Sjálfbær líkamsrækt

Á undanförnum áratugum hefur mannskepnan gengið vasklega fram í nýtingu auðlinda náttúrunnar, svo vasklega að ef ekki verður hrein og klár hugarfarsbreyting á næstu árum og áratugum, er hætt við að dómsdagur renni upp fyrr en ráð hafi verið fyrir gert.  Eitt af því sem gert hefur verið til að bregðast við þessari ógn er mótun fyrirbæris sem kallað hefur verið Sjálfbær þróun og er ein skilgreining á þá leið að sjálfbær þróun sé "þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar, án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum".  Þannig snýst sjálfbær þróun um að snerta aldrei á "höfuðstólnum" heldur aðeins nýta vextina - ekki ganga svo hvatlega fram að skaði hljótist af.

Þetta snýst því um nokkurs konar hringrás - að það sé gert ráð fyrir því sólin muni aftur koma upp í austri á morgun, eins og hún gerði í dag.

Í þessu samhengi langar mig til að varpa fram hugmyndum um sjálfbæra líkamsrækt, sem fjalla einmitt um hringrásarferli - þó ekki föst og niðurnjörvuð ferli heldur hringrás sem fikrar sig á sínum hraða í tiltekna átt.

Flestir þeir sem gefast upp á líkamsrækt gera það af einni ástæðu.  Líkamsræktin er erfið og þar af leiðandi leiðinleg.  Þá hefur verið brugðið á það ráð að skapa "fjör"; láta fólk æfa með tónlist í eyrunum, með sjónvörp fyrir framan sig eða fundin eru upp ný æfingakerfi - allt í þeim tilgangi að slá á leiðann.  En leiðinn er lífseigur og kemur í mörgum tilfellum aftur.  Til að bregðast við þessu vandamáli er eitt svar - sjálfbær líkamsrækt! 

Sjálfbær líkamsrækt tekur mið af því að það er dagur á morgun - líkamsrækt sem hreinsar upp vextina en lætur höfuðstólinn vera.  Sá sem hana stundar, finnur vel fyrir hreyfingunni en allt sem hann gerir er í sátt við eigin líkama, viðkomandi er tilbúinn að bæta í ef hann telur sig tilbúinn í slíkt en hann er líka tilbúinn að draga úr ef aðstæður eru með þeim hætti -  í hvert sinn stundar hann líkamsrækt sem er samræmi við innistæðu.  Maður sem hefur ekki hlaupið í 7 ár, stekkur til einn daginn og ákveður að hann ætli að hlaupa 4 km á dag, 5 sinnum í viku - í flestum myndi hann líklega ekki endast út vikuna vegna þess að það er einfaldlega ekki innistæða fyrir prógrammi sem þessu og ákvörðun mannsins því í hróplegri andstöðu við sjálfbæra líkamsrækt.  Miklu nær væri fyrir hann að hugsa, hversu mikið álag hann teldi sig ráða við ef hann vildi hreyfa sig 5 sinnum í viku -ganga 2 km?? 3 km??

Fyrir ákvörðun mannsins væri fullkomin andstæða sjálfbærrar líkamsræktar, þar sem "hörkupúli" er gert hátt undir höfði, þar er "tekið er á því" eins og líkaminn leyfir, stunduð alltof löng og hröð hlaup, lyftingar með miklar þyngdir, "no pain, no gain" hugarfar sem miðar alltaf að því að vera betri í dag en í gær og enn betri á morgun - hugarfar um að líkamsrækt sé beint lína þar sem morgundagurinn er enginn.  Allir að fá svo rosalega mikið út úr öllum æfingum, allir eru að fara að setja heimsmet í öllu.  Staðreyndirnar tala sínu máli - fjöldi fólks gefst upp og verður hreyfingaleysinu að bráð.

Með sjálfbæra líkamsrækt að leiðarljósi eykst líkamsvitund, því ef líkaminn er alltaf "spurður" hvað hann þoli í það og það skiptið, þá er slík vitundaraukning óhjákvæmileg.  Hið merkilega er að ef líkaminn er spurður hvað hann vill, er hann fljótur til svars en hann þarf líka að fá að starfa í friði og á sínum forsendum.  Endalaus valdníðsla skilar engu nema kvillum á borð við þráláta beinhimnubólgu, verki í hnjám, mjöðmum, höfði, hálsi, öxlum og baki, pirring í fótum, stífleika, tognunum og jafnvel beinbrotum, auk andlegrar vanlíðunar.  Ef líkaminn er settur í öndvegi og látið af níðingsskapnum, þá er vel inn í myndinni að beinhimnubólga hverfi á tiltölulega stuttum tíma.  Sjálfur þekki ég dæmi þess.  Tillaga að slíkri vinnu gæti verið hæg og ekki of löng ganga þar sem viðkomandi einbeitir sér að því að losa um stífleika til dæmis þar sem verkirnir eru hvað sárastir og teygja svo vel bæði fyrir og eftir gönguna.  Hafa í huga að gönguna og teygjurnar þarf að endurtaka aftur á morgun.

Pottþétt aðferð til að viðhalda verkjunum væri hins vegar áðurnefnt "no pain, no gain" hugarfar, að maka á sig hitakremi og hlaupa áfram eins og ekkert hafi ískorist, með samanbitna kjálkana og tónlist í eyrunum.

Ef þú lesandi góður þekkir einhvern, sem vill komast af stað að hreyfa sig en af einhverjum ástæðum getur það ekki, sendu honum þá þessar línur og vittu hvort þær gefa honum einhverja "inspírasjón".  Frekari fyrirspurnir eða gagnrýni á þessar pælingar eru mjög vel þegnar, hvort sem sent er á murenan@gmail.com eða í athugasemdaboxið á þessu bloggi.

Nóg í bili ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðir hlutir gerast hægt!  Það á sérstaklega vel við um líkamsrækt!  Já og svo finnst mér líka að þetta einfaldara er oft vænlegra til árangurs, ekki t.d. rándýrt kort í ræktinni+svaka útbúnaður og græjur!  Það sem heldur mér við efnið, sem er nota bene að gerast núna í vetur í fyrsta skipti í langan tíma, er: að hafa félagsskap, hafa fjölbreyttar æfingar, ekki alltaf að hlaupa sama hringinn, byrja rólega (ekki hlaupa þangað til manni verður flökurt) og þá kemur árangurinn manni skemmtilega á óvart :) Mæli með þessu!!

Benný (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband