Leikur gegn Hurstville

Loksins birti upp hér í Sydney ... já, sólin skein sínu skærasta í dag ... og þvílíkur munur.

Ég vaknaði kl. 7 í morgun, hitaði hafragraut handa mér og Laugu og gerði mig kláran fyrir leik dagsins, sem var gegn Hurstville City Minotaurs SC á Rockdale Ilinden Sports Centre.
Upp úr klukkan 8 snaraðist ég á fákinn og hélt til Rockdale, sem er í suðurhluta Sydney, mjög nærri Kingsford flugvellinum, sem er alþjóðaflugvöllurinn hér í borg.

Strákarnir í Gladesville Ryde Magic voru að tínast í hús, þegar mig bar að garði.  Og eftir að stutta stund í búningsklefanum, var haldið út á völl til að hita upp.
Kanadíski þjálfarinn hefur sett saman mjög massífa "rútínu" varðandi hvernig hann vill að sé hitað upp ... og er mitt hlutverk að hita upp markmanninn.  Nauðsynlegt verk, en ekki óskahlutverk mitt ... svo mikið er víst.

"Það verður að gera fleira en gott þykir", sagði Maggi í Steinnesi við mig fyrir um tveimur áratugum.  Og þessi fleygu orð rifja ég upp oft þegar ég geri eitthvað sem mér finnst ekki alveg nógu skemmtilegt, en upphaflega féllu þau eftir að ég tilkynnti Magga að það væri ógeðslega leiðinlegt að vera úti í mígandi rigningu, rennandi blautur að týna saman tóma áburðarpoka.

"Það verður að gera fleira en gott þykir", hugsaði ég því þegar ég þrumaði tuðrunni í áttina að markmanninum.

Leikurinn var alveg þokkalegur.  Nokkurt jafnræði var með liðunum í upphafi en á 12. mínútu, komust við yfir, þegar Danny nokkur Beauchamp skoraði með glæsilegu skoti, eftir að hafa leikið á einn varnarmanna Hurstville.
Leikmönnum Hurstville færðist kapp í kinn eftir markið og sóttu þeir nokkuð stíft það sem eftir lifði hálfleiksins, en án árangurs, enda vörnin okkar með þá Tommy og Kai í broddi fylkingar, firnasterk.

Staðan í hálfleik var því 1 - 0 okkur í vil.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri endaði.  Baráttu og aftur baráttu, og Hurstville í við hættulegri.  Við áttum samt nokkur góð tækifæri, sem öll fóru í súginn, ... allt þar til á 49. mínútu þegar vörn Hurstville lét undan í annað sinn.  Í það sinnið, slapp rakettan Michael Calvert inn fyrir og renndi boltanum í netið.
Hurstville lét síður en svo árar í bát, og sótti liðið án afláts þær 10 mínútur sem eftir lifðu leiks (já, rétt er að geta þess að í Ástralíu leikur þessi aldursflokkur aðeins 2 x 30 mínútur).  Vörnin varðist vel en á síðustu sekúndum leiksins skoraði Hurstville.  Miðja var tekin og leikurinn flautaður af.

En góður 2 - 1 sigur staðreynd!

U-14 lið Gladesville Ryde Magic getur vel unað, því eftir fjóra leiki er liðið með fullt hús stiga eða 12 stig, aðeins einu stigi á eftir liði Blacktown Spartans, sem leikið hefur fimm leiki.  Samkvæmt stigatöflunni eru þessi tvö lið í nokkrum sérflokki, því Springwood sem er í þriðja sæti, hefur aðeins 6 stig eftir fjóra leiki.  Áhugasamir geta kynnt sér töfluna hér (muna bara að velja U/14 Division 1 Youth League í glugganum fyrir ofan töfluna).

Eftir leik hjólaði ég svo heim og fékk mér að borða með Laugu.  Við spjölluðum saman dágóða stund og svo tók við ritun leikskýrslu og ...

... það er langt frá létt verk og löðurmannlegt fyrir mig ...

... hvernig í fjáranum skrifar maður um fótboltaleik á ensku, þannig að eitthvert vit sé í því?  Maður hefur ekkert vald á enskri tungu til að gefa skrautlegar og/eða hnitmiðaðar lýsingar ...

Hvernig snarar maður til dæmis eftirfarandi frasa ættuðum frá Samúel Erni, yfir á ensku: "Þeir Hurstville-menn bitu í skjaldarrendur og harðneituðu að gefast upp ... augljóst var að þeim hafði hlaupið kapp í kinn"?  

Það tekur mann marga klukkutíma að snúa þessu yfir á ensku svo sómi sé að ...  

Áhugasamir geta þó séð árangurinn dagsins hjá mér hérna.

Seinni partinn skruppum við Lauga svo í góðan göngutúr, gengum yfir í Moore Park, þaðan niður á Oxford Street og þaðan upp að Centennial Park.  Svo lá leiðin í gegnum Fox Studios, aftur niður í Moore Park og við enduðum á Koko´s Delicious Pizza, sem stendur á horni Fitzroy og Bourke Street.  Þar pöntuðum við okkur pizzu og tókum hana með okkur heim.

Eftir pizzuátið datt mér það snjallræði að hringja í Huldu systur og við spjölluðum saman eitthvað vel á annan klukkutíma ... þökk sé Skype.
Að spjallinu loknum, útnefndi Lauga mig "mestu skrafskjóðu í heimi"!! 

"Það er alveg merkilegt hvað þú getur talað mikið" voru hennar síðustu orð áður en hún hvarf á vit ævintýranna í draumaheiminum.

Og það er satt ... að er alveg ótrúlegt hvað ég get malað mikið stundum!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband