Hafnarfjarðarhlaup!!!

Í morgun ákvað ég að hlaupa frá heimili mínu við Bergstaðastræti í Reykjavík til systur minnar, sem býr við Mýrargötu í Hafnarfirði ... töluverð leið og afar fróðlegt að fara hana.  Á leiðinni reyndi ég eftir fremsta megni að fylgja stígakerfi höfuðborgarsvæðisins ... meðram Bústaðavegi, Kringlumýrarbraut og Hafnarfjarðarvegi.  Útsýnisferðir út á annesjar og inn til fjalla - stígarnir greinilega hannaðir af mikilli natni.  Styttingarspekúlantar sem hafa þjóðveg 1 milli Reykjavíkur og Akureyrar fyrir framan augun á sér alla daga, hafa greinilega ekki verið með puttana í stígakerfinu.  Guði sé lof?

Svo þegar hugmyndaflug stígahönnuðanna hefur af einhverjum ástæðum tekið dýfu, hefur verið ákveðið að lyfta því aftur upp með því að láta stígana enda fyrirvaralaust.  "Hei ... látum þennan stíg bara enda hérna við Lyngás í Garðabæ."  Í hlaupinu í morgun stóð ég því við Lyngás í Garðabæ, á hvítu nýju hlaupaskónum, á kafi í drullu!  Allur útataður í einhverri bévítans for!  "Hvað varð eiginlega um stíginn?", hugsaði ég.  Ég rambaði inn í einhverja götu og gat haldið för minni áfram.

Gatnamót Álftanesvegar og Hafnarfjarðarvegar!! Verktaki búinn að moka allt í tætlur.  Torleiði mikið.  Ómögulegt er að komast leiðar sinnar yfir Álftanesveginn og áfram inn í miðbæ Hafnarfjarðar, nema fylgja bandi með appelsínugulum veifum sem strengt hefur verið til að skerma af athafnasvæðið.  Allt í einu er förinni heitið út á Álftanes.  Bandið er manns eini bjargvættur.  En svo endar það, snyrtilega hnýtt við ljósastaur einn um 300 metrum frá gatnamótunum.  Haldreipið er horfið eftir að maður hefur fylgt því yfir urð og grjót, upp brattar grasbrekkur og foröð.  Ekkert er lengur til að styðja sig við og í örvæntingu sinni hleypur maður þvert yfir Álftanesveginn, nemur staðar.  Uppfullur öryggisleysis, á grútskítugum skóm, er ekki um annað að ræða en fylgja örmórri malarrönd þar til komið er aftur að Hafnarfjarðarvegi.  Líklega er björninn þá unninn!!

Ég kem til systur minnar.  Búinn að fara 1,3 km lengri leið en ég hefði þurft ef ég hefði verið akandi!!  Maður spyr sig ... er nokkuð skrýtið að aðeins 2% fólks gengur í vinnuna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband