan heim ...

 

 ---

Guddan er í stuði ... og Lauga líka ... 

Hér er mynd af þeirri fyrrnefndu ... 

 

 

 


Miðvikudagur 8. september 2010 - Allt og ekkert að gerast

Hér í Uppsala er allt að gerast og ekkert að gerast ...

... málið er nefnilega það að ég er um það bil að landa um 300 þátttakendum fyrir rannsóknina mína.  Mikill áfangi það.

Svo sit ég og rýni í glóðvolg gögnin og þvælist í þeim fram og aftur ... en í raun er ekkert að gerast.

Það tekur alltaf smá tíma að komast í takt við tölfræðileg gögn.  Maður þarf að máta sig við þau, kasta þeim fram og tilbaka, áður en eitthvað fæst af viti.

---

Mér til ánægju sé ég að það smám saman tínast þátttakendur í könnunina hér vinstra megin á síðunni, þ.e.a.s. skeggkönnunina.

Veðmálið um niðurstöðuna er enn í gangi og verður spennandi að sjá hver hún verður.  

Annars hef ég lítið viljað væla að fólki að taka þátt í þessari könnun, enda er alveg nóg að vera búinn að safna um 600 manns; 300 í doktorsverkefnið og 300 í streituskalann.

---

Ef ég lít annað en á naflann á sjálfum mér, þá er mál málanna auðvitað Landeyjahöfn ...

... ekki hægt að segja annað en um stórkostlega framkvæmd sé að ræða.

Siglingamálastjóri kom bara vel út úr viðtalinu í fréttatímanum í kvöld ... sagði að þetta yrði vonandi í lagi þegar náttúran yrði aftur eðlileg.  Aðstæður væru bara búnar að vera svo rosalega langt utan við þann ramma sem reiknað var með ... ?!?

Þetta er nú ekki slæm lógík ...

Stundum ramba ég á bloggið hjá Eiði Guðnasyni fyrrum þingmanni, ráðherra og sendiherra.  Á blogginu háir hann blóðuga baráttu gegn ambögum í fjölmiðlum.

Linkurinn er þessi http://esgesg.blog.is/blog/esgesg/ ef einhver skyldi hafa áhuga.

Mikið hlýtur blessuðum manninum að leiðast ... hlustandi á alla fréttatíma sem hann kemst yfir, lesandi öll dagblöð sem hann finnur, svo og alla vefmiðla til þess eins að geta leiðrétt ambögurnar og nöldrað yfir þeim á blogginu hjá sér.

Ekki það að mér finnst sjálfsagt að gera íslenskunni hátt undir höfði og vernda hana eins og kostur er ... 

... ég er meira bara að spá í iðjuna sem slíkri ... þetta hlýtur að vera mikið starf.

Skyldi hún skila árangri? 


Sunnudagur 5. september 2010 - Í sirkus

Í dag var eitt markmið lífs míns uppfyllt.  En það er að fara í sirkus.

Mig hefur alltaf langað til að fara í sirkus og nú þegar Cirkus Maximum átti leið um Uppsala, var  um að gera að grípa tækifærið.

Það sem setti einstaklega skemmtilegan svip á þetta var að Lauga og Guddan voru með í för ... og þess má geta sérstaklega að Lauga bauð ... :)  

 

Í sirkusnum var hægt að fylgjast með öllum því helsta sem prýtt getur góðan sirkus ... trúðar, loftfimleikafólk, hestar, kameldýr, töframaður, keilukastarar o.s.frv.

Sæljónin slógu alveg í gegn hjá fröken Syd og þegar fílarnir ruddust inn datt kjálkinn á henni alveg niður á gólf ... slík var upplifunin ... 

Í gær tókum við þátt í skemmtidegi sem haldinn var í hverfinu ... dagskráin var nú kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir en við gerðum gott úr þessu, enda veður hið besta og engin ástæða til að láta fara illa um sig ...

Á skemmtideginum var meðal annars boðið upp á að skoða húsdýr og var dóttirin alveg svakalega spennt fyrir því.

Allra skemmtilegast var að reyna að gefa "lilla gís gas" svo vitnað sé orðrétt í þá stuttu ... en þetta þýðir auðvitað "litla grís gras".  Á myndinni hér fyrir neðan er reynt að koma einhverju ofan í rolluna.

 

Og svo í kvöld var lið pizzubakaranna lagt að velli öðru sinni í þessari viku.  Í þetta skiptið mættu þeir hvorki fleiri né færri en 13, en spilað var með 7 manna lið.  

Það var sumsé allt lagt undir ... en það dugði ekki til ... 20 mínútur hafði betur ... 

Reyndar fór þetta í vítakeppni ... og hver annar en þjálfi tryggði sigurinn í úrslitavítinu ... það er ekki að spyrja að því! :D 


Föstudagur 3. september 2010 - Að hlaupa

Heilmikil gagnasöfnun hefur farið fram í gær og í dag fyrir doktorsverkefnið mitt ... ekki svo að skilja að söfnuninni sé lokið ... fjarri því.

En ágætt það sem komið er.

---

Sydney Houdini er búin að vera hress í dag, sem og í gær og fyrradag.  Alveg sérstaklega hress.

Á barnaheimilinu er þess sérstaklega getið dag eftir dag að blessað barnið hlaupi og hlaupi ... já, hún hleypur meira og minna allan daginn.  Einn kennarinn sagði að sennilega yrði hún íþróttakona ...

... það kæmi nú ekki á óvart ef svo yrði ... enda er hún dóttir eins efnilegasta kvenhástökkvara sem Ísland hefur alið.

Móðirin varð margfaldur Íslandsmeistari á unglingsaldri ... enda stökk hún hæð sína léttilega.  Hún var þrábeðin um að mæta á æfingar hjá unglingalandsliðinu í frjálsum íþróttum en NENNTI því ekki!!!

Þó ég viti ekkert um það ... þá er ég viss um að Lauga hefði keppt á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996 og í Sydney 2000 ef hún hefði haldið áfram.

Kannski getum við Guddan bara prísað okkur sæl með að hún nennti ekki ... því sjálfsagt hefðu hlutirnir þróast öðruvísi, þ.e. við Lauga hefðum ekki hittst þann 12. október 1996 í Þjóðleikhúskjallaranum og engin Gudda hefði fæðst þann 7. júní 12 árum síðar.

En hvort fröken Sydney verður íþróttakona eða ekki verður tíminn að leiða í ljós ... hennar er valið ...

Í dag ritaði dóttirin bréf á tölvuna ... það fyrsta í töluvert langan tíma.  Klárlega er þetta fyrsta bréfið þar sem hún þekkir stafina sem hún er að skrifa ... sjón er sögu ríkari.

 


Fimmtudagur 2. september 2010 - Fótboltaliðið 20 mínútur

Eftir um viku mun fótboltaliðið 20 mínútur halda á hið árlega Klakamót, sem haldið verður í Lundi.

Undirritaður hefur verið valinn í starf "þjálfara" og er það í annað skiptið á ævinni sem honum hlotnast sú tign.  Starf "þjálfara" 20 mínútna er þó fremur viðalítið og byggist að mestu leyti á því að skipta sjálfum sér aldrei útaf meðan á leik stendur en láta alla aðra "rótera" ... ekki slæmt hlutskipti það.

Í kvöld var settur á fyrsti formlegi æfingaleikurinn hjá liðinu og var hann haldinn á grasvellinum í Herrhagen.  Reyndar var hann fremur seint í kvöld, þannig birtuskilyrði voru hræðileg, vægt til orða tekið. 

Vildi "þjálfarinn" ólmur að liðin flyttu sig á upplýstan gervigrasvöll sem var skammt frá, en til að gera langa sögu stutta, þá var ekkert hlustað á hann.

Andstæðingurinn að þessu sinni var lið pizzubakara í Herrhagen, sem ku vera langbesta liðið í 7. deildinni hér í Uppsalalandi (held ég).  Það er ekki að sökum að spyrja ... 20 mínútur fór með sigur af hólmi úr viðureigninni 5 - 4.

Að sjálfsögðu var "þjálfi" markahæstur með 2 mörk, en þau hefðu auðvitað átt að verða miklu fleiri.

Nú seint í kvöld skoraði lið pizzubakaranna aftur á 20 mínútur.  Fer sá leikur fram á sunnudagskvöldið kl. 21 og verður þá leikið á gervigrasinu í Herrhagen undir fullum ljósum.

Pizzubakararnir geta farið að biðja fyrir sér ...  


Miðvikudagur 1. september 2010 - Að fara yfir stafrófið

Töluvert hefur nú gerst síðan síðast var ritað á þessa síðu ... verkefnin hafa verið ærin, raunar svo mikil að síðuhaldari hefur ekki haft þrek til að skrifa blogg ...

Úr því verður bætt núna.

--- 

Lauga byrjaði í skólanum í dag ... þannig að þá má segja að ballið sé formlega hafið ... :)  Hún er óð og uppvæg að segja mér frá öllu því sem getur hent augun í fólki ... sem nota bene er ekkert smávegis fjölbreytilegt og skilur hreinlega ekkert í því þegar ég neita að skoða myndir af stokkbólgnum, graftarsprungnum augum meðan ég borða.

En ráðið sem ég hef til varnar er að bjóða upp á "díl" sem er þannig að ef ég skoða myndirnar þá má ég segja henni í smáatriðum frá muninum á "hornréttum og hornskökkum snúningi í þáttagreiningu" og ræða við hana um "þáttahleðslur".

Hún hefur ekki samþykkt þann "díl" ennþá ... sem betur fer ...

---

Svo fékk ég þau tíðindi í dag að fyrsta "aðalskipulagsskilti" í heiminum væri komið í hús á Djúpavogi.

Þetta er hugmynd sem unnið hefur verið að í nokkurn tíma en meiningin með skiltinu er að fræða íbúa og gesti á Djúpavogi um hið merka plagg "Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 - 2020", sem ég tel vera með djörfustu skipulagsáætlunum sem settar hafa verið fram á Íslandi.


Andrés Djúpavogsoddviti (t.v.) ásamt ónefndum hjálparkokki með aðalskipulagskortið,
hið fyrsta í heiminum.

Almennt séð veit fólk ekkert um hvað aðalskipulög snúast, þannig að með skiltinu er gerð tilraun til að brúa það bil og svipta hulunni af hugtakinu "aðalskipulag".  Það er mjög gaman að Djúpavogshreppur skuli ráðast í gerð þessa skiltis og spennandi að sjá hvernig því verður tekið.

Það má svo fylgja að "aðalskipulag" er í raun ekkert annað en stefna sveitarfélags í margvíslegum málaflokkum á einhverju tilteknu árabili ... ekkert flókið við það en getur verið afar áhugavert.

---

Að lokum eru hér tvö myndbönd af dótturinni að fást við stafrófið.

Eins og ég hef, held ég áður sagt, á þessum vettvangi þá hef ég í nokkra mánuði verið að prófa, meðan við borðum morgunmatinn, að fara yfir stafrófið með dótturinni.  Þessi lærdómur er algjörlega á hennar forsendum, þannig að ef hún nennir ekki að röfla um bókstafina, þá röflum við bara ekkert um þá ... stjórnin er algjörlega í hennar höndum.  

Það er forvitnilegt að sjá hversu langt er hægt að komast með þetta ... en það má allt eins vera að á morgun hætti hún að hafa áhuga á þessu ... það verður bara að koma í ljós.

Við tökum gjarnan lagið meðan farið er yfir stafrófið ... og í dag byrjaði hún allt í einu að taka undir ...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband