Tækni og vísindi

Í morgun þegar ég skaust á reiðskjótanum mínum í skólann og komst þurr í hús nokkrum mínútum síðar, taldi ég mig alveg stálheppinn. 
Ástæðan er einföld ... hér í Sydney hefur rignt nánast sleitulaust í hálfan mánuð ... og það er met!

Það fyrsta í morgun var fundur með Terry ... sem hafði líkt og áður beðið spenntur síðan við hittumst síðast, að heyra um framgang rannsóknarinnar.  „Því miður hefur lítið áunnist í rannsókninni siðustu daga því ég hef verið á kafi í að skrifa fyrirlesturinn fyrir EDRA-ráðstefnuna og bókarkaflann", sagði ég áður en ég náði að setjast.
En það skipti Terry engu máli.  Hann vék bara að næsta máli sem var að ræða við mig um Post Occupation Evaluation (POE), sem mætti kalla „eftirámat" á íslensku, en ég hafði spurt hann um slíkt í síðustu viku.  Þá sagðist hann ætla að hugsa aðeins ... og nú kom afraksturinn, sem var mjög gagnlegur.
Ég er nefnilega að spá í verkefni á Íslandi, sem felur það í sér að eftirámeta dvalarheimili fyrir aldraða.  Þetta gæti orðið mjög spennandi verkefni, en er bara á byrjunarstigi, þannig að lítið er hægt að segja um það að svo stöddu.

Að fundi loknum, tók ég til við að lesa greinar.  Að þessu sinni beindist athyglin að sýndarveruleika og svokölluðu „game engine", en það er uppistaðan í vinsælum tölvuleikjum, eins og CounterStrike, HalfLife, Unreal, Quake Arena og fleiri leikjum.  Ég verð að viðurkenna að ég kann nú ekki alveg að útskýra hvað „game engine", en það sem ég veit, er að það hefur verið notað í rannsóknum, til að skapa sýndarveruleika.
Hugmynd mín er nefnilega að skapa þrívítt tölvuteiknað borgarumhverfi, þar sem ég get látið þátttakendur rannsóknarinnar minnar ferðast um.  Kosturinn við að nota tölvur til að skapa umhverfið, frekar en að fara bara með fólk niður í bæ, er að ég get stjórnað öllum breytum sem skipta máli.  Þannig get ég stjórnað hæð húsa, fjölbreytileika þeirra, hávaða, umferð, veðri o.s.frv.  Og fyrir rannsókn, líka þeirri sem ég stefni á að gera, er slíkt mjög mikilvægt, því það eykur innra réttmæti.  Sé innra réttmæti hátt er auðveldara að segja fyrir um orsakasamband, með öðrum orðum, hvað veldur hverju. 

Eftir hádegið skrapp ég á fyrirlestur hjá Crightoni, félaga mínum.  Hans doktorsverkefni er mjög áhugavert og fjallar um hvernig vestræn tækni getur hjálpað frumbyggjum Ástralíu.

Eins og margir vita, hafa frumbyggjar Ástralíu verið olnbogabörn í eigin landi, síðan Evrópubúar réðust hér inn í lok 18. aldar og samfélagleg vandamál hafa hrannast upp.
Crighton hefur í hyggju að leggja lóð á vogarskálarnar til að breyta þessu. 
Og það fallega í verkefninu hans er að hann ætlar ekki að segja frumbyggjunum hvað þeir eiga að gera og hvernig.  Þess í stað ætlar hann að spyrja fólkið hvað það vilji og hvernig.

Hann tók sem dæmi að ástralska stjórnin hefur ákveðið að verja $10.000.000.000 (tíu milljörðum dollara eða um 700 milljörðum ÍSK) i að byggja upp internet-kerfi í dreifbýli.  Og á það að vera liður í því að auka velmegun meðal frumbyggja.  Málið er hins vegar að íbúðarhúsnæði þessa fólks er í mörgum tilfellum í afar bágbornu ásigkomulagi og samkvæmt einhverri úttekt sem gerð hefur verið þarf um $1,6 milljarð til að bæta úr því.

„Væri ekki nær að eyða $1,6 milljörðum í að gera við húsin og eyða svo restinni i internet-kerfi?", spurði Crighton viðstadda. 

Svarið er auðljóst!!

En af einhverri ástæðu er svarið ekki jafnaugljóst ráðamönnum ...

... og þetta er ekki eina dæmið í veröldinni!!! Verkefnið mitt snýst að mörgu leyti um sömu grundvallarsjónarmið ... en þau eru, að spyrja fólkið hvað það vilji og hvernig í stað þess að segja því hvað það þarf og hvernig!

Eftir þennan áhugaverða fyrirlestur hélt lestur vísindagreina áfram og stóð yfir allt til klukkan 7.  Þá hélt ég heim á leið.

Meiningin var svo að hitta James, Fjólu, Neil og félaga í kvöld, en líkt og áður höfðum við Lauga um svo margt að tala að við steingleymdum tímanum.  Klukkan 9 rumskuðum við ... en það var dálítið seint í rassinn gripið.

Kvöldið leið því við lestur bókar ... en þessa dagana er ég að lesa bók um stofnanda flugfélagsins Ryanair, en sá heitir Tony Ryan ... og kallar ekki allt ömmu sína ... svo mikið er víst!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband