Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Fimmtudagur 17. nóvember 2011 - Tvær Stokkhólmsferðir í dag

Þessi dagur hefur liðið alveg sérdeildis hratt ... 

Lauga skrapp til Stokkhólms með Þristinn til að redda honum vegabréfi. Það gekk að sögn, bara alveg bærilega ... og mun vegabréfið berast eftir viku.

Og um leið og hún kom aftur heim, fór hún aftur út með dótturina í danstíma. "Strákarnir eru alltaf að slást" er megininntakið í því hvað sé að gerast í danstímunum. GHPL er farin að taka þátt en þó með því skilyrði að Lauga sé inni í dansherberginu og standi mjög nærri henni.
"Ég veit ekki hvernig þessi sýning verður", sagði hún þegar hún kom til baka. "Kennarinn ræddi um það að kannski þyrfti ég bara að dansa með á sýningunni ... æi ég veit það ekki". 

Í kvöld skrapp ég á hljómsveitaræfingu í Stokkhólmi. Sú æfing var vægast sagt ekki upp á marga fiska og ég er að spá í að segja skilið við þessa ágætu snillinga og einbeita mér bara að hljómsveitinni sem ég að vinna með á mánudagskvöldið ... þeir eru ansi góðir ...  


Miðvikudagur 16. nóvember 2011 - Fréttastund af GHPL og PJPL

Guddan stóð sig frábærlega í leikfimitímanum í dag. Hljóp eins og fálki í stórfiskaleiknum og fór mikinn í stöðvaþjálfuninni.
Þess á milli var hún í að stríða hinum með því að taka einhver bönd sem voru á gólfinu, sem meiningin var að hoppa yfir, og draga þau út á mitt gólf. Við það fór allt "systemið" í kerfi ... og GHPL hló að öllu saman.

Hún var hinsvegar ekki jafnhress þegar við vöktum hana í morgun. "Rugl, rugl, rugl" sagði hún aftur og aftur á meðan hún barðist við að opna augun. "Æææaaaaahhhhh" endurtók hún svo í sífellu þar sem hún sat við eldhúsborðið með hönd undir kinn. 
Já þetta var erfiður morgun fyrir fröken Guðrúnu.

Annars er hún mikið í hlutverkaleik ... hér á heimilinu hafa allir sitt hlutverk og verið löngum stundum er að berjast við dreka. Þess á milli leikur móðir hennar við hana í Strumpaleik, þar sem hún og þrjár Strympur eiga við móðurina, Kjartan galdrakarl og köttinn Brand.

Og svo er það kisukjóllinn. Það fyrsta sem gert er þegar komið er heim af leikskólanum er að rífa sig úr öllum fötunum og fara í kisukjólinn ... en kisukjóllinn er bleikur náttkjóll með glöðum ketti á framhliðinni. 

---

Af bróðurnum er það að frétta að hann er afar hress og á sífelldu iði þegar hann er vakandi. Annars vekur það mesta furðu hversu tíð bleyjuskipti þarf að hafa á blessuðu barninu. En kannski er það ekki svo skrýtið þegar litið er til þess magns sem etið er ... þetta er bara einhvern veginn alveg glæný reynsla fyrir okkur Laugu, enda hemasætan hér afar létt á fóðrum og hefur alltaf verið, eins og frægt er orðið.

Þar er annað sem skilur blessuð börnin að en það ólík afstaða þeirra til þess að láta klæða sig. Þegar GHPL var á svipuðum aldri og PJPL er nú, var leikur einn að klæða hana. Fötin gjörsamlega runnu bara á hana. Jafnvel var haft á orði að hún gæti næstum klætt sig sjálf.
En nafni er algjörlega á öndverðum meiði ... og verður afar óhress þegar verið er að færa hann í föt og slæst um á hæl og hnakka og öskrar helst samtímis.

Ég hef reynt að koma honum í skilning um það, án árangurs ennþá í það minnsta, að hann sé hvorki að gera sitt líf né mitt eða móður sinnar auðveldara með þessum fjárans djöfulgangi. Ég vona að það skiljist einhvern tímann. 

Hans helsta dægradvöl að er eiga við svona tæki sem er með mörgum tökkum og spilar alls konar lög þegar stutt er á takkana. Á þessu tæki djöflast hann, lafmóður af ákafa, þangað til ég er orðinn lafmóður af leiðindum að hlusta á þetta spilerí.
Áður en ég gríp þó inn í, er hann iðulega búinn að koma sér í vandræði og óhætt að segja að kostulegt geti verið að fylgjast með honum reyna að koma sér úr vandræðunum með tilheyrandi stunum og barningi, á sama tíma og glaður leikur "spiladósarinnar" hljómar enda pat piltsins svo mikið og tilviljanakennt að hann kemst ekki hjá því að styðja endrum og eins og takka "dósarinnar", sem þá tekur til óspilltra málanna.

 


Mánudagur 14. nóvember 2011 - Andleysi á blogginu

Jæja ... þá gæti verið að eitthvað sé að rætast úr þessum hljómsveitarmálum hjá mér. Eftir um 6 mánaða leit.
Reyndar er það svo að þrjár hljómsveitir hafa sett sig í samband við mig. Ég fór á æfingu hjá einni í kvöld. Fín æfing. Bara frumsamið efni á dagskrá. Bara þrusugott efni að mínu mati. Rokk og ról að sjálfsögðu með "seventies"-yfirbragði.

Ég ætla að taka vikuna í að læra eins og fimm lög og mæta næsta mánudag og negla þetta.  Það verður gaman.

---

Í dag var boðað til foreldrafundar við okkur Laugu vegna Guðrúnar. Tilefnið er að hún er að segja svo margt á leikskólanum sem enginn þar skilur, og nú eigum við að mæta og útskýra það sem sagt er. Það verður vægast sagt fróðlegt, vænti ég.

---

Svo var einhver stórleikur sem GHPL átti í dag. En því miður er mér gjörsamlega fyrirmunað að rifja atvikið upp. Og Lauga er farin að sofa þannig að það er engin hjálp í henni. 

Ég verð bara að segja að ég er gjörsamlega andlaus til bloggskrifa eins og er ...

...

Stundum er þetta bara svona. 


Sunnudagur 13. nóvember 2011 - Fínn sunnudagur

Þetta er búið að vera ögn annasamur dagur ... jæja og þó ... varla kallast það annir að fara í heimsókn og láta stjana við sig eins og við gerðum í morgun þegar við heimsóttum Gunnar og Ingu Sif.

Góð heimsókn.

Skruppum í göngutúr í Sunnerstabacken á eftir. Þar brugðum við feðginin undir okkur betri fætinum og fórum í "fjallgöngu".

 

Við komum við á kaffihúsi á leiðinni heim ... smá kakó og með'í ...

Þá var skroppið í bað ... og lögn á eftir ...

 

Meðan ormarnir sváfu unnum við í hinum ýmsu verkefnum. T.d. uppfærði ég heimasíðuna mína og heimasíðu teiknistofunnar hennar mömmu.
Ég veit ekki alveg hvað Lauga var að gera á meðan ... sennilega að búa til túnfiskssalat ...

Og þegar allir voru farnir að sofa eða svona um það bil, lagðist ég í skriftir og skilaði af mér einni síðu til birtingar í Sumarhúsinu og garðinum. Grein um sálfræðileg áhrif vatns og fiskabúra.  Bara fín grein held ég. 


Laugardagur 12. nóvember 2011 - Smá myndasúpa

Þessi dagur hefur að mestu leyti farið í vinnu hjá mér. Skrifa, skrifa og skrifa.

Lauga, Þristurinn og Guddan skruppu niður í bæ í dag að hitta vini. Mér skilst að það hafi bara verið mjög skemmtilegt.

Ég ætla að redda mér í kvöld með smá myndasúpu ... þetta eru myndir sem teknar hafa verið á allra síðustu dögum.
Þær eru pínu óskýrar vegna þess að ekki var haft fyrir því að þurrka fingraför dótturinnar af linsunni ... ekki fyrr en síðasta myndin var tekin (enda má sjá ofurlítinn gæðamun á þeirri mynd í samanburði við hinar) ... 


GHPL rifjar upp gamla takta

 


Föstudagur 11. nóvember 2011 - Vísur og standup

Eftirfarandi vísu söng GHPL grafalvarleg í kaffinu í dag:

Afi minn og amma mín
keyra kassabíl
þau eru bæði sykur og brauð
þangað vil ég fljúga 

Það er eins og textinn hafi eitthvað skolast pínu til í höfðinu á henni, en flutningurinn var mjög glæsilegur í alla staði.

Eftir þennan kveðskap söng hún "Adam átti syni sjö" ... óhætt er að segja að textinn hafi skolast allverulega til í þeim flutningi. Svo mikið að ógerlegt er að hafa það eftir af einhverju viti. 

Á meðan GHPL þvælir út og suður með íslenska texta, reynir bróðir hennar herra PJPL að brölta við að komast upp á lappirnar með sæmilegum árangri. Hann er samt engan veginn búinn að átta sig á hversu ofurvaltur hann er, því hann eftir að hafa halað sig upp með dyggri aðstoð hinna ýmsu hluta, hikar ekki við að sleppa haldreipinu án þess að velta mikið fyrir sér afleiðingunum.

---

Að öðru leyti er allir við hestaheilsu og bara glaðir og fjörugir.

Engin stórkostlega kraftaverk áttu sér stað á þessum merkisdegi 11.11.11 en þó get ég sagt að kl. 11:11:11 lá ég í stutta stofustófanum með fartölvuna í fanginu og vann við endurbætur á grein sem ég er að leggja lokahönd á.

Alveg nauðsynlegt að hafa þetta "dokjumenterað". 

 


Miðvikudagur 9. nóvember 2011 - Ráðstefna í Gävle

Er búinn að vera á ráðstefnu í Gävle í allan dag. Bara skemmtilegt.

Í Gävle er mikið verið að stúdera sálfræðileg áhrif hljóðs og óhætt að segja að margt fróðlegt hafi komið þar fram. Persónulega fannst mér áhugaverðast að hlusta á fyrirlestur um hljóðvist í kennslustofum en rannsóknir hafa sýnt að slæm hljóðvist getur dregið verulega úr námsárangri hjá börnum.

Annars vegar vegna þess að slæm hljóðvist gerir börnum, já og fólki almennt, erfiðara með að heyra orðaskil, þar sem bergmálið þurrkar út samhljóðana og fólk heyrir bara sérhljóðana. Slíkt gefur ekki tækifæri á að skilja nokkurn hlut eins og eftirfarandi dæmi sýnir:

Þ-ð -r -rf-tt -ð sk-lj- þ-ð s-m s-gt -r -f s-mhlj-ð-rn-r -ru þ-rrk-ð-r -t.

Flestir ættu að geta lesið þessa setningu nokkuð auðveldlega en eftirfarandi setningu er alls ekki hægt að lesa og skilja.

-a- e- e--i-- a- --i--a -a- -e- -a-- e- e- -a----ó-a--i- e-- -u---a-i- ú-. 

Þannig að þetta er ein ástæðan.

Hin ástæðan sem nefnd var er að það fer svo mikil orka í að reyna að heyra orðaskil að börn, já og fólk almennt, þreytast miklu fyrr.  Í framhaldinu minnkar fókusinn, eirðarleysi verður áberandi, pirringur, o.s.frv. eykst. 
Það á sér stað sem á fagmálinu heitir "directed attentional fatigue". Og því fylgir minni geta til að stunda nám.

Jæja ekki meira um þetta.

Það var kvöldmatur í boði ráðstefnuhaldara ... og þvílíkt góður matur ... humarsúpa, dádýrasteik og kanil-eitthvað í desert.
Hrikalega gott!! 

Á morgun verður haldið áfram og mun þá síðuhaldari stíga fram á sviðið og segja frá verkum sínum. Sem er auðvitað mjög skemmtilegt!! 


Þriðjudagur 8. nóvember 2011 - Stuttar fréttir

Jæja, þá er maður mættur aftur til Svíþjóðar ... 

... helstu breytingar hérna megin Atlantshafsins eru þær að Þristurinn er farinn standa upp sjálfur. Er svolítið valtur ennþá og óstyrkur en miðað við framganginn hingað til þá verður hann nú ekki lengi að bæta úr því.

Fleira er ekki fréttum þennan daginn. 


Fimmtudagur 3. nóvember 2011 - Fyrirlestrar og fundur

Ástæða lítillar virkni á blogginu þessa dagana er Íslandsdvöl mín ... já síðuhaldari er rótfastur á landinu fagra við að flytja fyrirlestra í umhverfissálfræði.

 

Var með fyrirlestur í Verkfræðideild HÍ síðdegis í dag ... mér fannst það ganga bara mjög vel nema það að ég ofáætlaði aðeins lengdina á fyrirlestrinum. Og varð því að skauta yfir lokakaflann sem er alltaf leiðinlegt en ...

Skrapp á fund hjá Torfusamtökunum í kvöld. Þar var verið að fjalla um framtíðaruppbyggingu við Höfnina í Reykjavík. Verð að segja að mér finnst þær hugmyndir sem "presenteraðar" voru, voru ekkert sérlega góðar. Þetta er þó ennþá á vinnslustigi en í grunninn finnst mér menn vera á rangri leið, þar sem sálfræðileg sjónarmið eru alls ekkert tekin inn í myndina ... sem er í sjálfu sér ekkert nýtt.

Þeir sem koma að þessum málum er grjótfastir í einhverri hugmyndafræði sem er einfaldlega of þröng. Sem dæmi ganga menn útfrá því að fleira fólk á sama stað þýði í öllum tilfellum blómstrandi mannlíf ... það á sér ekki stoð í raunveruleikanum.
Það er líka gengið út frá því að þéttari byggð þýði í öllum tilfellum meiri sjálfbærni. Hugmynd sem búið er að selja fólki, ekki síst ráðamönnum, í afskaplega langan tíma. Rannsóknir sýna hinsvegar að það er EKKI hinn ískaldi veruleiki ... heldur þess í stað sýna þær afskaplega misvísandi niðurstöður að þessu leytinu til.

Það er ljóst að það er mikið verk framundan í því að koma umhverfissálfræði á einhvern stall í umræðunni. 

Á morgun er svo fyrirlestur og málstofa á Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Það verður örugglega gaman. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband