Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Tilraun í kókneyslu

Það er ósjaldan sem maður les á netinu, í blöðum eða tímaritum, að fólki hafi, með ótrúlegri eljusemi og aga, tekist að losna við X mörg kíló af óþarfa spiki á X löngum tíma.  Nýjasta dæmið sem ég las um var kona sem einmitt hafði losnað við 46 kg á einu ári, með því að fara eftir ráðleggingum Íslensku vigtarráðgjafanna.  Ég tek hatt minn ofan fyrir þessari konu - frábær árangur.

En hinsvegar varð ég hugsi þegar ég las niðurlag viðtalsins, þar sem hún segir: "Það er ekki fyrr en ég komst í kjörþyngd að ég fór að slaka á.  Nú þarf ég að losa mig við sex kíló og ætla að passa mig á að detta ekki aftur í gamla farið." 

Getur verið að kúrinn sem konan var á, hafi verið of strembinn ... þannig að hún mátti ekkert leyfa sér að slaka á.  Að hún hafi alltaf verið á leið upp í mót ... en landið alltaf pínulítið brattara en hún hafi almennilega innistæðu fyrir.  Hversu mikið þarf hún að passa sig til að falla ekki ekki aftur í sama gamla farið?  Kemur inn það sama og sjálfbær líkamsrækt (sem hægt er að lesa um hér!). 

Ég hef því ákveðið að gera eina litla tilraun til að prófa hugmyndafræði mína um mikilvægi þess að allt sem maður gerir, verði að vera sjálfbært eigi það að verða að lífsstíl.  Ef mann langar til að vera duglegur að hreyfa sig, verður maður að gera það í sátt við eigin líkama og andlegt ástand.  Hér gildir ekkert ofbeldi.  Sama gildir fyrir breytt mataræði ... ef lífsstílsbreytingin á að vera til frambúðar, verður hún að eiga sér stað í sátt við líkama og andlegt ástand.  Annars dettur allt í sama farið á nýjan leik.

Ég byrja eins og á fundi hjá AA og viðurkenni veikleika minn:  "Ég er kókisti".  Ég hef mörgum sinnum reynt að hætta að drekka kók.  Hef haft algjört straff,  svindldag í hverri viku, tvo svindldaga en allt kemur fyrir ekki.  Kókið dembist niður um kokið og ofan í maga á mér, ég ropa og fæ mér meira án þess að pæla nokkuð í því hvort mig langar í meira!  Sí og æ hugsar maður með sér að tími sé kominn til að hætta ... en það tekst bara ekki.  Ástæðan er innistæðu- og meðvitundarlaus tékki ... engin sjálfbærni.  Það er ekkert samráð við líkama og sál, sem heimta bara meira kók ... líkt og tölvusjúklingur heimtar meiri tölvuspil.  Það þýðir ekkert að taka bara úr sambandi ... þá verður allt snarvitlaust eins og dæmin sanna!!

Þess vegna ætla ég að hætta að beita mig þessu ofbeldi, þessum ærandi aga.  Ég ætla að semja við mig um að drekka kók meðvitað ... fá mér kók þegar mig langar raunverulega og ekki drekka dropa meira en mig langar raunverulega í.  Ég stend sum sé í samningaviðræðum við sjálfan mig og mun bregðast við eftir því sem ég óska eftir.  Næsta hálfa mánuðinn ætla ég að beita þessari aðferðafræði og svo reikna út með tölfræðilegum aðferðum hvort þetta virkar - rannsóknartilgátan mín er því: Mun kókneysla mín dragast saman á umræddu tímabili?

Ókei, ég veit að þetta hljómar alveg eins og ég sé að missa vitið en þessari aðferð hef ég beitt til að koma mér til að stunda hlaup 5x í viku án þess að finna nokkurn tímann til leiða eða verkja.  Það sem betra er, er að ég hef einnig miðlað þessum hugmyndum til annarra og ... þær virka líka á þá!!!


Áfram Blönduós

Blönduós er eitt vanmetnasta svæði á Íslandi, yfirleitt kallað "skítapleis" að minnsta kosti svo ég heyri.  Jú, jú auðvitað er ekkert merkilegt við byggðarlagið, þegar þeyst í gegnum það, með skeifu á munni og eina hugsunin er að stoppa í ESSO-sjoppunni til að kaupa sér kók og með'í, "ef kók er á annað borð til í þessu hraksmánarlega krummaskuði". 

En ef fólk gefur sér tíma er Blönduós afar áhugaverður bær ... í gamla hverfinu "innan við ána" þ.e. hverfinu að sunnanverðu við Blöndu, er safn húsa, frá hinum ýmsu tímabilum 20. aldarinnar, sem mynda mjög skemmtilegan byggðarkjarna.  Ástand margra þessara húsa er ef til vill nú um stundir ekkert sérstaklega gott en uppbygging hefur átt sér stað og vonandi ber Blönduósingum gæfa til að varðveita þessa byggð.  Hinu megin árinnar blómleg byggð, merkilegt heimilisiðnaðarsafn og safn Halldóru Bjarnadóttur.  Við ósinn sjálfan er afar glæsilegt útsýni, þar sem Húnaflóinn blasir við og ef gott er veður sjást Strandafjöllin.  Sólríkt veður er líka ávísun á fallegt sólarlag á Blönduósi.

Ég er því ekki undrandi að heyra að ekkert íbúðarhús sé á sölu á Blönduósi, fólk vill bara búa þarna.


mbl.is Ekkert einbýlishús til sölu á Blönduósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauð Elding verður Eiríkur Hauksson!!

Það er afskaplega gaman að segja frá því að í síðastliðið sumar gerði ég bestu kaup ævi minnar, þegar ég fyrir hreina og klára tilviljun komst yfir glæsilegan pallbíl.  Afskaplega fallega rauðan Izuzu KB pallbíl með extra löngum, krossviðarklæddum palli og vinnuljósi á toppnum (sem ég á reyndar alveg eftir að fá til að kvikna á).  Árgerð 1982.  Með kaupunum fylgdi aukalega heill umgangur af dekkjum á felgum, einhverjir hjöruliðir (kann ekki alveg deili á þeim - samt gott að eiga) og auka stýri (væntanlega ef ég skyldi brjóta stýrið, sem er ekki svo fjarstæðukennt því vökvastýri er ekki staðalútbúnaður í bifreiðinni).

Í fyrstu atrennu keyrði ég bílinn norðan úr Skagafirði og til Reykjavíkur ... þar sem þrotlaus verkefni biðu hans ... flytja hellur, möl, sand, húsgögn, eldhúsinnréttingar, hjólbörur, torf, trjáplöntur, svo dæmi séu nefnd.  Það tók 5 klukkutíma að komast suður, enda bíllinn ekki mjög hraðskreiður.  En ákaflega öruggur engu að síður! 

Bíllinn hefur varla tekið feilpúst fyrir utan, þegar hann harðneitaði að fara í gang eftir fyrstu nóttina í minni eigu.  Þá bauðst 87 ára gamall danskur unglingur til að ýta honum niður brekku í von um að hann hrykki í gang.  Það gekk nú ekki eftir ... Önnur bjargráð voru þó til.  Það hjálpaði svo mikið til þegar ég uppgötvaði að meðal útbúnaðar í bílnum var eitthvað sem kallaðist "choke" (innsog á íslensku) ... 

Jæja ... bíllinn hlaut nafnið "Eldingin", en Halldór vinur minn heimtaði að hann yrði kallaður "Rauða Eldingin".  Klárlega vísun í litarhaft bílsins!!  Ég samþykkti það.

En í gær í Kastljósi gerast stórir hlutir.  Viðtal við töffarann Eirík Hauksson Eurovision-fara.  Segir ekki Eiríkur í viðtalinu að vegna hárlitar síns, frekna í andliti og gríðarlegra afreka á sviði íþrótta, hafi hann verið kallaður "Rauða eldingin".  Váááááúúú ... Pallbíllinn minn = Eiríkur Hauksson!!!

Ég hef ákveðið að "Rauða Eldingin" mín muni hér eftir heita "Eiríkur Hauksson" - kallaður "Rauða eldingin"!!!  

Hér fyrir neðan er mynd af því þegar Eiríki Haukssyni var veitt viðtaka skammt sunnan Sauðárkróks sl. sumar!!  Líkamsstaða nýs eiganda (til hægri) ber vott um mikið og innilegt stolt!!

 Eiríkur Hauksson keyptur

 


Eiki Hauks er töffari!!!

Eiki Hauks er minn maður ... hann rúllaði þessu upp í kvöld.  Átti sigurinn skilinn. "Kúlið" á sínum stað, öruggur flutningur, flott að láta alla þessa gítarleikara vera á sviðinu, og svo hörku lag!!  Ég held að þetta sé bara eitt það besta sem Ísland hefur sent frá sér í Eurovision - svei mér þá!

Jónsi kom líka mjög vel út ... og Bríet Sunna bætti sig bara helling - segi samt ekki að hún hafi verið góð.  En hvað var þetta með lagið hans Torfa Ólafssonar ... "Bjarta brosið".  Það lag sökkaði bara "big time", klárlega lélegasta lagið í kvöld, að mínu mati.


Hafnarfjarðarhlaup!!!

Í morgun ákvað ég að hlaupa frá heimili mínu við Bergstaðastræti í Reykjavík til systur minnar, sem býr við Mýrargötu í Hafnarfirði ... töluverð leið og afar fróðlegt að fara hana.  Á leiðinni reyndi ég eftir fremsta megni að fylgja stígakerfi höfuðborgarsvæðisins ... meðram Bústaðavegi, Kringlumýrarbraut og Hafnarfjarðarvegi.  Útsýnisferðir út á annesjar og inn til fjalla - stígarnir greinilega hannaðir af mikilli natni.  Styttingarspekúlantar sem hafa þjóðveg 1 milli Reykjavíkur og Akureyrar fyrir framan augun á sér alla daga, hafa greinilega ekki verið með puttana í stígakerfinu.  Guði sé lof?

Svo þegar hugmyndaflug stígahönnuðanna hefur af einhverjum ástæðum tekið dýfu, hefur verið ákveðið að lyfta því aftur upp með því að láta stígana enda fyrirvaralaust.  "Hei ... látum þennan stíg bara enda hérna við Lyngás í Garðabæ."  Í hlaupinu í morgun stóð ég því við Lyngás í Garðabæ, á hvítu nýju hlaupaskónum, á kafi í drullu!  Allur útataður í einhverri bévítans for!  "Hvað varð eiginlega um stíginn?", hugsaði ég.  Ég rambaði inn í einhverja götu og gat haldið för minni áfram.

Gatnamót Álftanesvegar og Hafnarfjarðarvegar!! Verktaki búinn að moka allt í tætlur.  Torleiði mikið.  Ómögulegt er að komast leiðar sinnar yfir Álftanesveginn og áfram inn í miðbæ Hafnarfjarðar, nema fylgja bandi með appelsínugulum veifum sem strengt hefur verið til að skerma af athafnasvæðið.  Allt í einu er förinni heitið út á Álftanes.  Bandið er manns eini bjargvættur.  En svo endar það, snyrtilega hnýtt við ljósastaur einn um 300 metrum frá gatnamótunum.  Haldreipið er horfið eftir að maður hefur fylgt því yfir urð og grjót, upp brattar grasbrekkur og foröð.  Ekkert er lengur til að styðja sig við og í örvæntingu sinni hleypur maður þvert yfir Álftanesveginn, nemur staðar.  Uppfullur öryggisleysis, á grútskítugum skóm, er ekki um annað að ræða en fylgja örmórri malarrönd þar til komið er aftur að Hafnarfjarðarvegi.  Líklega er björninn þá unninn!!

Ég kem til systur minnar.  Búinn að fara 1,3 km lengri leið en ég hefði þurft ef ég hefði verið akandi!!  Maður spyr sig ... er nokkuð skrýtið að aðeins 2% fólks gengur í vinnuna?


Terem-kvartettinn brillerar í Salnum!!!

Ég var að skríða í hús eftir að hafa verið viðstaddur frábæra tónleika Terem-kvartettsins í Salnum núna í kvöld - já, þeir voru alveg frábærir.  Fyrir þá sem ekki vita, þá er Terem frá Rússlandi, skipaður fjórum algerum töframönnum á hljóðfæri, sem leika tónlist af öllu tagi, semja og útsetja, allt með svo snilldarlegum hætti að maður fellur í stafi.  Óhefðbundin hljóðfæraskipan kvartettsins vekur athygli, þar sem leikið er á sópran-domru, alt-domru, balalaika og bayan-harmóniku.  Nöfn meðlima Terem eru heldur ekki þau þekktustu í heimi - Konstantinov, Barshchev, Smirnov og Dzyudze, en það skiptir engu máli ... þessir gaurar hafa spilað með Peter Gabriel, Bobby McFerrin, liðsmönnum Led Zeppelin og mörgum fleiri snillingum, sem eru samt örugglega ekkert meiri snillingar en Terem-menn sjálfir.  Forleikurinn úr "Rakaranum frá Sevilla" eftir Rossini, núna í kvöld, var margfalt gæsahúðardæmi ... 

Fyrir rúmu ári komu þeir fyrst til Íslands og léku þá á rússneskri menningarhátíð sem haldin var í Kópavogi.  Þá var með þeim baritonsöngvarinn Vladimir Chernov.  Þeir tónleikar voru líka alveg frábærir ... þá rak hver snilldin aðra, líkt og í kvöld.

Diddú söng með Terem í kvöld ... hún var alveg ágæt.  Hún er alveg frábær performer, meiriháttar útgeislun, þannig að maður getur ekki annað en hrifist með.  Á móti fannst mér hún söngtæknilega ekkert sérstök í kvöld.  En vááá ... hvað er maður að velta sér upp úr því núna?

FRÁBÆRIR TÓNLEIKAR. 

Salurinn í Kópavogi á heiður skilinn fyrir að hafa uppákomu sem þessa á sinni dagskrá!!


Með puttann á púlsinum ...

Mörgum þótti ég tala heldur glannalega, þegar ég skrifaði vangaveltur mínar um hugsanlega Sydney-ferð eftir 19 daga á þessu bloggi mínu í gærmorgun.  Ekki svo að skilja að þetta blogg hafi komist í heimspressuna en ég fékk allavegana nokkur komment, aðallega þó í gegnum síma.  Sjálfsagt til að fólk þyrfti síður að gæta orða sinna.  Þar sem erfitt var fyrir mig að komast að fyrir orðaflaumi viðmælenda minna þá upplýsist það hér með á sjálfum veraldarvefnum, að Lauga spúsa mín til síðustu 10 ára, er með puttann á púlsinum varðandi öll mín mál, hvort sem um er að ræða nám í  Ástralíu eða það eitt að skreppa út að hlaupa ... Svo vel er hún með á nótunum að stundum finnst henni sjálfri nóg um!!!  Lauga mín - ef þú lest þetta væri gott ef þú myndir staðfesta þetta!!

Kvenfrelsishetjurnar ættu því að geta andað rólegar ...

En er óeðlilegt að aðeins slái úti fyrir manni, þegar maður fær 19 daga til að umbylta lífi sínu og flytja hinumegin á hnöttinn í X mörg ár??  Hvað myndu kvenfrelsishetjurnar gera í slíkri aðstöðu?

Jamm ...

 


Súperform á sex vikum!!!

Auglýsing frá NordicaSpa: Súperform á sex vikum!

Námskeið hannað af Goran Kristófer, íþróttafræðingi, til að koma fólki af stað á árangursríkan og einfaldan hátt.  Tilgangur námskeiðsins er að koma fólki á æðra stig hvað varðar líkamlega og andlega heilsu.  Hvað þýðir að komast á æðra stig hvað varðar líkamlega og andlega heilsu?

Spurningar: Er andleg og líkamleg innstæða hjá hinum venjulega manni að komast í súperform á sex vikum?  Það er sérstaklega auglýst að á námskeiðinu sé strangt aðhald - ef ekki er innistæða fyrir súperforminu, er þá ekki líklegt að flestir slaki á um leið og námskeiðinu lýkur?  Súperformið verði þá bara að formi?

Ég hef sjálfur reynt að skilgreina hvað er að "vera í formi".  Ég veit varla hvort sú skilgreining mín heldur vatni en það er þó allavegana tilraun.  En námskeiðið er að minnsta kosti fyrir þá sem vilja "komast í form", þó ef til vill enginn spái í hvenær hann sé í formi og hvenær ekki.


Viltu hráa hamborgara?

Með Blaðinu í gær var fylgiblað sem bar heitið "Heilsa", afar fróðlegt blað um hvernig auka megi eigin vöxt og viðgang, nú eða fólks sem maður umgengst.  Þar er t.d. fjallað um húðsmyrsl fyrir heilbrigðari húð og mikilvægi hreyfiþróunar ungra barna.  Mynd er af Jóhanni Pétri Hilmarssyni, Íslandsmeistara Ice Fitness sem notar fæðubótarefnin frá USN, en það ku vera alvöru fitubrennsla.  Þá er fjallað um regndropameðferð og örvæntingarfullar leiðir til að léttast með því að borða ekkert nema soðið kál í heila viku. 

Meðal efnis í blaðinu er einnig umfjöllun um hráfæði - nánar tiltekið er þetta viðtal við Maríu Óskarsdóttur sem heldur námskeið þar sem "farið er í saumanna á hráfæði og fólki kenndar aðaláherslurnar".  Það má svo sem segja að margt sé til í þessum pælingum.  María segir að hráfæði sé í rauninni bara grænmetisfæði sem ekki er búið að elda.  "Við erum að tala um hrátt grænmeti, ávexti, hnetur og fræ en allt annað er á bannlista."  Síðar í viðtalinu segir hún svo: "Hráfæði er rosalega neikvætt orð og fólk heldur almennt að við séum að tala um einhvern rosalega slæman hlut.  En þetta er alls ekki rétt og í raun mætti fremur kalla þetta "lifandi fæði".  Þetta er alls ekkert fangafæði og maður er ekki japlandi á gulrótum og vatni eingöngu" segir María og bætir við að pitsur og með hráu grænmeti, hráir hamborgarar og fleira því um líkt standi mögulega til boða.

Maður hlýtur að staldra ögn hér við - maður japlar sum sé á grænmeti, fræjum og ávöxtum og drekkur vatn með og til að sanna fyrir sér að þetta sé spennandi lífstíll borðar maður hráa hamborgara, sem færi betur á að kalla "lifandi fæði" frekar en hráfæði!!! 

Hér hefur eitthvað klikkað - í frásögn Maríu, í skilningi blaðamanns á því hvað María var að segja eða í hausnum á mér þegar ég var að reyna að skilja lesninguna.


Í Sydney eftir 19 daga?

Hvað gerir maður, þegar umsókn manns um inngöngu í framhaldsnám í Háskólann í Sydney, er samþykkt með skilyrðum og manni sagt að önnin hefjist eftir 19 daga?  Vinnan, visað, uppfylling skilyrða, hvernig á að haga fjármálunum, hvað skal gert við íbúðina, hvað skal gert við bílinn eru allt spurningar sem þarf nú að bregðst fljótt við.  Hvað ætlar Lauga að gera? 

Að vísu hef ég uppi í erminni tilboð um inngöngu í University of Melbourne, þar sem ég má hefja nám hvenær sem mér hentar á þessu ári - þannig að maður fer til Ástralíu en mér finnst þeir í Sydney nokkuð brattir.  Sérstaklega vegna þess að prófessorinn "minn" þar sagðist hafa afgreitt málið út af sínu borði á afmælisdegi mínum, þ.e. 14. desember sl.  Tveimur mánuðum seinna kemur tölvuskeyti frá Alþjóðaskrifstofunni hjá USyd.

Hefur þú einhverjar tillögur um hvað sé best að gera?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband