Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Þriðjudagur 19. janúar 2010

Það er langt síðan ég upplifði aðra eins þrautagöngu og í taekwondoo-tímanum í kvöld ... hann var rosalegur. 
Maður hlýtur að komast í gott form í þessu prógrammi ... það er morgunljóst.

---

Vann í morgun áfram að hinu skemmtilega verkefni sem barst mér í hendur í gær.  Vann þetta í samstarfi við Auði Ottesen og upp úr hádeginu, var klár þessi líka fína skýrsla.  Verkefnið miðaðist sumsé að betrumbæta skólastofu hjá Janusi endurhæfingu ehf.  Verður mjög fróðlegt að heyra hvernig þetta fellur í kramið.

Þá vann ég að gerð aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps.  Áhugavert verkefni þar.

---

Guddan er í miklu stuði ... er enn í þeim fasa að vilja setja mat í hárið á sér.  Í dag sturtaði hún mylsnunni úr Cheerios-pakkanum sem hún hefur verið borða upp úr síðustu vikur, á matarborðið.  Því næst mokaði hún mylsnunni í hárið á sér og svo bætti hún um betur með að setja ofurlitla súrmjólk á sama stað.

Sú stutta er af þessum sökum búin að fara í bað síðastliðin þrjú kvöld ... en í kvöld var ákveðið að dusta það mesta úr hárinu og láta þar við sitja.

*****************
13. dagur líkamsræktar árið 2010

Taekwondo-æfing í 2 klukkutíma

Á morgun ... róður og stigvél samtals í 30 mín
***************** 


Mánudagur 18. janúar 2010

Héðan er allt gott að frétta þennan daginn ...

Guddan var í fyrsta skipti í leikskólanum til kl. 16, þar sem Lauga hefur nú bætt við sig vinnu á sjúkrahúsinu.

Hún hefur verið geysilega spræk í dag, sérstaklega eftir að hún lagði sig ...

---

Greinarskrif halda áfram hjá mér ... er búinn, mesta hluta dagsins, að lesa og skrifa um "silhouette complexity" og áhrif þess á viðhorf fólks.  Athyglisverðir hlutir þar á ferðinni. 

Raunar rakst ég á mjög athyglisverða grein sem sýndi að fólki líkaði betur við að horfa á háreistar byggingar að nóttu til, t.d. á Manhattan, þar sem ljós eru í hverjum glugga heldur en að horfa á náttúrulegt umhverfi að degi til.
Þetta er held ég fyrsta greinin sem ég les þar sem byggt umhverfi hefur vinninginn á náttúrulegt umhverfi ... en ljóst er að niðurstöður þessarar rannsóknar eru í algjörum sérflokki ...

Samkvæmt rannsókninni er það þetta sem við viljum!

Fékk reyndar óvænt verkefni upp í hendurnar seinni partinn, en það var að koma með hugmyndir um hvernig betrumbæta mætti skólastofu, svona út frá umhverfissálfræðilegu sjónarmiði ... það var dálítið fróðlegt viðfangsefni ...

---

Svo er það námskeiðið, sem ég held 15. mars í Gerðubergi ... hægt að kíkja á kynningu hér.
Þessa dagana er ég að vinna að þessu verkefni.

---

En allavegana þetta gengur þetta bara býsna vel og lífið leikur við mann.

*****************
12. dagur í líkamsrækt

Frí í dag

Taekwondo-æfing á morgun
*****************


Sunnudagur 17. janúar 2010

Ég held að ég hafi bókstaflega ekkert gert af viti í dag nema það sem viðkemur líkamsræktinni minni ...

... það er voðalega skrýtið að mér finnst alveg afleitt að gera ekkert.  Mér beinlínis líður illa þegar ég er ekkert að gera, en samt nenni ég bókstaflega ekki að gera neitt ... kem mér bara ekki í nokkurt einasta verk ...

Frekar skrýtin staða verð ég að segja.

Annars er ég að lesa tvær bækur þessi dægrin.  Önnur heitir "The Power of Now" eftir Eckert Tolle og hin "The West Point Way of Leadership" eftir  Larry R. Donnithorne.

Báðar bækurnar eru athyglisverðar, hvor á sinn hátt ...

Fyrir þá sem það ekki vita er West Point hernaðarakamedía Bandaríkjanna, þar sem liðforingjaefni bandaríska hersins eru þjálfuð og undirbúin fyrir komandi átök ... og óhætt að segja að höfundur bókarinnar slái hvergi slöku við í að fræða hvernig á að búa til alvöru leiðtoga ...

Fyrsti hluti bókarinnar segir allt sem segja þarf ... hann ber heitið "Starting from zero: Tearing down before building up".
Hann hefst einhvern veginn svona: "Most plebes enter the Academy cocksure and confident from the great success they´ve already had in high school ... but after the first day at West Point most of them would like to have taken the next train out, if there had been any time provided to sit down and think for a moment."

Þetta er rauði þráðurinn ... ég hef mínar efasemdir um þessar aðferðir, en þetta er samt athyglisvert ...

The West Point Way of Leadership

Hin bókin er dálítið súrealísk ... ég er ennþá að meta hvort ég ætla að lesa hana. 
Tolle fer geyst af stað.  Á bls. 13 segir hann að hugsun flestra sé sjúkdómur.  Í sjálfu sér er gott að hugsa, en þegar við ráðum ekki við hugsanir okkar, vandamál sem  flest okkar glíma við, þá verður hugsunin sjúkdómur.  Hugsunin fer úr "balance".

Hann ber þetta saman við frumur sem eiga að skipta sér eftir kúnstarinnar reglum.  En of ör eða stjórnlaus frumuskipting er ekki af hinu góða ... hún er úr "balance" og veldur sjúkdómum ...

"Við erum þrælar hugsunar okkar ... en við þurfum ekki að vera það", segir Tolle.

Lengra er ég nú ekki kominn í þessari bók.

Power of Now

***************************
11. dagur í líkamsrækt árið 2010

Taekwondo-æfing í 2 klst og fótbolt í 90 mín ... búinn á því ...

Frí á morgun
**************************


Laugardagur 16. janúar 2009

Það er bannað að klifra upp á matarborðið ... þetta er ein af fáum reglum sem við Lauga höfum sett Guðrúnu og fylgjum undantekningarlaust eftir.  Strax þegar fóturinn teygir sig upp á borðbrúnina þá er hnippt í telpuna.

Í hádeginu í dag brást vöktunarkerfið ... Guddan komst upp á borð og varð himinlifandi.  Hún var stoppuð af þegar hún ætlaði að fá sér sæti í ávaxtaskálinni sem var á borðinu.  Hverjum dettur eiginlega í hug að setjast í ávaxtaskál?!?

Lauga eldaði dýrindis mat í kvöld.  Lambafillé frá Íslandi.  Margt gómsætt meðlæti, t.d. ávaxtasalat sem rjóma og ofurlitlu majonesi.  Allir fengu sinn skammt af góðgætinu, hver á sinn disk eins og venja er.  Yngsta meðlimnum datt það snjallræði í hug að stinga höndunum á kaf ofan í ávaxtasalatið og bera dýrðlegheitin í hárið ... hlaut það uppátæki fádæma undirtektir.

Svo braut sú stutta blað þegar hún sofnaði í hádeginu inni í stofu og ekki voru vögguvísurnar af verri endanum ... hér er smá brot ...

Eftir lúrinn var svo farið út á snjóþotu ... og það var nú svei mér gaman ... hér eru myndir af frá þeim ævintýrum ...

Það er svo gaman að segja frá því að þrátt fyrir að það sé miður vetur hér í Uppsala, er síður en svo sjálfsagt mál að hægt sé að kaupa snjóþotu.  Höfðum við reynt það töluvert áður en árangur náðist ...

... ástæðan var sú að þær urðu uppseldar milli jóla og nýjárs og algjörlega óvíst um nýjar sendingar.  Þetta átti ekki bara við í einhverri einni búð, heldur í a.m.k. fimm búðum sem við höfðum samband við ... Svíar eru nefnilega svo fyrirhyggjusamir að búið er að kaupa snjóþotu áður en veturinn gengur í garð.

Fyrir rælni þá hittum við þó á eitt stykki ... þvílíkur grís ...

*********************
10. dagur í líkamsrækt árið 2010

Farið í Friskis & Svettis - róður í 15 mín og stigvél í 15 mín / magi, bak og teygjur

Á morgun fer ég á Taekwondo-æfingu og í fótbolta.
*********************

Loks smá updeit frá gærdeginum ...

*********************
9. dagur í líkamsrækt árið 2010

Út að hlaupa - samtals 3,2 km - 4x50 m sprettur og 1x150 m sprettur / teygjur
*********************


Fimmtudagur 14. janúar 2010

Gengur ekkert að fara snemma að sofa ... klukkan er alltaf orðin eitthvað rosalegt þegar maður rankar við sér ...

Það er nú bara þannig að á þessum bænum gerist bókstaflega ekki neitt þessa dagana, því ég er önnum kafinn við að skrifa grein sem hugsuð er til birtingar í einhverju góðu vísindatímariti. 

Í mínum huga er þetta verkefni mjög skemmtilegt ... það er gaman að sjá hvernig hugmynd mín að rannsókn verður að rannsókn og loks að niðurstöðum og vonandi að tímaritsgrein fljótlega. 

Gagnagreiningin er langt komin og niðurstöðurnar athyglisverðar.  Eftir viku leggst ég yfir greininguna með leiðbeinanda mínum og gefi hann grænt ljós á vinnuna mína, er ekkert eftir nema að ljúka við greinina og senda inn á eitthvert tímaritið.

---

Einnig er gaman að segja frá því að ég er að fara halda námskeið í umhverfissálfræði í mars nk.  Verður námskeiðið á vegum Sumarhússins og garðsins og allir sem hafa áhuga á að fræðast svolítið um samspil fólks og umhverfis eru velkomnir.  Kíkið endilega á athyglisverða námskeiðaflóru Sumarhússins og garðsins hér.

***********************************
8. dagur í líkamsrækt

Hreyfingin gengur vel - hlaupnir voru 4.3 km í dag án nokkurra vandkvæða

Morgundagurinn býður upp á hlaup á nýjan leik.  Þá verða teknar fyrir hraðabreytingar.
***********************************


Miðvikudagur 13. janúar 2010

Í dag vann fröken Gudda það afrek að detta afturábak af sófaarminum ofan í dótakassann sinn.  Fór betur en á horfðist, og mikið vorum við fegin að sett dótakassinn þarna við sófaendann.

Henni tókst líka að detta fram úr sófanum með höfuðið í fylkingarbrjósti.  Sem betur fer var búið að raða púðum á gólfið, einmitt þar sem atvik sem þetta, hefur legið yfir eins og mara um nokkurt skeið.

Því verður ekki neitað svona eftirá að bæði atvikin voru kostuleg áhorfunar ...

Klifurbrölt dótturinnar ætlar engann endi að taka ... sjáið t.d. meðfylgjandi mynd ...

Hún sum sé búin að jafna sig af hitakastinu, sýndi og sannaði það í dag.

Síðustu dagar hafa verið dekurdagar, en í dag var dregið allverulega úr þeim þægindum sem geta fylgt því þegar lítil skotta er veik.  Og viðbrögðin létu ekki á sér standa.  Hún grét og lét öllum illum látum, ef hún fékk ekki það sem hún bað um.

Þegar frekjuköstin voru að ná hámarki var ekki annað hægt en að hasta ofurlítið á hana og viti menn ... það var eins og hún hreinlega áttaði sig á því að þetta gengi ekki ... öskrin snarhættu og hún varð hin ljúfasta í kjölfarið ...

... þetta var dálítið merkilegt ...

---

Dagurinn hefur liðið við vinnu, líkt og er við hæfi ... og vinnan gengur vel og er skemmtileg ...

************************
7. dagur í líkamsrækt árið 2010

Fór að lyfta í Friskis & Svettis ... fín törn þar

Á morgun er útihlaup ... ég ætla að lengja vegalendina, fer 4 km
************************* 

Ef einhver leiðir hugann að því hvort dótturinnar sé ekki nægjanlega vel gætt, skal það tekið fram að hér á heimilinu er unnið hörðum höndum á hverjum degi að upphugsa leiðir til að koma í veg fyrir að dóttirin slasi sig og mikið lagt að mörkum til að gæta hennar sem mest og best ... sumt er bara ekki hægt að koma í veg fyrir ... bara svo það sé á hreinu ;) .


Þriðjudagur 12. janúar 2010

Fröken Sydney Houdini var að hressast í kvöld ...

... samt ekki alveg að marka því hún fékk stíl seinnipartinn.

Og þegar hún hressist af stílnum þá dregur hún ekkert af ... þá er byrjað að hlaupa, hoppa, klifra og djöflast.  Þá nennir hún sko ekki að horfa meira á Dodda DVD ...
Samt var stórkostlegt augnaráðið sem hún gaf mér þegar ég slökkti á Dodda í kvöld ... þá var hann búinn að rúlla dágóða stund án þess að nokkur veitti því eftirtekt nema ég.  Sú stutta leit á mig með fyrirlitningarsvip þegar Doddi þagnaði ...


Þetta var eitt uppátækið þegar stíllinn var farinn að virka vel


... og svo er hún að læra hvernig á að mæla hitann ...
Þetta eru aðrir tímar en þegar rassamælarnir voru
mál málanna ...

---

Sjálfur er ég búinn að vera að vinna eins og gerpi í gær og í dag.  Skrái nákvæmlega niður tímana mína til að fá yfirlit yfir í hvað dagurinn fer.  Eins er þetta gott til að halda sér að verki.

T.d. vann ég í 5 klst og 25 mínútur í doktorsverkefninu mínu í dag, sem er heldur minna en í gær þegar ég vann 7 klst og 50 mínútur.  Hér er ég að tala um tíma þar sem ég er algjörlega að fókusera á verkefnið.  Ekkert internetvesen eða bull innifalið.

30 mínútur fóru í lestur á netinu ... lesa blöðin o.s.frv. Einn klukkutími fór í tölvupóstsamskipti, útréttingar í bænum tóku eina klukkustund, einn klukkutími í aðra vinnu en verkefnið mitt, útihlaup 30 mínútur og teygjur og sturta 30 mínútur ... og svo fór tími í sitthvað fleira.

... o.s.frv.

Þetta er mjög fróðlegt að taka þetta svona saman og þá sér maður svart á hvítu í hvað dagurinn fer.  Ég nefni þetta nú bara svona.

*************
6. dagur í líkamsrækt árið 2010

Útihlaup 2.7 km - teygjur, maga- og bakæfingar

Á morgun - lyftingar
***************


Mánudagsmetall XIII - 11. janúar 2010

Doddi fékk að rúlla í tölvunni nánast í allan dag ...

Guddan horfði á Dodda með Dodda ...

Maður fær ýmsu framgengt þegar maður er veikur ...


Sunnudagur 10. janúar 2010 - Matur og spjall

Lauga sagði kl. 17 í dag að við værum ekkert búin að gera annað í dag en að spjalla saman og borða ... og bætti því við hvort ekki væri kominn tími á kaffi ...

Ég sagði pass.  Lauga fór fram og fékk sér vínarbrauð og mjólk.  Matar- og spjalllota frá kl. 8 - 17 er ágætt.  Ég ákvað að vinna svolítið eða til kl. 19.30 og þá var aftur matur.

---

Guddan vaknaði með hita í morgun ... sem var ekki skv. plani.

Kaffiboði sem við ætluðum að vera með var "kansellað", og verður "rísketsjúlað" líklega á morgun.

---

Líkt og raunin varð í síðustu hitalotu dótturinnar fyrir jólin, var DVD með Dodda dregið fram, enda nokkuð tryggt að meðan hann er í tækinu, hafi sú stutta hægt um sig.

40°C hiti kl. 22 í kvöld ...

... og tæplega -17°C úti ...

*****************
4. dagur í líkamsrækt 2010

Fótbolti í 70 mín. 

Frí á morgun.
****************

Ég er viss um að þessi mynd hefur aldrei komið fyrir augu almennings fyrr ... þetta er eitt meistaraverkið úr smiðju listakonunnar Guðrúnar.  Mér skilst að það heiti "Hafið" ... er samt ekki viss ...

Það er heilmikil hugsun að baki þessu verki, svo mikið er víst ...


Laugardagur 9. janúar 2010

Hreint alveg ljómandi góður dagur ... vaknað snemma og dagskrá dagsins spiluð af mikilli list.

Guðrún H. er komin með nýtt orð á heilann og það er "vínbe" ... endurtók það hvað eftir annað í dag.  Alveg þangað til við keyptum vínber handa henni.  Síðan þá hefur hún ekki sagt "vínbe" einu sinni.

---

Við ákváðum svona í tilefni dagsins að horfa einu sinni á sjónvarpið ... það gerist nú ekki oft ... en við sem sagt ákváðum að taka Spaugstofuna og Júróvision í kvöld í beinni á netinu.

Spaugstofan átti nokkra góða spretti, en hefur samt oft verið betri. 
Svo var ég alveg að fíla lagið sem Matti í Pöpunum söng í Júróvision ... við tókum tvær auka hlustanir á lagið og þá var Lauga líka farin að "digga 'að".

Guddan dansaði í takt við lögin af mikilfengri list ... hún hefur gaman af því að dansa barnið ... það er augljóst.

Svo er gaman að segja frá því að þegar amma hennar á Sauðárkróki hringir í gegnum Skype, þá fer fröken Houdini öll á fleygiferð ... hleypur um stofuna og dansar ... alveg eins og sönnum "performer" sæmir.  Það eru greinilega komin svolítil "gestalæti" í hana ... og svo biður hún um "vínbe".

---

Jæja, ég nenni nú ekkert að skrifa meira núna ... en mikið er gaman að lifa ...

************************
3. dagur í líkamsrækt árið 2010

Fór í ræktina í morgun ... var mættur rétt yfir 9.  Alveg ísjökulkalt að hjóla niður á Väderkvarnsgatan, þar sem Friskis & Svettis er til húsa, enda rétt um -20°C.
Ekki laust við að harðsperrur hafi gert vart við sig ... en nú gildir ekkert væl.  Valið stendur á milli þess að verða heilsulaus fituhlunkur eða fílhraust hreystimenni.  Ég er búinn að velja.

70 mín. fótbolti annað kvöld. Kempan mun mæta.
************************

Lýk þessu með mynd af mæðgunum, sem tekin var í göngutúrnum á jóladag ... þ.e. skömmu áður en fröken GHPL ákvað að sofna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband