Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Guðmundur, Bjarni, ímyndunaraflið og Kjalvegur

Hún er ágæt greinin hans Guðmundar Odds Magnússonar í Framtíðarlandinu í dag um ímyndunaraflið.  Hana má lesa á eftirfarandi slóð http://framtidarlandid.is/notum-imyndunaraflid-3

Svo las ég í morgun góða grein í Mogganum eftir Bjarna A. Agnarsson lækni, sem ber heitið "Höfnum nýjum vegi yfir Kjöl".  Þar ritar hann meðal annars:

"Það er undarlegt að þessi tillaga [um upphækkaðan malbikaðan veg yfir Kjöl] sé sett fram í kjölfar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um umhverfismál og verndun hálendisins.  Tillöguhöfundar halda því reyndar fram að eitt af markmiðum með framkvæmdinni sé einmitt umhverfisvernd, og er það rökstutt með því að hún muni leiða til minni olíunotkunar, minni mengunar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda.  Hér er málinu alveg snúið á hvolf því að sá umhverfislegi ávinningur sem hlytist af þessu yrði auðvitað afskaplega lítill miðað við þá röskun  á umhverfinu sem þessi framkvæmd myndi valda, auk þess sem gera má ráð fyrir aukinni umferð í kjölfarið."

Einnig ritar Bjarni:

"Hvað gera þeir sem vilja fara um Kjöl og kæra sig ekki um að greiða veggjald, hvaða úrræði munu þeir hafa?  Mun gamli vegurinn halda sér?  Hvernig hugsa menn sér tengslin við nýjan veg?  Hann mun augljóslega tapa sérkennum sínum ef hann liggur meðfram nýjum vegi."

Ég þarf náttúrulega ekki að taka það fram en Bjarni ritar eins og út úr mínu hjarta. 

 


Stemmning í Álafosskvos

Í gær gerði ég mér ferð í Mosfellsbæ, nánar tiltekið í Álafosskvosina, til að kynna mér betur framkvæmdir við tengiveg frá Álafosskvosinni að fyrirhuguðu íbúðarhverfi í Helgafellslandi, sem þar eru í fullum gangi.  Eftir að hafa horft á framkvæmdarsvæðið í dágóða stund frá ýmsum hliðum get ég vel skilið örvæntingu þeirra sem vilja vernda vilja kvosina.  Svæðið þolir engan veginn þessa braut og það sem meira er, þetta svæði og áfram upp með Varmánni, er eitt mest sjarmerandi svæði á höfuðborgarsvæðinu.  Gömlu byggingarnar, áin, skógurinn og kvosin - stemmningin sem maður upplifir þarna er alveg rosalega skemmtileg - maður fer á svolítið tímaflakk.  Þarna eru því virkilega fín tækifæri fyrir Mosfellsbæ að byggja upp eitthvað mjög sérstakt ... en nei, setjum tengibrautina þarna, það er ódýrasta, hagkvæmasta og stysta leiðin.

Formaður skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar segir í Morgunblaðinu í dag að núverandi lega tengibrautarinnar sé besta leiðin.  Allar leiðir inn í hverfið hafa verið skoðaðar ítarlega af fagfólki og niðurstaðan er að þetta er besta lausnin ... Ég er sammála!!  Þó undir þeim formerkjum að ég gleymi sögunni, náttúrunni, menningarminjunum, stemmningunni, griðastaðnum, umferðargnýnum, sjónrænni mengun, loftmengun, hugmyndum um að hlúa að litlum framleiðendum, árniðnum o.s.frv.  Að teknu tilliti til þessara atriða ... þá er ég algjörlega ósammála!!!  Ég þykist nokkuð viss um að fagfólkið sem vann þessa vinnu gerði það vel ... en var talað við allt það fagfólk sem hefði ef til vill þurft að tala við?  Var kynnt fyrir skipulags- og byggingarnefnd álit sálfræðinga sem hafa skoðað áhrif umhverfis á líðan fólks?  Var blaðað í einhverjum rannsóknarniðurstöðum um þetta efni?  Hvert var aftur álit félagsfræðinganna? Listamannanna?  Hvers virði er eitthvað sem kalla má "sérstök stemmning" - þokukennt hugtak, ekki satt?  Allir finna samt fyrir henni. Stemmningin hefur orðið til á löngum tíma - núna skal henni fórnað.  Hvað myndu menn segja ef stemmningin bankaði upp á dyrnar hjá bæjarstjórninni í Mosfellsbæ með reikning.  Hún er létt á fóðrum og tekur aðeins 1000 kr. á tímann en vinnur 24 tíma á dag, alla daga ársins.  Hún er líka rausnarleg að því leyti að henni finnst sanngjarnt að miða upphaf sitt við það þegar Björn Þorláksson hóf ullarvinnslu á svæðinu árið 1896 eða fyrir 111 árum.  Reikningurinn hljóðar upp á 972.360.000.-  

Ég hef ekki hugmynd um hvernig á að leysa þetta mál, en að fórna menningarminjum, stemmningu sem á sér fáar hliðstæður á Íslandi og fallegri náttúruperlu, sem er þó manngerð að hluta fyrir tengibraut fyrir íbúa 1000 íbúða, er skammsýni. 


Æðislegt!!!

Mikið er ég feginn að fá fréttir af því að David Beckham hafi skorað fyrir Real Madrid ... núna fer ég bara beint að sofa!!!
mbl.is Beckham skoraði fyrir Real Madrid
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er málið með Eurovision?

Ég var að horfa á samantekt af íslensku forkeppninni fyrir Eurovision ... nokkur lög finnst mér býsna áheyrileg, eins og lögin með Friðriki Ómari, Heiðu og Jónsa.  Bestur er samt Eiki Hauks - honum hefur ekkert farið aftur síðan "Gaggó Vest" var aðalmálið ...   

Það sem hins vegar kemur mér mjög á óvart, er blessuð stúlkan hún Bríet Sunna sem söng lagið Blómabörn.  Hvernig þessi flutningur hennar á laginu skilaði því í úrslit forkeppninnar, er mér algjör ráðgáta.  Hann var afleitur.  Söngurinn í viðlaginu var svo falskur að það var hreinlega út úr öllu korti.  Þar fyrir utan duttu falskir tónar inn við og við allt lagið.

Ég hafði aldrei heyrt hana syngja fyrr en hún söng þetta lag í beinni útsendingu í Sjónvarpinu þann 20. janúar 2007 en mér hefur skilist að þessi stelpa hafi gert það gott í Idol-keppninni á Stöð 2 síðastliðinn vetur.  Hún hlýtur því að geta gert betur en þetta ... ef ekki þá biður maður almættið að koma í veg fyrir að lagið Blómabörn sigri í hinni íslensku forkeppni Eurovision árið 2007!


Tvennt sem er meiriháttar

Ég er alveg meiriháttar hress með tvennt.

1. Að Sandgerðingar skyldu hafna háspennulínu um Miðnesheiði fyrir hugsanlega mögulegt Suðurnesjaálver.  Þeir hafna því að fá 25 metra há möstur með 50 til 100 metra millibili og ónýtanlegt land innan helgunarsvæðis línunnar.   Þessar línur eiga náttúrulega  hvergi heima nema neðanjarðar eða úti í sjó, ef menn vilja alveg endilega koma þessu álveri á. 

2. Að Kristinn Gunnarsson skuli vera hættur í Framsóknarflokknum.  Þessi afstaða mín mótast af því að ég er mannvinur en ekki af því að ég sé einhver sérstakur stuðningsmaður hans.  Það er bara svo ömurlegt að horfa á fólk vera í aðstæðum sem það vill ekki vera í og á ekki að vera í ... hann passaði aldrei inn í flokkinn ... og flokkurinn passaði aldrei við hann!  En þótt K. Gunnarsson vilji losa sig úr glussatjakknum sem hann hefur verið fastur í svo lengi, hefði það borið vott um manndóm að afsala sér þingmennsku í stað þess að breyta bara um barmmerki ... hann var nú einu sinni kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn ...

Liður 2 vekur reyndar upp spurninguna um hvort eðlilegt geti talist að þingsæti sé merkt þingmanni en ekki þingflokki ... það voru fjórir frambjóðendur Frjálslynda flokksins kosnir inn á þing í kosningunum 2003, en ekki þrír og þaðan af síður fimm, eins og þeir eru núna orðnir.  Sjálfstæðisflokkur græðir einn þingmann en Framsóknarflokkur og Samfylking tapa sitthvorum (!?!).  Voru kjósendur spurðir af þessu? Úrslit kosninga 2003 hljóta að hafa speglað vilja fólksins og þau voru kunngjörð á sínum tíma ... því er ekki nema eðlilegt að flokkarnir haldi hlut sínum í samræmi við það.


Svona fara bandamenn Íslands í hvalveiðum að ...

Hér er stutt myndband sem sýnir hvaða aðferðum Japanar, bandamenn Íslendinga í hvalveiðimálunum, beita við að koma höfrungum í vakúm-pakkningar.

http://www.glumbert.com/media/dolphin

Dæmi nú hver fyrir sig ...


Að lifa eins og morgundagurinn sé enginn!

Ég var að lesa í Blaðinu áðan viðtal við grínarann Gunnar Sigurðsson, sem nú er framkvæmdarstjóri V-dagssamtakanna.  Viðtalið er hið ágætasta og meðal annars setur Gunnar fram lífsspeki sína sem er eftirfarandi: "Ég reyni allta að sjá spaugilegar hliðar á hlutunum og annars held ég að maður væri einhvers staðar á vondum stað."  Vissulega eftirtektarverð speki, sem myndi gera heiminn betri, ef allir hefðu að leiðarljósi.

En þetta var ekki það eina sem hnaut af vörum Gunnars sem vakti sérlega athygli mína.  Undir liðnum "ráð og speki" leggur Gunnar fram þessa línu: "Lifa eins og enginn sé morgundagurinn." 

Ég geri ráð fyrir því að hér sé Gunnar að brýna fyrir fólki að njóta augnabliksins án þess að hafa svo miklar áhyggjur af framtíðinni.  Í sjálfu sér mjög góð speki.  Hinsvegar gengur þessi kunni frasi ekki alveg upp því hvernig væri heimurinn ef allir hugsuðu með þessum hætti - ef fréttatilkynning kæmi frá máttarvöldunum um að endalok heimsins yrðu á morgun ... hvað myndi gerast?  Myndu ekki allir reyna að gera allt sem þeim dettur í hug af því að morgundagurinn er enginn.  Hætt er við að víða yrðu "innistæðulaus viðskipti".

Í pistli mínum um sjálfbæra líkamsrækt, sem er að finna hér neðar á síðunni er kynnt sú hugmynd að stunda líkamsrækt, einmitt með það í huga að á morgun mun, ef guð lofar, sólin rísa í austri.  Með öðrum orðum að hafa í huga að ganga ekki svo nærri sér að ekki sé til innistæða fyrir morgundeginum.

Tillaga mín er því að njóta líðandi stundar, vitandi að það er von á morgundeginum á morgun.

Váaáá ... þetta var djúpt ... !!! 

 


Sjálfbær líkamsrækt

Á undanförnum áratugum hefur mannskepnan gengið vasklega fram í nýtingu auðlinda náttúrunnar, svo vasklega að ef ekki verður hrein og klár hugarfarsbreyting á næstu árum og áratugum, er hætt við að dómsdagur renni upp fyrr en ráð hafi verið fyrir gert.  Eitt af því sem gert hefur verið til að bregðast við þessari ógn er mótun fyrirbæris sem kallað hefur verið Sjálfbær þróun og er ein skilgreining á þá leið að sjálfbær þróun sé "þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar, án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum".  Þannig snýst sjálfbær þróun um að snerta aldrei á "höfuðstólnum" heldur aðeins nýta vextina - ekki ganga svo hvatlega fram að skaði hljótist af.

Þetta snýst því um nokkurs konar hringrás - að það sé gert ráð fyrir því sólin muni aftur koma upp í austri á morgun, eins og hún gerði í dag.

Í þessu samhengi langar mig til að varpa fram hugmyndum um sjálfbæra líkamsrækt, sem fjalla einmitt um hringrásarferli - þó ekki föst og niðurnjörvuð ferli heldur hringrás sem fikrar sig á sínum hraða í tiltekna átt.

Flestir þeir sem gefast upp á líkamsrækt gera það af einni ástæðu.  Líkamsræktin er erfið og þar af leiðandi leiðinleg.  Þá hefur verið brugðið á það ráð að skapa "fjör"; láta fólk æfa með tónlist í eyrunum, með sjónvörp fyrir framan sig eða fundin eru upp ný æfingakerfi - allt í þeim tilgangi að slá á leiðann.  En leiðinn er lífseigur og kemur í mörgum tilfellum aftur.  Til að bregðast við þessu vandamáli er eitt svar - sjálfbær líkamsrækt! 

Sjálfbær líkamsrækt tekur mið af því að það er dagur á morgun - líkamsrækt sem hreinsar upp vextina en lætur höfuðstólinn vera.  Sá sem hana stundar, finnur vel fyrir hreyfingunni en allt sem hann gerir er í sátt við eigin líkama, viðkomandi er tilbúinn að bæta í ef hann telur sig tilbúinn í slíkt en hann er líka tilbúinn að draga úr ef aðstæður eru með þeim hætti -  í hvert sinn stundar hann líkamsrækt sem er samræmi við innistæðu.  Maður sem hefur ekki hlaupið í 7 ár, stekkur til einn daginn og ákveður að hann ætli að hlaupa 4 km á dag, 5 sinnum í viku - í flestum myndi hann líklega ekki endast út vikuna vegna þess að það er einfaldlega ekki innistæða fyrir prógrammi sem þessu og ákvörðun mannsins því í hróplegri andstöðu við sjálfbæra líkamsrækt.  Miklu nær væri fyrir hann að hugsa, hversu mikið álag hann teldi sig ráða við ef hann vildi hreyfa sig 5 sinnum í viku -ganga 2 km?? 3 km??

Fyrir ákvörðun mannsins væri fullkomin andstæða sjálfbærrar líkamsræktar, þar sem "hörkupúli" er gert hátt undir höfði, þar er "tekið er á því" eins og líkaminn leyfir, stunduð alltof löng og hröð hlaup, lyftingar með miklar þyngdir, "no pain, no gain" hugarfar sem miðar alltaf að því að vera betri í dag en í gær og enn betri á morgun - hugarfar um að líkamsrækt sé beint lína þar sem morgundagurinn er enginn.  Allir að fá svo rosalega mikið út úr öllum æfingum, allir eru að fara að setja heimsmet í öllu.  Staðreyndirnar tala sínu máli - fjöldi fólks gefst upp og verður hreyfingaleysinu að bráð.

Með sjálfbæra líkamsrækt að leiðarljósi eykst líkamsvitund, því ef líkaminn er alltaf "spurður" hvað hann þoli í það og það skiptið, þá er slík vitundaraukning óhjákvæmileg.  Hið merkilega er að ef líkaminn er spurður hvað hann vill, er hann fljótur til svars en hann þarf líka að fá að starfa í friði og á sínum forsendum.  Endalaus valdníðsla skilar engu nema kvillum á borð við þráláta beinhimnubólgu, verki í hnjám, mjöðmum, höfði, hálsi, öxlum og baki, pirring í fótum, stífleika, tognunum og jafnvel beinbrotum, auk andlegrar vanlíðunar.  Ef líkaminn er settur í öndvegi og látið af níðingsskapnum, þá er vel inn í myndinni að beinhimnubólga hverfi á tiltölulega stuttum tíma.  Sjálfur þekki ég dæmi þess.  Tillaga að slíkri vinnu gæti verið hæg og ekki of löng ganga þar sem viðkomandi einbeitir sér að því að losa um stífleika til dæmis þar sem verkirnir eru hvað sárastir og teygja svo vel bæði fyrir og eftir gönguna.  Hafa í huga að gönguna og teygjurnar þarf að endurtaka aftur á morgun.

Pottþétt aðferð til að viðhalda verkjunum væri hins vegar áðurnefnt "no pain, no gain" hugarfar, að maka á sig hitakremi og hlaupa áfram eins og ekkert hafi ískorist, með samanbitna kjálkana og tónlist í eyrunum.

Ef þú lesandi góður þekkir einhvern, sem vill komast af stað að hreyfa sig en af einhverjum ástæðum getur það ekki, sendu honum þá þessar línur og vittu hvort þær gefa honum einhverja "inspírasjón".  Frekari fyrirspurnir eða gagnrýni á þessar pælingar eru mjög vel þegnar, hvort sem sent er á murenan@gmail.com eða í athugasemdaboxið á þessu bloggi.

Nóg í bili ...


Breiðavík - til Breiðavíkur?

Nú þegar umræðan um drengjaheimilið í Breiðuvík er í hámælum - hef ég hnotið um í fréttaflutningi að oft er sagt frá drengjaheimilinu í Breiðavík en ekki Breiðuvík (nú síðast í hádegisfréttum RÚV).  Mér finnst þetta einhvern veginn ekki ganga málfræðilega upp samanber venju um að fólk segist fara til Djúpavogs en ekki Djúpivogs, til Mjóafjarðar, ekki Mjóifjarðar ... ætti ekki það sama að gilda um Breiðuvík?

Ég hefði áhuga á því ef einhver telur sig vita hið rétta í málinu að sá hinn sami upplýsti mig um hvort er réttara.  En kannski er hér um málvenju að ræða?


Hvað er þetta "murenan"?

Árið er 1999, heimurinn skelfur vegna yfirvofandi 2000-vanda en starfsmenn Tilraunastöðvarinnar á Keldum reyna að láta ógnina ekki ná tökum á sér.  Ég, sem þá telst til starfsmanna Tilraunastöðvarinnar, sit fyrir framan Macintosh-tölvuna í tölvu- og lesherberginu í Húsi 3.  Mitt verkefni þá stundina var að gerast fullgildur meðlimur þess hóps fólks sem notar vefsíðuna hotmail.com til að eiga samskipti við annað fólk.  Í PC-tölvunni skammt frá mér situr Doddi snöggi og leggur kapal, ekki svo að skilja að Doddi hafi stundað þá iðju mikið - þvert á móti.  Við hlið hans situr enn einn starfsmaður Tilraunastöðvarinnar, gengur undir gælunafninu Benný.  Hún spáir í hvaða möguleikar eru fyrir hendi í kaplium hjá Dodda. 

Ég ríf rafmagnaða þögnina ... 

"Nú er ég að stofna svona hotmail eða hvað þetta nú heitir ... hvaða notendanafn á ég eiginlega að nota?"  Aftur þagnar allt.  "Múrenan" segir Benný í tón þess sem bæði valdið og vitið hefur.  Ég gríp það á lofti.  Múrenan.  Það er gott nafn - murenan@hotmail.com.  Þetta lúkkar líka bara nokkuð vel. 

Með tímanum fer nýtt vandamál að knýja dyra.  Spurt er: "Ertu með netfang?" "Já, já murenan@hotmail.com" "Ha?!?  Hvað segirðu, mu- ... hvað?" "murenan@hotmail.com" "Murenan?!?" "Já, m-u-r-e-n-a-n- at hotmail-. - com."  Þá kemur spurningin:  "Hvað er þetta murenan?" "Það er í rauninni Múrenan ... það er sko ránfiskur!  Annars er þetta tekið úr Sval og Val ... Múrenan er dulnefni á bófa sem heitir Jón Harkan."  "Já, já svoleiðis ... "  Málið dautt ... viðkomandi hefur aldrei lesið Sval og Val!

Þetta er nú sagan á bak við murenan@hotmail.com.  Núna hefur murenan@gmail.com bæst í hópinn og murenan.blog.is, þannig að Múrenan er hvergi hætt!!

Að lokum get ég ekki stillt mig um að taka klausu upp úr 17. hefti Svals og Vals "Svamlað í söltum sjó" eftir snillinginn Franquin í þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar, þar sem Jón Harkan "Múrenan" kynnir sig fyrir Sval (kynningin á sér stað á 200 metra dýpi í flakinu af Sædrottingunni):

"Veistu hvað Múrena er? Það er stór fiskur með hvassar tennur ... hún heldur sig í klettasprungum og ræðst sjaldan á kafara ... en komi einhver hálfviti sem rekur lúkuna inn til Múrenunnar ... þá ræðst hún á hann ... og drepur hann jafnvel.  Ég er Múrenan ... og þú varst svo vitlaus að raska ró Múrenunnar ... " (bls 49 - 50).  Svo mörg voru þau orð ...

Ég ætla aðeins að sjá til hvort ég geri þessi orð Jóns Harkans að mínum! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband