Enn verið að fikra sig áfram ...

Ennþá er verið að möndla hvernig "systemið" á nýjasta "fítusnum" á að vera.

Þess vegna skutum við Lauga þessa videoklippu ... sem ber heitið "Húsnæðið sýnt á 90 sekúndum".
Yfirferðin yfir húsnæðið er býsna hröð í þessu myndbandi, eiginlega svo hröð að ég sjálfur verð stressaður á því að horfa á það ... en sjón er sögu ríkari.

Eins og ég segi, þetta var meira svona tilraun því ég fór með myndbandið niður í skóla til að hlaða því niður.  Betri tenging þar en heima.  Tók svona 30 mín að hlaða niður í skólanum en heima tók það 5 klukkutima eða eitthvað álíka að hlaða niður síðasta myndbandi.  Ég mun því í framtíðinni hlaða myndböndum niður í skólanum.

En ég þarf að vinna þau aðeins betur í framtíðinni ... vonandi hef ég tíma til þess ...

Myndböndin eru öll á www.flickr.com, en sú síða leyfir ekki nema 90 sekúnda myndbönd eða 150 MB myndbönd.  Þess vegna þarf ekki að örvænta með að fá að sjá á bloggsíðunni Múrenan - í Sydney, einhver hrútleiðinleg myndbönd þar sem ekkert gerist. 
Það er í eðli mínu að vilja láta hlutina ganga og myndböndin verða í þeim dúr ...

Að gera video er alveg rosalega gaman ... ég gerði mikið af því hér á árum áður.  Það byrjaði allt saman fyrir 20 árum þegar ég keypti mér frábæra Sony HandCam, sem ég skipti síðan fyrir rosaflotta "kameru" ... JVC-eitthvað.  Á þessar vélar gerði ég ásamt vinum mínum, sérstaklega þeim Jóni Þór og Palla, mörg ódauðleg myndbönd.  Einnig eru til ótrúlega senur af Leifi frænda, að ógleymdri senu 20. aldarinnar sem tekin var árið 4. júlí 1989, þegar Nikki frændi, þá 9 ára skröltormur, hitti hundinn.  Þeir sem séð hafa þá senu, gleyma henni ekki svo glatt.

Þess má svo til gamans geta að ein sena sem við Jón Þór tókum upp í janúar 1991, sama dag og við þreyttum próf í áfanganum ÞÝS 102, er orðin víðfrægt "dokjument".
Að prófi loknu, lágum við inn á herbergi 211 eða 213 á heimavistinni, ásamt fleira góðu fólki og tókum myndir af vegfarendum sem var reyndu að komast leiðar sinnar í fljúgandi hálku.  Til að bæta gráu ofan á svart var hífandi rok, svo mikið að varla var stætt.  Í veðurannálum er veðrið meðal þeirra verstu sem skráð hafa verið.

En jæja, ... þegar þessar aðstæður, það er öskrandi rok og hálka, voru samankomnar, bauð það upp á stórkostleg tilþrif þeirra sem áttu leið um göngustígana milli heimavistarinnar og skólabygginganna.  Hápunktur myndbandsins er þó þegar Ragnheiður, okkar ástsæli dönskukennari, fetar sig eftir stígnum.  Gríðarleg stemmning myndaðist á herbergi 211 eða 213 þegar Ragga danska, eins og hún var oft kölluð, glímdi við þrautina ... en þess má geta að hún leysti viðfangsefnið af lýtalausu öryggi, eins og Steini vinur minn hefði mjög sennilega orðað það á fyrri hluta 10. áratugs síðustu aldar.

Jónas jarðfræði- og veðurfræðikennari í MA, "komst einhvern veginn yfir" myndbandið og sýndi það í tímum hjá sér í nokkur ár, svona sem sýnidæmi um hvernig veðrið gæti leikið menn. 
Hlutum við Jón Þór því óvart frægð fyrir meðal nokkurra árganga MA-inga fyrir þetta "listaverk" okkar!!

Nóg í bili ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Múahahahaha....myndbandið af öllum beljunum á svellinu er sko enn í fersku minni mínu. Ragnheiður var rosa flott, en ekki síður Magna þegar hún "flaug" á grenitréð og faðmaði eins og það væri hennar besti vinur...

Takk fyrir að sýna okkur hýbíli ykkar, þröngt mega sáttir sitja! Öllu skiptir að ykkur líði vel þarna.

Bestu kveðjur frá skerinu

Helga S (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 12:06

2 Smámynd: Andrés Skúlason

Heill og sæll félagi handan hafsins.
Aldeilis gaman að sjá þetta myndband. Þetta minnti mig eiginlega á gamla Chaplin mynd, hraðinn á þér var svo mikill og svo er góður skammtur af humor með. 
Ég mæli með því að þessi verði tilnefnd til stuttmyndaverðlaunanna.
Gaman að sjá litlu þína líka.
Mínar bestu kveðjur
Andrés

P.S. Nú eru kortin tilbúin fyrir seinni íbúakynningu og í næstu viku ætlum ég og mamma þín að skoða greinargerðina betur.  

 

Andrés Skúlason, 22.9.2008 kl. 22:50

3 identicon

hæ hó Ástralía!

Gaman að sjá að þú hefur nákvæmlega engu gleymt síðan í menntaskóanum þegar "ShowTv" var uppá sitt besta (var það ekki örugglega Show Tv annars sem batterýið hét? :)

Já og takk fyrir að taka svona "innlit útlit" á íbúðina - núna þarf maður ekkert að kosta ferð til Ástralíu til að sjá hvernig þið búið - alltaf er maður að græða :)

 En já ég held að ég verði bara að fara að grafa upp þetta fræga video og sjá hvort að ég geti ekki fundið leið til að koma þessu á stafrænt form, til að tryggja komandi kynslóðum að fá að sjá þessa snilld í tímum hjá Jónasi, hann er enn að kenna er það ekki?

já og djö.... var ég ánægður að Helga S.S.S.S. Snædal skuli minna okkur á það þegar Magna faðmaði grenitréð - já það var magnað :)

En bestu kveðjur  - ætla að kafa ofaní video-kassana á heimilinu og reyna mitt besta að koma þessari snilld á framfæri

rokk og ról kveðjur frá íslandinu

smalinn og co á nesinu 

smalinn (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 00:00

4 identicon

Svona á Innlit/útlit að vera, maður verður hæfilega stressaður og allt sem skiptir máli kemst til skila.

"Mig langar að sýna ykkur íbúðina enda er enginn að koma í heimsókn. Hér er ekki mikið pláss til að skera lauk og svoleiðis en ókei, það er allt í lagi". Frábært:)

Stjóri (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 00:32

5 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Kærar þakkir fyrir kveðjurnar ... gott að videoin falla í kramið ... til þess var nú leikurinn gerður og vel má vera að myndin verði send inn í einhverja góða stuttmyndakeppni!  Það er bara skrambi góð hugmynd!

Myndbandið er svona í stressaðara lagi, enda þurfti að fara yfir mikið efni á mjög stuttum tíma og allt algjörlega óundirbúið ... við gerðum reyndar eitt annað myndband, sem var aðeins afslappaðara en það tók of langan tíma, ég var bara rétt kominn inn i stofuna þegar 90 sekúndurnar voru búnar.  Reynslan í myndabandagerð hefur líka kennt mér að fólk vill hraða og "aksjón", ekki einhverjar "panoramamyndatökur" sem geta kostað það lífið hreinlega!!

Það yrði hrein snilld ef "smalinn" myndi kafa ofan í kassana og hann kæmi þessari ódauðlegu perlu á stafrænt form ... satt best að segja var ég búinn að gleyma senunni þegar Magna faðmaði tréið ... það var snilld!!!  Takk kærlega fyrir upprifjunina ...  Djonní, það er pressa á þér núna!!!

Þegar Johnson verður búinn að breyta formatinu á videoinu og klippa það til ... þá verður fjör á internetinu.  Múrenan - í Sydney mun leggja sitt af mörkum til að breiða út boðskapinn!!!

Páll Jakob Líndal, 23.9.2008 kl. 04:22

6 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Já og bara svona til að nefna það ... "kompaníið" okkar hét TV Show! :D

Páll Jakob Líndal, 23.9.2008 kl. 04:23

7 identicon

Frábært að fá loksins að sjá íbúðina ykkar! Hún er allt öðruvísi en ég hélt. Ég vissi að hún væri lítil en vá! núna finnst mér ég búa í höll og er snarhætt við að stækka við mig þrátt fyrir að fjölskyldan hafi stækkað. Þetta myndband hefur því þegar sparað okkur Stjóra háar fjárhæðir! Mér tókst samt að verða alveg áttavillt þrátt fyrir mína alkunnu ratvísi og sé því að það er bara eins gott að ég komi ekki í heimsókn, ég myndi sennilega glatast í íbúðinni og aldrei eiga afturkvæmt á klakann. Best fannst mér að heyra að drasl sé skylda þegar barn er á heimilinu og hef ég nú tilkynnt spúsa mínum að allri tiltekt og tilraunum til að halda barnadóti í skefjum á þessum bæ sé hér með steinhætt!

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 15:30

8 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Myndbandið hefur greinilega haft í sér töframátt ...

... hefur reddað því að ekki sé anað sé út í húsnæðiskaup á víðsjárverðum tímum og 14% verðbólgu með ófyrirséðum afleiðingu.
... hefur reddað því að náinn ættingi og vinkona týnist í Ástralíu með ófyrirséðum afleiðingum.
... hefur reddað eins og einu "hjónabandi" ... reyndar með ófyrirséðum afleiðingum!!
... hefur bent á veikleika í rötunarhæfileikum.
... hefur aukið á nægjusemi.

Þetta sýnir að það er hægt að koma, án undirbúnings, heilmiklu til leiðar á aðeins 90 sekúndum.

Páll Jakob Líndal, 24.9.2008 kl. 06:34

9 identicon

já auðvitað Tv Show - hvernig gat þetta komið svona öfugt út úr mér .... humm... :) haha

smalinn (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband